143. löggjafarþing — 91. fundur
 7. apríl 2014.
ofnotkun og förgun umbúða.

[15:27]
Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir tæpum þremur vikum síðan var stofnuð síða á samskiptamiðlinum Facebook sem ber heitið Bylting gegn umbúðum. Á tæpum þremur vikum eru meðlimir hennar orðnir yfir 8.400 talsins og fer fjölgandi. Íbúum blöskrar orðið þessar gríðarlegu plastumbúðir um allar þær nauðsynjavörur sem fást í verslunum landsins. Lífrænu íslensku grænmeti er margpakkað í plast, tveimur stykkjum í einu, kjötvara fæst ekki lengur nema í frauðplastspökkum umvafin plasti og núna eru það páskaeggin, en þeim er auðvitað pakkað í pappa og plast og allt sælgæti inni í þeim er sett í litla plastpoka, jafnvel málshættirnir líka.

Talið er að það umbúðaplast sem er í umferð á höfuðborgarsvæðinu sé um 7 þúsund tonn, sem er gríðarlegt magn í rúmmáli sé litið til þess hversu létt plast er, en plast er í raun bara 80% loft. Á Íslandi er því miður ekki enn þá til raunhæf leið til að endurvinna staðbundið allt þetta plast og ekki má gleyma að plastið er ekki heldur bara plast. Til voru um átta tegundir af plasti í almennri umferð síðast þegar ég vissi.

Ég vil því beina fyrirspurn minni til hæstv. umhverfisráðherra hvort hann hafi ekki sömu áhyggjur og ég og a.m.k. 8.500 íbúar þessa lands af þessari þróun, þessu umbúðabrjálæði, eins og ég vil kalla það. Hvernig hyggst hæstv. umhverfisráðherra sporna gegn þessari þróun? Er hann sammála mér um að lög og reglur, t.d. um Úrvinnslusjóð þjóni ekki tilgangi sínum, a.m.k. ekki hvað varðar endurvinnslu plasts?

Einnig vil ég spyrja ráðherra spurningar um svokallaða mengunarbótareglu þar sem kveðið er á um að sá sem mengar borgi. Í þessu tilfelli þar sem um er að ræða flestar nauðsynjavörur þá er það almenningur sem ber kostnaðinn með sorphirðugjöldunum sínum og förgun. Er þá ekki tímabært að snúa dæminu við og láta framleiðendur, dreifingaraðila og söluaðila bera þann kostnað?



[15:29]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög áhugaverða fyrirspurn og tek undir orð hennar að fullu að það er mjög alvarlegt hvernig þróunin hefur orðið í neyslusamfélagi okkar, ekki bara hér á landi heldur alls staðar um hinn vestræna heim hið minnsta og jafnvel víðar, að menn kappkosta að pakka öllum mögulegum vörum í sífellt smærri einingar og margfaldar umbúðir sem menn bera síðan með sér heim. Og hvað er gert við þær þar? Jú, þær enda í ruslinu. Og hver á að borga það? Það er þá oftast á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags samkvæmt þeim lögum og reglum sem við höfum sett að koma ruslinu einhvern veginn fyrir. Sú leið sem sveitarfélögin hafa er að setja gjald á viðkomandi ruslasöfnun og losun, förgun, til þess að standa undir þessari sívaxandi kröfu og umfangi, skulum við segja.

Þetta endar auðvitað alltaf hjá neytandanum og þess vegna er það í sjálfu sér jákvætt framtak hjá einstaklingum sem segja: Hingað og ekki lengra, ég ætla að hætta að bera ruslið með mér heim. Ég held að það væri kannski besta leiðin til þess að fá framleiðendur og seljendur til þess að reyna að fara með þessar vörur á skynsamlegri hátt en að pakka þeim sífellt inn.

Við getum því miður allt of sjaldan keypt vörurnar beint frá býli þar sem við getum fengið vörurnar beint án þess að þær séu í margföldum umbúðum. Það má nefna t.d. að á Suðurlandi öllu er aðeins ein verslun með kjötborð, annars þarf maður að kaupa allt sitt kjöt í einhverjum umbúðum sem búið er að flytja langar leiðir. Plast er stórkostleg umhverfisvá. Í sunnanverðu Kyrrahafi er risastór plasteyja, ég man ekki hversu stór hún er, hún er alveg ævintýralega stór, sem flýtur þar um og safnar að sér plasti, þannig að þetta er sannarlega verkefni sem (Forseti hringir.) þarft er að skoða.

Ég get ekki svarað öllum spurningum (Forseti hringir.) hv. þingmanns að þessu sinni, ég skal reyna að gera það í seinna andsvari mínu.



[15:31]
Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Já, það er mjög jákvætt að heyra að hæstv. umhverfisráðherra hafi sömu áhyggjur og ég og hann finnur greinilega fyrir þessum auknu umbúðum í eigin heimilisrekstri, eins og ég held að allir hér inni geri. Hæstv. ráðherra talaði um svokallaðar plasteyjur, en þær eru einnig farnar að myndast í Atlantshafi og Indlandshafi, sem hlýtur náttúrlega að vekja okkur Íslendinga til umhugsunar þar sem við erum jú á eyju í Atlantshafi og stólum á sjávarútveginn síðast en ekki síst. Það getur því haft mjög „drastískar“ afleiðingar fyrir okkur sem fiskvinnsluþjóð.

Einnig vil ég fá að koma því að að ég hef miklar áhyggjur af því að þessar miklu umbúðir hljóta að skila sér út í verðlag vörunnar og almenningur borgar það með sorphirðugjöldum sínum. Ég vil einnig fá að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að tími sé kominn til að endurreisa græna fjárfestingarsjóðinn sem var hér til umræðu á síðasta kjörtímabili, en markmið hans var að efla nýsköpun á Íslandi í endurvinnslu á plasti.



[15:32]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að reyna að efla nýsköpun á því sviði að endurvinna, endurnýta allt sorp, þar með talið plast. Þarna gildir oft: því meira magn því betra og hagkvæmara. Í mörgum tilvikum er mikið af því rusli sem endurnýja þarf flutt til útlanda, hversu skynsamlegt sem það er nú með tilliti til loftslagsbreytinga og mengunar sem fylgir því að sigla með rusl langar leiðir. En ég held að það væri mjög áhugavert.

Varðandi þau lög og þær reglur og það sem við höfum í dag er ég sammála hv. fyrirspyrjanda um að fara þurfi yfir það. Fyrir þinginu liggur frumvarp um úrgangsmál sem er á margan hátt talsverð breyting frá því sem nú er. Þar eru mörg sjónarmið uppi og það væri mjög gott ef sú umræða sem á sér stað núna í umhverfis- og samgöngunefnd kláraðist sem fyrst og við gætum farið með málið í þingsal og tekið umræðu um það hér. Það eru margar áhugaverðar hugmyndir sem komið hafa fram í umsögnum sem snúa m.a. að sveitarfélögunum og sorpsöfnun og losun, hvort hægt sé að setja með skýrari hætti markmið um það hvernig standa skuli að þessu þannig að sveitarfélögin hafi aðeins frjálsari hendur í þessum málum frekar en að við séum með mjög nákvæma forskrift frá hendi ríkisins um hvernig við eigum að standa að söfnun á þessari tegund af rusli eða annarri og þá einnig förgun.

Ég held að þá muni kvikna nýjar hugmyndir um hvernig hægt sé að gera þetta á skynsamlegan hátt og væntanlega líka að efla nýsköpun og nýhugsun aðila sem sjá tækifæri í að endurnýta sorp á skynsamlegan hátt með ódýrari leiðum en að safna því saman og láta það safnast upp í umhverfinu, sem er bara (Forseti hringir.) ekki ásættanlegt árið 2014.