144. löggjafarþing — 13. fundur
 25. september 2014.
visthönnun vöru sem notar orku, 1. umræða.
stjfrv., 98. mál (EES-reglur). — Þskj. 98.

[15:49]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku, með síðari breytingum.

Frumvarp sama efnis var lagt fram á 143. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt, að teknu tilliti til breytinga sem lagðar voru til í nefndaráliti atvinnuveganefndar þann 5. mars 2014. Frumvarpið tekur mið af frumvarpi allsherjar- og menntamálanefndar um færslu markaðseftirlits með rafföngum frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar sem varð að lögum nr. 39/2014 á 143. löggjafarþingi.

Með frumvarpinu er verið að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB um visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur, en innleiðing þeirra tilskipunar kallar á breytingar á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku. Núgildandi lög um vistvæna vöru byggja á forvera umræddrar tilskipunar sem er tilskipun nr. 2005/32/EB og voru þau á sínum tíma sett til innleiðingar á henni.

Margar orkutengdar vörur búa yfir möguleikum til að ná fram orkusparnaði með betri hönnun. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að stuðla að því að hönnun á vörum sem tengjast orkunotkun verði með þeim hætti að viðkomandi vara nýti orkuna sem best og dragi þannig úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið. Tilskipunin myndar ákveðinn ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur.

Tilskipuninni er einnig ætlað að tryggja samræmdar reglur og frjálst flæði slíkra vara inn á innri markað Evrópusambandsins og að vörunni fylgi viðeigandi upplýsingar varðandi visthönnun til hagræðingar fyrir neytendur. Bæði er því um neytendamál og orkumál að ræða.

Efnislega eru þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu tvíþættar. Fyrra atriðið snýr að gildissviði laganna. Núgildandi lög, nr. 42/2009, gilda um vörur sem nota orku með beinum hætti, t.d. ísskápar eða þvottavélar. Verði frumvarpið að lögum munu lögin jafnframt gilda um vörur sem eru orkutengdar, á ensku „energy related products“, með leyfi forseta. Með því er gildissvið laganna víðtækara. Með orkutengdum vörum er þannig til dæmis átt við glugga og einangrunarefni þar sem með betri hönnun má ná fram orkusparnaði.

Í öðru lagi er með frumvarpinu stefnt að því að auka og skilgreina betur valdheimildir opinberra aðila vegna brota á lögum um visthönnun vöru sem notar orku. Neytendastofa hefur gegnt því hlutverki samkvæmt lögum nr. 42/2009, en í framangreindu nefndaráliti atvinnuveganefndar frá því fyrr á þessu ári var lögð til sú breyting að Mannvirkjastofnun sinni eftirliti á grundvelli laganna. Er þar tekið fram að stofnunin annist nú þegar markaðseftirlit með rafföngum sem eru varanlega tengd mannvirkjum samkvæmt lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Þá er einnig bent á að 14. maí 2014 samþykkti Alþingi lög nr. 39/2014, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum til Mannvirkjastofnunar. Með frumvarpi þessu er því reynt að tryggja að ákvæði laga nr. 42/2009, varðandi stjórnsýsluúrræði Mannvirkjastofnunar, séu þau sömu og stofnunin hefur samkvæmt öðrum lögum sem hún framfylgir.

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi frekar en núgildandi lög mikil áhrif á íslenska framleiðendur þar sem framleiðsla fárra innlendra framleiðenda fellur undir ákvæði frumvarpsins. Hins vegar hefur frumvarpið áhrif á neytendur þar sem það leggur ákveðnar kröfur á framleiðendur á EES-svæðinu varðandi upplýsingaskyldu um orkunotkun viðkomandi vöru.

Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Mannvirkjastofnun og Neytendastofu. Í kostnaðarumsögn við frumvarpið kemur fram að verði frumvarpið að lögum er ekki ráðgert að það hafi í för með sér aukningu í útgjöldum ríkissjóðs þó svo að það kunni að fela í sér einhverjar auknar eftirlitsskyldur af hálfu Mannvirkjastofnunar.

Hæstv. forseti. Með frumvarpi þessu er sem sagt fyrst og fremst um að ræða ákveðna útvíkkun á gildissviði núgildandi laga frá 2009 um visthönnun vöru sem og breytingu á hlutverki Neytendastofu varðandi eftirlit með þeim lögum. Til upplýsingar er einnig rétt að taka fram og benda á að í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hvílir sú skylda á íslenskum stjórnvöldum að innleiða umrædda tilskipun í íslensk lög og hefur Eftirlitsstofnun EFTA kært íslensk stjórnvöld fyrir EFTA-dómstólnum þar sem ekki er enn búið að innleiða tilskipunina.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.



[15:54]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið að fá að ræða aðeins um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um visthönnun vöru sem notar orku. Yfirskriftin er þessi en það er verið að breyta orðalaginu í vöru sem tengist orkunotkun og ætti kannski að breyta yfirskriftinni í visthönnun vöru sem tengist orku. Það mætti hugsanlega færa það hér inn.

Á þetta við á Íslandi? Ég geri mér fulla grein fyrir því að hér er verið að innleiða Evróputilskipanir sem eru mjög mikilvægar í Evrópusambandinu, vegna þess að þar er bæði raforka og orka til húshitunar að mestu leyti búin til með útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það á ekki við á Íslandi.

Það má segja sem svo að hér á Íslandi höfum við fjárfest í upphafsbúnaði raforkunnar með þeim hætti að við ættum ekki að þurfa líka að fjárfesta í jaðarbúnaði sem notar raforku, sem að sjálfsögðu er dýrari búnaður en sá búnaður sem er ekki hannaður til þess að spara orku og er hugsanlega betri og öflugri á ýmsan hátt. Hér er búið að innleiða reglur um að ekki megi nota venjulegar ljósaperur, hér höfum við þurft að fjárfesta í sparperum. Það er von á reglum um ryksugur sem mega ekki vera kraftmeiri en eitthvað ákveðið. Allt er þetta gott og gilt í Evrópusambandinu en ég veit að þeir þurfa að ganga enn lengra og næst verða það hárþurrkurnar og hugsanlega rafbílarnir. Allt veldur þetta kostnaði.

Ég hef ekkert á móti því að íslenskir neytendur geti valið að kaupa sparneytin raftæki og það ætti hver og einn að hafa frelsi til þess, en að skylda alla þjóðina til þess að fjárfesta t.d. í þessum dýrari og hugsanlega verri jaðarbúnaði mun valda okkur sem þjóð miklum kostnaði.

Ég skal taka dæmi með rafbíla og hvað gerist ef við innleiðum þessar gerðir allar. Hér á Íslandi er bílaflotinn um 200 þús. bifreiðar. Á næstu 10–20 árum þurfum við kannski að kaupa í kringum 100 þús. rafbíla til landsins, eftir því sem þeir verða ódýrari og hagkvæmari kostur og samkeppnishæfari við bensínbíla. Segjum þá sem dæmi að við mundum flytja inn 100 þús. rafbíla yfir 10–20 ára tímabil. Með því að kaupa þessa orkusparneytnu rafbíla munu þeir kosta 100 þús. kr. meira í innkaupum í gjaldeyri. Sá reikningur verður 10 milljarðar. Og allt er það gert til að spara útblástur, en það er enginn útblástur af gróðurhúsalofttegundum á Íslandi, a.m.k. sáralítill og ekki sem tengist raforkuframleiðslu.

Ég hef búið í Evrópu og þar var reikningur fyrir húshitun, en húsið var kynt með olíu, vel yfir 100 þús. kr. á mánuði. Hérna er reikningurinn nær því að vera 15 þús. kr. Ég skil vel að í Evrópusambandinu sé rétt að setja í lög reglur um að hús séu byggð með þykkari einangrun. Það getur skipt miklu máli að draga úr húshitunarkostnaði um 10% í Evrópusambandinu og að innleiða reglugerðir sem fyrirskipa að gluggar hafi meira einangrunargildi glugga og húsnæði almennt. Að sjálfsögðu er kostnaðarsamt að gera það, en sparnaður um 10% þar gerir hugsanlega 15 þús. kr. á mánuði. Hérna er það 1.500 kr. á mánuði og dæmið gengur ekki upp. Fjárfestingin hefur neikvæða útkomu.

Þess vegna hef ég haldið því fram að við sem þjóð í þessu ágæta samstarfi um Evrópska efnahagssvæðið ættum að halda á lofti sérstöðu okkar, vekja athygli á því að við höfum fjárfest nú þegar í upphafsbúnaði raforku og innleitt þannig húshitunarkerfi að ekki er hægt að ná árangri með því að kaupa dýrari og lakari jaðartæki sem eyða minni orku. Ég held að það sé tímabært að við í þágu þess að gera samstarfið betra leitum eftir því að undanskilja okkur þeim kafla sem fjallar um visthönnun vöru. Hann var upprunalega samþykktur líklega um það leyti sem við gengum í Evrópska efnahagssvæðið og menn óraði ekki fyrir því að inn í þennan kafla yrðu dregin þessi óskyldu tæki. Og núna er verið að víkka svið kaflans út, ekki bara til tækja sem tengjast rafmagni heldur sem tengjast orkunotkun. Ég held að þetta sé stórhættuleg þróun, ég vil vara mjög sterklega við þessu og vekja þingmenn til meðvitundar um að það eru ekki hagsmunir íslensku þjóðarinnar og ekki hagsmunir Evrópska efnahagssvæðisins heldur að þetta verði innleitt á Íslandi.



[15:59]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil bregðast aðeins við athugasemdum hv. þingmanns og þakka þær.

Þetta mál snýst ekki um losun á koltvísýringi. Það snýst um bætta orkunýtni og er óháð losuninni þannig að, já, þetta á við á Íslandi. Þetta snýst í raun um það hvernig við notum orkuna. Það getur vel verið að mönnum finnist að við þurfum ekkert að hugsa um það, við höfum nóga orku, en við eigum að hugsa um það vegna þess að við getum þá notað orkuna í annað.

Hér er ekki verið að tala um verri búnað með minna afli, hér er ekki stóra ryksugumálið á ferðinni, ef ég má segja svo. Það er verið að hvetja til þess að nota búnað sem nýtir orkuna betur. Ef við notum þannig búnað getum við notað orkuna í annað, við fáum lægra raforkuverð til heimilanna þar sem rafmagnstækin nota minni orku og við getum notað hana í annað. Ég minnist þess sem iðnaðarráðherra að við stóðum frammi fyrir skerðingum á síðasta ári vegna bágrar lónstöðu. Það þýðir að þó að við eigum mikið af orku er hún ekki óþrjótandi. Og ég held að það sé skynsamlegt, ef við hugsum þetta þannig, að leita leiða til fara vel með orkuna, við þurfum að leita leiða til þess hér sem og annars staðar.

Þetta vildi ég sagt hafa en að öðru leyti vil ég þakka fyrir umræðuna.



[16:01]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra örlítið út í það að málið tengist bara því að nýta betur orkuna en ekki því hvernig orkan er búin til. Vissulega erum við sammála um að það er alltaf gott að nýta orku vel. Við höfum ákveðið að fjárfesta gríðarlega í mjög hagkvæmum virkjunum. Það var ekki ókeypis, það kostaði mjög mikið. Þessa fjárfestingu hefur Evrópusambandið ekki lagt í, en fjárfestir hins vegar núna í jaðartækjum og öllum búnaði sem tengist orkunotkun og getur leitt til orkusparnaðar. Það er til að draga úr útblæstri, til að gera Evrópusambandið minna háð gasi sem það þarf að kaupa, m.a. frá Rússlandi. Allt getur þetta skipt miklu máli í Evrópusambandinu.

Þetta eru atriði sem eru ekki efst í forgangsröðun hjá landi sem þegar hefur fjárfest með gríðarlegum tilkostnaði í því hvernig orkan er búin til. Það ætti að skapa okkur samkeppnisstöðu, t.d. í netþjónabúum, að geta keypt netþjóna sem eru ódýrari og uppfylla ekki sömu kröfur til kælingar og orkunotkunar eins og eðlilegt er að gera í Evrópusambandinu eða í landi sem býr til orku sína með útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Hvers vegna ættum við að íþyngja íslenskum fyrirtækjum sem eru í alþjóðlegri samkeppni, t.d. um hýsingu netþjóna, með kröfum sem eiga bara alls ekkert við? Við erum í raun að taka af okkar fyrirtækjum eðlilega samkeppnisstöðu. Hvers vegna ætti t.d. heimili á Íslandi ekki að geta keypt nýtísku rafmagnsbíl frá Suður-Kóreu, þann besta í heimi á lægsta verðinu, vegna þess að hann hefur ekki uppfyllt skilyrði Evrópusambandsins um orkunýtni?

Ég vil að við höldum okkar möguleikum opnum. Við höfum fjárfest í afskaplega hagkvæmum virkjunum sem hafa kostað mikið, húsin eru kynt með heitu vatni en ekki með olíu. Ég vil ítreka aðvaranir mínar og ég tel að það sé fullt tilefni til þess að við höfum fullt frelsi í þessu.



[16:04]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka að þetta frumvarp er til komið vegna aðildar okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ég vakti athygli á því að það er komið í kæruferli við EFTA-dómstólinn, þannig að okkur ber skylda til þess að innleiða það.

Þetta leiðir hugann að Evrópuumræðunni almennt og því sem við höfum oft rætt hér á vettvangi þingsins um það hvenær og á hvaða stigi máls við komum inn með athugasemdir um hluti sem kunna að varða íslenska hagsmuni. Það má vel vera að það hefði verið hægt að færa fyrir því rök á fyrri stigum að þessi tilskipun yrði ekki tekin upp hér, en nú erum við komin á þennan stað vegna þess að við gerðum það ekki á þeim tíma.

En ég held samt að það sem þingmaðurinn vekur hér athygli á sé í rauninni ekki það sem tilskipunin snýst um. Hér er til að mynda verið að útvíkka gildissviðið þannig að í stað þess að tilskipunin nái bara til ísskápa og raftækja og þess háttar vara nái hún líka til vöru sem leiðir til þess, á byggingarstigi, að við nýtum orkuna betur. Þá verður betri einangrun, betri gluggar. Það er ekki verið að tala um það að nú þurfum við öll að fara að skipta um glugga og einangra húsin okkar upp á nýtt, heldur er verið að samræma reglur og hvetja til notkunar á vörum sem nýta orkuna betur. Ég held að það sé í sjálfu sér göfugt markmið sem við getum tekið þátt í að keppa að. Og sú staða er komin upp að við erum skuldbundin til þess að innleiða þessa tilskipun og því hefðu þessar athugasemdir þurft að koma fram fyrr.



[16:06]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra bendir á að athugasemdin hefði þurft að koma fram fyrr, ég held fyrir tíu eða fimmtán árum. Núna getum við ekkert sagt og nú á Alþingi Íslands bara að vera stimpilpúði fyrir það sem embættismönnum Evrópusambandsins dettur í hug að innleiða hér á Íslandi.

Ég andmæli því. Ég held að við eigum alltaf að velta því fyrir okkur sem þingmenn hvort tilskipanir sem þessar eigi erindi og við eigum ekki að taka því sem gefnum hlut að Evrópska efnahagssvæðið og samkomulagið þar sé algjörlega óumbreytanlegt og ekki sé hægt að koma neinum skynsamlegum rökum á framfæri. Til þess er EFTA-dómstóllinn, hann er vettvangur fyrir okkur til þess að færa rök fyrir því að það sé alls ekki neinn skaði og engin ástæða fyrir Evrópusambandið að innleiða íþyngjandi reglugerðir á Íslandi sem eiga hugsanlega fullt erindi annars staðar.

Það á ekki að gefast upp á því að bæta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið vegna þess að það mundi enda með þeim ósköpum að við gæfumst einn góðan veðurdag upp á því að vera í Evrópska efnahagssvæðinu. Ég hef meiri trú á því að við eigum að hafa þetta lifandi samning, hann eigi að taka tillit til raunveruleikans og hagsmuna þeirra ríkja sem tengjast honum. Þannig færi best á samstarfinu.

Að sjálfsögðu mun það gera húsbyggingar kostnaðarsamari og nýju íbúðirnar handa unga fólkinu dýrari ef þær þurfa að uppfylla einangrunarkröfur sem gerðar eru í ríkjum þar sem kynt er með olíu og kostnaður til húshitunar er tíu sinnum meiri. Það er algjörlega skynsamlegt þar að gera slíkar kröfur. En það er á engan hátt hagkvæmt á Íslandi og bitnar bara á þeim sem við hefðum síst viljað að það bitnaði á, þ.e. unga fólkinu sem er að koma sér þaki yfir höfuðið. Þetta er einmitt reglugerð sem mun auka kostnað þess. Ég held að við eigum að taka þetta mál sérstaklega fyrir í tengslum við það hvernig við eigum að undanskilja Ísland þessum kafla um visthönnun vöru sem notar orku og tengist orkunotkun.



[16:08]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er grundvallarmisskilningur fólginn í því að halda því fram að þessar vörur séu alltaf dýrari og muni þess vegna íþyngja ungum fjölskyldum sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið. Þvert á móti eru þessar vörur oft og tíðum ódýrari (Gripið fram í.) — það hefur ekki með það að gera — og leiða, eins og ég sagði áðan, til lægri raforkureiknings fyrir heimilin í landinu.

Varðandi spurninguna um það hvort við séum stimpilpúði eða ekki þá er ég alveg sammála hv. þingmanni að auðvitað eigum við að koma athugasemdum okkar á framfæri. Það höfum við rætt margítrekað á Alþingi: Af hverju höfum við ekki gert það á réttum tíma í gegnum tíðina? (Gripið fram í.) Við höfum skoðað þetta á vettvangi utanríkismálanefndar þar sem ég sat um nokkurra ára skeið og höfum gert breytingar til bóta, leyfi ég mér að segja, í þeim efnum. Við erum miklu meðvitaðri um það hvenær í ferlinu við getum gert athugasemdir og komið athugasemdum á framfæri og ég held að við ættum endilega að nota þann farveg, þann vettvang. En þar sem við gerðum hér ekki athugasemdir á fyrri stigum er staðreyndin einfaldlega sú að við erum skuldbundin til þess að innleiða þessar gerðir og við það situr.

Ég hvet hv. þingmann hins vegar til þess að vera vel á verði gagnvart því sem á að innleiða, á rétta stiginu, á meðan við höfum tækifæri til þess að gera athugasemdir, vegna þess að það er mikilvægasti tímapunkturinn í ferlinu.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.