144. löggjafarþing — 17. fundur
 9. október 2014.
sérstök umræða.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:13]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að bregðast skjótt við beiðni minni um að koma hingað og ræða við þingheim um samkeppni, eða öllu heldur samkeppnisleysi í mínum huga í mjólkuriðnaði, af ærnu tilefni.

Fyrst langar mig að hafa nokkur orð um þýðingu samkeppninnar. Samkeppni er ekki bara einhver kredda eða meinloka í ungum hægri mönnum. Samkeppni og möguleiki á samkeppni er einn af hornsteinum frjáls, opins, lýðræðislegs samfélags. Samkeppnislög eru grundvallarlög. Þau veita einstaklingum vernd og færi á að spreyta sig. Eitt einkenni fagurs samfélags og fagurs mannlífs er að fólk fái tækifæri til að spreyta sig á því sem það vill gera og telur sig gott í. Ef einhver telur sig góðan í að framleiða ís eða ost eða sýrðan rjóma eða jógúrt þá á hann að fá tækifæri til þess.

Ein meginhættan í svona umhverfi felst í ofríki hinna stóru, þeirra sem eru fyrir á markaði, þeirra sem eru fyrir á fleti. Samkeppnislöggjöfin og eitt megininntak hennar er að vernda litla aðila, nýja aðila, þá sem vilja spreyta sig, gegn ofríki hinna stóru. Þetta hefur tekist í mjólkuriðnaði víða annars staðar en hefur algjörlega mistekist á Íslandi. Það er beinlínis ákvæði í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem gerir mjólkuriðnaðinn undanþeginn samkeppnislögum. Ég fullyrði að þetta sé hvergi svona. Víða eru sérlög um framleiðslu á landbúnaðarvörum en ég held að hvergi njóti mjólkuriðnaður eða landbúnaður undanþágu frá samkeppnislögum. Alls staðar eru hinir smáu verndaðir gegn ofríki hinna stóru. Þetta er lykilatriði.

Nýlegur úrskurður Samkeppniseftirlitsins er grafalvarlegt mál. Hann felur í sér aðför að grunngildum opins, lýðræðislegs samfélags. Það er grundvallarspurning í þessari umræðu hvort hæstv. ráðherra ætli ekki að beita sér fyrir því að samkeppnisvæða þetta umhverfi.

Kerfið sem við höfum komið á um landbúnaðarframleiðslu á Íslandi er að mörgu leyti úrelt og þunglamalegt. Maður þarf ekki að lesa lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum lengi til að sannfærast um að kerfið sé úrelt. Ég held að þessu hafi verið komið á í veröld þar sem óttinn við offramleiðslu var talsverður. Offramleiðslu gætti mjög mikið á 20. öldinni. Hún er vissulega alvarlegt mál ef hennar gætir. Hún getur leitt til fjöldagjaldþrota í landbúnaði. Ég held mögulega að það séu ein sterkustu rökin fyrir því að það þurfti einhvers konar framleiðslustýringu og lög sem vernda landbúnað.

Við búum í breyttum heimi. Núna er umframeftirspurn eftir matvælum. Við þurfum ekki þessa miklu vernd. Við þurfum frelsi. Við þurfum að innleiða samkeppni. Mjólkursamsalan flytur núna út vörur. Hún gerir það í gegnum fyrirtæki á Norðurlöndum sem hafa notið verndar samkeppnislaga þar, en á sama tíma nýtur Mjólkursamsalan undanþágu frá samkeppnislögum hér. Hún skákar í skjóli samkeppni annars staðar. Samkeppni á erindi í mjólkuriðnaði. Það myndaðist hér á tímabili samkeppni um umframmjólk þegar nýr aðili vildi kaupa umframmjólk af bændum. Það leiddi til hærra verðs á mjólk til bænda og lægra verðs til neytenda. Það er talað um hagræðingu í greininni. Ég vil hagræðingu vegna samkeppni en ekki hagræðingu sem hlýst af einokun og gallaðri löggjöf.

Ég held að við þurfum grundvallarátak í að endurskoða landbúnaðarkerfið og innleiða samkeppni (Forseti hringir.) í þennan geira markaðarins. (Forseti hringir.) Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir sýn hans á þessi mál.



[11:18]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa sérstöku umræðu. Í aðdraganda hennar sendi hv. þingmaður nokkrar spurningar til ráðuneytisins sem ég ætla að reyna að svara. Áður en ég byrja á því vil ég minna á — af því að það er eins og þessi umræða fari fram í einhverju tómarúmi um að allt sé óbreytt og verði óbreytt — að búvörusamningar munu renna sitt skeið á þessu kjörtímabili og í aðdraganda þeirra hef ég óskað eftir skoðun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á því kerfi sem hefur verið við lýði um tíu ára skeið. Ég vænti þess að niðurstaðan úr því komi núna í þessum mánuði.

En hvað er svona sérstakt við mjólk að það þurfi sérstaka opinbera verðlagningu á henni og sérstakt leyfi til að sniðganga samkeppnissjónarmið í sölu á henni eins og hv. þingmaður kom inn á?

Þetta er kannski höfuðspurning og hefði átt að vera í forgrunni þeirrar umræðu sem nú stendur yfir í samfélaginu. Í fyrsta lagi er eðli vörunnar sérstakt, hér er um að ræða viðkvæma lífræna vöru sem fellur til daglega alla 365 daga ársins, burt séð frá því hvernig árar eða hver eftirspurn er eftir henni. Þetta eru ekki vélar, það eru kýr, lifandi skepnur, sem framleiða hana. Í öðru lagi er um að ræða forgengilega vöru sem er vandmeðfarin og þarf dýrt og viðamikið flutningakerfi um allt land til að safna mjólkinni frá 650 bændum. Það er farið 90 þúsund sinnum heim á bæi til að ná í mjólk á hverju ári. Í þriðja lagi tekur nú um þrjú ár, eða í það minnsta tvö og hálft ár, að ala upp mjólkurkú sem síðan endist ekki nema í nokkur ár, að hámarki í áratug þó að einstaka fari yfir það.

Þessi atriði gera að verkum að óheyrilegar framleiðslu- og verðsveiflur geta orðið í mjólkuriðnaði eins og reynslan sýnir um allan heim. Þess vegna eru víða sérlög eins og hv. þingmaður kom inn á. Slíkar sveiflur geta ekki aðeins hitt neytendur illa fyrir heldur bændurna ekki síður. Því er reyndin orðin sú að víðast hvar í okkar heimshluta er mjólkuriðnaðurinn undir opinberri verðlagningu með einhverjum hætti og/eða framleiðslustýringu með einhverjum hætti. Kerfin eru mörg og ólík en markmið þeirra eru í meginatriðum þau sömu.

Við þetta má svo bæta að mjólk er víðast talin til nauðsynjavöru sem sé mikilvæg, sérstaklega fyrir ungar og uppvaxandi kynslóðir og því hluti af fæðu- og matvælaöryggi þjóða.

Hv. þingmaður spurði af hverju MS þurfi sérstakar undanþágur frá samkeppnislögum. Ég vil byrja á að benda hv. þingmanni á að allar starfandi afurðastöðvar í mjólkuriðnaði geta nýtt sér þessi heimildarákvæði búvörulaga, ekki einungis MS. Það stóð til um síðustu aldamót að mjólkuriðnaðurinn færi undir frjálsa samkeppni, en kannski latti umræðan um einkavæðingu ríkisfyrirtækja og fákeppni á dagvörumarkaði, sem áberandi var upp úr aldamótunum, til þess að þetta skref yrði stigið. Þá voru forráðamenn smáverslana um allt land uggandi um sinn hag og framtíð þeirra ef af þessum áformum yrði. Ég gæti spurt hv. þingmann: Hvernig hefur gengið á þeim markaði?

Því var horfið að því ráði, að mér skilst, að setja í búvörulög ákvæði um heimild til samstarfs eða sameiningar til að skapa þær aðstæður að hægt væri að minnka fjárfestingarþörf í greininni, sérhæfa afurðastöðvar og lækka þar með vinnslu- og dreifingarkostnað mjólkur. Tilgangurinn var skýr, það átti að lækka kostnað og taka af öll tvímæli um að árangri af fyrirhugaðri hagræðingu skyldi skilað til neytenda og bænda. Á því sem liggur fyrir nú þegar í ráðuneytinu, þá vitna ég aftur til skýrslu Hagfræðistofnunar, sýnist mér að tilgangi laganna frá 2004 hafi verið náð. Við væntum þess að úttekt Hagfræðistofnunar HÍ, á árangri í starfsemi mjólkuriðnaðar undir þeim lögum sem starfað hefur verið eftir síðasta áratuginn, muni skýra það enn frekar hvernig tekist hefur til út frá sjónarhóli neytenda og þá getum við tekið þessa umræðu aftur.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort ekki sé kominn tími til að afnema þær. Þá svara ég því þannig til, eins og ég hóf ræðu mína, að ég hyggst sem landbúnaðarráðherra skipa nefnd þingmanna úr stjórn og stjórnarandstöðu til að yfirfara ákvarðanir frá 2004. Það er eðlilegt. Löggjafinn setti þessi lög. Þingið tók þær og það er Alþingis að meta þær í ljósi reynslunnar. Ég vona að nefndin muni svara spurningunni og ég vona að hún skyggnist í allar áttir og meti það meðal annars hvort og hvernig fyrirkomulag í mjólkuriðnaði í öðrum löndum gæti gagnast okkar aðstæðum á Íslandi til framtíðar. Hættum að horfa í baksýnisspegilinn.

Ég geng með opnum hug til skoðunar á þessum málum og vil hvorki festast í fortíðinni né heldur ana út í einhverja ófæru að óskoðuðu máli.

Að lokum: Á ekki samkeppni í framleiðslu, verðlagningu og sölu erindi inn á þetta svið matvælaiðnaðar eins og önnur? Alþingi svaraði þessari spurningu neitandi árið 2004 er varðar framleiðslu og verðlagningu á hluta mjólkuriðnaðarins svo að það sé nú líka tekið fram að það eru ekki allar vörur á markaði. Við skulum sjá hver niðurstaðan verður. Ég vil þó nefna að ég styð ekki brot á samkeppnislögum, hvorki í mjólkuriðnaði né á nokkru öðru sviði, en ég vil ítreka að kerfið er í skoðun og komi í ljós að úr þurfi að bæta mun þingið og ráðuneytið og sá er hér stendur væntanlega taka á því.



[11:23]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vert að hafa í huga að sú undanþága sem mjólkuriðnaðurinn nýtur samkvæmt 71. gr. búvörulaga er ekki ótakmörkuð. Það er afar vel rakið í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Samkvæmt lagagreininni er afurðastöðvum heimilt að sameinast, að gera samkomulag um verkaskiptingu milli samlaga og eiga samstarf til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu. Hvergi er að finna heimild til að beita því sem heitir á erlendum tungumálum „predatory pricing“ og felst í því að verðleggja með ólíkum hætti til samkeppnisaðila og skyldra aðila. Það er annars konar framganga en sú sem leyfð er með þessari undanþágu. Þess vegna var niðurstaða Samkepniseftirlitsins sú sem hún varð og þess vegna er hún efnislega rétt.

Það þyrfti sérstaka lagaheimild til þess að heimila að beita ólíkri verðlagningu á skylda og óskylda aðila. Það er misnotkun á markaðsráðandi stöðu samkvæmt öllum kennslubókum í samkeppnisrétti. Það er hvergi í undanþágunni heimild til að beita misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Virðulegi forseti. Ég rakti hér áðan nýjar hugmyndir sem eru að hasla sér völl innan landbúnaðarins. Forsvarsmenn ungra bænda hafa sett fram skynsamlegar hugmyndir um sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað sem geti falist í því að brjóta af greininni það kerfi hafta og fákeppni sem hefur haldið aftur af vöruþróun í greininni og afkomumöguleikum bænda og náð á sama tíma því takmarki að bæta hag neytenda. Mér finnst hæstv. landbúnaðarráðherra gefa hér til kynna að hann sé ekki kominn mjög langt á þeirri vegferð. Það er óskandi að stjórnarmeirihlutinn átti sig á því að það eru sóknarfæri í breytingum fyrir bændur (Forseti hringir.) og fyrir neytendur. Það er mikilvægt að grípa þau tækifæri.



[11:26]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á Íslandi eru um 660 kúabændur. Þessir 660 einyrkjar hafa komið sér sameiginlega upp samvinnu um fyrirtæki sem heitir MS til að annast milligöngu og vinna afurðir á eins hagkvæman og ódýran máta og mögulegt er fyrir sjálfa sig og neytendur. Að neytendahliðinni hafa verkalýðssamtök einnig komið, ASÍ og BSRB, í gegnum verðlagsnefndir til að ákveða verð á þessum afurðum. Með öðrum orðum, þetta eru lausnir sem byggja á samvinnu og jöfnuði, þetta eru lausnir samvinnu og jafnaðarsamfélagsins. Einmitt það er mörgum þyrnir í auga. Af hvaða ástæðum? Pólitískum. Ég segi: Eigum við ekki að skoða málið praktískt fremur en pólitískt?

Ég tek undir með málshefjanda að það þurfi að verja hinn veikasta. Hver er hann? Það er tekjulítið fólk á Íslandi sem vill kaupa mjólk og mjólkurafurðir. Er það rétt sem MS, fyrirtæki bændanna, fullyrðir að mjólk og mjólkurafurðir hafi á síðustu tíu árum lækkað að raunvirði um 20–30% og varið hag bændanna líka, náð niður kostnaði um 3 milljarða á ári, 2 milljarða fyrir neytendur og 1 milljarð fyrir bændur? Er þetta rétt? Eigum við ekki að skoða það?

Það eru fleiri sem koma að mjólkurframleiðslu og mjólkurdreifingu. Það er verslunin. Verslunin hefur líka verið með staðhæfingar. Það var gerð skýrsla fyrir Verslunarráð Íslands 2012 sem sýndi fram á að framlegð í verslun væri minni hér á landi en í grannríkjum okkar. Þarna eru sóknarmöguleikar fyrir neytendur.

Nú skora ég á alla þá sem að þessum málum koma, ekki bara Bændasamtökin heldur BSRB, ASÍ og Verslunarráð Íslands að setjast sameiginlega (Forseti hringir.) yfir þessi mál á praktískum forsendum fyrir hinn veikasta í samfélaginu, (Forseti hringir.) fyrir íslenska neytendur, (Forseti hringir.) og verja kerfið ef það hefur skilað (Forseti hringir.) og skilar árangri og sækja fram (Forseti hringir.) þar sem það á við. Það er ekki síst í versluninni.



[11:28]
Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka málshefjanda þessarar sérstöku umræðu og fagna henni. Það er mikilvægt að við komumst í að ræða efnislega um þetta stóra mál.

Ég vil í upphafi fagna þeirri yfirlýsingu landbúnaðarráðherra sem hér var flutt um að hann hefði falið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera úttekt á þeim árangri sem náðst hefur. Ég vil meina að árangur hafi verið verulegur, sem sýnir sig meðal annars í því að raunlækkun hefur orðið á verði mjólkurvara og raunhækkun á afurðaverði til bænda. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Ég vil líka minna á að mjólkuriðnaður er aðeins að hluta til undanþeginn samkeppnislögum. Víða er verið að rannsaka mjólkuriðnað eins og allan annan samkeppnisrekstur í heiminum. Í því sambandi er rétt að rifja hér upp að fyrir skemmstu sektuðu samkeppnisyfirvöld í Finnlandi þar lítinn mjólkurframleiðanda fyrir að undirbjóða þann stóra, þ.e. finnska samvinnufélag bænda var sektað í Finnlandi fyrir að undirbjóða Arla sem er miklu stærri risi á mjólkurmarkaði, þannig að þetta getur verið á báða bóga.

Ég velti fyrir mér þeim rannsóknarspurningum sem landbúnaðarráðherra leggur fyrir Hagfræðistofnun því að þær skipta verulega miklu máli. Það er mikið atriði að komast að því hvort þessi aðferð hefur skilað árangri umfram aðrar. Við getum nefnilega borið hana saman við aðrar aðferðir um verðlagningu á búvörum. Ég vil nefna afkomu kartöflubænda og verðþróun á undanförnum árum.

Ég vil ekki heldur gleyma því að undanþágan sem við fjöllum svo oft um er líka grunnur að þeirri byggðastefnu sem við höfum nú. Ég velti til dæmis fyrir mér hvort rekin væri mjólkurvinnsla í Búðardal eða á Egilsstöðum í dag ef ekki væri fyrir þessar heimildir til skipulagningar. Ég vil líka minna á að bændur hafa jafnstöðu gagnvart því fyrirtæki að framleiða og selja mjólk. Ég vil einnig minna á það að mjólkuriðnaðinum er skylt að afhenda þessa vöru á sama verði um allt land.

Enginn bókstafur, hvorki ákvæði í búvörulögum né öðrum lögum, er svo heilagur að það megi ekki breyta eða kúvenda. Ég hvet (Forseti hringir.) til almennrar þátttöku og samstöðu um það.



[11:31]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er mjög áhugavert mál vegna þess að svo virðist vera sem raunhækkun hafi verið á afurðaverði þannig að þeir sem framleiða mjólk hafa fengið meira fyrir sinn snúð á sama tíma og raunlækkun hefur verið á mjólkurverði. Neytendurnir hafa því fengið vöruna á lægra verði. Hvað stendur þarna á milli? Það er Mjólkursamsalan og kerfið sem er búið að setja upp sem hefur leitt til þessarar hagræðingar.

Ég kann þetta mál ekki í þaula en það virðist vera sem þetta sé afrakstur kerfis sem drepur aftur á móti niður samkeppni. Litli maðurinn á markaðnum þrífst ekki í þessu umhverfi. Þetta batterí, þetta kerfi heimilar undanþágur frá samkeppnislögum.

Þá kemur hin spurningin: Hvað hefði gerst ef það hefði verið frjáls samkeppni á þessum markaði? Hefði frjáls markaður ekki náð sama árangri og þetta ríkisbatterí hafta og undanþágu frá samkeppnislögum? Það finnst mér stóri, áhugaverði þátturinn í þessu máli.

Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að með lögum og höftum gegn samkeppni getum við náð fram meiri skilvirkni, a.m.k. á þessum markaði, hvað ætlum við þá að gera? Ætlum við þá að láta skilvirknina á markaðnum ráða eða atvinnufrelsi einstaklinga til að stunda viðskipti á þessum markaði? Hvað verður þá ofan á? Verður það hagkvæmnin eða frelsi í viðskiptum, atvinnufrelsi?



[11:33]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari víðtæku umræðu um landbúnaðarkerfið sem er að mörgu leyti gallað og þjónar ekki endilega hagsmunum neytenda, skattgreiðenda eða jafnvel bænda. Það að vilja breyta kerfinu þýðir ekki að vera á móti bændum. Það virðist vera hluti af þeirri valdabaráttu og því að viðhalda kerfinu að gera lítið úr fólki sem hefur bent á veikleika kerfisins og óréttlætið sem í því felst.

Neytendasamtökin hafa í áratugi gagnrýnt landbúnaðarkerfið og kallað eftir breytingum með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Hverju hefur það skilað? Jú, Neytendasamtökin eiga ekki fulltrúa í verðlagsnefnd, þau eiga ekki fulltrúa í tollahópi sem landbúnaðarráðherra skipaði um daginn og ég veit ekki — eiga þau fulltrúa í þeim hópi sem á að endurskoða landbúnaðarkerfið? Ég ætla rétt að vona það. Það skortir ekki á þekkingu á málaflokknum hjá þessum samtökum, en þeim er haldið fyrir utan ákvörðunartöku vegna gagnrýni sinnar í gegnum tíðina. Vissulega eiga samtök launþega aðila í þessum hópum en samtök launþega er ekki það sama og samtök neytenda. Ég hlýt að velta fyrir mér hvort menn þoli ekki gagnrýni.

Mig langar aðeins að koma inn á tollamál líka. Við erum með fyrirtæki sem nýtur í rauninni bæði einokunar, þ.e. er með einokun á markaði, og verndar gegn samkeppni erlendis frá. Það ætti að vera fyrsta skrefið að fella niður tolla á vörum sem ekki eru framleiddar hér á landi því að útlendar vörur eru ekki hættulegri en svo að innlendir framleiðendur nota þær þegar þeim hentar, samanber írska smjörið. Viðkvæðið hefur verið að við viljum ekki afnema tollana heldur gera einhverja tollasamninga við aðrar þjóðir. Á sama tíma má ekki skoða hvaða áhrif aðild að ESB hefði í för með sér en það þýddi innganga í risastórt tollabandalag 28 Evrópuþjóða. Þannig að sama fólk og vill alls ekki í þetta tollabandalag ver að mörgu leyti úrelt landbúnaðarkerfi, einokun og yfirgang markaðsráðandi fyrirtækis. Verði okkur að góðu!



[11:35]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu því að ég vænti þess að hún verði kannski til að dýpka skilning manna og dýpka þá umfjöllun sem hefur verið ansi mikið í eina átt undanfarna daga.

Fákeppni kemur að jafnaði niður hvort tveggja á neytendum og framleiðendum, en þó er það þannig að mjólk er undir opinberri verðlagningu og verðlagseftirliti og/eða framleiðslustýringu hins opinbera hér á landi og í nágrannaríkjum okkar beggja vegna Atlantsála. Fyrirkomulagið sem var komið á hér 2004 hefur sannað sig í því að að mjólk og mjólkurvörur hafa hækkað minna en neysluvöruvísitala en jafnframt skilað þeim árangri að bændur bera meira úr býtum. Hagræðingin hefur skilað þessu og er það vel.

Þó er nauðsynlegt að öll mannanna verk séu tekin til skoðunar öðru hverju og því er það fagnaðarefni að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að kalla eftir skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskólans Íslands og stofna þverpólitíska nefnd til þess að fara yfir þetta mál.

En leið mjólkurvara frá bændum til neytenda endar ekki hjá vinnsluaðilum, hún endar í versluninni, hún endar í smásöluverslun. Þar vantar mikið upp á að samkeppnin sé næg og það er efni í aðra sérstaka umræðu.

Í verslun hefur ekki orðið viðlíka hagræðing og í landbúnaði, það er ljóst. Samkvæmt McKinsey-skýrslunni er hér 20% ofmönnun í verslun og hæstu fermetratölu á mann sem þekkist í nágrannalöndum. Auðvitað verðum við að taka þessa umræðu heilt yfir. Það er þó ljóst að þeir sem hafa yfirburðastöðu á markaði gangast undir samfélagslega ábyrgð (Forseti hringir.) sem fylgir slíkri stöðu og þeir þurfa að standa undir henni, hvort sem það er mjólkuriðnaðurinn, smásöluverslunin eða hver sem það er. Og menn þurfa (Forseti hringir.) að hafa til að bera næga auðmýkt gagnvart umbjóðendum sínum til þess að hlusta á þá.



[11:37]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sérhagsmunir hafa sterka stöðu á Alþingi. Svo langt gengur fyrirgreiðslan að fyrir tíu árum síðan veittu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn markaðsráðandi aðila undanþágu frá samkeppnislögum. Nú þegar afhjúpað hefur verið í hvílíkar ógöngur þessi einokun er komin eru þó engu að síður engir þingmenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks eða Vinstri grænna tilbúnir til þess að afturkalla undanþáguna frá samkeppnislögum Allt er óbreytt, sérhagsmunirnir eru í meiri hluta á Alþingi.

Jafnvel frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum reyna að fela sig á bak við það að nú eigi að skoða samkeppni í landbúnaði í nefnd á vegum Kaupfélags Skagfirðinga.(Gripið fram í.) En þó að Alþingi valdi vonbrigðum í málinu er hins vegar fullkomlega ósæmilegt og til að bíta höfuðið af skömminni þegar ráðherrann reynir að skjóta sendiboðana; þegar hann fer fram með líkum hætti og Guðni Ágústsson og dylgjar um þá sem flytja fréttirnar.

Ég krefst þess af hæstv. ráðherra að hann segi hér í ræðustól hvað hann á við í fjölmiðlayfirlýsingum um tengsl fréttamanna Kastljóss. Fréttamenn Kastljóss gerðu grein fyrir tengslum sem þeir töldu að gætu orkað tvímælis og þyrfti að ræða. Það getur ekki gengið að þegar þeir uppfylla starfsskyldur sínar með þeim heiðarlega hætti sitji ráðherrann í útvarpssal og dylgi um að menn gætu nú farið að skoða tengsl starfsmanna Kastljóss.

Ef ráðherrann telur að eitthvað þurfi að ræða um tengsl starfsmanna Kastljóss í þessu sambandi er annað ósæmandi en að hann tilgreini þau tengsl og segi alveg skýrt hvað hann á við en sé ekki að dylgja um það í útvarpssal, síst af öllu þegar hann kvöldinu áður hefur setið í þeim sama þætti, Kastljósi, og haft fullkomið tækifæri til þess að ræða allar þær ávirðingar sem hann hafði vegna umfjöllunarinnar í Kastljósi (Forseti hringir.) við mennina sjálfa augliti til auglitis að þjóðinni ásjáandi. (ÖJ: … jafnaðarmenn á mælendaskrá?)



[11:40]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel mig vera mikinn jafnaðarmann og þarf kannski að taka við því hlutverki af sumum hér sem telja sig vera það líka. En ég tel að það sé eðlilegt að endurskoða samkeppnislög og tryggja rétt smærri úrvinnsluaðila á aðgengi að hráefni á sama verði. En við skulum ekki gleyma því að veruleikinn er ekki bara svartur og hvítur, ekki í þessu máli frekar en öðrum. Það hefur orðið gífurleg hagræðing í mjólkuriðnaði í landinu sem hefur verið sársaukafull fyrir samfélögin, neytendur og bændur. Hagræðingin hefur skilað neytendum vörulækkun, raunlækkun vöruverðs á mjólkurvörum og bændur hafa líka að einhverju leyti notið þess. En ég tel að strax í upphafi, þegar mjólkuriðnaðurinn sameinaðist og fékk undanþágu að hluta til frá samkeppnislögum, hefði átt að setja skýr skilyrði. MS, með sína ráðandi stöðu í söfnun mjólkur alls staðar að af landinu, hefði þurft að gangast undir þá skyldu að selja áfram mjólk og hráefni til annarra smærri úrvinnsluaðila í greininni á sama verði, hvort sem það eru skyldir eða óskyldir aðilar.

Þannig væri hægt að tryggja samkeppni í úrvinnslu mjólkur og fjölbreytta flóru fyrirtækja sem kæmu inn með nýjar vöru og vöruþróun eins og hefur verið að gerast hjá Örnu í Bolungarvík og fleiri fyrirtækjum. Mjólkursamsalan hefur ekki verið neinn engill, ég ætla ekki að segja annað hér, og við vitum alveg að þar hafa orðið brestir. Það þarf að tryggja að samkeppnislög séu ekki brotin, það eigum við ekki að líða. En hugmyndafræðina á bak við regluverk Mjólkursamsölunnar, að bændur hvar sem er á landinu fái sama verð fyrir sína vöru og líka að smásöluverslunin fái vöruna á sama verði frá MS, tel ég vera jafnaðarstefnu sem nýtist neytendum. Við eigum ekki að brjóta upp regluverk sem hefur gagnast vel en við eigum að endurskoða þá þætti sem snúa að (Forseti hringir.) samkeppnishæfni smærri aðila. Það er hægt að gera án þess að (Forseti hringir.) rústa því kerfi sem hefur stuðlað að jöfnuði á milli neytenda, (Forseti hringir.) bænda og haft þau áhrif að lækka vöruverð í landinu í þessum geira.



[11:42]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er vert að minna á það undir þessu vinsældaupphlaupi hv. þm. Helga Hjörvars og annarra Samfylkingarmanna í þessu máli að þeir sátu í ríkisstjórn frá árinu 2007–2013 og þá voru þessi lög í gildi. Þeir létu ekki svona þá. (Gripið fram í.) Það þarf ekki að velkjast í vafa um þá stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur sett sér í þessum málaflokki. Hún stendur einfaldlega í stjórnarsáttmálanum mjög skýrum stöfum. Þar segir m.a. að ríkisstjórnin líti á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar. Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapi íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Skipaður verði starfshópur sem muni fara yfir alla lagaumgjörð landbúnaðar, vinnslu matvæla og nýtingu lands. Mótaðar verði tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum sem ráðast þarf í til að ná settum markmiðum. Nýsköpun, markaðs- og sölumál verði einnig endurskoðuð og stefnt sé að því að endurskoða búvörusamninga.

Þessi ríkisstjórn er að takast á við þetta mál. Hún hefur sett það í stjórnarsáttmála. Hæstv. landbúnaðarráðherra er að fylgja því eftir. Hann hefur beðið Hagfræðistofnun um að gera skýrslu um núverandi kerfi. Á þeirri skýrslu verður byggt í vinnu þverpólitískrar nefndar. Þetta hafði síðasta ríkisstjórn ekki kjark til að gera eða getu. Hér þarf ekki að segja fleiri orð, en þá koma þessir vinsældarpólitíkusar úr ákveðnum stjórnmálaflokkum og ætla að slá sér upp hjá þjóðinni með því að villa umræðuna enn og aftur um eina af grundvallarstoðum íslensks samfélags sem er öflugur landbúnaður. (Gripið fram í.) Já, kallaðu bara fram í, hv. formaður Samfylkingarinnar. Það er von (Gripið fram í.) að þér svíði sannleikurinn.

Það stendur auðvitað ekkert annað til en líta til þess árangurs sem orðið hefur og innleiða samkeppni á þessum vetttvangi, það stedur ekkert annað til. Það þarf ekki að draga það í efa, það kemur fram í stjórnarsáttmálanum. En hvernig ætlum við að gera það? Ætlum við ekki að gera það þannig að áfram ríki trúnaður og traust á milli bænda og neytenda í samfélaginu? Eigum við ekki að gera það þannig að það verði áfram búsældarlegt, við getum byggt upp öflugan landbúnað þannig að hér borgi sig að vera með öfluga bændur (Forseti hringir.) og það sé gert í þágu neytenda sem njóta áfram lágs og góðs vöruverðs á mjólkurafurðum?



[11:45]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Fáein orð um dreifikerfið. Hæstv. landbúnaðarráðherra nefndi að það þyrfti einn aðila til að tryggja jafnan aðgang bænda að dreifingu og aðgangi að mjólkurbúum. Það er allt gott og blessað en það sem liggur dálítið ljóst fyrir hérna, finnst mér að minnsta kosti, er að framleiðslan þarf greinilega að kaupa af þessu dreifikerfi. Ef það þarf opinbera framleiðslu til að tryggja fæðuöryggi og afkomu hráframleiðslunnar eiga bara allir að geta gengið jafnt að því dreifikerfi. Til þess að það sé ef það er opið dreifikerfi þarf greinilega að vera opið aðgengi að upplýsingum um opinbera framleiðslu líka ef hún kaupir af þessu dreifikerfi. Ástæðan fyrir því er einfaldlega spillingarmöguleikar. Það er það sem bent var á í umfjöllun Kastljóss.

Það má benda á áhugaverðan samanburð við þetta og grunnnet samskipta þar sem ekki á að vera hægt að skipta sölunni á milli grunnkerfis Símans og þjónustunnar eða sölunnar. Það virðist vera ósatt eins og sagan hefur leitt í ljós og af hverju er ekki hægt að gera svipað þar? Það hefur verið talað um allan fisk á markað. Mjög svipað dreifikerfi, mjög svipuð hugmynd.

Nú er mjög kaldhæðnislegt að næsta mál á dagskrá snýst einmitt um frjálsa verslun áfengis, verslun með áfengi og tóbak, smásölu áfengis. Er það ekki dálítið viðeigandi svipað mál og við erum að ræða hérna? Hvernig kemur það til með að hljóma frá öðrum stjórnarflokknum?

Ég ítreka bara eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson benti á, ef frjáls verslun getur ekki verið hagkvæmari, hvað þá? Ég vil bæta við að þar á bak við er ákveðinn kostnaður og það er þessi spilling sem við erum að glíma við. Það er það sem við eigum að einbeita okkur að því að útrýma.



[11:47]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka áhugaverða umræðu. Mér fannst til dæmis áhugavert að heyra jafnaðarhugsjóninni beitt til réttlætingar á einokun á markaði. Ég velti fyrir mér hvort sú röksemdafærsla gildi þá ekki á öllum sviðum samfélagsins og væri fróðlegt að skoða þá heimsmynd sem þá blasti við.

Einnig fannst mér forvitnilegt og athyglisvert að heyra yfirlýsingar frá hæstv. ráðherra. Ég fagna því að það eigi að endurskoða kerfið og að það eigi að setja á fót þessa þverpólitísku nefnd. Það er viðleitni til staðar og ég fagna því.

Eftirfarandi fullyrðing fannst mér áhugaverð: Allar afurðastöðvar geta nýtt sé undanþágur frá samkeppnislögum.

Þetta hljómar flott, en hver er veruleikinn? Eru ekki afurðastöðvarnar tvær? Og þær eru í samstarfi. Í hugann koma fleyg orð: Þar sem eru tvö tré, þar er skógur.

Afurðastöðvarnar eru Auðhumla og Kaupfélag Skagfirðinga. Þetta er umhverfið, þetta eru þessar „allar afurðastöðvar“ sem geta nýtt sér undanþágurnar.

Hvað er Mjólkursamsalan? Mjólkursamsalan er úrvinnsluaðili í eigu Auðhumlu og Kaupfélags Skagfirðinga. Þegar hráefnið er komið til Mjólkursamsölunnar er það búið að fara í gegnum afurðastöðvarnar — sem eru Auðhumla og KS. Mjólkin hjá Mjólkursamsölunni er bara orðin eins og hver önnur iðnaðarvara og á því stigi framleiðslunnar á auðvitað að ríkja samkeppni. Úrvinnsluaðilarnir eiga að vera í virkri samkeppni sín á milli um það að framleiða vörur í nýsköpun, um það að kaupa hráefnið af bændum á góðu verði. Þannig á þetta fyrirkomulag að vera.

MS sem úrvinnsluaðili hagar sér einfaldlega (Forseti hringir.) þannig að það er eitthvert átakanlegasta dæmið um markaðsmisnotkun sem um getur (Forseti hringir.) í samfélaginu. Það er það sem þarf að stöðva, þetta (Forseti hringir.) ofríki hins stóra gegn hinum smáa á úrvinnslustiginu (Forseti hringir.) í landbúnaðarframleiðslu.



[11:50]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka meira og minna málefnalega umræðu fyrir utan hv. þm. Helga Hjörvar sem kom hér upp með sitt hefðbundna „að skjóta og kannski spyrja seinna en jafnvel sleppa því“. Mér finnst mikilvægt í þessari umræðu að spyrja fyrst. Ef það þarf að skjóta, þá er skotið, annars bregðast menn við með öðrum hætti.

Bændur sjálfir, 650 bændur, ákváðu út frá samstöðu, samstarfi og samvinnu að búa til það kerfi að allir sætu við sama borð. Má halda því fram að þeir hafi hafnað samkeppni frá því að einn stór aðili sem byggi við hliðina á mjólkurstöð gæti selt sína vöru ódýrara vegna þess að flutningskostnaðurinn er lægri? Já, það má halda því fram. Þeir bjuggu til kerfi þar sem allir sátu við sama borð, allir, hvar sem þeir búa á landinu. Það var mikil ákvörðun hjá bændum.

Hagræðing í mjólkuriðnaði á síðustu tíu árum hefur kostað mikið, úr 17 stöðum niður í fimm. Það er margt fólk sem hefur misst vinnuna og margir staðir orðið fyrir miklu höggi. Hvernig er það gert? Jú, með því að tryggja að atvinnan sé hringinn í kringum landið hjá þeim smáu sem geta ekki keppt við hina stóru.

Í McKinsey-skýrslunni er meðal annars farið yfir stöðu mjólkuriðnaðarins. Þar eru innviðir sterkir og vaxtarmöguleikar miklir, ég er sammála hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Þar er líka fjallað um verslunina. Hún er sögð of stór, hún þarf að minnka. Stórverslunin skilar hagnaði upp á milljarða, en vegna opinberrar verðlagningar er Mjólkursamsölunni skammtað að skila af sér 200 milljónum, 230 ef henni gengur vel.

Milljarðar hjá öðrum aðilanum á samkeppnismarkaði. Hjá hinum, ef þeim gengur vel, 200 milljónir. Er samkeppni alltaf hin besta? Við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar.

Í fjarskiptum, í ljósleiðarakerfinu (Forseti hringir.) á Íslandi, er búið að leggja tvo eða þrjá ljósleiðara á höfuðborgarsvæðinu fyrir 22 milljarða. Það er 10 milljarða umframfjárfesting. Hverjir borga það? Neytendur. (Forseti hringir.) Fjarskiptafyrirtækin segja síðan úti í dreifbýlinu: Við tökum ekki þátt í því að byggja upp ljósleiðara á markaðslegum forsendum. (Forseti hringir.) Þar er engin samkeppni. Hver á að gera það? Er samkeppni alltaf best? (Forseti hringir.) Við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar og gera það málefnalega.