144. löggjafarþing — 22. fundur
 21. október 2014.
sérhæfð þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu, 1. umræða.
stjfrv., 257. mál (heildarlög). — Þskj. 295.

[17:09]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sérhæfða þjónustumiðstöð á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu. Með frumvarpinu er ætlunin að sameina Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, auk TMF Tölvumiðstöðvar, í nýja þjónustumiðstöð sem mun þjónusta þá hópa sem stofnanirnar hafa sinnt til þessa. Með sameiningu þessara þriggja stofnana á vegum velferðarráðuneytisins og TMF Tölvumiðstöðvar er stefnt að því að auka gæði og skilvirkni þjónustu og bæta aðgengi að henni.

Hin nýja miðstöð kemur til með að sinna sömu hópum og framangreindar stofnanir, en það eru einstaklingar með heyrnarskerðingar, heyrnarleysi, talmein, blindu, sjónskerðingu, daufblindu, þroskaraskanir, einhverfu, meðfæddar alvarlegar hreyfihamlanir og fágæta sjúkdóma. Þannig er frumvarpinu ætlað að bæta þjónustu við fatlað fólk sem hingað til hefur oft þurft að leita til fleiri en einnar stofnunar vegna fjölþættra fatlana.

Jafnframt er ætlunin að auka þá þjónustu sem hefur verið hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þannig að hún nái einnig til fullorðinna, en til þessa hefur hún fyrst og fremst sinnt börnum undir 18 ára aldri.

Í frumvarpinu er lagt til að hin nýja stofnun muni sinna fólki á öllum aldri þegar fram í sækir en sú breyting verði í áföngum. Fram til 1. janúar 2017 mun þjónusta miðstöðvarinnar við einstaklinga með einhverfu, alvarlegar þroskahamlanir og meðfæddar alvarlegar hreyfihamlanir vera með óbreyttu sniði og ná aðeins til þeirra sem eru undir 18 ára. Frá þeim tíma til 1. janúar 2019 er markmiðið að þjónustan nái til þeirra sem eru 30 ára og yngri. Eftir þann tíma og til 1. janúar 2021 mun þjónustan ná til þeirra sem eru yngri en 50 ára og frá 1. janúar 2021 annast miðstöðin þjónustu við alla óháð aldri.

Auk þessa er lagt til að miðstöðinni verði falinn rekstur og umsýsla sérfræðiteymis sem starfar samkvæmt 14. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, en því er ætlað að veita þjónustuveitendum ráðgjöf um aðferðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk.

Hlutverk miðstöðvarinnar verður að veita sérhæfða félagsleg- og heilbrigðisþjónustu á sviði ráðgjafar, greiningar, meðferðar, hæfingar og endurhæfingar. Jafnframt skal hún þjóna hlutverki þekkingarmiðstöðvar sem aflar og miðlar upplýsingum og þekkingu og stuðlar að nýsköpun og þróun tækni á starfssviði sínu. Þá skal hún veita einstaklingum með sjaldgæfa sjúkdóma og sjaldgæfar fatlanir sem undir sérsvið miðstöðvarinnar heyra sérhæfða aðstoð eftir því sem við á. Loks skal hún sinna rannsóknum og fræðastarfi, m.a. í samstarfi við háskólastofnanir og stofnanir ríkis og sveitarfélaga.

Frumvarpið byggir m.a. á skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2013 um stofnanir sem þjónusta einstaklinga með skerta færni. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Starfsmenn þessara stofnana búa yfir mikilli fagþekkingu og hjá þeim starfa 25–30 fagstéttir. Hluti þeirra sinnir sambærilegum störfum eða á sama fagsviði. Sameiginlegt húsnæði myndi auðvelda samskipti þeirra og stofnun öflugra þverfaglegra teyma til að sinna þörfum einstaklinga með skerta færni. Með hagræðingu í rekstri skapast einnig fjárhagslegt svigrúm til að efla faglega starfsemi stofnananna enn frekar.

Allar stofnanirnar nýta upplýsingatækni við þjónustu sína. Aukin samvinna myndi breikka þekkingargrunn starfsmanna og stuðla að enn öflugri þróun og samnýtingu á lausnum til hagsbóta fyrir notendur þjónustunnar. Stofnanirnar stunda einnig allar rannsóknir og kennslu, sumar á háskólastigi. Með nánari samvinnu skapast betri aðstæður til rannsókna- og þróunarstarfs sem veita mun betri innsýn í þarfir fatlaðra einstaklinga og stuðla þannig að skilvirkari og betri þjónustu.“

Fýsileikaathugun ráðuneytisins í samstarfi við stofnanirnar sem fyrirhugað er að sameina leiddi til þeirrar niðurstöðu að meiri ávinningur mundi nást með sameiningu stofnananna í eina stofnun frekar en sameiningu þeirra undir sama þaki og var það jafnframt í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar um að velferðarráðuneytið kannaði kosti þess og möguleika á því að sameina tvær eða fleiri stofnananna að fullu.

Virðulegi forseti. Með þessum faglega og fjárhagslega ávinningi sem verður af sameiningunni munum við geta bætt þjónustuna, aukið gæði hennar og skilvirkni til hagsbóta fyrir fólk með skerta færni, líkt og ég sagði hér í upphafi. Í mínum huga er það og hefur ætíð verið forsenda þess að ég legg til þessa sameiningu.

Við vinnslu frumvarpsins var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila og forstöðumenn viðkomandi stofnana. Fjölmargar athugasemdir bárust við fyrirliggjandi frumvarpsdrög sem leitast hefur verið við að taka tillit til við endanlegt frumvarp. Almennt virtist mikil ánægja vera með fyrirhugaða sameiningu.

Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frumvarps. Það er von mín að með þessum breytingum muni sérhæfð þjónusta við framangreinda hópa batna til muna, en mikilvægt er að hún sé veitt á breiðum þverfaglegum grunni og ég tel að sameining þessi mun ná því markmiði.

Gert er ráð fyrir að ný stofnun verði staðsett á höfuðborgarsvæðinu, en jafnframt verði rík áhersla lögð á að jafna sem mest aðgengi allra landsmanna að þjónustu hennar óháð búsetu.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. velferðarnefndar og svo til 2. umr.



[17:16]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Í máli ráðherra kom fram að haft hefði verið víðtækt og mikið samráð við hagsmunaaðila og viðkomandi stofnanir og tekið hefði verið tillit til ábendinga frá þeim aðilum. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hvernig á því stendur að forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins til margra ára eða áratuga og framkvæmdastjóri Blindrafélagsins gera alvarlegar athugasemdir við þessar áætlanir. Hefur samráðið við þessa aðila ekki skilað sér eða athugasemdir þeirra inn í frumvarpið?

Það eru starfandi mjög fjölmenn, sterk og reynd félagasamtök í þessum geira eins og Blindrafélagið sem ég nefndi áðan. Þetta eru hópar fólks sem rekur stofnanir sem eru ekki reknar í ágóðaskyni heldur til þess ætlaðar að veita mjög sérhæfða þjónustu sem er byggð á reynslu þeirra sem þar starfa, oftar en ekki reynsla á eigin skinni. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að hlustað sé sérstaklega eftir því sem þaðan kemur.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Hverju sætir sú gagnrýni sem er óneitanlega fyrir hendi?



[17:18]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á bls. 9 í greinargerðinni kemur fram hvernig samráðinu var háttað. Væntanlega er hv. þingmaður að vísa til umfjöllunar DV um þessa sameiningu. Í sambandi við það sem kom fram í máli formanns Blindrafélagsins þá lýsti ég því mjög vel að forsenda mín varðandi þessa sameiningu hefði aldrei verið að draga saman í rekstri þessara stofnana heldur að nota sameininguna til þess að efla enn frekar starfsemina. Fram kom að á þeirri forsendu væri Blindrafélagið fylgjandi því að fara í þetta verkefni. Blindrafélagið hefur líka lagt áherslu á það að sameiningin eigi ekki að leiða til lakari þjónustu við þá sem Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin hefur verið að sinna heldur að efla þjónustustigið hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og Greiningar- og ráðgjafarstöðinni.

Það er mjög mikil ánægja með þjónustuna sem fólk hefur fengið hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni, en það mætti svo sannarlega bæta hana hjá hinum tveimur stofnunum. Það er von okkar að með þessari sameiningu verði nákvæmlega hægt að gera það svo að fólk með þá skertu færni sem ég taldi upp geti treyst því að það fái sambærilega þjónustu óháð því hver fötlun þess er.

Hvað varðar athugasemdir sem komu fram frá forstöðumanni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins þá hefur ráðuneytið haft mjög víðtækt samráð við alla forstöðumennina, líka við forstöðumann Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda sem viðkomandi hafði. Það var ástæða fyrir því að ég kom t.d. ekki fram með þetta frumvarp í vor, heldur settum við það í endurnýjað umsagnarferli og gerðum ákveðnar breytingar á því. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef og þeim fundum sem ég hef átt með viðkomandi forstöðumönnum og starfsmönnum ráðuneytisins þá eru menn sáttir við frumvarpið eins og það er lagt fram hér.



[17:20]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Einn af þeim aðilum sem gerði athugasemdir við frumvarpsdrögin var umboðsmaður barna. Í umsögn umboðsmanns má sjá áhyggjur af því að ekki sé nægilega miðað við þroska barna í frumvarpinu og í fyrirhugaðri vinnu, enda kom fram og er rétt að fyrirhugað er að taka þjónustu við fullorðna með einhverfu og alvarlegar þroskaraskanir inn í þetta kerfi í þrepum.

Umboðsmaður barna benti á að í upphaflegu drögum hefði verið gert ráð fyrir möguleikum á samvinnu við leikskóla og grunnskóla. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig fyrirhugað er að taka á samstarfi við leik-, grunn- og framhaldsskóla. Það er auðvitað ljóst að börn sem enn eru að þroskast þurfa miklu meiri þjónustu og annars konar þjónustu en fullorðnir. Þau þurfa líka snemmtæka þjónustu. Það þarf að grípa fljótt inn í. Þeir sem vinna með börnum í leikskólum, grunnskólum og jafnvel í framhaldsskólum þekkja mjög vel og betur en margur annar hvað bjátar á. Þess vegna er mikilvægt til þess að eftirfylgni geti orðið í skólanum að hafa samstarf.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig brugðist hefur verið við athugasemdum umboðsmanns barna um þessi atriði.



[17:22]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að það er ekki ætlunin með þessum breytingum að skerða á nokkurn máta þá þjónustu sem fólk hefur fengið á öllum aldri með skerta færni, heldur sjáum við þetta sem tækifæri til þess að bæta enn frekar í og auka enn frekar fagmennsku hjá því frábæra fólki sem vinnur þarna og sinnir þessum mikilvægu verkefnum. Við viljum nýta þann ávinning sem við teljum að geti orðið við það að sameina þessar stofnanir til að bæta enn frekar þjónustuna.

Gerðar voru ákveðnar breytingar sem sneru að frumvarpinu. Ég vil taka sérstaklega fram að ég er mjög sátt við að inn í 4. gr. frumvarpsins komi, með leyfi forseta:

„Stofnunin skal jafnframt sinna meðferð og ráðgjöf til einstaklinga með framangreindar skerðingar“ — sem ég taldi hér upp — „og til fjölskyldna þeirra auk þeirra sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma og falla undir starfssvið miðstöðvarinnar, m.a. með tilliti til meðferðar, þjálfunar og annars konar ráðgjafar og stuðnings.“

Miðstöðin mun þannig geta haldið betur utan um börn sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma. Það er skilgreint sérstaklega í skilgreiningu hugtaka hvað við erum að tala um. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið og náttúrlega velferðarnefnd horfi til þess að við þurfum að efla þessa þjónustu til framtíðar. Við sjáum ekki fyrir okkur að þjónustuþegum eða fólki með skerta starfsgetu muni fækka á næstu árum heldur akkúrat öfugt. Eftir því sem þjóðin eldist verða fleiri með sjón- og heyrnarskerðingu. Með bættri heilbrigðisþjónustu hefur fólk með fötlun og börn með fötlun miklu betri lífslíkur. Við getum búið þeim mun betri lífskjör og þess vegna skiptir svo miklu máli að við reynum að efla (Forseti hringir.) þessa starfsemi eins og hægt er. Það er markmiðið með þessu frumvarpi.



[17:24]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina fyrir málinu. Ég held að út af fyrir sig sé sjálfsagt að skoða það með jákvæðum huga á hverjum tíma hvort breyta megi skipulagi í ríkisrekstrinum og hugsanlega nýta betur það sem við höfum, bæði starfsfólk og fjármuni, því að það er jú verkefni okkar að ná sem allra bestri þjónustu fyrir þá sem á henni þurfa að halda, fyrir þá sem þurfa á þjónustu velferðarkerfisins að halda.

Ég verð þó að segja að almennt hefur mér þótt gæta tilhneigingar til ofmats á því hvaða hagræðingu megi ná fram í rekstri með sameiningu stofnana. Ég held að engar sönnur hafi verið færðar á það að sameiningu stofnana fylgi rekstrarhagræði eða fjárhagslegt hagræði. Ef menn skoða sögu sameiningar stofnana og úttektir Ríkisendurskoðunar á því er niðurstaðan af þeim úttektum hið gagnstæða. Það að sameina stofnanir sparar ekki peninga, það kostar peninga. Kostnaður við sameininguna fellur til á einhverjum árum. Umfang starfseminnar vex, ítrekaðar úttektir Ríkisendurskoðunar á sameiningu fjölmargra stofnana leiða það í ljós.

Nú kann að vera að yfir lengra árabil eða í einhverri langri framtíð náist eitthvert rekstrarhagræði með þessu, en reglan er hins vegar sú að sameining stofnana leiðir til aukins kostnaðar, að minnsta kosti um nokkurra ára skeið eftir að í slíka sameiningu er ráðist. Þetta er því ekki tæki til að ná fram rekstrarhagræðingu nema sérstakar aðstæður séu til þess eða einhver sérstök rök fyrir því. Það kann auðvitað að vera í þessu máli. Það er sjálfsagt að þingnefndin skoði hvort slík rök séu fyrir hendi. Ég vara almennt við því að menn reyni að nota sameiningu stofnana sem einhverja töfralausn í rekstrarhagræði.

Rekstrarhagræði er náttúrlega ekki hið eina, það getur verið faglegur ávinningur af því að sameina krafta á einum stað sem hafa verið á fleiri en einum. Ég held að það sé kannski sá liður sem helst sé líklegur til þess að fela í sér ávinning ef þessar þrjár stofnanir yrðu sameinaðar, þ.e. að það góða starfsfólk sem vinnur á þessum þremur stöðum gæti á einum stað og í samvinnu náð betri árangri en í þremur stofnunum. Það er þó auðvitað óvíst og fer eftir því hvernig samvinnu á milli þeirra er háttað núna og hvernig skipulaginu er fyrir komið eftir breytingarnar. Full ástæða er fyrir nefndina að fara efnislega vel yfir það.

Það sem ég hef þó kannski sérstakar áhyggjur af í málinu er að Þjónustu- og þekkingarmiðstöð blindra og sjónskertra, sem er ein af þessum þremur stofnunum, var sett á laggirnar eftir hrun. Ég held að ég fari rétt með að það hafi verið eina útgjaldamálið og eina jákvæða skrefið sem þingið steig veturinn eftir hrun, veturinn 2008–2009. Það var mjög jákvætt skref, geysilega vel heppnuð aðgerð, geysilega vel heppnuð stofnun og mikilvægar úrbætur á brýnni þörf, ekki síst barna sem voru afskipt og án stuðnings og þjónustu; blind og sjónskert börn út um skólakerfið víðs vegar um landið höfðu eiginlega bara týnst í kerfinu þegar málaflokkurinn var fluttur. Sér í lagi vantaði miðlæga þekkingu og miðlæga þjónustu fyrir þennan hóp. Ég er ekki alveg viss um að búið sé að bæta nægilega vel úr þeim mikla skorti og þeirri þörf sem þar var uppsöfnuð til að tímabært sé orðið að slá þessu saman við aðra þjónustu. Ef gera á það er að minnsta kosti mikilvægt að þær stofnanir sem til stendur að sameina Þjónustu- og þekkingarmiðstöð blindra og sjónskertra hafi með sér og frá ráðherranum nægilega fjármuni til að hægt sé að tryggja góða þjónustu við alla hópana sem hér heyra undir.

Ég þekki ekki nægilega vel til á Greiningarstöðinni og heldur ekki á Heyrnar- og talmeinastöðinni, en ég hef vissar áhyggjur af því að þar hafi skort fjármuni til að veita þá þjónustu sem við viljum veita. Til að þessi sameinaða stofnun geti veitt góða þjónustu öllum þeim sem til hennar þurfa að leita þarf, held ég, meiri fjármuni í sameinaða stofnun en verið er að veita í dag í þessar þrjár stofnanir hverja í sínu lagi. Annars væri ástæða til að hafa áhyggjur af því að góð þjónustustofnun, gríðarlega mikilvægt úrræði fyrir blinda og sjónskerta, ekki síst blind og sjónskert börn, yrði ekki betur komin heldur þvert á móti teflt í skort og vöntun sem því miður hefur verið einkenni svo víða í velferðarsamfélagi okkar.

Ég árétta að þetta eru sjónarmið sem ég tel mikilvægt að farið sé yfir í nefndinni og full ástæða til þess fyrir ráðherrann að skoða möguleika á breytingum á skipulagi þjónustu í sínum málaflokki. Fyrir því geta verið góð málefnaleg rök og nefndin metur hvort þau eru fyrir hendi. Ég legg fyrst og fremst áherslu á það og veit að notendasamtökin hafa verið þessu frekar hliðholl og ég held að á endanum sé það fyrst og síðast spurning um afstöðu notendanna og samtaka þeirra. Telja þau að þjónustunni sé betur fyrir komið með þessum breytingum eða án þessara breytinga? Ég treysti því að nefndin taki mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram, hvort sem það er frá samtökum blindra eða heyrnarlausra eða öðrum hagsmunasamtökum notenda sem eiga undir þessar stofnanir að sækja. Fyrst og fremst hljótum við að vera að vinna að breytingum fyrir fólkið sem nýtur þjónustunnar en ekki fyrir aðra.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.