144. löggjafarþing — 14. fundur
 6. október 2014.
uppbygging á Kirkjubæjarklaustri.
fsp. SJS, 46. mál. — Þskj. 46.

[17:03]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrrispurn fyrir hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra varðandi uppbyggingu á Kirkjubæjarklaustri. Þar er ég að vísa til þeirra áforma sem voru í mótun, aðallega fyrir tveimur, þremur árum síðan, og miklar vonir voru bundnar og eru eftir atvikum bundnar við af hálfu heimamanna. Það byggir á þeim ágæta grunni sem er starfsemi Kirkjubæjarstofu sem hófst skömmu fyrir aldamót og margir aðilar hafa lagt þar hönd á plóg með heimamönnum, svo sem eins og Háskóli Íslands og stofnanir hans, Landgræðslan, Náttúrufræðistofnun, Náttúrustofa Suðurlands, Náttúruvernd ríkisins, Orkustofnun, Norræna eldfjallastöðin, Landsvirkjun, Byggðastofnun, umhverfisráðuneyti, Veðurstofa, Ferðamálaráð, Þjóðminjasafn Íslands og fleiri.

Þar við bætist að á Kirkjubæjarklaustri er meiningin að verði ein af gestastofum Vatnajökulsþjóðgarðs og undirbúningur hefur staðið undir það að bæta þar úr aðstöðu, þannig að sú starfsemi sömuleiðis þarf að komast í viðeigandi og gott húsnæði. Enn fremur hafa hugmyndirnar tengst miðstöð fyrir verk listamannsins Erró. Svo var komið fyrir rúmum tveimur árum síðan að menn töldu sig geta hafist handa um myndarlega byggingu og í sóknaráætlun eða fjárfestingaráætlun þáverandi ríkisstjórnar voru ætlaðir umtalsverðir fjármunir í að hefjast handa, eða hátt í 300 milljónir ef ég man rétt. Það er skemmst frá því að segja að þessar fjárveitingar voru slegnar af af hálfu núverandi ríkisstjórnar og málið hefur verið í nokkurri óvissu síðan, verð ég að leyfa mér að segja.

Ég held að það verði að fara að fást botn í þetta mál. Mér er engin launung á því að helst vildi ég að menn héldu sig við þessar myndarlegu áætlanir. Það vill svo til að í hlut á svæði og byggðarlag sem er ekki ofhaldið af opinberri fjárfestingu og störfum, sem hefur átt í varnarbaráttu í byggðarlegu tilliti. Þar er ekki nám á framhaldsskólastigi, hvað þá háskólastigi í heimabyggð og fá opinber störf á þekkingar-, vísinda- og rannsóknarsviðinu. Þannig að áformin um þessa uppbyggingu og öfluga þekkingarmiðstöð þar sem þetta væri allt sameinað voru mjög álitleg í öllu tilliti og þess vegna mikil eftirsjá í því ef stjórnvöld eru að heykjast á því að standa við bakið á þessu að sínu leyti. Ég vona því að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra geti gefið okkur einhver svör.

Annars vegar er spurt um uppbyggingu gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs sérstaklega, hvort einhver plön séu um það hvernig leyst verði úr því máli. Hins vegar hver sé afstaða ráðherra og núverandi ríkisstjórnar varðandi þátttöku ríkisins í uppbyggingu þessa seturs sem slíks, samanber þau áform þar um sem ég hef hér farið yfir.



[17:06]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Vatnajökulsþjóðgarður vinnur skipulega að uppbyggingu gestastofa til samræmis við ákvæði laganna sem voru sett um þjóðgarðinn, nr. 60/2007. Þar er fjallað um á hvaða stöðum meginstarfsstöðvar hans skuli byggðar. Þar hefur verið næst á dagskrá að byggja upp á Kirkjubæjarklaustri, eins og hv. þingmaður kom inn á.

Þetta er mikilvægur þáttur í starfsemi og uppbyggingu þjóðgarðsins, ekki síst nú þegar sívaxandi ferðaþjónusta kallar á margföldun á öllum innviðum. Einnig er það eitt af markmiðum þjóðgarðsins að stuðla að atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun á nærsvæðum hans. Skaftárhreppur er, eins og hv. þingmaður kom inn á, sveitarfélag sem stendur um margt höllum fæti, sérstaklega sakir fólksfækkunar. Skaftárhreppur er auk þess á svokölluðu köldu svæði þar sem ekki hefur fundist heitt vatn sem nýta má til húshitunar. Fyrr á þessu ári var veittur styrkur til Skaftárhrepps til kaupa á varmadælu til að hita upp skóla, íþróttahús og sundlaug sveitarfélagsins. Styrkurinn var veittur í samræmi við markmið um endurnýjanlega orku og orkunýtni í skýrslu Alþingis um græna hagkerfið. Það var eins konar frumkvöðlastyrkur.

Efla þarf innviði samfélagsins í Skaftárhreppi, svo sem með öflugu gagnaneti og aukinni áherslu á eflingu atvinnulífs, til að mynda með nýsköpun. Leiða þarf fram skoðanir heimamanna á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum. Því skiptir miklu að renna frekari stoðum undir samfélagið í þessu landstóra en fámenna sveitarfélagi. Þar skiptir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs afar miklu og er uppbygging þjóðgarðsins á Kirkjubæjarklaustri mikilvægt innlegg í þá umræðu, jafnframt því að vera afar mikilvæg fyrir starfsemi þjóðgarðsins.

Eins og fram kom hjá hv. þingmanni lágu fyrir tveimur árum fyrir hugmyndir um stórt og dýrt mannvirki upp á um það bil 900 milljónir kr. sem átti að hýsa ýmiss konar starfsemi. Ekki hafði verið hugsað nægjanlega fyrir fjármögnun þess mannvirkis og var því ákveðið að taka þær hugmyndir til frekari skoðunar. Við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var gert ráð fyrir að komið yrði upp upplýsinga- og þjónustumiðstöð þjóðgarðsins og var Þekkingarsetri á Kirkjubæjarklaustri ætlað að sameina undir einu þaki gestastofur þjóðgarðsins og ýmiss konar skrifstofur. Gestastofur gegna mikilvægu hlutverki fyrir gesti þjóðgarðsins og veita ferðamönnum ýmsar gagnlegar upplýsingar. Hins vegar finnst mér skipta máli að við stöldrum við og hugleiðum hvernig best sé að takast á við þetta verkefni. Við þurfum að spyrja okkur meðal annars hvort upphæð af þessari stærðargráðu, 900 milljónum, sé best varið til byggingar á svona húsi sem hefur það hlutverk að miðla upplýsingum til ferðamanna og efla innviði friðlýstra svæða. Þar er líka mikilvægt að draga fram reynslu þjóðgarðsins af fyrri uppbyggingarverkefnum, svo sem á Skriðuklaustri, í Ásbyrgi og á Höfn í Hornafirði.

Til að fá betri yfirsýn yfir þetta verkefni til að treysta ákvörðunartöku um áframhaldið skipaði ég í byrjun september starfshóp okkur í ráðuneytinu til ráðgjafar um þetta mikilvæga verkefni. Í erindisbréfi hópsins segir eftirfarandi:

Skaftárhreppur er annað landstærsta sveitarfélag landsins en fjárhagsleg staða þess er veik. Leita þarf leiða til að styrkja og jafnframt skapa nýja atvinnu í sveitarfélaginu, en miklir möguleikar eru í ferðaþjónustu og landbúnaði sem eru meginatvinnugreinar sveitarfélagsins.

Umfang Vatnajökulsþjóðgarðs hefur vaxið ört með fjölgun ferðamanna á svæðinu sem styrkir jafnframt aðra ferðaþjónustuaðila. Mikilvægt er að uppbygging þjóðgarðsins haldist í hendur við hið aukna umfang og sé unnin í samvinnu við sveitarstjórn og einkaaðila í héraði.

Í ljósi þess hefur umhverfis- og auðlindaráðherra ákveðið að skipa starfshóp til að koma með tillögur að uppbyggingu til að efla atvinnusköpun í Skaftárhreppi til lengri tíma. Tillögurnar þurfa að falla að starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs, hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun og miðast við að fjölga heilsársstörfum.

Starfshópur um verkefnið skal skila skýrslu með niðurstöðum og tillögum eigi síðar en 14. nóvember 2014.

Í starfshópnum sitja Silja Dögg Gunnarsdóttir alþingismaður, sem er formaður, Vilhjálmur Árnason alþingismaður, Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, Eva Björk Harðardóttir, oddviti sveitarstjórnar Skaftárhrepps, og Hjalti Þór Vignisson, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Bind ég vonir við að tillögur starfshópsins skapi betri forsendur til að ræða betur næstu skref við uppbyggingu á Kirkjubæjarklaustri í þágu Vatnajökulsþjóðgarðs sem jafnframt leiði til eflingar samfélagsins alls í Skaftárhreppi. Hópurinn á að skila af sér innan skamms tíma og því ekki langt að bíða að hægt verði að taka tillögur hans til umfjöllunar.

Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að fyrir þetta svæði er það mjög mikilvægt.



[17:11]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þegar þetta verk var hafið með framlagi úr ríkissjóði í hið fyrsta sinn áttum við sem þá vorum í ríkisstjórn mikinn stuðning hjá núverandi ráðherra og ekki bara stuðning heldur hvatningu og þótti ráðherranum sem þá var þingmaður ekki nóg að gert. Ég verð að segja það að mér finnst raunalegt til þess að vita að hér er um að ræða enn einn starfshópinn sem hæstv. ráðherra kynnir til sögunnar, til þess að leiða fram skoðanir heimamanna eins og hann orðar það, þegar við eigum forgangsröðun landshlutans sjálfs í niðurstöðu sóknaráætlunar landshlutanna. Mér þykir raunalegt að hæstv. ráðherra skuli ekki vera reiðubúinn til þess að byggja á þeirri vinnu þegar um er að ræða sveitarfélag eins og þarna er sem er í gríðarlega mikilli varnarbaráttu. Það að starfshópurinn skuli aukin heldur bara vera skipaður fulltrúum stjórnarflokkanna finnst mér sýna hvaða (Forseti hringir.) nálgun hæstv. ráðherra vill viðhafa í þessu mikilvæga byggðamáli þar sem við ættum öll að sameinast um að hjálpa til (Forseti hringir.) við málið í stað þess að skipa okkur í pólitískar fylkingar.



[17:12]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að vekja máls á þessu. Það er kannski svolítið vandræðalegt fyrir þingmann úr þessu kjördæmi að hafa ekki gert það frekar sjálfur.

Nú er þriðju kjördæmaviku minni sem þingmanns nýlokið. Ég hef alltaf farið í Skaftárhrepp og þar er þetta mál alltaf fremst á dagskrá hjá sveitarstjórnarmönnum og fólki þar. Þessu máli þarf að kippa í liðinn og það strax. Fram hefur komið að gríðarlega mikil vinna liggur að baki þessu þekkingarsetri hjá heimamönnum. Það kom út skýrsla frá Byggðastofnun 2012 þar sem stendur að það þurfi að taka ákvörðun um svona byggðarlög, hvort þau eigi að lifa eða ekki. Ef þau eiga að lifa þurfum við að hjálpa þeim. Þetta er einn liður í því ásamt fjarskiptum og ljósleiðaravæðingu, þetta er lykilatriði fyrir sveitarfélag eins og Skaftárhrepp ef það á hreinlega að lifa. Það kom skýrt fram hjá sveitarstjórnarfólkinu núna að þannig er það.

Ég bind vonir við þennan starfshóp og vona að hann skili góðu verki.



[17:13]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu, en það var bara ekki mjög langt. Veruleikinn er sá að það er eitt og hálft ár liðið frá stjórnarskiptum og núverandi ríkisstjórn verður að horfast í augu við það að hún ber ábyrgð á að hverfa frá þeirri stefnu sem hafði verið mótuð og var að því komið að hrinda í framkvæmd, þ.e. verulega myndarlegri uppbyggingu þar sem menn reyndu að sameina kraftana á þessu veika svæði og byggja á styrkleikum þess; nálægðinni við Vatnajökulsþjóðgarð, möguleikum í ferðaþjónustu og að nýta náttúru svæðisins og sérstöðu í þágu vísindarannsókna sem og listamenn úr röðum heimamanna eða ættaðir þaðan o.s.frv. Það veitir ekki af að sameina kraftana. Það var það góða við þessar hugmyndir.

Jú, það er auðvitað alltaf ágætt að setja nefnd í mál, en þegar nefnd tekur til starfa einu og hálfu ári eftir stjórnarskipti þegar viðfangsefnið liggur tiltölulega skýrt fyrir þá þarf að taka afstöðu til þessa: Ætla menn að fylgja þeirri stefnu sem hefur verið mótuð, unnin af heimamönnum og að frumkvæði þeirra að miklu leyti, allt frá því Kirkjubæjarstofa er stofnuð 1997 af miklum dugnaði heimamanna í samstarfi við ýmsa góða aðila? Þá þarf þess að sjá stað t.d. í fjárlögum.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra: Er þess að vænta að þetta nefndarstarf gangi svo rösklega fyrir sig að við höfum um miðjan nóvember í síðasta lagi vísbendingu um það eða niðurstöður þannig að hægt verði að taka þær til greina í sambandi við afgreiðslu fjárlaga?

Hvert ár sem fer í frekari skoðun á þessu máli er mjög dýrt. Það verður maður áþreifanlega var við þegar maður heimsækir Kirkjubæjarklaustur og heyrir hljóðið í heimamönnum.

Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra geti gefið okkur eitthvað undir fótinn með það að við séum ekki búin að sjá hið síðasta orð í núverandi fjárlagafrumvarpi eins og það lítur út með engar fjárveitingar ætlaðar í þetta.



[17:16]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Við þurfum að gera okkur ljóst strax í upphafi, ég er nú ekki sammála kollega mínum, hv. þm. Páli Val Björnssyni, að fyrst og fremst í forgangsröðun heimamanna hafi verið það að fá 900 milljóna hús. Ef maður spyr heimamenn að ef þeir fengju tæpan milljarð hvað þeir mundu gera við peninginn segðu langflestir að þeir vildu fá ljósleiðara heim til sín, sem kostar 300–400 milljónir í þessu samfélagi, og þriggja fasa rafmagn. Það mundi efla atvinnusköpun í því samfélagi langtum meira en nokkur önnur einstök aðgerð.

Það breytir því ekki að við erum ekki að hverfa frá uppbyggingaráformum og þá í stíl við það sem áður hafði verið unnið. Nefndinni sem er sett á laggirnar núna með heimamönnum og Vatnajökulsþjóðgarði er einmitt ætlað það verkefni að vinna hratt og vel svo mögulega megi koma fyrir tillögum í fjárlagagerðina núna í haust ef menn komast hratt og vel að skynsamlegri niðurstöðu.

Ég verð að segja alveg eins og er að þær hugmyndir sem fóru af stað með gestastofum í anda þess sem byggt var á Skriðuklaustri, eins glæsilegt og það er, sem fer 25, 30, jafnvel 40% fram úr áætlun og kostar tæpar 700 milljónir, að halda áfram á þeirri braut að eyða fjármunum af þeirri stærðargráðu úr ríkissjóði í gestastofur held ég að sé hreinlega illa farið með opinbert fé.

Ég vil nefna að sú leið sem var farin með gestastofuna á Hornafirði, undir Vatnajökulsþjóðgarði, að þar er Vatnajökulsþjóðgarður að leigja fyrir sirka 4 milljónir á ári, ef ég man rétt, hús sem var endurgert og rúmar miklu betur þá starfsemi sem þarna er.

Ef við fyndum einhverja sambærilega hugmynd og leið á Kirkjubæjarklaustri en gætum á sama tíma komið (Forseti hringir.) til stuðnings heimamönnum á þeim sviðum sem þeir þurfa helst að fá stuðning frá ríkinu held ég að við séum á mjög góðri leið.