143. löggjafarþing — 108. fundur
 12. maí 2014.
brottnám líffæra, frh. 2. umræðu.
frv. SilG o.fl., 34. mál (ætlað samþykki). — Þskj. 34, nál. 917.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[12:04]

[11:56]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér kemur til afgreiðslu tillaga velferðarnefndar um afgreiðslu á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir er 1. flutningsmaður að og ég er meðflutningsmaður.

Sú afgreiðsla sem velferðarnefnd hefur ákveðið að leggja til við þetta mál veldur mér miklum vonbrigðum. Ég tel að hér sé um gríðarlegt framfaramál að ræða. Það kemur fram í nefndaráliti ljóst sé að fjölga þurfi líffæragjöfum þar sem eftirspurn eftir líffærum sé meiri en framboð þeirra og af hálfu nefndarinnar sé ríkur vilji til þess, en engu að síður leggur nefndin til að málinu verði vísað frá.

Í mínum huga hefði verið meira samræmi í því að leggja þá alla vega til að frumvarpinu yrði breytt. En að vísa því til ríkisstjórnar, það er frávísun. Í mínum huga hefði verið betra og meira í samræmi við það sem fram kemur í nefndaráliti að nefndin hefði lagt til breytingu á frumvarpi yfir í þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) þar sem þau efnisatriði sem koma fram í nefndarálitinu væru tiltekin (Forseti hringir.) þannig að það væri skýr vilji þingsins að málið yrði unnið á tilteknum forsendum. Ég get ekki stutt þá málsmeðferð sem hv. nefnd leggur til.



[11:57]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég spurði hvað þetta þýddi af því að ég þekki ekki fyrirkomulagið sem talað er um í nefndarálitinu þar sem nefndin leggur til að frumvarpinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Það er það sem við greiðum atkvæði um, ekki um frumvarpið heldur um frávísun eða vísun til ríkisstjórnar.

Hvað er verið að gera? Þetta verður eins konar þingsályktun, (Gripið fram í.)já, þar sem nefndin leggur til að frumvarpið verði afgreitt á þann hátt að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar, unnið áfram í málinu, fyrrnefnd atriði tekin til sérstakrar skoðunar og farið í að skoða hvernig sé hægt að fjölga líffæragjöfum o.s.frv. En í dag er ekki verið að samþykkja ætlað samþykki, það að áætla að allir samþykki líffæragjafir. Við þurfum að skoða hvernig sé hægt að fjölga líffæragjöfum án þess að þvinga alla til þess með því að segja: Þið hafið samþykkt þetta og þið verðið að draga ykkur út.

Það reyndum við með Íslenska erfðagreiningu á sínum tíma og það fór ekki vel. Fólk var ekki ánægt með að áætlað væri að það hefði samþykkt. Þarna er því verið að skoða hvernig, (Forseti hringir.) án þess að fara þá leiðina, sé hægt að fjölga líffæragjöfum, sem við viljum vissulega öll gera.



[11:59]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég var upprunalega á málinu en við meðferð þess hjá hv. velferðarnefnd kom mjög skýrt fram að það eitt og sér að breyta þessu gerði afskaplega lítið. Það er reynsla annarra þjóða, sérstaklega var Spánn oft nefndur, þar tók hátt í áratug að breyta þróuninni þannig að líffæragjöf ykist raunverulega nógu mikið til þess að teljandi væri. Það varð því alveg ljóst í störfum hv. velferðarnefndar að meira þarf til og annað. Með hliðsjón af því get ég ekki lengur stutt málið, eins og það er orðið, heldur frekar að lögð verði meiri vinna í að finna aðrar leiðir til þess að auka líffæragjöf án þess að þurfa að takast á við þessa annars mjög áhugaverðu spurningu um upplýst samþykki.

Ég tek undir og árétta orð hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar að hér greiðum við atkvæði um málsmeðferðina, ekki samþykkt eða synjun málsins sjálfs. Ég vænti þess að áframhaldandi umræða muni fara fram bæði hér í þingheimi og á meðal almennings og vona að þetta mál fái farsælan endi.



[12:00]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég stend ásamt öðrum fulltrúum í velferðarnefnd með þessum hætti að afgreiðslu málsins. Það var einhugur í nefndinni um að það væri mjög mikilvægt að fjölga líffæragjöfum úr látnum einstaklingum. Eftir mjög mikla umræðu og yfirferð yfir málið varð niðurstaðan sú að lagabreyting um ætlað samþykki á þessum tímapunkti ynni ekki sérstaklega að því markmiði ef ekki færi áður fram ákveðin undirbúningsvinna.

Nefndin vísar málinu hér til ríkisstjórnarinnar með tíu punkta verkefnalista. Ég vek athygli þingsins á því að eftir innan við ár verðum við á þinginu búin að fá skýrslu í hendurnar um framkvæmd þessara punkta sem og tillögur um næstu skref.

Við höldum málinu lifandi með þessum hætti (Forseti hringir.) og ætlum að ná fram markmiðum frumvarpsins sem upphaflega var lagt fram þó að það taki kannski (Forseti hringir.) lengri tíma. Ég er sannfærð um að það verður farsælla og mun (Forseti hringir.) njóta meiri stuðning meðal þjóðarinnar.



[12:02]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég tel að til að auka þrýsting á þá undirbúningsvinnu sem velferðarnefnd hefur komist að raun um að sé nauðsynleg áður en þetta ákvæði verður í lög fært hefði átt að fresta gildistökunni um tvö eða þrjú ár til að það væri þrýstingur á framkvæmdarvaldið og þá sem þar að standa til að vinna þessa undirbúningsvinnu.

Þess vegna ætla ég að sitja hjá við afgreiðslu málsins á þennan útvatnaða hátt sem mér finnst vera hér í gangi.



Till. í nál. 917 um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar samþ. með 49:5 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjarnB,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  IllG,  JMS,  JónG,  JÞÓ,  KG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OH,  ÓP,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SJS,  SSv,  UBK,  VigH,  VilÁ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  KJak,  VilB,  WÞÞ,  ÖS.
4 þm. (ÁsmD,  BjG,  SilG,  VBj) greiddu ekki atkv.
5 þm. (HHj,  HöskÞ,  PVB,  ValG,  ÖJ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:03]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta það sem við erum að greiða atkvæði um og það er að halda áfram að vinna að málinu. Mér finnst ofboðslega mikilvægt að það komi fram hér í umræðunni að breytingin sem var lagt upp með hefur ekki þau áhrif sem flestir virðast telja. Þetta er ekki þannig að núna sé það einfaldlega nei. Það er ekki heldur þannig að með upphaflegri tillögu væri það einfaldlega já. Þetta er alltaf í höndum aðstandenda tilvonandi gjafa eða hins látna.

Þessi tillaga ein og sér er kannski þess eðlis að við leggjum allt of mikið upp úr þessari spurningu, eins áhugaverð og mikilvæg og hún er, og því finnst mér mikilvægt þegar við lítum fram á veginn að við einbeitum okkur að markmiðinu sem er að auka líffæragjöf.

Það felst fyrst og fremst í aukinni umræðu, það er reynsla hinna þjóðanna, og upplýsingu og tækifæri einstaklinga til að taka þátt með fullu, upplýstu samþykki.

Ég segi já.