143. löggjafarþing — 99. fundur
 29. apríl 2014.
tilkynning um dagskrártillögu.

[13:34]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseta barst í gær dagskrártillaga sem er svohljóðandi:

„Ég undirritaður geri það að tillögu minni, í samræmi við 1. mgr. 77. gr. þingskapalaga, að síðasta mál á dagskrá næsta fundar verði eftirfarandi þingmál:

1. Vistkerfi fyrir hagnýtingu internetsins og réttindavernd netnotenda. 502. mál, þingsályktunartillaga, Jón Þór Ólafsson. Fyrri umræða.

Ég óska eftir því að þessi tillaga verði borin upp til afgreiðslu í samræmi við áðurnefnda grein þingskapa.“

Undir þetta bréf ritar Jón Þór Ólafsson.

Fer nú fram atkvæðagreiðsla um tillöguna.



[13:34]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um dagskrártillögu um þingmál sem varðar ríka almannahagsmuni og almenn sátt ríkir um að fari aftast á dagskrá þingfundar í dag og svo órætt til nefndar til að það komist í umsagnarferli.

Þetta kostar þingið eina mínútu í lok þingfundar og þingnefnd kannski tvær mínútur. Rannsóknir McKinseys, Boston Consulting Group og World Economic Forum eru afdráttarlausar. Þetta þingmál mun kalla eftir vinnu sem mun efla atvinnulífið, fjölga störfum, hækka laun, auka hagvöxt, bæta menntun, lækka útgjöld hins opinbera, styrkja langtímasamkeppnishæfni og auka samfélagslega velferð, sem allt styður við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar enda styður viðskiptaráðherra málið ásamt þingmönnum úr öllum flokkum, þar með talinn formaður atvinnuveganefndar sem málið gengur til.

Ég kalla því eftir að við greiðum atkvæði um þetta og notum jafnvel þá vinnureglu í framtíðinni að hleypa málum sem almenn sátt ríkir um og varða ríka almannahagsmuni til nefndar og í umsagnarferli þannig að við nýtum þá verkferla (Forseti hringir.) til að geta unnið málin betur í framtíðinni.



[13:36]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það mál sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson leggur hér fram og biður um að hafi þann forgang sem hann óskar eftir er mál sem er vert að taka áfram innan þingsins. Við erum hins vegar á þeim stað í þingstörfum hér og nú að við erum með mörg mál í nefndum, mikilvæg mál sem varða líka almannahagsmuni, og þess vegna tel ég ekki ástæðu til að fara þessa leið núna með þetta mál.

Ég ítreka þó, virðulegur forseti, að málið er þarft og brýnt og því fyrr sem það kemur inn til almennrar umræðu og sem þingmál, því betra. Málið styð ég en ég get ekki stutt að við tökum það fyrir á þessum tímapunkti í ljósi þeirra mörgu mikilvægu mála sem varða almannahagsmuni. Ég sé heldur ekki að sá umsagnarfrestur sem málið þyrfti að falla í næði til þess að hægt væri að taka það til síðari umr. og atkvæðagreiðslu.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:39]

Dagskrártillaga  felld með 18:3 atkv. og sögðu

  já:  BirgJ,  JÞÓ,  PVB.
nei:  ÁsF,  BÁ,  BN,  EKG,  ElH,  HarB,  JónG,  KG,  LínS,  PJP,  PHB,  RR,  SigrM,  ValG,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
17 þm. (BjG,  BSB,  ELA,  FSigurj,  HHG,  HHj,  JMS,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  SilG,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
25 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  BjarnB,  BjÓ,  BP,  EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  HE,  HöskÞ,  IllG,  KÞJ,  ÓP,  REÁ,  SDG,  SII,  SIJ,  UBK,  VigH,  VilÁ,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[13:38]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu erum við að greiða atkvæði um að ákveðið mál fari órætt til nefndar. Það kostar eina mínútu. Það er hefð fyrir því að nota þetta fyrirkomulag. Þá er mál sett á dagskrá í lok þingfundar. Svo fer ein mínúta í að þingforseti lesi upp að það fari órætt í nefnd. Þar tekur það kannski tvær mínútur fyrir formann nefndar að segja: Ég vil fá þetta mál í umsagnarferli. Og þá er kallað eftir umsögnum utan úr bæ. Umsagnirnar safnast saman þannig að það verður hægt að vinna þetta mál betur í sumar. Þannig er hægt að svara umsögnunum og gera ferlið faglegra í sumar og leggja málið síðan aftur fram í haust.

Við erum að fara að ræða 4. dagskrármálið í dag, um opinber fjármál, sem er til 1. umr. og verður ekki klárað núna heldur á einmitt að fara í umsagnarferli í nefnd. Það verður ekkert rætt í nefndinni, fer bara í umsagnarferli þannig að hægt sé að fá umsagnirnar núna og vinna að málinu í sumar.

Ég greiði atkvæði með málinu.