144. löggjafarþing — 14. fundur
 6. október 2014.
forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu.

[15:07]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil inna hæstv. fjármálaráðherra nokkuð eftir forgangsröðun í nýju fjárlagafrumvarpi. Þegar maður horfir núna á þetta frumvarp vekur sérstaka athygli hversu hart er gengið fram gagnvart framhaldsskólakerfinu. Nemendaígildum er fækkað um 916. Það getur verið að þetta kalli á niðurskurð í kennarafjölda um nærri 100 manns. Þetta leggst þyngst á litlar, framsæknar menntastofnanir á landsbyggðinni og sumar þeirra eru að fást við niðurskurð nemendaígilda upp á allt að 20%. Skólaárið fellur ekki saman við fjárlagaárið þannig að ef það á að vera einhver leið að mæta 20% samdrætti af þessum toga á næsta ári verða þessir skólar strax að segja upp kennurum.

Þar við bætast þau tíðindi í fjárlagafrumvarpinu að það sé lokað á nemendur yfir 25 ára aldri í framhaldsskólakerfinu. Við höfum stært okkur af því á síðustu árum í kjölfar hruns að hafa getað byggt upp í framhaldsmenntun þjóðarinnar, að hafa getað gert ýmislegt til þess að brúa bilið sem er allt of mikið milli okkar og annarra þjóða í framhaldsmenntun.

Í verknámi er meðalaldur nemenda 25,2 ár. Víða á landsbyggðinni er hann enn hærri. Þessi ákvörðun mun hafa þung og erfið áhrif á verknám í landinu.

Að síðustu, vinnustaðanámssjóður er lagður af sem hefur skapað ný tækifæri í verknámi, aukið líkur á því að fyrirtæki sjái sér hag í því að hafa fólk í vinnu sem jafnframt er í verknámi. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hverju sætir þessi sérstaka aðför að framhaldsskólakerfinu?

Það er eiginlega ótrúlegt þegar allt þetta er talið saman hversu hart gengið er fram. Þegar menn lýsa því yfir að búið sé að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, eðlilegt ástand hafi skapast, hvers vegna er gengið svona fram gagnvart framhaldsskólunum?



[15:09]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eins og sjá má í fjárlagafrumvarpinu hækkar heildarfjárveiting til málaflokksins framhaldsskólar frá gildandi fjárlögum. Því er hér haldið fram að sérstaklega sé sótt að framhaldsskólastiginu með frumvarpinu, en á þessu ári bættum við rekstrargrunn framhaldsskólanna með sérstakri fjárveitingu til þess að taka á rekstrarerfiðleikum sem ný ríkisstjórn tók í arf frá síðustu árum. Þá komum við með sérstakt 400 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrunn framhaldsskólastigsins.

Það er hins vegar alveg rétt að í menntamálum er unnið að því að stytta nám til háskólaprófs til þess að við Íslendingar færumst nær því sem gildir til dæmis hjá OECD-þjóðum og öðrum þeim sem við viljum bera okkur saman við og að fólk muni þannig í framtíðinni ljúka námi eftir til dæmis háskólagöngu fyrr en átt hefur við á Íslandi. Það mun auka framleiðni í landinu og er gríðarlega stórt og mikið menntamál en líka efnahagsmál.

Varðandi þá sem eru 25 ára er ekki rétt að það sé með neinum hætti verið að snerta þá sem eru í verknámi og hafa náð þessum aldri. Við erum hins vegar að fjalla um það í tengslum við bóklega námið hjá þeim sem eru 25 ára og eldri að það kunni að vera aðrar leiðir fyrir þá sem vilja sækja sér aukna menntun og hafa náð þessum aldri en sú að fara í framhaldsskóla, t.d. að þeir eigi þá frekar kost á því að fara í símenntun á vegum háskólanna og undirbúa sig þannig fyrir mögulegt háskólanám í framtíðinni. Þetta er ekki ákvörðun sem með neinum hætti er ætlað að þrengja að verknáminu í landinu.



[15:11]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur ekki kynnt sér hvernig þetta mál liggur í raun og veru. Það er engin þörf á því að draga úr nemendaígildunum út af hugmyndum um styttingu framhaldsskólans. Þvert á móti er það sjálfstæð ákvörðun.

Það sem hann segir hér um að það verði aðrir kostir í boði fyrir þá sem vilja fara í framhaldsnám er líka rangt. Það er ekkert fé ætlað til þess að skapa þau tækifæri. Það er ekki veitt aukið fé í símenntun eða önnur tækifæri fyrir það fólk sem á að útiloka úr framhaldsskólunum.

Skilaboð Sjálfstæðisflokksins í menntamálum eru ósköp einföld: Það á að draga úr vali. Það á að draga úr tækifærum fyrir fólk. Og það á sérstaklega að þrengja að fólki í verknám. Það er auðvitað þar sem skórinn kreppir í arðsemi menntunar þjóðarinnar, að við eigum ekki nægan mannauð með framhaldsmenntun. Okkur skortir sárlega meiri verkmenntun. Þá er akkúrat þrengt þar að. Fyrir því eru hvorki fjárhagsleg rök né þjóðhagsleg.



[15:12]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er akkúrat mergurinn málsins, það er eitthvað að á framhaldsskólastiginu hjá okkur. Þess vegna er gripið hér til aðgerða til að draga úr brottnáminu, bregðast við því hversu langan tíma það tekur að meðaltali hjá framhaldsskólanemum að klára námið sitt og undirbúa sig fyrir háskólastigið. Það eru markvissar aðgerðir í menntamálaráðuneytinu til að taka á þessum vanda. Ég heyri ekki annað en að hv. þingmaður telji það fyllilega eðlilegt og sjálfsagt að þau sem hafa átt kost á framhaldsnámi en hafa ekki hafið það og eru búin að ná 25 ára aldri skrái sig í framhaldsskóla en fari ekki aðrar leiðir til að undirbúa sig fyrir frekara nám. Þar erum við bara ósammála. (Gripið fram í.) Ég tel miklu eðlilegra að við beitum öðrum úrræðum en framhaldsskólastiginu til að klára menntun fyrir þá sem ekki hafa lokið stúdentsprófi en hafa náð 25 ára aldri.

Í tengslum við verknámið aftur, það er ekki verið að þrengja verknámið. Síðasta verk ríkisstjórnarinnar í verknámsmálum var að klára verknámsbrautina á Suðurlandinu.