144. löggjafarþing — 16. fundur
 8. október 2014.
staða kvenna í landbúnaði og tengdum greinum.
beiðni JMS o.fl. um skýrslu, 179. mál. — Þskj. 188.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:43]

[15:41]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hérna er með vísan til 54. gr. stjórnarskrár og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis óskað eftir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu kvenna í landbúnaðartengdum greinum. Vegna umfangs skýrslunnar og þeirrar staðreyndar að engar upplýsingar liggja fyrir í þessu máli vill 1. flm. árétta að hér er ekki verið að biðja um upplýsingar er varða landbúnað frá upphafi hans á Íslandi, heldur er varða síðustu þrjú ár, a.m.k. í liðum 1–10. Það er gert til afmörkunar efnisins og mun það ekki hafa áhrif á skýrsluna þótt ráðuneytið fái allt að ár til vinnslu hennar þar sem um stórt verkefni er að ræða og gríðarlega upplýsingasöfnun.



[15:41]
Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða þarfa og góða skýrslubeiðni af hálfu þingmanns en það verður ekki sömu hrósyrðum lokið á atkvæðagreiðsluna sem er nú reynt að efna til í þriðja sinn. Ég vil segja að það er ekki alveg vansalaust fyrir Alþingi að það þurfi þrisvar sinnum að kalla saman í atkvæðagreiðslu um þetta mál og að tvívegis á einum þingdegi sé ekki hægt að ná í þingsalinn nægilegum fjölda þingmanna til þess að viðhafa atkvæðagreiðslu. Ég held að það sé full ástæða til þess fyrir forsætisnefnd þingsins að ræða þá stöðu og reyna að tryggja að svona uppákomur verði ekki á þinghaldinu oftar.



[15:42]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti er út af fyrir sig sammála því að það er auðvitað ekki eins og vera ber þegar ekki tekst að efna til atkvæðagreiðslu eins og áformað er.

Það er lítil huggun harmi gegn að vita það þó að þetta er ekki einsdæmi í sögu þingsins. Forseta rekur minni til þess að slíkt gerðist bæði oft á síðasta kjörtímabili og fyrr.



[15:43]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er fín tillaga og ég kem til með að styðja hana, en ég vildi vekja athygli á því að allir flutningsmenn tillögunnar eru konur. Mér finnst alveg þess virði að nefna þetta vegna þess að jafnrétti kynjanna er ekki bara málefni kvenna heldur málefni okkar allra, sem við eigum öll að taka þátt í. Mér finnst mikilvægt að það sé ekki bara þannig að karlmenn taki þátt í því að styrkja jafnrétti kynjanna, mér finnst líka mikilvægt að það líti þannig út vegna þess að ef það lítur ekki þannig út getum við ekki mælt það.

Að því sögðu aðhyllist ég þessa tillögu og kem til með að styðja hana.



Beiðni leyfð til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra  með 35 shlj. atkv.