144. löggjafarþing — 9. fundur
 22. september 2014.
sérstök umræða.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[15:43]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að hafa fengið á dagskrá þessa sérstöku umræðu um samgöngur á Vestfjörðum. Tilefnið að þessu sinni er sá harði og illleysanlegi hnútur sem samgöngumál Vestfirðinga hafa komist í og reyndar verið í mörg undanfarin ár, ekki síst vegna lagadeilna um veg gegnum eða jafnvel utan um Teigsskóg í Þorskafirði.

Sú raunasaga nær um það bil áratug aftur í tímann þegar landeigendur í Þorskafirði risu gegn áformum um vegagerð um Teigsskóg. Þáverandi umhverfisráðherra samþykkti um síðir að vegur skyldi lagður með ákveðnum skilyrðum en sá úrskurður var ógiltur í héraðsdómi og síðar í Hæstarétti.

Ekki lauk málinu þar með og nú fyrir fáum dögum felldi Skipulagsstofnun úrskurð þar sem enn eina ferðina er hafnað vegalagningu um Teigsskóg og hringavitleysan um vegagerð í Gufudalssveit heldur áfram.

Eins og ég sagði í þinginu um daginn hef ég alltaf verið fylgjandi vegi um Teigsskóg, en ég geri mér líka grein fyrir því að sú leið er sú torveldasta gagnvart lögum eins og málum er háttað. Og á meðan málið er fast í lagaflækjum og þrætum streymir fjármagnið, sem annars hefði farið í að leysa samgönguvanda Vestfirðinga á sunnanverðum Vestfjörðum, í minna aðkallandi verkefni í öðrum landshlutum.

Íbúar á svæðinu hafa frá upphafi gert þá einu kröfu að gerður verði öruggur láglendisvegur um Gufudalssveit þannig að fólk geti allt árið komist leiðar sinnar til að sækja sér ýmsa þjónustu, sérstaklega yfir vetrarmánuðina þegar samgöngur eru með öllu tepptar við norðanverða Vestfirði. Og ég meina auðvitað á meðan beðið er eftir Dýrafjarðargöngum, við skulum gera ráð fyrir því að þau verði einhvern tímann að veruleika, og meðan beðið er eftir heilsársvegi um Dynjandisheiði sem er forsenda þess að hægt sé að sameina stofnanir, þjónustu og sveitarfélög á Vestfjörðum.

Öruggur láglendisvegur hefur verið krafa íbúanna og nú vill svo til að á teikniborði Vegagerðarinnar hafa lengi verið aðrar raunhæfar löglegar leiðir sem uppfylla einmitt kröfuna um að vera öruggur láglendisvegur. Það eru til dæmis leið A1 og leið I sem báðar gera ráð fyrir þverun Þorskafjarðar og góðum láglendisvegi inn eða út fjörðinn. Fullásættanlegar leiðir og að ýmsu leyti jafnvel betri.

Þess vegna koma þessar langvinnu þrætur um Teigsskóg spánskt fyrir sjónir og ekki síst sú umræða sem er uppi núna að hægt sé að setja sérstök lög um þessa tilteknu leið og þröngva þar með vilja ráðamanna fram til þess að koma vegi í gegnum skóginn.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er afstaða hennar til þeirra hugmynda, sérstakrar löggjafar um þessa tilteknu leið? Áttar ráðherrann sig á því að lagasetningu má líka kæra? Það er hætt við því kannski að málaferli haldi þá áfram, verði af því.

Skipulagsstofnun hefur leiðbeint Vegagerðinni í úrskurði sínum um hvað sé farsælast að gera ef menn vilja veg um Teigsskóg og hvernig væri hægt að leysa þetta mál, þ.e. með ósk um endurupptöku umhverfismats. Það er tafsöm leið en hún er samt fær þótt hún taki nokkur ár að öllum líkindum því að það þurfa að líða tíu ár frá upphaflegu umhverfismati.

Átakaleiðin hefur verið reynd nógu lengi, finnst mér, og ég er ansi hrædd um að hún sé ófær. Þess vegna er svo raunalegt að hugsa til þess að á meðan málinu er haldið í þessu átakaferli og þessum óleysanlega hnút bíða Vestfirðingar eftir því að fá að halda áfram búsetuþróun sinni, atvinnuuppbyggingu sinni, þeir fá ekki að sitja við sama borð og aðrir landshlutar vegna þess að samgöngumálin eru í ólestri. Það er óásættanleg staða fyrir landshluta sem þrátt fyrir allt er í uppbyggingu vegna aukinnar ferðaþjónustu, fiskeldis o.fl. og þarf að fá að halda þeirri uppbyggingu áfram.

Því spyr ég ráðherra: Mun þessi ríkisstjórn standa við marggefin fyrirheit margra ríkisstjórna til íbúa á Vestfjörðum um að (Forseti hringir.) leyst verði úr þessum samgönguvanda, annars vegar í Gufudalssveit og hins vegar með Dýrafjarðargöngum og uppbyggingu vegar um Dynjandisheiði?



[15:48]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Við vitum öll og þekkjum það vel að Vestfirðingar eru orðnir óþreyjufullir eftir niðurstöðu í þessu máli en auðvitað einnig niðurstöðu í öðrum brýnum samgöngumálum á svæðinu. Og ég tek undir það með heimamönnum og hef alltaf gert það. Þess vegna yrði aldrei um það að ræða sem kallað var hér áðan að þvinga fram vilja ráðamanna í gegnum lagasetningu, vegna þess að við vitum hver vilji heimamanna er. Vilji heimamanna í þessu máli hefur verið mjög skýr og ítrekaðar ályktanir komið frá sveitarfélögum og samfélögum á þessu svæði.

Nú stöndum við frammi fyrir, og það var rétt sem hv. þingmaður lýsti hér áðan, algjörri stjórnsýsluflækju um fullkomlega sjálfsagðan hlut. Við erum búin að velkjast í þessu máli í mörg, mörg ár. Og við skulum ekkert benda á einn öðrum fremur því kerfið hefur einfaldlega unnið einhvern veginn þannig með málið að það hefur tekið gríðarlega langan tíma.

Ég held að það sem við stöndum frammi fyrir núna sé fyrst og síðast að reyna að átta okkur á niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Það er rétt að niðurstaða stofnunarinnar var að sjálfsögðu vonbrigði en úr henni verður samt að vinna. Hér er spurt beint: Telur ráðherra koma til greina að skoða sérstaka lagasetningu vegna málsins? Já. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól og get endurtekið það Mér finnst að það þurfi að skoða það. Það þýðir ekki að ég muni flytja frumvarp á næstu dögum um slíkt en ég tel það ekki útilokað. Ég tel að vandinn sé bráður, ég tel þetta eitt brýnasta samgöngumál svæðisins og eitt af brýnni samgöngumálum í landinu, þannig að ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að vinna málið frekar og klára það.

Ég hef rætt málið í ríkisstjórn, ég hef rætt það í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Á morgun mun ég hitta þingmenn svæðisins, Vestfjarða. Við munum setjast niður með vegamálastjóra og umhverfis- og samgönguráðherra og fleirum til að reyna að átta okkur á stöðunni. Ég held að það sé ljóst að við stöndum frammi fyrir þremur kostum og við þurfum að velta því fyrir okkur hvað er best í því.

Fyrsta leiðin er sú að kæra, líkt og Vegagerðin hefur tilkynnt að hún muni gera. Sú kæruleið tekur auðvitað dálítinn tíma, gæti tekið langan tíma, nokkur ár jafnvel, eitt eða tvö ár að fá endanlega niðurstöðu í því. Og það getur vel verið að við metum það þannig að það sé einfaldlega of langur tími. Að mínu mati er það of langur tími.

Önnur leið er sú sem hv. þingmaður nefndi hér og það er að óska eftir endurupptöku vegna breyttra forsendna á grunni ólögfestra reglna um endurupptöku mála. Þingmaðurinn nefndi það áðan að slíkt mundi taka mjög langan tíma. Það er ekki endilega víst. Við erum að láta rýna það og það gæti hugsanlega tekið skemmri tíma en við höfum gert ráð fyrir. Ég tel því að við eigum að skoða það áður en við ákveðum frekar hvað við gerum.

Svo er það í þriðja lagi leiðin sem hefur ítrekað verið nefnd og það er að setja sérlög til að heimila veglínu um Teigsskóg. Ég held að áður en við förum í slíka umræðu þurfum við að ígrunda vel og nákvæmlega hvaða öðrum kostum við stöndum frammi fyrir og hvort við getum fengið einhverja niðurstöðu í málið innan nokkurra mánuða. Á grundvelli þess verðum við að meta hvort við tökum málið lengra.

Það er ekki alveg rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns um leiðirnar sem hafa verið kallaðar leið A1 og leið I. Þó að þær séu báðar í matsáætlun sem lögð var fyrir Skipulagsstofnun og við höfum verið reiðubúin að skoða þær nánar eru þær lausnir ekki jafn aðgengilegar og hv. þingmaður lýsti. Það er andstaða við þær líka, landeigendur á svæðinu hafa lýst sömu andstöðu við þær og við leiðina sem við erum stöðugt að ræða. Talið er að þar yrðu ákveðin umhverfisáhrif veruleg. Það er því ekki svo einfalt að það sé bara hægt að ganga í þær núna vegna þess að hin leiðin hafi ekki verið samþykkt. Þannig er það ekki, það er óvissa fyrir því að við fengjum leyfi fyrir þeim leiðum. Þess vegna hefur verið svo mikilvægt að hafa Teigsskógsleiðina inni í öllum áætlunum.

Mitt stutta svar við þessu er því ósköp einfalt og ég hef ítrekað sagt það: Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eitt brýnasta samgönguverkefni sem við stöndum frammi fyrir, sannarlega brýnasta verkefnið á þessu svæði og það verður að leysa það. Við munum setjast yfir það með þingmönnum allra flokka á morgun. Við munum sannarlega hitta íbúa á svæðinu til að átta okkur á því hvaða leið þeir vilja helst fara þegar staðan er orðin þessi og hvort við getum fengið einhver skýr svör. Ég hef sagt að við verðum að fá einhver skýr svör um næstu skref innan nokkurra mánaða. Við getum ekki talið þetta tímabil lengur í árum, það er einfaldlega ekki hægt að bjóða upp á það.

Um Dýrafjarðargöng sem hér voru nefnd og stöðu flugsamgangna almennt. Dýrafjarðargöng eru á samgönguáætlun og að öllu óbreyttu er miðað við að verkið verði boðið út árið 2016 og framkvæmdum ljúki árið 2019. Þetta er eitt af stóru, brýnu verkefnunum á þessu svæði og ég vona innilega, eins og ég hef sagt áður í umræðum á þingi, að okkur auðnist það og takist sem allra fyrst að tryggja það (Forseti hringir.) að Vestfirðingar geti notið þeirra lífsgæða sem þetta svæði býður upp á og samgöngur standi ekki í vegi fyrir því.



[15:54]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Samgöngur á Vestfjörðum eru vissulega óásættanlegar víða eins og við Árneshrepp og í Barðastrandasýslu og samgöngur á milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða. Þarna er ekki eingöngu um byggðamál að ræða heldur líka öryggismál fyrir þennan landshluta sem hefur lengi átt í mikilli varnarbaráttu. Sókn er nú í atvinnumálum og vonir vakna um að það sé betri tíð fram undan og þá er vegakerfið grundvöllur þess að það gangi eftir.

Fjárlagafrumvarpið í ár fyrir næsta ár er mikil vonbrigði hvað varðar framlög til samgöngumála. Í stað 23 milljarða í samgöngumál er gert ráð fyrir 20 milljörðum í þennan málaflokk. Áfram verður dregið úr styrkjum við innanlandsflugið og erfitt getur reynst að halda úti sama þjónustustigi á ríkisstyrktum leiðum eins og Bíldudal og Gjögri. Það kom fram í máli hæstv. innanríkisráðherra í umræðu um fjárlög á dögunum að þau verkefni sem ekki eru samningsbundin séu í óvissu. Þar eru í óvissu vegaframkvæmdir eins og áframhaldandi uppbygging á þjóðvegi 60 um Gufudalssveit og einnig Dýrafjarðargöng þar sem fjármögnun er ekki tryggð. Seinka verður útboði á Dýrafjarðargöngum, það kom fram í máli hæstv. ráðherra hér um daginn í umræðunni að göngin yrðu ekki boðin út fyrr en árið 2017. Nú sýnist mér að það sé ekki bara staðsetning veglínu sem er í uppnámi heldur líka fjármögnun þessara verkefna.

Ég hef sagt að ég virði þau sjónarmið sem komið hafa fram um náttúruverndargildi Teigsskógs en tel rök Vegagerðarinnar um að ný veglína raski aðeins 1% af gróðurlendi vera ásættanlega niðurstöðu sem allir verði að taka tillit til vegna brýnna hagsmuna svæðisins. Vestfirðir eru skilgreindir sem brothætt byggð og ábyrgð Alþingis er mikil gagnvart samgöngum þessa svæðis. Það verður að tryggja fjármögnun (Forseti hringir.) og samfellu í þau verkefni sem fram undan eru. Það er ekki bara byggðamál heldur mikið öryggismál fyrir þennan landsfjórðung.



[15:56]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Enn á ný ræðum við slæmar samgöngur á Vestfjörðum. Það er einstaklega sorglegt að það skuli þurfa að ræða það ár eftir ár vegna þess að fyrir margt löngu myndaðist samhljómur um að það væri mjög brýnt að fara í úrbætur eins og á Vestfjarðavegi. Það hefur hins vegar ekki gengið. Dýrafjarðargöngum hefur sífellt verið frestað en þau voru í fjárfestingaráætlun sem samþykkt var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þar var tryggt fjármagn og það átti að fara í þetta verkefni. Þess vegna er ömurlegt að sjá að ekki sé byrjað á því. Þetta er alltaf einhvern veginn svona. Svo ræðum við líka veginn norður í Árneshrepp reglulega.

Auðvitað þarf að fara að gera eitthvað í þessu en ég get ekki staðið hér og sagst vera með einu lausnina á þeirri flækju sem hefur myndast og verður sífellt flóknari á löngum tíma varðandi Vestfjarðaveg. Ég get þó sagt að miðað við það hvernig útfærslan á veginum hefur þróast frá upphaflegu hugmyndinni, í gegnum Teigsskóg, þá finnst mér álitlegra að fara í lagasetningu en áður. Vegurinn hefur það lítil áhrif á skóginn miðað við upphaflegu útfærsluna. Ég gat ekki mælt með lagasetningu áður, en mér finnst ég geta gert það núna, sem einni mögulegri leið sem þó er ekki fullkomin. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þá er hægt að kæra lagasetningu. Það er því ekki víst að flækjan leysist.

Nú finnst mér við einfaldlega vera komin á þann tímapunkt að við þurfum að skoða allar leiðir með opnum huga, þar á meðal lagasetningu. (Forseti hringir.) Einnig vil ég brýna hæstv. ráðherra til að skoða eina leið sem ég veit ekki hvort hefur verið reynd til hlítar en manni finnst oft að (Forseti hringir.) blasi við í deilumálum eins og þessum að fara mögulega sáttaleið eða einhvers konar samningaleið.



[15:59]
Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að taka þetta mál upp hér á Alþingi, sem og innanríkisráðherrann að fá tækifæri til að ræða þennan hluta landsins sem á erfitt uppdráttar þegar kemur að samgöngumálum.

Undanfarið hefur mest verið rætt um eina leið, um Teigsskóg. Umræðan hefur tekið langan tíma og hefur ekki enn fengið endi. Ég tel að ákvörðun um þetta mál þurfi að taka sem fyrst og hvet ég ráðherrann eindregið til þess. Búið er að vinna að þessari samgöngubót frá árinu 2005 eða lengur og málið er enn í uppnámi. Íbúar kalla eftir öruggari samgöngum á þessu svæði. Núverandi vegur er lokaður þungaflutningum í ákveðinn tíma þegar frost fer úr jörðu með tilheyrandi áhrif á atvinnulíf, svo að raunverulegt dæmi sé tekið. Ætla ég ekki að ræða mögulegar lausnir í þeim efnum en nýjasta tillagan, svokölluð ÞH-leið, miðast við 0,9% skerðingu á skóginum miðað við 12% í upphaflegu tillögunni, fyrir utan mótvægisaðgerðir um ræktun skógar á gamla vegarstæðinu. Treysti ég því að hæstv. ráðherra leysi úr þessu stjórnsýslustoppi og eyði óvissu íbúa á svæðinu.

Mig langar að nefna aðra mikilvæga samgöngubót fyrir Vestfirði, sem eru Dýrafjarðargöng. Göngin munu opna milli fjarða á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum. Þessi samgöngubót er mikilvæg vegna þess að yfir köldustu mánuði ársins, þegar aðrir leiðir eru lokaðar á Vestfjörðum, munu göngin stytta leiðir um allt að 400 kílómetra. Dýrafjarðargöng eru á núverandi samgönguáætlun, eins og hæstv. ráðherra nefndi, og áætlað að verkið hefjist 2016.

Að lokum vil ég leyfa mér að segja að það er mikill stuðningur og skilningur við Vestfirði af hálfu umhverfis- og samgöngunefndar. Við í nefndinni og sérstaklega formaður nefndarinnar teljum ástæðu til að nefndin geri sér (Forseti hringir.) ferð á Vestfirði til að skoða samgöngumál og umhverfismál í leiðinni.



[16:01]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2014 og á sama tíma stefnumótunarvinnu alveg til 2022. Við skulum byrja á samantektinni sem Vegagerðin gerði út af þessari þingsályktun. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Unnið er að því að stytta ferðatíma landsmanna til næsta atvinnu- og þjónustukjarna og áhersla lögð á að bæta samgöngur þar sem þær eru hvað lakastar, svo sem á sunnanverðum Vestfjörðum.“

Það er sérstaklega tekið fram. Þetta er alveg í upphafi þessarar samantektar sem Vegagerðin gerði.

Í þingsályktuninni sjálfri kemur fram varðandi áherslur til að ná markmiðum stefnumótunarinnar að lokið „verði við endurbyggingu allra helstu stofnleiða á landi og tengingu þeirra við þéttbýli, þar sem eru hundrað íbúar og fleiri, með bundnu slitlagi og viðunandi burðarþoli. Gert verði sérstakt átak við lagningu á bundnu slitlagi á umferðarlitla vegi sem hafa viðunandi burðarþol þrátt fyrir að veghönnun sé að einhverju leyti ábótavant.“

Í þingsályktuninni eru svo sérstaklega nefndir sunnanverðir Vestfirðir, að þar komist íbúar ekki leiðar sinna stóran hluta ársins. Það er ótrúlegt að við lifum við það að ekki er bundið slitlag til svona byggðakjarna.

Þá er kannski rétt að benda á að á sama tíma er í kringum helmingur af verði bensíns opinber gjöld sem eiga að renna til vegamála. Kannski væri ágætt að fá að heyra hjá (Forseti hringir.) hæstv. samgöngumálaráðherra hvernig því er háttað og hlutföllin þar sem þessir peningar renna ekki til þeirra málaflokka sem þeir eru eyrnamerktir.



[16:03]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er ekkert launungarmál fyrir þá sem keyra þarna um að staðan er allsvakaleg, að fara þarna um. Það sem verður að krassandi lífsreynslusögu konu úr Kópavogi, þegar hún kemur heim eftir ferðalag þarna vestur, er hversdagslegur veruleiki fólksins sem býr þarna. Þetta snýst um lífsafkomu fólks og þetta snýst líka um lífsgæði. Þess vegna er það orðið gríðarlega brýnt að við förum að setja verðmiða á þessa deilu um Teigsskóg þannig að tími fólksins fyrir vestan sé líka metinn til fjár.

Ég er þeirrar skoðunar að það skipti máli, af því að ég veit að það er samhljómur hér inni, ég veit að við viljum koma Vestfjörðum í tengingu við umheiminn, að þingið fari á þessum tímapunkti að ákveða það hér í sameiningu, með ráðherrann í broddi fylkingar, að taka af skarið um að velja þá leið sem tekur stystan tíma fyrir samfélagið þarna fyrir vestan en er jafnframt ásættanleg og svarar kröfum um að vera öruggur láglendisvegur eins og kallað hefur verið eftir. Það er lykilatriði.

Ef það er þannig að lagasetning varðandi Teigsskógsleiðina leiði til áframhaldandi málaferla þá verðum við líka að meta það þannig. Þá verður það að vega mjög þungt í ákvörðun okkar og þá verðum við að taka ískalda ákvörðun um að fara allt aðra leið eins og hér var nefnt af hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur vegna þess að tíminn er farinn að skipta svo miklu máli.

Virðulegi forseti. Það er síðan efni í aðra umræðu, sú lækkun á fjármagni sem við horfum upp á til samgöngumála almennt í landinu. Það er efni í aðra umræðu vegna þess að við erum að sjá sögulega lágar tölur í því efni hjá þessari ríkisstjórn. Það er kostnaðurinn við það að menn séu að losa sig við skatttekjur, eins og við höfum orðið vör við hér að undanförnu, af veiðigjöldum og líka af hinum svokallaða auðlegðarskatti.



[16:06]
Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur fram við þessa umræðu að það er hlustað á Vestfirðinga. Menn heyra hvað íbúar á Vestfjörðum hafa að segja, menn heyra áskoranir sem berast frá Vestfjörðum um mikilvægi þess að óvissu um þessa mikilvægu vegaframkvæmd sé eytt. Það kom vel fram í svari hæstv. innanríkisráðherra að hún mun taka þetta mál föstum tökum og þingheimur, eins og hér er talað um, er tilbúinn að standa á bak við hana í því.

Það er mikilvægt að við getum haldið áfram óslitið framkvæmdum við Vestfjarðaveg. Nú lýkur senn stórum áfanga í endurbótum á þeirri leið og því skiptir tíminn gríðarlega miklu máli, hvaða leið svo sem verður farin til að höggva á þennan hnút. Það voru nefndir þrír kostir, eða voru nefndir í ræðu hæstv. innanríkisráðherra, sem hafa bæði kosti og galla. Lagasetningarleiðin, sem æ fleiri taka undir, er kannski ekki gallalaus en ég heyri að þingmenn eru í meira mæli að sameinast um hana en á annmarka hennar hefur verið bent.

Ég vara hins vegar líka við því að við séum að eyða meiri tíma og meiri fjármunum í að hanna veglínur sem búið er að teikna margsinnis undanfarin ár. Það er ekki það sem við erum að bíða eftir, það eru ákvarðanir sem við erum að bíða eftir. Ég vara líka við því að verið sé að syngja þann söng að Dýrafjarðargöng eigi að frestast og frekari uppbygging sé ekki í kortunum. Það er ekki rétt og það kom alls ekki fram í orðum hæstv. innanríkisráðherra hér áðan.

Ég vil undirstrika það að í þinginu er góður samhugur um öfluga innviðauppbyggingu eða vegauppbyggingu á Vestfjörðum. En hver svo sem niðurstaðan verður um hvaða veglína verður farin í nefndum vegi eða nefndum áfanga má það alls ekki, þó hún verði dýrari, bitna á öðrum nauðsynlegum vegaframkvæmdum á því svæði.



[16:08]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þessum málum þar sem mikill samhljómur er í grunninn en mikill ágreiningur þegar kemur að umræðunni um útfærslu og framkvæmd.

Ég vil brýna hæstv. ráðherra í því að gæta að því hversu dýrmætur tíminn er í þessu efni. Þegar um er að ræða svæði eins og þetta, sem er í mikilli varnarbaráttu, er tíminn óendanlega dýrmætur. Þar sem svæðið má engan tíma missa getum við ekki leyft okkur, og þá er ég bara að tala um veruleikann, að fara ófriðarleið.

Hins vegar verðum við að gæta að því, þegar við tölum frjálslega um stjórnsýsluflækjur og bendur ýmsar, að sú lagasetning sem er fyrir hendi á Íslandi í þessu efni er lagasetning sem snýst að mörgu leyti um að verja hagsmuni sem verja sig ekki sjálfir en það eru hagsmunir náttúruverndar. Það er oft og einatt þannig að þær raddir eru ekki eins sterkar og aðrar raddir og það eru raddir sem við höfum búið um í lagasetningunni að þurfi að hugsa sérstaklega um. Þess vegna vil ég halda því til haga, af því að hér er talað um heimamenn, sem ég hef miklar mætur á og ber mikla virðingu fyrir, að heimamenn eru líka landeigendur sem hafa óskað eftir friðlýsingu þessa svæðis. Það eru heimamenn, landeigendur Hallsteinsness í Gufudalssveit og í Reykhólahreppi og þar í kring sem hafa óskað eftir því þar sem svæðið er einstakt og er hvergi annars staðar til sambærilegt.

Ég vil hvetja innanríkisráðherra og lofa liðsinni mínu í því að við hjálpumst að við að finna leið þar sem þessum sjónarmiðum er haldið til haga. Ég er þeirrar eindreginnar skoðunar að náttúruverndarsjónarmið og sjónarmið byggðar á Vestfjörðum séu ekki andstæð sjónarmið.



[16:10]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari umræðu og þakka fyrir hana. Ég vil einnig fagna því sem virðist vera þverpólitísk áhersla þingsins á að samgöngubætur á Vestfjörðum verði að raunveruleika fyrr en seinna.

Oft er talað um samgöngur sem lífæð, lífæð byggða og þeirra sem þar búa. En samgöngur um landið, og ekki síst þarna fyrir vestan, eru ekki síst lífæð þess að atvinnulíf blómstri og atvinnulíf þróist og verði fjölbreyttara. Vegurinn á sunnanverðum Vestfjörðum er ekki bara vegurinn þaðan fyrir íbúana heldur er hann líka vegur til sunnanverðra Vestfjarða og hann er nauðsynlegur til að ferðamennska og atvinna henni tengd geti blómstrað.

Ég vil taka undir með öðrum að ég fagna áhuga hæstv. ráðherra og brýni hana til að gera sitt besta til að við missum ekki meiri tíma í þessar vegabætur. Nú er ég ekki vegaverkfræðingur en ég hef séð margar góðar útfærslur og lausnir frá Vegagerðinni og margar hverjar í góðri sátt og samlyndi með umhverfissjónarmiðum. Ég treysti því og trúi að hæstv. ráðherra muni taka þetta veganesti frá þinginu að halda vel á málum.



[16:12]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég er mjög ánægð með það hversu mikið þetta mál er rætt hér í þinginu þessa dagana og vil þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að hefja máls á þessu í dag. Þegar enn ein neitunin kemur fram í þessu máli er bara hægt að lýsa því sem vonbrigðum því að við vitum að fara þarf í vegaframkvæmdir á þessu svæði, hvort sem það verður á þessum umdeilda stað eður ei. Krafan er um að það komi láglendisvegur á snjóléttara svæði sem fer ekki fram úr hófi í kostnaði og uppfyllir það hlutverk að koma á góðu sambandi við byggðirnar vestra til að bæta úr áralöngum samgönguvanda, auka öryggi íbúa, efla atvinnulíf og möguleika.

Það eru stundum svolítið köld rök sem er skellt framan í Vestfirðinga þegar myndin er máluð þannig að skógi vaxið land sé mikilvægt og ein helsta hindrun við framkvæmdir en á móti vegur öryggi þeirra og framtíðarmöguleikar. Það verður að fara í framkvæmdir. Það er, hefur verið og verður stefnan og þetta er ekki fyrsta leiðin sem er hafnað. Margar leiðir hafa verið skoðaðar en þær eru bæði það miklu dýrari að ekki er hægt að hugsa meira um þær eða í mikilli andstöðu við vilja heimamanna eða skipulag hreppsins.

Heimamenn hafa staðið saman og hafa ekki lokað alfarið á neinar hugmyndir sem hafa komið til skoðunar en umræðan hefur oft verið á þá leið að heimamenn eigi ekki að skipta sér þetta mikið af framkvæmdum og láta Vegagerð og aðra aðila sjá um að finna niðurstöður þó svo skipulagsvaldið liggi hjá heimamönnum að miklum hluta. Margir aðilar hafa komið að útfærslum á lausnum, endurmati, endurútreikningum o.s.frv. og staðan er sú að allir þessir aðilar þurfa að leggjast á eitt með heimamönnum og hæstv. innanríkisráðherra og finna viðunandi lausn. Og ég var mjög ánægð að heyra hæstv. innanríkisráðherra ítreka hér áðan að hún sé tilbúin að skoða það að setja sérlög til að heimila veglínu um Teigsskóg.

Herra forseti. Sunnanverðir Vestfirðir eru merkilegir fyrir að hafa ekki gefist upp á að reyna að byggja upp og halda öflugri byggð þrátt fyrir allt. En nú er komið að því að taka stóra ákvörðun í samgöngumálum fyrir Vestfjarðaveg nr. 60 og að mínu mati er ekki í boði að bíða lengur með ákvörðun um lagningu láglendisvegar um Teigsskóg. Þær ákvarðanir sem verða til þess að lausn fáist í málinu styð ég heils hugar, allt til þess gert að íbúar sunnanverðra Vestfjarða þurfi ekki lengur að búa við ferðabann á laugardögum og geti loksins farið að nýta möguleika sína til að verða enn sterkari.



[16:15]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem ég sleppti honum áðan. Á þessu samgönguþingi var bent á, með tilvísun í áherslu um bundið slitlag á vegi sem tengja byggðir með 100 íbúa eða fleiri, að á sunnanverðum Vestfjörðum byggju 1.100 manns án tengingar með bundnu slitlagi við hringveginn.

Fyrir mér er þetta kjarninn, það er árið 2014 og á sunnanverðum Vestfjörðum er 1.100 manna samfélag sem hefur ekki tengingu með bundnu slitlagi við hringveginn. Það þýðir, eins og kom fram á samgönguþinginu, að á sunnanverðum Vestfjörðum komast íbúar ekki ferða sinna stóra hluta ársins.

Það hlýtur að vera hægt að búa til huggulegan veg í gegnum þetta svæði og umhverfi sem menn vilja vernda. Þetta kunna menn víðs vegar í heiminum, að búa til huggulega vegi í gegnum skóglendi, þannig að 1.100 manna byggð þurfi ekki að vera án bundins slitlags og að menn komist ekki ferða sinna stóran hluta ársins.



[16:16]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa samræðu okkar þingmanna hér í dag og þessa málefnalegu umræðu. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra hennar hreinskilnu svör sem ég tek trúanleg. Ég treysti á að hún muni láta gjörðir fylgja orðum í þeim ásetningi sínum að leysa þetta mál.

Dýrafjarðargöngin sem hafa komið hér til umræðu eru tilbúin til útboðs. Það má minna á það. Þau hafa verið tilbúin til útboðs í mörg ár. Ég vil brýna hæstv. ráðherra varðandi það að fylgja því máli fast eftir. Allir til þess bærir aðilar, sem hafa fjallað um Vestfirði sem atvinnu- og búsetuþróunarsvæði, eru sammála um að Dýrafjarðargöngin eru lykilatriði varðandi það, ég tala nú ekki um í samhengi við allar sameiningartilraunirnar og áformin sem uppi eru.

Við nefndum innanlandsflugið, gátum lítið rætt það en innanlandsflugið er í raun almenningsssamgöngur á Vestfjörðum, það má minna á það. En það gleður mig líka að heyra þingmenn annarra kjördæma blanda sér í umræðuna í þingsal. Það var tímabært, það hefur ekki oft gerst áður þegar við ræðum samgöngumál á Vestfjörðum. Það gleður mig að finna þann samhljóm sem er að myndast hér um að leysa þetta mál.

Ég vil leggja áherslu á að nú verði lausnamiðaðar aðferðir hafðar að leiðarljósi. Átakaferillinn, ofbeldisferillinn, endalausu lagaþræturnar sem herða rembihnútinn, eru ekki endilega hin farsæla leið út úr þessu máli því að eins og hér hefur komið fram þá er tíminn dýrmætur og þetta svæði, svæði sem er í vörn, hefur ekki efni á því að láta mjög mörg ár líða til að halda áfram að byggja upp atvinnulíf sitt og byggðaþróun.



[16:18]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Líkt og aðrir hv. þingmenn þakka ég umræðuna sem ég held að hafi verið mjög málefnaleg og góð. Ég tek undir það, og það er enginn ágreiningur um það, held ég, í þessum sal, að þetta mál þolir ekki frekari bið. Það er reyndar komið á þann stað, og kannski fyrir löngu, að það þolir ekki frekari bið.

Þess vegna munum við sannarlega taka á því með þeim hætti sem hér var minnst á, með lausnamiðuðum hætti, berandi virðingu fyrir því að það þolir ekki bið, berandi líka virðingu fyrir því að hagsmunir íbúa eru mjög klárir og ákveðnir. Það eru ekki bara hagsmunir þeirra sem þarna búa heldur líka hagsmunir þeirra sem um svæðið fara, að hægt sé að fara í uppbyggingu o.s.frv.

Ég segi það sem ég hef sagt áður um þetta mál. Við verðum að finna á því lausn. Við höfum þegar fundað út af málinu. Við munum funda með þingmönnum Vestfjarða á morgun og ræða lausnirnar sem í boði eru.

Það er það sem er ánægjulegt við þetta mál ef eitthvað er ánægjulegt við það, ég tek undir með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur í því, að samstaðan er til staðar hér. Ég held að hver einasti þingmaður á hinu háa Alþingi telji mikilvægt að leysa málið. Nú einhendum við okkur í það, reynum innan fárra vikna að finna hver er farsælasta lausnin, gerum það tiltölulega fordómalaust og reynum að gera það út frá hagsmunum þessa svæðis og hagsmunum samgangna þar. Þá hef ég ekki áhyggjur af því að við finnum ekki lausn. Við munum finna hana en hún getur ekki tekið þann tíma sem þetta mál hefur tekið. Það verður að finna á því lausn og ég veit að þingheimur fer með mér í það.