144. löggjafarþing — 20. fundur
 16. október 2014.
framkvæmd skuldaleiðréttingar.

[10:32]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú hafa okkur borist fréttir af því að nokkuð óljóst sé um framkvæmd hinnar miklu skuldaleiðréttingar. Eftirlitsstofnun EFTA fylgist með framkvæmd skuldaleiðréttingarinnar vegna þess að hún geti haft í för með ólögmætan ríkisstyrk til banka. Við bentum á þetta í vor og þá sérstöku staðreynd að ríkisstjórnin og meiri hluti þingsins lagði lykkju á leið sína til að borga bönkum kröfur sem þeir eiga ekki einu sinni kröfu á að fá borgaðar frá fólki í dag fyrr en eftir dúk og disk og hafa jafnvel skrifað upp á að afskrifa með tilteknum skilyrðum eins og t.d. peninga sem safnast hafa upp á greiðslujöfnunarreikningum. Svo er í mörgum tilvikum verið að borga bönkum fyrr upp lán sem þeir hafa kannski engan hag af því að fá greitt upp snemma.

Við þessar aðstæður skapast auðvitað gríðarlega mörg álitaefni. Hættan sem blasir við er að þetta kerfi sé allt saman búið til í raun til þess að gera bönkum greiða. Það er greinilega það sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur áhyggjur af.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra til að taka af allan vafa hvort ekki sé algerlega öruggt að allar forsendur samninga um verðmat á þeim greiðslum sem fara úr ríkissjóði til banka og lífeyrissjóða verði birtar opinberlega um leið og leiðréttingin sjálf verður tilkynnt þannig að forsendurnar verði öllum ljósar. Það hljóta að vera þjóðarhagsmunir að leiða í ljós algerlega allar efnislegar forsendur til að taka af allan vafa um að verið sé að hygla fjármálafyrirtækjunum með leiðréttingunni.



[10:34]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Jú, það er alveg öruggt að allar forsendur sem eru ekki þegar komnar fram í sjálfum lögunum verða gerðar opinberar, enda eru stjórnvöld ekki í færum til að gera endanlega útreikninga nema allar forsendur hafi verið ákveðnar. Að sjálfsögðu er það þannig.

Annars er það svo að það var fyrir frumkvæði íslenskra stjórnvalda að óskað var eftir áliti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og hvatt til þess að fylgst yrði með framkvæmd þessa máls í stað þess að ferli færi af stað með einhverjum hætti eftir á. Á þessu stigi máls er engin ástæða til að ætla að aðgerðin í heild sinni stangist á við ríkisstuðningsreglur.



[10:35]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra og túlka hana þannig að gert verði opinbert hverjar forsendur greiðslnanna eru vegna þess að milljón króna greiðsla til eins aðila getur verið annars virði en milljón króna greiðsla til annars. Það getur annars vegar verið um að ræða banka með óvissa kröfu aftarlega á veðrétti sem er dauðfeginn að fá milljón meðan á hinn kantinn kann að vera lífeyrissjóður með öruggt veð fyrir sinni kröfu og vill helst ekkert fá þessa milljón. Það þarf þá væntanlega að borga lífeyrissjóðnum álag fyrir að þiggja milljónina en það getur verið eðlilegt að fá afslátt hjá bankanum fyrir milljónina sem hann fær. Þetta er flækjustigið sem hæstv. fjármálaráðherra stendur frammi fyrir. Við vitum auðvitað að hann er hæfileikamaður, hann getur töfrað fram máltíð eftir máltíð á 248 kr. máltíðina en þarna reynir virkilega á. Mun verða hægt að útfæra þetta þannig að ekki reyni á ríkisstyrkjareglurnar? Lykilatriðið í því er að þessar forsendur verða að vera opinberar áður en (Forseti hringir.) peningarnir eru greiddir út til almennings. Það er grundvallarkrafan.



[10:37]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hv. þingmaður vill nálgast þetta mál. Þetta er ekki mál sem gengur út á að færa réttindi til fjármálafyrirtækja heldur til einstaklinga, til heimilanna, þeirra sem skulda. Ríkið gengst hér ekki í ábyrgð fyrir nokkrum hlut heldur veitir réttinn til heimila sem skulduðu verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009. Eftir ákveðnum reiknireglum verður greitt út til þeirra inn á þau lán sem viðkomandi óska eftir að verði gerð upp.

Það er ekki svo að aðgerðin taki tillit til þess hvort lán er á 1. veðrétti eða 4. eða hvort viðkomandi lán standi vel gagnvart veðinu eða verr. Aðgerðin er öll skuldaramiðuð.