144. löggjafarþing — 15. fundur
 7. október 2014.
vegalög, 1. umræða.
stjfrv., 157. mál (gjaldtaka af umferð o.fl., EES-reglur). — Þskj. 161.

[14:53]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vegalögum, nr. 80/2007, með síðari breytingum. Frumvarpið var að undanskildum ákvæðum 1. og 2. gr. lagt fram á Alþingi í vor á þessu ári en ekki náðist að mæla fyrir því fyrir þingfrestun. Er það því lagt fram að nýju.

Frumvarp þetta er í raun og veru þríþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða innleiðingu á EES-gerðum í íslenskan rétt. Í öðru lagi er um að ræða breytingartillögur sem stafa af vinnu nefndar um endurskoðun vegalaga og er breyting sem lengi hefur verið beðið eftir. Í þriðja lagi er um að ræða breytingar sem leiða af nýlegri heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana hér á landi sem fólu í sér að settar voru á stofn tvær stofnanir eins og við þekkjum, annars vegar Samgöngustofa og hins vegar Vegagerðin.

Hvað varðar EES-gerðina, sem við ræðum hér oft, þá er að finna í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2006 (2006/38/EB), um breytingu á fyrri tilskipunum um álagningu gjalda, þ.e. veggjalda og notkunargjalda og gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum umferðarmannvirkjum, ákvæði um skyldu aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins til að koma á fót árangursríku eftirliti og ákvarða kerfi viðurlaga sem eiga við um brot á þeim ákvæðum landslaga sem samþykkt eru samkvæmt umræddri tilskipun. Því kerfi er ætlað að tryggja að lögaðilar sem standa að slíkri álagningu fari að þeim reglum sem um gjaldheimtuna gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Hvorug þessara tilskipana hefur verið innleidd í íslenskan rétt enn sem komið er. Nú stendur yfir vinna í innanríkisráðuneytinu til að innleiða ákvæði tilskipananna í reglugerð. Til að uppfylla kröfur um viðurlög er hins vegar nauðsynlegt að í vegalögum sé að finna skýra heimild til að leggja sektir á lögaðila, auk þess sem kveða þarf á um hvaða háttsemi geti varðað slíkum sektum. Heimild sem þessa er eins og áður sagði ekki að finna í núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir því að sett sé ákveðið hámark á sektarfjárhæð.

Við undirbúning þess hluta frumvarpsins sem snýr að innleiðingu EES-gerðarinnar var haft náið samráð við bæði Samgöngustofu og Vegagerðina. Aðeins einn lögaðili í dag sinnir slíkri gjaldheimtu á Íslandi, en það er Spölur sem sinnir gjaldheimtu í Hvalfjarðargöngum líkt og þingheimur þekkir. Þá er fyrirséð að til slíkrar gjaldheimtu muni koma í Vaðlaheiðargöngum þegar þau verða opnuð. Efni frumvarpsins var kynnt fyrir fulltrúum beggja þessara aðila og fundað með þeim í kjölfarið til að ræða áhrifin. Ekki komu fram athugasemdir við efni frumvarpsins af þeirra hálfu.

Virðulegur forseti. Hvað varðar efni annarra greina frumvarpsins þá á tilurð þeirra sem fyrr segir rætur að rekja til tillagna nefndar um endurskoðun vegalaga. Í henni áttu sæti fulltrúar innanríkisráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk þeirrar nefndar var að fara yfir framkvæmd vegalaga varðandi flokkun vega, en yfirfærsla á tilteknum vegum til sveitarfélaga hefur ekki komist að fullu til framkvæmda þar sem ágreiningur var um með hvaða hætti það skyldi gert.

Í frumvarpinu er að lokum að finna ákvæði sem varða heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana líkt og ég nefndi áðan. Frá haustinu 2013 hefur staðið yfir vinna í innanríkisráðuneytinu við yfirferð regluverks í tengslum við stofnun Samgöngustofu og Vegagerðarinnar. Markmið verkefnisins er að stuðla að skilvirkum reglum og gagnsæju eftirlitskerfi á sviði samgangna í landinu til hagsbóta og öryggis fyrir borgarana.

Að því er varðar vegalögin, virðulegur forseti, var það mat ráðuneytisins að hlutverk Samgöngustofu gagnvart Vegagerðinni og að öðru leyti með tilliti til vegalaganna kæmi ekki nægilega vel fram í gildandi lögum. Er því lögð til breyting á II. kafla laganna sem fjallar um stjórn vegamála. Vegagerðin mun áfram hafa það hlutverk að annast framkvæmd laganna nema á annan hátt sé kveðið í lögunum, en meginefni stofnunarinnar snýr að framkvæmd veghalds, þ.e. byggingu, viðhaldi og rekstri vega, auk þess að skilgreina þjóðvegakerfið sem Vegagerðinni er falið að bera ábyrgð á samkvæmt lögum.

Samgöngustofu er hins vegar falið það hlutverk að annast eftirlit með framkvæmd umferðaröryggisstjórnunar vegamannvirkja í samræmi við hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum sem um hana gilda.

Fyrirséð er að eftirlitið muni að mestu fara fram í formi stjórnsýsluúttekta á gæðakerfum í því skyni að tryggja að vegaframkvæmdir séu í samræmi við lög og reglur. Gert er ráð fyrir að úttektirnar fari fram í samræmi við verklagsreglur sem Samgöngustofa setur sér að höfðu samráði við Vegagerðina, sveitarfélög og eftir atvikum aðra veghaldara. Við mótun þessa verklags skal gæta hagkvæmni og einfaldrar og skilvirkrar stjórnsýslu. Þannig leiði eftirlit Samgöngustofu ekki til tvíverknaðar eða sé með öðrum hætti óþarflega íþyngjandi fyrir hina eftirlitsskyldu aðila. Nauðsynlegt var að skerpa á þessu í lögum.

Virðulegur forseti. Ég vil hér að lokum nefna örfá atriði til viðbótar sem mér finnst mikilvægt að hafa í huga við þetta frumvarp.

Við gildistöku núgildandi vegalaga þann 1. janúar 2008 var gert ráð fyrir að um 1.000 km af tengivegum færðust í flokk héraðsvega og sveitarfélög tækju við viðhaldi þeirra. Af því varð hins vegar ekki. Ástæður þess eru meðal annars þær að núgildandi vegalög voru ekki kostnaðarmetin á þann hátt sem nú er mælt fyrir í tiltölulega nýsamþykktum sveitarstjórnarlögum.

Af þeim breytingum sem rekja má til tillagna nefndarinnar, sem ég kom hér inn á áðan um endurskoðun vegalaga, ber helst að nefna þessar:

Í fyrsta lagi er lögð til breyting á núgildandi vegalögum sem felst í því að um 230 km af vegum sem nú falla í flokk héraðsvega falli aftur í flokk tengivega. Hér er um að ræða umferðarmeiri héraðsvegi landsins. 10 km viðmið gildandi laga hefur sætt töluverðri gagnrýni af hálfu sveitarfélaganna, m.a. með tilliti til snjómoksturs og þess að minni líkur eru taldar á að til þeirra verði litið við lagningu bundins slitlags ef þeir verði áfram í tölu héraðsvega. Er því lagt til að 10 km viðmiðið sé fært niður í 2 km viðmið.

Þá eru einnig lagðar til breytingar á skilgreiningu hugtaksins héraðsvegir og einnig er hlutverk vegaskrár skýrt.

Í öðru lagi er lagt til að bætt verði við nýjum málslið við 28. gr. vegalaga sem fjallar um mat á umferðaröryggi mismunandi valkosta við lagningu vega. Ákvæði 28. gr. vegalaga hefur reynst erfitt í framkvæmd og óljóst hvernig best er að útfæra þau fyrirmæli sem þar koma fram. Í frumvarpinu eru því lagðar til breytingar sem ætlað er að skýra það verklag sem skal viðhafa við framkvæmdina.

Í starfi umræddrar nefndar kom fram að í flestum tilvikum eru samskipti Vegagerðarinnar góð og án vandkvæða, en þó kæmu upp takmarkatilvik sem betur mætti fara. Nefndin taldi að leysa mætti úr flestum ágreiningsmálum með því að tryggja betur samráð Vegagerðar og skipulagsyfirvalda og yrði Vegagerðinni því gert skylt að setja fram mat á umferðaröryggi mismunandi valkosta við vegalagningu með nægum fyrirvara til að skipulagsnefnd viðkomandi sveitarfélags gæti tekið afstöðu til matsins við mótun aðalskipulagstillögu. Þetta er eitthvað sem mörg sveitarfélög telja mjög mikilvægt.

Í þriðja lagi er svo lagt til að ef sameining sveitarfélaga hefur þau áhrif að vegur færist úr flokki stofnvega í flokk sveitarfélagsvega þá skuli Vegagerðin halda við veginum í fimm ár eftir sameiningu meðan sveitarfélag undirbýr viðtöku vegarins.

Í fjórða lagi er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði til bráðabirgða sem heimili Vegagerðinni að semja við sveitarfélög um yfirfærslu vega frá Vegagerðinni til sveitarfélaga vegna þeirra vega sem færðust úr flokki stofnvega við gildistöku gildandi vegalaga.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar til meðferðar.



[15:02]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að forvitnast hjá hæstv. ráðherra um ákvæði í 5. gr. frumvarpsins, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um gjaldtöku af umferð samkvæmt ákvæði þessu, meðal annars um álagningu veggjalda og notkunargjalds og fyrirkomulag innheimtu, sem og um viðurlög við brotum á ákvæðum reglugerðarinnar …“.

Heimildin er þannig í lögum í dag að ráðherra getur með reglugerð sett á veggjöld. Ég tel mjög óeðlilegt að sú heimild sé fyrir hendi, að menn geti með geðþóttaákvörðun, hversu vel sem að því er staðið, lagt á veggjöld hvar sem er á landinu. Þau eru ekki víða, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, en á móti spyr maður: Væri ekki eðlilegast að ákvörðun um gjaldtöku væri lagabundin þó að reglugerðin fjallaði um það hvernig standa ætti að framkvæmd? Nú kann að vera að ég sé að misskilja eitthvað, en ég tel mikilvægt að fá skýrari svör hvað þetta varðar.

Í öðru lagi er það 6. gr. Þar er fjallað um að lagt sé mat á umferðaröryggi á mismunandi kostum við vegalagningu. Ég sé enga ástæðu til annars en að styðja það. Í umfjöllun um Vestfjarðaveg 60, í umfjölluninni um Teigsskóg, var þeim rökum Vegagerðarinnar að verið væri að leggja veg til að tryggja umferðaröryggi hafnað í umhverfismati. Ég spyr hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta því líka í lögunum um umhverfismat, að heimilt verði að taka tillit til umferðaröryggisþátta við mat á kostum hvað það varðar.

Ég kem kannski fleiri spurningum að í seinna andsvari.



[15:04]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði hvort þetta væri nýtt. Já, þetta ákvæði 5. gr. er nýtt, en reglugerðin lýtur að nánari fyrirmælum um gjaldtöku. Það er auðvitað þannig að viðkomandi aðilar, í samráði við ríkið í flestum tilvikum, setja ákveðna upphæð er varðar veggjaldið. Þetta eru hins vegar nánari fyrirmæli um það. Svo getum við rætt það — við höfum reyndar rætt það og ég hef nefnt það í þessum sal — að í ýmsum nágrannalöndum okkar, ef við erum að ræða einkaframkvæmdir, er það þannig að hver og ein einkaframkvæmd, hvert og eitt slíkt samstarfsverkefni, kemur til kasta Alþingis á hverjum stað. Ég teldi að ef við ætluðum til dæmis að fara inn í slík verkefni þyrfti að ræða það á hinu háa Alþingi, samþykkja hverja aðgerð fyrir sig og þá með tilvísun í það hver kostnaðurinn af því væri. Hugmyndin er sú með þessu að það séu nánari fyrirmæli, eins og stendur þarna, um fyrirkomulag innheimtunnar sem og viðurlög o.s.frv.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um umhverfismat, og hann tengdi það meðal annars við Teigsskóg, er ekki talin þörf á því hvað þetta varðar. Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni, og það var til dæmis rætt í þingmannahópnum þegar við vorum að ræða ákveðnar lausnir er vörðuðu það að fara með vegtengingu í gegnum Teigsskóg, að skerpa þyrfti á lögunum um umhverfismat ef við ætluðum að láta öryggisþáttinn í umferðinni vega eins og umhverfismálin gera í hæstaréttardómnum sem ég geri ráð fyrir að við séum öll farin að þekkja of vel.

Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns.



[15:06]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tel mikilvægt — úr því að við höfum hér formann umhverfis- og samgöngunefndar — að þessir þættir verði skoðaðir og það sé skýrt að hver og ein framkvæmd hvað varðar gjaldtöku verði skoðuð sérstaklega. Ég má ekki hugsa til þess að þegar veggjaldið leggst af í Hvalfjarðargöngum árið 2018 verði komið nýtt veggjald á þessa einu leið út úr höfuðborginni eða inn í hana.

Hæstv. ráðherra hefur tjáð sig um að Sundabrautin eigi að vera í einkaframkvæmd og maður óttast að þá komi veggjald á þá leið. Þá væri enn og aftur verið að höggva í sama knérunn. Á sama tíma eru stórar rándýrar framkvæmdir í hina áttina, bæði á Reykjanesbrautinni og Suðurlandsveginum, án þess að nein gjaldtaka sé þar. Ég beini því til formanns umhverfis- og samgöngunefndar að skoða þetta með lögin hvað varðar umhverfismat til að tryggja að umferðaröryggi sé lagt til mats í sambandi við samgöngumál.

Það er tvennt í viðbót sem mig langar að spyrja um. Í kafla um tilefni og nauðsyn lagasetningar er vitnað í endurskoðun vegalaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin lauk störfum snemma árs 2014 og eru nokkrar tillögur nefndarinnar teknar upp í þetta frumvarp.“

Hvernig var það valið og af hverju voru þær teknar upp núna, hvað er það sem kallaði á að flýta þeim?

Hér er rætt um tengivegina og færsluna yfir til sveitarfélaganna; vangaveltur um að þarna hafi verkefni færst til samhliða sameiningu sveitarfélaga. Það er áhyggjuefni, ef við erum að stuðla að sameiningu sveitarfélaga og stækkun svæða, að það þýði að viðkomandi sveitarfélög verði að taka að sér ákveðnar vegaframkvæmdir eða umsjón vega og viðhald. Mig langar að heyra aðeins betur frá ráðherra um þennan þátt. Sá vandi má ekki fylgja sameiningu sveitarfélaga að þá færist (Forseti hringir.) yfir gjöld og skyldur sem letji menn til sameiningar.



[15:08]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um sameiningu sveitarfélaga þá var það einmitt markmið, þess vegna voru sveitarfélögin, Samband íslenskra sveitarfélaga, fengin inn í vinnuna. Þetta á alls ekki að valda því að það verði þungbærara, flóknara eða erfiðara fyrir sveitarfélögin. Alls ekki. Þess vegna er gefinn ákveðinn aðlögunartími að málinu auk þess sem kveðið er sérstaklega á, eins og ég nefndi í ræðu minni, um ákveðið samráð og viðræður við sveitarfélögin um þessa þætti. Flest af því sem þarna er lagt til er að mati sveitarfélaganna til mikilla bóta. Það er eitthvað sem ég geri ráð fyrir að hæstv. nefnd muni yfirfæra í sinni vinnu og ræða við sveitarfélögin um, en ekki er talið að það sem hv. þingmaður nefndi verði íþyngjandi.

Spurt var um nefndina sem fór yfir endurskoðun vegalaga. Hv. þingmaður spyr: Hvað var tekið inn í þessa lagasetningu og hvað var látið standa út af? Í þessari frumvarpsgerð var reynt að taka allt sem laut að tillögum nefndarinnar um breytingu á lögum inn í þetta. Það á að vera allt þarna inni sem laut að því að breyta lögum og það sem var talið sérstaklega mikilvægt til að tryggja að það mundi gerast hratt og örugglega. Ég skal hins vegar óska eftir því, fyrir hv. þingmann, að honum verði gerð aðgengileg niðurstaða þessarar nefndar og þessi vinna, þá er hægt að fara yfir það. En það var tekið inn í þetta verkefni þar sem þurfti að fara í breytingar á lögum.



[15:10]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar þakka hæstv. ráðherra fyrir að tala fyrir því máli sem hér er til umræðu. Við munum að sjálfsögðu fara ítarlega yfir allar þær vangaveltur og tillögur sem þar eru. Og til að svara hv. þm. Guðbjarti Hannessyni munum við að sjálfsögðu skoða hluti hvað varðar gjaldtöku og annað. Það hefur verið háttur nefndarinnar að gera slíkt. Ágætissamstaða er um mörg veigamikil mál. Við tökum þessu máli fagnandi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.