144. löggjafarþing — 14. fundur
 6. október 2014.
samningur við meðferðarheimilið Háholt.

[15:26]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Í Fréttablaðinu í dag má lesa að velferðarráðuneytið hyggist gera tæplega 500 millj. kr. samning til þriggja ára um rekstur meðferðarheimilisins Háholts í Skagafirði þrátt fyrir að Barnaverndarstofa sé eindregið á móti endurnýjun slíks samnings.

Barnaverndarstofa bendir á að betra væri að nýta fjármuni í byggingu nýs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðstaða er til að vista unga fanga og unglinga með svo fjölþætt vandamál að þau þurfa á að halda mjög miklu aðgengi að fagmenntuðu starfsfólki og sérhæfðum læknum og sálfræðingum.

Það kemur jafnframt fram í Fréttablaðinu í dag að það er ekki bara Barnaverndarstofa sem hefur þessa skoðun heldur byggir hún afstöðu sína á umsögnum allra barnaverndarnefnda á landinu um Háholt og í blaðinu kemur fram að það hafi séð þessar umsagnir og að reynsla sé almennt góð af starfsfólkinu í Háholti en að barnaverndarnefndunum um allt land þyki heimilið of afskekkt og of langt frá höfuðborgarsvæðinu. Það sætir furðu að ráðherra taki þessa ákvörðun í ljósi skoðana fagaðila og ég vil því spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra:

1. Af hverju tekur ráðherra ákvörðun þvert á faglegt mat Barnaverndarstofu?

2. Hvaða faglegu rök liggja að baki ákvörðun hæstv. ráðherra?

3. Telur hæstv. ráðherra sig vera að gæta velferðar barna fyrst og fremst með þessari ákvörðun?



[15:28]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýr að ákvörðun Alþingis um það að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Í framhaldinu komu ábendingar um að til að við gætum uppfyllt skilyrði samningsins yrðum við að breyta því hvernig við höfum vistað unga fanga. Þá kom fram tillaga frá Barnaverndarstofu um að hægt væri að nýta aðstöðuna í Háholti.

Nú liggja fyrir samningsdrög um að vista unga fanga í Háholti, þá samningur til þriggja ára. Það er ákvæði í samningnum sem bendir til að hér séum við ekki að tala um framtíðarlausn heldur tímabundna lausn þannig að þá verði hægt að segja samningnum upp ef aðstæður breytast.

Þetta mat byggist á því að við í ráðuneytinu gerðum könnun, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, hjá barnaverndarnefndum hringinn í kringum landið þar sem við könnuðum líka hvort barnaverndarnefndir sæju fyrir sér að nýta þjónustu Háholts, ekki bara sem sneri að vistun ungra fanga. Þar kom fram mikil ánægja með þá 15 ára reynslu sem er af Háholti. Það kom að vísu líka fram, eins og kom fram í máli þingmannsins og þeirri blaðagrein sem var vitnað í, að gerðar voru athugasemdir við fjarlægð Háholts frá höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar þótti alveg ljóst að þarna væri mikil fagþekking og mjög faglega staðið að rekstri heimilisins.

Ég vil líka benda á að það hefur verið umfjöllun um að núna er vinna að hefjast um heildarendurskoðun á skipulagi félagsþjónustu og barnaverndar í landinu. Nefndin hefur að vísu ekki náð að halda sinn fyrsta fund. Þar á meðal er nefndinni gert að skila mér tillögum um staðsetningu á höfuðstöðvum nýrrar stjórnsýslustofnunar (Forseti hringir.) og starfsstöðva þessarar stofnunar. Ég vænti þess að fá tillögur, þá líka sem snúa að vistun ungra fanga (Forseti hringir.) og almennt hvernig hægt er að sinna úrræðum gagnvart þeim börnum sem þingmaðurinn nefndi.



[15:30]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki einni einustu af þeim þremur spurningum sem ég lagði fyrir hana. Af hverju vill hæstv. ráðherra ekki fara að rökum? Af hverju fer hún þvert á faglegt mat Barnaverndarstofu? Hvaða faglegu rök liggja að baki 500 millj. kr. samningi til þriggja ára þar sem talið er að nýting sé ófullnægjandi? Er þetta með velferð barna í huga, þeirra barna sem þurfa á úrræðinu að halda?

Þá held ég að líka sé rétt að komi fram að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ekki verið haft með í ráðum, sem er auðvitað berandi aðili þegar kemur að ákvörðunum í barnaverndarmálum, og það væri þá fjórða spurningin sem hæstv. ráðherra mætti gjarnan svara: Af hverju hefur ekki verið haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga?



[15:32]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig vera að svara spurningunum. Ég fór í gegnum hvernig aðdragandinn hefði verið að þessari ákvörðun og forsendur hennar. Ég benti líka á hvað hefði verið rétt sem kom fram í svörum barnaverndarnefnda og reyndi eftir bestu getu að svara spurningunum.

Það er ekki rétt sem þingmaðurinn sagði, að ekki hefði verið haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Í þeirri vinnu sem er núna að hefjast um endurskoðunina á skipulagi félagsþjónustu og barnaverndar er (Gripið fram í.) Samband íslenskra sveitarfélaga með fulltrúa sem (SII: Óskylt mál.)það tilnefndi. Nei, það er ekki rétt hjá hv. þingmanni, þetta er svo sannarlega mjög skylt mál vegna þess að þar er verið að huga að stjórnsýslu, félagsþjónustu og barnavernd á landsvísu, því hvernig við getum bætt það og tryggt að nærþjónustan (Gripið fram í.) sé sem næst notendunum, sem næst börnunum okkar, sem næst öldruðum, fötluðum og innflytjendum. Því sem snýr að stjórnsýslu og eftirliti má hins vegar koma í betra horf en það er í í dag.