143. löggjafarþing — 108. fundur
 12. maí 2014.
myglusveppur og tjón af völdum hans, frh. síðari umræðu.
þáltill. KLM o.fl., 96. mál. — Þskj. 99, nál. 695.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:48]

[11:43]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Um þetta mál ríkti mjög góð samstaða í nefndinni og sömuleiðis eru skilaboðin til ráðherra mjög skýr í sjálfri tillögunni og greinargerð með henni og einnig í nefndaráliti. Það er kannski fullbratt að ætlast til þess að nefndin skili niðurstöðu 1. júlí nk., eins og segir í tillögugreininni, en ástæðan fyrir því að það stendur þarna enn er sú að það er þó nokkuð síðan nefndin afgreiddi málið áður en það kom til umræðu í þinginu. Það skýrir hvers vegna þessu var ekki breytt. Því kom það fram í máli mínu sem framsögumanns málsins við umræðuna að við teljum eðlilegt að ráðherrann og nefndin sem hann skipar fái tíma til áramóta til að ljúka verkinu svo að áfram sé gert ráð fyrir sama tíma og nefndin hafi ráðgert til vinnunnar.

Hæstv. ráðherra mun án efa skipa þessa nefnd hratt og vel og þess vegna tel ég að sá tími eigi eftir að nýtast vel og duga vel.



[11:44]
Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að fagna því að þessi tillaga skuli vera komin til atkvæðagreiðslu um leið og ég þakka umhverfis- og samgöngunefnd fyrir að taka hana svona í gegn.

Það er rétt að þetta er merkileg tillaga sem allt of lítið hefur verið hugsað um, þ.e. þann vágest sem myglusveppir eru, sem hafa m.a. bankað upp á Landspítala, í velferðarráðuneyti, á Alþingisreitnum og fleiri stöðum. Þetta er líka mjög mikið fjárhagslegt tjón hjá fólki. Ég hef áður sagt það, virðulegi forseti, að brenni hús til grunna þá bætist það af brunatryggingu, en þurfi fólk hins vegar að rífa hús sitt út af þessum vágesti og jafnvel með öllum innanstokksmunum og þess vegna fötum þá bætist ekkert og fólkið situr eftir með tjónið.

Þetta er mikilvægt mál og því hvet ég hæstv. ráðherra — ég þykist þess fullviss þegar ég sé hann standa upp að hann ætli að koma í ræðustól og lýsa því yfir að nefndin verði skipuð á næstu dögum og hún vinni hratt og vel og við alþingismenn fáum þá ef til vill breytingartillögur hingað inn um það sem við þurfum að taka á, eins og tryggingamálum o.fl., og samþykkjum þær tillögur sem þarf í framhaldi af þeirri miklu nefndarvinnu sem fram undan er.

Ég ítreka þakkir mínar til þingmanna um samþykkt þessarar tillögu.



[11:45]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka frumkvæði þingmanna og þá samstöðu sem hefur verið um þetta mál. Það þekkja allir umræðuna síðustu ár um skaðsemi myglusvepps á íbúðarhúsnæði sem og atvinnuhúsnæði. Það er mikilvægt að gera þetta. Ég gleðst yfir því að nefndin rýmki tímamörkin úr sex vikum í sex mánuði, ég held að það veiti ekkert af því. Það mun ekki standa á því að skipa þennan starfshóp hratt og vel og að hann skili tillögum sínum á tilætluðum tíma.



[11:46]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að fara af stað með þetta mál og þeim þingmönnum sem eru á tillögunni. Þetta er alveg ofboðslega mikilvægt mál sem er loksins að komast inn í umræðuna. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er búin að taka saman hversu slæm heilbrigðisáhrif þetta hefur á heilsu fólks og þau vara áfram þó að myglan grasseri ekki lengur. Gróin eru í loftinu, eiturefni sem myglusveppurinn gefur frá sér eru enn að skila sér út.

Við þekkjum það á skrifstofu Pírata að þar er mygla og hefur haft slæmar heilsufarsafleiðingar hjá okkur. Þetta er skrifstofa sem Eygló Harðardóttir, þingmaður þá, núna ráðherra, var í og Höskuldur. Þau ættu að tékka á því hvort þeim líði ekki betur núna því að í páskahléinu tók ég eftir að exem sem byrjaði að koma hjá mér þegar ég byrjaði að vera þar síðasta sumar er horfið núna eftir að ég hætti (Forseti hringir.) að nota skrifstofuna í páskahléinu.

Þetta er því mál sem er mjög gott að komi inn í umræðuna. Það á að skoða það vel, (Forseti hringir.) þetta þarf að laga.

(Forseti (EKG): Þingmenn eru beðnir um að nefna aðra hv. þingmenn fullu nafni.)



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till.  samþ. með 58 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JÞÓ,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OH,  ÓP,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SJS,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖS.
5 þm. (FSigurj,  JónG,  PVB,  VigH,  ÖJ) fjarstaddir.