143. löggjafarþing — 111. fundur
 14. maí 2014.
losun gróðurhúsalofttegunda.
fsp. KJak, 449. mál. — Þskj. 795.

[10:53]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Loftslagsbreytingar eru líklega stærsta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins á pólitískum vettvangi nú um stundir og verða það á næstu árum og áratugum. Þar berast óhugnanlegar og óþægilegar fregnir af bráðnun íss, nú síðast á Suðurskautslandinu. Við höfum líka fylgst með þróun mála á norðurskautinu og nánast allar þær skýrslur sem hafa verið gefnar út staðfesta að losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum sé helsti áhrifavaldurinn í þeim miklu umhverfisbreytingar sem við erum farin að sjá, bæði hvað varðar hækkandi sjávarborð og líka auknar öfgar í veðurfari.

Ríkisstjórnir heimsins eru að setja þessi mál á dagskrá. Ég hafði raunar fyrr í vetur óskað eftir sérstakri umræðu við hæstv. forsætisráðherra um stefnumótun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum því að það er ekki óalgengt að ríkisstjórnir sem heild setji sér slík markmið. Málið er af slíkri stærðargráðu að það skiptir máli að allir vinni saman að rannsókn á vísindasamfélagi, taki aktífan þátt í stefnumótuninni, að gerð sé markviss áætlun um hvernig megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig eigi að bregðast við þeim breytingum sem munu örugglega verða. Þetta er eitt af þeim málum sem kannski engum finnst gaman að ræða því að þetta er ekkert gleðiefni og fátt jákvætt, a.m.k. sem ég sé, við þessar breytingar.

Nú liggur fyrir, og mér finnst gott að fá tækifæri til að ræða þetta við hæstv. umhverfisráðherra, að við erum með staðfesta aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá árinu 2010 sem meðal annars snerist um að innleiða viðskiptakerfi með losunarheimildir, leggja á kolefnisgjald, breyta kerfi skatta og gjalda á bíla og eldsneyti, breyta notkun ríkis og sveitarfélaga þannig að þau skipti yfir í sparneytin og vistvæn ökutæki, efla göngur, hjólreiðar og almenningssamgöngur sem valkost, nýta lífeldsneyti á fiskiskipaflotann sem er mjög stórt mál, rafvæða fiskimjölsverksmiðjur, auka skógrækt og landgræðslu, endurheimta votlendi og efla rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra um hvaða sóknarfæri hann sér einna helst í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hvar áherslupunktarnir verða í því og hver framtíðarsýn hans er í þeim efnum. Það er mín skoðun að ef við ætlum að vera reiðubúin undir þær breytingar sem væntanlega munu verða og reiðubúin að taka ábyrgð á því að leggja eitthvað raunverulegt af mörkum til að hægja á þessari þróun þurfi rannsókna- og vísindasamfélagið að vera mjög öflugt. Þetta snýst ekki bara um það sem ég nefndi hér, þ.e. hnattrænu áhrifin, heldur munu áhrifin líka verða mjög staðbundin. Við erum þar til að mynda að tala um súrnun sjávar þar sem þörf er á aukinni vöktun á lífríkinu og er alveg gríðarlegt staðbundið hagsmunamál fyrir fiskveiðiþjóðina Íslendinga.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir framtíðarsýn hans og því hvað hann telur mikilvægustu þættina í þessum efnum.



[10:56]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Staða Íslands hvað varðar möguleika til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er um margt ólík því sem gerist í öðrum þróuðum ríkjum. Á heimsvísu er brennsla jarðefnaeldsneytis til hitunar og rafmagnsframleiðslu stærsta einstaka uppspretta losunar. Hér á landi fer slík orkuframleiðsla nær eingöngu fram með vatnsafli og jarðhita en ekki með kolum og olíu og því eru lítil tækifæri þar. Alls er losun frá orkuframleiðslu hér rúmlega 200 þús. tonn af koldíoxíði á ári, en ef sama orka væri framleidd með bruna kola væri losunin allt að 10 milljónir tonna. Orkubúskapur Íslendinga telst því loftslagsvænn og hlutfall endurnýjanlegrar orku er hvergi hærra í ríkjum OECD.

Við erum því fremst, hvort sem okkur finnst nú gaman að stæra okkur af því eða ekki. Við erum það sannarlega á þessu sviði.

Eru þá engin sóknarfæri fyrir Ísland? Jú, þau eru fyrir hendi, þau hafa verið kortlögð af sérfræðingum, bæði hvað varðar umfang og kostnað. Töluverð sóknarfæri eru í samgöngum. Nú eru rafmagnsbílar að koma í vaxandi mæli á almennan markað og þar tel ég tvímælalaust vera mikið sóknarfæri því að hér er rafmagn tiltölulega ódýrt og einnig loftslagsvænt.

Einnig hefur verið aukning á metanbílum þótt framboð á metani sé minna en á rafmagni. Töluverð aukning hefur orðið í hjólreiðum á undanförnum árum og allt þetta er jákvæð þróun.

Einnig eru sóknarfæri í sjávarútvegi. Það er ánægjuleg þróun að fiskimjölsverksmiðjur hafa margar skipt yfir í rafmagn frá olíu og er það gott dæmi um frumkvæði atvinnulífsins sem gagnast í loftslagsmálum. Þar eru þó tæknilegar hindranir í vegi sums staðar sem þarf að skoða, en það væri umtalsverður ávinningur ef hægt væri að rafvæða alla fiskimjölsframleiðsluna. Þá koma inn byggðalínur og uppbygging Landsnets.

Fiskveiðistjórnarkerfið hefur stuðlað að fækkun í fiskiskipaflotanum og eldsneytisnotkun flotans því snarminnkað, jafnvel um þriðjung á síðustu árum. Framsækin íslensk fyrirtæki á borð við Marorku bjóða upp á loftslagsvænar lausnir í skipum og þar er vaxtarbroddur í nýsköpun sem vert er að gefa gaum.

Stóriðjan nýtir endurnýjanlega orku og losun frá hverju tonni af áli hér á landi er til dæmis með því minnsta sem þekkist. Mikill og góður árangur hefur náðst í íslenskum álverum varðandi lágmörkun losunar á flúorkolefnum sem eru mjög virkar gróðurhúsalofttegundir. Einnig er rétt að geta þess að stóriðja hér er hluti af hinu evrópska viðskiptakerfi með losunarheimildir og býr þannig við strangt aðhald varðandi losun.

Mér finnst rétt að skoða hvort hægt sé að gera meira á sviði landbúnaðar. Almennt er talið að erfitt sé að minnka losun í landbúnaði, en þar má þó meðal annars skoða söfnun og nýtingu metans í haughúsum. Síðast en ekki síst er svo rétt að nefna bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi með skógrækt og landgræðslu og bendi ég þá á stefnu ríkisstjórnar framsóknar- og sjálfstæðismanna um það. Þar telja sérfræðingar að liggi kannski okkar mestu möguleikar til að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda á hagkvæman hátt.

Framtíðarsýn ráðherra í þessum efnum er þessi: Ég vil að Ísland leggi sitt lóð á vogarskálarnar, við getum alltaf gert betur, eins og sanngjarnt er í alþjóðlegum samningum á sviði loftslagsmála. Til skamms tíma er horft þar á annað tímabil Kyoto-bókunarinnar sem hófst í fyrra. Til lengri tíma horfi ég til nýs alþjóðlegs samnings sem á að takmarka losun á heimsvísu og taka gildi árið 2020.

Framtíðarsýn okkar verður að ná lengra og víðar en aðeins til losunar innan lands. Losun frá Íslandi er einungis 0,01% af heimslosun. Ísland getur hins vegar haft áhrif út fyrir landsteinana, m.a. með því að styðja við nýtingu jarðhita, bæði í þróuðum ríkjum og þróunarlöndum.

Ég heimsótti nýlega Japan, þar er mikill vannýttur jarðhiti og menn horfa til Íslands varðandi þekkingu, ekki síst varðandi hitaveitu. Ég ávarpaði þar fjölmenna ráðstefnu og skynjaði mikinn sóknarhug þarlendra hvað þetta varðar. Jarðhitavæðing í þróunarríkjunum er líka stór þáttur í loftslagsstefnu Íslands og læt ég þar nægja að nefna lykilþátt Íslands í stóru verkefni sem miðar að því að nýta jarðhita í yfir tug ríkja í austan- og sunnanverðri Afríku sem Alþjóðabankinn og fleiri koma að.

Þá má ekki gleyma hlut Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi sem hefur þjálfað sérfræðinga frá fjölmörgum löndum í 35 ár og með því byggt upp þekkingu á nýtingu jarðvarma og rekstri virkjana víða um heim. Mögulega hefur enginn íslenskur aðili haft meiri áhrif til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en Jarðhitaskólinn þótt vissulega sé erfitt að mæla slíkt og færa sönnur á slíkar staðhæfingar. Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna er svo annað dæmi um þróunar- og þekkingarverkefni á Íslandi sem stuðlar að loftslagsvænum lausnum á heimsvísu.

Hvað varðar framtíðarsýn á þróun losunar á Íslandi þætti mér auðvitað gott ef hægt væri að knýja farartæki og fiskiskip með innlendum orkugjöfum í stað erlends jarðefnaeldsneytis. Það er hæg þróun í þá átt, en spurningin er hvort við getum hraðað henni og ég vil skoða leiðir til þess. Ég vil líka gjarnan efla skógrækt og landgræðslu og fleiri loftslagsvænar lausnir á sviði landnotkunar. Þar fer saman áratugalöng barátta okkar við að snúa landeyðingu við en um leið að vernda andrúmsloftið. Þetta er líka viðurkennd leið samkvæmt Kyoto-bókuninni og mjög hagkvæmur kostur fyrir Ísland að mati sérfræðinga.



[11:02]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér heyrist framtíðarsýn hans vera mjög í takt við þá aðgerðaáætlun sem hér hefur verið samþykkt og að áfram verði unnið samkvæmt þeim áherslupunktum sem þar voru settir.

Mig langar þá aðeins að taka þetta yfir á stærra svið. Ég nefndi áðan að bæði geta afleiðingar loftslagsbreytinga orðið geigvænlegar fyrir hinn stóra heim en þær geta líka haft mjög ógnvænleg staðbundin áhrif á okkur. Ég nefndi súrnun sjávar, svo dæmi sé tekið. Við Íslendingar höfum fyrst og fremst einblínt á þau tækifæri sem við teljum felast í siglingum við norðurskautið. Á það hefur verið bent að þar kunni að vera að styttri siglingaleiðir dragi úr losun á heimsvísu en auki mjög staðbundna mengun hér á þessu svæði sem getur líka haft áhrif á fiskimið okkar.

Þess vegna tel ég að mjög mikilvægt sé að við sem smáþjóð nýtum þann mannauð sem við eigum í vísindum og rannsóknum. Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra, sem ég veit að á sæti í Vísinda- og tækniráði sem leggur línurnar fyrir stefnumótun okkar í rannsóknum og vísindum, telji ástæðu til þess í ljósi stöðunnar á alþjóðavettvangi að við setjum aukinn kraft í þær rannsóknir og þau vöktunarverkefni sem þarf að sinna til þess að við getum hreinlega annars vegar lagt okkar af mörkum á alþjóðavettvangi til þess bæði að draga úr losun hér heima og erlendis, hæstv. ráðherra fór yfir vel heppnuð dæmi frá Jarðhitaskólanum og Landgræðsluskólanum, og að við getum líka tekið aukinn þátt í umræðunni á alþjóðavettvangi byggt á rannsóknum okkar og vísindamönnum okkar.

Mér hefur verið þetta talsvert hugleikið því að nú setur Ísland sér tilteknar markáætlanir í rannsóknum og vísindum, eins og hæstv. ráðherra þekkir, og þegar viðfangsefnin sem blasa við eru jafn brýn og það sem hér um ræðir velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra telji það ekki allrar skoðunar vert að við setjum aukinn kraft í þær rannsóknir sem lúta að loftslagsbreytingum og veðurfarsbreytingum.



[11:04]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að núverandi stefna er í sjálfu sér áframhald þeirrar stefnu sem verið hefur. Ég tel mjög mikilvægt að við skiptum ekki um kúrs þó að nýjar ríkisstjórnir og annað komi, að við vinnum í rétta átt allan tímann.

Það er líka rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni, einstök áhrif geta verið staðbundin og súrnun sjávar er alvarleg ógn sem stafar að Íslandi. Þess vegna er mikilvægt að við eflum vísinda- og rannsóknarvinnu, bæði á þessu sviði og öðrum. Það er líka mikilvægt að við horfum til tillagna hagræðingarhópsins, af því að hann var nefndur í fyrirspurn fyrr í dag við hv. þingmann, að efla rannsóknarstöðvar okkar og stofnanir þannig að þær séu betur í stakk búnar til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Það er mjög mikilvægt, Ísland er kjörinn vettvangur fyrir slíkar rannsóknir á öllum þessum sviðum og ég held að það sé mikilvægt að við gerum það. Það er líka mikilvægt að við tökum þátt í umræðu á alþjóðlegum vettvangi.

Japansheimsóknin sem ég nefndi er gott dæmi og eins það sem við erum að gera innan Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna.

Að lokum vil ég nefna nýsköpun af ýmsu tagi sem tengist loftslagsmálum og unnið er að á Íslandi. Fjölmargir aðilar eru að vinna að áhugaverðum loftslagsvænum verkefnum á ýmsum sviðum, t.d. er tilraun til niðurdælingar koldíoxíðs á Hellisheiði, vinnsla metanóls úr jarðhitagufu og ýmis tækni til að draga úr útblæstri í skipum. Eðli málsins samkvæmt leiða ekki öll rannsóknar- og þróunarverkefni til hagkvæmra lausna, en ég hef trú á því að mörg þessara verkefna muni bera ávöxt sem Íslendingar og aðrir geta nýtt sér.

Ég tel að Íslendingar eigi að hafa metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Hún verður auðvitað líka að vera raunhæf og hagfelld og byggja á staðreyndum og góðri greiningu. Baráttan gegn loftslagsvánni er líklega eitthvert flóknasta og margbrotnasta verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir og þar þarf hvert ríki að horfa á aðstæður sínar og möguleika og byggja stefnu sína á því, en einnig að taka þátt í alþjóðlegri umræðu.

Ég þakka að lokum hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og áhugaverða umræðu.