144. löggjafarþing — 9. fundur
 22. september 2014.
starfsemi Aflsins á Norðurlandi.

[15:35]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil ræða hér við hæstv. félagsmálaráðherra um Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi. Samtökin hafa starfað í 12 ár. Þar fer fram sjálfshjálparstarf, fræðslustarf og forvarnastarf. Þjónustan hjá samtökunum er skjólstæðingum að kostnaðarlausu. Til Aflsins getur fólk leitað með hvers konar ofbeldisreynslu, kynferðis-, heimilis- eða andlega. Nýlega hófst pararáðgjöf sem hugsuð er sem ráðgjöf við að vinna úr ofbeldisreynslu. Samtökin telja brýna þörf á að auka þá þjónustu sem í boði er og að setja fót kvennaathvarf sem mikil þörf er fyrir. Aflið þarf nauðsynlega að komast í stærra húsnæði og er unnið hörðum höndum að því. Mikill stuðningur og skilningur er hjá samfélaginu við starfsemi Aflsins og er séð fram á aukna þörf fyrir samtökin.

Það mikla góða starf sem fer fram á vegum Aflsins má vissulega kynna sér í ársskýrslu félagsins fyrir árið 2013. Aflið hefur fengið styrki frá ríki, Akureyrarbæ, auk þess sem einstaklingar, samtök, fyrirtæki og önnur sveitarfélög hafa komið að fjármögnuninni í gegnum árin. Sá stuðningur dugar ekki til að standa undir þeirri starfsemi sem fer fram hjá Aflinu þótt þar fari fram mikil sjálfboðavinna og óeigingjarnt starf.

Styrkur velferðarráðuneytisins fyrir árið 2014 var aðeins 1,4 milljónir, en óskað hafði verið eftir styrk upp á rúmar 7 milljónir. Fólk sem vinnur við þetta er að niðurlotum komið.

Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort hún hafi skoðað heildstætt starfsemi Aflsins og hvort hún styðji að starfsemin verði sett á fjárlög svo að skapa megi meira öryggi fyrir þessi brýnu samtök sem vissulega hafa sannað sig í gegnum árin.



[15:38]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að í Aflinu er unnið gott starf. Mjög mörg frjáls félagasamtök vinna virkilega mikilvægt og gott starf hvað snýr að forvörnum og aðstoð við fórnarlömb ofbeldis. Það er líka rétt sem kom fram að Aflið hefur fengið styrk í gegnum svokallaða verkefnastyrki velferðarráðuneytisins. Við munum auglýsa aftur á næstunni styrki Stjórnarráðsins. Ég vænti þess að Aflið muni sækja aftur um styrk þar. Það lá fyrir hver ákvörðunin ætti að vera varðandi stuðninginn. Það er mikilvægt að menn athugi hvort þeir séu búnir að sækja allt það fjármagn sem þeir eiga inni hjá okkur. Ég er viss um að forráðamenn Aflsins munu gera það.

Ég vildi hins vegar opna aðeins umræðuna víðar en þetta. Ég átti mjög góðan fund með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á föstudaginn til þess að ræða einmitt sérstaklega um áherslur hennar og hvað við gætum gert til að hjálpa henni til þess að innleiða þá verkferla sem hún hefur unnið að varðandi hvernig sé hægt að taka á ofbeldi. Í samtalinu kom fram að það skipti svo miklu máli að nálgast ofbeldi á heimili, ofbeldi í nánum samböndum með aðeins öðrum hætti en við höfum gert hingað til. Við ættum að leggja meiri áherslu á að það sé gerandinn í ofbeldismálum sem fari af heimilinu en ekki fórnarlambið með því að auka samstarf og efla lögreglu og félagsþjónustu, þá sé raunar hægt að hjálpa fólki mun meira. Við þurfum að endurnefna verkefnið Karlar til ábyrgðar því að það er farið að sinna konum líka, en með því er í rauninni hægt að hjálpa gerendum að hætta að beita ofbeldi.

Já, við þurfum að halda áfram að styðja við þau góðu frjálsu félagasamtök sem hafa verið (Forseti hringir.) að vinna að forvörnum gegn ofbeldi. Við þurfum líka að nálgast ofbeldi í nánum samböndum með öðrum hætti en við höfum verið að gera.



[15:40]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svör hennar. Ég vil vekja athygli á því að árið 2013 fjölgaði einkaviðtölum um 7,4% hjá Aflinu og voru þau 803 talsins. Alls voru 232 skjólstæðingar sem komu í einkaviðtöl hjá Aflinu árið 2013. Til samanburðar er þetta um 1/3 af því sem Stígamót hafa verið að sinna á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það sé mjög brýnt að samtök eins og Aflið fái þá viðurkenningu að vera sett á fjárlög. Það er kannski það sem ég er að reyna að vekja athygli á. Annað er mjög erfitt. Þessi samtök hafa verið starfandi í 12 ár og mér finnst alveg tími til kominn til að það sé skoðað að setja þau á fjárlög því að þau geta ekki verið hvort tveggja á fjárlögum og styrkjum.

Velferðarnefnd heimsótti Aflið síðastliðinn vetur. (Forseti hringir.) Við sem vorum þar sáum hve léleg aðstaðan var og hve brýnt var að það kæmist í betra húsnæði og fengi meiri stuðning (Forseti hringir.) frá hinu opinbera.



[15:41]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fékk Aflið 2,5 milljónir í styrk frá velferðarráðuneytinu. Auðvitað mundum við mjög gjarnan vilja styrkja með mun hærri upphæð öll þau góðu, frjálsu félagasamtök sem leita til okkar en því miður, eins og hv. þingmaður ætti að þekkja ágætlega, hafa slíkir verkefnastyrkir verið skornir verulega niður á undanförnum árum.

Ég vil samt ítreka það sem ég sagði hér áðan. Ég held að það sé mikilvægt að við horfum til þess að frjáls félagasamtök stígi inn þar sem við hjá hinu opinbera, velferðarþjónustan, erum kannski ekki að sinna hlutum nægilega vel.

Ég hef trú á þeirri aðferðafræði sem gafst mjög vel á Suðurnesjum og er nú verið að huga að því að innleiða hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að önnur lögregluembætti hafa verið að afla upplýsinga og kynna sér hvernig það virkaði. Þegar lögð er áhersla á aukið samstarf á milli lögreglunnar og félagsþjónustunnar til að taka á ofbeldi í (Forseti hringir.) nánum samböndum sjáum við meiri árangur en áður. Von mín er náttúrlega sú að koma í veg fyrir að við þurfum á kvennaathvarfi að halda. (Forseti hringir.) Það er það sem skiptir máli. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér hvað það varðar.