144. löggjafarþing — 14. fundur
 6. október 2014.
sérstök umræða.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[15:37]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Á næstu vikum hyggst ríkisstjórnin lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Umfangið mun taka mið af eftirspurninni eftir þeim rúmlega 70 milljörðum sem til ráðstöfunar eru. Fjármálaráðherra mun því gefa út þau vísitöluviðmið sem lækkunin mun miðast við.

Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort það sé ekki örugglega svo að ríkisstjórnin ætli að gæta jafnræðis gagnvart þeim heimilum sem skulda verðtryggð lán. Ætlar ráðherra að leggja fram frumvarp um sambærilega höfuðstólslækkun fyrir þá sem skulda verðtryggð námslán? Hvenær mun hann leggja það frumvarp fram?

Eðli námslána er þannig að skuldarar greiða 3,75–4,75% af heildartekjum sínum af námslánaskuldum árlega en það svarar til um það bil eins mánaðar ráðstöfunartekna á ári. Þegar vísitala krónunnar hækkaði um 120% á innan við ári, þ.e. þegar íslenska krónan hrundi árið 2008 rétt eins og bankarnir fyrir sex árum, leiddi það til mikillar verðbólgu, höfuðstóll lánanna hækkaði en greiðslurnar voru auðvitað áfram í samræmi við tekjur. Launin lækkuðu í kjölfar hrunsins og því var afborgunin lægri þótt hún væri enn sama hlutfall af heildartekjum og það leiddi til enn frekari hækkunar lánanna þar sem minna var greitt af þeim.

Lífskjaraskerðingin veldur því þó að æ fleiri finna verulega fyrir greiðslubyrði námslána. Tæp 50% þeirra sem skulda námslán finna mikið eða verulega fyrir greiðslubyrði námslána samkvæmt kjarakönnun BHM. Æ fleiri eru líka að átta sig á því að þeim mun ekki endast starfsævin til að greiða upp lánin. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist eðlilegt að fólk sé að greiða af námslánum eftir að starfsævi lýkur eða með öðrum orðum, að ellilífeyrisþegar greiði 1/12 af lífeyri sínum í greiðslu af námslánum.

Frá árinu 1976 hafa námslán verið verðtryggð og endurgreiðslutíminn verið frá 20 upp í 40 ár. Árið 1992 var Sjálfstæðisflokkurinn líka með menntamálaráðuneytið og þá var lögunum breytt þannig að innheimta mætti vexti af lánunum og endurgreiðslutími væri ótakmarkaður, þ.e. að fólk skyldi greiða af lánunum þangað til þau væru að fullu uppgreidd eða lántaki hreinlega dæi.

Okkur er einnig orðið ljóst að breytingin nær út yfir gröf og dauða ábyrgðarmannanna. Ég tel fullvíst að frumvarpið hefði ekki verið samþykkt árið 1991 ef þingmenn hefðu áttað sig á því. Ætlar hæstv. ráðherra ekki örugglega að beita sér fyrir eða styðja breytingar á þessu ranglæti?

Lánasjóðurinn er ein mikilvægasta stofnun samfélagsins. Hann stuðlar að jöfnu aðgengi fólks að menntun óháð efnahag. Lengi vel voru lánin vaxtalaus enda var talið að vextir samfélagsins af lánveitingunum væri vel menntað fólk sem nýtti menntun sína til eflingar samfélagsins. Það er því mikilvægt að tryggja viðgang sjóðsins en jafnframt þurfa stjórnvöld að horfast í augu við það að við þurfum að bera sameiginlegan kostnað af því að mennta íbúa þessa lands.

Ríkisendurskoðun benti á það árið 2011 að endurskoða þyrfti lögin um sjóðinn og menntamálaráðherra í síðustu ríkisstjórn, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, lagði fram frumvarp um ný heildarlög um sjóðinn. Umfangsmesta breytingin í því frumvarpi varðaði innleiðingu námsstyrkja. Í því fólst að námsmenn gætu fengið námsstyrk sem kæmi til úthlutunar að loknu námi í formi niðurfærslu á þegar teknu námsláni. Einnig var kveðið á um að ábyrgðir féllu niður þegar ábyrgðarmaður næði 67 ára aldri. Nýr menntamálaráðherra hefur ekki endurflutt frumvarpið en boðar nýtt frumvarp vorið 2015.

Lokaspurningar mínar til hæstv. ráðherra eru: Hvað er það sem hæstv. ráðherra er ekki sáttur við í frumvarpi fyrri ríkisstjórnar? Hvaða breytingar eru það sem hæstv. ráðherra vill gera í boðuðu frumvarpi um lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna?



[15:43]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á því mikilvæga máli sem er til umræðu. Nokkrar spurningar voru hér bornar fram. Fyrst sú hvort ég hygðist leggja fram frumvarp um það að námslán mundu falla undir þá aðgerð sem tilkynnt hefur verið varðandi afskriftir á verðtryggðum lánum með fasteignaveði. Svarið við því er nei, ég mun ekki beita mér fyrir því. Væntanlega mundi slíkt frumvarp, ef fram kæmi, koma frá fjármálaráðherra, mundi ég ætla. Það hefur legið fyrir alla tíð að verið er að horfa á fasteignakaup, þ.e. þar sem andlag lánsins er fasteign. Um þetta hefur áður verið rætt hér og svar mitt hefur komið fram hér áður og er sjálfsagt að ítreka það úr því að aftur er spurt.

Síðan spurningin um það hvort það sé eðlilegt að greiða af lánunum eftir að 67 ára aldri hefur verið náð. Í sjálfu sér er lán sem lánasjóðurinn veitir eins og önnur lán, t.d. frá Íbúðalánasjóði eða bankalán ýmiss konar sem eiga sér áframhaldandi líf þó að 67 ára aldrinum sé náð. Námið hefur auðvitað skilað tekjuauka á starfsævinni og lánþeginn býr að þeim tekjuauka sem námið lagði grunn að. Það væri því nokkuð stór ákvörðun að ætla að fella niður lánin eftir að 67 ára aldri er náð. Það liggur þó fyrir kostnaðarmat af hálfu lánasjóðsins á þeim tillögum sem hv. umræðuhefjandi, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hefur lagt fram. Mat lánasjóðsins er það að á næsta ári verði kostnaðurinn um 700–800 millj. kr. á ári og yrðu það 22 milljarðar á næstu 17 árum ef sú leið yrði farin sem lagt er upp með í því frumvarpi.

Hvað varðar sameiginlegan kostnað þá er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að það er verkefni samfélagsins alls að stuðla að menntun og auðvelda aðgengi að menntun. Það er gert með því að í námslánakerfinu er mjög mikill styrkur af hálfu ríkisins. Þegar horft er á lánasafnið frá 2012, að gefnum þeim vaxtamuni sem er á milli lánanna, þ.e. hvernig lánasjóðurinn fjármagnar sig og hins vegar á hvaða kjörum er lánað út og síðan með mati á afskriftum, má ætla að rétt tæplega helmingur skili sér til baka til ríkissjóðs, þannig að 47%, ef ég man rétt, af því lánasafni er ætlað að verði raunverulega í formi styrks til þeirra sem lánin hljóta.

Þá koma upp mjög stórar spurningar. Hvernig skipuleggjum við þessar styrkveitingar? Hverjir hljóta styrkina og hverjir hljóta þá ekki? Hverjir fá mest og hverjir fá minna? Þá er rétt að nefna það að núna eru að verða töluverðar breytingar á lánasjóðnum og samsetningu hans. Meðalendurgreiðslutími lánanna er að lengjast og er nú að meðaltali 20 ár fyrir þá sem borga af námslánum sínum en var 14 ár árið 2009. Þetta endurspeglar meðal annars það að námslánin hafa verið að hækka enda hefur lánþegum fjölgað mjög mikið. Þetta skiptir máli þegar við leggjum mat á hver fjárþörfin verður fyrir lánasjóðinn hér á næstu árum og áratugum.

Hvað varðar það frumvarp sem kom fram á síðasta þingi fyrrverandi ríkisstjórnar þá er ein af ástæðum þess að það náði ekki fram að ganga sú að það var mjög mikill munur á kostnaðarmati menntamálaráðuneytisins undir forustu þáverandi hæstv. ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og síðan hvað fjármálaráðuneytið undir forustu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, taldi að frumvarpið mundi kosta. Fjármálaráðuneytið lagði það mat á frumvarpið að það yrði mun dýrara þegar upp væri staðið en menntamálaráðuneytið taldi. Ég held að það hafi kannski verið sá þáttur sem olli því einna helst að frumvarpið náði ekki fram að ganga, þ.e. vanmat á kostnaði af hálfu menntamálaráðuneytisins.

Það er ýmislegt sem er nauðsynlegt að hafa í huga þegar litið er til þess hvernig skuli staðið að endurbótum á námslánakerfinu. Það þarf að hafa í huga stöðu lánasjóðsins og þær úttektir sem hafa verið gerðar núna um fjárhagslegan styrk sjóðsins og þær áhyggjur sem menn hafa nú af þróun mála, m.a. í ljósi þeirrar ákvörðunar sem tekin var 2009 að fella niður ábyrgðarmannakerfið. Það þarf líka að horfa til þess að styrkur ríkisins til námsmanna í gegnum lánakerfið er misjafn og ekki mjög gegnsær. Það mætti einmitt horfa til annarra Norðurlandaþjóða hvað það varðar svo að það komi betur fram í hverju styrkurinn er fólginn sem er sannarlega til staðar hér í okkar kerfi. Það er oft sagt í almennri umræðu að það sé enginn styrkur (Forseti hringir.) í íslenska námslánakerfinu, en það er fjarri öllu lagi. Það er verulegur styrkur eins og þær tölur bera með sér sem ég nefndi (Forseti hringir.) fyrr í ræðu minni.



[15:48]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir þessa umræðu. Ég vona að hæstv. ráðherra svari betur þegar hann kemur í síðara sinn hér í pontu.

Það sem þarf að hafa í huga í þessari umræðu er, eins og drepið var á í upphafi, að það verður auðvitað lífskjaraskerðing hjá fólki sem er í námi eins og hjá öllum öðrum. Það er líka val — hæstv. ráðherra talaði um að í nánustu framtíð yrðu þetta 22 milljarðar sem færu í aðgerðina sem hér var nefnd — að fella niður lánin við 67 ára aldur. Þessi ríkisstjórn valdi að setja tugi milljarða í niðurgreiðslur til fólks og þær koma sér afar misjafnlega og sumir þurfa ekki á þeim að halda. Margir þeirra sem eru í námi og málið snýst um hafa lága framfærslu. Hann talaði líka um að þetta væri ekki gagnsætt og að töluverður námsstyrkur væri nú þegar í þessu kerfi. Er það jafnræði til náms sem þar birtist, hann ræddi um að það skilaði sér ekki nema hluti í endurgreiðslu, eða gætum við haft það skilvirkara með því að vera með gagnsærra námsstyrkjaform?

Eins og vitnað var til var hér frumvarp á síðasta þingi þar sem mælt var fyrir um sérstaka lánshæfismatsnefnd sem átti að meta hæfi til náms, þ.e. til lánshæfs náms. Ég tel að það hafi verið til mikilla bóta og komi til með að auka faglegan styrk ef slíkt verður gert. Því langar mig til þess að spyrja ráðherrann hvort hann muni í það minnsta nýta sér þá vinnu, því að hann kom ekki inn á hvað væri ómögulegt í því frumvarpi í sjálfu sér og voru mjög margir sem komu að því. Þetta er fyrsta spurning mín. Ég kem svo með fleiri hér á eftir.



[15:50]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Ég kynnti mér í framhaldinu frumvarpið til laga sem málshefjandi hefur lagt fram og það er, held ég, jákvætt. Ég er að velta því fyrir mér að ábyrgð og lán falli niður við 67 ára aldur og held að fróðlegt væri að fá nánari upplýsingar um það hvernig stendur á því að það eru svo margir í þessum hópi sem skulda enn þá námslán. Það hlýtur að liggja fyrir, en ég sá það ekki í greinargerðinni. Er það af því að hópurinn hefur tekið há námslán? Eða er það vegna þess að launin eru lág? Er það vegna þess að margir í hópnum taka lán seint á ævinni? Er ástæða til að setja því einhverjar skorður?

Þetta er ekki einsleitur hópur. Það er mjög misjafnt hvernig fólk hefur það eftir að það er komið á 67 ára aldurinn. Ég velti fyrir mér hvort við ættum ekki alveg eins, og jafnvel frekar, að horfa á þá sem eru að reyna að taka námslán og þurfa á velvild viðskiptabanka að halda, þ.e. fyrir fram lán í eina önn þangað til viðkomandi nær prófum. Það eru dæmi um að fólk, jafnvel ungt fólk, fær ekki þessa fyrirgreiðslu í það hálfa ár sem það þarf.

Mér finnst vera ýmsar spurningar í þessu, það getur alveg verið jákvætt. Ég held að fróðlegt verði að fylgjast með umræðunni þegar frumvarpið sjálft verður lagt til, vegna þess að þetta er allt spurning um það hvernig við notum þá takmörkuðu fjármuni sem eru nú þegar í lánakerfinu.



[15:52]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að hefja þessa umræðu um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í mínum huga er hlutverk LÍN eins og það er skilgreint, að tryggja tækifæri til náms án tillits til efnahags, lykilatriðið í allri umræðu um lánasjóðinn, þannig að það sé leiðarljós okkar við allar breytingar á lögum, umgjörð og reglum sjóðsins. Eins og staðan er núna, og menntamálaráðherra kom inn á áðan, er í raun hvorki ljóst hvað hver og einn fær í styrk gegnum lánasjóðinn né hvað hverjum og einum er ætlað í styrk. Þarna er því er afskaplega mikilvægt að bæta með jöfnun tækifæra til náms að leiðarljósi.

Við fyrstu sýn sé ég ekki rökin fyrir því að lán falli niður við 67 ára aldur. Mín sýn á það er að með því sé í raun verið að velta kostnaði eldri kynslóða yfir á námsmenn dagsins í dag. En það kunna að vera þar önnur rök. Ég hef líka velt fyrir mér, eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir kom inn á áðan, hvort við gætum einhvern veginn komist út úr yfirdráttarlánakerfinu sem ég held að sé hindrun við að komast að markmiðinu. Eins er mikilvægt í þessu að við veltum fyrir okkur hvata til að greiða námslán niður á einhvern hátt hraðar en nú tekst.



[15:55]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka umræðuna. Ég hef einmitt hoggið eftir þessu og hugsað mikið um útfærslu á lánum til íslenskra námsmanna, þetta fyrsta tímabil með yfirdráttarláninu. Mér finnst það rosalega furðuleg framkvæmd og furðuleg lausn og mig langar að spyrja ráðherra hvort ekki sé kominn tími til þess að finna aðra leið. Ég heyri að margir þingmenn úr mörgum þingflokkum, mörgum stefnum í samfélaginu, eru sammála um að þetta sé ekki rétta leiðin því að hún hindrar jafnt aðgengi allra til náms.

Ég er persónulega ekki alveg sammála því að skera af þegar maður er orðinn 67 ára. Vandamálin sem ég upplifi í kerfinu almennt er að kerfið er óbilgjarnt. Það tekur ekki tillit til þess að lífið hjá fólki er mjög mismunandi. Mig langar að spyrja ráðherra hvort það standi til að reyna að finna lausnir á því hvað kerfið er götótt og þá með heildarendurskoðun á námsstefnu. Hvernig bregðumst við við þeim veruleika sem við búum við í dag sem býður upp á óendanlega margar og fjölbreyttar leiðir í námi, sem eru ekki hinar hefðbundnu leiðir?

Mér finnst spennandi ef við förum í heildræna endurskoðun að kanna hvort við getum líka endurskoðað heildrænt hvernig við hjálpum fólki að stunda það nám sem hentar því. Mikið af því námi sem boðið er upp á í dag hentar alls ekki fólki.



[15:57]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að nýta ræðutíma minn til að ræða stórhertar innheimtuaðgerðir lánasjóðsins, sem komu mér á óvart og eru með öllu óskiljanlegar og raunar óásættanlegar. Þetta eru innheimtuaðgerðir þar sem dregnar eru fram oft áratugagamlar ábyrgðir, jafnvel óskyldra aðila, eða ábyrgðir sem eftir einkaskipti dánarbúa hafa lent á erfingjum án þess að þeim væri ljóst að hinn látni væri í ábyrgð fyrir viðkomandi námsláni. Skyndilega birtist yfirlýsing frá innheimtufyrirtæki þar sem tilkynnt er að námslán sem viðkomandi er sagður í ábyrgð fyrir hafi allt verið gjaldfellt, á það hafi fallið dráttarvextir og vanskilakostnaður og að koma verði láninu í skil eða greiða skuldina alla eða, eins og stendur í þessum bréfum orðrétt, með leyfi forseta:

„Að 15 dögum liðnum má búast við að krafan verði innheimt með atbeina dómstóla.“

Viðkomandi hafa ekki gert sér grein fyrir að þeir séu ábyrgðarmenn námslána enda hafi þeir ekki fengið tilkynningar um ábyrgð sína né hafi þeir með neinum hætti getað gert sér grein fyrir að þeir væru ábyrgðarmenn námslána fyrr en þeim berst ofannefnd tilkynning. Það hlýtur að teljast fullkomlega óásættanlegt að LÍN gangi fram með þessum hætti og krefjast verður þess að LÍN fari fram í samræmi við reglur og lög um ábyrgðarmenn, þ.e. reglurnar frá 1998 og lögin frá 2009.

Ljóst er að ný lög um ábyrgðarmenn, sem samþykkt voru 2009, voru ekki samþykkt að ástæðulausu. Vilji löggjafans var að gera að meginreglu að ekki væri krafist ábyrgðarmanna á námslánum en ef svo væri í undantekningartilfellum skyldi vera þak á ábyrgðinni og ábyrgðarmenn eiga að fá tilkynnta stöðu á reikningum á hverjum tíma.

Samtímis ber að harma að LÍN, með vitund og vilja hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála, gengur nú harðar fram en áður í því að takmarka aðgang að námslánum og menntun. LÍN ákveður að herða lánareglur, auka kröfur um námsframvindu, sem bitnar mest á þeim sem eiga erfiðara með nám og þurfa lengri tíma til náms. Samtímis er nemendaígildum í framhaldsskólum fækkað um 916 sisvona í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. (Forseti hringir.) Ég treysti á að hæstv. ráðherra gangi nú vasklega fram og breyti þessum ábyrgðarreglum á eldri lánum, því fyrr því betra.



[15:59]
Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Við skulum byrja á því að gera okkur grein fyrir því hvaða kostnaður það er sem mundi falla á lánasjóðinn ef námslán mundu falla niður við 67 ára aldur, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Það yrðu 18–20 milljarðar kr. á næstu tveimur áratugum eða svo.

Eru það peningar sem við viljum ráðstafa með þeim hætti? Ég tel svo ekki vera. Ég tel hins vegar brýnt að lánasjóðurinn standi vel að upplýsingaskyldu sinni og leiðbeiningarskyldu og gæti meðalhófs.

Mér kemur í huga sagan af stúlkunni sem hafði ung að árum skrifað undir fyrir kærastann sinn. Menn vita í mörgum tilfellum, og menn muna eftir að hafa lent í slíku, ekki hvaða ábyrgð þeir eru að taka sér á hendur; og fá svo gjaldfellingu á öllu saman áratugum seinna. Það er eitthvað bogið við svona kerfi að mínu áliti.

Mér finnst hins vegar mikilvægast af öllu að við gerum okkur grein fyrir því að námslánakerfið á Íslandi er styrkjakerfi að einhverju leyti. Það vil ég sem skattgreiðandi í þessu landi að þær upplýsingar liggi fyrir fyrir hvern og einn námsmann og séu gagnsæjar og aðgengilegar þannig að það sé alveg á hreinu hvaða hluti námslánanna er lán og hvaða hluti þeirra er styrkur. Það finnst mér að fólkið sem borgar opinber gjöld á Íslandi eigi rétt á að vita.



[16:01]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram. Mér finnst að það frumvarp sem unnið var á síðasta kjörtímabili, en náði ekki fram að ganga, hafi verið mjög vel undirbyggt. Gríðarlega mikil vinna var lögð í það og mikið samtal átti sér stað. Ég vil inna ráðherra eftir því, eins og frummælandi gerði, hvað það er sem stingur sérstaklega í stúf, hvað það er sem hann getur ekki sætt sig við úr því frumvarpi.

Við stjórnmálamennirnir getum alveg leikið okkur með það hvernig okkur finnst að Lánasjóður íslenskra námsmanna eigi að vera, hverjir eigi að fá lán og hvaða nám eigi að vera lánshæft. En eins og ég sagði áðan varðandi lánhæfismatsnefndina sem lögð var þar til þá tel ég það vera miklu heilbrigðara kerfi og gegnsærra eins og fólki hefur orðið tíðrætt um hér.

Við erum líka ólík mjög mörgum Norðurlöndum og Evrópulöndum þegar kemur að því til hvers er lánað. Við lánum í miklu víðtækara nám en þar er gert, en hins vegar var verið að reyna að koma til móts við það, við framlagningu síðasta frumvarps, þar sem átti að reyna að fá þessa nefnd til að meta það og einnig áttu að vera ívilnanir sem ráðherra hefði til að spila úr. Ef það vantaði til dæmis í tiltekna stétt eða eitthvað slíkt þá væri hægt að mæta því af hálfu ráðherra, þ.e. varðandi lánshæfið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar er verið að vinna þetta frumvarp og hverjir koma að því? Ætlar hann að takmarka út frá aldri, þ.e. að þeir fái ekki lán sem eru komnir á ákveðinn aldur? Hyggst ráðherra leggja til einhverjar breytingar varðandi ábyrgðir, og þá við aldur eða við eitthvað annað?



[16:04]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að tala um ábyrgðarmenn. Ég fagna málsgrein í 1. gr. sem snýr að því að við fráfall ábyrgðarmanns falli niður þau lán sem hann hafi gengist í ábyrgð fyrir. Eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom inn á áðan þá er mjög furðulegt það sem er í gangi núna að ef lántaki deyr fellur lánið niður en ábyrgðin fellur ekki niður þegar ábyrgðarmaður deyr; þá erfa börn og barnabörn og barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn ábyrgðina. Þetta er eitthvað virkilega furðulegt og við hljótum að ætlast til þess að hæstv. ráðherra hlutist til í þessu máli.

Þó virðist vera að þetta sé að koma upp núna vegna þess að LÍN sé með nýjar innheimtuaðferðir, eins og ég skil þetta, og þá finnst mér rétt að skoða hvað er í gangi og hvort þetta þyki sanngjarnt.

Mig langar líka aðeins að fara út í annað. Ég man eftir máli sem ég fékk þegar ég var að vinna hjá Neytendasamtökunum sem varðaði ábyrgðarmann sem gengist hafði í ábyrgð fyrir fyrrverandi sambýliskonu. Fyrrverandi sambýliskona greiddi ekki af láninu og gengið var á ábyrgðarmanninn. Það sem hann var svo ósáttur við var að lántakandinn átti eignir og hann skildi ekki af hverju ekki var gengið að lántakandanum áður en gengið væri að ábyrgðarmanninum.

Ég sendi LÍN erindi og spurðist fyrir um þetta, hvort ekki væri örugglega fyrst gengið að skuldaranum og þess vegna farið í fjárnám hjá honum, og fékk virkilega loðin svör. Mér varð umtalsvert um þetta og hef verið undrandi á því alla tíð síðan. Er það virkilega þannig að LÍN ræðst bara á þann sem liggur best við höggi? Í staðinn fyrir að ganga að lántakandanum og gera fjárnám hjá honum er vaðið í ábyrgðarmanninn sem kannski þarf að greiða einhverjar milljónir á sama tíma og lántakandinn á eignir en ekkert er gert í því.

Þessu finnst mér virkilega þurfa að svara.



[16:06]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir að taka upp málefni LÍN til sérstakrar umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Umræðan hefur verið góð og endurspeglar að mörgu leyti hversu víðtæk málefni lánasjóðsins eru. Af mörgu er að taka, námsframvindukröfur, ábyrgðarmannakerfi o.fl. Mig langar að taka sérstaklega fram umfang sjóðsins, það er verulegt þannig að þetta er flókið viðfangsefni og mikilvægt í því samhengi.

Það er kominn tími til að við viðurkennum námslán sem námsstyrki. En um leið og við viðurkennum það verðum við, hygg ég, að bæta úr gagnsæi þess kerfis. Það er viðfangsefni sem ég trúi að hæstv. ráðherra sé með á sinni könnu.

Hv. þingmenn Guðbjartur Hannesson og Brynhildur Pétursdóttir tóku hér til umræðu ákveðinn lið ábyrgðarmannakerfisins sem snýr að dánarbúum. Mig langar að taka það upp í ljósi blaðagreinar sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Athyglisvert er að þar kemur fram að fjöldi dánarbúa í ábyrgðum eru 5.400. Hins vegar eru einungis 30 erfingjar að greiða af lánum. Það blasir því við að nýbyrjað er að rukka dánarbú. Af hverju núna en ekki áður? Hver ákvað það og á hvaða forsendum? Ég bið hæstv. ráðherra að upplýsa okkur um það hér í lok umræðunnar.



[16:08]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir umræðurnar. Það þarf ekki að koma á óvart að við erum ósammála um ýmsa hluti hvað varðar Lánasjóð íslenskra námsmanna sem er félagslegur jöfnunarsjóður, til þess að efla menntun þjóðarinnar og tryggja aðgengi okkar allra að menntun.

Ég er sammála því sem fram hefur komið í máli margra að gegnsæi í styrkjum í námslánakerfinu sé mikilvægt, en í millitíðinni verðum við að taka á vanda þeirra sem sjá fram á að geta ekki lokið greiðslu námslánaskulda á starfsævinni. Hæstv. ráðherra sagði að nám ætti að skila tekjuauka á starfsævinni og það væri því óeðlilegt að skera þau niður við 67 ára aldur. Þá er mikilvægt að hafa í huga að þeir sem ekki ná að greiða upp námslán sín á starfsævinni ná því ekki vegna þess að þeir hafa ekki haft nægilega háar tekjur og hafa því lægri lífeyristekjur en þeir sem náðu að greiða upp lánin sín. Við viðhöldum þannig tekjumismuninum alla ævi og veltum þar með kostnaði af menntun yfir á tekjulægri ellilífeyrisþega þessa lands.

Það er mikilvægt að hafa í huga að við 67 ára aldur er fólk búið að nýta þá menntun til tekjuöflunar sem það aflaði sér og einhverjir eitthvað seinna, en opinberir starfsmenn eru a.m.k. búnir að því og það eru þá skilaboð til kennara að ráðherra ætli að tryggja þeim það há laun (Forseti hringir.) að þeir nái að greiða upp námslánin sín. Svo er ekki um þá kennara sem hófu nám árið 2000 en ráðherra er væntanlega með breytingu í farvatninu varðandi launakjör þeirra.



[16:11]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, enn á ný og öðrum hv. þingmönnum fyrir umræðuna.

Hvað varðar laun kennara er rétt að halda því til haga að laun framhaldsskólakennara, gangi nú allir samningar eftir, geta hækkað um 30% frá því sem áður var, sem ég tel að sé auðvitað skref í rétta átt. Við hljótum að geta verið sammála um það, ég og hv. þingmaður.

Hvað varðar afstöðu mína til þess frumvarps sem lá hér frammi hjá síðustu ríkisstjórn og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir innti mig aftur eftir, sem hv. þingmaður sagði að hefði verið vel undirbyggt, þá vísa ég aftur til þess að það var mat núverandi 4. þm. Norðaust., hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, að það frumvarp væri ekkert sérstaklega vel undirbyggt vegna þess að það vantaði upp á kostnaðarmatið á það. Fyrir lá mat fjármálaráðuneytisins um að töluvert meiri kostnaður mundi falla til en menntamálaráðuneytið taldi að yrði þannig að það vantaði upp á undirbúninginn hvað það mál varðaði. Ýmislegt þar var ágætt og alveg hægt að nota margt úr þeirri vinnu.

Síðan vil ég nefna, virðulegi forseti, að það er áhugavert að hugsa til þess að nú eru 67 námsmenn eldri en 50 ára enn í námi og nema námslán og skuldir þeirra um 729 milljónum. (Gripið fram í: Hefurðu ekki heyrt talað um …?) Það þýðir að þessir námsmenn munu ekki ná að klára að greiða þessar skuldir niður. Þetta kallar auðvitað á að við þurfum að endurhugsa þetta.

Ég vil nefna t.d. Norðmenn hérna rétt í lokin. Þar er gert ráð fyrir því í grófum dráttum að við námslok breytist 40% af lánsfjárhæðinni í styrk en hitt sé síðan greitt upp fyrir 67 ára aldur. Það getur þýtt að afborgun vegna námslánanna verði mjög þung.

Höfum þetta í huga, virðulegi forseti, þegar við ræðum hér um lánasjóðinn. Meðallengd greiðslutímans er að aukast, aldur lánþeganna er að hækka og upphæðirnar eru að hækka. (Forseti hringir.) Þetta þarf allt að hafa í huga þegar við ræðum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.