144. löggjafarþing — 8. fundur
 18. september 2014.
ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 3. mál (breyting ýmissa laga). — Þskj. 3.

[12:16]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á í þessu máli áður en það fer til nefndar, ekki síst í ljósi þess hvernig umræðan þróaðist hér í gær og með tilliti til innleggs hæstv ráðherra í málið, bæði til að reifa sjónarmið og til að spyrja spurninga.

Eitt af þeim atriðum sem ég vildi ræða er stytting á hámarkstíma fólks á atvinnuleysisskrá úr þremur árum í tvö og hálft. Það sem ég hef áhyggjur af í því er að það hefur auðvitað komið fram að sveitarfélögin hafa áhyggjur af því að töluverður kostnaður mun leggjast á þau í þessu tilfelli. Ég hef líka áhyggjur af því að þetta er gert án þess að bregðast neitt við þeirri staðreynd að þegar atvinnuleysi var hér mest sáum við karla koma mjög hratt inn á atvinnuleysisskrána en þeir fóru líka tiltölulega hratt út af henni aftur; konur komu hins vegar hægar inn en þær hafa því miður dvalið þar mun lengur. Langtímaatvinnuleysi er orðið töluvert miklu meira hjá konum en körlum þannig að þessi aðgerð mun bitna mjög verulega á langtímaatvinnulausum konum. Ég hvet nefndina til að skoða þennan þátt sérstaklega, ekki síst í ljósi umræðunnar sem hefur oft orðið í þessum þingsölum, að það þurfi einhvern veginn að mæta þeirri stöðu sem er uppi, að konur sem eru kannski með töluverða reynslu á vinnumarkaði eru að festast á atvinnuleysisskrá. Það eru ekki bara fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin sem hér um ræðir heldur líka töluverð áhrif á lífsafkomu langtímaatvinnulausra kvenna. Ég hvet til þess að það verði gert. Ég kalla líka eftir ítarlegum upplýsingum um þetta og möguleg áhrif á þessar konur.

Ég hef enn fremur miklar áhyggjur af þeim þætti þessa frumvarps sem fjallar um það að S-merktu lyfin fari undir greiðsluþátttökukerfi lyfjanna, ekki síst í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpinu er líka boðuð hækkun á greiðsluþátttökuþakinu þannig að greiðsluþátttaka lyfjanotenda eykst. Mér finnst vanta skýrari mynd af því hversu mikið hún mun aukast og líka hvaða áhrif hún muni hafa á þá aðila sem því miður eru háðir því að þurfa á lyfjum að halda, ekki síst að staðaldri.

Í S-merktu lyfjunum er oft um að ræða sjúklinga sem þurfa verulega þung og dýr lyf og þetta getur orðið töluvert högg fyrir þau þegar þetta verður gert eins og hér er boðað. Það getur verið um verulegar háar upphæðir að ræða fyrir fólk sem hefur ekki þurft að greiða fyrir lyfin sín hingað til. Ég hvet þess vegna til þess að nefndin skoði þennan þátt sérstaklega og áhrif þessarar breytingar á ekki síst tekjulægstu hópana og hópa eldri borgara og öryrkja vegna þess að öryrkjahóparnir þurfa ekki alltaf á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda en þurfa hins vegar töluvert af lyfjum. Þetta getur haft áhrif á þá. Við vitum á hvernig tekjum þessir hópar þurfa að lifa og þær eru ekki miklar. Þetta þarf allt saman að skoða og í fljótu bragði sýnist mér þetta geta komið mjög illa niður á þeim sem síst skyldi.

Næst vil ég nefna Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er verið að framlengja bráðabirgðaákvæði úr tíð fyrri ríkisstjórnar um að tímabundið væri hægt að nota fjármuni úr Framkvæmdasjóði aldraðra í rekstur en á móti kom að fyrri ríkisstjórn fór nýjar leiðir til að fjármagna þá uppbyggingu til að bæta fyrir þá fjármuni sem upp á vantaði til þess. Ég átti samtal við hæstv. ráðherra hér í gær um Framkvæmdasjóð aldraðra og þá sagði hæstv. ráðherra okkur að hann væri ekki hlynntur þeirri leið sem þar var farin en á móti kæmi að menn ætluðu engu að síður að fara áfram inn í sjóðinn til að sækja fjármuni fyrir rekstri. Það hlýtur að hafa áhrif á þá fjármuni sem eftir verða til að fara í uppbyggingu á nýjum hjúkrunarrýmum. Við vitum alveg að víða er gríðarleg þörf fyrir uppbyggingu á hjúkrunarrýmum þannig að þarna er algjörlega ósvarað þeirri risastóru spurningu hvernig menn ætla að fjármagna þá uppbyggingu. Ef eitthvað er hefur spurningarmerkið við þessari spurningu stækkað eftir umræðuna hérna í gær. Af minni hálfu er algjörlega ljóst að það liggur ekki fyrir hjá þessari ríkisstjórn hvernig hún ætlar að gera það. Hún ætlar bara ekki að gera það eins og síðasta ríkisstjórn gerði. Það er svolítið mantran hjá núverandi ríkisstjórn að áherslan virðist liggja í því að gera eitthvað en ekki segja okkur endilega frá því hvernig hún ætlar að gera það og bara alls ekki gera það eins og fyrri ríkisstjórn gerði það. Það sjáum við í mörgum fleiri málum en þessu. Þetta er ekki stefna sem dugar til lengri tíma. Menn hljóta að fara að kalla eftir því að þessi ríkisstjórn sýni fram á sína framtíðarsýn í mikilvægum málaflokkum eins og þeim sem hér um ræðir. Það er ekki nóg að segja alltaf að við ætlum ekki að gera þetta eins og þau gerðu það. Það segir okkur ekki neitt.

Þessu þarf að svara.

Það eru skyldugreiðslur í Framkvæmdasjóði aldraðra sem verið er að hækka í þessu frumvarpi og þegar menn eru farnir að framlengja svona bráðabirgðaákvæði þar sem ákveðið er að breyta og gera það aftur og aftur tel ég mikilvægt að menn setji sér einhver mörk um það hversu langt megi ganga inn í sjóðinn hvað þennan þátt málsins varðar og hversu lengi og langt megi ganga á framkvæmdaféð sjálft. Ef þetta er framlengt aftur og aftur er hætt við því að við förum að sjá verulega gengið á fjármuni til uppbyggingar á hjúkrunarrýmum sem er verkefni sjóðsins. Ég er ekki endilega mótfallin því að þetta sé gert núna en menn þurfa engu að síður að svara spurningunni um það hvernig menn ætla þá að fjármagna framkvæmdir á hjúkrunarrýmum. Annars er ekki hægt að taka afstöðu til þessa þáttar í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að nefna lækkun á framlögum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Sá sjóður er mér afskaplega kær vegna þess að hann var settur á í tíð síðustu ríkisstjórnar til að mæta réttmætri gagnrýni á það að uppbyggingin á ferðamannastöðunum fylgdi ekki fjölgun ferðamanna hingað til lands. Þetta var réttmæt ábending og gagnrýni þá og hún er enn réttmæt. Það sem við gerðum síðan var að koma inn í þingið með tillögu um fjármögnunarleiðir fyrir þennan framkvæmdasjóð. Það má kalla hana eina útfærslu á náttúrupassa sem var það gjald sem átti að leggjast á flug og gistingu. Í þessu þingi á þeim tíma kólnuðu ansi margir fætur ansi hratt þannig að úr varð mjög lágt gjald í þennan framkvæmdasjóð og líka til uppbyggingar þjóðgarða hjá umhverfisráðuneytinu. Hann var mjög lítill fyrir og það var ljóst að menn þyrftu að fara að taka afstöðu um það hver innan ferðaþjónustugreinanna ætlaði að taka að sér að innheimta þetta gjald. Þetta hefur ekki enn verið til lykta leitt af núverandi ríkisstjórn en ég vona að það takist og mun styðja allar góðar niðurstöður í því efni. Hins vegar er ég mjög ósátt við það að menn ætli engu að síður meðan á þessu stendur að láta sjóðinn og uppbyggingu ferðamannastaða vera í einhverju limbói. Við sjáum gríðarlega fjölgun ferðamanna hingað til lands og þetta er afleiðing þess að ríkisstjórnin ákvað í þessu eins og svo mörgu öðru að segja: Við ætlum ekki að fara þá leið sem fyrri ríkisstjórn ákvað að fara og þess vegna ætlum við að skera niður hennar fjárfestingaráætlun.

Í þeirri fjárfestingaráætlun voru einmitt gríðarlega miklir fjármunir settir til þessa málaflokks, uppbyggingar ferðamannastaða. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki komið með þetta fé til baka. Þó að hún hafi gert vel í því að koma með aukna fjármuni inn á þessu ári dugir það ekki til. Ég brýni nefndina til að skoða líka þennan þátt mála og ég vonast eftir umsögn um þetta frá hv. atvinnuveganefnd. Það skiptir gríðarlega miklu máli að fara að fá einhverja niðurstöðu í þessi mál þannig að sjóðurinn geti orðið myndarlegur og þannig að við getum byggt ferðamannastaði myndarlega upp. Annars er hætt við því að þessi aðalsöluvara okkar Íslendinga til ferðamanna erlendis, náttúra Íslands, láti það verulega á sjá að hún verði óaðlaðandi. Það er líka erfitt að byggja upp orðspor ef það hefur hrunið á því sviði.

Virðulegi forseti. Tíminn flýgur og það eru fjölmörg önnur mál sem ég vildi koma inn á, svo sem vaxtabæturnar. Það er sorglegt að sjá hvernig þessi ríkisstjórn er að fara með vaxtabótakerfið. Ef við skoðum þróunina á vaxtabótunum frá árinu 2006 og notum verðlag frá því í ágúst sl. finn ég ekki lægri tölu en við setjum í vaxtabótakerfið á næsta ári. Við erum komin á algjöran lágpunkt í vaxtabótakerfinu. Ég veit að svarið við þessari gagnrýni er að það sé verið að setja 20 milljarða í niðurfærslu á lánum heimila en þá eru menn að taka ákvörðun um að taka fjármuni út úr kerfi sem miðar inn á þá hópa sem mest þurfa á stuðningi að halda við sín húsnæðiskaup, þá sem eru með lágar tekjur og þá sem eiga litlar eignir. Þarna eru án efa hóparnir sem munu sitja eftir í skuldaleiðréttingunum vegna þess að þeir hópar sem eru hvað verst staddir með húsnæði sitt og skuldir eru þeir sem hafa líklega fengið hvað mest í skuldaleiðréttingaraðgerðum fyrri ríkisstjórnar sem verða dregnar frá þeim sem nú verður ráðist í. Þeir hópar munu ekki fá neitt út úr þessu og að auki er verið að skera niður vaxtabætur.

Það er verið að færa fjármuni úr mjög hnitmiðuðu kerfi inn í kerfi þar sem allt of margir sem alls ekki þurfa á þessum stuðningi að halda, mjög eignamikið fólk, fá leiðréttingar en hinir aðilarnir munu áfram sitja eftir, þeir sem keyptu á versta tíma, þeir sem skulda mest og þeir sem hafa lægstar tekjurnar. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni og ég hvet nefndina til að skoða samspil þessara tveggja þátta í fjárlögum og útgjöldum ríkisins.

Það sem mig langar að nefna líka varðandi þessi frumvörp er að í gær fengum við að heyra frá hæstv. ráðherra að vinstri menn þekktu ekki skattalækkanir þegar þær væru beint fyrir framan þá. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef ekki nokkurn tíma séð aðrar eins skattalækkanir og hér er um að ræða — ef menn ætla að kalla þetta skattalækkanir. Aukin þátttaka þeirra sem kaupa lyf er boðuð hér, hækkun á matvælum er boðuð hér sem og hækkun á heitu vatni og rafmagni. Við höfum séð gríðarlega hækkun á komugjöldum í heilbrigðisþjónustu á þessu ári og það er boðuð hækkun á gjöldunum inn í Framkvæmdasjóð aldraðra, hækkun á sóknargjöldum o.s.frv.

Svo segja menn: Jú, það er vegna þess að við erum að lækka aðra hluti á móti. Það er samt engan veginn hægt að negla þetta niður í greinargerð í forsendum þessa frumvarps. Þar segir:

„Samanlagt eru áhrif þeirra talin mjög lítil, en þó fremur til lækkunar á ráðstöfunartekjum heimila en hitt, vegna styttingar á bótatímabili atvinnuleysisbóta.“

Það er heldur ekki fjallað um neikvæðu áhrifin af auknu lyfjaþátttökunni. Þótt tíma mínum sé lokið hér vil ég segja þetta að lokum: Það er gert ráð fyrir mjög litlum jákvæðum breytingum á ráðstöfunartekjum heimilanna ef við tökum frumvörpin saman (Forseti hringir.) en það er settur fyrirvari við allt um það að smásöluverð breytist á þeim vörum sem ætlaðar eru til lækkunar. Það er risastór fyrirvari þannig að það er ekkert í hendi með það hér, virðulegi forseti, þannig að tekjulægstu heimilin munu mjög líklega sjá (Forseti hringir.) mjög þungar skattahækkanir.



[12:32]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum svokallaðan bandorm, ráðstafanir í ríkisfjármálum sem tengjast fjárlagafrumvarpinu sem hefur verið til umræðu síðustu vikuna í þinginu. Eftir því sem umræðunni vindur fram verður maður meira og meira undrandi á þeim fjölmörgu annmörkum sem eru á fjárlagafrumvarpinu og fylgifrumvörpum þess, tekjuöflunarfrumvörpunum og ráðstöfunum í ríkisfjármálum, formlega þar sem fjárlagafrumvarpið er einfaldlega beinlínis vitlaust því að það er ekki í samræmi við tekjuöflunarfrumvörpin, í öðru lagi fyrir þær villur sem eru í textum frumvarpanna og sýna ekki góðan undirbúning málanna að því leytinu til og í þriðja og síðasta lagi eru efnisatriði sem maður hlýtur að undrast mjög og aðferð við að taka ákvarðanir um þau sem meðal annars endurspeglast síðan í þeim hörðu viðbrögðum sem komið hafa hjá meðal annars verkalýðshreyfingunni, ekki bara Alþýðusambandinu heldur líka fjölmörgum stéttarfélögum, bæði innan Alþýðusambandsins og samtaka opinberra starfsmanna og háskólamanna, og enn fremur Bændasamtökunum, samtökum eldri borgara, Öryrkjabandalaginu og fjölmörgum öðrum samtökum.

Við umræðu um þessar ráðstafanir eru nokkur atriði sem ég vildi fyrst og fremst beina athyglinni að. Það gefst ekki tími til þess í stuttum ræðum við 1. umr. að fara yfir þá fjölmörgu hluti sem þarfnast lagfæringar við, leiðréttingar eða afturköllunar í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar eftir atvikum.

Hér er fyrst ástæða til að staldra við vaxtabæturnar, hvernig með þær er farið og hefur verið farið. Þær voru orðnar býsna myndarlegar, getum við sagt, árið 2011, hygg ég að það hafi verið, í tíð síðustu ríkisstjórnar, þegar þær náðu hámarki og voru 22 milljarðar á einu ári. Samkvæmt frumvarpinu eru þær á næsta ári 7,7 milljarðar. Það þýðir að á aðeins þremur árum höfum við dregið úr stuðningi við skuldsett heimili í landinu um rúmlega 14 milljarða kr., í raun 2/3 í tekjutengdum vaxtabótum. Tekjutengdar vaxtabætur eru þess eðlis að þá bæta menn mest og best þeim sem hafa meðaltekjur og lægri tekjur, en þeir sem hafa yfir meðaltekjum, miklar tekjur og hreinar eignir fá ekki greiddar vaxtabætur. Hins vegar bregður svo við að menn ráðstafa þessari fjárhæð, þessum liðlega 14 milljörðum sem búið er að draga vaxtabætur saman á þessum síðustu fáu árum, og rétt rúmlega það, 18 milljörðum kr. alls, í það sem er kallað leiðréttingin og eru þær lækkanir á höfuðstól skulda sem boðað er að ráðist verði í í október og nóvember. Þær aðgerðir eru á ársgrundvelli 18 milljarðar kr., þ.e. rétt liðlega það sem búið er að draga vaxtabæturnar saman um á síðustu þremur árum. Þessar greiðslur, ágætu þingmenn, leiðréttingin svokallaða, eru ótekjutengdar og taka ekkert tillit til eigna manna.

Þetta þýðir að í meginatriðum verður breytingin frá því sem var árið 2011 og til þess sem verður á komandi ári sú að það er svipuð heildarfjárhæð sem verið er að styðja skuldsett heimili um vegna íbúðakaupa, en nú ber svo við að 2/3 fjárhæðarinnar verða greiddir út ótekjutengt og koma þess vegna að verulegu leyti til fólks með háar tekjur og miklar eignir og dregur þá að sama skapi úr þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar til að styðja meðaltekjuheimili, lágtekjuheimili og fólk sem lítið á í eignum sínum og hefur jafnvel neikvæða eiginfjárstöðu. Þetta er sannarlega samfélagslegt réttlæti á hvolfi og gengur eiginlega þvert gegn því sem maður skildi af kosningabaráttu Framsóknarflokksins þar sem lögð var áhersla á að hjálpa heimilum í erfiðleikum vegna húsnæðiskaupa. Hér er dregið mjög verulega úr hinum tekjutengda stuðningi en farið í mjög mikinn ótekjutengdan stuðning með sömu fjármunum. Það er ekki til þess fallið að hjálpa þeim sem eru í erfiðleikum heldur þvert á móti bara verið að verja hluta af þeim takmörkuðu fjármunum sem til ráðstöfunar eru til þess að hjálpa fólki sem þarf ekkert að hjálpa og minnka stuðninginn við hina á móti.

Þetta er atriði sem ég held að sé algerlega nauðsynlegt fyrir hv. nefnd að fara mjög vandlega yfir, með hvaða hætti hinar ótekjutengdu vaxtabætur, því að það er ekki hægt að kalla leiðréttinguna neitt annað, dreifast á tekjuhópana, hvernig hinar tekjutengdu vaxtabætur dreifast á tekjuhópana og hversu miklu betur væri hægt að styðja það fólk sem er með umtalsverðar skuldir, er með meðaltekjur eða lægri tekjur eða stórar fjölskyldur og á erfitt með að ná endum saman, hvernig væri hægt að nýta þessa fjármuni betur og með beinskeyttari hætti til að hjálpa þeim sem þurfa aðstoðar við til að ráða við sín húsnæðislán en ekki bara ausa peningum til fjölda fólks sem ekkert þarf á þeim að halda. Það er einfaldlega illa farið með fé.

Í öðru lagi, virðulegur forseti, vildi ég vekja máls á því sem snýr hér að starfsendurhæfingarsjóði. Nú um langt árabil, ég hygg að það sé komið langt á annan áratug, hafa menn rætt í samfélaginu, á vettvangi aðila vinnumarkaðarins, hér í þinginu, úti í sveitarstjórnunum og víðs vegar, um mikilvægi þess að gera breytingar á örorkumatskerfinu í landinu, gera breytingar sem lúta að Tryggingastofnun sem væru til þess fallnar að hvetja fólk til þess að starfa — og ekki bara hvetja fólk til þess að starfa heldur leggja áherslu á það að verja fjármunum til þess að gera fólki kleift að halda áfram að vinna þó að það verði fyrir áföllum, missi sjón eða heyrn eða hreyfigetu, eigi við geðræna örðugleika að stríða eða annað það sem getur leitt fólk til örorku. Í þessari orðræðu núna í hátt í 20 ár hefur það verið ríkur hluti af henni að kerfið hefur sagt við þá sem búa við örorku: Treystið okkur, þó að við höfum í áratugi lagt miklu minni peninga í endurhæfingu fólks en löndin í kringum okkur viljum við núna breyta því, hafa menn sagt, við viljum breyta því, fara að fjárfesta í fólki og leggja peninga í endurhæfingu, einkanlega starfsendurhæfingu, eins og gert er í löndunum í kringum okkur. Við erum tilbúin að setja fjármuni í það gegn því að gerðar verði breytingar á örorkumatskerfinu og að við horfum meira á starfsgetu en vangetu.

Allt hefur þetta verið ósköp falleg orðræða og væri út af fyrir sig hægt að sjá margvísleg rök sem stæðu til þess að gera breytingar í þessa veru, hlutast til snemma um það að þegar fólk verður fyrir áföllum fái það stuðning og aðstoð, helst áður en það missir þá vinnu sem það hefur verið í þannig að það geti haldið tengslum við atvinnurekanda sinn, kannski minnkað við sig starfshlutfall, fengið inn á vinnustaðinn sérfræðinga til að aðstoða sig við að halda áfram að vinna þrátt fyrir áföllin, kannski í minna starfshlutfalli, kannski í einhverju öðru starfi en það áður gegndi en leitast við að gera sem flestum fært að halda áfram að vinna. Við viljum öll fá að reyna á okkur, fá að nýta dagana okkar til að starfa og iðja. Það sem skortir fyrst og fremst til þess að fleiri geri það er stuðningur við fólk til að gera einmitt það og síðan auðvitað það að leiðrétta þessi vondu kerfi okkar þar sem fólki er beinlínis refsað fyrir að vinna, refsað með alls kyns óheyrilegum tekjutengingum sem jafnvel geta orðið meiri en launin sem fólk fær fyrir starfið.

Hvað gerist þá núna? Jú, í fjárlögunum er ekki gert ráð fyrir neinu framlagi úr ríkissjóði í starfsendurhæfingarsjóð. Það hefur gerst áður, en þá var þannig ástatt að í starfsendurhæfingarsjóði voru til verulegir fjármunir og mundi fyrirsjáanlega ekki bitna á þjónustunni á komandi ári að ríkið legði ekki til í sjóðinn og því var því frestað fyrstu árin. Nú hafa hins vegar forsvarsmenn sjóðsins VIRK upplýst að komi ekki fjármunir úr ríkissjóði á næsta ári þurfi að draga úr þeirri starfsendurhæfingu sem þar er fyrir hendi á sama tíma og ríkisstjórnin reynir í orði kveðnu að ná sátt og samstöðu um það að breyta örorkumatskerfinu yfir í starfsgetumat. Þá kippir hún að sér hendinni með fjármununum og hlýtur að vekja djúpstæðar efasemdir um að menn meini nokkuð með öllum fagurgalanum um að þeir vilji auka og efla starfsendurhæfingu og einbeita sér að starfsgetu öryrkja fremur en vangetu og að tilgangurinn með því að breyta örorkumatskerfinu sé sá sami og með þeirri tillögu að verja engu til starfsendurhæfingar á næsta ári, þ.e. að spara á þeim sem efnaminnstir eru. Í því virðist ríkisstjórnin vera hvað flinkust í fjárlagagerð sinni.

Þetta er kannski þeim mun verra vegna þess að hér varð nokkur umræða þegar VIRK-sjóðurinn hóf störf. Hann er í raun og veru stórkostlegt og gott framtak, bæði hjá verkalýðshreyfingunni og vinnuveitendum, til að efla starfsendurhæfingu í landinu. Þá ræddu menn um hvort sú starfsemi ætti að vera á vegum ríkisins eða hvort það væri forsvaranlegt að hún væri á vegum félagasamtaka úti í bæ eins og verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Það eru ákaflega verðug félagasamtök, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur, og hafa axlað margs konar félagslegar skyldur í samfélaginu um áratugaskeið og niðurstaðan varð sú að þeim aðilum væri fullkomlega treystandi fyrir verkefninu og jafnvel betur en hinu opinbera vegna þess að þeir hafa náin tengsl við vinnustaðina og margvísleg tækifæri til að hjálpa til við starfsendurhæfinguna sem hið opinbera hefur ekki. Þá var samt eftir vandinn: Hvað um þá sem eru ekki félagar í verkalýðshreyfingunni, þ.e. eru ekki á vinnumarkaði og eru samt öryrkjar? Hvernig á að fara með þá? Eiga þeir bara að standa utan kerfis? Á að búa til velferðarkerfi á vegum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda sem ekki nær til þeirra sem ekki eru á vinnumarkaði þar sem bara sumir Íslendingar eru hluti af velferðarkerfi starfsendurhæfingar og aðrir ekki?

Niðurstaðan varð sú að það mætti ekki verða, það mættu ekki vera tvær þjóðir í landinu að þessu leyti, heldur yrðum við að halda í þá grunnreglu íslensks velferðarsamfélags að allir eigi jafnan aðgang að velferðarþjónustunni, starfsendurhæfingunni sem öðru. Þess vegna varð niðurstaðan sú að ríkissjóður legði til þessarar starfsemi fyrir hönd þeirra sem ekki ættu aðild að kerfinu og þar með mundi VIRK þjónusta alla. Nú er það orðið þannig eftir að framlögunum var frestað um nokkurra ára skeið að af framlögum fyrirtækjanna og launafólksins er núna uppsafnað búið að greiða 840 millj. kr. í starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga sem eiga ekki aðild að þeim félögum og þeim vinnumarkaði sem greiða inn í þennan sjóð. Ríkissjóður er farinn að skulda sjóðnum verulegar fjárhæðir fyrir endurhæfingu fólks sem ríkið sannarlega á að borga fyrir. Það gerir þessa ákvörðun enn illskiljanlegri og þó ekki síst fyrir það að ekkert samráð var haft um hana við verkalýðshreyfinguna eða Samtök atvinnulífsins og það hefur nú kallað á mjög eindregnar yfirlýsingar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og spillt fyrir mikilvægum kjarasamningum (Forseti hringir.) sem fram undan eru í vetur.



[12:47]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór mjög vel yfir þetta mál og ég held að ekkert hafi vantað upp á upprifjun hans á forsögunni nema kannski eitt sem ég heyrði ekki í máli hv. þingmanns sem ég man eftir að var skoðað og menn veltu vöngum yfir, áhyggjur manna í árdaga þess að þetta fyrirkomulag fór af stað, og það voru landamærin milli hinnar opinberu endurhæfingar, endurhæfingar innan heilbrigðiskerfisins, og svo þessarar endurhæfingar, þ.e. hvort þar yrði tvíverknaður eða óhrein landamæri. Eftir því sem ég best veit hefur það svo ekki orðið að neinu vandamáli og þetta hefur allt saman unnið ágætlega hvað með öðru, þ.e. heilbrigðistengda endurhæfingin á öðrum forsendum að sjálfsögðu þegar menn hafa verið viðskiptavinir heilbrigðiskerfisins og fara svo áfram innan þess í endurhæfingu.

Ég deili þeim áhyggjum sem hv. þingmaður var hér með af því að, eins og ég orðaði það í gær, það hlýtur að fara að súrna mjög í þessum samskiptum ef ríkið kemur svona fram. Hér komu fram verðmætar upplýsingar um að viðskiptavinir starfsendurhæfingarsjóðsins, sem ekki eru eða hafa verið á vinnumarkaði en fá þar engu að síður þjónustu, séu orðnir þetta margir og að í raun og veru vanti þá upp á að ríkið hafi greitt fyrir þann hluta, hvað þá meira eins og til stóð. Þetta var hugsað sem þríhliða jafngilt samstarf atvinnurekenda, lífeyrissjóðanna sem komu þó nokkuð tregir inn í þetta og svo ríkisins. Ég hef alveg sérstakar áhyggjur af annars vegar því að það súrni í þessu gagnvart lífeyrissjóðunum sem töldu sig vera að fara inn í kerfið samhliða ríkinu en það fór af stað, eins og við munum, með iðgjöldum frá atvinnurekendum og svo náttúrlega þessu að ef menn líta svo á að það sé ekki staðið við það (Forseti hringir.) að greitt sé fyrir fólk utan vinnumarkaðarins sem þarna fær þjónustu fari þetta í mesta óefni. Spurningin er hvað þyrfti til að lágmarki. Nú er munur á 1,5 milljörðum (Forseti hringir.) og kannski engu. Gæti ríkið með nokkur hundruð milljóna króna framlagi á næsta ári byrjað að bjóða þarna upp á gott veður?



[12:50]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um áhyggjurnar gagnvart lífeyrissjóðunum, líka vegna þess að hér er höggvið aftur og aftur í sama knérunninn. Annað atriði sem ég kom ekki að í minni stuttu ræðu snýr að því að ríkisstjórnin dregur einhliða til baka og líka alveg án nokkurs samráðs um það atriði framlag vegna mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóðanna sem skiptir nokkrum milljörðum króna á ári hverju. Það getur aftur haft áhrif til þess að lífeyrissjóðir sjómanna, bænda, iðnverkafólks og annarra hópa, þar sem örorkubyrði er heldur hærri en í mörgum öðrum starfsstéttum, þurfi að takmarka réttindi félagsmanna sinna meðan aðrir sjóðir þurfa þess ekki, m.a. ekki hinir opinberu. Þetta er líka gert algjörlega án samráðs.

Ég held að þegar þingmaðurinn veltir fyrir sér hvaða upphæðir gætu skipt máli fyrir starfsendurhæfinguna skipta auðvitað máli fjárhæðir sem nema hundruðum milljóna króna. Menn hljóta þá að horfa á þetta sem má líta á sem skuld orðið, þessar 840 milljónir, að þá væri að minnsta kosti sett fram einhver áætlun um það hvernig menn ætluðu að vinna á því á einhverjum tíma og síðan standa undir tilfallandi nýjum kostnaði frá einu ári til annars. Það væri að minnsta kosti viðleitni af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessum samskiptamáta forsætisráðherra og fjármálaráðherra við verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins vegna þess að þríhliða samstarf ríkisvaldsins, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar er grunnurinn að hinu norræna velferðarsamfélagi, grunnurinn að þeim friði og samstöðu um uppbyggingu jafnt velferðarkerfis sem efnahagsstarfseminnar sem tekist hefur í okkar heimshluta. (Forseti hringir.) Menn sem átta sig ekki á því að þeir þurfi að leggja rækt við það eru á hálli pólitískri braut.



[12:52]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt það að nú er svo komið að þeir véla um sem kannski eru engir sérstakir aðdáendur eða stuðningsmenn þessa norræna þríhliða samskiptamódels. Þess vegna er ástæða til að vera á varðbergi þegar svona aðstæður koma upp. Það er hárrétt að það er sérstakt áhyggjuefni, þegar á sama tíma er sýnt á þessi spil, að ríkið dragi sig út úr þátttöku í jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóðanna og það leiði til þess að þeir lífeyrissjóðir muni á komandi árum svitna mjög undan því þar sem er hátt nýgengi í örorku. Það eykur áfram á aðstöðumun í kerfinu. Þetta er áhyggjuefni út frá samskiptum þessara aðila, þetta er stórt áhyggjuefni út frá því hversu brothætt andrúmsloftið er í sambandi við endurskoðun lífeyrisfyrirkomulagsins í heild. Við þekkjum hvílík púðurtunna samskipti almenna lífeyrissjóðakerfisins og opinbera sjóðakerfisins er. Menn hafa verið með mikla vinnu í gangi til að reyna að ná einhvern veginn utan um það. Það hefur ekki tekist enn og akkúrat næsta mál á eftir þessu sem við ræðum nú er frumvarp frá hæstv. ráðherra um að fresta enn eitt árið að takast á við það ástand, halda bara lokinu á pottinum.

Margt leiðir mann að þeirri niðurstöðu að það sé mjög glæfralega teflt hjá hæstv. ríkisstjórn. Nú er mjög í tísku að vísa í þinglega meðferð mála og þetta fer jú í okkar ágætu efnahags- og viðskiptanefnd þannig að við eigum sjálfsagt fundi með gestum og förum yfir þetta, en ég held að það verði að gera hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem hefur kannski ekki tjáð sig mikið um nákvæmlega þennan þátt málsins enn þá, gerir það vonandi hér á eftir, það alveg ljóst að menn munu ekki bara taka við þessu frá honum eins og það er hér fram reitt og afgreiða sisona. Það væri mikill ábyrgðarhlutur að gera það þannig að ég áskil mér að minnsta kosti fyrir minn hatt allan rétt til þess að gera hvað ég get til þess að ná þarna fram (Forseti hringir.) einhverjum lagfæringum þó að það væri ekki nema vísir að því að ríkið axlaði ábyrgð í þessum efnum og setti að minnsta kosti nokkur hundruð milljónir inn í þetta á næsta ári.



[12:54]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek einfaldlega undir það með hv. þingmanni að það er full ástæða til að gera allar þær breytingar til bóta á þessu frumvarpi sem mögulegt er að gera í meðförum nefndarinnar. Ég held líka að þegar menn skoða þær mörgu einskiptisaðgerðir eða aðgerðir sem fela ekki í sér raunverulegan sparnað eins og aðgerðin gagnvart atvinnulausum sem er bara ýtt yfir á sveit og þegar menn skoða það sem menn hafa farið í í kringum Seðlabankann og ýmsa aðra hluti sé ástæða til að hafa áhyggjur af umfangi svona einskiptisaðgerða og reddinga í fjárlagafrumvarpinu í ár og eins í fyrra og að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að það sé ofmat af hálfu hæstv. fjármálaráðherra og kannski fullmikil bjartsýni að við séum komin algerlega fyrir vind og að það sé skynsamlegt að gera eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að gera, bæði í þessum fjárlögum og hinum síðustu, að ausa gríðarlegum fjárhæðum út í skattalækkanir til útgerðarinnar og efnafólksins í landinu. Ég held að þó að við séum að fylgja þeirri áætlun sem síðasta ríkisstjórn, Samfylkingin og Vinstri grænir, lagði upp með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ná þeim árangri sem þar var að stefnt í ríkisfjármálunum og í hagvexti í landinu þurfi menn enn að gæta nokkurs aðhalds, einkanlega í skattalækkunum til vitlausra hópa á versta tíma og geyma sér að deila út góðgætinu þangað til líður á síðari hluta kjörtímabilsins og menn sjá betur hversu örugglega í hendi ávinningurinn af starfi síðustu ára er.