143. löggjafarþing — 92. fundur
 8. apríl 2014.
sérstök umræða.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:06]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka hratt og vel undir þá bón mína að ræða í þingsal nýútkomna skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það skiptir miklu að við ræðum ítarlega þær bestu fáanlegu upplýsingar sem hægt er að fá um það mikilvæga hagsmunamál.

Það var ámælisvert af hálfu ríkisstjórnarinnar að hrökkva til fyrr í vetur með tillögu um að draga til baka aðildarumsókn án þess að gefist hefði færi á því að skoða allar upplýsingar sem háskólastofnanir höfðu fram að færa í því efni. Það er mikilvægt að við nýtum nú öll tækifæri til þess að leggja traustan grunn undir vitræna og upplýsta umræðu um Evrópumál á næstu missirum.

Virðulegi forseti. Í þessari nýútkomnu skýrslu er að finna ítarlega greiningu á stöðunni um mikilsverðustu þætti aðildarviðræðnanna. Hún sýnir vönduð vinnubrögð og fer yfir þá þætti sem okkur skipta mestu og okkur skorti ítarlegri umfjöllun um eftir þá skýrslu sem fyrir liggur frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Að því er varðar EES-samninginn rekur skýrslan innleiðingarhallann sem við er að glíma, sem er auðvitað að stórum hluta til vegna stjórnskipulegra vandkvæða okkar á því að standa við EES-samninginn. Á þeim vandkvæðum hefur ríkisstjórnin enga lausn fundið en hefur í nýrri Evrópustefnu lofað að hraða innleiðingu og hlýða Brussel hraðar og betur en nokkur önnur ríkisstjórn frá því að EES-samningurinn var gerður.

Í sjávarútvegsmálum er lögð fram ítarleg lögfræðileg greining á forsendum fyrir því að Ísland eigi að geta haldið forræði á úthlutun fiskveiðiheimilda í íslenskri lögsögu innan ramma hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu. Í landbúnaðarmálum er hægt að sjá að hægt er að finna lausn í þágu íslenskra hagsmuna og að aðild að Evrópusambandinu feli í reynd í sér besta tækifærið til að breyta þeirri kostnaðarsömu tollvernd sem við búum við nú á Íslandi í beinan stuðning við framleiðendur, samhliða því sem við fáum aðgang að öðrum mörkuðum þannig að við getum gert hvort tveggja í senn, tryggt afkomu bænda og opnað íslenskri landbúnaðarframleiðslu nýja markaði.

Þetta er nákvæmlega það sem hæstv. fjármálaráðherra sagðist vilja gera í breytingum á tollvernd vegna landbúnaðarvara í umræðu í þinginu fyrir nokkrum dögum og alveg ljóst að í aðild að Evrópusambandinu hvað þetta varðar felast mestu tækifærin fyrir íslenskan landbúnað.

Stóru tíðindin eru svo í umfjöllun um peningamálin. Það er skýrt greint frá því í skýrslunni hvernig aðild að Evrópusambandinu og fyrirheit um upptöku evru muni greiða fyrir afnámi hafta og útfært í nokkrum smáatriðum hvernig hægt sé að nýta þá aðstöðu að þjóðin sé á leiðinni í Evrópusambandið, upptaka evru sé innan fyrirsjáanlegrar framtíðar til að losna við snjóhengju og koma gjaldeyrisviðskiptum við önnur lönd í eðlilegt horf.

Það hefur ekki áður verið gert á jafn skýran hátt.

Það er líka skýrt tekið fram hvernig hægt er að draga úr áhættu þjóðarinnar á fjármálaáföllum og fjármagnsflutningum í framtíðinni. Það kemur líka fram að aðild að evru er ekki fjarlægur möguleiki eftir mjög langan tíma. Þvert á móti má búast við að ef við settum okkur það markmið gætum við tekið upp evru mjög fljótt eftir aðild að Evrópusambandinu.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær og ég vil taka undir með hæstv. ráðherra: Það er ekkert svart og hvítt í þessum heimi. Það er ekki þannig að öll mál séu leyst með því að taka upp krónuna eða öll mál verði leyst með því að taka upp evru eða einhvern annan gjaldmiðil. Það verður að vera hægt að taka þessa umræðu af einhverri yfirvegun. Ég er sammála hæstv. ráðherra. Það er mjög mikilvægt en þá verðum við líka að geta rætt um þá stefnu sem við erum að taka. Vandinn sem við er að glíma í dag er að ríkisstjórnin hefur ekki markað trúverðugan valkost í peningamálastefnu þó að af hálfu fjármálaráðherrans hafi verið slegnir tónar um aukinn aga í ríkisrekstri.

Um helgina sagði hæstv. ráðherra: Valkostirnir eru aðeins tveir, sagði hann á flokksfundi, annaðhvort að taka kreppu út í gegnum gjaldmiðilinn eða í gegnum vinnumarkaðinn. Þetta skulum við hafa í huga.

Sú kenning er alveg rétt svo langt sem hún nær, að það muni kosta meira atvinnuleysi að vera með fast gengi, en það er líka vel rakið í þessari skýrslu hver herkostnaður samfélagsins er af því að leysa vandamál með gengisfellingum og hversu takmarkaða möguleika við höfum raunverulega til að gera það þegar á hólminn er komið.

Samkvæmt skýrslu Seðlabankans um valkosti í peningamálum fyrir tveimur árum kom fram sú greining að krónan væri í eðli sínu ekki sveiflujafnandi, hún væri sveifluvekjandi. Fjármagnsflæðið inn og út úr landinu hefði áhrif á gengi krónunnar og öll höft sem við höfum komið á áratugum saman hafa verið viðbragð við krónunni, viðbragð við sveiflum í gengi hennar. Uppspretta erfiðleika í íslensku efnahagslífi undanfarna áratugi hefur ekki verið, í flestum tilvikum, af ytri áföllum heldur vegna veikrar hagstjórnar þar sem krónan hefur gefið stjórnmálamönnum færi á að lækka laun almennings til að losa sjálfa sig út úr mistökum eftir á.

Ef við hefðum ekki sett á höft í hruninu 2008 hefði krónan fallið enn meira, vextir hefðu þá þurft að hækka enn meira, enn meiri skuldavandi heimila hefði blasað við og enn meira atvinnuleysi og enn hraðari niðurskurður ríkisútgjalda. Það er því ekki þannig að krónan hafi bjargað okkur 2008, það voru gjaldeyrishöftin sem stöðvuðu hið hrikalega hrun krónunnar og gerðu okkur mögulegt að ná tökum á ástandinu.

Nú hefur ríkisstjórnin hins vegar enga skýra leið út úr þeim sömu gjaldeyrishöftum. Í skýrslunni er rakið mikilvægi gjaldgengs gjaldmiðils fyrir fólk og fyrirtæki, gengisbreytingar og háir vextir skapi vandræði og það sé gríðarlegur ávinningur af fastgengi og það eru dregin fram söguleg dæmi um það hvernig okkur hefur best gengið að hafa stjórn á okkar málum þegar okkur hefur tekist að taka ákvörðun um það sjálf að halda gengi stöðugu.

Fólk og fyrirtæki á Íslandi sætta sig ekki lengur við afleiðingar þeirrar stefnu að fella gengið til að takast á við efnahagslega erfiðleika. Við sjáum það í því óþoli sem einkennir núna viðbrögð fólks við skuldavandanum. Það er þess vegna nokkuð sérstakt að sjá hæstv. fjármálaráðherra bera lof á krónuna í sömu andrá og hann leggur hér fram frumvarp um fordæmalausa fjármagnstilflutninga milli þjóðfélagshópa til að takast á við hrun þeirrar sömu krónu.

Á sama tíma er svo fjármálaráðherra að leggja fram frumvarp um opinber fjármál og setja á okkur meiri skyldur og strangari en fylgja Maastricht-skilyrðunum. Þar af leiðandi er sérkennilegt að hann markar stefnu um verðstöðugleika en hann vill ekki byggja okkur umgjörðina sem gerir okkur auðveldara að halda í þann verðstöðugleika, þann stöðugleika í gengi sem mun geta skipt miklu máli fyrir afkomu íslenskrar þjóðar.

Virðulegi forseti. Það góða við að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra er að hann hefur verið með ólíka afstöðu til þessara mála á undanförnum árum og því er hægt að vitna í önnur ummæli hans sem ég er meira sammála.

2008 sagði hæstv. ráðherra í blaðagrein:

„Með upptöku nýs gjaldmiðils verða ekki öll hagstjórnarvandamál okkar leyst, langur vegur er þar í frá. Það er sanni nær að í slíkri ákvörðun felist að setja stöðugleikann í forgang og sætta sig við að geta ekki mætt sveiflum í hagkerfinu með aðlögun gengisins.“

Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi í desember 2008 algjörlega hitt naglann á höfuðið. Ég held að atvinnulífið í landinu sé sammála þessari greiningu og ég held að fólkið í landinu sé sammála þessari greiningu og nákvæmlega þess vegna sjáum við óþolið gagnvart skuldavandanum og öllum hinum neikvæðu afleiðingum hinnar íslensku krónu á undanförnum árum.

Samkvæmt skýrslu Seðlabankans fyrir tveimur árum sem ég vitnaði til áðan eru tveir kostir Íslendingum færir í gjaldmiðilsmálum. Það er upptaka evru í gegnum aðild að Evrópusambandinu eða áframhaldandi rekstur íslenskrar krónu. Ríkisstjórnin hefur hlaupið til með eindreginn ásetning til að loka annarri leiðinni án þess að ráða við að útfæra hina.

Ríkisstjórnin hefur ekki útfært með trúverðugum hætti umgjörð utan um íslenska krónu sem getur leyft okkur að afnema höft. Það liggur fyrir að Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið telur þurfa alls konar langtímahöft í landinu til að við getum lifað áfram við íslenska krónu og þau höft eru ekki samrýmanleg EES-samningnum óbreyttum. Og þetta gerist þótt landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi, sá síðasti, samþykkt ályktun um að krónan væri ekki framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum í ljósi þessarar skýrslu að hefja alvöruumræðu um framtíðarstefnu okkar í Evrópumálum. Hún hlýtur að vera tilefni til að ríkisstjórnin endurmeti afstöðu sína til áframhalds aðildarviðræðna, falli frá áformum um að draga aðildarumsókn (Forseti hringir.) til baka og taki þátt í vinnu við að efna það fyrirheit sem hún sjálf gaf og hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega, að þjóðin fái að greiða atkvæði um hvort haldið verði áfram með aðildarumsóknina á þessu kjörtímabili.



[14:17]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel það hafa verið vel til fundið að kalla til sérstakrar umræðu í þinginu þegar þessi skýrsla Alþjóðamálastofnunar kom fram og fagna því að geta fengið tækifæri til að ræða stuttlega um meginniðurstöður skýrslunnar. Hér leggur málshefjandi upp með megináherslu á ábatann af fastgengisfyrirkomulagi og upptöku evrunnar eftir inngöngu í Evrópusambandið.

Um það vil ég fyrst segja að ákvörðunin um að ganga inn í Evrópusambandið er miklu stærri en sú að gera breytingar í peningamálum. Það er mjög stór pólitísk ákvörðun, hún snertir fjölmörg svið mannlífsins á Íslandi og hún verður ekki tekin án þess að höfð sé hliðsjón af þeirri þróun sem á sér stað í Evrópusambandinu í dag, hvað við þyrftum að gefa eftir af ákvörðunum sem við tökum á okkar eigin forsendum í dag og fara að deila ákvarðanatöku um stór og mikilvæg mál og hver væri niðurstaðan fyrir sjálfstjórn okkar um okkar eigin málefni.

Allir þekkja umræðuna um sjávarútveginn. Í sjálfu sér er ekki hægt að færa fyrir því nokkur einustu gild rök að það sé einhver ávinningur í því fyrir okkur Íslendinga að taka upp sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, að við deilum ákvarðanatöku um mál sem við í sjálfu sér ráðum að fullu leyti í dag með þeim sem eiga enga aðild að fiskveiðilögsögunni. Þetta er augljóst.

Hv. þingmaður nefnir landbúnaðarmálin. Í sjálfu sér gætum við gert grundvallarbreytingar í landbúnaðarmálum. Þótt hv. þingmaður nefni þetta sem stórt tækifæri til að gera breytingar þar byrjar það á því að við séum sammála um að vilja gera breytingarnar og svo veltum við fyrir okkur hvort við getum ekki gert þær breytingar sjálf. Við þurfum ekki að ganga í Evrópusambandið til að gera breytingu á landbúnaðarstefnunni.

Ég gæti haldið áfram að tala um önnur svið eins og til dæmis það sem blasir við öllum í dag og kannski hefur komist nýr skriður á eftir að evrukrísan gerði vart við sig, að Evrópusambandið er smám saman að verða meira og meira sambandsríki. Þannig sagði til dæmis Mario Draghi, forseti Evrópubankans, í síðustu viku að hans stærsti ótti í augnablikinu væri sá að Evrópusambandið væri að festast í stöðnunartímabili þar sem verðbólga er lág og það er enginn vöxtur. Þeir eru búnir að lækka vextina og svæðið tekur ekki við sér. Sá frægi fjárfestir Soros sagði fyrir nokkrum dögum að það væri raunveruleg hætta á því að Evrópusvæðið, Evrópusambandið og evrusvæðið, væri að sigla inn í krísu sem hefði mörg einkenni þess sem hefur gerst í Japan undanfarna áratugi þar sem örvunaraðgerðir duga ekki til til þess að kveikja líf í hagkerfinu. Mörg Evrópusambandsríki eru nú þegar farin að finna hressilega fyrir því, eins og til dæmis Svíar sem hafa séð töluverða styrkingu á sínum gjaldmiðli en á enga eftirspurn frá sínum mikilvægustu markaðssvæðum í Evrópusambandinu. Þess vegna hlýtur það að vera hluti af þeirri umræðu sem við erum að taka hér hvort heppilegt sé eins og sakir standa að tengjast svæði sem í augnablikinu er í algjörri stöðnun og raunverulega hætta á því að sé einfaldlega að sigla inn í verðhjöðnun, að það geti orðið neikvæð verðbólga á þessum stöðum.

Það er raunveruleg hætta sem meira að segja forseti Seðlabanka Evrópu er að tala um og færði í orð fyrir örfáum dögum. Hvaða afleiðingar mundi það hafa fyrir okkur? Við yrðum af tækifærum til vaxtar, það er óumdeilanlegt. Við mundum þurfa að laga okkur að því sem væri að gerast á myntsvæðinu. Veltum því fyrir okkur hvort það sé þessi virði að fá stöðugleikann ef stöðugleikinn verður svo mikill að það sem við fáum á endanum er hreinlega stöðnun? Það er enginn að sækjast eftir því.

Í augnablikinu erum við með ágætishagvöxt á Íslandi, við erum með lága verðbólgu, við erum með minna atvinnuleysi en er í dag í hverju einasta landi Evrópusambandsins og það er ágætlega bjart fram undan. Við höfum að sjálfsögðu okkar vandamál við að glíma eins og þau sem tengjast gjaldeyrishöftunum og við þurfum að halda áfram að lækka skuldir ríkissjóðs, en það sama verður sagt um meira eða minna öll ríki Evrópusambandsins. Það eru alltaf einhver viðfangsefni uppi á borðum.

Aðalatriðið er að ákvörðun um að ganga í jafn stórt pólitískt samstarf og fylgir fullri aðild að Evrópusambandinu er ekki ákvörðun sem menn geta tekið á grundvelli myntarinnar einnar og sér.

Jafnvel þótt við værum eingöngu að velta því fyrir okkur að taka upp hina sameiginlegu mynt mundum við þurfa að gæta okkar alveg sérstaklega vegna krísunnar sem á sér stað þar í dag, vegna þess að það hefur ekki tryggt þann nauðsynlega evrópska samruna sem þarf að eiga sér stað til þess að reka sameiginlega mynt, það á einfaldlega enn eftir að gera það. Það hefur aldrei neitt myntsamstarf í veraldarsögunni gengið upp án þess að síðan fylgdi pólitískur samruni. Og það er það sem á eftir að klára í Evrópusambandinu. Viljum við Íslendingar ganga svo langt, viljum við færa ákvörðunarvaldið um fleiri og fleiri málefni á fleiri og fleiri sviðum til Brussel?

Þetta eru spurningar sem menn verða að spyrja sig þegar þeir velta fyrir sér möguleikunum á því að ganga inn í Evrópusambandið. Það er óeðlilegt og beinlínis rangt í sjálfu sér að stilla þessu þannig upp að ákvörðunin um að ganga í Evrópusambandið snúist einungis um myntina. En jafnvel þótt spurningin snerist meira eða minna bara um myntina er á sama tíma full ástæða til að passa sig alveg sérstaklega.

Komið var inn á það sem gerðist 2008 þegar hér urðu miklir efnahagserfiðleikar. Ég hef rakið hvernig atvinnuleysið á Íslandi er lægra en gildir í öllum Evrópusambandsríkjum. Sérstaklega er slæmt að sjá hversu hátt atvinnuleysið er hjá ungu fólki í Evrópusambandinu eins og allir þekkja, á Spáni, í Grikklandi og víðar, upp undir 50%. Hvernig hefði þetta allt litið út ef við hefðum ætlað okkur að leggja áherslu á að festa gengið? Það hefði í sjálfu sér verið hægt, við hefðum svo sem getað tekið upp fastgengisstefnu hérna í hruninu og sagt: Ja, við ætlum ekki að leyfa krónunni að gefa eftir. Við ætlum að skuldsetja ríkissjóð til að halda krónunni stöðugri.

Það hefði kallað á mörg þúsund uppsagnir í opinbera geiranum til viðbótar við þau 20 þúsund störf sem töpuðust í einkageiranum. Þess vegna þurftu Lettar til dæmis að slá mjög verulega niður laun í opinbera geiranum á sama tíma og atvinnuleysið fór yfir og í kringum 25%. Það fór upp í 25% úr því að vera innan við 5% á skömmum tíma. Það er það sem ég á við þegar ég tala um að menn verði að velja á milli þess að taka kreppur út í gegnum vinnumarkaðinn eða í gegnum gengið. Menn geta ekki bæði étið kökuna og átt hana, menn verða að velja tvennt af þrennu í þessu. Ef menn vilja frjálsa fjármagnsflutninga sem ég trúi að við viljum öll hér á Íslandi, jafnvel þótt þeim fylgdu einhverjar hömlur, það er ekkert óeðlilegt við það. Þó að einhverjar hömlur fylgi frjálsum fjármagnsflutningum hafa menn aðeins um tvennt að velja, fast gengi eða peningalegt sjálfstæði.

Ég tel að jafnvel þótt margir ókostir fylgi íslensku krónunni séu kostirnir óumdeilanlega töluvert miklir. Í nýlegri skýrslu Seðlabankans sem tók út peningamálin og velti upp valkostum í gjaldmiðilsmálum til framtíðar er sérstakur kafli tileinkaður spurningunni um það hvers vegna okkur hefur gengið illa að halda verðstöðugleika í landinu. Það eru taldar upp fjölmargar ástæður. Við erum nú þegar farin að takast á við sumar þeirra. Það hefur vantað meira samspil á milli ríkisfjármála og þess sem er að gerast í framkvæmd peningastefnunnar. Það hefur ekki verið nægilegt samspil á milli ríkisgeirans og sveitarfélaga í landinu þegar kemur að því að draga úr eða auka umsvif. Menn hafa ofmetið ýmsa þætti í hagkerfinu frá einum tíma til annars, aðlögunarhæfni hagkerfisins o.s.frv. Þetta er allt rakið ágætlega en það var ekki sérstakur liður sem sagði: Þetta er allt íslensku krónunni að kenna þegar upp er staðið.

Við vitum að við erum sek um ýmis hagstjórnarmistök í fortíðinni sem hafa kallað á verðbólgu og óstöðugleika í landinu. Það á bæði við um vinnumarkaðinn og opinbera geirann. Umræðan ætti að mínu áliti að snúast mun meira um þá þætti, snúast um það sem við erum að leggja til í nýju frumvarpi um opinber fjármála og síðan heilt yfir með þessa skýrslu sem er komin þá — nú er tími minn búinn og ég vil einfaldlega segja að mér finnst ekki margt nýtt í skýrslunni. (Forseti hringir.) Mér finnst dregnar ályktanir oft af dálítið takmörkuðum upplýsingum og fátt kemur á óvart.



[14:27]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir viðbrögð hans og svör í ágætri umræðu. Ég tel jákvætt að fá fram skýrslu Alþjóðamálastofnunar inn í þá umræðu sem nú stendur yfir þó að segja megi að ég sakni sömu þátta í þeirri skýrslu og ég sakna í skýrslu Hagfræðistofnunar. Kannski má leita skýringa í því sem fram kemur í upphafi þessarar skýrslu, að að hluta til hafi verið byggt ofan á skýrslu Hagfræðistofnunar, þ.e. að hluta til byggja þeir ofan á því sem þar kemur fram. Hvorug skýrslan tekur í raun á samfélagsþróun innan Evrópusambandsins, hvorug skýrslan tekur á hinum félagslegu og pólitísku þáttum. Í hvorugri skýrslunni er fjallað um stærsta viðfangsefni samtímans út frá Íslandi og Evrópusambandinu sem eru auðvitað umhverfismálin og loftslagsmálin. Ég sakna þess enn að við fáum breiðari umræðu um Evrópusambandið. Það er hárrétt sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segir hér, að það að ákveða að gerast aðili að Evrópusambandinu er miklu stærri spurning en eingöngu efnahagsleg. Oft hafa efnahagslegu rökin verið í forgrunni, þau voru það til að mynda í kringum það þegar kreppan skall á Íslandi og hlutirnir gengu þá betur innan Evrópusambandsins. Það má segja að efnahagslegu rökin hafi líka verið í forgrunni þegar verr fór að ganga innan Evrópusambandsins og það var nýtt í umræðunni.

Þetta er mun stærri ákvörðun. Því hefur verið haldið fram af fræðimönnum að þegar þjóðir sem hafa gerst aðilar að Evrópusambandinu fá samning í hendur og fólk þarf að taka ákvörðun um hvort það segir já eða nei, þótt það hafi í raun og veru öll þessi gögn fyrir framan sig ráði fyrst og fremst hin pólitíska sjálfsmynd ákvörðuninni, hvort fólk sé reiðubúið að taka þátt í þessu samstarfi og öllu því sem því fylgir. Þó að þarna sé ágætisumfjöllun að mörgu leyti, bæði um efnahagsmál, EES-samninginn, sjávarútveg og landbúnað, hefði ég viljað sjá breiðari umfjöllun.

Það er athyglisvert að þarna kemur fram að viðræðurnar voru komnar lengra en hefur verið látið í skína í umræðum hér um málið. Mér finnst það mikilvægur þáttur. Mér finnst líka mikilvægt, það lá auðvitað fyrir í upphafi að aðildarviðræður hafa tekið lengri tíma eftir stækkun Evrópusambandsins og breyttar forsendur þar og það kom fram á sínum tíma í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar en það má greina að viðræðunum miðaði ágætlega.

Það er líka athyglisvert að lesa að grundvallarmunur er á því að gera formlegt hlé á aðildarviðræðum eða draga umsókn til baka. Tillaga hæstv. ríkisstjórnar um að draga umsóknina til baka hefur það í för með sér að þá þarf að leita á ný samþykkis allra aðildarríkja og fara í algjörlega í nýtt ferli ef áhugi verður á því að hefja aftur viðræður einhvern tímann síðar.

Þessi skýrsla mun bæta einhverju við umræðuna og skiptir máli að hún verði tekin fyrir núna í hv. utanríkismálanefnd og skoðuð í samhengi við önnur gögn, skýrslu Hagfræðistofnunar. Ég tel að þessi skýrsla dragi mjög vel fram þann mun sem er á þessum tveimur leiðum. Ég minni á tillögu okkar, hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem ég tel skynsamlega leið í núverandi stöðu, þ.e. að hinu formlega hléi verði fram haldið en haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið og leitað leiðsagnar þjóðarinnar um það hvernig haldið skuli áfram.

Mat okkar er eftir þá pólitísku umræðu sem verið hefur um þetta mál mörg undanfarin ár og áratugi að rétt sé að það verði leitt til lykta með lýðræðislegum hætti og það var mat okkar margra og rökstuðningur okkar fyrir því þegar sótt var um aðild. Það er mat okkar allra, þingmanna flokksins, að leita skuli leiðsagnar þjóðarinnar í þessu máli, hvernig við ætlum að halda á því áfram.

Það er mjög mikilvægt hins vegar í áframhaldandi pólitískri umræðu að við breikkum hana og ræðum fleiri þætti en þá sem eru til umræðu í þessum skýrslum. Mér finnst líka mikilvægt — og þó að tími minn sé liðinn — þegar við ræðum (Forseti hringir.) hin stóru efnahagslegu viðfangsefni, eins og afnám hafta sem talsverð umfjöllun er um hér, minni ég enn og aftur á að þau þarf að leysa í pólitísku samráði.



[14:32]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna en vil jafnframt segja að það er alltaf jafn erfitt að ræða þessi yfirgripsmiklu mál, Evrópumálin, í hálfgerðum skeytastíl. Þetta er gríðarlega yfirgripsmikið. En þá vil ég líka fagna skýrslunum sem hafa komið út undanfarið, tvær skýrslur Hagfræðistofnunar og Alþjóðamálastofnunar. Eins líka hvet ég til þess að menn rifji upp skýrslu Seðlabankans sem er eins og hálfs árs gömul um valkosti í gjaldmiðilsmálum.

Það eru að safnast upp upplýsingar. Fyrst vil ég segja sem viðbragð við ræðu hæstv. fjármálaráðherra: Mér finnst mjög mikilvægt að hafa það alltaf skýrt í huga að Evrópusambandið er ekki einhvers konar klúbbur sem er annaðhvort góður eða slæmur. Hann er fyrst og fremst samvinnuverkefni. Evrópusambandið er samvinnuvettvangur fullvalda ríkja (Gripið fram í.) vegna þess að heimurinn er uppfullur af vandamálum. Það eru vandamál í efnahagsmálum, það eru vandamál í loftslagsmálum, í vinnumarkaðsmálum. Evrópuríkin, að fenginni biturri reynslu, hafa ákveðið að mynda samvinnuvettvang sem meðal annars hefur fengið friðarverðlaun Nóbels vegna þess að það hefur tekist að viðhalda friði í Evrópu meðal annars í gegnum þann samvinnuvettvang.

Þetta finnst mér geysilega mikilvægt að hafa í huga. Spurningin sem blasir við okkur er ekki sú hvort við ætlum að vera þátttakendur á þeim samvinnuvettvangi eða ekki, vegna þess að við erum þegar þátttakendur á honum að tveimur þriðju eins og skýrsla Alþjóðamálastofnunar rekur ágætlega, heldur sú hvort við ætlum að vera að fullu þátttakendur eða aðeins að tveimur þriðju. Það er spurningin sem blasir við Íslendingum núna nema einhver vilji segja upp EES-samningnum sem ég hef ekki heyrt neinn halda fram að sé skynsamlegt.

Mér finnst mjög mikilvægt að setja þetta inn í samhengið. Svo er svolítið verið í þeim stuttu umræðum sem við eigum hér, eins og í sérstökum umræðum, að draga fram einstök dæmi eins og Spán varðandi atvinnuleysi. Atvinnuleysi á Spáni, að ég hygg, var líka mjög mikið á Franco-tímanum. Það er einfaldlega áratugalöng saga atvinnuleysis þar vegna þess hvernig vinnumarkaðsmálum er hagað þar. Það er orðið leiðigjarnt að heyra það dæmi alltaf nefnt um einhvers konar sérstakt atvinnuleysi út af evru.

Sumum ríkjum vegnar vel í Evrópusambandinu, öðrum vegnar ekki eins vel, en öll hafa ríkin trú á því að samvinna sé lykilatriði.

Og hvað blasir við okkur? Það var hafin samvinna í gengismálum, það var hafin samvinna við Evrópska seðlabankann sem hluti af viðræðunum við að leysa úr ógnarstórum vanda Íslendinga sem er króna í höftum. Ég sakna þess að fá það ekki útskýrt af hverju við reiðum okkur ekki á samvinnu við Evrópusambandið og áframhaldandi aðildarviðræður í því að leysa okkar ógnarstóra vanda.

Það finnst mér blasa við sem leið sem er í öllu falli mikill ábyrgðarhluti að loka á þessum tímapunkti. Það er það sem ríkisstjórnin ætlar hins vegar að gera — eða ég leiði að því líkum nema hún sé hætt við það, hætt við að hætta.

Eitt sem er líka í umræðunni, hún er farin að minna mig svolítið á ákveðna rökræðu sem ég átti í heimspekináminu. Það var rökræðan við róttæka efahyggjumanninn. Róttæki efahyggjumaðurinn gat alltaf haldið því fram að eitthvað væri ekki til, að ég væri ekki til, þetta hús væri ekki til, jörðin væri ekki til, við værum öll skynvilla. Hann gat beðið mig um að sanna að ég væri ekki skynvilla. Svona gátu hlutirnir haldið áfram og þessi rökræða gat tekið ansi langan tíma þegar maður var ungur að árum.

Ég er farinn að upplifa Evrópusambandsumræðuna svolítið þannig. Tökum dæmi með sérlausnirnar, það er alveg sama hversu margir fræðimenn tiltaka dæmi um sérlausnir sem eru fyrir hendi, það er alveg sama þótt nefnt sé að Íslendingar sjálfir hafi í aðildarviðræðunum hingað til fengið sérlausnir, við fengum sérlausnir í EES-samningnum, önnur ríki eru að fá alls konar sérlausnir eða undanþágur — það kemur alltaf þetta: Þær eru ekki til. (Forseti hringir.) Stundum var eina svarið í þessari rökræðu við róttæka einfaldlega að klípa hann í kinnina og spyrja hvort hann hafi ekki fundið fyrir þessu. Og þá er hann til.



[14:36]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður Íslands við ESB. Mig langaði að vekja athygli á kafla skýrslunnar sem fjallar um efnahagsmál, afnám hafta og aðild að myntbandalagi en eftir að hafa lesið hann hratt yfir finnst mér hann skauta fulllétt yfir þau gríðarlegu vandamál sem myntbandalagið sjálft glímir við. Það er ekki varið miklum tíma í að tala um hið gríðarlega atvinnuleysi sem er á myntbandalagssvæðum, það er 12% almennt, um þrisvar sinnum hærra en hér, og atvinnuleysi meðal yngra fólks, þá er verið að tala um 35 ára og yngra, er talið í tugum prósenta. Tugir milljóna eru atvinnulausir í myntbandalaginu. Það er heldur ekki talað um hversu lengi myntbandalagið hefur verið að jafna sig eftir hrun og hversu mikla gagnrýni bandalagið hefur fengið á sig og hve miklar efasemdir menn hafi um að það jafni sig yfirleitt. Þessu hagsvæði er spáð afskaplega litlum og hægum vexti á næsta áratug.

Það er ekki talað mikið um hið gríðarlega innra ójafnvægi sem felst í því að núna eru 500 milljarðar evra í „Target 2“-kerfinu þar sem Suður-Evrópuríkin skulda Þýskalandi 500 milljarða vegna lána sem bankarnir hafa þurft að fá frá Evrópska seðlabankanum. Svo er gefið í skyn að hugsanlega mundi ESB veita lán til að losa höftin á Íslandi, það hafi nánast verið hugsanlegt og einhverjir ónefndir embættismenn telji það ekki útilokað, en hins vegar komi það ekki í ljós fyrr en á lokadegi samninga, alls ekki fyrr. En hefur einhver áhuga á því að ríkissjóður Íslands taki lán fyrir hundruð milljarða ef ekki þúsund milljarða svo að erlendir kröfuhafar geti losnað úr höftum krónunnar, geti tekið krónurnar sínar úr landi og breytt þeim í evrur? Er einhver hérna inni sem vill það? Ég held ekki. Það er ekki í boði í Evrópusambandinu og það hefur aldrei komið til tals, og ekki einu sinni ónafngreindir embættismenn hafa látið í það skína að hér getum við fengið styrki frá evrópskum skattgreiðendum upp á hundruð eða þúsundir milljarða til að leysa höftin. Það er sagt að við þurfum að gera það sjálf.

Það er líka gefið í skyn í þessum kafla að Seðlabankinn geti prentað evrur að vild. Ég ætla að lesa það, með leyfi forseta, á bls. 8:

„Með aðild Íslands að myntbandalagi Evrópu yrði Seðlabanki Íslands eitt af útibúum Evrópska seðlabankans og fengi þar með réttindi til prentunar á evrum. Með því fengi Seðlabankinn öflugt tæki til þess að varðveita fjármálastöðugleika og þjóna sem lánveitandi til þrautavara. Aukinheldur mun prentvald í evrum valda byltingu fyrir heimili og atvinnulíf þar sem verðbólga, gengisóstöðugleiki og vaxtasveiflur hyrfu í einni andrá.“

Eru þetta rósrauð gleraugu eða hvað? Ég veit ekki betur en bankar í sérumhverfi aðildarríkja, tökum t.d. Kýpur þar sem kom efnahagsskellur, hafi þurft að leita til seðlabankans, þeir gátu ekki lánað einkabönkum sínum sem voru á Kýpur peninga. Það þurfti meira að segja að setja fjármagnshöft vegna þess að útstreymið var orðið svo gríðarlegt. Ríkissjóður þurfti að ganga í ábyrgðir fyrir einkabankana og ég skil ekki hvernig hægt er að setja svona mikla einföldun á blað í skýrslu sem á að vera grundvöllur til ákvörðunartöku um hvort gott sé fyrir Ísland eða ekki að ganga í myntbandalag. Síðan þegar allt er dregið saman er vakin athygli á því neðar á bls. 8, með leyfi forseta, að auðvitað kemur einhver kostnaður á móti. Það er fórn að gefa eftir peningalegt sjálfstæði að einhverju leyti og líklegt að í kjölfarið muni fylgja meiri breytileiki í atvinnuleysi — meiri breytileiki í atvinnuleysi — þrefalt meira atvinnuleysi. Ég hef ekki fengið neinar vísbendingar eða ábendingar frá heimilunum á Íslandi um að þau vilji hafa þrefalt meira atvinnuleysi á Íslandi til að geta haft stöðugri gjaldmiðil. Verður hann eitthvað stöðugri? Verða vextirnir eins á svæðinu? Ég fæ það ekki séð. Núna eru vextir í Þýskalandi 1,5% af ríkisskuldabréfum og 7,7% í Grikklandi.



[14:40]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég sat á fundi utanríkismálanefndar í morgun með nokkrum af skýrsluhöfundum. Við sátum þarna í um tvo klukkutíma og niðurstaðan var eftirfarandi: Við getum spekúlerað um hugsanlega mögulega en eina leiðin til að fá einhverja niðurstöðu er að klára viðræðurnar. Við getum ekki komist að neinni vitrænni niðurstöðu, við getum talað okkur þangað til við erum rauð í framan í þessum stól eða við talað niður til fræðimanna sem koma til okkar í þingið. Mér þótti bagalegt og eiginlega skammarlegt að verða vitni að því enn og aftur að þingmenn settu ofan í við og gerðu lítið úr fræðimönnum sem komu í heimsókn til okkar. Það er neyðarlegt. (FSigurj: Það var einn þingmaður sem gerði það.) Já, það var einn þingmaður sem gerði það en þetta var ekki í fyrsta skipti, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, sem slíkt viðgengst á þinginu. Ég vildi óska að við hættum því vegna þess að það er ljótt að vera að draga alltaf í efa að fólk vinni vinnuna sína vel. Ég held að við ættum kannski að líta í eigin barm.

Nú erum við búin að missa af tækifærinu til að greiða atkvæði um áframhald viðræðna í kringum sveitarstjórnarkosningar þannig að ég held að það fari best á því að við byrjum að undirbúa og leggjum hreinlega fram tillögu þar að lútandi, og ég skora á þingmenn að láta einhverja nefndina taka það að sér, t.d. utanríkismálanefnd, að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla til að bregðast við vilja yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar um að fá að hafa aðild að ákvarðanatöku um ferli málsins. Ég held að það fari best á því, til að sýna ríkisstjórninni smá skilning í ómöguleika hennar við að framfylgja vilja þjóðarinnar, að það verði gert samhliða forsetakosningum. Ég sé enga hnökra á því að við drífum okkur í að setja tillöguna saman, utanríkismálanefnd, og þetta verði þannig að við slítum ekki viðræðum fyrr en vilji þjóðarinnar liggur fyrir. Og ef þjóðin vill ekki slíta viðræðum heldur halda þeim áfram og ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til að verða við þeim vilja er miklu einfaldara, eins og ég hef sagt áður, að skipta um ríkisstjórn en að skipta um þjóð.

Ég er skáld og ég hef lent í því að enginn skilur ljóðin mín á sama hátt og sú sem skrifaði þau, fólk les eitthvað allt annað í ljóðin mín, algerlega út frá sínum eigin heimi. Það sama má segja um allar þær skýrslur sem við fáum hér, ef við einblínum ekki á staðreyndirnar og byrjum að túlka hugsanlega möguleika fær enginn sömu niðurstöðuna, það er bara þannig. Við erum að rífast um hluti sem við munum aldrei fá nokkra niðurstöðu í nema klára ferlið og verða við vilja þjóðarinnar í því. Svo einfalt er það. Það eru auðvitað alls konar hnökrar. Þetta er ekki 100% gott eða vont. En við fáum enga niðurstöðu fyrr en við erum búin að ljúka aðildarviðræðunum og samningurinn verður lagður í dóm þjóðarinnar.



[14:45]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra fyrir að hafa brugðist svo fljótt og rösklega við þessari umræðu. Það er hagur góðra bænda að gera slíkt frekar en að fljúgast á við þá sem vilja eiga við þá orðastað, eins og hefur borið á um aðra forustumenn ríkisstjórnarinnar. Ég vil einnig þakka honum fyrir prýðilega málefnalega ræðu þótt ég hafi verið ósammála mörgu sem hæstv. ráðherra sagði.

Nú er það svo að eins og ég hefur hæstv. ráðherra fortíð í þessu máli, hann ber mikla ábyrgð. Það var til dæmis hæstv. ráðherra sem í elegant rökfærslu sinni fyrir nauðsyn þess að taka upp evru á síðasta áratug gerði mig að sannfærðum evrusinna. Það var líka hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra sem lagði þann mælikvarða sem við verðum öll að leggja á þetta mál, og hann líka, og það er: Stenst það blákalt hagsmunamat íslensku þjóðarinnar að ganga í Evrópusambandið?

Ég er þeirrar skoðunar að þær tvær skýrslur sem hafa verið lagðar fram hér á síðustu vikum gefi tilefni til að skynsamur maður eins og hæstv. ráðherra komist ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að það sé a.m.k. ekki í þágu hagsmunanna að klippa á möguleikann til 20 ára eins og hæstv. ráðherra hefur látið Framsóknarflokkinn kúga sig til, hugsanlega með voveiflegum afleiðingum fyrir hans eigin flokk. Röksemdafærsla hæstv. ráðherra var í sjálfu sér held en hún byrjaði á röngum fæti. Hæstv. ráðherra sagði að það væri einkum tvennt sem gerði það að verkum að hann teldi algerlega rangt að taka þetta skref núna. Í fyrsta lagi sagði hann, og vísaði til merkra manna, að Evrópusambandið væri að þróast í sambandsríki og einnig sagði hann að það væri stöðnun fram undan.

Hæstv. ráðherra verður að vera samkvæmur sjálfum sér. Hann sagði sjálfur að menn ættu að fá óháða stofnun til að búa til skýrslu og taka ákvörðun á grundvelli hennar.

Stefán Már Stefánsson prófessor, færasti Evrópusérfræðingur þjóðarinnar, sem seint verður talinn til æstustu Evrópusinna gerði mjög merkan kafla í þeirri skýrslu og ein af þeim niðurstöðum sem hann komst að var þvert á það sem hæstv. ráðherra var að segja áðan. Hann leiddi gild rök að því að Evrópusambandið væri ekki sambandsríki og það væri ekki að þróast í átt að sambandsríki.

Hæstv. ráðherra talar um að stöðnun sé fram undan. Hvað sagði hæstv. ráðherra og nótar hans úr Framsóknarflokknum, eins og hæstv. núverandi forsætisráðherra, allt síðasta kjörtímabil? Evrusvæðið er að hrynja. Ef ekki á morgun þá örugglega í næstu viku. Ef ekki þá, örugglega í næsta mánuði. Hvað gerðist? Evran styrktist. Við sjáum það núna að þegar hæstv. ráðherra talar um stöðnun fram undan, jafnvel áratuga stöðnun, eru ríki að greiða atkvæði um það með því að flytja í óðaönn gjaldeyrisvaraforða sinn yfir í evruna. Það er töluvert hraustleikamerki segi ég. Hitt er rétt hjá hæstv. ráðherra að það er ekki hægt að meta þetta einungis út frá einum þætti eins og evrunni. Við verðum líka að horfa til mála eins og sjávarútvegsmálanna. Það er grundvallaratvinnuvegur.

Þá ber svo við nýrra tíðinda að í þeirri skýrslu sem við erum að ræða eru algerlega nýjar upplýsingar. Þar kemur skýrt fram að það sem við töldum að yrði erfiðast við að eiga, eins og t.d. kröfuna um réttinn til gagnkvæmra fjárfestinga, hugsanlega er hjáleið fram hjá því vandamáli með sérlausn sem er rakin í skýrslunni. Það er ekki hægt að ganga úr skugga um það nema með samningum. Ég ætla ekki að segja að það gengi upp vegna þess að ég var alltaf skeptískur á það. En það breytir ekki hinu að hugmyndirnar sem koma þar fram, sömuleiðis um forsvar Íslendinga í samningum við þriðja ríki ef við gengjum inn, einnig nýjar upplýsingar um rök fyrir því að við ættum að geta krafist sérstaks fiskveiðistjórnarsvæðis, eru svo mikilvægar að það er ekki hægt að kasta þessum skýrslum út af borðinu. Menn hljóta að staldra við. Í þessari stöðu eiga menn að gera það sem hæstv. ráðherra lofaði, fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og leyfa þjóðinni að ráða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Herra forseti. Ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til að verða við niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu sem hún lofaði sjálf veit ég að við erum sammála um að þá eigi hún að víkja.



[14:49]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna hverri þeirri skýrslu sem kemur fram um þessi málefni sem og önnur sambærileg. Ég er afskaplega ánægður með að við skulum vera að ræða þetta mál hér og nú. Ég vona að umræðan verði djúp og vonandi verður hún ekki aðeins tekin hér heldur líka meðal þjóðarinnar allrar.

Ég vil fyrst segja varðandi upplegg skýrslunnar, og við náðum að ræða það í hv. utanríkismálanefnd í morgun, að það er nokkuð sem mér fannst vanta í hana. Það kom mér á óvart af því að ég hefði talið líklegt að þeir aðilar sem að málinu standa hefðu tekið þann pól í hæðina að ræða það sem ekki var rætt, það var ekkert upplegg fyrir fræðimennina og þess vegna skrifuðu þeir það ekki. Það var ekkert rætt um þau tækifæri sem við höfum fyrir utan Evrópusambandið, þau gríðarlegu tækifæri sem við höfum með því að ráða algerlega okkar viðskiptastefnu og í samstarfi við EFTA-þjóðirnar. Það var ekkert skoðað.

Það kom skýrt fram í nefndinni að ekki var lagt upp með að þetta væri sérstakt hagsmunamat. Ég held líka að ekki sé mjög raunhæft, eins og bent var á, að setja það upp í excel-skjal, þannig að við þurfum kannski ekki að ræða það frekar.

Það olli mér líka miklum vonbrigðum að sjá viðmælendur skýrsluhöfunda þar sem mér fannst vanta, sérstaklega meðal útlendinganna sem talað var við, aðila sem eru gagnrýnir á Evrópusamstarfið og hvernig það hefur þróast. Ég held að skýrslan hefði styrkst og orðið betri ef farin hefði verið sú leið að ræða við þá.

Það hefur komið fram og kom fram í umræðum í nefndinni að auðvitað hefði evran ekki bjargað okkur frá bankahruninu. Það kom líka fram, sem ég vissi ekki, að vinnuhópurinn um afnám gjaldeyrishafta, sem hefur verið gagnrýnt að hafi verið leystur upp, var í rauninni ekki að vinna að afnámi gjaldeyrishafta. Hann var fyrst og fremst upplýsingahópur þar sem menn ræddu um stöðu mála. Það sem mér finnst hins vegar mikilvægt, af því að við erum að borða fíl og best að gera það í litlum skömmtum, er að við erum komin á þann stað að allir eru sammála um að við þurfum að vera aðilar að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu. Það hefur komið mjög skýrt fram. Fram til þessa hafa verið allrahanda yfirlýsingar um eitthvað annað og þá erum við að tala um sérlausnirnar. Einhver embættismaður sagði að við gætum ekki fengið sérlausnir eins og Azoreyjar, Kanaríeyjar og fleiri varðandi sérstök fiskveiðistjórnarsvæði. Skýrsluhöfundar telja að það sé ekki rétt hjá viðkomandi embættismanni en við skulum þá skoða í hverju sérlausnirnar felast. Það hefur komið skýrt fram að það eru ekki varanlegar undanþágur. Það kom fram í skýrslu Hagfræðistofnunar og vil ég sérstaklega vísa í viðauka III þar sem Stefán Már Stefánsson prófessor skrifaði að þetta væri afleiddur réttur og umbreytanlegur af hálfu Evrópusambandsins. Það liggur alveg fyrir að ef við erum aðilar að sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni höfum við ekki sama forræði og við höfum nú. Reyndar er það þannig að þá erum við einungis með eftirlit og refsingar, annað fer til Brussel.

Varðandi ERM sem mikið hefur verið rætt hér, og ég get ekki rætt lengi á þeim stutta tíma sem ég hef, hvet ég menn til að lesa þann kafla. Mér hefur ekki fundist fréttaflutningur á þeim kafla vera í samræmi við það sem þar stendur. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að fara þá leið þurfum við fyrst að afnema höftin, við þurfum að uppfylla Maastricht-skilyrðin og þá gætum við í besta falli klárað það tveimur árum eftir að við erum búin að klára þessa þætti. Það er enginn vafi á því að langþyngsti þátturinn er sá sem snýr að skuldamálum hins opinbera, ríkisins, varðandi Maastricht og ég tel þess vegna nokkuð vel í lagt að telja tvö, þrjú ár líklegt. Það er líka ágætt að fara yfir það í kaflanum hvernig mismunandi þjóðum hefur vegnað í því samstarfi og hvaða afleiðingar það hefur haft þar, því að stóra einstaka málið er að alveg sama hvað okkur finnst um þessa hluti er þetta alltaf það sama: Þetta veltur á okkur. Efnahagsleg framtíð okkar veltur á okkur Íslendingum og við þurfum að vera hér með aga og ráðdeild og viðskiptafrelsi. (Forseti hringir.) Það eru þessir þrír þættir og allar þjóðir sem menn líta til sem hafa náð árangri hafa sýnt aga og ráðdeild. Byrjum á því.



[14:54]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu og lýsa því yfir að ég tel þá skýrslu sem er til umræðu frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands gagnlega. Hún er hins vegar ekki hafin yfir gagnrýni og hún er ekki gallalaus frekar en aðrar skýrslur sem unnar hafa verið að undanförnu og hafa verið til umræðu hér, en hún er mikilvægt innlegg í umræðuna til að hægt sé að reyna að móta sér heildarsýn.

Það er kallað eftir vitrænni og vandaðri umræðu um ESB-málið og til mynda hæstv. fjármálaráðherra, sem var við umræðuna áðan, hefur gert það. Ég verð þó að segja að tillöguflutningur hæstv. ríkisstjórnar sem hæstv. fjármálaráðherra er hluti af er að mínu viti ekki í þeim anda að stuðla að vitrænni og vandaðri umfjöllun um ESB-málið. Það er mikilvægt að kanna kosti og kalla fyrir Ísland til hlítar og það er ekki leikrit. Hæstv. fjármálaráðherra sagði á fundi í Sjálfstæðisflokknum fyrir skemmstu að hann tæki ekki þátt í því leikriti sem fælist í því að kanna til hlítar kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu. 80% þjóðarinnar lýsir því yfir í skoðanakönnunum að hún vilji ljúka viðræðum við Evrópusambandið en fjármálaráðherra ætlar ekki að taka þátt í því leikriti, segir hann, sem er vilji 80% þjóðarinnar. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta sérkennileg yfirlýsing af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins og kemur mér eiginlega á óvart að hún skuli koma frá honum.

Valkostir Íslands í gjaldmiðilsmálunum eru stefnumarkandi ákvörðun fyrir framtíðina. Kostirnir þurfa að liggja á borðinu. Í skýrslu Seðlabankans, ekki mjög gamalli, um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálunum eru fyrst og fremst tveir kostir dregnir upp, annars vegar áframhaldandi íslensk króna en þá væntanlega í höftum, eða hins vegar upptaka evru gegnum aðild að Evrópusambandinu.

Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra um að spurningin um aðild að Evrópusambandinu er miklu stærri en svo að hún lúti að afmörkuðum þætti, hvort sem það eru gjaldmiðilsmálin eða jafnvel sjávarútvegsmálin vegna þess að sumir taka afstöðu út frá öðrum þáttum, t.d. afstöðu sinni til og lífssýn um það hvort þeir vilji vera í ríkjasambandi eins og Evrópusambandinu eða ekki. Það eru því fleiri þættir sem hér koma inn í. En í umræðunni um gjaldmiðilsmálin sem er til umfjöllunar er að mínu mati mikilvægt að kippa ekki öðrum meginvalkostinum út af borðinu í miðju ferli. Það er ekki viturlegt að gera það. Það er ekki viturlegt fyrir umræðuna og fyrir lokaákvörðun, þegar að henni kemur, að kippa öðrum af meginkostunum út af borðinu. Kostirnir eru í meginatriðum króna í höftum eða evra í gegnum ESB.

Virðulegur forseti. Hvar er þá áætlun um afnám haftanna? Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvort það er hægt að afnema höftin. Hæstv. fjármálaráðherra hefur að undanförnu talað um að það eigi að vera hægt og frekar hraðar heldur en ekki. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra hafi rétt fyrir sér en ég efast mjög um það. Ég held að það verði mjög þungur róður að afnema höftin fyrir okkur á næstu missirum.

Það var ekkert samráð haft meðal annars við Evrópusambandið um afnám hafta. Hæstv. fjármálaráðherra á vettvangi utanríkismálanefndar hafði frumkvæði að því að óska eftir slíku samráði. Hvenær var því hætt? Af hverju var Alþingi ekki upplýst um það þegar það gerðist? Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því.

Ég vil líka segja að ég tel að mikilvægt að það sé þverpólitísk vinna og þverpólitísk samstaða um vinnu við afnám gjaldeyrishaftanna. (Forseti hringir.) Ég held nefnilega að afnám gjaldeyrishaftanna geti leitt til efnahagslegs óstöðugleika en líka pólitísks og samfélagslegs óstöðugleika ef ekki er vel á málum haldið og ef ekki er pólitísk samstaða um þær aðferðir sem þar eru notaðar. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að stuðla að því að svo verði.



[14:59]
Óttarr Proppé (Bf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sérstaklega fyrir að bregðast svona vel við beiðninni um umræðuna og þakka fyrir umræðuna. Ég vil líka fagna skýrslu Alþjóðamálastofnunar sem mér þykir mjög góð að mörgu leyti og mikilvægt innlegg í umræðuna. Skýrslan hefur að mörgu leyti styrkt mig í þeirri skoðun að, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir orðaði það, við getum talað okkur rauð og blá í framan og haldið ýmsu fram en við munum ekki vita hvað felst í því fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið öðruvísi en að klára viðræðurnar og taka vitræna umræðu um það sem er á borðinu, en ekki tilfinningar okkar um hvað kunni að vera þar.

Það sem mér finnst einkum ánægjulegt í skýrslu Alþjóðamálastofnunar háskólans er að þar er gerð tilraun til að, kannski ekki að taka djúpt og endanlegt hagsmunamat á möguleikum Íslands við inngöngu í Evrópusambandið en það er verið að gera góða atlögu að því að máta Ísland að ýmsum þáttum Evrópusamstarfsins og þá sérstaklega myntsamstarfsins, landbúnaðarmálunum og sjávarútvegsmálunum sem skipta okkur mjög miklu máli. Þetta er umræða sem ég hef saknað í umræðunni um Evrópusambandið. Mér líður oft eins og ég sé í bókaklúbb og það komi inn endalausar bækur og síðan sé ég í mikilli umræðu um kápurnar en bækurnar eru aldrei opnaðar. Það er mikil umræða um það hvort Ísland þurfi að gangast undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópu eða hvort Ísland geti fengið algera undanþágu undan þeirri sjávarútvegsstefnu en ég sakna þess að við eigum djúpa umræðu um hver sjávarútvegsstefna Evrópu er og hvernig hún tengist okkur. Umræðan er dálítið á bókakápuplaninu hjá okkur, því miður.

Umræðan um skýrslur og upplýsingar sem við höfum fengið er því miður sömuleiðis allt of mikið því marki brennd að við efumst um hvaðan upplýsingarnar koma, við efumst um heilindi þeirra fræðimanna sem standa á bak við skýrslurnar. Ég hélt einhvern veginn að hugsunarhátturinn sem var árin fyrir hrun, þar sem það var mikið í tísku að ekki væri að marka neitt nema það sem þeir sögðu sem voru fullkomlega sammála manni, hefði ekki reynst okkur sérstaklega vel. Mér þykir hálfsorglegt að upplifa þá tilfinningu aftur að boltinn sé gleymdur á meðan við hlaupum á eftir mönnunum, svo notað sé líkingamál.

Mér þótti mjög góður kaflinn um sjávarútvegsmál í þessari nýju skýrslu þar sem teknir eru punktar úr sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópu, samanber sjálfstæð fiskveiðistjórnarsvæði innan 12 mílna, meginreglur um hlutfallslegan stöðugleika innan lögsögu sem byggir á veiðireynslu o.s.frv., sem í raun og veru útilokar að mörgu leyti erlend skip úr íslenskri lögsögu án undanþágna, án þess að við þurfum undanþágu frá sjávarútvegsstefnunni eða sérlausnir. Mér þykir vanta meira af þessari grunnumræðu. Hún hefur eflaust farið fram djúpt inni í stjórnmálaflokkunum einhvers staðar (Forseti hringir.) og í höfðum okkar margra en ég held að almenningur, og alla vega ég, hafi farið á mis við mikið af þeirri umræðu. Ég held að við eigum að dýpka okkur.



[15:03]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu og málshefjanda fyrir að fara af stað með hana í kjölfar skýrslunnar sem var gefin út í gær. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirgripsmikla ræðu um sýn hans á málefnum landsins í tengslum við sýn hans á Evrópusambandið og samanburð þar á milli.

Það er svolítið skrýtið að standa í þessum sporum. Við erum einhvern veginn á byrjunarreit, því að það kemur fram í skýrslunni að viðræðunum var í raun hætt á síðasta kjörtímabili. Það leiðir hugann að því hvers vegna fyrrverandi ríkisstjórn fór ekki af stað með það á ný í kosningabaráttunni að knýja á um að álitið sem var skilað með þingsályktunartillögunni og umsókninni sem send var til Brussel yrði ekki tekið upp og fært í það horf að Íslendingar mundu gefa frá sér sjávarútveg sinn, eins og kemur fram í skýrslunni. Það er það sem við stöndum frammi fyrir fyrst og síðast og það er tómt mál að tala um málefni Evrópusambandsins og Íslands nema ræða þá staðreynd, þann hluta málsins sem snýr að sjávarútveginum.

Það kemur fram í skýrslunni sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út fyrr á þessu ári að siglt hafi í strand, og raunar sigldu viðræðurnar í strand strax árið 2011, vegna þess að þeir aðilar sem héldu á málefnum sjávarútvegsins fyrir Íslands hönd treystu sér ekki til að stíga það skref að ganga lengra en fólst í því nefndaráliti sem ég vísaði í, að gefa frá sér sjávarútveginn, og þar með treysti Evrópusambandið sér ekki til að opna kaflann, svokallaða rýniskýrslu, vegna þess að Íslendingar voru ekki tilbúnir til að skrifa undir það að aðlaga sig regluverki Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum. Þetta liggur alveg klárt fyrir og er staðfest í skýrslunni sem kom út í gær þar sem talað er um fimm atriði sem lúta að því að hægt var mjög á viðræðum á síðasta ári og í raun tók fyrrverandi ríkisstjórn þá ákvörðun að setja viðræðurnar á frost í ársbyrjun 2013. Það er ágætistími síðan og svo er látið líta svo út fyrir að þetta sé vandamál núverandi ríkisstjórnar. Hvernig er hægt að snúa umræðunni svona á hvolf?

Það var fyrrverandi ríkisstjórn sem tók ákvörðun um að hægja mjög á viðræðunum og var búin að sigla viðræðunum í strand og svo hrópa þessir sömu flokkar á þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður sem þýðir á íslensku að verið er að hrópa á að við gefum frá okkur sjávarútveginn. Svona er málið einfalt. Þetta snýr að þessu, lýtur að þessu. Þess vegna skil ég ekki hvernig hægt er að rugla umræðuna fram og til baka og hér kemur hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og kallar eftir því að ef núverandi ríkisstjórn tapi þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlegan aðildarsamning þá víki hún. Hvað gerðist á síðasta kjörtímabili? Haldnar voru tvær þjóðaratkvæðagreiðslur er lutu að Icesave-samningnum. Það voru bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að forsetinn vísaði málinu til þjóðarinnar, og ríkisstjórnin sat sem fastast. Svona er tvískinnungurinn í þessari umræðu. Ég tek undir það álit sem hefur komið fram í ræðum nokkurra þingmanna að umræðan þarf (Forseti hringir.) að vera málefnaleg. Það má ekki falla í skuggann af ómálefnalegum rökum og hálfsannleik. Þannig komumst við áfram.



[15:08]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel hafa verið góða og upplýsandi. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að aðild að Evrópusambandinu væri stærra mál en svo að það sneri einungis að gjaldmiðli. Ég er sammála því. Þetta er stórt mál. En það verður þá líka að ræða það af þeirri alvöru sem það krefst og ákvörðun ríkisstjórnarinnar að óathuguðu máli að draga aðildarumsóknina til baka, með engum efnisrökum sem héldu, var ekki í samræmi við alvöru málsins. Og það er auðvitað mjög mikilvægt að menn freisti þess að svara því hver hættan sé af því að láta aðildarumsóknina ganga fram, semja um þann besta mögulega samning sem í boði er og leggja hann undir þjóðina í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum, bæði frá skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans og núna frá Alþjóðamálastofnun, sérstaklega ef við horfum til þess að hæstv. fjármálaráðherra sagði 2008 að það væri í góðu samræmi við ríka lýðræðishefð Sjálfstæðisflokksins þótt hann væri í ríkisstjórn og væri á móti aðild að Evrópusambandinu að semja um þann besta samning sem í boði væri og leggja fyrir þjóðina. Hann sem sagt taldi ómöguleikann bæði mögulegan og æskilegan og í samræmi við ríka lýðræðishefð Sjálfstæðisflokksins.

Ein rökin sem ég heyri talað um aftur og aftur um er að hægt sé að gera þetta allt sjálfur með aga í ríkisrekstri. Hæstv. fjármálaráðherra segir að það sem engum hafi tekist síðustu 70 árin ætli honum að takast. Mér finnst í fyrsta lagi felast í því mikið óraunsæi og í annan stað býsna hofmóðugt viðhorf til þeirra sem á undan okkur hafa gengið og setið í þessum sal, að það hafi allt verið eitthvert agalaust stóð sem aldrei hafi haft stjórn á grunnstærðum efnahagslífsins. Það er sérstaklega hlálegt í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra er nú að leggja fram frumvarp um aukinn aga í opinberum fjármálum en leggur fyrst fram frumvarp um fordæmalausa millifærsluaðgerð sem er skuldaniðurfellingarsullumbullið stóra sem Seðlabankinn segir að muni hafa neikvæð efnahagsleg áhrif, auka einkaneyslu þegar ekki er ástæða til að auka hana, muni leiða til hærri verðbólgu, veikara gengis og hærri vaxta til tjóns fyrir okkur öll. Hvenær ætlar hæstv. fjármálaráðherra að hefja aga? Þegar hann er búinn að fá að taka einn snúning á ábyrgðarleysinu? Eru það skilaboðin til þjóðarinnar, því að hann gengur ekki á undan með góðu fordæmi?

Það er líka ljóst að stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum veldur því að hún kemst heldur ekkert áfram með afnám hafta. Við sjáum ýmis hættuleg teikn í því máli með ræðu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra á síðustu vikum þar sem þeir eru greinilega að telja upp í það. Vegna þess að þeir fá ekkert fylgi út úr skuldalækkunartillögum sínum og eru búnir að klúðra fylgi sínu (Gripið fram í.) með flumbrugangi sínum í Evrópumálum ætla þeir að reyna að blása í fylgissókn á flokkspólitískum forsendum með afnámi hafta. Þeir gefa því undir fótinn að þeir hafi töfralausn um afnám hafta sem enginn annar hafi og nú skulum við bara bíða og sjá. Ég minni hæstv. fjármálaráðherra á það sem hann sagði á síðasta kjörtímabili. Það þarf þverpólitíska samstöðu um afnám hafta. Ég hef ekki fengið að heyra eitt orð frá honum um þær tillögur sem hann þykist hafa. Og hann er að leika sér að eldinum ef hann ætlar að koma með tillögur um haftaafnám og tefla þeim fram á flokkspólitískum forsendum.

Það sem liggur núna ljóst fyrir er að það næst engin niðurstaða í þessu máli nema með samningum. Það er engin hætta búin íslenskum hagsmunum með því að halda áfram með það samningaferli sem er vel á veg komið. Það er komið að lykilátakamálunum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur á fyrri tíð sagt að það sé í fullkomnu samræmi við ríka lýðræðishefð Sjálfstæðisflokksins að hann leiði slíkar viðræður (Forseti hringir.) þótt hann sé efnislega ósammála aðild að Evrópusambandinu. Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að standa við orð sín.



[15:12]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir ágætlega málefnalega umræðu í dag. Það hefur svo sem verið farið langt út fyrir efnið en það var við því að búast að málið yrði sett í aðeins stærra samhengi.

Það er ágætt að byrja á því að nefna að almennt viljum við eiga í alþjóðasamvinnu til að hafa af því einhvern ávinning og ef við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé engan ávinning að hafa af samstarfinu, þegar við fáum það á tilfinninguna að sóst sé eftir dýpra samstarfi samstarfsins vegna, eins og mér finnst vera gerast mjög í Evrópusambandinu um þessar mundir, er rík ástæða til að staldra við og segja: Þessi frekari krafa um aukið samstarf, frekara framsal valds í þágu samstarfsins sjálfs, þegar farið er að ganga svo á rétt þjóðríkjanna viljum við ekki vera með. Þetta er akkúrat að gerast út um allt í Evrópusambandinu. Þetta er að gerast í Bretlandi og þetta er að gerast í fjölmörgum öðrum ríkjum. Ríkin kjósa að draga úr samstarfinu og rætt er um það í einstaka löndum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu til að endurheimta völd vegna þess að framsal valdsins til Brussel skilaði ekki þeim ávinningi sem að var stefnt. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga vegna þess að innan Evrópusambandsins eru stórir aðilar, leikendur á sviðinu, að ræða um mun dýpri samruna og það dugar ekkert að nefna í því sambandi að það hafi komið fram í máli Stefáns Más að Evrópusambandið beri ekki í dag einkenni sambandsríkis. Það er alveg skýrt ef menn leita uppi ummæli Angelu Merkel og annarra stórra leiðtoga í Evrópusambandinu (Gripið fram í.) að þeir telja alveg skýrt [Háreysti í þingsal.] að það eigi að dýpka samstarfið í Evrópusambandinu. Þetta er alveg skýrt. (Gripið fram í.) Þetta ætti engum að dyljast. (Forseti hringir.)

(Forseti (SilG): Ró í þingsalnum.)

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með ummælum eins og þeim að skýrslan sem við erum að ræða sýni að við gætum tekið evru upp fljótt. Mér finnst ég hafa heyrt þetta áður. Mér finnst ég hafa heyrt frá árinu 2009 (Gripið fram í.) að það yrði mjög fljótlega sem við mundum taka upp evru eftir að hafa gengið í Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Þegar við ræddum um það í aðdraganda kosninganna á þeim tíma að við Íslendingar gætum átt þann valkost að taka upp annan gjaldmiðil án inngöngu í Evrópusambandið vorum við að benda á að það væri mikil gerjun í gjaldmiðilsmálum í Evrópusambandinu, sem var hárrétt, og menn þyrftu ekki að gefa frá sér sjálfstæðið til að gera breytingar í peninga- og gjaldmiðilsmálum. Það var punkturinn sem við komum á framfæri fyrir kosningarnar 2009.

Menn segja: Við vitum ekki hvað Evrópusambandið er án viðræðna. Auðvitað vitum við hvað Evrópusambandið er. Það er birt í lögum. Það er birt í sáttmálum. Við vitum nákvæmlega hvað Evrópusambandið er. Getum við fengið minni háttar aðlaganir, tímafresti o.s.frv.? Eflaust. En það er ekkert í þessari skýrslu sem við erum að ræða í dag sem segir að við munum fá varanlegar undanþágur frá sambandslöggjöfinni og það er akkúrat það sem Stefán Már hefur skrifað um, það hefur engin þjóð fengið varanlegar undanþágur frá sambandslöggjöfinni á sviði landbúnaðar- og fiskveiðimála. Engin. (Gripið fram í: Fjölmargar sérlausnir … Engin? Fjölmargar.) Engin þjóð hefur fengið varanlegar undanþágur frá sambandslöggjöfinni. (ÁPÁ: Þetta er bara ekki rétt.) Hins vegar hefur Evrópusambandið breytt löggjöf sinni til að koma til móts við þarfir einstakra ríkja eins og Möltudæmið er til vitnis um, en þeirri löggjöf er hægt að breyta aftur einhliða af Evrópusambandsins hálfu þannig að það eru engar slíkar varanlegar undanþágur til. (Gripið fram í.) Noregur er auðvitað annað dæmi um ríki sem fór fram á fjölmargar varanlegar undanþágur en fékk enga. Það er nú staðan. Ég kemst því miður ekki í djúpa umræðu um höftin, en það stendur ekkert annað til en að eiga gott samstarf hér á Alþingi um haftaafnámið (Forseti hringir.) og til þess höfum við sett upp sérstakan vettvang, til að eiga pólitískt samráð. Mér finnst menn hafa í umræðunni í dag gert allt of mikið úr ávinningi þess að eiga samtal við Evrópusambandið um það, enda var þar aldrei neitt að hafa nema tæknilega aðstoð.