144. löggjafarþing — 12. fundur
 24. september 2014.
jafnt aðgengi að internetinu, fyrri umræða.
þáltill. BirgJ o.fl., 28. mál. — Þskj. 28.

[17:56]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um jafnt aðgengi að netinu. Ásamt mér sjálfri eru hv. þingmenn Pírata Helgi Hrafn Gunnarsson og Jón Þór Ólafsson flutningsmenn tillögunnar.

Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að vinna aðgerðaáætlun um jafnt aðgengi allra landsmanna að internetinu óháð búsetu og fjárhag. Í þeirri aðgerðaáætlun skuli útlista í fyrsta lagi hvernig jafnt aðgengi allra landsmanna að internetinu verði tryggt í samræmi við „nethlutleysis“-hugmyndafræðina, eftir atvikum með lagasetningu um skyldubundna lágmarksþjónustu netveitna og í öðru lagi hvernig sanngjörn og sem jöfnust gjaldtaka fyrir slíka lágmarksþjónustu verði tryggð.

Þá er lagt til að ríkisstjórnin skuli kynna aðgerðaáætlunina fyrir Alþingi ásamt kostnaðarmati á verkþáttum hennar eigi síðar en 1. mars 2015, en lagafrumvörp um nauðsynlegar lagabreytingar til að ná markmiðum áætlunarinnar verði lögð fram á haustþingi 2015 og nægilegar fjárveitingar tryggðar meðan á framkvæmd áætlunarinnar stendur.

Forseti. Aðgangur almennings að internetinu mun án efa teljast til mikilvægustu mannréttinda framtíðarinnar. Internetinu hefur verið lýst sem einu áhrifamesta verkfæri 21. aldar til að auka gagnsæi, tryggja aðgang að upplýsingum og efla virka þátttöku almennings í lýðræðislegu samfélagi. Því standa rík rök til þess að tryggja öllum landsmönnum öruggan aðgang að internetinu. Internetið er margt í senn. Það hýsir nánast alla fjölmiðlaumfjöllun landsins, öll gögn og upplýsingar, auk þess sem samskipti fólks fara að miklu leyti fram á internetinu. Internetið er afar dýrmætur vettvangur til tjáningar fyrir fólk sem á erfitt með að tjá sig með einföldum hætti á annan máta, auk þess sem það getur brúað bil milli ólíkra tungumála. Því er mikilvægt að tryggja góðan aðgang allra landsmanna að netinu í þágu upplýstrar umræðu og lýðræðis.

Forseti. Mikið hefur verið fjallað um tilraunir stórfyrirtækja í Bandaríkjunum til að hefta svokallað nethlutleysi, Net Neutrality, sem skilgreina má sem jafnt aðgengi allra að internetinu. Jafnt aðgengi þýðir að allir geti fengið sambærilegt aðgengi að netinu á sama hraða og öll gögn séu meðhöndluð til jafns og hefur þetta jafnræði stuðlað að þeirri öru þróun sem hefur gert netið að því sem það er í dag. Það er ekki erfitt að setja það í samhengi við aðgengismismunun á milli dreifbýlis og þéttbýlis, þessar tilraunir stórfyrirtækja í Bandaríkjunum. Þau hafa reynt að hafa áhrif á lagasetningu á fjarskiptamarkaði í Bandaríkjunum um svokallaða internet-hraðbraut og í því samhengi hafa vaknað áleitnar spurningar um hvað slíkt fyrirkomulag felur í sér.

Í dag hefur netið þróast á þann veg að nánast er ómögulegt að lifa eðlilegu nútímalífi án þess að nota netið til daglegra nauðsynja. Langflestir Íslendingar nota það til dæmis til að skila inn skattframtali, skoða framvindu barna í skóla, sækja um alls konar þjónustu, fara í netbanka, vera í samskiptum við vini og vandamenn með Skype eða Facebook, læra, skoða vörur og þjónustu — fólk notar það til afþreyingar, til að versla og til að afla sér þekkingar. Sum okkar munum eftir því hvernig það var að nota „dial up-tengingu“, en ljóst er að mikið af því efni sem við notum daglega ferðast um netið á hraða snigilsins nema fyrirtækin sem hýsa gögnin borgi meira fyrir tenginguna en slíkt mun til dæmis verða mikill aukakostnaður fyrir menntastofnanir og fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref eða eru smá eða meðalstór. Þá er ég að tala um þessar lagabreytingar sem gætu komist í gegn í Bandaríkjunum og munu að sjálfsögðu hafa mikil áhrif hérlendis.

Stóru fyrirtækin sem hafa burði til að kaupa sér aðgang að hraðbrautinni munu halda áfram að vaxa á meðan engin framþróun verður hjá hinum. Þá munu opinberar stofnanir þurfa að skera niður annars staðar til að geta boðið upp á nauðsynlega þjónustu. Þeir sem nú þegar búa við skerta þjónustu hérlendis munu þá fá enn lakari þjónustu sem er ekki boðlegt á sama tíma og þróunin er á þann veg að krafan um hraða vex dag frá degi. Þessar tilraunir til að breyta eðli netsins hafa mætt mikilli andstöðu og fengið jafnvel örgustu andstæðinga til að stilla bökum saman til að berjast gegn þessu. Þannig hafa stóru risarnir á netinu eins og til dæmis Facebook, Amazon, Netflix og Google farið að vinna með aðgerðasinnum á borð við Save the Internet, Freepree og Access Now í baráttunni fyrir nethlutleysi. Það er gríðarlega mikilvægt að við tryggjum það í lögum á Íslandi að slík þróun muni ekki eiga sér stað hérlendis.

Hugmyndafræðin um nethlutleysi felst í því að öll fjarskiptaumferð sé meðhöndluð á jafnræðisgrundvelli. Ekki megi hraða á, tefja eða hindra fjarskipti á grundvelli þess hver sendandinn eða móttakandinn er eða eftir innihaldi fjarskiptanna og að óheimilt sé að krefjast endurgjalds á grundvelli framangreindra þátta. Með öðrum orðum eiga veitendur fjarskiptaþjónustu að miðla umferð til og frá notendum án aðgreiningar.

Þegar internetið kom fyrst til sögunnar bundu margir vonir við að það þýddi að fólk óháð búsetu ætti möguleika á að vinna og læra til jafns í dreifbýli sem þéttbýli. Má segja að ég hafi verið ein af þeim. Fjarvinna, fjarfundir, fjarnám og ýmiss konar sérhæfð fjarþjónusta ætti að vera jafn sjálfsögð og að mæta til vinnu 9–5. En því miður hefur þessi þróun aðeins orðið í mýflugumynd vegna þess að það sitja ekki allir við sama borð. Netgæði víðs vegar um land eru ekki samkeppnishæf við þau netgæði sem er að finna til að mynda á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir háleit markmið þegar Síminn var seldur. Þrátt fyrir að þetta sé veruleikinn, ekki bara hérlendis heldur víðs vegar um heim þar sem einkafyrirtæki sjá sér engan hag í að færa hraðnet á afskekkta staði, þá á enn að auka ójöfnuðinn. Baráttan um netið er rétt að hefjast og þau lífsgæði sem fólk fer á mis við ef það hefur ekki aðgengi að almennilegri nettengingu. Það stendur til að bjóða upp alvöru misskiptingu tækifæra. Ef notandi er tilbúinn að borga kemst hann á hraðbrautina á meðan restin af netinu verður svo hægvirk að fjarvinna eða fjarnám verður aldrei raunhæfur kostur til að hjálpa þeim sem hafa áhuga á að búa til dæmis annars staðar en í Reykjavík og nágrenni. Það er hægt að fyrirbyggja slíkt stórslys með því að heimila ekki tvær akreinar. Það að sumir þurfi að notast við hestafl á meðan aðrir notast við þotuafl mun auka á misskiptingu og draumur ríkjandi afla um stétt með stétt eða ljós í fjós mun dvína og deyja út.

Forseti. Tengimöguleikar íbúa landsins við internetið eru mjög misjafnir. Íbúum í nágrenni þéttbýliskjarna bjóðast oft háhraðatengingar en eftir því sem fjær dregur daprast tengingar og netið verður hægvirkara. Framkvæmdir fjarskiptafyrirtækjanna á landsbyggðinni við lagningu ljósnets hafa ekki náð til mesta dreifbýlisins og þar þyrfti að leggja ljósleiðara heim að hverjum bæ sem getur verið afar kostnaðarsamt og hefur fjarskiptafyrirtækjum ekki þótt slíkar framkvæmdir svara kostnaði. Af því leiðir að fjöldi fólks býr við skert lífsgæði, enda internetið orðið snar þáttur í daglegu lífi fólks hér á landi og um heim allan. Nauðsynlegt er að hið opinbera stígi inn og komi til móts við netveitur með það að markmiði að tryggja jafnræði allra landsmanna til netaðgangs. Í því skyni mætti virkja og styrkja betur ýmsa sjóði sem þegar eru fyrir hendi. Má hér nefna alþjónustusjóð, fjarskiptasjóð og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Forseti. Nýverið voru birtar niðurstöður fjölþjóðlegrar rannsóknar um áhrif háhraðanettengingar á fátækt. Rannsóknin var framkvæmd í nokkrum ríkjum Suður-Ameríku og niðurstöðurnar sýna að jákvæð efnahagsleg þróun helst í hendur við aukningu á nethraða og gott aðgengi eftir landsvæðum virðast hafa jákvæð áhrif á launakjör. Á svæðum sem hafa fengið bættan nethraða hafa laun hækkað um allt að 7,5% á tveggja ára tímabili umfram reglubundnar hækkanir sem skýrast af öðrum þáttum. Þá er einnig athyglisvert að umræddar launahækkanir eru ekki eingöngu bundnar við þá sem nota internetið að staðaldri sem sýnir að háhraðanetið getur haft almennar og jákvæðar hliðarverkanir á nærsamfélög í heild en ekki bara fyrir þá sem nota netið mest.

Um leið og ég hvet þingmenn til að kynna sér þessa rannsókn vil ég þó vekja athygli á því að samfélag okkar er að ýmsu leyti ólíkt þeim sem rannsóknin tekur til. Við þurfum að geta greint þann menningarlega mismun. Til að mynda sýnir rannsóknin að hækkun launa með tilkomu háhraðanets skilar sér frekar til karla en kvenna í Suður-Ameríku og skýrist það af íhaldssömum viðhorfum til kynjahlutverka í þessum heimshluta. Þegar hins vegar litið var til þeirra sem notuðu internetið að staðaldri á 12 mánaða tímabili, jafnt kvenna sem karla, þá hvarf þessi mismunandi hækkun á launum meðal kynjanna.

Forseti. Það er mat okkar sem stöndum að þessari tillögu að til að tryggja nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni og almenna velsæld þurfi jafnt aðgengi að netinu að vera grunnstoð og hluti af skilgreindri grunnþjónustu. Hver er raunveruleg ástæða, forseti, þess að unga fólkið yfirgefur heimahaga sína og flyst til borgarinnar? Ég trúi ekki að það sé eingöngu vegna atvinnuskortsins sem stórar verksmiðjur geta leyst. Unga fólkið yfirgefur heimahagana á landsbyggðinni til að elta drauma sína. Ef við viljum takast á við fólksflótta af landsbyggðinni þurfum við að skapa aðstæður sem leyfa draumum að rætast. Það er mat okkar flutningsmanna að með lögbindingu lágmarksþjónustu til aðgangs að internetinu megi skapa jöfn tækifæri um allt land til að stunda fjarnám og fjarvinnu og skilyrði til að fólk geti stundað atvinnu í samræmi við menntun sína, starfsreynslu og áhugasvið óháð búsetu — skilyrði til að draumar geti ræst.



[18:07]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja flutningsmanninn: Hver er lágmarksþjónusta sem þarf að veita í grunninn? Er það hraði? Er það öryggi eða eitthvað annað? Það var fyrsta spurningin.

Svona af því hér stendur í greinargerðinni, og þingmaðurinn minntist á það, að við sem erum eldri, nú er ég 34 ára, munum eftir „dial up-tengingunni“. Sums staðar er það enn þá þannig reyndar.

Í greinargerð stendur að netgæði víðs vegar um land séu ekki samkeppnishæf við þau netgæði sem megi finna á höfuðborgarsvæðinu. Sums staðar er það reyndar þannig líka að það er ekki einu sinni að rafmagn eða útvarp eða sjónvarp séu trygg, þannig að við eigum mjög langt í land með að vera búin að tryggja að fólk hafi aðgang að netinu. Sannarlega er netið hluti af daglegu lífi. Ég þekki dæmi um að fólk sem hefur búið á Raufarhöfn hefur ekki getað stundað fjarnám vegna þess að það er óöruggt net, reyndar rafmagnið líka, menn hafa ekki getað sent og sótt verkefni þegar menn eru í námi þar.

Mig langar líka að spyrja þingmanninn aðeins um ábyrgð þeirra sem bjóða þjónustuna. Mér fannst það kannski aðeins vanta inn í greinargerðina ábyrgð þeirra sem bjóða þessa þjónustu, alveg eins og ábyrgð þeirra sem selja aðra þjónustu, hvort sem það er verslun eða eitthvað annað.

Það voru þessar tvær spurningar: Hvað er þessi lágmarksþjónusta, hvar liggur línan með það? Er það hraði eða öryggi eða eitthvað annað?



[18:09]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Að sjálfsögðu snúa gæðin að hraðanum og örygginu, hvoru tveggja. Nýverið fór rafmagnið af Vestfjörðum eins og mikið hefur verið rætt um. Það hefði getað farið þannig að ef hefði komið upp eldur að ekki hefði verið hægt að kalla út slökkviliðið, sem er mjög alvarlegt. Auðvitað fer því miður þannig fyrir landsbyggðinni að hún nýtur ekki sömu gæða og öryggis og þéttbýlið.

Mér finnst gríðarlega mikilvægt að þó svo að ýmislegt vanti upp á á landsbyggðinni að við sláum ekki af kröfunni, þ.e. þó að ekki sé rafmagnsöryggi einhvers staðar sitji allir við sama borð þegar kemur að aðgengi að almennilegri netþjónustu. Og að sjálfsögðu er það þannig að þegar við tölum um grunnstoðir samfélagsins er mjög hæpið að þær eigi að vera í einkarekstri.

Það átti nú að vera þannig þegar Síminn var seldur að þessi grunnþjónusta væri tryggð. Það er ekki þannig. Mér finnst því að við þurfum virkilega að endurskoða þetta því að þegar Síminn var einkavæddur held ég að margir hafi ekki haft þá framsýn, þó þeir væru nokkrir, hve netið mundi spila stóran þátt í okkar daglega lífi. Það mun bara aukast.



[18:10]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir. Það var bara þessi spurning aftur. Mig langar að heyra vangaveltur þingmannsins því að hún kemur úr þessum áhugaverða þingflokki sem eru Píratar. Mér finnst ég alltaf þurfa að taka það fram þegar ég kem hér í ræðustól að ég er ekki að tala í neinni kaldhæðni.

Með ábyrgð þeirra sem selja þjónustuna — mér finnst það vanta með kröfu sem ríkið ætti að gera á þá sem selja þjónustuna, mér finnst vanta einhvern pakka utan um það, þ.e. ef þú ert í þessum rekstri áttu að fylgja ákveðnu ferli; eins og þingmaðurinn sagði réttilega mun þetta gerist hraðar og hraðar og kannski enn hraðar en okkur órar fyrir. Þá vantar okkur svona umgjörð utan um þá sem bjóða og selja þessa þjónustu, ábyrgð þeirra í öllu þessu.

Mig langaði aðeins að deila þessu: Það gerðist víða í sumar, þegar bæjarhátíðir voru hringinn í kringum Ísland, að þá hrundi kerfið. Álagið var bara svo mikið. Ég get til dæmis nefnt Húsavík þar sem kerfið hrundi, það var ekki hægt að senda sms, það var ekki hægt að hringja, það var ekkert hægt að gera vegna þess að álagið var svo mikið.

Þannig að við þurfum kannski að búa til, og ég tek fram að ég fagna því að þetta komi fram, einhverja umgjörð í kringum það að áður en þetta gerist víða þarf margt annað að eiga sér stað líka eins og til dæmis rafmagnsöryggi og sjónvarps- og útvarpsútsendingar. Það sást núna þegar eldgosið varð, þá brást það, menn gátu ekki sent sms á alla hópa, menn gátu ekki notað internetið og ekki notað sjónvarpið. Þannig að mér finnst við jafnvel þurfa að fara dýpra í þetta mál en gert er hér.



[18:12]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála. Það þarf að vera gæðastaðall á þjónustu sem veitt er. Þess vegna höfum við lagt fram fyrirspurn og viljum að settur verði mælikvarði á mælingar á því hve hratt netið er. Þeir sem þekkja til og hafa skoðað það þá er einhverjum hraða lofað og maður kemst eiginlega aldrei á þann hraða. Þetta er svona eins og með bílana, jú ég kemst hugsanlega eða mögulega við bestu aðstæður á 180, en það er bæði ólöglegt og yfirleitt ekki hægt. Þannig að ég held að það sé tímabært að setja einhverjar reglugerðir um lágmarksþjónustu.

Það er líka gríðarlega mikilvægt að þetta er grunnþjónusta. Grunnþjónusta um rafmagn — ef hún er ekki í lagi á það ekki endilega að stangast á við þetta. Það er eitthvað sem einhver annar, til dæmis hv. þingmaður, getur þá lagt fram þingsályktunartillögu um, að það verði tryggt, en mér finnst ekki að eigi að tvinna þetta allt saman. Að sjálfsögðu er það lágmarksöryggiskrafa að allir sitji við sama borð með það hvort þeir hafi rafmagn eða rennandi vatn eða heilbrigðisþjónustu eða þessa grunnþætti sem við erum öll sammála um að séum tilbúin til að borga skatta fyrir.

Ég mundi líka mjög gjarnan vilja velta fyrir mér þeim möguleika hvernig við getum tryggt — nú viljum við til dæmis ekki einkavæða grunnþjónustuna með rafmagn, vonandi ekki alla vega, þess vegna finnst mér umhugsunarefni af hverju þetta er í einkavæðingarhöndum því að við munum aldrei sjá jafnræði, það er aldrei til hagsbóta fyrir þessi fyrirtæki að leggja internet-háhraðatengingu á afskekkta staði. Það er bara veruleikinn.



[18:14]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa yfirferð á tillögunni.

Ég er mjög sammála þeim meginpunkti í þingsályktunartillögunni um að vinna að jöfnu aðgengi allra landsmanna að internetinu, óháð búsetu og fjárhag. Ég veit að það standa rík rök á bak við það og auðvitað er ég mjög fylgjandi nettengingu fyrir alla, óháð búsetu, þar sem ég bý nú á Vestfjarðakjálkanum. Ég hef þurft að nýta mér bæði dreifnám, heimabanka, skattskil og sækja fréttir og þjónustu í gegnum internetið. Ef við ætlum að veita þessa þjónustu verðum við auðvitað að hugsa um netið líka. Það þýðir ekki að berjast fyrir dreifnámi alls staðar ef við ætlum ekki að bæta verkfærin til þess.

Í fjarskiptaáætlun 2011–2022 kemur fram að tryggja skuli öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tenginga við umheiminn ásamt fleiri punktum sem snerta internetið. Mig langaði að spyrja hv. þingmann um sýn hennar á það sem kemur fram í þingsályktunartillögunni sem ekki er lögð áhersla á í fjarskiptaáætluninni. Hver verður ávinningurinn með þingsályktunartillögunni, verður frekari ávinningur með henni heldur en áætluninni sjálfri?



[18:15]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Það má segja að þessi þingsályktun kallist á við drauma framsóknarmanna um ljós í fjós. Hún er í raun skrifuð til þess að þrýsta á að það gerist eitthvað. Þetta var eitt af loforðum framámanna flokksins fyrir kosningar. Ég hef aftur á móti ekkert heyrt um það rætt. Ég ræddi þetta við formann flokksins þegar verið var að undirbúa hvernig ríkisstjórnin yrði skipuð. Hann ræddi við formenn allra flokka. Ég hef aftur á móti ekkert heyrt meira um þetta. Nú hefur þingið setið í meira en ár þannig að ég er að hvetja ríkisstjórnina til dáða og það væri frábært ef þingheimur gæti sameinast um að þetta væri forgangsmál. Því ef við erum ekki búin að lögfesta jafnt aðgengi að netinu eða nethlutleysi er mjög hætt við því að við verðum fórnarlömb lagasetningar í Bandaríkjunum eins og svo oft gerist út af því að við búum í heimi þar sem netið er óháð landamærum. Þannig að þetta fjallar um það og aðalfókusinn er á jafnt aðgengi út frá nethlutleysi.

Ég hvet þingmenn til að kynna sér þetta. Það stendur yfir mikil barátta í Bandaríkjunum núna til að fyrirbyggja að nethlutleysi verði að lögum. Ef við tryggjum að það sé bannað að mismuna fólki eða fyrirtækjum eftir því hvernig upplýsingarnar eru, byrgjum við brunninn áður en barnið dettur ofan í hann.



[18:17]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst þetta kannski ekki alveg skýrt svar, það er í raun talað um nákvæmlega það sama og í fjarskiptaáætlun, að leggja ríkari áherslu á jafnt aðgengi, þannig að ég skilji þetta alveg. Ég vildi fá að vita hvort það væri einhver reginmunur á. En ég skil muninn sem hv. þingmaður talar um með að ná þessu fram áður en Bandaríkjalögin svokölluðu ná yfirhöndinni.

Mig langar að spyrja hvort hv. þingmanni finnist að það þurfi að skýra hlutverk þjónustuaðilans, eins og hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason nefndi hérna áðan, skýra þeirra hlutverk í því að koma jöfnu aðgengi áfram fyrir árið 2015.



[18:18]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Það er ekki sérstaklega fjallað um nethlutleysi í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar enda er það í raun hugtak sem margir vissu ekki af fyrr en það var byrjað að tala um háhraðabraut á netinu. Þar liggur því kannski reginmunurinn og áherslumunurinn. Eins og ég sagði þá kallast þessi tillaga á við aðgerðaáætlun um jafnt aðgengi.

Mér finnst líka að þegar þetta mál kemur til nefndarinnar ætti hún að skoða grunnkröfur um grunnþjónustu og almenna þjónustu, t.d. að maður viti hvað maður er að kaupa. Þetta er oft mjög flókið, til dæmis vegna mismunandi símatenginga, það er erfitt að finna út hvað þetta mun kosta á endanum. Þannig að ég er mjög hlynnt því að þegar þetta fer fyrir nefnd að það verði skoðað sérstaklega og hvet nefndarmenn til þess að bæta við ef þeim finnst eitthvað vanta upp á.



[18:19]Útbýting:

[18:19]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að koma inn í þessa umræðu. Við ræddum mál af þessu tagi hér í gær, þ.e. um internetið, stöðu þess og annað því um líkt. Hér hefur aðeins verið komið inn á fjarskiptaáætlun sem ríkisstjórnin er að láta vinna. Ég tek undir að það er kannski ekki nákvæmlega það sama sem hér um ræðir þó að þetta skarist vissulega. Ég held að það sé mjög mikilvægt og áríðandi að þetta sé brýnt.

Í andsvörum milli þingmanna áðan kom fram hversu slæm staðan raunverulega er í þessum málum mjög víða. Ég tek undir það sem hér kemur fram, þetta skiptir mjög miklu máli fyrir búsetu í landinu, ekki bara eins og hér kom fram í gær, að fyrirtæki geti verið sett á laggirnar, heldur líka til daglegra nota. Það er með ólíkindum að maður heyri enn að sveitarstjórnir telji internetvandamál sitt brýnasta mál þegar þær koma á fund fjárlaganefndar.

Þau stóru mistök sem áttu sér stað þegar Síminn var seldur eru að bíta í okkur núna, eru svo sem búin að gera alla tíð síðan hann var seldur. Það voru mistök og ég velti því hér upp í gær og geri það aftur í dag hvort ríkið eigi að taka til sín grunnnetið aftur. Sjá þingmenn fyrir sér að einkafyrirtækin geri það sem gera þarf? Það held ég ekki. Sveitarfélögin eru farin að standa í því sjálf, sum hver sem hafa tök á því, að leggja ljósleiðara og koma fólkinu sínu í samband til að halda íbúunum heima. Það er ekki ásættanlegt því að er líka mismunun að sum sveitarfélög hafa tök á því að gera þetta en önnur geta það alls ekki vegna stöðu sinnar. Það er mismunun.

Það er skylda ríkisins að sjá til þess að þegnarnir geti allir búið við þær aðstæður að sækja sér þá nauðsynlegu þjónustu sem meira að segja ríkið sjálft stendur fyrir, eins og komið var inn á í andsvörum. Okkur er gert að skila skattframtalinu og öðru því um líku í gegnum netið en svo eru bara ekkert allir sem hafa kost á að gera það. Fólk þarf jafnvel að fara á milli húsa eða lengri vegalengdir til að framkvæma ýmislegt sem okkur mörgum hverjum þykir svo sjálfsagt.

Mér finnst mjög margt í þessari þingsályktunartillögu sem, eins og ég segi, okkur þykir svo óskaplega eðlilegt að sé til staðar en er það ekki. Þetta minnir okkur á og brýnir okkur í því að fylgja því mjög fast eftir að þetta verði gert.

Ekki veit ég hvort það hefur verið kannað hvað það kostar að taka grunnnetið til baka og hvort það er framkvæmanlegt, en ég held að það sé eina leiðin sem virkar til þess að jafnt aðgengi að netinu til allra landsmanna verði framkvæmanlegt. Ég sé það því miður ekki gerast öðruvísi.

Það kom fram á fundi fjárlaganefndar í fyrra, og kom fram einmitt áðan líka, þegar sveitarfélögin komu til fundar við okkur, að „dial up“-tenging, þ.e. upphringinetsamband, væri enn til staðar. Í fyrra var mér orðið frekar fjarlægt að það væri enn raunveruleikinn. En það er þannig, því miður.

Ég tek undir það að sú skerta þjónusta sem margir búa enn við er ekki boðleg og við þurfum að leggjast á eitt við að bæta úr því.

Um leið og við tölum fyrir aukinni menntun, að fólk geti stundað nám heiman að frá sér, aukinni rafrænni stjórnsýslu o.s.frv. erum við að segja að ríkið ætli sér að standa að þessari þjónustu. Þrátt fyrir sæmilega nettengingu er það ekki hraðbraut. Eins og hér er komið inn á er það ekki þotuafl, heldur hestafl.

Eins og ég sagði hér í gær var tekið dæmi á fundi fjárlaganefndar í fyrra af bónda sem sendi tölvuskeyti af stað, fór svo að mjólka, kom inn aftur og þá var það rétt farið. Þetta er nokkuð sem á ekki að eiga sér stað.

Ég spyr hv. flutningsmann hvort hún hafi eitthvað velt fyrir sér þeim kostnaði sem fylgir því að framkvæma þessa þingsályktunartillögu, þ.e. lögbinda þessa lágmarksþjónustu. Það felur í sér þann kostnað sem ég sagði hér áðan að fælist í því að allir hefðu þetta aðgengi að netinu. Við þyrftum að hafa einhverjar hugmyndir um það. Kannski er það þessa starfshóps að komast að því. Hefur hv. þingmaður einhverjar hugmyndir um það?

Ég styð eindregið þingsályktunartillöguna og vona svo sannarlega að sátt náist um að koma af stað slíkri nefnd sem leggur fram aðgerðaáætlun. Það ætti ekkert að vera erfitt þrátt fyrir þá fjarskiptaáætlun sem er í gangi eða hópinn sem er að vinna að henni, það ætti að vera kjörið að vinna þetta svolítið samhliða. Það þarf ekki að kosta einhver ósköp að koma slíkum hópi á laggirnar þannig að ég vona að þetta hljóti brautargengi.



[18:26]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka stuðninginn og ræðuna. Þingmenn Pírata vildu gjarnan leita til fleiri þingmanna um að vera með á þessari tillögu en það kom til mjög snöggt að við ákváðum að setja hana saman, sem okkar innlegg í dag, á þessum svokallaða „internet slow day“ þar sem fólk alls staðar úr heiminum sýnir samstöðu í því að vilja ekki að netinu verði skipt upp í hraðbraut og sniglabraut. Ég veit að það er stuðningur fyrir þessu í þinginu út af því að þetta er þjóðþrifaverk. Ég er hjartanlega sammála þingmanninum um að stjórnin geri aðgerðaáætlun um ákveðna þætti, það þarf að forgangsraða í aðgerðaáætluninni, og að sjálfsögðu hlýtur það að hafa vigt ef þingið felur ríkisstjórninni að forgangsraða.

Liður í þessu er að fá að sjálfsögðu kostnaðarmat á því að allir fái jafnt aðgengi. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli. Ef það er ekki nógu skýrt í tillögunni þá skýri ég það hér með. Ég vona innilega að okkur takist að drífa í þessu út af því að allir þeir sem lifa í þeim nútíma sem við búum í uppgötva að það er alltaf verið að þrýsta manni út í það að vera með meiri hraða út af því að gögnin sem ferðast um netið verða alltaf sífellt flóknari og þyngri. Það er mjög brýnt að vera alltaf á tánum í þessum málum eins og svo mörgum öðrum.



[18:28]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég talaði hér um hóp en ekki ríkisstjórnina og ég ætlaði einmitt að spyrja hv. þingmann hvort það væri heppilegasta leiðin að fela ríkisstjórninni að vinna aðgerðaáætlun og hvers vegna þingmenn Pírata völdu að gera það fremur en að óska eftir því að stofnaður yrði starfshópur, þótt þeir séu nú orðnir ansi margir og við höfum mörg gagnrýnt það. Ég velti fyrir mér hvort hún haldi að málið hljóti skjótari afgreiðslu þannig en ef það færi til einhvers starfshóps. Hér eru nefndar ákveðnar dagsetningar og við eigum eftir að kalla eftir efndum af því að ríkisstjórninni voru falin ýmis verkefni af þinginu sem ég held að hæstv. forsætisráðherra fari bráðlega að gera grein fyrir samkvæmt þingsköpum.

Ég bið því hv. þingmann að svara mér í síðara andsvari hvers vegna þau völdu að fara þessa leið, að fela ríkisstjórninni að vinna aðgerðaáætlun, í stað þess að fá til þess hóp sem kannski ynni það samhliða fjarskiptahópnum, eins og hér var nefnt áðan.



[18:29]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég held að ef ríkisstjórnin mundi forgangsraða fyrir þennan hóp væri það mjög gagnlegt. Það má kannski skýra það betur í starfi nefndarinnar. Ég vænti þess að í nefndinni komi einhverjar tillögur um að gera þessa tillögu enn betri því betur sjá augu en auga. Ég held að það hafi ekki verið nein sérstök dýpri hugsun um það af hverju ríkisstjórnin ætti að gera það frekar en hópurinn. Ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að betra sé að ríkisstjórnin feli hópnum að gera þetta er það mér alveg að meinalausu.

Ég vil bara að við förum í þetta verk sem allra fyrst því ég hef áhyggjur af stöðunni. Ég fór fyrst að nota netið 1990 og vinna við netið 1995. Ég vann mikið heima og mér fannst þetta mjög heillandi út af því þá gat ég unnið vinnuna mína heima og verið heima með krökkunum. Mér þótti það alveg frábært. Ég gerði þetta í og með út af því að ég var að vonast til þess að ég gæti búið út á landi, ég var alltaf með eitthvert blæti um það. Með netinu gæti ég búið úti á landi og unnið við hvað sem er, hvenær sem er, og ekki verið bundin við einhvern sérstakan stað eins og höfuðborgina til þess að vinna að sértækri vinnu.

Því miður hefur það ekki þróast þannig, eftir öll þessi ár, að þessi draumur sé orðinn að veruleika. Ég veit að það bíða margir eftir úrlausnum. Þetta kallast í raun og veru á við stefnu ríkisstjórnarinnar um ljós í fjós og ég veit að þetta er eitthvað sem Framsóknarflokkurinn hefur talað um. Ég býst við að Sjálfstæðisflokkurinn sé þessu fylgjandi, ég trúi því ekki að hann sé á móti þessu.



[18:31]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þetta með þingmanninum. Ég upplifði það einmitt að taka mitt nám í gegnum fjarnám, þ.e. ég tók framhaldsskólann í gegnum fjarnám af því ég bjó úti á landi þar sem ekki var framhaldsskóli. Ég man eftir því að ég þurfti að hringja upp til þess að sækja námsgögnin, svo lagði ég á af því þetta var svo dýrt. Svo sendi maður gögnin aftur þegar maður var búinn að læra. Og svo ég segi það hér þá fór ég allan minn framhaldsskóla og háskóla í gegnum fjarnám, þannig að ég hef mikla reynslu af því að nema í gegnum netið. Það eru forréttindi að geta gert það.

Grunnmálið er því jafnt aðgengi og hver ber ábyrgð á því. Hér var komið inn á ábyrgð þeirra sem selja þjónustuna. Það er verið að selja okkur ýmsa þjónustu, t.d. í minni heimabyggð er verið að selja okkur ljósnet, en málið er að leiðslurnar, símalínurnar, bjóða ekki upp á flutningshraðann, þær eru bara úr kopar, þær bjóða ekkert upp á þetta, þær flytja ekki nema ákveðið magn. Þarna er tappi.

Stórar stofnanir eins og menntaskólinn eru síðan með sitt, menntaskólarnir þjónusta bara sjálfa sig og til að nemendur geti stundað það nám sem þeir bjóða, sveitarfélagið leggur sérstaklega inn til sín o.s.frv. Það er því víða, held ég, verið að bjóða eitthvað sem er í rauninni ekki raunhæft. Maður borgar fyrir svo miklu meira en maður nær raunverulega til sín í hraða og öðru slíku. Það er auðvitað pínulítil blekking sem mjög margir átta sig ekki á. Auðvitað mundi fólk ekki kaupa sér dýrari þjónustu þegar það vissi að það fengi í rauninni ekkert meira fyrir það, sérstaklega þá aukinn hraða.



[18:34]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari tillögu og tek hana sem hvatningu, og ekki veitir af. En ljós í fjós var ekkert djók hjá okkur framsóknarmönnum.

Nú er starfandi starfshópur um endurskoðun á alþjónustukvöðum á vegum innanríkisráðuneytisins. Sá hópur mun skila af sér í næsta mánuði. Þar er verið að endurskoða þessa alþjónustukvöð. Í fjarskiptalögum í dag er þessi alþjónustukvöð 128 kílóbæt. Sú tala er náttúrlega bundin af þessum kopar, þessum gömlu símalínum sem við höfum, þannig er bara staðan. Þessi hópur mun skila af sér og við erum að tala um kröfurnar í dag, við erum að tala um einhver megabæt eða jafnvel gígabæt. En við getum ekki sett þetta í lög fyrr en við erum búin að ljósleiðaravæða landið. Það er alveg rétt, sveitarstjórnir eru farnar að leggja þetta, þau sveitarfélög sem hafa efni á þessu, en kvaðirnar eru náttúrlega netvæðing, að geta verið sæmilega netvædd.

Eins og fram hefur komið hefur ýmislegt gengið á í sumar, meðal annars skiluðu sms-skilaboð sér ekki til Fjarðabyggðar þegar verið var að vara þar við mengun út af eldgosi. En við þurfum kannski að gera meira en bara netvæðast, því að mikið álag kom þá á Neyðarlínuna vegna þess að þá var fólk að hringja og spyrja hvernig það ætti að opna sms-in. Það var ekki bara það að sms-in skiluðu sér ekki, heldur kunni stór hluti af þeim sem fengu sms-in ekki að opna þau, þannig að þetta snýst kannski líka um að fræða fólk.

Það má kannski segja að það hafi verið feill að selja Símann. Fjarskiptafélög í dag viðurkenna að þau fjárfesta ekki í ljósleiðurum í dreifbýlinu, því að þau munu aldrei fá það greitt. Þarna þarf ríkið að koma til eða einhver stuðningur. Þá er bara spurningin: Hvernig á sá stuðningur að vera? Allt kostar þetta peninga. Gróflega áætlað skilst mér að það geti kostað 6–10 milljarða að ljósleiðaravæða landið. En það grátlega við þetta er að hér á höfuðborgarsvæðinu er offjárfestingin búin að vera svo mikil að þar er verið að tala um að minnsta kosti 10 milljarða ef ekki meira sem hefur verið offjárfest hér á Reykjavíkursvæðinu, höfuðborgarsvæðinu. Það er búið að leggja hér nokkra ljósleiðara.

Það eru því innviðirnir, grunnnetið getum við sagt, sem við þurfum að byggja upp. Ég held að það séu nú flestir sammála um það, fáist peningar í það. Hringtenging á Vestfjörðum — nú eru fjarskiptafélögin sem þjóna Vestfjörðum að tala saman og reyna að finna einhvern flöt á því að sameinast um grunnnetið, innviðina, og hugmyndin er þá væntanlega að samkeppni verði í efri lögum í þessum fjarskiptum. Ég get alla vega upplýst hv. þingmenn um að þetta er í gangi, það er í gangi vinna.

Ég fagna þessari hvatningu og er svo sem ekkert hissa þó að hún komi frá Pírötum. Þeirra einkenni er nú internetið og internetvæðing, og ekki veitir af að upplýsa okkur, þau eldri sem hér eru, um þau góðu mál.



[18:39]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst hugmyndafræðin á bak við ljós í fjós mjög flott og ekkert grín, ég tók því ekki sem gríni. Og ég vil þakka þingmanninum fyrir ræðuna og þær upplýsingar sem þar komu fram.

Ég er alltaf að komast nær og nær þeirri skoðun að við þyrftum að taka grunnnetið aftur til okkar. Það er bara út af því að það mun svo mikið hvíla á því, sem er bara öryggismál. Það er alltaf verið að ýta fólki dýpra og dýpra inn í netið, ekki bara í afþreyingu heldur í lýðræðisvæðingu. Maður sækir eiginlega um alla þjónustu á netinu, hvort sem það er að kaupa mat fyrir börn í skólanum, fylgjast með einkunnum eða borga í bankanum. Nú er það þannig að það á kannski að borga meira fyrir að fara í bankann þannig að ef þú hefur ekki aðgengi að netinu ertu orðinn skör lægra en aðrir. Mér finnst það dálítið alvarlegt.

Mig langaði því að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um kostnaðarmatið, hvort það sé rétt. Mér sýnist að kostnaðarmatið sé á milli 6 og 10 milljarðar allt í allt, ef við tækjum grunnnetið til okkar, sem mundi þá falla í skaut ríkissjóðs. Ef svo væri held ég að það mundi fljótt skila sér, því að við erum með ýmsa sjóði sem mætti nota til að hjálpa til við að ná þessari þjónustu fram. Mig langaði að spyrja þingmanninn hvað honum finnist um það.



[18:41]
Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er bara jákvætt, ég segi allt jákvætt um það. En varðandi það að taka grunnnetið til baka, það er kannski ekki alveg lausnin. Eins og fram hefur komið eru sveitarfélög að fjárfesta og einkafélög, þetta eru orðnir stubbar úti um allt land.

Grunnnetið er að mestu leyti byggt upp á kopar og það er flókið verkefni og ég er ekki búinn að sjá að ríkið fari að taka tékkheftið fram og kaupa þetta. Ég held að lausnin sé frekar að fá fyrirtæki og fá aðila til að sameinast um þetta grunnnet. Hvernig það er gert veit ég ekki en ég held að það sé allra hagur og það sé fjarskiptafélögunum fyrir bestu ef þau gætu sameinast um grunnnetið þannig að hægt sé að klára þær hringtengingar sem eftir eru. Þær eru svo sem ekkert mjög margar svona í þéttbýlustu byggðunum. Ef þau sameinast um þetta grunnnet, neðsta lagið, þá stækkar samkeppnismarkaðurinn hjá þeim og þar geta þau keppt.

Ég held að það sé sama hvar í flokki menn standa, ég held að allir séu af vilja gerðir. En vandamálið er ekki mjög öflugur ríkissjóður. Því miður er það ekki þannig að ríkissjóður sé í stakk búinn til að klára þetta einn og sér. En ég er sannfærður um að það (Forseti hringir.) eru allir á því að reyna að taka höndum saman og byggja þetta kerfi eðlilega upp.



[18:44]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Segjum að það séu ákveðin sveitarfélög sem fjarskiptafyrirtækin sjái sér hreinlega engan hag í að leiða ljósnet til. Hvað eigum við þá að gera? Ég held að það sé mjög mikilvægt að við í það minnsta, þegar við förum í gegnum þessa þingsályktunartillögu í nefnd, komum með mjög skýra aðgerðaáætlun um hverjar skyldur þeirra eru. Hafa þau einhverjar skyldur? Mér finnst þetta vera spurning sem við þurfum eiginlega að svara.

Síðan leikur mér forvitni á að vita hvað eru efri lög fjarskipta. Þingmaðurinn nefndi það og ég átta mig ekki alveg á því hvað það er. Ég er hjartanlega sammála því að þetta er mjög slæmt þegar við erum að sigla inn í tímabil þar sem við megum eiga von á eldgosum, ekki bara á Bárðarbungusvæðinu heldur eru ýmis önnur svæði komin á tíma, þar á meðal svæðin hér í kringum höfuðborgarsvæðið. Það er nauðsynlegt að svo sé um hnúta búið að allir fái skilaboð ef eitthvað kemur upp á. Þá langaði mig að spyrja þingmanninn hvort til sé einhver alvöruaðgerðaáætlun um það.



[18:45]
Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heilmikil vinna hefur farið í það að greina allt landið. Það eru markaðssvæði og svo eru svæði með markaðsbresti. Það er því alveg viðurkennt að hið opinbera þarf að koma að þeim svæðum þar sem markaðsbrestur er, ég held að öllum sé það ljóst. Í hvaða formi það er, hvað þetta gerist hratt, ég held að þetta snúist frekar um það hve hratt við getum byggt þetta upp. Hvort það er þá ríki eða sveitarfélög, eða ríki og sveitarfélög saman og þessi fjarskiptafyrirtæki.

Efri lög og neðri lög — neðsta lagið er í raun grunnnetið, það er rétt eins og rafmagnskerfið okkar. Þar er eitt grunnnet og svo geta rafmagnsframleiðendur selt rafmagn hvert á land sem er. Það sama á við í þessu, það er ekki nóg að hafa grunnnetið því við hinn endann þarf tengibúnað og þar kemur kannski flækjustigið og þar verður kannski samkeppni ef svo má segja. Ég skal viðurkenna að ég er ekki alveg sérfræðingur í þessu, en þar mundi samkeppnin vera. Ég hef trú á því að við finnum einhverja lausn á þessu sameiginlega, ríkið og sveitarfélögin og þeir aðilar sem starfa í greininni.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.