143. löggjafarþing — 101. fundur
 30. apríl 2014.
lækkun væntingavísitölu.

[15:04]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í dag bárust fréttir um væntingavísitölu Gallups sem tók óvænta dýfu í aprílmánuði. Þær niðurstöður sem mesta athygli vekja í fregnum af þróun væntingavísitölu eru að aukinnar svartsýni gætir fyrst og fremst meðal þeirra sem eru í tekjulægsta hópi íslensks samfélags.

Farið er nokkuð nákvæmlega yfir þetta í fréttum. Þar hefur svartsýnin hjá tekjulægsta hópnum aukist verulega. Þannig mældist undirvísitala fyrir svarendur með tekjur undir 250 þús. kr. á mánuði 48 stig nú í apríl, samanborið við 93,4 stig í mars. Vísitalan hrapar því um 45 stig milli mánaða. Á sama tíma lækkar undirvísitala þeirra sem hafa tekjur yfir 550 þús. kr. á mánuði um tæp 14 stig og fer niður í 98,9 stig. Þarna sjáum við dálítið merkilega þróun og hún vekur spurningar: Af hverju hrapa væntingar þeirra sem eru í tekjulægsta hópnum?

Ástæða þess að mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um þetta er sú að ójöfnuður er eitt helsta viðfangsefni stjórnmála samtímans. Það á við ekki bara hér á Íslandi heldur um heim allan. Þróunin, sérstaklega í vestrænu ríkjunum og Bandaríkjunum auðvitað, hefur verið sú að auður hefur færst á æ færri hendur þannig að sú þróun sem sjá mátti í vestrænum ríkjum á árunum 1945–1980 í átt til aukins jafnaðar hefur gerbreyst. Þó að jöfnuður hafi aukist á Íslandi á síðustu árum, ekki síst vegna ýmissa aðgerða sem var gripið til af hálfu fyrri ríkisstjórnar í skattkerfinu og víðar, velti ég fyrir mér hvort þetta hrap væntinga tekjulægsta hópsins sýni að menn hafi áhyggjur af því að ójöfnuður sé að aukast.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi áhyggjur af þessari þróun og hvort hann telji það mjög mikilvægt að stjórnvöld setji sér einhver markmið sem þau vilja ná hvað varðar jöfnuð í samfélaginu. (Forseti hringir.)



[15:06]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Væntingar fólks byggjast oft og tíðum á umræðunni, á því sem þeim er sagt. Ég óttast því að ræða eins og hv. þingmaður flutti hér sé ekki til þess fallin að skapa miklar jákvæðar væntingar hjá þeim tekjulægstu. Ef við hins vegar lítum á staðreyndirnar hafa þeir þrátt fyrir allt ástæðu til að gleðjast yfir því að hér sé komin ný ríkisstjórn vegna þess að nú er ójöfnuður á Íslandi minni en hann var nokkurn tímann á síðasta kjörtímabili. Hann hefur verið að þróast mjög í rétta átt. Augljóslega jókst jöfnuður við það að tekjuhæstu hóparnir misstu töluvert af tekjum sínum vegna bankahrunsins, en nú sjáum við áframhald á þeirri þróun í tíð þessarar ríkisstjórnar þar sem ójöfnuður er nú orðinn sá minnsti að minnsta kosti frá árinu 2005.

Ef við berum okkur saman við önnur lönd er hlutfall barnafátæktar það fjórða lægsta í heimi á Íslandi og Gini-stuðullinn margnefndi er með því sem best gerist í heiminum. Það þýðir ekki að menn geti leyft sér að vera værukærir. Svona árangur næst ekki nema menn gæti þess að bæta stöðugt kjör þeirra lægst launuðu og enn er allt of stór hópur í íslensku samfélagi sem býr við allt of lök kjör. Þessi ríkisstjórn mun einbeita sér að því að halda áfram að bæta þau kjör.

Reyndar bötnuðu kjör þeirra lægst launuðu alveg sérstaklega síðast þegar þessir tveir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, voru við stjórnvölinn. Í 12 ár jókst kaupmáttur verkamanna á Íslandi, frá árinu 1995–2007, ár eftir ár eftir ár. Það er eina skiptið í Íslandssögunni sem hefur eingöngu verið kaupmáttaraukning ár eftir ár eftir ár.



[15:09]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að hæstv. forsætisráðherra haldi að það að taka til umræðu viðfangsefni stjórnmálanna, það að ég sem hv. þingmaður leyfi mér að taka til umræðu helstu viðfangsefni stjórnmálanna, jöfnuð og ójöfnuð, hafi þau áhrif að væntingavísitala tekjulægsta hópsins hrapi. Mér fannst hæstv. forsætisráðherra gefa það í skyn hér að það væru ræður eins og þær sem ég flutti hér áðan, tveggja mínútna ræða þar sem ég spyr hæstv. forsætisráðherra afar kurteislega hvaða markmið hann hefur um að auka jöfnuð í samfélaginu, og það að leyfa sér að hafa skoðun á málum og ræða málin, sem verði til þess að væntingavísitalan hrapi. Þetta finnst mér ekki trúverðugur málflutningur.

Ég verð þá að segja það sem hæstv. forsætisráðherra kom ekki að í svari sínu að vissulega er það rétt að margt sem síðasta ríkisstjórn gerði varð til þess að auka jöfnuð. Að sjálfsögðu vonumst við til þess að sú þróun haldi áfram. Ég hef þó áhyggjur af því að þær breytingar sem hafa verið boðaðar, ég nefni bara niðurfellingu á auðlegðarskatti sem dæmi, gætu orðið til þess að ójöfnuður ykist á nýjan leik (Forseti hringir.) eins og hann gerði í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, síðast þegar þeir flokkar voru saman í ríkisstjórn. Það sem gerðist þá var einmitt að ójöfnuður jókst(Forseti hringir.) … eins og allar tölur sýna.



[15:10]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er rétt að geta þess að núverandi ríkisstjórn gerði engar breytingar á áformum síðustu ríkisstjórnar um auðlegðarskatt. Það er ekki heldur rétt sem hv. þingmaður heldur fram, að ég sé að setja út á það að hún taki þessi mál til umræðu. Þvert á mót tel ég mjög æskilegt að menn ræði sem mest um stöðu þeirra sem standa verst að vígi efnahagslega vegna þess að eingöngu með umræðu um vandann er hægt að leysa hann.

En það er ekki hægt að leysa vandann nema með því að nálgast hann út frá staðreyndum. Sem betur fer er staðreyndin sú að frá því að þessi ríkisstjórn tók við hefur dregið úr ójöfnuði á Íslandi. Það er sama hvaða mælikvarði er lagður á það. Þess vegna get ég svarað spurningu hv. þingmanns um markmið ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar á þann hátt að markmiðið er að sjálfsögðu að halda áfram að ná árangri við að draga úr ójöfnuði eins og ríkisstjórnin hefur gert á fyrsta ári sínu í embætti og sagan sýnir að það má ætla að verulegur árangur muni nást í því áfram. Því hafa menn ástæðu til að vera bjartsýnir.