143. löggjafarþing — 97. fundur
 28. apríl 2014.
húsakostur Landspítalans.
fsp. SII, 394. mál. — Þskj. 721.

[16:34]
Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Síðastliðið haust lagði hv. þm. Björt Ólafsdóttir fram fyrirspurn til skriflegs svars til heilbrigðisráðherra um framkvæmdir við Landspítala við Hringbraut. Í svari hans frá 30. október 2013 kom fram að ráðgert sé að hefja framkvæmdir við nýbyggingar og endurbætur á húsakosti Landspítalans á þessu kjörtímabili og að unnið sé að endurskoðaðri framkvæmdaáætlun í samstarfi við stjórn nýs Landspítala ohf. og stjórnendur Landspítala. Nú er hálft ár liðið. Það er því tímabært að fá upplýsingar frá ráðherra um hver niðurstaða endurskoðunarinnar sé, enda mikið í húfi. Það vita allir að verkefnið er umfangsmikið, en það er einnig álit þeirra sem best til þekkja að endurnýjun á húsakosti Landspítalans sé forgangsverkefni í heilbrigðismálum á Íslandi. Málið þykir svo aðkallandi að stofnuð hafa verið landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala undir heitinu Spítalinn okkar.

Rökin fyrir endurnýjun húsnæðis eru augljós. Í fyrsta lagi er húsakostur sjúkrahússins gamall og úreltur og sjúkrahúsið er starfrækt á mörgum stöðum með því óhagræði sem því fylgir. Breytingar á tæknistigi heilbrigðisþjónustu kalla á breyttan húsakost. Í öðru lagi er þjóðin að eldast sem veldur því að hlutfallslega fleiri þurfa á flókinni heilbrigðisþjónustu að halda, t.d. vegna krabbameins og hjartasjúkdóma. Í þriðja lagi er erfitt að tryggja öryggi sjúklinga í núverandi húsnæði og skipulagi sjúkrahússins. Einbýli eru fátíð þrátt fyrir að inniliggjandi sjúklingar séu að meðaltali mun veikari en áður og á álagstímum skapast alvarlegt hættuástand því að erfitt er að tryggja sóttvarnir með einangrun sjúklings. Í fjórða lagi eru starfsaðstæður heilbrigðisstarfsmanna víða ömurlegar innan LSH og aðstæður til umönnunar, rannsókna og menntunar óviðunandi. Verkefnið er mjög kostnaðarsamt, kostar rúma 50 milljarða kr. Það er sameiginlegt verkefni okkar að tryggja það fjármagn og hefja framkvæmdir sem allra fyrst. Kostnaðurinn af því að hefjast ekki handa verður að lokum miklu meiri fyrir íslenskt samfélag.

Þess vegna vil ég, herra forseti, spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson:

Hver er niðurstaðan úr endurskoðun á áætlunum fyrir nýbyggingar og endurbætur á húsakosti?



[16:37]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og tek heilshugar undir þau sjónarmið hans og röksemdir fyrir mikilvægi þess að halda áfram því verki að endurnýja húsakost Landspítalans.

Þeirri fyrirspurn sem til mín er beint er best svarað á þann veg að með þeim lögum sem samþykkt voru í mars 2013, sem breyttu þágildandi lögum um Nýja Landspítalann ohf. frá árinu 2010, fylgdi tímasett áætlun um framkvæmdir og kostnað byggingar á Landspítalanum og endurgerð húsakosts hans. Í framhaldi af þeirri fyrirspurn og í tengslum við hana, sem hv. þingmaður nefndi hér, frá hv. þm. Björt Ólafsdóttur, beindi ég þeim tilmælum til stjórnar nýs Landspítala að rýna þær kostnaðar- og tímaáætlanir fyrir byggingu spítalans sem fyrir lágu með þeim tilmælum að kanna hvort hægt væri að áfangaskipta verkefninu frekar en þar var gert, og sýnt hafði verið fram á. Einnig bauð Háskóli Íslands fram aðstoð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands við að skoða kostnað og efnahagslegan ábata af þeim áformum sem þar um ræðir.

Ég tel rétt að bíða þessara tveggja úttekta áður en ákvörðun verður tekin um næstu skref, en ég vil engu að síður vísa til þeirrar ákvörðunar sem Alþingi tók í desember síðastliðnum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2014 þar sem samþykkt var 100 millj. kr. fjárveiting til að halda áfram með fullnaðarhönnun á sjúkrahóteli á lóð Landspítalans við Hringbraut. Allar meginbyggingar eru nú forhannaðar og mér skilst að það nemi um 25% af heildarhönnun, auk þess sem allar skipulagsáætlanir hafa hlotið staðfestingu, þar með talið deiliskipulag fyrir nýbyggingar við Hringbraut.

Þá er einnig rétt að greina frá því við þessa umræðu að við undirbúning fjárlaga fyrir komandi ár mun ég óska eftir fjárveitingu vegna hönnunar á meðferðarkjarna á lóð Landspítalans og sömuleiðis í langtímaáætlun fjárlaga til loka ársins 2018. Þar mun ég sömuleiðis óska eftir fjármunum til hönnunar og undirbúnings á byggingu á nýju sjúkrahúsi.

Ég hef nýlega beint þeim tilmælum til stjórnar Nýja Landspítalans ohf. að halda áfram forvalsverkefninu sem hófst sumarið 2013 og lauk á síðastliðnu hausti þegar valdir voru fimm hönnunarhópar sem fullnægðu hæfnisskilyrðum til að fullhanna sjúkrahótelið. Á næstunni munu þessir fimm hópar fá tækifæri til að taka þátt í lokuðu útboði um fullnaðarhönnun sjúkrahótelsins sem verður um 4 þús. fermetrar að stærð. Gildistími forvalsins er til 21. maí og ætti fullnaðarhönnun sjúkrahótelsins að vera lokið í marsmánuði 2015. Fyrir þann tíma og fyrir umræðu um fjárlög ársins 2015 ættu umræddar úttektir að liggja fyrir þannig að ljóst sé hvort möguleiki sé á að áfangaskipta verkefninu á annan hátt eða vinna það með öðrum hætti.

Ráðherra hefur, samkvæmt þeim lögum sem um þessa framkvæmd gilda, heimild til að ákveða að minnstu byggingarhlutarnir séu boðnir út í formi leiguleiðar, en ljóst er að samkvæmt lögunum, sem samþykkt voru í mars á síðasta ári, er gert ráð fyrir að annars vegar meðferðarkjarninn, sem gera má ráð fyrir að kosti um 37 milljarða, og hins vegar rannsóknarhúsið, sem áætlað er að kosti um 9 milljarða, verði hefðbundnar opinberar framkvæmdir. Þar er um að ræða langstærsta kostnaðarhluta framkvæmdanna, um 80%, og þessum framkvæmdum verður því að finna, að óbreyttum lögum, stað í framkvæmdaáætlun ríkisins til að unnt sé að halda áfram með verkefnið.



[16:42]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að bygging Landspítalans og það verkefni sem er kallað Spítalinn okkar sé eitt af því veigamesta sem liggur fyrir í ríkisfjármálunum. Það gleður mig sannarlega að heyra að hæstv. ráðherra virðist vera að ganga áfram með þetta mál. Það skiptir máli og þetta snýst ekki bara um að hlutirnir séu vondir í dag. Það tekur langan tíma að byggja svona hús. Það er alveg ljóst að við erum öll að eldast og eftir því sem við eldumst vilja fleiri okkar skipta t.d. um liði þannig að þetta snýst ekki bara um hina alvarlegu sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma eða krabbamein. Þetta snýst líka um að halda okkur, þeirri kynslóð sem er að eldast (Forseti hringir.) óðfluga, gangandi við góð (Forseti hringir.) lífsskilyrði fram í tímann.



[16:43]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að taka upp þetta mál um húsakost Landspítalans og spyrja hvað líði endurskoðun á framkvæmdaáætlun nýbyggingar og endurbótum á húsakosti Landspítalans. Um leið vil ég ítreka að ég tel að þetta sé eitt mikilvægasta verkefni okkar Íslendinga á næstu missirum. Það er ekki langur tími sem við höfum til þess að taka ákvörðun og fara í framkvæmdir. Að mínu mati getum við áfangaskipt verkefninu meira en lagt hefur verið til hingað til, ég kemst þó ekki yfir það hér í stuttri athugasemd, en það gerir verkið auðveldara í framkvæmd.

Virðulegi forseti. Á þessum stutta tíma getur maður ekki gert annað en að hvetja hæstv. ráðherra til þess að taka þátt í því með okkur sem viljum berjast fyrir því að framkvæmdir verði hafnar við nýjan Landspítala, eða endurbyggingu hans, fyrir starfsfólk, fyrir okkur sjálf og fyrir framtíðina vegna þess að ekki veitir af.



[16:45]
Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra ítarlega yfirferð og er mjög ánægð með að hann sé að vinna í þessu máli eftir fremsta megni.

Ég vil líka velta því upp hvort ekki sé rétt, nú þegar þessar tvær úttektir liggja fyrir, annars vegar frá Landspítalanum ohf. og hins vegar frá Hagfræðistofnun, að ráðherra gefi hreinlega skýrslu í þinginu. Þetta er það stórt og mikilvægt mál að það er eðlilegt að við fáum tækifæri til að ræða það hér.

Þá vil ég líka segja að ég tel mjög mikilvægt að ríkið reki Landspítalann að öllu leyti. Það er meðal annars í þeim sameiginlega rekstri sem rekstrarhagræðið næst fram. Lögunum var breytt því að það þótti mikilvægt að breyta þessu í ríkisframkvæmd, enda eru staðlar varðandi — nú man ég ekki nafnið, herra forseti, en þegar á að færa slíkt verk í ríkisbókhald telst það ríkisframkvæmd hvernig svo sem verkið er fjármagnað og hvernig sem því vindur fram. Það eru enda engir aðilar til lengri tíma sem mundu taka yfir fjármögnun og rekstur á slíku sjúkrahúsi. Þess vegna þótti eðlilegt að hafa hreinar línur í þessu efni.

Svo vil ég minna á að það var mikil samstaða um þetta mál í þinginu á síðasta kjörtímabili meðal allra þingflokka nema þingflokks Framsóknarflokksins.

Ég vil ítreka við hæstv. heilbrigðisráðherra að hann hefur dyggan stuðning hér, a.m.k. frá tveimur stærstu flokkunum í minni hluta, Samfylkingu og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem lögðu mikið á sig til að ná (Forseti hringir.) þessum málum áfram rétt eftir hrun.



[16:47]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur átt sér stað. Í ljósi síðustu orða hv. fyrirspyrjanda vil ég lýsa því sömuleiðis yfir að Framsóknarflokkurinn og þeir ágætu þingmenn og ráðherrar sem ég hef rætt þessi mál við eru mjög áfram um að treysta undirstöður starfseminnar sem Landspítala okkar er ætlað að veita, þessu þjóðarsjúkrahúsi. Ég held að það sé mjög skýr og einbeittur vilji alls þingheims til þess að koma málum til betri vegar á þjóðarsjúkrahúsinu. Ég tel það raunar endurspeglast í því þegar Alþingi samþykkti, í þeirri þröngu stöðu sem var við gerð fjárlaga fyrir árið 2014, að halda verkefninu lifandi þrátt fyrir erfiðleika við fjármögnun ýmissa verkefna og hélt því lifandi með því að veita fjármuni áfram til þess að halda áfram hönnunarþætti einnar byggingarinnar sem hugsuð er í þessu stóra samhengi, sem er sjúkrahótelið.

Vandinn við þetta verkefni er ekki sá að ekki séu til fjármunir í samfélaginu heldur er vandinn sá að koma því í skynsamlegan farveg hvernig ríkissjóður ætlar að fjármagna kostnað sem af verkefninu hlýst. Ég hef lýst því yfir sjálfur að við förum ekki að hagræða í starfsemi heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi upp á 2, 3, 4 milljarða til að greiða af afborgun lána við þetta verkefni. Það er ekki veruleikinn. Við þurfum að leita annarra leiða til að standa straum af þeim stofnkostnaði sem þarna um ræðir.

Ég vil undirstrika það undir lok ræðu minnar að ég þigg allan stuðning við þetta verkefni og lýsi yfir sérstakri ánægju með það að þingmenn eru mjög samhuga í því að reyna að koma þessum málum til betri vegar. Ég treysti því og trúi að okkur muni auðnast það og skal glaður gefa þinginu yfirlit yfir þá áfanga sem í þessu verki verða, hvenær svo sem það kemur inn á mitt borð, ég skal gera það með ánægju.