144. löggjafarþing — 14. fundur
 6. október 2014.
skipan í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
fsp. ÁPÁ, 180. mál. — Þskj. 189.

[17:51]
Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn um nýafstaðna skipan í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til hæstv. innanríkisráðherra sem stóð að þeirri skipan.

Ég vil fyrst taka fram að þessi fyrirspurn lýtur ekki að þeim einstaklingi sem valinn var eða kostum hans eða göllum, þvert á móti hef ég ekkert heyrt nema gott um þann einstakling, heldur lýtur þetta að meginreglunni um auglýsingaskyldu sem er gríðarlega mikilvægur grunnþáttur í stjórnskipan okkar og í því að tryggja jafnt sjálfstæði embættiskerfisins gagnvart hinu pólitíska valdi og koma í veg fyrir misbeitingu pólitísks valds.

Auglýsingaskyldan er þannig mjög mikilvægur þáttur í réttarríkinu. Hún er líka mikilvægur þáttur í að tryggja jöfn tækifæri, að allir eigi kost á að sækja um lausar stöður. Í því tilviki sem hér um ræðir er vikið frá þessari meginreglu um auglýsingaskyldu og það er almenn regla í lögfræðinni að túlka ber allar undanþágur frá meginreglu þröngt. Lagaheimildina sem virðist byggt á er að finna í ákvæði til bráðabirgða I við lög nr. 51/2014. Þar er ráðherra einungis heimilað að taka ákvarðanir um skipun eða flutning sýslumanna eða þeirra sem fara með lögreglustjórn vegna breytinga á þeim embættum sem þar var kveðið á um þegar um er að ræða ný embætti lögreglustjóra og ný lögregluembætti. Hér er ekki um að ræða nýtt embætti. Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var til, það losnaði, sá sem skipaður var í það hafði gegnt lögreglustjóraembætti annars staðar, en lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu var ekki hluti af þessum sameiningarþætti núna.

Ég vil því spyrja ráðherra hví embættið hafi ekki verið auglýst laust til umsóknar við þessar aðstæður. Til þess voru öll efnisrök. Ég fæ ekki séð að lagaheimildin í bráðabirgðaákvæðinu dugi til þess að undanskilja embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem fyrir tilviljun losnar á sama tíma og verið er að ganga frá þessum breytingum og láta almenna auglýsingaskyldu ekki gilda um það embætti.



[17:54]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Því er til að svara að það virðist vera sem einhvers misskilnings gæti í fyrirspurninni. Því ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 51/2014 sem hv. þingmaður vísar til og fjallar um forgang lögreglustjóra í hinu nýja embætti lögreglustjóra, sem urðu til samkvæmt þeim lögum, var ekki beitt þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir var flutt frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu enda var það ekki mögulegt. Sigríður Björk Guðjónsdóttir var flutt á grundvelli 36. gr. starfsmannalaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, getur flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir það. Enn fremur getur stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, samþykkt að hann flytjist í annað embætti er lýtur öðru stjórnvaldi, enda óski það stjórnvald eftir því.“

Þessi heimild í lögum er mjög skýr. Hún hefur ítrekað verið nýtt og er vel þekkt, bæði þegar um er að ræða lögreglustjóra og aðra embættismenn. Til að mynda skipaði hv. þm. Árni Páll Árnason á grundvelli sömu greinar, 36. gr. starfsmannalaga, Bolla Þór Bollason ráðuneytisstjóra í félags- og tryggingamálaráðuneytinu árið 2009. Hið sama gerði þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þegar hún flutti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytið.

Meginreglan er auðvitað sú, eins og hv. þingmaður bendir á, að embætti eru auglýst laus til umsóknar, hvort sem þau eru ný eða gömul. Hins vegar hefur ráðherra, líkt og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki, skýra heimild sem hefur ítrekað verið nýtt samkvæmt umræddri 36. gr. starfsmannalaga er varðar lögreglustjóra sem eru ekki ráðnir með fasta setu heldur þannig að hægt sé að færa þá á milli svæða.

Virðulegur forseti. Það er svo við þetta að bæta að ég mat það mikils, þar sem spurt er um ástæðurnar, að fá Sigríði Björk Guðjónsdóttur til starfa á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Ég vil sérstaklega nefna þrjár:

Í fyrsta lagi má nefna að Sigríður Björk Guðjónsdóttir sýndi mikla ráðdeild í rekstri embættisins á Suðurnesjum. Hún tók þar við afar erfiðu búi en náði að snúa rekstrinum til betri vegar innan þess tíma sem ætlast var til.

Í öðru lagi taldi ég afar mikilvægt og tel það mjög mikilvægt að áherslur hennar í baráttunni gegn heimilisofbeldi ásamt eflingu rannsókna í kynferðisbrotamálum fengju sérstaka athygli á höfuðborgarsvæðinu. Sem lögreglustjóri á Suðurnesjum hafði hún hafið mikið átak til að sporna við endurteknu heimilisofbeldi, en ég veit að það er bæði viðkvæmt og flókið mál að veita bæði þolendum og gerendum heimilisofbeldis viðeigandi aðstoð. Þessi vinna, sem hefur einnig gagnast öðrum lögregluembættum á landinu og í raun og veru samfélaginu í heild sinni, er dæmi um nýja hugsun á þessum vettvangi, ný vinnubrögð og stöðuga endurskoðun á hlutverki lögreglunnar.

Í þriðja lagi taldi ég mikilvægt að kona yrði skipuð lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Aldrei áður hefur kona gegnt því mikilvæga embætti og þetta er því í fyrsta sinn sem það gerist. Ég hef áður sagt það hér á þingi og tel mig að hluta til bundna af sendingum og skýrum skilaboðum löggjafans í því efni að mikilvægt sé að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum, ekki síst innan lögreglunnar.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að unnið var með þessum hætti á þessum tíma. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að ítrekað hefur verið flutt á milli slíkra embætta og innan embættismannakerfisins, enda er heimild þess efnis í 36. gr. starfsmannalaga skýr og hefur margoft verið notuð eins og ég efast ekki um að hv. þingmaður viti. Það var gert í þessu tilviki og hafði ekkert að gera með stofnun nýrra embætta.



[17:59]
Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er gott að fá þau fram.

Mig undrar nokkuð að 36. gr. starfsmannalaganna sé beitt við þessar aðstæður því að rökin sem hæstv. ráðherra færði hér fram fyrir skipaninni eru auðvitað rök sem eru fullkomlega lögmæt rök veitingarvaldsins við veitingu embættis í kjölfar auglýsingaferlis. Hæstv. ráðherra hefði til dæmis verið í lófa lagið að auglýsa eftir lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og taka fram í auglýsingunni að þess væri sérstaklega vænst að lögð yrði áhersla á átak gegn heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna mjög þeirri áherslu, en hún er málefnaleg efnisrök sem geta alveg hjálpað til við skipan í kjölfar auglýsinga.

Með sama hætti er hæstv. ráðherra bundinn af jafnréttislögum. Þar sem kona hefur ekki áður gegnt þessu embætti og þar sem konur eru í minni hluta meðal lögreglustjóra er það líka málefnaleg ástæða fyrir hæstv. ráðherra, við veitingu embættis í kjölfar auglýsingar, að vísa til kynferðis.

Ég vil ítreka að í 36. gr. starfsmannalaga er heimild en efnisrök þurfa að vera fyrir því að beita henni. Ég ítreka það sem ég hef sagt hér áður að ég sé ekki efnisrökin í þessu tilviki. Hér er um eitt af mikilvægari embættum í réttarvörslukerfinu að ræða. Það skiptir máli að tryggja hlutleysi þess sem með það fer frá hinu pólitíska valdi. Í ljósi þess hefði ég talið eðlilegt að embættið hefði verið auglýst og allra þessara málefnalegu sjónarmiða getið í auglýsingu og síðan verið skipað í embættið á forsendum þess sem kæmi út úr slíkri auglýsingu.



[18:01]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að rökræða það sérstaklega við hv. þingmann hvort hér hafi verið á ferðinni eitthvað sem hann er ósáttur við eða telur að hefði mátt vinna öðruvísi. Heimildin er algjörlega skýr. Ég verð að viðurkenna það, vegna þess að ég veit til þess, og ég hef skoðað það, að það hefur margsinnis gerst í íslenskri sögu að menn hafi verið færðir á milli lögregluembætta, að lögreglustjórar hafi verið færðir á milli embætta eða sýslumenn. Það er fremur algengt. Það er hins vegar fremur óalgengt að ráðuneytisstjórar séu færðir á milli og mér finnst það pínulítið sérkennilegt — og ég ætla að segja það hér — að í fyrsta skipti sem við færum konu á milli með þessum hætti skuli það vera gert að sérstöku máli hér í þingsal. (ÁPÁ: Þetta er ómerkilegt.) Já, þingmaðurinn (Gripið fram í.) getur kallað það ómerkilegt, en mér finnst það sérkennilegt. (Gripið fram í.) (ÁPÁ: … svara fyrir sig, hæstv. ráðherra.)

Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Ég hélt að ég væri með málið. Ég hef útskýrt hvers vegna ég tók þessa ákvörðun. Það hafa ráðherrar ítrekað gert, þar með talið virðulegur þingmaður, það hefur ítrekað verið gert. Í fyrsta skipti í sögunni sem það gerist að kona er flutt með þessum hætti, í fyrsta skipti sem það gerist að kona tekur við þessu stóra embætti hér í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu, telur þingmaðurinn ástæðu til að spyrja um það.

Ég spyr bara: Hvers vegna í ósköpunum hefur hv. þingmaður eða þingheimur ekki spurt ráðherra ítrekað um það þegar þetta hefur gerst? Vegna þess að það hefur áður gerst. Það er óvanalegra þegar um er að ræða ráðuneytisstjóra en lögreglustjóra. Það er þess vegna sem ég nefni það að það sé talin sérstök ástæða og ég er búin að útskýra að heimildin er skýr og það var mín ákvörðun að ráðstafa málinu með þessum hætti og ekkert óvenjulegt við það. Ég tel að sú ráðstöfun hafi verið afar farsæl. Ég er sannfærð um að í ljós muni koma að hún hafi verið sérlega farsæl.