144. löggjafarþing — 13. fundur
 25. september 2014.
húsnæðismál Landspítalans.

[10:47]
Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Af orðum hæstvirtra ráðherra núverandi ríkisstjórnar má ráða að ekki séu áætlanir um að verja fé úr ríkissjóði til byggingar nýs Landspítala. Einnig má skilja orð þeirra svo að ekki séu áætlanir um lántöku í því sambandi.

Nýtt húsnæði fyrir þjónustu Landspítalans hefur verið forgangsmál stjórnenda og starfsfólks spítalans í mörg ár. Gildar ástæður eru þar að baki og ber hæst óhagræðið af rekstri í núverandi húsnæði. Kostnaður við flutninga starfsfólks og sjúklinga milli húsa í hverfum borgarinnar er umtalsverður. Kostnaður vegna skorts á húsnæði fyrir sjúklinga, tækjum og starfsfólki er einnig umtalsverður. Kostnaður og óhagræði sjúklinga vegna þjónustu sem þeir bíða eftir er einnig vaxandi. Kostnaður við viðhald er mikill og fer sömuleiðis vaxandi.

Nýjasta dæmið um skammtímalausn sem Landspítalinn hefur þurft að grípa til er 500 fermetra bráðabirgðaskrifstofubygging sem mun kosta um 115 millj. kr. Kostnaðurinn af óhagræði vegna húsnæðis spítalans er meiri en sem mundi nema vaxtakostnaði af láni til nýrrar byggingar.

Almenn regla er að fjármagna ríkisframkvæmdir á einhvern hátt. Vil ég því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi hugleitt möguleika til að fjármagna nýja byggingu fyrir Landspítalann. Ef svo er, hverjir eru þeir möguleikar?



[10:48]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það mál sem hér er rætt um tel ég að sé nokkuð breið pólitísk samstaða um að hafa í forgangi á næstu árum. Þingið hefur nýlega ályktað um þetta mál og lagt áherslu á að það sé sett í forgang. Með þeirri ályktun var t.d. tekin ákvörðun um hvar spítalinn ætti að rísa, einnig á hvaða grunni sú vinna ætti að fara fram sem fram undan er, þ.e. á grundvelli þess undirbúnings sem hefur verið unninn undanfarin ár.

Með lögum um byggingu nýs spítala var í sjálfu sér tekin afstaða til þess hvernig ætti að fjármagna spítalann, en síðasta kjörtímabil virtist ekki nýtast í margt annað en ákveða hvort það væri í lagi að framkvæmdin yrði að einhverju leyti einkaframkvæmd eða hvort hún þyrfti örugglega að vera einungis opinber. Flokkarnir sem stjórnuðu síðast komu sér saman um að hún þyrfti að vera opinber, samkvæmt þessum lögum. (ÖJ: Ódýrasta leiðin.)

Nú höfum við lokið fullnaðarhönnun á einum af fimm áföngum, þ.e. þeim áfanga sem snýr að sjúkrahótelinu. Um 25% af öðru er hannað, þ.e. af hinum fjóru stóru áföngunum. Hérna erum við að ræða um fjárfestingu sem er af stærðargráðunni 60–80 milljarðar. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að það er ekki mikið svigrúm fyrir slíkri fjárfestingu í langtímaáætlunum um ríkisfjármál, en við erum um þessar mundir að leggjast yfir það ásamt með velferðarráðuneytinu og heilbrigðisráðherra sérstaklega og í mínu ráðuneyti með hvaða hætti við gætum forgangsraðað fjármunum í þágu þessa verkefnis vegna þess að það er eitt af stóru málunum sem við viljum vinna að á næstu árum. Við höfum hins vegar ekki í hyggju að taka lán og skuldsetja ríkissjóð þannig að á sama tíma verði hér hallarekstur á (Forseti hringir.) ríkissjóði til þess að forgangsraða þessu máli.



[10:51]
Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég vil líka minna á að það getur verið mjög dýrt að draga þetta og grípa ekki til lánaúrræðisins. Það er almenn regla eins og við vitum að opinberar framkvæmdur eru greiddar með lánsfé sem greitt er upp á löngum tíma.

Ég vil árétta hér að Björt framtíð telur vænlegra að taka lán til byggingar nýs spítala en að taka lán til að eiga gjaldeyrisforða til að halda lífi í krónunni þar sem vaxtakostnaður er 20 milljarðar á ári. Þau fjárútlát verða að engu fyrir þjóðina, en lán til sjúkrahúss er fjárfesting í heilsu og lífsgæðum þjóðarinnar.



[10:52]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að það er ekkert óeðlilegt við það að hluti af fjármögnun svona framkvæmdar sé einhvers konar lántaka, en það skiptir máli hvað menn skulda fyrir. Í augnablikinu skuldar ríkissjóður tæplega 1.500 milljarða þannig að það er svo sem ekki mikið svigrúm til þess að bæta á þann lánastabba eins og sakir standa. Þess vegna skiptir mjög miklu að þetta sé skoðað í samhengi við langtímaáætlun um þróun ríkisfjármála.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er sárgrætilegt að horfa á eftir þeim mikla kostnaði sem við verðum fyrir til þess að halda uppi miklum gjaldeyrisvaraforða sem hefur þótt vera nauðsynlegt út af útlitinu hvað varðar greiðslujöfnuð landsins á næstu árum og til þess að byggja undir áætlun um afnám haftanna. Það þykir vera nauðsynlegt að hafa ríflegan gjaldeyrisforða meðan á því stendur.

Ekkert af þessu breytir því að (Forseti hringir.) við eigum að forgangsraða í þágu þessa verkefnis. Þessi ríkisstjórn vill bara gera það með þeim hætti að það sé ekki bætt á skuldastöðuna. (ÖJ: Ríkissjóður borgar þetta.)