143. löggjafarþing — 107. fundur
 9. maí 2014.
skráning upplýsinga um umgengnisforeldra, síðari umræða.
þáltill. GStein o.fl., 71. mál. — Þskj. 71, nál. m. brtt. 915.

[17:29]
Frsm. velfn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef hér framsögu fyrir nefndaráliti frá hv. velferðarnefnd, sameiginlegu nefndaráliti allra nefndarmanna, um tillögu til þingsályktunar um skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra. Þetta er tillaga sem flutt er af þingflokki Bjartrar framtíðar undir forustu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Framögumaður á þessu máli átti að vera Björt Ólafsdóttir en vegna fjarveru hennar flyt ég nefndarálitið með breytingartillögu.

Með tillögunni var í upphafi lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að sjá til þess að haldin yrði skrá um sögulegt yfirlit yfir umgengnisforeldra, fjölda þeirra, kyn, hjúskaparstöðu og fjölda barna þeirra. Slík skráning upplýsinga hæfist eigi síðar en 1. janúar 2015. Þannig var tillagan. Gestir og umsagnaraðilar nefndarinnar voru almennt jákvæðir um efni tillögunnar og lýsa sig flestir samþykkir henni.

Markmið tillögunnar er að bæta almannaskráningu hér á landi þannig að í þeim opinberu skrám sem haldnar eru verði skráðar allar nauðsynlegar upplýsingar um fjölskyldumynstur landsmanna. Skráning upplýsinga um umgengnisforeldra er í lamasessi hér á landi sem lýsir sér í því að í allri opinberri skráningu eru umgengnisforeldrar skráðir barnlausir. Þessir foreldrar fara iðulega með forsjá barna sinna ásamt hinu foreldrinu og oft hefur barnið jafna búsetu hjá báðum foreldrum en öll opinber skráning tengd barninu fylgir hins vegar lögheimili þess og þar af leiðandi því foreldri sem barnið á lögheimili hjá. Það má segja að þetta sé barátta fyrir því að vera til í kerfinu, ef maður getur orðað það svo.

Fyrir nefndinni kom fram að aukin skráning hvað þessi atriði varðar væri af hinu góða. Þjóðskrárkerfið er orðið verulega gamalt og býður upp á mjög takmarkaða skráningarmöguleika. Leiða má líkur að því að kerfið sé stór þáttur í ástæðu þess að vantað hefur upp á skráningu. Upplýsingar um fjölskyldustærð og fjölskyldusamsetningu eru til að mynda ekki skráðar í þjóðskrárkerfið þótt þessar upplýsingar liggi fyrir hjá Þjóðskrá Íslands. Í greinargerð tillögunnar kemur fram að rétt sé að skoða aðkomu Þjóðskrár að verkefninu á þann hátt að stofnunin skrái upplýsingarnar sem um ræðir en unnið verði úr þeim á hagrænan máta af Hagstofu Íslands. Þjóðskrá Íslands og Hagstofa Íslands taka undir þetta sjónarmið og bendir nefndin á að rétt sé að taka tillit til þess.

Nefndin telur rétt að umorða tillögugreinina þannig að markmið tillögunnar verði skýrara. Ljóst er að þær upplýsingar sem lagt er til að skráðar verði eru nú þegar skráðar að miklu leyti en skila sér þó ekki, eins og fram hefur komið, í þá almannaskráningu sem Þjóðskrá Íslands vinnur á grundvelli laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962.

Nefndin leggur fram eftirfarandi breytingartillögu:

„Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í almannaskráningu á Íslandi verði skráðar nauðsynlegar upplýsingar um umgengnisforeldra til jafns við aðra foreldra svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 1. janúar 2016.“

Þeir sem skrifa undir nefndarálitið eru hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður, hv. þm. Björt Ólafsdóttir framsögumaður, sem ég leysi nú af, hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, hv. þingmaður sem hér stendur, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Hv. þingmenn Elín Hirst og Páll Jóhann Pálsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þetta mál hangir saman við það mál sem við vorum með hér á undan, 19. mál á dagskrá, um jafnt búsetuform barna, þ.e. bæði þessi mál fjalla um réttindi barna. Þetta tengist meira, eins og ég sagði áðan, réttinum til að vera til í kerfinu. Það kom náttúrlega líka fram og er gríðarlega mikilvægt, því að við erum oft að ræða hér um heimili og hagsmuni heimilanna og að þjóna fjölskyldum, að oft talar maður eins og fjölskyldurnar séu allar í gamla forminu, tveir fullorðnir, þ.e. hjón, með eitt eða tvö börn, en veruleikinn er allt annar. Fjölskylduformið er miklu, miklu fjölbreyttara en það og sennilega er algengasta búsetuformið einhleypir eða einstæðir foreldrar. Þess vegna er mjög mikilvægt þegar verið er að vinna tölfræði um heimilin og afkomu þeirra og ég tala nú ekki um aðstöðu og annað slíkt að til séu upplýsingar um það.

Það kom einmitt fram hjá nefndinni að einstakir foreldrar, sem hafa umgengnisrétt og jafnvel jafnan umgengnisrétt við börn sín, hafa staðið í þrætum þegar þeir hafa sótt um lán eða einhver ákveðin réttindi vegna þess að menn líta í Þjóðskrána og segja: Nei, þú er einstæður, þú ert ekki með barn, það er ekkert barn með þetta lögheimili. Þá kemur það hvergi fram í neinum upplýsingum að viðkomandi er með forræði yfir börnunum að hálfu og börnin dvelja á þessu heimili að hálfu en lögheimilið er skráð annars staðar.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég tók það kannski ekki fram í fyrri umræðu en við erum í þessum tveimur málum að afgreiða þingsályktunartillögur. Hér er um að ræða síðari umræðu og það er ánægjulegt að þetta komi til atkvæðagreiðslu eftir umræður í dag, strax eftir helgina. Eins og ég segi þá er hluti af þeim fimm málum sem eru á dagskrá í dag þingmannamál sem verða vonandi afgreidd á þessu vorþingi.



[17:36]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu um skráningu umgengnisforeldra og hér á undan var mælt fyrir nefndaráliti um þingsályktunartillögu um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Óhjákvæmilega tengjast þessi mál þó nokkuð og mig langar að leggja nokkur orð í belg, blanda þessu kannski hvorutveggja þar sem ég náði ekki að vera við umræðuna í málinu hér á undan um jafnt búsetuform.

Tillagan um skráningu umgengnisforeldra gengur út á að haldin verði skrá og sögulegt yfirlit yfir umgengnisforeldra, fjölda þeirra, kyn, hjúskaparstöðu og fjölda barna þeirra. Það hefur auðvitað komið skýrt fram fyrir nefndinni að bæta þurfi almannaskráningu í landinu, að það sé mjög brýnt, og að allar nauðsynlegar upplýsingar um fjölskyldumynstur landsmanna liggi fyrir. Það hefur breyst mikið í gegnum árin og er mjög brýnt að það liggi fyrir þar sem það er aðgengilegt. Þetta skráningarkerfi, eins og það er í dag, er því miður í miklum lamasessi, og eins og kom fram hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni hér á undan þá eru, í opinberri skráningu, umgengnisforeldrar skráðir barnlausir og því er öll aukin skráning og utanumhald af því góða fyrir alla aðila og líka réttindi þeirra foreldra sem eru umgengnisforeldrar, það þarf að styðja við eðlilega kröfu þeirra til meiri réttar í kerfinu frá því sem nú er.

Sú umræða er mjög sterk og var málþing um það í dag í Háskóla Íslands að skoða þyrfti þessi mál frá öllum hliðum, jafnt rétt barnsins til umgengni við báða foreldra og líka rétt foreldranna sín á milli eftir skilnað, hvernig opinberum stuðningi er háttað, hvort hann sé eingöngu, eins og er í dag, bundinn lögheimili barnsins eða hvort endurskoða þurfi það miðað við breyttar þjóðfélagsaðstæður og aukna þátttöku feðra í uppeldi barna sinna, þeir vilja koma að því uppeldi áfram þó að skilnaður verði á milli foreldra. Ég tel að skoða þurfi vel allan þann aðstöðumun sem kann að vera á milli foreldra eftir skilnað í dag og horfa til stuðnings frá almannatryggingakerfinu til foreldra. Sem betur fer vilja flestir foreldrar að sameiginleg forsjá verði með barni og það er skylt að byrja á því að fara sáttaleiðina, sem ég tel vera mjög mikilvægt svo að vel vinnist úr málum í framhaldi af skilnaði gagnvart barninu og öllum samskiptum.

Það kom líka fram í umræðunni áðan að upplýsingagjöf til foreldra getur verið mjög misjöfn eftir því hvar barnið á lögheimili, upplýsingarnar koma á það heimili sem lögheimili barnsins er. Ég tel líka mjög mikilvægt að það sem verið er að skoða um að jafna þetta búsetuform — það hefur auðvitað verið í umræðunni að hægt væri að hafa tvö lögheimili, sem ég held að geti nú verið ansi snúið og flækt stöðu barnsins — en hvernig sem það endar þarf að hafa að leiðarljósi, við þær breytingar sem hugsanlega verða gerðar á kerfinu, að hagsmunir barnsins verði alltaf ofan á og það verði jákvætt fyrir barnið sjálft hvernig þær breytingar verði til þess að jafna rétt milli foreldra eftir skilnað. Það er líka mjög mikilvægt að þessi samfella sé í lífi barnsins sem mest og best eftir skilnað þegar horft er til þess að jafna aðstöðumun foreldra varðandi búsetuformið.

Þetta vildi ég segja í þessari umræðu og blandaði aðeins saman hinu fyrra máli sem lá hér undir og var mælt fyrir áðan þar sem ég náði ekki að koma í umræðuna þá. Ég styð heils hugar bæði þessi mál og tel að þetta sé sameiginlegt verkefni okkar, hvar sem við stöndum í pólitíkinni, að vinna vel úr miðað við breyttar aðstæður varðandi fjölskylduform og alltaf með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.



[17:43]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við hv. þingmenn drögum ályktanir af ýmsum opinberum gögnum um þetta og hitt en þau eru því miður ekki alltaf rétt, það er ákveðin kerfisvilla í þessum gögnum. Til dæmis má telja að námsmenn sem fá lánað fyrir framfærslu sinni raði sér í neðstu tíund tekjulágra, þ.e. þeir eru yfirleitt með mjög lágar tekjur af því að þeir fá lánað fyrir framfærslu sinni og eru að stunda nám og nú er fjöldinn orðinn það mikill að ég hugsa að þeir fylli upp í lægstu tíund þegar tekjur einstaklinga eru athugaðar. Síðan gerist það líka að þeir fá námslán sem er skuld í skattframtali, en það er engin eign á móti. Auknar tekjur á móti í framtíðinni koma ekki fram sem eign, eftir því sem þjóðin menntar sig meira þeim mun verri verður skuldsetning heimilanna. Fyrir utan það að það skekkir líka Gini-stuðulinn, merkilegt nokk, því að eftir því sem menn mennta sig lengur og eyða stærri hluta af ævinni í menntun, þeim mun lægri tekjur hafa þeir á því tímabili, þeim mun hærri tekjur hafa þeir seinna og þá vex Gini-stuðullinn sem mörgum þykir slæmt að sé hár.

Hér erum við að ræða eitt viðfangsefni í viðbót. Það er það að ákveðinn hópur, aðallega karlmenn, lendir í því að borga meðlög með börnum en eru ekki taldir sem foreldrar þeirra. Nú er það þannig að hjónum er ekkert bannað að eiga þrjú börn á Íslandi og það er heldur ekki bannað fyrir þau sömu hjón að skilja. Yfirleitt gerist það þannig, því miður, að konan fær forræðið fyrir börnunum, það bara er þannig, hvort sem menn eru sáttir við það eða ekki, og karlmaðurinn situr uppi með að borga meðlag með þremur börnum sem getur orðið umtalsvert, um 80 þús. kr. á mánuði ef það er einfalt meðlag, ég er ekki að tala um tvöfalt meðlag sem líka er til í dæminu. Yfirleitt gengur það þokkalega og ef umræddur maður verður atvinnulaus, sem er heldur ekki bannað, fær hann lítils háttar greitt með hverju barni, engan veginn sem svarar meðlaginu. Mér reiknast svo til að hann sé með um 80 þús. kr. á mánuði til ráðstöfunar eftir skatt fyrir sjálfan sig og allar sínar þarfir, húsnæði og allt. Það gengur eiginlega ekki upp. Ég held að velflestir, herra forseti, séu sammála því að það gangi ekki upp.

Afleiðingin er sú að margir slíkir menn lenda í þeirri stöðu að þeir geta ekki unnið hvítt, þ.e. þeir verða að vinna með svartar tekjur bara vegna þess hvernig kerfið er uppbyggt.

Þetta er eitthvað sem ég held að hv. þingmenn þurfi að skoða, en þeir hafa ekki skoðað það hingað til vegna þess að þessar upplýsingar liggja ekki fyrir. Það liggur ekki fyrir hverjir borga meðlag, hverjir eru í þeirri stöðu að vera foreldrar barna sem þeir hafa ekki forsjá fyrir, hafa ekki sama lögheimili og börnin. Þar af leiðandi detta þeir bara út úr allri tölfræði. Þetta er eitthvað sem ég held að þetta frumvarp lagi og ég er mjög hlynntur því og ég vil að menn sýni sem réttasta tölfræði til að umræðan verði rétt.

Ég tel mjög brýnt að taka á vanda þessara foreldra, oftast karlmanna, sem eru að greiða meðlög og oft umtalsvert mikið og þeir geti jafnvel verið að fá meðlög á sama tíma. Þeir geta hafa stofnað nýja fjölskyldu og sú fjölskylda fær meðlag, en eru á sama tíma að greiða meðlög. Þetta er ekkert einfalt mál. Nú er það þannig að meðlagið er síst of hátt. Það er ekki of hátt, það er ekki helmingurinn af framfærslu barnsins sem það á að vera.

Þetta er því vandmeðfarið vandamál, en við þurfum alla vega að fjalla um það. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga sé mjög góð til að varpa ljósi á þennan vanda.