143. löggjafarþing — 97. fundur
 28. apríl 2014.
aðgerðir í þágu leigjenda.

[15:29]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Þær fréttir berast í dag að leigjendum hafi farið mjög fjölgandi og við höfum heyrt mikið af versnandi kjörum fólks á leigumarkaði. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að þegar hér komu fram tillögur um 80 milljarða aðgerðir í þágu skuldugra heimila, þ.e. þeirra sem eiga eigin heimili, sætti það nokkurri gagnrýni að þar voru leigjendur algerlega skildir eftir. Þá boðaði ríkisstjórnin að þegar á næsta ríkisstjórnarfundi yrði fjallað um sérstakar aðgerðir í þágu leigjenda. Það var löngu fyrir páska.

Nú vil ég vita hjá hæstv. fjármálaráðherra hversu miklum fjármunum hann hefur ákveðið að ráðstafa í aðgerðir í þágu leigjenda. Við sem höfum keypt okkar eigin húsnæði fáum 80 milljarða stuðning úr ríkissjóði, 20 milljarða á hverju ári, en hversu miklu fé hefur ríkisstjórnin ákveðið að ráðstafa í þágu leigjenda? Þeir urðu augljóslega fyrir sömu verðbólguáföllum og við hin sem eigum húsnæði okkar því að leiguverðið sem þau þurfa að borga hækkaði sannarlega í takt við vísitölu og sennilega gott betur en lánin gerðu hlutfallslega. Hversu miklum fjármunum hefur ríkisstjórnin ákveðið að ráðstafa í þetta? Og er ekki alveg öruggt að leigufélögunum sem leigja fátækasta fólkinu og búseturéttarfélaginu verði bættur forsendubresturinn eins og okkur hinum sem eigum húsnæði okkar? Ef ráðherrann má vera að vil ég líka spyrja um séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins og jafnræði. (Forseti hringir.) Getur ráðherrann ekki fallist á að örorkulífeyrisþegar og ellilífeyrisþegar eigi líka að fá að spara 6% skattfrjálst af lífeyristekjum sínum eins og við hin sem höfum launatekjur?



[15:32]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Markvissasta aðgerðin til að koma til móts við þá sem eru á húsnæðismarkaði, sama hvort það eru þeir sem hafa keypt sitt eigið húsnæði eða eru á leigumarkaði, er að ná tökum á ríkisfjármálunum og byggja undir forsendur fyrir lækkun vaxta. Lægri vextir munu skila sér í hagstæðari leigukjörum og hagstæðari vaxtakjörum fyrir þá sem kaupa húsnæði.

Nú hafa borist fréttir af því að leigugjöldin hjá þeim sem eru á leigumarkaðnum hafi verið að hækka mjög ört. Þar tel ég að spili mjög inn í lögmálin um framboð og eftirspurn. Ég tel að Reykjavíkurborg hafi algerlega brugðist í því að tryggja nægilegt framboð af lóðum til uppbyggingar á húsnæði sem mætir þeirri gríðarlega miklu eftirspurn sem greinilega er til staðar. (HHj: En Garðabær?) Kannski gætu fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu tekið það til sín en við höfum tekið eftir því að bæði í Kópavogi og í Garðabæ hefur verið byggt gríðarlegt magn af fjölbýlishúsum á undanförnum árum, langt umfram það sem áður tíðkaðist, fyrst menn eru að kalla það hér sérstaklega fram í. Þetta tel ég að sé grundvallaratriði í umræðunni um kjör þeirra sem eru á leigumarkaði, og þeirra sem hyggja á fasteignakaup, að við byggjum undir þau skilyrði í landinu að vextir geti lækkað. Það mun skila sér beint í lægri leigugjöldum og almennt vaxtagjöldum fyrir heimilin.

Það er á verksviði félagsmálaráðherra að kynna aðgerðir af þeim toga sem hér er verið að kalla eftir og þær hafa ekki verið afgreiddar frá ríkisstjórn.(Forseti hringir.) Þess vegna er ekki hægt að greina frá því að tekið hafi verið til hliðar sérstakt fé til að mæta þeim ráðstöfunum. (Forseti hringir.) En það er til skoðunar að taka stuðning við heimilin heildstætt til endurskoðunar.



[15:34]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að lægri vextir munu koma leigjendum til góða. Þeir munu líka koma hinum til góða sem eiga sitt húsnæði og raunar öllum í landinu. En aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálunum munu hins vegar leiða til hærri vaxta þannig að þær munu beinlínis stuðla að því að rýra kjör leigjenda frá því sem nú er og eru þau þó erfið.

En ég spurði einfaldrar spurningar. Ríkisstjórnin sagði fyrir páska að hún ætlaði að verja fjármunum í aðgerðir fyrir leigjendur. Nú þegar svo óþægilega vill til að einhver man eftir því og spyr hæstv. fjármálaráðherra hvaða peninga leigjendur eigi að fá þá er ráðherrann ekki með neina peninga fyrir leigjendur. Við sem höfum keypt okkur húsnæði eigum að fá 80 milljarða í stuðning úr ríkissjóði en fjármálaráðherra er bara með tóman hatt fyrir leigjendur. Þetta er enn eitt dæmið um hina ótrúlegu forgangsröðun í þágu efnafólks í aðgerðum ríkisstjórnarinnar og algert skeytingarleysi gagnvart þeim sem eru á leigumarkaði.



[15:35]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur legið fyrir frá upphafi að aðgerðir vegna þeirrar miklu verðbólgu sem hér geisaði á árunum 2008 og 2009 beindust sérstaklega að þeim sem skulduðu verðtryggð lán á þeim tíma. Það er ekki nýtt að menn komi hér inn í umræðuna og segi: Ja, þá eru þeir sem voru á leigumarkaði út undan. Aðgerðin var sérstaklega sniðin að áhrifunum af verðbólgunni á verðtryggðu lánin, það var bara svo einfalt og þetta hefur legið fyrir allan tímann.

Hvað er þá hægt að gera til að styrkja stöðu leigjenda á leigumarkaði? Ég hef hér verið að tala um vextina. Ég hef talað um framboð af húsnæði, lóðum og byggingarmagni, til að mæta þeirri miklu eftirspurn. Hér eru að verki lögmál um framboð og eftirspurn og í félagsmálaráðuneytinu er unnið að endurskoðun á stuðningskerfunum sem verður kynnt á næstunni og þar munu leigjendur svo sannarlega koma inn í myndina. En við getum ekki útilokað það, sérstaklega þegar svona mikill skortur er á framboði, að stórauknar húsaleigubætur mundu lítið annað gera en ýta undir enn frekari hækkun á leiguverði.