144. löggjafarþing — 11. fundur
 23. september 2014.
þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu, fyrri umræða.
þáltill. ÖJ o.fl., 20. mál. — Þskj. 20.

[18:41]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mun ekki halda langa ræðu um þetta mál nú en þeim mun meira verður um það rætt nái málið fram að ganga og hljóti það samþykki Alþingis fyrir mitt næsta ár vegna þess að tillaga okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hv. þingmanns Pírata, Birgittu Jónsdóttur, gengur út á það að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu og að atkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en um mitt ár 2015.

Þetta þingmál horfir fram á við. Við gerum að sönnu grein fyrir sögunni, aðdraganda þess að við Íslendingar gerðumst aðilar að Atlantshafsbandalaginu, NATO, og þeim miklu hræringum sem það hafði síðan í för með sér. Hér voru miklar mótmælaaðgerðir 30. mars 1949 þegar Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og í kjölfarið voru 24 einstaklingar dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisvistar. Þyngsti dómurinn sem kveðinn var upp í undirrétti var 18 mánuðir. Hæstiréttur stytti hann í 12 mánuði, skilorðsbundið. Þar var um að ræða varaforseta Alþýðusambands Íslands og formann Hins íslenska prentarafélags. Þarna voru menn menningar, baráttumenn fyrir réttindum verkalýðsins og margvíslegum lýðréttindum enda fór svo að það var efnt til undirskriftasöfnunar þeim til stuðnings. Árið 1952 voru þessar undirskriftir afhentar forseta Íslands. Undirskriftirnar voru 27.364. Það var mikill fjöldi á þeim tíma.

Ég nefni þetta til að minna okkur á hversu hatrammar þessar deilur voru á sinni tíð og hve mikinn svip þær áttu eftir að setja á allt þjóðlífið og alla stjórnmálaumræðu á næstu áratugum. Þjóðin skiptist í fylkingar með eða á móti hernum og það var ekki fyrr en múrinn féll og Varsjárbandalagið leystist upp sem menn fóru að horfa til þess og viðurkenna að það væri komin ný heimsskipan.

Bandaríkjamenn áttuðu sig á þessu löngu á undan íslenskum ráðamönnum og vildu gjarnan losa herinn héðan af Miðnesheiðinni en það var beðið um að hann færi eins seint og kostur væri af atvinnuástæðum og eflaust öryggisástæðum líka í hugum einhverra. Ég ætla ekki að gera lítið úr viðhorfum manna á hvorn veginn sem var þótt ég hafi verið eindreginn NATO-andstæðingur og fagnað því mjög þegar herinn fór héðan af landi brott.

Þetta er sem sagt liðin tíð.

Nú erum við að horfa inn í nýjan heim. Ríkisstjórn Íslands ákvað í byrjun árs 2012 að setja niður nefnd um öryggisstefnu Íslendinga. Hún skilaði áliti þar sem sett var í forgang að við ættum í okkar stefnumótun að snúa okkur að borgaralegum verkefnum, svo sem umhverfisvá, netógn og náttúruhamförum, en síður að hinu hernaðarlega. Um þetta varð engu að síður ágreiningur og þann ágreining viljum við setja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við viljum skjóta þessu stóra ágreiningsefni til þjóðarinnar.

Ég hygg að það væri mjög hollt fyrir okkur Íslendinga að taka þessa umræðu. Viljum við vera hluti af hernaðarvél? Við gleðjumst mörg iðulega yfir því að Ísland skuli vera herlaus þjóð. Ég hef aldrei glaðst yfir þessu. Mér finnst þetta sjálfum aumasta hlutskipti sem hægt er að hugsa sér, að taka þátt í hernaðarbandalagi, taka þátt í ákvörðunum um að senda ungt fólk í stríð en vilja ekkert gera sjálfur. Þetta hefur mér alltaf fundist versti vesaldómurinn.

Þess vegna finnst mér við standa frammi fyrir því hvort við viljum hervæðast, taka þátt í hernaðarmaskínunni og bera höfuðið hátt eða hvort við eigum að halda áfram þessum sýndarleik um herlausu þjóðina sem sendir unga fólkið í stríðið en er ekki tilbúin að axla neina ábyrgð sjálf.

Ég held að það væri mjög hollt fyrir okkur að taka þessa umræðu.

Ég ítreka að ég ætla ekki að halda hér langa ræðu. Ég vísa til greinargerðar sem fylgir tillögunni upp á tvær síður með sögulegum skírskotunum þar sem vikið er að þessari nefndarskipan um þjóðaröryggisstefnuna og hvers vegna við teljum brýnt að endurmeta afstöðu okkar núna.

Ég vil bæta því við áður en ég lýk máli mínu að NATO hefur verið að gera slíkt hið sama. Allan tíunda áratuginn sátu menn á rökstólum innan NATO um það hvernig NATO ætti að laga sig að breyttri heimsmynd. Það fékkst ákveðin niðurstaða. Hún var mjög skýr. Í stað þess að staldra við það ákvæði NATO-sáttmálans sem segir að árás á eina þjóð sé árás á allar skyldum við víkka skilning okkar út og horfa til ógnarinnar. Ef einu ríki er ógnað er öllum ógnað. Hverjum verður líklegast ógnað í heiminum? Skyldu það vera þeir sem ásælast olíuauðlindir eða aðrar auðlindir? Skyldu það vera þeir sem fara með hernaði og hugsanlega ofbeldi í þágu sinna eigin hagsmuna? Gæti það verið? Gæti verið að þetta skipti okkur Íslendinga þess vegna miklu máli þegar búið er að breyta sjálfum grunninum hvað þetta snertir, að það gæti verið okkur mikið hagsmunamál hver er forseti Bandaríkjanna, hvort það er tiltölulega friðsamur maður sem vill friðsamlega sambúð — slíkir Bandaríkjaforsetar hafa verið til — eða haukar eins og George Bush? Auðvitað skiptir það okkur máli. George Bush er líklegur til að verða ógnað vegna stefnu sinnar og hagsmunagæslu og þá erum við, litla Ísland, með í spyrðunni eins og náttúrlega átakanlegast var og við gleymum seint þegar við vorum flokkuð sem eitt af viljugu ríkjunum sem sérstakir stuðningsaðilar við innrásina í Írak.

Þetta er hin breytta mynd sem er að verða. Það var í þessum anda sem ákveðið var, ekki nýlega heldur á afmælisfundinum 1999, hálfrar aldar afmæli, og svo einnig á Prag-fundinum eftir aldamótin, að NATO ætti að vera hreyfanlegra, það ætti að koma sér upp hreyfanlegum hersveitum. Nú er rætt um 4 þús. manna herlið af þessu tilefni.

Hæstv. forseti. Ég ætla að standa við það sem ég sagði í upphafi, ég ætla ekki að flytja langa ræðu. Ég vona að mér gefist tilefni til að flytja langar ræður á mörgum fundum þegar Alþingi hefur samþykkt þessa góðu þingsályktunartillögu.



[18:52]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður vera svolítinn óheppinn með tímasetningar. Ef hann ber framgang þessa máls fyrir brjósti og vill í reynd fá úr þessu skorið þá hefði ég í hans sporum ekki komið fram með tillögu á þeim tímamótum sem Evrópa stendur á núna. Ég held að það sé öllum ljóst hvað sem mönnum finnst um NATO að þrjár vinaþjóðir okkar, sem við á sínum tíma tókum þátt í að rétta hjálparhönd þegar þær endurheimtu fullveldi sitt, þ.e. Eystrasaltsþjóðirnar, eiga tilvist sína í framtíðinni undir Atlantshafsbandalaginu.

Ég fullyrði það að ef menn skoða til að mynda ástandið í Úkraínu, bera saman stöðu Úkraínu við þessar þrjár þjóðir þá ræður það eitt algerlega úrslitum varðandi hugsanleg afdrif í framtíðinni ef í odda skerst síðar að Eystrasaltsþjóðirnar njóta 5. gr. sáttmála Atlantshafsbandalagsins. Það þýðir að ef lagt verður til atlögu með einhverjum hætti við þær þá koma aðrar þjóðir þeim til varnar. Þetta held ég að öllum sé ljóst og jafnvel hv. flutningsmanni ef hann skoðar staðreyndir og hjarta sitt mjög grannt. Þess vegna segi ég það að ég hefði í hans sporum valið einhvern annan tíma til að leggja þetta fram.

Í annan stað spyr ég hinn vígreifa baráttumann sem er harðsnúinn andstæðingur NATO: Mun honum líða eitthvað betur innan NATO ef þjóðin er búin að samþykkja það í þjóðaratkvæðagreiðslu? Af hverju heldur hann ekki bara uppteknum hætti og berst gegn NATO? Ætlar hann að hætta því ef þjóðin lýsir því yfir að hún vilji vera innan bandalagsins?



[18:54]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun að sjálfsögðu eins og allir Íslendingar hlíta þeirri niðurstöðu sem þar fæst, en það er rétt hjá hv. þingmanni að ég mundi ekki hætta mótmælum mínum og andófi gegn þessu hernaðarbandalagi.

Ég er ekki að velja rangan tíma, ég er að velja mjög góðan tíma. Ég er að velja tíma þegar Evrópa stendur á barmi nýs kalds stríðs. Ég er búinn að skrifa um þetta greinar í blöð og ég tók afstöðu í samræmi við þetta þegar Evrópuráðið vildi úthýsa Rússum frá Evrópuráðinu og þá frá Evrópudómstólnum líka. Viti menn, þá komu um leið upp tillögur um að vísa öðrum þjóðum burtu sem fangelsa mannréttindafólk, t.d. Tyrkjum, og einhverjir vildu að Ísrael fengi ekki að sitja fundi. Allt er þetta umdeilanlegt. Ég er einfaldlega sjálfur þeirrar skoðunar að á slíkum vettvangi eigi fólk að tala saman.

Ég er sammála hv. þingmanni varðandi Eystrasaltsþjóðirnar. Þar gerðu Íslendingar nokkuð sem lengi verður minnst, að viðurkenna Eystrasaltsríkin. Hvernig stendur á því að NATO-ríkin gerðu það ekki, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Þýskaland? Það er gamla samtryggingin sem birtist núna varðandi Krímskaga. Það spyr enginn á þessum nótum: Hver er vilji íbúa á Krím? Þess spyr enginn fullveldi þjóðríkisins sem á þeim tíma var Sovétríkin. Þess vegna þorðu þessar þjóðir ekki að gera það sem Íslendingar gerðu. Við höfum alltaf viðurkennt vilja þjóðanna, fólksins og það er það sem við erum að gera.

Nei, ég er ekki að velja rangan tíma. Ég vil ekki vera í þessu púkki.



[18:56]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrri ræðu sinni sagði hv. þingmaður: Við horfum fram á nýjan tíma. Í seinni ræðunni sagði hann: Við stöndum á barmi kalds stríðs. Er hann þá að segja að hinn nýi tími sé kalt stríð og við þær aðstæður sé best að draga sig út úr bandalaginu? Ég held ekki. Ég held að þetta sé fullkomin þverstæða hjá hv. þingmanni. Ég tala auðvitað sem maður sem er þeirrar skoðunar að hvað sem mönnum finnst um Atlantshafsbandalagið, og ég hef ekki alltaf verið mjög hrifinn af þeim selsskap, þá sé það ákveðinn neyðarhemill. Ég get ekki annað en horfst í augu við þá staðreynd. Ég tel að eins og staðan er í heiminum í dag og í Evrópu sérstaklega þá sé það algerlega nauðsynlegt, t.d. til að tryggja sjálfstæði þessara þriggja ríkja. Ég gæti haldið langar ræður um það en ég tel ekki æskilegt endilega að fyrrverandi utanríkisráðherra sé að úttala sig um það á miklu dýpi. Það er hins vegar hugsanlegt að þegar hv. þingmaður stendur við hótanir sínar um hinar löngu ræður þá verði dregin fram móðir allra ræðna um þetta mál. Þetta vildi ég segja af fyllstu vinsemd við hv. þingmann.

Hann segir að við stöndum á barmi kalds stríðs í Evrópu. (ÖJ: Já.) Ég held ekki. Ég held að við séum nú þegar í köldu stríði. Það er því miður hugsanlegt að miklu heitara skeið sé að færast nær okkur. Það er hægt að halda því fram að við stöndum á jaðri heitrar styrjaldar. Ég tel t.d. að þeir sem búa í vesturhluta Úkraínu líti svo á. Ég hugsa að staða Úkraínu væri allt önnur ef ríkið væri t.d. innan Atlantshafsbandalagsins. Það stóð aldrei til vegna landfræðilegra og pólitískra ástæðna. Þetta er mín skoðun. Svo til að hafa sagt það, af því að hv. þingmaður orðaði það eins og hann gerði, þá var Krím hluti af Úkraínu.



[18:58]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eystrasaltsríkin voru hluti af Sovétríkjunum og þar var komin skýringin á því að NATO vildi ekkert gera í málunum. Það að viðurkenna þjóðríki, að það megi ekkert hrófla við því. Þetta er umræða sem hefur farið fram víða um heiminn en þarna skáru Íslendingar sig úr vegna annarrar afstöðu, vegna þess að við hlustuðum á fólkið og vildum vita hvað það vildi gera.

Ég er tilbúinn að taka umræðu um hlutdeild NATO og þess vegna Evrópusambandsins í atburðunum sem áttu sér stað í Úkraínu. Ég verð að segja að ég hef komist að þeirri niðurstöðu að NATO er ekki félagsskapurinn sem forðar okkur frá heitu stríði eða frá átökum og þess vegna köldu stríði.

Við gerum grein fyrir því í greinargerð okkar með þingsályktunartillögunni að NATO hefur verið að leita sér að nýju hlutverki og hefur nú fundið hlutverkið. Ef hv. þingmaður heldur því fram að NATO hafi verið að reyna að bera klæði á vopnin í öllum þessum aðdraganda og í öllu þessu ferli þá held ég að hann fari villur vegar. Ég er tilbúinn að taka þá umræðu hvenær sem er.



[19:00]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka það fram að ég er einstaklega glöð yfir því að þetta mál, tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu, sé komin á dagskrá Alþingis og hv. þm. Ögmundur Jónasson sé búinn að mæla fyrir því.

Þá er ég ekki síður ánægð með að vera meðflutningsmaður á þessu máli. Eins og fram kemur í greinargerð er þetta ekki í fyrsta sinn sem málið er lagt fyrir hér á Alþingi án þess þó að það hafi náð fram að ganga svo að nú er kominn tími til og þó fyrr hefði verið.

Ísland samþykkti 30. mars árið 1949 að gerast stofnaðili að hernaðarbandalaginu NATO. Það eru því rétt rúm 65 ár síðan íslenskir ráðamenn skrifuðu undir inngönguna, reyndar með fyrirvörum um að þrátt fyrir aðildina skyldi aldrei vera hér her á friðartímum og að Ísland mundi aldrei verða aðili að stríði. Þann fyrirvara áréttaði Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, í ræðu sinni við stofnunina.

Síðar átti þó eftir að koma í ljós varðandi fyrra skilyrðið að skilgreiningin „á friðartímum“ reyndist ansi teygjanleg. Seinna skilyrðinu, um að Ísland mundi aldrei verða aðili að stríði, hentu íslenskir ráðamenn sjálfir út um gluggann og skrifuðu upp á hvert stríðið á fætur öðru, Júgóslavía 1999, Afganistan 2001, Írak 2003, Líbía 2012. Þetta eru fjögur stríð á 12 ára tímabili ýmist beint eða óbeint í gegnum NATO-aðildina.

Ákvörðunin um að Ísland gengi í NATO var tekin hér í þessu húsi af meiri hluta þingsins, með samþykkt þingsályktunartillögu. Fyrir utan á Austurvelli var hins vegar mikill fjöldi fólks saman kominn til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, þ.e. að þjóðin sjálf fengi að ráða hvort hún gerðist aðili að hernaðarbandalaginu.

Mótmælum fólksins á Austurvelli var mætt með gríðarlegri hörku og til eru myndbandsupptökur sem sýna hjálmbúna menn koma stormandi út úr þinghúsinu í gegnum táragasský vopnaða kylfum sem þeir beittu á fólkið sem hafði komið saman til að nýta lýðræðislegan rétt sinn til mótmæla.

Í upphafi, þegar NATO var stofnað, voru aðildarríkin 12. Þeim hefur svo fjölgað í tímans rás og eru nú 28. Eins og flestum ætti að vera kunnugt eru Bandaríkin langöflugasta herveldið innan NATO en Frakkland, Spánn, Þýskaland og Bretland, svo að nokkur ríki séu nefnd, hafa þó einnig yfir sterkum herjum að ráða. NATO er því hernaðarbandalag sem inniheldur mörg stærstu herveldi heims. Aðildarríki NATO eru jafnframt mestu vopnaframleiðslulönd veraldar og saman standa þau undir um 70% útgjalda til hermála í heiminum. Þar á bæ eru því aðilar sem hafa gríðarlega hagsmuni af stríðsátökum. Við skulum ekki láta blekkja okkur með einhverju öðru. Bandalagið er tæknisinnað og lætur kostnað ekki hindra sig í að fjárfesta í nýjum og dýrum stríðstólum. Vorið 2008, þegar veröldin stóð á barmi efnahagskreppu, alla vega okkar heimshluti, var haldinn NATO-fundur í Búkarest þar sem einróma var samþykkt ályktun þess efnis að engin ríkisstjórn skyldi, þrátt fyrir kreppu og þrengingar, skera niður fjármagn til hermála. Íslendingar áttu sína fulltrúa á þessum fundi en Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi þingmenn og ráðherrar, fóru til fundarins eins og frægt varð með einkaþotu, með efnahagshrun handan við hornið.

NATO er ekki aðeins hernaðarbandalag sem byggir herveldi sitt á hefðbundnum hátæknivopnum. Það er einnig og ekki síður bandalag sem byggir á kjarnorkuvopnastefnu. Þetta er bandalag sem útilokar ekki beitingu kjarnorkuvopna að fyrra bragði. Þetta er bandalag sem markvisst elur á spennu í heiminum, meðal annars með áformum um uppsetningu gagneldflaugakerfis sem óttast er að geti komið af stað nýju vígbúnaðarkapphlaupi. Og þetta er bandalag sem hefur á síðustu árum gerst sífellt árásargjarnara og blandað sér í stríðsrekstur í fjarlægum löndum.

Lengst af var Ísland fremur óvirkt þátttökuríki í NATO en á síðustu áratugum hefur stefna ýmissa ráðamanna verið sú að auka leynt og ljóst þátttöku okkar. Sú þróun hófst raunar um það leyti sem kalda stríðinu átti að heita lokið. Birtingarmyndir þess hafa verið auknar heræfingar við Ísland, oft með þátttöku borgaralegra stofnana. Ísland er lánað sem vettvangur fyrir orrustuþotur NATO-ríkja í svokallaðri loftrýmisgæslu og svo mætti lengi telja.

Fáránlegasti kaflinn í þeirri sögu er þó vafalítið þáttur íslensku friðargæslunnar í Afganistan. Þrátt fyrir nafnið var í raun um að ræða herdeild sem skipuð var íslenskum mönnum undir íslenskum fána og sem laut öllum sömu lögmálum og hver annar her NATO-ríkja. Það hermennskuævintýri tók skjótan en dapurlegan endi með atburðunum í Kjúklingastræti í Kabúl eins og mörgum ætti að vera í fersku minni.

Það er þó rétt að hrósa tveimur fyrrverandi utanríkisráðherrum, þeim Valgerði Sverrisdóttur og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrir þeirra þátt í að hætta hermennskutilburðum íslensku friðargæslunnar. Styrkur Íslendinga á alþjóðavettvangi liggur ekki í stríðsleikjum heldur þróunaraðstoð og störfum að mannúðarmálum. Í því samhengi er umhugsunarvert að núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur á starfstíma sínum skorið niður framlög til þróunarsamvinnu en á sama tíma aukið framlög til NATO og lofar enn hærri framlögum eins og fram kom í tengslum við heimsókn Anders Fogh Rasmussens, fráfarandi framkvæmdastjóra NATO, til Íslands og á leiðtogafundi NATO nú á dögunum.

Virðulegi forseti. Við friðarsinnar höfum ekkert að óttast varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að NATO. Reynslan sýnir að umræðan styrkir málstað okkar enda eru flestir þeirrar skoðunar að það sé rangt að drepa annað fólk. Við eigum að leita friðsamlegra lausna en ekki að hoppa alltaf á lausnir hermangaranna. Þær hafa ekki virkað hingað til. Um það vitnar til að mynda ástandið bæði í Afganistan og Írak. Við eigum að leggja okkar af mörkum til að byggja samfélög upp, ekki að brjóta þau niður. Það er löngu kominn tími til að klára það sem fólkið á Austurvelli krafðist árið 1949; að þjóðin sjálf fái að taka ákvörðun um það hvort við tilheyrum NATO og stríðsrekstri þess eða ekki. Þess vegna eigum við að samþykkja þessa þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.



[19:08]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég væri nú ekki hræddur við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og er almennt þeirrar skoðunar að það sé góð leið til að jafna ágreining. Hins vegar er ég ósammála þeim hv. þingmönnum VG sem hér hafa talað um að einhver sérstaklega mikill og djúpur ágreiningur sé um veru okkar í NATO um þessar mundir. Ég held að svo sé ekki.

En það er annað sem ég ætlaði að koma að: Við verðum alltaf, þegar við förum yfir söguna, að greina rétt frá henni. Við eigum ekki að falsa hana, við eigum alltaf að segja rétt frá. Hv. þingmaður kom hingað eins og hvítskúraður engill og ræddi hin ýmsu stríð sem hún sagði að herstjórar íslenska lýðveldisins hefðu att íslensku þjóðinni út í. Þar á meðal var Líbíustríðið en þá var ég utanríkisráðherra. Hvernig var það mál afgreitt af hálfu utanríkisráðherra sem þá var? Hann ræddi það hér í þinginu, gerði það með eins lýðræðislegum hætti og hægt var. Það var tekið til sérstakrar umræðu hér. Og alveg sama hvað VG segir í dag, þá getur það ekki breytt þeirri staðreynd að í þeirri umræðu lýstu allir þingmenn sig samþykka þeirri ákvörðun sem tekin var, þ.e. að Ísland legðist ekki gegn þessu. Það er vert fyrir hv. þingmann að fara og lesa þingtíðindin og skoða sérstaklega ræður þingmanna VG. Þeir voru ekki ósammála því.

Tveir þingmenn VG töluðu í þeirri umræðu og voru því sammála. Annar þeirra talaði með þeim hætti að ég, í þeirri umræðu og síðar, túlkaði ræður hennar á þann veg að hún hefði gengið lengst allra, hún taldi að við slíkar aðstæður, sem þá voru að skapast í Líbíu, hefði þjóð eins og Ísland skyldu til að bregðast við. Það var enginn í þingsal sem talaði gegn þessu, enginn frá VG á þeim tíma þegar ákvörðun var tekin og þess vegna var hún tekin.

Síðan kom það auðvitað fram, þegar menn skoðuðu þetta mál (Forseti hringir.) og atburðum vatt fram, að þá urðu menn annarrar skoðunar. Það breytir því ekki að VG var ekki á móti því á þeim tíma.



[19:11]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú sat ég ekki á þingi þegar verið var að ræða aðdragandann hér, þegar stríðið í Líbíu skall á, og tók þar af leiðandi ekki þátt í umræðunni héðan úr þingsal. Ég fylgdist hins vegar með þeim sem leikmaður utan úr bæ. Ég skal vera alveg hreinskilin með það að þar fannst mér málum vinda fram með óskaplega undarlegum hætti og orð og tungutak, sem ég taldi mig skilja, reyndist síðan þýða eitthvað allt annað þegar að kom í praxís, ef svo má segja.

Það breytir ekki því að eftir því sem málum vatt þar fram hefði ég haldið að við hefðum átt að ganga miklu harðar fram í því að mótmæla og segja: Nei, hér erum við komin út á kolranga braut. Við héldum kannski upphaflega að við værum að stíga rétt skref en þetta þróaðist í einhverja allt aðra átt. Mér finnst að þingið og hæstv. utanríkisráðherra, eða í raun hver sem er í ríkisstjórn Íslands, hefðu átt að tala þar miklu skýrar fyrir því að við mundum vinda ofan af því sem þar var að gerast og tala fyrir friðsamlegri lausn. Það var í það minnsta sem ég sem einstaklingur úti í bæ hugsaði þegar öllu þessu vatt fram.



[19:13]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Rétt skal vera rétt. Menn geta haft allar skoðanir á því hvernig atburðarásinni í Líbíu vatt síðan fram. Menn geta þess vegna dregið ansi stórtækar afleiðingar af núverandi stöðu þegar þeir velta fyrir sér ákvörðunum sem þá voru teknar. Það breytir engu um það að þegar ákvörðunin var tekin þá var hún rædd á Alþingi, það var bara þannig. Og hv. þingmaður getur farið í þingtíðindin og séð þann samhljóm sem var í umræðunni; hún segist hafa fylgst með henni, sennilega þá í sjónvarpi eða útvarpi. Það breytir engu um það að hún hefur engan sögulegan rétt til að koma hingað og halda ræðu um það að forustumenn Íslands hafi att Íslandi út í hin ýmsu stríð og hún telur þau upp, meðal annars Líbíu.

Nú er það svo að ég er alls ekki að firra mig neinni ábyrgð eða slíku. Ég horfðist í augu við mína ábyrgð en ég gerði það sem var lýðræðislegt, ég ræddi við þingið. Það var einfaldlega þannig að það var ekki einn einasti kjaftur hér í þinginu sem var með aðrar skoðanir á þeim tíma og ákvörðun var tekin á tiltölulega stuttum tíma.

Ég ítreka það að atburðarásin sem síðar varð var með þeim hætti að til dæmis Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og ýmsum fleirum óaði við, sennilega réttilega. Það breytir engu. Þingið var spurt, það var talað við þingið og ráðherrann hafði enga ástæðu til að ætla að það væru einhverjir hér í þinginu á þeim tíma sem sæju mikla meinbugi á þeirri afstöðu sem síðar varð niðurstaðan. Þannig er það bara.



[19:15]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera spurning um að ég hafði ekki verið nógu nákvæm í orðalagi. Þegar ég talaði um ráðamenn þá finnst mér að þó þingið hafi tekið meirihlutaákvörðun — alveg eins og þingið tók meirihlutaákvörðun um að við skyldum ganga í Atlantshafsbandalagið — það ekki fría ráðherrann af þeirri ábyrgð á málinu. Gott og vel, hann hafði þingmeirihluta fyrir því. Engu að síður hlýtur hann að bera mjög mikla pólitíska ábyrgð á því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig eftir það. Þar liggur ábyrgð hans.



[19:16]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um þetta mikilvæga þingmál. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir mjög góða ræðu og fyrir mjög góðan og heiðarlegan málflutning.

Við hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi hv. þm. Össur Skarphéðinsson vil ég segja: Ríkisstjórn hefur verið kölluð saman til fundar af minna tilefni en þessu. Hann segir að það hafi ekki verið eins og hann orðaði það „kjaftur á móti“. Ég gæti talið upp nokkra kjafta sem höfðu um þetta efasemdir og voru þessu ráðslagi andvígir.

Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið þátt í umræðunni, þar á meðal til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Það er mjög gagnlegt að fá strax svona sjónarmið fram. Ég hefði kosið að fulltrúar allra flokka hefðu komið og lýst sjónarmiðum sínum þó að afstaða manna til þessa máls eigi eftir að ganga að einhverju leyti þvert á flokka.

Ég vil ljúka orðum mínum með því að óska eftir því að málið fari til utanríkismálanefndar til afgreiðslu þar.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.