143. löggjafarþing — 114. fundur
 15. maí 2014.
upplýsingar um leynireikninga og aflandsfélög.

[11:17]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrst örstutt um Landsbankabréfið.

Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra um að það er furðulegt að vaxtakjör séu verri í endursömdum kjörum. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra um að það er fráleitt að veita stóra undanþágu frá gjaldeyrishöftum án þess að lausn á höftunum öllum sé undir. Það er ekki hægt að hleypa sumum út og öðrum ekki. En ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að beita sér fyrir þeirri samstöðu sem verður að vera í þinginu um þessi mál, því að hér verðum við Íslendingar að standa saman sem einn maður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

En að efni fyrirspurnarinnar. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um upplýsingar um leynireikninga og aflandsfélög í eigu Íslendinga sem skattrannsóknarstjóra hafa boðist. Við Íslendingar eigum að kaupa þessar upplýsingar um spillingu, um skattsvik og um alls kyns misferli sem farið hefur fram á aflandseyjum, eins og Þjóðverjar gera. Þjóðverjar eru kunnir að því að hafa aga í fjármálum, reglufestu og vera vandir að virðingu sinni. Ef þetta eru upplýsingar sem þýsk yfirvöld telja lögmætt og réttmætt að kaupa og nota til þess að koma lögum yfir menn sem reynt hafa að komast hjá lögum, þá eigum við að gera það líka.

Leiðtogar lýðræðisríkja um allan heim hafa í æ ríkari mæli á síðustu árum beitt sér gegn þeirri fjármálalegu spillingu sem fengið hefur að þrífast á aflandseyjum um heim allan. Forsetar og forsætisráðherrar hafa haldið sérstaka fundi til þess að ræða um það hvernig þeir geti sameinast í að berjast gegn þeirri óværu sem sú löglausa starfsemi oft og tíðum er.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann og ríkisstjórn hans muni ekki beita sér fyrir því að skattrannsóknarstjóri fái bæði þær heimildir og fjármuni sem hann þarf til þess að kaupa þessar upplýsingar, ekki síst vegna þess að þarna er að finna upplýsingar sem varða miklu (Forseti hringir.) um það hræðilega efnahagshrun sem hér varð á Íslandi og eru hluti af því að upplýsa um það og gera þau mál upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:19]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er ánægjulegt að heyra afstöðu þá sem hv. þingmaður lýsir til haftamálanna og hvernig nálgast beri úrlausn þeirra. Reyndar kveður við svolítið nýjan tón, en mér finnst það mjög jákvætt og tek jafnframt undir að það er ákaflega mikilvægt að menn vinni saman að þessu.

Hvað varðar hins vegar fyrirspurn um upplýsingar um skattundanskot og að slíkar upplýsingar standi skattrannsóknarstjóra til boða þá veit ég ekki annað, ég sá það í einhverri frétt og skildi skattrannsóknarstjóra þannig að þetta snerist ekki um skort á heimildum eða fjármagni, heldur frekar um hversu mikils virði þessar upplýsingar væru, hvort þær væru raunverulega gagnlegar og hvort hægt væri fyrir skattrannsóknarstjóra að kaupa upplýsingar sem fengnar hefðu verið með óljósum hætti og óljóst hvort þær væru raunverulegar og gagnlegar.

Ég treysti því að skattrannsóknarstjóri geti metið þetta og muni hér eftir sem hingað til leita allra leiða til að koma upp um skattsvik. Að sjálfsögðu þarf skattrannsóknarstjóri að hafa ýmsar leiðir til þess, enda skattsvik og skattundanskot mjög dýr fyrir samfélagið. Ég ítreka að ég treysti skattrannsóknarstjóra til þess að leysa úr þessu eins og öðru.



[11:21]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra. Forsætisráðherra hefur lýst því yfir skýrt og afdráttarlaust að skattrannsóknarstjóra skorti, eftir hans bestu vitund, hvorki heimildir né fjármuni í þessum efnum, heldur sé það einfaldlega undir mati hans komið hvort þessar upplýsingar geta nýst við að uppræta skattsvik og að mikilvægt sé að skattrannsóknarstjóri leiti margra leiða til þess að uppræta skattsvik. Það er mikilvæg yfirlýsing frá hæstv. forsætisráðherra og skýr skilaboð til eftirlitsstofnana í landinu um að lögð er áhersla á að leita allra leiða til þess að tryggja það að lögum og reglum sé fylgt.

Þjóðverjar hafa keypt upplýsingar um leynireikninga í mörgum löndum. Það hafa líka aðrar þjóðir gert. Verið er að birta opinberlega í alþjóðlegum fjölmiðlum ýmsar upplýsingar um slíka hluti. Ég held að fáar þjóðir hafi jafn mikla þörf og við Íslendingar fyrir það að slíkar upplýsingar séu lagðar á borðið.

Virðulegur forseti. Ég skil (Forseti hringir.) ekki við hvað hæstv. fjármálaráðherra er hræddur.



[11:22]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan að ég þekki svo sem ekki eðli þessara upplýsinga eða hvað menn leggja til grundvallar þegar lagt er mat á hvort gera eigi samninga um kaup á upplýsingum, en ég mundi halda að þar hlyti að vera grundvallaratriði hversu áreiðanlegir þeir aðilar eru sem þar er um að ræða og þær upplýsingar sem þar eru.

Jafnframt ítreka ég að skattrannsóknarstjóra er eflaust treystandi til að leggja mat á þetta og ég veit ekki annað en að hann sé í fullri aðstöðu til þess.