144. löggjafarþing — 9. fundur
 22. september 2014.
eignarhald Íbúðalánasjóðs á íbúðum á Suðurnesjum.

[15:06]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum var haldinn fyrr í þessum mánuði og lýsti með samþykktum sínum yfir þungum áhyggjum af þróun eignarhalds húsnæðis á Suðurnesjum. Á örfáum árum hafði Íbúðalánasjóður eignast þar æ fleiri fasteignir og í lok ágúst 2014 átti sjóðurinn 831 eign á Suðurnesjum sem eru 40% af heildareignum hans; 40% af íbúðum sjóðsins eru á Suðurnesjum þar sem innan við 7% landsmanna búa. Búast má við að sjóðurinn eignist enn fleiri íbúðir þegar frestun á nauðungarsölu verður aflétt. Í ályktun aðalfundar segir, með leyfi forseta:

„Þetta er slæm þróun fyrir samfélagið á Suðurnesjum og hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar í för með sér bæði fyrir bæjarfélögin og þær fjölmörgu fjölskyldur sem misst hafa heimili sín. Stöðugleiki í búsetu er öllum mikilvægur og óöryggi í húsnæðismálum fylgir mikil streita.“

Sveitarstjórnarmenn óttast að verði ekki gripið í taumana muni hin neikvæðu áhrif á samfélagið aukast enn frekar og skapa meiri vanda en fyrir er á svæðinu nú þegar. Þau benda einnig á að þar sem atvinnuleysi sé enn mikið á svæðinu í samanburði við aðra landshluta megi búast við því að ákvæði um styttingu hámarksbótatíma atvinnuleysisbóta leggist þungt á sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Ég vil spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hæstv. ráðherra sé meðvituð um þessa alvarlegu stöðu og hvort lausnir séu í sjónmáli á þessum vanda og hvort hæstv. ráðherra sé í samstarfi við sveitarstjórnir á Suðurnesjum um framtíðarlausn um þróun húsnæðismála á svæðinu.



[15:08]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir fyrirspurnina. Já, ég tók eftir þessari ályktun frá sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Það er alveg rétt, sem þar kemur fram, að hæsta hlutfall af einstöku lánssvæðum af eignum, íbúðum, sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið er á Suðurnesjum. Staðan er sú í dag að þar eru um 500 íbúðir í útleigu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa í huga að á sama tíma, held ég að hægt sé að fullyrða, er Íbúðalánasjóður væntanlega langstærsta leigufélagið á svæðinu eða með þeim allra stærstu. Ef bera ætti saman einstök sveitarfélög kom í ljós eftir fund með Sandgerðingum að Íbúðalánasjóður væri með þrefalt fleiri leiguíbúðir í Sandgerði en sveitarfélagið sjálft, hvað varðar félagslegt húsnæði.

Ég fundaði, fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, með þáverandi meiri hluta og einum fulltrúa minni hluta, sem sitja nú í minni hluta í Reykjanesbæ. Þar ræddum við hugmyndir þeirra um hvernig hægt væri að nýta húsnæði og aðstoða sveitarfélögin, sérstaklega við að hjálpa því fólki sem er í mestum fjárhagsvanda og getur ekki útvegað sér húsnæði sjálft. Ég hef hins vegar ekki heyrt frá nýjum meiri hluta í Reykjanesbæ frá því að hann var kosinn til valda, og væri óskandi að fulltrúarnir hefðu samband því að það er greinilegt að menn hafa áhyggjur af þessu ef marka má ályktanir þar um. Ég hef haft áhyggjur af þessu.

Þetta hefur náttúrlega endurspeglað erfiðleikana sem bæði ég og hv. þingmaður þekkjum ágætlega, sem hafa verið sérstaklega á Suðurnesjunum. (Forseti hringir.) Það er afstaða mín að þetta sé þess háttar vandamál, alveg eins og kom fram í ályktun sveitarstjórnarmanna, að við verðum að vinna þetta saman.



[15:11]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan eru 40% af eigum Íbúðalánasjóðs á Suðurnesjum. Sveitarstjórnarmenn óttast að íbúðunum fjölgi enn meir þegar frestur um nauðungarsölu rennur út og auk þess er mikil óvissa um íbúðir á Ásbrú, fyrrum varnarsvæði, þar sem aðilar hafa keypt íbúðir og standa illa. Þar var, eins og menn muna, 5.000 manna bær þegar best lét.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum leggur til að skipaður verði starfshópur ráðuneyta, Íbúðalánasjóðs, fjármálastofnana og sveitarfélaga á Suðurnesjum sem hafi það hlutverk að gera heildstæða og tímasetta aðgerðaáætlun um að koma húsnæðinu í not. Þau skora á hæstv. ráðherra að koma til samstarfs við sveitarfélögin og sveitarfélögin eru tilbúin í slaginn. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað honum finnist um þessar hugmyndir, um nefnd (Forseti hringir.) sem kortleggur framtíðina.



[15:12]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi segja fyrst er að við sjáum það í öllum hagtölum um þróun atvinnulífsins, raunar í hvaða tölum sem er sem við erum að skoða, að staðan er að batna. Það er að sjálfsögðu að gerast á Suðurnesjum eins og annars staðar á landinu.

Ég held að það sé líka, eins og ég fjallaði svo sem um núna um helgina, mjög mikilvægt að benda á að það er lagaskylda sveitarstjórnarmanna, og ég held að þeir séu að átta sig betur á því, að tryggja fólki húsnæði sem getur ekki sjálft aflað sér húsnæðis. Það hefur komið mér á óvart þegar ég hef verið að kanna þetta að af þeim fjárheimildum sem Alþingi hefur samþykkt til þess að hjálpa sveitarfélögum að kaupa húsnæði til útleigu fyrir þessa hópa hefur ríflega helmingurinn verið nýttur á undanförnum árum.

Mitt svar er: Já, ég vil svo sannarlega koma til samstarfs við sveitarfélögin, (Forseti hringir.) en það er mikilvægt að bæði ríki og sveitarfélög geri sér grein fyrir hvert þeirra hlutverk er í því samstarfi.