143. löggjafarþing — 108. fundur
 12. maí 2014.
breyttir skilmálar á skuldabréfi Landsbankans.

[10:42]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nýlega var endursamið um skuldabréf Landsbankans og það lengt, sem var mikilvægt, en það vekur athygli að um leið var samið um hærri vexti á láninu en samið var um í þeirri erfiðu stöðu sem Ísland var í árið 2009. Nú hefur komið fram opinberlega frá hæstv. velferðarráðherra að ekki eigi að líta einangrað á þetta eina mál heldur þurfi að takast á við verkefnin við að losa gjaldeyrishöftin í heild sinni. Fram kom í morgun áskorun frá einum af umsvifamestu fjárfestum landsins á fjármálaráðherra og Seðlabankann að leggjast gegn þessari skilmálabreytingu því að það væri bara verið að lengja í ólinni með hærri vöxtum.

Ég spyr þess vegna hæstv. fjármálaráðherra um afstöðu hans til skilmálabreytingarinnar og þá einnig hvort stjórnarflokkarnir séu samstiga í þeirri afstöðu og um leið hvers vegna skilmálabreytingin hafi ekki verið rædd á þeim samráðsvettvangi sem stjórnmálaflokkarnir sammæltust um að skyldi vera um meiri háttar ákvarðanir er varða losun gjaldeyrishafta. Þá á ég bæði við nefndina sem allir stjórnmálaflokkar hafa sérstaklega tilnefnt fulltrúa í til að hafa slíkt samráð og sömuleiðis efnahags- og viðskiptanefnd sem mér er ekki kunnugt um að hafi með neinum hætti fjallað um þá breytingu sem nú liggur fyrir.

En fyrst og fremst: Hver er afstaða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til þessarar skilmálabreytingar? Hvað skýrir það að Ísland fái lakari vaxtakjör í þessum samningi en þó náðist árið 2009 þegar lánshæfi Íslands var miklu verra en nú er og þegar aðgengi okkar að alþjóðlegum lánsfjármörkuðum var ekkert ólíkt því sem nú er? Hvers vegna er samið um lakari vaxtakjör, hæstv. fjármálaráðherra?



[10:44]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi aðkomu ráðuneytis og þings og eftir atvikum samráðshóps stjórnmálaflokkanna vegna afnáms gjaldeyrishaftanna þá var aðkoma ráðuneytisins engin að endurgerð skilmála þessa Landsbankabréfs, enda hefur bankinn eigin stjórn og stjórnendur bankans taka í samvinnu við stjórnina ákvörðun um gerð lánasamninga og skilmála þeirra sem þeir fylgja.

Það gerist hins vegar í þessu máli að lánveitandinn, hinn gamli Landsbanki, setur þann fyrirvara við skilmálabreytinguna að undanþágur fáist frá gjaldeyrishöftunum og Landsbankinn er ekki í neinni stöðu til að semja um slíkar undanþágur og þær hafa ekki verið til umræðu í fjármálaráðuneytinu og þess vegna ekki í þinginu eða á þessum samráðsvettvangi þar sem greinilegt er að lagt var upp með að það gerðist á síðari stigum.

Hvers vegna eru kjörin eins og þau eru? Það er ekki gott að svara því. Það er a.m.k. ljóst að það voru mjög sérstakar aðstæður þegar um þetta bréf var samið og kannski ekki um hefðbundna fjármögnun að ræða fyrir nýja Landsbankann á þeim tíma. Hins vegar ber að athuga það að nýja Landsbankanum er hvenær sem er heimilt að greiða þetta lán upp að fullu fái hann betri kjör annars staðar. Að öðru leyti get ég ekki tjáð mig um hversu hagstætt eða óhagstætt það er fyrir bankann að búa við þau kjör sem þarna er um að ræða. Aðalatriðið er að þegar kemur að ákvörðunum sem snúa að því hvernig við tökum skref í átt að afnámi hafta þá sé hvert og eitt skref í takt við ákveðna heildaráætlun. Það verður verkefni okkar í framhaldinu að tryggja að engar ákvarðanir verði teknar í þessu máli sem gera okkur erfiðara fyrir með síðari (Forseti hringir.) stig málsins hvað varðar afnám gjaldeyrishaftanna.



[10:46]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið og skil það þannig að ríkisstjórnin hafi ekki lagt blessun sína yfir þessar skilmálabreytingar eða gefið neinn ádrátt um undanþágur frá gjaldeyrishöftum þeirra vegna, að slík undanþága komi inn á þann samráðsvettvang sem komið hefur verið upp til að fjalla um slíkar undanþágur og að það sé afstaða fjármálaráðherra eins og hæstv. velferðarráðherra að ekki sé hægt að afgreiða einn hluta vandans án þess að hinir hlutar vandans séu undir um leið, þ.e. það þurfi að vera heildarlausn fyrir hendi á uppgjöri föllnu bankanna til að hægt sé að taka þessi skref.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki rétt skilið að hann telji nauðsynlegt að við séum með heildarlausn á borðinu til að afgreiða jafn stórt mál og þetta og eins hvort honum þyki það ekki einkennilegt við fyrstu sýn honum að vaxtakjörin í þessu máli séu lakari en þau voru árið 2009.



[10:47]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Gerð var lagabreyting fyrir nokkrum missirum þar sem fjárhæðir sem áttu að fá undanþágu frá gjaldeyrishöftunum voru færðar inn í lögin, þ.e. ákveðnar viðmiðunarfjárhæðir. Í þessu máli er nokkuð ljóst að þær eiga við. Það þýðir að það þarf aðkomu fjármálaráðuenytisins. Það þýðir líka að það mun þurfa samráð við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Við erum ekki enn komin á það stig.

Þarf heildarplan? Já, sé ekki til staðar lausn fyrir aðra þætti í losun gjaldeyrishafta þarf a.m.k. að liggja fyrir að það sem gert verður í þessu máli eða öðrum falli að slíku heildarplani þannig að menn sitji ekki eftir með stærri vanda en ella hefði verið eða slæmt fordæmi sem ekki væri hægt að fylgja eftir gagnvart öðrum. (Forseti hringir.)

Varðandi vaxtakjörin ítreka ég það sem ég sagði áður að ég tel að það hafi verið undir mjög óeðlilegum kringumstæðum sem samið var um (Forseti hringir.) þetta á sínum tíma. Þetta voru kannski ekki hefðbundin viðskiptakjör, en bankanum verður frjálst að gera þetta lán upp hvenær sem er ef ég hef skilið skilmálana rétt.