144. löggjafarþing — 14. fundur
 6. október 2014.
lán Seðlabanka til Kaupþings 2008.

[15:14]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Í dag er 6. október og það er mánudagur. Það eru sex ár síðan það var mánudagur 6. október og þá gekk aldeilis mikið á í þingsal. Þá hrundi fyrsti stóri bankinn af þremur á Íslandi og atburðarás hófst sem við nefnum einfaldlega hrunið og höfum verið að glíma við síðan í alls konar vandamálum.

Nú berast fregnir af því að sérstakur saksóknari sé blessunarlega að koma málum inn í réttarsal þar sem meðal annars er réttað út af alls konar ákvörðunum bankastjórnenda og heilla stjórna sparisjóðanna tengdum lánveitingum í aðdraganda og eftirleik hrunsins. Ýmislegt bendir til þess að ákvarðanir vegna lánveitinga milli aðila hafi verið ólöglegar, ekki hafi verið farið eftir settum lánareglum og lögum eða að um umboðssvik hafi verið að ræða og þar fram eftir götunum.

Seðlabankinn veitti þennan dag fyrir sex árum eitt stórt lán. Stór hluti gjaldeyrisvarasjóðsins fór í lánveitingu til Kaupþings með veði í FIH-bankanum. Spurning mín er í tilefni dagsins og af því tilefni að verið er að gera upp hrunið og alls konar ákvarðanir. Komið hefur í ljós að þessi lánveiting mun kosta opinbera sjóði hátt í 40 milljarða vegna þess að veðið í FIH-banka reyndist ekki traust. Ýmislegt hefur verið fullyrt og komið í ljós sem bendir til þess að ákvörðunartaka varðandi þessa lánveitingu hafi alls ekki verið í samræmi við eðlilega verklagsferla né við lög og reglur. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hæstv. forsætis- og dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) hvort hann telji að þessi lánveiting hafi verið í samræmi við lög og reglur.



[15:16]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi þemaspurningu hv. þingmanns í tilefni dagsins verð ég að byrja á að minna hann á að þótt ég sé dómsmálaráðherra dæmi ég ekki í málum. Ég ætla ekki að dæma í þessu máli og hef svo sem ekki aðstöðu til að rannsaka það. Það hefur hins vegar verið gert, það hefur verið fjallað sérstaklega um þetta mál, m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er alveg ljóst að það er rétt sem hv. þingmaður segir, verklagsferlar í þessu máli eins og svo fjölmörgum öðrum á þessu tímabili voru ekki alveg hefðbundnir.

Þetta lán er veitt gegn veði sem á þeim tíma var töluvert verðmætara en nam upphæð lánsins og hefði verið hægt, a.m.k. alllengi, að innleysa það veð á hærra verði en nam láninu. Hvað varðar ákvörðunina um að taka lánið ætla ég að eftirláta öðrum þar til bærum aðilum að meta það eins og hefur að nokkru leyti verið gert.



[15:17]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Já, það hefur að nokkru leyti verið gert og það er ekki síst tilefni spurningarinnar vegna þess að það hefur verið fullyrt og staðfest frammi fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili að þetta risastóra lán sem hefur haft svona miklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir opinbera sjóði var ekki veitt í samræmi við verklagsreglur bankans um það hvernig eigi að veita þrautavaralán. Það hefur líka komið í ljós við yfirferð á síðasta kjörtímabili efnahags- og viðskiptanefndar að öll gögn í málinu hafa ekki komið fram. Það virðist sem stór hluti ákvörðunarinnar um þetta lán hafi verið tekinn í símtali þáverandi bankastjóra Seðlabankans og formanns bankastjórnar, Davíðs Oddssonar, og þáverandi forsætisráðherra, Geirs Haardes. Þetta símtal hefur ekki verið gert opinbert.

Ég er ekki að biðja hæstv. dómsmála- og forsætisráðherra að dæma í málinu hér og nú, enda væri það mjög gerræðislegt. Ég er bara að biðja um álit hans. Er það ekki alvarlegt (Forseti hringir.) ef svona stórt lán, þrautavaralán, er veitt án þess að farið sé eftir verklagsreglum um það hvernig eigi að veita slík lán? (Forseti hringir.) Vildi hæstv. forsætisráðherra að það hefði verið gert aftur í íslensku samfélagi? Hefur hann ekki einhverja skoðun á því?



[15:19]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en endurtekið fyrra svar. Í þessu tilviki og raunar mörgum öðrum, m.a. varðandi lagasetningu, fóru menn ekki eftir hefðbundnum verklagsreglum á þessum tíma.

Hvað varðar þetta tiltekna lán hef ég ekki aðrar forsendur til að meta þá ákvörðun en það sem lýst hefur verið í meðal annars skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég hef ekki hlustað á þetta samtal sem hv. þingmaður vísar til og hef raunar engar frekari upplýsingar um þetta mál en hann.