143. löggjafarþing — 118. fundur
 16. maí 2014.
bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi, síðari umræða.
þáltill. ÁPÁ o.fl., 5. mál. — Þskj. 5, nál. 1137.

[18:06]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi. 1. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, og meðflutningsmenn eru þingflokkur Samfylkingarinnar. Var þetta það mál sem við lögðum höfuðáherslu á í þinginu í vetur.

Markmiðið með ályktuninni er tvíþætt, annars vegar að bregðast við erfiðu ástandi sem nú er á leigumarkaðnum og hins vegar að efla almennan leigumarkað til frambúðar. Tillagan felur í sér nánar tilgreindar aðgerðir í sex liðum sem ætlað er að bregðast við því ástandi sem uppi er í dag jafnframt því að horfa til framtíðar í húsnæðismálum landsmanna. Almennt hafa gestir og umsagnaraðilar verið jákvæðir í garð tillögunnar.

Verkefnisstjórn á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra, sem unnið hefur að stefnumótun um framtíðarskipan húsnæðismála, skilaði ráðherra nýlega tillögum sínum sem flestar hverjar byggja á vinnu síðasta kjörtímabils undir forustu Samfylkingarinnar.

Í tillögum verkefnisstjórnarinnar er, eins og gefur að skilja í þessu ljósi, ákveðinn samhljómur við ýmis atriði í þingsályktunartillögunni. Má þar helst nefna innleiðingu húsnæðisbóta, stofnstyrki til leigufélaga og aukna hvata í skattkerfinu til að ýta undir langtímaleigu íbúðarhúsnæðis. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar vísar einnig til tillagna verkefnisstjórnar í áliti sínu á þskj. 1070, um frumvarp til laga um séreignarsparnað, í máli 484.

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lýst því yfir að á næstu vikum og mánuðum verði unnið að útfærslu tillagna verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og frumvörpum þar að lútandi.

Í ljósi framangreinds og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem hér eru reifuð leggur meiri hlutinn til að þingsályktunartillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Við afgreiðslu málsins voru fjarverandi hv. þingmenn Elín Hirst og Páll Jóhann Pálsson. Undir álitið skrifa Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður og framsögumaður, Þórunn Egilsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Guðbjartur Hannesson og Lilja Rafney Magnúsdóttir.



[18:08]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka afgreiðslu velferðarnefndar á þessari tillögu. Í henni er að finna pólitíska stefnumörkun af hálfu okkar í Samfylkingunni. Ég hef hins vegar tekið eftir því að í umræðunni í vetur hafa þær hugmyndir sem þar eru reifaðar fengið sífellt meiri hljómgrunn í umræðu í samfélaginu. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra lýsti því yfir strax við 1. umr. málsins að hún væri efnislega sammála inntaki flestra þeirra tillagna sem finna mætti í þingsályktunartillögunni, og þeirra áherslna sem þar eru raktar sér mjög stað í niðurstöðu verkefnisstjórnar sem skilaði af sér fyrir fáeinum vikum. Fram undan er nú að hrinda í framkvæmd nýjum lausnum á grundvelli tillagna verkefnisstjórnarinnar og við bindum vonir við að sú vinna sem við lögðum í þessa þingsályktunartillögu nýtist frekar inn í þá vinnu.

Ég fagna því sérstaklega að tillagan hljóti afgreiðslu af hálfu þingsins. Í því felst að sjálfsögðu að tekið er undir efnislegan þrótt þeirra tillagna sem liggja þarna að baki.