144. löggjafarþing — 14. fundur
 6. október 2014.
gagnasafn RÚV.
fsp. BirgJ, 60. mál. — Þskj. 60.

[16:13]
Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Fyrir nokkrum árum náðist að bjarga fyrsta viðtalinu sem tekið var upp hjá útvarpinu árið 1935. Þetta var viðtal við Jóhannes Kjarval sem var varðveitt á lakkplötum. Lakkið á þeim var farið að brotna þegar þessari gersemi var bjargað.

Í frétt RÚV um málið frá 20. ágúst segir m.a. um gagnasafn RÚV, með leyfi forseta:

„Í geymslum Ríkisútvarpsins eru að minnsta kosti 10 þúsund lakkplötur, 30 þúsund segulbandsspólur, 10 þúsund geisladiskar og þúsundir myndbanda þar sem eru leikrit, viðtöl, tónlist, fréttir og margt fleira. Elstu myndböndin eru frá 1966 þegar sjónvarpið tók til starfa. Hluti af þessu safni liggur undir skemmdum.“

Forseti. Hér er um menningarverðmæti þjóðarinnar að ræða. Rétt eins og Þjóðminjasafnið og önnur söfn geyma muni og mikilvægar prentaðar heimildir geymir RÚV raddir sögu okkar og því má alls ekki fresta því að tryggja varðveislu gagnasafnsins í heild. Eins og starfsmaður RÚV segir í fréttinni, með leyfi forseta:

„Mikið af þessu efni er eitthvað sem komandi kynslóðir eiga eftir að meta allt öðruvísi heldur en okkar kynslóð. Og við höfum ekki leyfi til þess að láta þetta einhvern veginn bara danka og láta sem það sé allt í lagi. Nei, við megum það ekki.“

Svo er annað í þessu sem er mikilvægt að huga að. Allt þetta efni er meira og minna lokað inni án þess að nokkur hafi í raun og veru aðgang að því. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hvernig er varðveislu hljóð- og myndefnis RÚV nákvæmlega háttað?

2. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við því að hljóð- og myndbandasafn RÚV liggi undir skemmdum?

3. Telur ráðherra að hljóð- og myndefni RÚV eigi að vera aðgengilegt almenningi? Ef svo er, með hvaða hætti telur ráðherra að aðgengið eigi að vera?

Áður en ég hleypi ráðherra að til að svara vil ég ítreka að frá mínum bæjardyrum séð kemur þetta mál fjárhagsstöðu RÚV eða hlutverki þeirrar stofnunar ekki neitt við. Þetta er sérstakt verkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í án tafar og það er vel hægt að leggja fé sérstaklega til þess, óháð því hvað okkur finnst að öðru leyti um Ríkisútvarpið, hlutverk þess og fjárhagsstöðu.



[16:16]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil að sjálfsögðu þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hér er hreyft við mikilvægu máli. Ég tek undir með hv. þingmanni að hér er ekki til umræðu eða á að hafa áhrif á afstöðu hv. þingmanna mismunandi skoðanir á hlutverki Ríkisútvarpsins, fjármögnun þess eða annað sem að þessari stofnun snýr. Hér er um að ræða menningararf okkar, sögu og aðgengi að honum. En ég vil þá vinda mér í að svara þeim tölusettu spurningum sem hv. þingmaður hefur beint til mín.

Fyrsti liður snýr að því hvernig varðveislu hljóð- og myndefnis Ríkisútvarpsins er háttað. Þá er til að taka að hjá Ríkisútvarpinu var nýlega tekinn í notkun nýr safnagrunnur fyrir útvarps- og sjónvarpsefni sem ber heitið Kistan. Í gegnum Kistuna er hægt að hlusta og horfa á hljóð- og myndefni sem er geymt á stafrænu formi. Gagnagrunnur Kistunnar er rekinn í Efstaleiti og eldra safnefni er enn þá varðveitt á lakkplötum, segulböndum og myndböndum í Efstaleiti en einnig hjá Kvikmyndasafni Íslands.

Safnadeild Ríkisútvarpsins hefur umsjón með stafrænni yfirfærslu eldra efnis á hliðrænu formi. Vinna hefur staðið yfir við að koma upplýsingum um eldra efni af spjaldskrám yfir í gagnagrunna Kistunnar þannig að upplýsingar um allt safnefnið verði aðgengilegar á einum stað. Ríkisútvarpið hefur unnið að áætlun um yfirfærslu á eldra safnefni úr svonefndri Gullkistu yfir í Kistuna þar sem metinn hefur verið kostnaður við fjárfestingu í búnaði, vinnu við stafræna yfirfærslu, réttindagreiðslu til höfunda og uppsetningu á nýjum vef til að gera efnið aðgengilegt almenningi.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um hvernig ráðherra hyggist bregðast við fregnum af því að hljóð- og myndbandasafn Ríkisútvarpsins liggi undir skemmdum. Þá vil ég taka fram að unnið er að gerð nýs samnings samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013. Í þeim samningi verður nánar fjallað um stafræna yfirfærslu á áður útsendu efni úr Gullkistunni og með hvaða hætti efnið verður gert aðgengilegt almenningi.

Ég vil vekja athygli þingheims á því sem fram kemur í skýringum með frumvarpi til fjárlaga 2015 en þar segir að fjármögnun Ríkisútvarpsins sé nú til skoðunar hjá stjórnvöldum samhliða því að unnið er að gerð nýs samnings um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Það þarf þá að huga að þessum þáttum við þá vinnu.

Í þriðja lagi er þeirri spurningu beint til mín af hálfu hv. þingmanns hvort ráðherra telji að hljóð- og myndbandaefni Ríkisútvarpsins eigi að vera aðgengilegt almenningi og ef svo sé, með hvaða hætti ráðherrann telji að aðgengið eigi að gera. Eins og fram kom í svari mínu við annarri spurningunni er gert ráð fyrir að fjallað verði um þessi mál í nýjum samningi við Ríkisútvarpið um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Þá má nefna að ráðuneytið er með í smíðum frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum sem er á þingmálaskrá yfirstandandi löggjafarþings. Í frumvarpinu verður að finna mikilvægt ákvæði sem tengist Gullkistunni en tilgangur ákvæðisins er að auðvelda útvarpsstöðvum uppgjör við rétthafa þegar veittur er aðgangur að áður útsendu efni í safni þess, t.d. eftir pöntunum, með því að það er gert aðgengilegt á netinu eða þegar um endurútsendingu er að ræða.



[16:20]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna viðleitni hæstv. ráðherra en langaði að nefna við þessa umræðu að það er ákveðinn kostur við það að gefa efnið út þannig að það sé aðgengilegt almenningi á netinu. Kosturinn er sá að þá getur almenningur tekið þátt í því að varðveita efnið á sambærilegan hátt og Íslendingasögurnar voru varðveittar mjög lengi, Kóraninn, helgirit múslima, og fleiri menningarleg rit.

Einnig langar mig að nefna það að þó að efni sé nú þegar til staðar á netinu, efni sem framleitt er af Ríkisútvarpinu, svo sem fréttir og fréttaskýringaþættir, er það ekki aðgengilegt að eilífu á netinu. Þeir þættir renna út ef svo mætti að orði komast. Mér þótti þetta mjög undarlegt fyrirkomulag. Ég rakst á það nýlega þegar ég var að rannsaka mál og þurfti að fara tvö ár aftur í tímann að það var ekki hægt. Ég hefði þurft að mæta niður í Ríkisútvarpið og skoða þetta þar án endurgjalds. Ég fagna því að það eigi að skoða þetta og hvet menn eindregið til að gera það að meginreglu að þetta sé birt, að það sé opinber aðili sem ber ábyrgð á varðveislu efnis og einnig sé almenningi gert kleift að varðveita þetta sjálfur.

Svo legg ég að lokum til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.



[16:21]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hreyfir hér afar þörfu máli sem er vissulega hafið yfir allar flokkspólitískar þrætur, og ég þakka henni fyrir það. Einnig finnst mér hæstv. ráðherra taka vasklega til svara hér. Mér hefði þó þótt sem hann hefði að minnsta kosti mátt leyfa okkur að skyggnast inn í hugskot sitt um afstöðu hans gagnvart því hvernig á að heimila almenningi aðgang að þessu efni. En það gleður mig alla vega að vita til þess að hjá Ríkisútvarpinu eru menn til dæmis að draga upp skrá, sem á að vera aðgengileg öllum, um það hvaða efni það er sem er til í Gullkistu Ríkisútvarpsins. Mér virtist af svari hæstv. ráðherra að þetta snerist að verulegu leyti um höfundarétt. En er það ekki rétt munað hjá mér, hæstv. forseti, sem hæstv. ráðherra svarar kannski, að sumt af þessu efni er orðið svo gamalt að það fellur ekki undir höfundarétt? Má ekki koma því strax á netið? Þar eru margar gullperlur.

Og hvað með fréttir Ríkisútvarpsins? Það er enginn höfundaréttur á þeim. Má ekki gera reka að því að koma öllum fréttum, með þeirri tækni sem við höfum yfir að ráða, á netið okkur til aðgengis?



[16:23]
Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég fagna þeim tóni sem mér fannst ég heyra hjá hæstv. ráðherra og ég þakka honum fyrir svörin. Mig langar að spyrja hvar hægt sé að finna þá áætlun sem ráðherra nefndi. Mig langaði að benda ráðherra á að þegar fram fór uppfærsla á fréttavef RÚV fyrir nokkrum árum hurfu allar fréttir af netinu sem voru eldri. Þetta voru meðal annars fréttir frá tímum hrunsins og mjög bagalegt því að þeir sem höfðu verið að sækja sér heimild í þessar fréttir, höfðu jafnvel sett slóðir í þær, sátu uppi með enga heimildaskrá.

Ég spurði þáverandi útvarpsstjóra út í það mál. Hann var ekki meðvitaður um að stór hluti fréttavefs RÚV hefði horfið við þessa uppfærslu en mér sýnist þetta enn þá vera í ólagi. Mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að þessu verði komið í lag. Þarna erum við að tala um samtímaheimildir sem hafa verulega mikið gildi fyrir þjóðina.

Mig langaði að nefna að jafnvel mætti í samningsviðræðum um höfundarétt á gömlu efni — nú veit ég að verið er að vinna í löggjöf sem varðar höfundarétt og fjallar um munaðarlausan höfundarétt — leggja til að vera með svokallað CC á því, við þá sem eiga höfundarétt. Það er mjög mikilvægt að fólk hafi aðgengi að menningarlegum verðmætum. Svo er það að sjálfsögðu rétt að fréttir eru ekki höfundavarðar og mig langar að spyrja hvort ekki sé rétt að beita sér fyrir því að fréttir séu lengur til, og þættir frá Rás 1 til dæmis, en tvær eða fjórar vikur eins og er í dag.



[16:25]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir fyrirspurnina. Þetta er, eins og komið hefur fram, mál sem snýr að því hvernig við varðveitum menningararfinn. Það er svo fjölbreytt efni sem Ríkisútvarpið varðveitir og framleiðir á hverjum degi að nauðsynlegt er að huga vel að þessu.

Hvað varðar fréttirnar get ég svo sem alveg tekið undir það að ég veit ekki hvort tæknilegar eða fjárhagslegar ástæður ráða því að þær eru aðgengilegar þennan ákveðna tíma. Ekki það að maður vilji leggja það á nokkurn mann að horfa á íslenskar fréttir tvisvar eða oftar jafnvel en þó er nauðsynlegt sögunnar vegna að við gætum þess að aðgengi sé sem lengst.

Ég vil líka fullyrða við hv. þingmann að það er ekkert samsæri á bak við það að þessar fréttir hafa horfið. (ÖS: Viðurkenndu það.) Sumir halda því fram að þessar fréttir komi verr út fyrir suma en aðra en ég held að það sé frekar tæknilegt mál sem skýri það.

Hvað varðar höfundaréttarvarið efni þá er það alveg rétt sem hér hefur verið bent á að væntanlega ætti það að vera auðveldara, þ.e. eldra efni sem ekki er varið með höfundaréttarlögum. Þó er rétt að hafa í huga að á teikniborðinu okkar í ráðuneytinu hvað varðar þessi efni er einmitt verið að vinna að frumvarpi um að lengja höfundaréttinn um nokkuð langan tíma, meðal annars vegna þess að listamennirnir lifa orðið miklu lengur en áður. Þeir eru farnir að lifa heilbrigðara lífi og er nauðsynlegt að tryggja að höfundarétturinn hverfi ekki meðan listamennirnir eru á lífi. Það er einn þátturinn sem rétt er að hafa í huga.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að hægt sé að ná góðri samstöðu um þetta mál til að lyfta því grettistaki sem þarf að lyfta. Það er ómögulegt að svona merkilegar menningarminjar eins og þarna er um að ræða, sem ná aftur til þess tíma sem hv. þingmaður nefndi, skemmist svo að við höfum ekki aðgang að þeim í framtíðinni. Það væri alveg hörmuleg niðurstaða.