144. löggjafarþing — 14. fundur
 6. október 2014.
virðisaukaskattur af útleigu rafmagnsbíla.
fsp. ÖS, 49. mál. — Þskj. 49.

[16:44]
Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég leyfi mér að varpa örlítilli og hógværri fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um það hvort hann telji koma til greina að ýta undir orkuskipti með því að afnema eða fella niður virðisaukaskatt tímabundið af útleigu rafbíla. Það vill svo til að ég og Sjálfstæðisflokkurinn erum sammála um sum meginatriði og eitt af því er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Ég veit ég þarf ekki að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra stefnu sem umhverfisnefnd Sjálfstæðisflokksins hefur markað í þeim efnum.

Lengi hefur legið fyrir að orkuskipti í samgöngum skipta langmestu máli í að ná árangri í þeirri viðleitni að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Ég og hæstv. ráðherra urðum því væntanlega báðir himinlifandi þegar við hlustuðum á hæstv. forsætisráðherra fyrir skömmu lýsa því yfir að Ísland ætti og gæti orðið fyrsta landið til þess að skipta algjörlega út notkun á jarðefnaeldsneyti. Það er hægt. Við uppfyllum skilyrðin á öllu öðrum sviðum en samgöngum. Þess vegna eru orkuskipti í samgöngum það sem skiptir mestu máli fyrir okkur Íslendinga. Þetta var ljóst í þann mund sem ég og Sjálfstæðisflokkurinn sátum saman í ríkisstjórn. Ég vakti þá máls á þessu í ríkisstjórn þegar ég kynnti þar stofnun fyrsta hópsins sem varðaði orkuskipti í samgöngum. Sá hópur samanstóð af fulltrúum iðnaðarráðuneytisins, olíufélaganna og þeirra átta sveitarfélaga víðs vegar um landið sem höfðu áhuga á því að koma með virkum hætti að þessu máli. Svo kom hrunið og ýtti málinu út á kaldan klaka.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, sem var iðnaðarráðherra á eftir mér, gerði reka að því að koma málinu af stað með glæsilegum hætti. Undir forustu hennar var birt ný orkustefna sem unnin var af hópi sem komst að þeirri niðurstöðu að rafbílavæðing samgangna skipti verulega miklu máli.

Segja má að markaðurinn hafi eiginlega tekið af skarið um að það eru rafbílarnir sem við munum nota í framtíðinni. Markaðurinn hefur líka gert ýmsa bragarbót sem gerir það að verkum að innviðir eru sterkari en áður. Þannig er t.d. eitt tiltekið fyrirtæki sem ætlar að koma sér upp 200 hleðslustöðvum. Alþjóðleg fyrirtæki hafa fjárfest í nýrri tækni varðandi hleðslur sem draga miklu lengra en áður.

Við erum hins vegar sammála um það, ég og Sjálfstæðisflokkurinn, að það sem mestu skiptir eru efnahagslegir hvatar, alveg eins og Norðmenn hafa beitt. Við höfum sýnt það í verki að við teljum það vegna þess að tvær síðustu ríkisstjórnir hafa fellt tímabundið niður virðisaukaskatt af kaupum á vistvænum bílum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki, að minnsta kosti ætti hann að íhuga það að fara þá leið án þess að ég leggi það beinlínis til núna. Mér þætti vænt um að fá viðhorf hæstv. ráðherra til þess að fella virðisaukaskatt líka niður á eignarleigur, vegna þess að (Forseti hringir.) annað væri mismunun. Það mundi sannarlega ýta undir upptöku slíkra vistvænna bíla.



[16:48]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eins og við vitum er mjög mikið að gerast á alþjóðlega vísu hvað snertir orkuskipti í samgöngum almennt. Ég vil byrja á því að taka það skýrt fram að ég er mjög hlynntur þeirri breytingu sem hefur átt sér stað og við getum haldið áfram að ýta undir á Íslandi, ekki síst umhverfisins vegna en líka í efnahagslegu tilliti. Það kann að vera mjög gjaldeyrissparnaði og orkusparandi reyndar líka að fara þá leið, en það er erfitt að sjá fyrir inn í mjög langa framtíð hvernig þessi mál munu þróast.

Hér er sérstaklega spurt um það hvort til greina komi að fella niður virðisaukaskatt af útleigu rafmagnsbíla gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn leigutíma með svipuðum hætti og heimilt er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt. Ég get eiginlega ekki annað en tekið þessa fyrirspurn inn í aðeins stærra samhengi fyrst áður en ég svara henni beint og efnislega. Það stærra samhengi er sú heildarendurskoðun á virðisaukaskattslögunum sem þegar er hafin og birtist m.a. í frumvörpum fyrir þinginu.

Meginefni þessarar heildarendurskoðunar er að einfalda og gera virðisaukaskattskerfið skilvirkara. Eins og áður hefur komið fram tel ég að slík heildarendurskoðun sé mjög tímabær, enda virðisaukaskattskerfið stærsta einstaka tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og hefur það ekki sætt heildarendurskoðun síðan á tíu ára afmæli sínu árið 1990.

Undanfarin ár hefur það færst í vöxt að lögfesta ýmsar heimildir til sérstakra endurgreiðslna eða niðurfellinga á virðisaukaskatti. Þar er um að ræða ýmis ólík svið og orkuskipti í samgöngum er eitt þeirra sviða.

Mér finnst það vera mjög til umhugsunar fyrir okkur hér á Alþingi hvort þessi leið, leið undanþágna, sé heillavænleg þróun. Ég er almennt þeirrar skoðunar að ekki sé æskilegt að nota virðisaukaskattskerfið sem eins konar smástyrkjasjóð. Það væri nærtækara að stuðningur eins og sá sem með slíku birtist færi fram á fjárlögum á viðeigandi fjárlagalið. Einnig að framkvæmdin á veitingu ívilnunar væri í höndum þess opinbera aðila sem færi með viðkomandi málaflokk, þar lægi jafnframt sérþekkingin.

Sérstakar endurgreiðsluheimildir þurfa almennt að vera vel afmarkaðar og það þarf að vera skýrt hver á rétt á endurgreiðslunni og hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt. Endurgreiðslur eru almennt fremur mannaflsfrekar og þegar á heildina er litið tel ég heppilegra að starfsfólk skatt- og tollakerfisins sinni hefðbundinni framkvæmd þar sem verkefnin eru næg fyrir.

Hvað þetta ákveðna tilvik varðar er óhjákvæmilegt að minnast á að það er eðlismunur á þeirri hugmynd sem fram kemur í fyrirspurninni annars vegar og hins vegar ákvæði XXIV til bráðabirgða, en það ákvæði tekur til innflutnings og sölu á ákveðnum tegundum af vörum, þ.e. rafmagnsbifreiðum, vetnisbifreiðum og tengiltvinnbifreiðum.

Útleigan flokkast hins vegar sem sala á þjónustu, ekki sala á vöru. Endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu eru sjaldgæfari en sérstakar endurgreiðslur eða niðurfelling virðisaukaskatts vegna kaupa á tilteknum vörum. Almennt er talið enn þá vandmeðfarnara að sinna slíkum endurgreiðslum en þeim sem eru vegna sölu á vörum sem flestar eru fluttar inn og afgreiðast af tollyfirvöldum.

Af öllu þessu sögðu má kannski ráða að ég er þeirrar (Gripið fram í.) skoðunar að ekki sé heppilegt að stuðla að orkuskiptum í samgöngum með þeirri aðferð sem lýst er í fyrirspurninni og gengur út á að fella niður virðisaukaskatt af útleigu rafmagnsbíla. En þar sem við ætlum áfram að vinna að heildarendurskoðun virðisaukaskattskerfisins finnst mér eðlilegt að gildistími ákvæðis til bráðabirgða XXIV verði framlengdur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur um þessar endurgreiðslur eru þær talsvert notaðar og það sem af er ári 2014 hafa þegar verið felldar niður tæplega 140 millj. kr. í formi virðisaukaskatts vegna þeirra bifreiða sem falla undir ákvæðið.



[16:53]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara að benda á eitt, svona lítinn bónus við orkuskipti, að notkun sérstaklega rafmagnsbíla er ódýrari, hvort sem um kaup eða leigu er að ræða, og ferðamenn nýta sér mjög mikið bílaleigubíla. Það væri gott umtal um Ísland ef ferðamenn almennt segðu þá sögu að þeir hefðu ferðast um þetta fallega land þar sem náttúran væri virt og að þeir hefðu meira að segja fundið rafmagnsbíl sem væri ódýrari en bensínbíll. Það væri mjög góð saga. Ég held að við gætum stært okkur af slíku orðspori. Mig langar bara að koma því í umræðuna hérna fyrst maður hefur nánast engan tíma til að tala.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.



[16:54]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég gat ekki betur heyrt í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hér áðan en að það hefði orðið góð þróun í þessu í dag. Ég spurði einmitt út í sama fyrirbæri á fundi með ráðherra í morgun í efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. hvort ekki væri hugsanlegt að framlengja heimild í bráðabirgðaákvæði XXIV um að fella áfram niður virðisaukaskatt af kaupum á rafbílum. Nú heyrist mér ráðherra telja að svo væri, en hann lýsti sig (ÖS: Hann fer stundum eftir þér.) vel að merkja jákvæðan í morgun í að skoða það mál.

Ég verð líka að segja, þrátt fyrir alveg prýðilega kerfisræðu hæstv. fjármálaráðherra hér áðan um undanþágur og ekki undanþágur í virðisaukaskatti, að við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að þetta hefur gengið hægt hjá okkur. Orkuskipti hafa gengið hægt þó að þau séu aðeins komin af stað á nokkrum formum. Einu sinni trúðu menn á vetni, síðan á metan og nú er margt sem bendir til þess, sem kæmi auðvitað Íslandi langbest, að tæknin verði á sviði rafmagnsbíla. Þá er alveg borðleggjandi hagstætt fyrir Ísland að hlúa að slíkri þróun. Ég held að það (Forseti hringir.) sem þurfi að gera sé að framlengja ekki ákvæðið bara eitt ár í senn, svo ágætt sem það er og auðvitað (Forseti hringir.) hefðu ýmsir mátt hafa það í huga, heldur lögfesta tiltekinn ramma einhver ár fram í tímann. Það þarf að fá niðurstöðu í þetta mál (Forseti hringir.) strax þannig að einhver spekúlasjón í aðdraganda áramóta fari ekki í gang.



[16:55]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þá þörfu ábendingu að leiga á rafbílum eigi að njóta sömu kjara og kaup á þeim og harma um leið þá afstöðu sem hæstv. fjármálaráðherra lýsti hér. Virðisaukaskattskerfið á að vera skilvirkt, segir hæstv. ráðherra. — Já, en að veita tímabundna undanþágu getur verið býsna skilvirkt.

Ég man ekki betur en að ég, sem formaður efnahags- og skattanefndar og síðar efnahags- og viðskiptanefndar, hafi ítrekað í góðri samvinnu við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hæstv. ráðherra sennilega líka sett undanþágur um umhverfisvæna bíla og framlengt þær ítrekað og að alveg sömu rök eigi við um þessa leigu og hefur átt við um aðrar þær undanþágur sem við höfum veitt.

Hugmyndafræðilega kemur mér það á óvart að formaður Sjálfstæðisflokksins telji að það eigi fremur að leggja á þess hærri skatta en senda menn í styrkjabeiðni í einstök fagráðuneyti til að geta borgað skattana. Ég hélt að áherslur Sjálfstæðisflokksins væru að skapa almenn skilyrði (Forseti hringir.) fyrir þróun en ekki að menn þyrftu að sækja styrki til fagráðuneyta í eðlilegri þróun eins og þessari.



[16:57]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Virðisaukaskattur á útleigu á rafmagnsbílum — hæstv. ráðherra segir að hann vilji sem fæstar undanþágur þegar kemur að virðisaukaskattskerfinu sökum þess að slíkar undanþágur minnki skilvirkni í kerfinu. Þá skil ég samt sem áður ekki hvers vegna það á að halda áfram með bráðabirgðaundanþágur. Ég sé ekki alveg muninn á því að það sé í lagi að hafa undanþágur á virðisaukaskatti þegar kemur að kaupum á rafbílum en ekki þegar kemur að leigu. Ég sé ekki hver málefnalegi munurinn er.

Svo er annað. Þegar kemur að rafmagnsbílum og sköttum munum við klárlega þurfa að taka um það stærri umræðu á næstunni. Batterísþróun er orðin svo gríðarlega hröð. Í ársfjórðungslegri tækniskýrslu The Economist fyrir tveimur árum minnir mig að hafi komið fram að það séu komin batterí sem hægt sé að fullhlaða á tíu mínútum. Þetta er bara það sem við munum sjá, þau munu taka meira, þau munu drífa lengra og menn verða fljótari að hlaða þau. Þannig mun allt skattkerfið, sem er núna uppsett (Forseti hringir.) til þess að fjármagna vegakerfið, þurfa að horfa til þess þegar rafbílavæðingin fer á fullt hvernig við ætlum að fjármagna það. Það (Forseti hringir.) verður því áhugavert að fylgjast með skattkerfinu í stærra samhengi hvað þetta varðar.



[16:58]
Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ævinlega er hæstv. fjármálaráðherra langbestur þegar hann talar beint frá hjartanu. Mér fannst fyrri partur ræðu hans vera prýðilegur og felldi mig við mjög margt þar. Mér fannst aftur á móti ræðan versna allmjög þegar hann fór að lesa upp þann þurra texta sem kontóristar í kansellíinu höfðu greinilega skrifað fyrir hann. En það er ýmislegt sem við gætum orðið sammála um.

Ég er í fyrsta lagi sammála því að skoða á virðisaukaskattinn, breikka stofninn og fækka undanþágum. Við höfum eitt stórt ágreiningsmál þar. En um þetta sagði hæstv. ráðherra að rétt væri við endurskoðun kerfisins að koma svona hlutum fyrir. Ég skil viðkvæmt sálarlíf fjármálaráðherra sem þarf að láta bækurnar og sjóðina stemma. Auðvitað hugsar hæstv. fjármálaráðherra kannski til framtíðarinnar, þegar bílum af þessu tagi fjölgar þá falla tekjur ríkisins. Ég tel að farsælt væri fyrir hæstv. ráðherra að koma upp kerfi sem væri þannig að undanþágna mundu njóta bílar upp í tiltekinn fjölda, t.d. fjögur eða fimm þúsund bílar, og þá gilti einu hvort um væri að ræða eignarleigu eða hefðbundin kaup. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að skoða þetta þegar hann kemur með sitt endurskoðaða kerfi. Þá gæti vel verið að það mundi falla í betri jarðveg en sumt af því sem hann hefur verið að boða varðandi það hingað til.

Í þessu tilviki er það þannig að flokkur hæstv. ráðherra, ríkisstjórnin öll, og ég held allir þingflokkar vilja mjög sterklega reyna að ná fram aðgerðum sem draga úr losun. Orkuskipti í samgöngum skipta mestu máli. Markaðurinn er í reynd búinn að velja rafbílana. Við sjáum það til dæmis í Noregi að þar hafa menn náð góðum árangri. Þeir hafa farið leiðir sem við höfum tekið upp eins og til dæmis með það að fella niður virðisaukaskatt á ýmis gjöld við kaup bíla. Og ýmislegt annað líka. Gjaldfrjálst í bílferjur og menn þurfi ekki að greiða vegtolla. Það eru því ýmsar leiðir sem hægt er að fara.

Ég hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til að vera trúr eðli sínu og ekki vera með neina fordóma gagnvart hinum fyrir fram ákveðnu leiðum.



[17:01]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta hefur verið fín umræða. Mig langar að láta þess getið undir lok hennar að það vandamál er enn óleyst að rafmagnsbílarnir eru allt of dýrir. Það er ekki nema vegna þess að við veitum þeim verulegar ívilnanir við innflutning til landsins sem þeir eru raunhæfur valkostur. (Gripið fram í.) Þar höfum við gengið svo langt í þeim efnum að það sem í mörgum öðrum löndum þykja algerar lúxusbifreiðar eru bara nokkuð hagstæður valkostur í bílaflotanum á Íslandi, þ.e. þessir hraðskreiðu, flottu, sportlegu rafmagnsbílar eru samkeppnishæfir hér við bíla á Íslandi sem þeir eru ekki samkeppnishæfir (Gripið fram í: Af hverju …?) við í mörgum öðrum löndum.

Ef það væri svo að við værum almennt bara með rafmagnsbíla á Íslandi ættum við ekki að eiga umræðuna hér á þessum nótum vegna þess að við værum að tala um þá hluti sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson kom inn á, sem er hvaða gjaldakerfi við eigum að vera með vegna innflutnings á bifreiðum af þessum toga. Þar get ég tekið undir með hv. þingmanni að ég tel að við munum innan skamms standa frammi fyrir allt, allt öðrum veruleika.

Hér hefur lítið verið rætt um orkuskipti í öðrum þáttum en þessum almennu samgönguþáttum. Við vitum að verulegur hluti losunar á Íslandi er frá sjávarútveginum og skipaflotanum. Skipaflotinn á Íslandi er ábyrgur fyrir mjög stórum hluta þeirrar losunar sem við erum að berjast gegn. Endurfjárfesting eða nýsmíði skipa í þeim flota skilar mun minni losun, sparneytnari vélum og í alla staði hagkvæmari skipum. Það er því mikilvægt að við búum sjávarútveginum hagstæð skilyrði til að fjárfesting haldi áfram (Gripið fram í.) fyrir þau sömu markmið og hér hafa verið til umræðu. (Forseti hringir.)