144. löggjafarþing — 15. fundur
 7. október 2014.
störf þingsins.

[13:31]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt í þessum ræðustóli að mér þyki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks landsbyggðarfjandsamlegt. Ég hef fært fyrir því nokkur rök, m.a. nefnt í því sambandi að mér þyki sérstakt að Framsóknarflokkurinn talar mjög mikið um byggðastefnu og hefur ákveðið að flytja heila stofnun með manni og mús út á land, en á sama tíma sker Sjálfstæðisflokkurinn markvisst niður, m.a. í framhaldsskólum landsins og fækkar þar með störfum. Þetta hefur mikil samfélagsleg áhrif þar sem litlu skólarnir úti á landsbyggðinni þurfa að hafa mikið fyrir tilvist sinni. Þeir halda nemendum í heimabyggð, menningarlífið blómstrar, verslun og þjónusta styrkist og störfin, eins og ég sagði áðan, verða til fyrir háskólamenntað fólk. Þetta ætlar Sjálfstæðisflokkurinn núna að skera markvisst niður.

Landsbyggðarframhaldsskólarnir hafa líka haft þá sérstöðu að eldri nemendur, sérstaklega konur, hafa fengið námstækifæri aftur sem þær hefðu annars ekki fengið og stór hluti þeirra hefði ekki getað hafið nám, t.d. með því að flytja í burtu eða fara í fjarnám eða eitthvað slíkt. Fyrir utan að það er ekki á allra færi eða vilji til þess. Menntamálaráðherra sækir að landsbyggðarskólunum, hann sker niður fjarnám, hann vísar eldri nemendum inn í símenntunarmiðstöðvar sem eru ekki til þess bærar að taka við öllum eldri nemendum, fyrir utan auðvitað að þetta er miklu kostnaðarsamara.

Er undirrótin kannski sú að gera þessa litlu skóla smám saman óstarfhæfa þannig að það þurfi að sameina þá einhverjum stærri eða hreinlega leggja þá af? Er það byggðastefna Sjálfstæðisflokksins? Á sama tíma og ráðherra fjármála segir að ríkissjóður sé að rétta úr kútnum gerir hann þetta.

Ég hvet alla þingmenn og sveitarstjórnarfólk, og sérstaklega úr ríkisstjórnarflokkunum, (Forseti hringir.) til að beita sér fyrir því að landsbyggðarskólarnir haldi reisn og þar með haldist störf í sveitarfélögunum.



[13:34]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. 50% af störfunum í dag verða farin eftir 20 ár. Þetta kemur fram í The Economist, leiðaragrein á síðasta ári þar sem vitnað er í Oxford-skýrslu sama árs um það hvernig tölvur og róbótar eru að taka yfir störf. Núna fyrir helgina var The Economist aftur með leiðaragrein og sérstaka skýrslu um það hvaða afleiðingar þetta mun hafa fyrir samfélag okkar. Þetta þýðir að þeir sem sinna þeim störfum sem ekki hverfa eða verða bætt af róbótum og tölvum muni fá hærri laun. Þeir sem eiga fjármagn til að kaupa róbóta munu líka fá meira fyrir sinn snúð. Aftur á móti mun tímabundið atvinnuleysi rjúka upp. Hve mikið vitum við ekki nákvæmlega en það mun fara töluvert upp og þau störf sem róbótarnir og tölvur keppa um munu ekki fara jafn hratt upp, lækka eða standa í stað.

Þetta þýðir að ef hið opinbera, eins og The Economist bendir á, grípur ekki í taumana, þ.e. kemur ekki með rétta stefnu til að bregðast við — ef ég nota bara orðin þar, með leyfi forseta:

„Governments themselves might be transformed by new political movements emerging in response to the dissatisfaction generated by technological change: in benign ways, through political reform and realignment, or in uglier fashion.“

Þetta þýðir að ef ekki verður gripið til réttrar stefnu muni jafnvel verða bylting, þ.e. ef þær breytingar sem gerðar verða nú eru ekki réttar. Það sem þeir kalla eftir að verði meðal annars gert er að endurskipuleggja velferðarkerfið. (Forseti hringir.) Þeir kalla eftir „universal basic income“, þ.e. borgaralaunum.

Ég hvet alla til að kynna sér þennan möguleika. Við þurfum að fara að skoða þennan möguleika strax því að (Forseti hringir.) 20 ár eru svo fljót að líða. Við þurfum að skoða strax (Forseti hringir.) hvað þetta þýðir og hvernig við getum notað það því að annars (Forseti hringir.) getur það kostað okkur virkilega mikið.



[13:36]
Elín Hirst (S):

Herra forseti. Klukkan rúmlega tíu í morgun varð jarðskjálfti upp á 5,5 stig í Bárðarbungu. Ég velti því fyrir mér í tengslum við slíka atburði sem vel geta magnast hvort fólk á þeim slóðum, og víða reyndar, eigi almennt útvarp með langbylgju.

Samkvæmt upplýsingum frá RÚV eru útvarpssendingar hér á landi aðallega á FM-tíðni, en einnig á langbylgju. FM-sendarnir ganga fyrir rafmagni og ef rafmagnið fer fara dísilrafstöðvar í gang við sendana. Ef upp koma þær aðstæður að ekki er hægt koma olíu á sendana verða þeir að sjálfsögðu óvirkir. Endurvarpssendarnir eru eingöngu rafknúnir og eins og áður segir verða þeir óvirkir í rafmagnsleysinu. Þeir geta einnig orðið óvirkir sökum ösku sem getur haft áhrif á starfsemi þeirra.

Þetta þýðir að verði rafmagnslaust vegna náttúruhamfara er líklegt að á stórum svæðum verði almenningur að treysta á langbylgjusendingar útvarps til að fylgjast með upplýsingagjöf og fréttum. Ég er ansi hrædd um að fæstir landsmenn eigi slík útvörp. Langflest útvarpstæki sem hér eru í notkun eru með aðeins með FM-bylgju en ekki LW, eða „long wave“.

Á heimasíðu RÚV segir, með leyfi forseta:

„Óvitlaust er að hafa á heimilinu lítið ferðaútvarp knúið rafhlöðu sem getur tekið á móti langbylgjumerki.“

Ég held að kveða þurfi mun sterkar að orði og upplýsa almenning mun betur, því að ein aðalröksemdin fyrir tilveru RÚV og þeim opinberu útgjöldum sem því fylgja er öryggishlutverkið. Ég hef verulegar áhyggjur af því að ef hér verða meiri háttar náttúruhamfarir geti fólk ekki reitt sig (Forseti hringir.) á Ríkisútvarpið.



[13:39]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við formann umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Höskuld Þórhallsson, um samgönguáætlun og fjárlögin eins og þau liggja fyrir.

Það blasir við mikill niðurskurður á samgönguáætlun í fjárlögum. Samgönguáætlun hljóðaði upp á 23 milljarða en í fjárlögum er einungis ætlaðir 20 milljarðar til samgöngumála heilt yfir.

Ef við byrjum á nýframkvæmdum eru einungis áætlaðar 850 milljónir í nýframkvæmdir. Sá peningur mun allur fara í viðhald vegna þess að það vantar eðlilega mikið viðhald á héraðs- og tengivegum vítt og breitt um landið. Það á að skera niður 700 milljónir í vetrarþjónustu og verkefni sem eru ekki samningsbundin eru í algjörri óvissu, framkvæmdir eins og Vestfjarðavegur 60 og Dýrafjarðargöng. Þetta kom fram í máli hæstv. ráðherra um daginn.

Ég vil bara minna hv. þm. Höskuld Þórhallsson á, af því hann var í fréttum um daginn og talaði um að fyrri ríkisstjórn hefði komið sérstaklega illa fram við Vestfirðinga í samgöngumálum, að þá voru mestir fjármunir lagðir í Vestfirði, 3–4 milljarðar, fyrir utan jarðgangaframkvæmdir á því kjörtímabili.

Innanlandsflugið verður fyrir miklum niðurskurði og flugvellirnir. Ríkisstyrktar leiðir eru í uppnámi, flugvellir eins og á Bíldudal, Gjögri, í Vopnafirði, Þórshöfn og á Höfn.

Það er mikill niðurskurður í hafnarframkvæmdum. Menn sögðu í kjördæmaviku að það væri brandari sem var lagt í Hafnabótasjóð í ár. Það eru einungis ætlaðir fjármunir í Bakka og Vestmannaeyjahöfn.

Það er auðvitað hneyksli að skera algjörlega niður í samgöngumálum (Forseti hringir.) landsmanna núna þegar menn ættu að hafa möguleika á því að spýta í lófana og fara að leggja fé (Forseti hringir.) í samgönguframkvæmdir í landinu.



[13:41]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta það að ég talaði ekki um að síðasta ríkisstjórn hefði komið sérstaklega illa fram við Vestfirðinga. (LRM: Ég hlustaði á þig.) Ég bið hv. þingmann að kynna sér þetta betur. (LRM: Ég geri það.) Það sem ég nefndi í því útvarpsviðtali var að við þyrftum að gera betur á Vestfjörðum. Við það stend ég. Samgöngunefnd ætlar að gera sér ferð núna á fimmtudaginn og fara þar víðsvegar um, skoða Teigsskóg, Dynjandisheiði, væntanlegar framkvæmdir við Dýrafjarðargöng, almennar vegasamgöngur og allt það sem undir málaflokkinn heyrir til að kynna sér það frá fyrstu hendi.

Það sem ég sagði hins vegar í þessu útvarpsviðtali og man mjög vel var að málaflokkurinn hefur í raun og veru verið sveltur frá hruni. Að sjálfsögðu hefur það verið gert með því markmiði að ná fram hallalausum fjárlögum, það er grunnstefnan. Og svo þurfum við að gæta að velferðarmálum þjóðarinnar. Núverandi ríkisstjórn leggur jafn mikla áherslu á það. Ég veit að síðasta ríkisstjórn vildi það, þó að hún af veikum mætti gerði ekki eins mikið og maður vonaðist eða ætlaðist til að hún gerði.

Samgönguáætlun fyrir árin 2013–2016 var ekki samþykkt í tíð síðustu ríkisstjórnar og okkur hefur ekki tekist að samþykkja hana enn, því miður, af sömu ástæðu og það tókst ekki á síðasta kjörtímabili vegna þess að áætlað er minna í málaflokkinn en samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Það er allt rétt sem hv. þingmaður (Gripið fram í.) fór yfir hér áðan. Nei, allir þeir sem hafa áhyggjur af þessum málaflokki hljóta að vera sammála um að það er ekki ásættanlegt.

Ég hef bent á það og verið mjög hreinskilinn að við verðum að horfast í augu við það að ef við setjum ekki meiri fjármuni í málaflokkinn mun það verða dýrara til langframa. (Forseti hringir.) Þess vegna bið ég hv. þingmann að gera nákvæmlega eins og við framsóknarmenn gerðum á síðasta kjörtímabili; við aðstoðuðum ríkisstjórnina við að koma á stórum (Forseti hringir.) samgöngumannvirkjum, eins og Vaðlaheiðargöngum, en stóðum ekki hér í ræðustól og (Forseti hringir.) gagnrýndum allt sem úrskeiðis gæti farið. (Forseti hringir.)



[13:44]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég naut þeirra forréttinda fyrir nokkrum árum að leiða flutning frumvarps þingmanna úr öllum flokkum um lögfestingu á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er eftir því tekið að við skulum hafa gengið svo langt að lögfesta sáttmálann líkt og Norðmenn, einir annarra Norðurlandaþjóða, hafa gert og eftir þeirri þverpólitísku samstöðu sem myndaðist á þingi um það mál. Sú ríka samstaða sem verið hefur hér í þinginu um réttindi barna og barnavernd skiptir gríðarlega miklu máli, en forsenda hennar er sú að hagsmunir barnsins séu í forgrunni en þeim sé ekki blandað saman við byggðasjónarmið, atvinnuhagsmuni eða önnur sjónarmið.

Ástæða er til þess að minna á þetta hér vegna þess að það veldur áhyggjum ef það fagráðuneyti sem fer með barnavernd í landinu hlustar ekki á ráðleggingar fagaðila eða sjónarmið barnaverndarnefnda um land allt þegar um er að ræða mikilvægar stofnanir í barnavernd. Það bætist svo við að ráðuneytið er að huga að því að flytja Barnaverndarstofu út á land, ekki af faglegum ástæðum heldur af einhverjum allt öðrum ástæðum.

Þegar við nú á skömmum tíma höfum fengið tvö dæmi um að í því ráðuneyti sem með málin fer séu önnur sjónarmið en hin faglegu um hagsmuni barnsins í forgrunni er full ástæða til að þingið gæti vel að og fylgi því eftir að þau lög sem það hefur sett, um að hagsmunir barnsins eigi að ráða ákvörðunum í málum en ekki sérhagsmunir, sé fylgt eftir (Forseti hringir.) af framkvæmdarvaldinu.



[13:46]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þann 1. október sl. tók peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þá ákvörðun að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum enn um sinn eins og verið hefur í tvö ár. Á þessum tveimur árum hefur verðbólga bæði verið frekar há og frekar lág, gengið sterkt og ekki sterkt, þensla yfirvofandi og ekki yfirvofandi, en það breytir ekki neinu um það að Seðlabankinn heldur ávallt óbreyttum stýrivöxtum. Það kemur reyndar fram að verðbólga mælist nú 1,8% og hafi verið undir markmiði í átta mánuði og það séu horfur á minni verðbólgu næstu mánuði en spáð var í ágúst, en samt dugar það ekki til.

Um leið notar seðlabankastjóri tækifærið til þess að berja á þeim sem eiga að semja um kaup og kjör á Íslandi og varar við að hér verði of miklar kauphækkanir til þeirra sem lægst hafa launin. Hann segir á mbl.is, með leyfi forseta:

„Launahækkanir detta ekki af himnum ofan og það að kjarasamningar fari úr böndunum tengist oft spennu á vinnumarkaði,“

Þarna bregst nú seðlabankastjóra heldur betur skammtímaminnið vegna þess að kjararáð ákvað laun hans sjálfs með ákvörðun 29. júní í fyrra þar sem hann fékk kauphækkun rúma 12 mánuði aftur í tímann sem námu um það bil mánaðarlaunum eins verkamanns fyrir hvern mánuð.

Það væri svo sem ágætt fyrir þennan ágæta mann, áður en hann byrjar að lesa mönnum pistilinn sem ekki hafa sest að samningaborði, að íhuga aðeins hvað hann segir. Í þessu tilfelli var launahækkunin nánast eins og hún félli af himnum ofan í skaut hans og örfárra annarra ríkisforstjóra. Ég held að þetta sé spennuvaldur. Það er ekki fólk sem fær 2,85% launahækkun sem fer út og eyðir stórfé. Það eru menn sem fá svona launahækkanir (Forseti hringir.) í hverjum mánuði sem eru til í að auka spennu.



[13:48]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil fagna því að Ríkisendurskoðun hefur lokið skoðun á fjárhag Þorláksbúðarfélagsins. Á sínum tíma var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sammála um að taka upp erindi frá almennum borgurum er varðaði fjármögnun og tilurð Þorláksbúðar. Könnun nefndarinnar snerist um atburðarásina eða verkferlana sem leiddu til þess að skyndilega reis á einum helgasta stað þjóðarinnar það sem kallað var tilgátuhús, án þess að vera það og án þess að nokkur bæri fjárhagslega ábyrgð. Upphaf fjármögnunar má rekja til þess að 1 millj. kr. af svokölluðum skúffupeningum ráðherra var úthlutað til verkefnisins og í kjölfarið samþykkti fjárlaganefnd í þrígang fjárveitingu til verkefnisins — af því að verkið var hafið.

Framkvæmd skipulagslaga er svo ruglingsleg að húsið reis án tilskilinna lagaheimilda að mati skipulagsstjóra, en á meðan á verkinu stóð taldi enginn sig geta gripið inn í atburðarásina. En eins og fram kemur í skýrslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar setti þáverandi hæstv. umhverfisráðherra reglugerð í byrjun árs 2013, sem telja má að komi í veg fyrir skipulagsslys af þessum toga í framtíðinni.

Ríkisendurskoðun hefur nú upplýst að Þorláksbúðarfélagið er í skuld við kirkjuráð upp á 12,9 millj. kr. Virðulegi forseti. Ég hefði búist við því að Ríkisendurskoðun áminnti fjárveitingavaldið, áminnti Alþingi um að vanda til fjárveitinga. En Ríkisendurskoðun gerði það ekki heldur snerist hún í óþarfa og óskiljanlegar varnir gagnvart þingnefndinni sem fjallaði um málið, svo ekki sé talað um þá óviðurkvæmni að setja í opinbera greinargerð snöpuryrði um almenna borgara þessa lands sem láta aðgerðir okkar á Alþingi sig varða.



[13:50]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af nýliðinni kjördæmaviku þar sem rætt var við okkur þingmenn Norðausturkjördæmis um hin ýmsu mál bar eitt mál sérstaklega mikið á góma, þ.e. fyrirhugaður niðurskurður í framhaldsskólum á landinu. Ég kallaði þetta laumufarþega í niðurskurði í fjárlagafrumvarpinu og þess vegna langar mig að eiga orðastað við hv. 5. þm. Norðaust., hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur um þetta mál.

Um þennan niðurskurð var rætt við okkur á eiginlega öllum fundum og fram komu miklar áhyggjur. Í okkar kjördæmi eru margir dreifbýlisskólar sem kallast svo. Boðaður er niðurskurður upp á 350–400 nemendaígildi og að allir sem eru 25 ára og eldri geti ekki lengur farið í framhaldsskóla heldur eigi að fara í símenntunarmiðstöðvar, sem ekki fá fjármagn til þess að sinna því verkefni. Þetta þýðir í raun og veru uppsagnir kennara ef þetta gengur eftir og þær hefðu sennilega átt að vera settar fram 1. október vegna þess að fjárhagsárið gildir frá og með næstu áramótum. Síðan, rúsínan í pylsuendanum, berst okkur til eyrna að á fundi í menntamálaráðuneytinu 10. september, þ.e. daginn eftir að fjárlagafrumvarp var rætt hér, hafi verið sýnt kort í menntamálaráðuneytinu til skólameistara af Íslandi og einhverri litadýrð þar inni á, sem voru áform eða hugmyndir ráðuneytisins um sameiningar skóla.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi en að í þessum málum sé fjárlagafrumvarpið landsbyggðarfjandsamlegt. Ég verð því miður að nota orðið „árás“ á framhaldsskóla í þessum litlum byggðarlögum vítt og breitt um landið. Þess vegna er það spurning mín til hv. þingmanns, sem er í sama kjördæmi og ég og hlustaði á sömu áhyggjuorðin: Styður hv. þingmaður þann niðurskurð og þau sameiningaráform sem boðuð eru í fjárlagafrumvarpinu?



[13:53]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrirspurnina og þar með tækifærið til þess að ræða málefni framhaldsskólanna. Í kjördæmaviku hittum við þingmenn kjördæmisins fulltrúa fimm smárra framhaldsskóla auk þess að hitta fulltrúa allra sveitarfélaga í kjördæminu og alls staðar bar málefni framhaldsskólans á góma, það er rétt.

Það sem stóð upp úr, eftir þær heimsóknir, voru einkum áhyggjur af óljósum sameiningaráformum og hraðari niðurskurði á nemendaígildum en passar við raunveruleikann þótt farið yrði hratt í að koma á þriggja ára námi. Fram kom að skilaboð varðandi styttingu náms væru ekki nægilega skýr að mati einstakra stjórnenda þótt aðrir stjórnendur teldu sig hafa fengið skýr skilaboð þar um. Eins var leiðin gagnvart verknáminu í heild ekki nægilega skýr samkvæmt upplýsingum frá skólameisturum.

Það kom líka fram að nokkrir skólar hafa þegar hafið undirbúning og eru alfarið með þriggja ára nám en það eru einmitt þeir skólar sem virðast verða verst úti í niðurskurði á nemendaígildum. Ég trúi í raun ekki öðru en að þar sé um einhvers konar mistök að ræða þegar það verður betur yfirfarið.

Þarna er gerð algjörlega óraunhæf krafa um fækkun nemendaígilda á næsta ári, jafnvel þótt menn séu að færa sig yfir í þriggja ára skóla.

Ég tek líka öllum sameiningarhugmyndum með miklum fyrirvara því að það þarf ekkert að fjölyrða um það hér að hlutverk þessara framhaldsskóla í litlum byggðarlögum er mjög margþætt og skiptir máli fyrir alla uppbyggingu samfélagsins.

Mig langar í lokin að koma að fjarmenntaskólanum þar sem þessir smáu skólar starfa saman á landsvísu, (Forseti hringir.) þar held ég að sé lykillinn að skilvirkari vinnu á framhaldsskólastiginu, samstarf framhaldsskóla á landsbyggðinni.



[13:55]
Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar í örfáum orðum að tíunda hvað margt hefur áunnist á því 16 mánaða tímabili sem núverandi ríkisstjórn hefur starfað.

Hér hefur hafist viðspyrna til góðra verka. Ég vek sérstaklega athygli á því 16 mánaða tímabili sem ríkisstjórnin hefur starfað núna. Mér hefur stundum fundist á þeim tíma sem ég hef setið á Alþingi að 16 mánuðir sumra ríkisstjórna felist við upphaf þeirra og ekki sé mikið um það talað eða rætt á þeim nótum kannski að ekki hafi gefist tími til að vinna verkin.

Þá vil ég benda á hvað mörg verk eru hafin hér og batnandi hagur margra, enda höfum við haft að leiðarljósi að ríkisstjórnin vilji bæta hag heimilanna í landinu.

Hér er lág verðbólga. Hún hefur ekki verið svo lág um langan tíma. Lág verðbólga orsakar líka það að skuldir heimilanna lækka, þess vegna viljum við halda mjög í það að geta haft hér lága verðbólgu. Við höfum bætt og hækkað barnabætur sem er ekki mikið haldið hér á lofti. Við jukum framlög til elli- og örorkulífeyrisþega og við erum núna í nýju fjárlagafrumvarpi að stórauka framlög til nýsköpunar og vísinda. Við höfum það að markmiði að 3% af landsframleiðslu árið 2016 renni til tækni og vísinda. Ég held að það sé mjög gott fyrir ungu kynslóðina í landinu að þessir málaflokkar séu bættir. Einnig hefur tekist að skapa hér um 5 þús. ný störf (Forseti hringir.) og það held ég að sé kannski ein stærsta kjarabótin fyrir heimilin í landinu. Atvinnuleysi er eitthvert mesta böl sem er til.

Ég hefði getað haft miklu lengri lestur, virðulegi forseti, en hann verður að koma síðar.



[13:58]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér stöðu geðfatlaðra fíkla. Í síðustu viku aðstoðaði ég fjölskyldu og aðstandendur fíkils í miklum vanda. Staðan er grafalvarleg og myrkrið er algjört. Úrræðin eru engin og fjölskylda og vandalausir sátu uppi með vanda sem ómögulegt er að leysa. Vandinn er slíkur að við sem komum að svona málum erum rænd svefni.

Í Krýsuvík eru 22 rúm fyrir fíkla í langtímameðferð. Það er langur biðlisti. Það er erfitt að komast að í neyðarvistun á Landspítalanum. Á þessu ári hafa þrír einstaklingar sem hafa beðið eftir meðferð látið lífið áður en að þeim kom. Það er eðlilega ekki hægt að færa til á slíkum biðlistum. Við sem erum að reyna að bera ábyrgð á okkur sjálfum verðum að koma til hjálpar. Við verðum að breyta myrkri í birtu og skapa fólki nýtt líf.



[13:59]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum oft verið sökuð um það að vilja leggja íslenskan landbúnað í rúst með því einu að impra á og vilja ræða breytingar á því fyrirkomulagi sem við búum við í dag í landbúnaðarkerfinu og í styrkjakerfinu sem fylgir því. Menn í þessum sal hafa ekki einu sinni verið tilbúnir til að eiga við okkur samtal um breytingar neytendum og bændum hugsanlega til hagsbóta. Allar breytingartillögur frá Samfylkingunni hafa verið úthrópaðar sem voðaverk til eyðileggingar á íslenskum landbúnaði. Menn geta skoðað þingtíðindi, farið í gegnum ræðurnar og séð þess stað í þeim.

Eitt af því sem við höfum lagt til er að afnema undanþágur í mjólkuriðnaði. Það gerðum við árið 2004 þegar við stóðum gegn því að sett væri í lög undanþága fyrir mjólkuriðnaðinn frá samkeppnislögum og síðan aftur 2011 þegar hv. þm. Helgi Hjörvar lagði til, með stuðningi þingflokks Samfylkingarinnar, að þessi undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum yrði afnumin. Þá stóðum við hér enn og aftur ein gegn meiri hluta þingsins í því máli og fengum hressilega að heyra það.

Í gær sáum við hins vegar í Kastljósi mjög vel dregna upp mynd af óbreyttu kerfi í mjólkuriðnaði. Það var ekki falleg mynd. Ég held að við getum öll verið sammála um það.

Ég vil því kalla eftir því að menn fari að tala af virðingu hver við annan um hugmyndir þeirra um mögulegar breytingar á þessu kerfi þannig að það verði bændum til hagsbóta og neytendum til hagsbóta. Við óbreytt kerfi verður ekki búið og ég heyri ekki betur en að þingmenn stjórnarliðsins séu hver á fætur öðrum að átta sig á því og séu tilbúnir til samstarfs um að gera á þessu breytingar. Ég segi: Látum efndir fylgja þeim (Forseti hringir.) orðum og fylkjum liði um að gera breytingar nú á þessu þingi þannig að vel við verði unað.



[14:02]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Síðastliðna helgi fór fram fjórðungsþing Vestfirðinga. Í kjölfarið voru þingmönnum sendar ályktanir þingsins. Ein af mörgum ályktunum þingsins var um húsnæðismál. Þar var meðal annars bent á nauðsyn þess að fá úrlausnir í húsnæðismálum á Vestfjörðum, mikilvægi þess að hafa bætt aðgengi að húsnæðislánum og lausnir á þeim vanda sem skapast þegar mikill munur er á byggingarkostnaði og markaðsvirði. Fram hefur komið að algengt sé að byggingarverð verði oft þrisvar sinnum hærra en markaðsvirði eigna á svæðinu, en dæmi eru um allt að sex sinnum hærri kostnað.

Virðulegi forseti. Í þessu samhengi er ánægjulegt að minna á þá vinnu sem verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála vann síðastliðinn vetur. Unnið var að lausnum á ofangreindum málum og komið fram með tillögur þess efnis. Jafnframt er afar ánægjulegt að sjá að tillögur verkefnisstjórnarinnar eru komnar í ákveðið vinnuferli og þessa dagana er unnið hörðum höndum við gerð frumvarpa er byggjast á tillögunum. Meðal annars var komið með tillögur að stofnun leigufélaga með lækkun leigukostnaðar í huga, tillögur að bættu húsnæðislánakerfi þar sem allir ættu sama rétt óháð búsetu og tillögur að bættu húsnæðisbótakerfi. Stefnt er að því að leggja fram fyrstu frumvörpin er taka á þessum mikilvægu málum strax á haustþingi.

Herra forseti. Það hefur komið á óvart í vinnslu við gerð þessara frumvarp að engin drög eru til að frumvörpum þrátt fyrir að mikil og góð vinna hafi farið fram í þessum málefnum á undanförnum kjörtímabilum. Nóg er til af skýrslum en ekki einu sinni stafkrókur í drögum að frumvarpi.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vill láta verkin tala í málefnum heimilanna. Þess vegna hefur þessi vinna verið sett í fullan gang. Vitað er að allir verða að hafa raunverulegt val varðandi búsetuform og nauðsynlegt er að hafa þak yfir höfuðið sama hvar við búum á landinu.



[14:04]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er eins með mig og marga Íslendinga að ég kaupi mjólkurvörur frá MS án umhugsunar í hverri verslunarferð eins og ég sé í raun og veru í áskrift að þeim vörum. Ég held að ég sé örugglega ekki sá eini sem fylltist miklu og skyndilegu mjólkuróþoli við það að horfa á umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi, með fullri virðingu fyrir þeim sem glíma við þann kvilla. Sú umfjöllun og í rauninni úrskurðir samkeppnisyfirvalda að undanförnu og fréttir af umgengni við innflutningskvóta hljóta að vera tilefni til umhugsunar fyrir almenning og okkur sem störfum á þessum vettvangi.

Ég hvet þingmenn til að skoða umfjöllun Kastljóss og velta fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til þess á vettvangi þingsins að reyna að finna leiðir til að beita sér í þágu virkrar samkeppni í mjólkuriðnaði neytendum til hagsbóta.

Í Kastljósi var rifjuð upp saga MS og tilburðir Mjólkursamsölunnar til þess að kæfa alla samkeppni í fæðingu í krafti fákeppnisumhverfis og yfirburðastöðu og í krafti tengsla inn í stjórnsýsluna sem ég held að sé óhjákvæmilegt að ráðherra landbúnaðarmála fjalli um í þinginu og svari spurningum þingmanna þar um. Sem betur fer verður það gert hér í sérstakri umræðu á fimmtudaginn.

Til þess að undirstrika þessi tengsl barst okkur þingmönnum í morgun bréf frá einmitt fyrrverandi landbúnaðarráðherra og nú starfsmanni Mjólkursamsölunnar þar sem reynt var að draga upp þá mynd að (Forseti hringir.) MS starfi fyrst og fremst í þágu almennings í landinu. Umfjöllun Kastljóss sýnir svo ekki verður um villst að það er öðru nær.