144. löggjafarþing — 22. fundur
 21. október 2014.
skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, 1. umræða.
frv. FSigurj o.fl., 30. mál (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða). — Þskj. 30.

[21:45]
Flm. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða, nánar tiltekið að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á markaðstorgi fjármálagerninga til jafns við verðbréf sem skráð eru á skipulegan markað.

Frumvarpið byggir á frumvarpsdrögum sem Kauphöll Íslands sendi hv. efnahags- og viðskiptanefnd haustið 2013. Nefndin fjallaði um málið, fékk gesti og umsagnir en ekki náðist að mæla fyrir málinu á því þingi.

Flutningsmenn eru hv. þingmenn fimm þingflokka en þeir eru Frosti Sigurjónsson, Pétur H. Blöndal, Líneik Anna Sævarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Willum Þór Þórsson, Össur Skarphéðinsson, Kristján L. Möller, Guðmundur Steingrímsson og Steingrímur J. Sigfússon.

Frumvarpið má finna á þskj. 30 og vísa ég til þess þar sem ég mun ekki fara yfir það frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði.

Frumvarpið leggur til þrjár breytingar á 36. gr. laganna er varða fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Efnislega fela þessar breytingar í sér að lífeyrissjóðum verður heimilt að flokka verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á markaðstorgi fjármálagerninga sem skráð verðbréf. Einnig verður aflétt skilyrðinu um að verðbréf þurfi að hafa skráð sölu- og kaupgengi til að teljast skráð verðbréf.

Með frumvarpinu er stefnt að því að auka möguleika lífeyrissjóða til að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Með frumvarpinu skapast einnig aukinn hvati fyrir smá og meðalstór fyrirtæki til að uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til skráningar á markaðstorg fjármálagerninga. Eftir því sem fleiri fyrirtæki leita skráningar eykst framboð fjárfestingarkosta fyrir lífeyrissjóðina og þar með möguleika þeirra til að auka fjölbreytileika og áhættudreifingu í eignasöfnum sínum. Verði frumvarpið að lögum má búast við að aðgengi smárra og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni til vaxtar muni batna en aðgengi smárra og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni er talin mikilvæg forsenda hagvaxtar.

Þrír fjórðu hlutar iðgjalda lífeyrissjóða koma frá launþegum smárra og meðalstórra fyrirtækja. Sé lífeyrissjóðum torveldað að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum getur það dregið úr grósku atvinnulífsins almennt og hagvexti. Að beina fjárfestingum lífeyrissjóða alfarið að verðbréfum stórfyrirtækja og verðbréfum hins opinbera getur aukið áhættu og dregið úr ávöxtun lífeyrissjóða. Þegar efnahagsáföll dynja yfir eru smá og meðalstór fyrirtæki almennt fljótari að aðlaga sig nýjum aðstæðum en stór fyrirtæki. Almennt má segja að lítil fyrirtæki geti vaxið hraðar en stór fyrirtæki og því skilað fjárfestum góðri ávöxtun.

Eins og kunnugt er starfrækir Kauphöll Íslands markaðstorg fjármálagerninga undir nafninu First North Iceland og skipulagðan markað undir nafninu Aðalmarkaður. Félög sem skráð eru á Aðalmarkað og First North Iceland þurfa að uppfylla skilyrði sem miða að því að tryggja vernd fjárfesta. Samkvæmt gildandi lögum hafa lífeyrissjóðir takmarkaðar heimildir til að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum. Lög um lífeyrissjóði skilgreina félög á Aðalmarkaði sem skráð félög en félög á First North Iceland sem óskráð. Þetta misræmi gæti skýrt þá stöðu að hér eru aðeins þrjú fyrirtæki skráð á First North Iceland markaðinn en hins vegar eru 15 fyrirtæki skráð á Aðalmarkað, þó að sú leið sé fyrirtækjum verulega kostnaðarsamari.

Verði frumvarpið að lögum er vonast til þess að fleiri smá og meðalstór fyrirtæki sjái sér hag í því að leita skráningar á markaðstorg fjármálagerninga enda verði stærstu fjárfestar landsins, lífeyrissjóðirnir, ekki lengur útilokaðir frá því að eiga þar viðskipti. Reyndar er lífeyrissjóðum heimilt að fjárfesta í verðbréfum sem teljast óskráð en aðeins upp að vissu marki sem nú er 20% af hreinni eign sjóðs. Æskilegt væri að lækka þetta hlutfall í framtíðinni en þá er lykilatriði að skapa hvata fyrir fyrirtæki til að uppfylla skilyrði skráningar og fjölga þannig skráðum fjárfestingarkostum.

Virðulegi forseti. Vík ég nú að kröfunni í gildandi lögum um að kaup- og sölugengi sé forsenda þess að verðbréf teljist skráð. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna er lífeyrissjóðum heimilt að ávaxta fé sitt með þeim hætti sem þar er kveðið á um, svo sem með fjárfestingum í tilteknum skuldabréfum, hlutabréfum fyrirtækja og í hlutdeildarskírteinum eða hlutum verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða. Það skilyrði er þó sett fyrir slíkum fjárfestingum í 2. mgr. lagagreinarinnar að verðbréf sem lífeyrissjóðum er heimilt að fjárfesta í hafi skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Til að uppfylla núverandi skilyrði um skráð kaup- og sölugengi þurfa útgefendur líklega að kaupa þjónustu fjármálafyrirtækis sem mundi setja fram dagleg kaup- og sölutilboð, svokallaða viðskiptavakt. Að gera slíka þjónustu að skilyrði eykur verulega kostnað við skráningu verðbréfa.

Þar sem lífeyrissjóðir fjárfesta yfirleitt til langs tíma má segja að krafa um daglegt kaup- og sölutilboð sé ekki forgangsmál fyrir þá. Mikilvægast sé að útgefendur uppfylli þau skilyrði um upplýsingagjöf og gagnsæi sem skráningu fylgir og að banni við markaðssvikum og eftirliti með reglum sé fylgt. Hér á landi eru gerðar sambærilegar kröfur um rekstur markaðstorgs fjármálagerninga og skipulegra markaða. Þannig eru skráningarskilyrði og reglur um upplýsingagjöf oft sambærilegar þó svo að markaðstorgi fjármálagerninga sé veitt meira svigrúm til mótunar eigin reglna. Reglur um gagnsæi í upplýsingagjöf, bann við markaðssvikum og eftirlit eiga bæði við um markaðstorg fjármálagerninga og skipulega markaði. Félagi sem hefur verðbréf skráð á markaðstorgi fjármálagerninga er skylt að birta allar innherjaupplýsingar opinberlega. Þannig er tekið á því sem telja verður mikilvægasta þáttinn í upplýsingagjöf félaga sem hafa verðbréf í viðskiptum á markaði.

Einnig ber að nefna í þessu sambandi að fjármálafyrirtæki eða kauphöll sem rekur markaðstorg fjármálagerninga er skylt að tryggja að aðilar að markaðstorginu hafi aðgang að nægilegum opinberum upplýsingum til að geta tekið fjárfestingarákvarðanir. Kauphöll Íslands hf., sem starfrækir eina markaðstorg fjármálagerninga á Íslandi undir nafninu First North Iceland, fellur undir fyrrgreint ákvæði og hefur á grundvelli þess sett reglur sem gilda um upplýsingaskyldu á First North Iceland markaðnum.

Ljóst er að þó svo að reglur um upplýsingaskyldu á markaðstorgi fjármálagerninga gangi að vissu leyti skemur en á skipulegum mörkuðum eru strangar kröfur gerðar varðandi upplýsingagjöf félaga sem hafa verðbréf skráð á markaðstorgi fjármálagerninga. First North Iceland markaðurinn setur strangar skyldur um upplýsingagjöf sem nálgast þá skyldu sem hvílir á félögum sem hafa skráð verðbréf á aðallista. Hvað varðar bann við markaðssvikum, þ.e. markaðsmisnotkun og innherjasvikum, gilda sömu reglur á skipulegum mörkuðum sem og á markaðstorgum fjármálagerninga.

Fjármálaeftirlitinu er falið að hafa eftirlit með umræddum ákvæðum og lög um verðbréfaviðskipti skilgreina einnig hvaða viðurlög eru við brotum gegn ákvæðum sem leggja bann við markaðssvikum. Ákvæði 21. gr. laga um kauphallir gerir sams konar kröfu um eftirlit skipulegra markaða með viðskiptum. Það er því ljóst að ákvæði laga setja sömu skorður við markaðssvikum á skipulegum mörkuðum og markaðstorgum fjármálagerninga og tryggja sams konar eftirlit og viðurlagabeitingu.

Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti skal aðili sem rekur markaðstorg fjármálagerninga setja reglur um þau skilyrði sem fjármálagerningar þurfa að uppfylla svo að viðskipti geti farið fram með þá á markaðstorginu.

Kauphöll Íslands hefur sett ítarleg skilyrði fyrir skráningu á First North Iceland. Þó svo að ekki sé að öllu leyti gengið jafn langt í þeim efnum eins og á aðallista eiga reglurnar að tryggja að skráning þjóni hagsmunum almennings og verðbréfamarkaðarins. Í þeim tilgangi hafa verið sett skilyrði sem eiga að tryggja seljanleika og framseljanleika bréfanna og lágmarksdreifingu hlutafjár. Einnig verður félag að uppfylla kröfur um birtingu upplýsinga samkvæmt reglum First North Iceland.

Að öllu þessu virtu er ljóst að reglur sem gilda um skráningu fjármálagerninga á First North Iceland eru um margt sambærilegar þeim reglum sem eiga við á aðallista. Því er að mati flutningsmanna eðlilegt að verðbréf á markaðstorgi fjármálagerninga teljist skráð verðbréf hvað varðar kaupheimildir lífeyrissjóða.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.



[21:55]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða).

Hér er verið að rýmka til fyrir lífeyrissjóði með auknum heimildum til fjárfestinga. Eins og frummælandi, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, fór mjög vel yfir í framsögu sinni er verið að veita lífeyrissjóðum heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á markaðstorgi fjármálagerninga og fjölga þannig fjárfestingarkostum, auka fjölbreytileika fjárfestinga og dreifa þannig áhættu sem felst í dreifðara eignasafni.

Hér er fyrst og fremst um að ræða markaðstorg fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki, sem eru hagkerfi okkar gríðarlega mikilvæg, og aukið aðgengi að fjármagni. Það gefur þeim færi á heilbrigðari fjármögnun og auknum fjárfestingartækifærum þannig að til lengri tíma stuðlar þessi breyting að aukinni verðmætasköpun. Það má segja, virðulegi forseti, að þar hangi saman þessir hagsmunir og samfélagsleg ábyrgð lífeyrissjóðanna að taka þátt í að efla okkar hagkerfi.

Lífeyrissjóðakerfið í þeirri mynd sem við þekkjum má rekja aftur til sjöunda áratugarins en þá voru stofnsettir atvinnutengdir lífeyrissjóðir með skylduaðild. Íslenska kerfið er stundum sagt byggja á þremur stoðum, almannatryggingakerfi, lífeyrissjóðakerfinu, þessu lögbundna, og svo frjálsum sparnaði, viðbótarlífeyrissparnaði. Ef tekið er mið af umræðu og skýrslum er fyrirkomulag lífeyrissparnaðar annarra þjóða oft og tíðum ólíkt, en það má líka finna hliðstæður, t.d. mjög keimlík kerfi á Norðurlöndunum.

Ólík dæmi eru gegnumstreymissjóðir þar sem sá vandi kemur upp að með hækkandi lífaldri reynir enn meira á fyrstu stoðina, þ.e. almannatryggingakerfið. Í slíku gegnumstreymiskerfi þurfa því eftirlaunaþegar að treysta á þá sem eru á vinnumarkaði og greiða fyrir þeirra eftirlaun.

Í okkar sjóðakerfi greiðum við í sjóð. Mikilvægt er að haga lagaumhverfinu með þeim hætti að mögulegt sé að ávaxta sjóðinn þannig að hann standi undir lífeyri eftirlaunaáranna.

Í 20. gr. lífeyrissjóðslaganna segir, með leyfi forseta:

„Iðgjöld og annað ráðstöfunarfé lífeyrissjóðs skal ávaxta sameiginlega með innlánum í bönkum og sparisjóðum eða í framseljanlegum verðbréfum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.“

Hins vegar er í 36. gr. laganna, sem þetta frumvarp nær til, breyting á, þar er kveðið á um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þar sem fjárfestingarheimildir eru listaðar upp, þ.e. í hverju lífeyrissjóðir geta fjárfest eða ávaxtað uppsafnað fé. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn lífeyrissjóðs skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Stjórn lífeyrissjóðs er heimilt að móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja deild í deildaskiptum sjóði.“

Þannig er lífeyrissjóði heimilt að ávaxta fé sitt með skilgreindum hætti samkvæmt þessari grein og takmarkast við þá liði sem taldir eru þar upp, þar með talið ríkisvíxlar og ríkisskuldabréf sem eru talin öruggir fjárfestingarkostir, skuldabréf tryggð með veði í fasteign. Þar eru hámörk útlistuð þannig að lagaumhverfið er býsna strangt þegar kemur að hlutfalli eigna og þeim kostum sem heimilaðir eru.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu. Til að mynda var lífeyrissjóðum gefin heimild árið 2008 til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum, þ.e. heimildin var hækkuð úr 10% í 20%. Helsta ástæðan var kannski sú að í ljósi breyttra aðstæðna var minna af skráðum bréfum í boði.

Árið 2012 voru þannig óskráð bréf 12% af heildareignum lífeyrissjóðanna ef skoðaðar eru upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu.

Í þessu frumvarpi er lagt til að með breytingum á 36. gr. fái lífeyrissjóðir auknar heimildir og megi fjárfesta í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga til jafns við verðbréf á skipulegum markaði. Með slíkri heimild mun fjárfestingarkostum fjölga og með auknum fjölbreytileika og möguleika til að fjárfesta í auknum mæli í smærri og meðalstórum fyrirtækjum mun það gera lífeyrissjóðum kleift að taka betur þátt í að efla hagkerfið og má þannig færa rök fyrir samfélagslegri ábyrgð í fjárfestingarstefnu.

Þá geta lífeyrissjóðir betur dreift áhættunni. Um leið batnar aðgengi slíkra fyrirtækja að fjármagni og þannig stuðla lífeyrissjóðir að auknum hagvexti til lengri tíma litið og taka aukinn þátt í að byggja upp atvinnulífið.

Fjármálaeftirlitið hefur hingað til túlkað 2. málslið 2. mgr. 36. gr. þannig að verðbréf sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga teljist ekki til verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði. Því hefur hingað til verið túlkað svo að þar sé um að ræða hver önnur óskráð verðbréf.

Það kemur fram í frumvarpinu að Kauphöll Íslands lét gera greiningu á því hvaða verndarhagsmunir og skilyrði liggja að baki í samanburði við skipulega markaði. Frummælandi málsins hér, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, fór mjög vel yfir þetta í sinni ræðu þannig að ég ætla ekki að endurtaka það. Það kom vel fram í máli hv. þingmanns að virk verðmyndun, gagnsæ upplýsingagjöf, bann við markaðssvikum og eftirlit og skráningarskilyrði eru til jafns við verðbréf á skipulegum markaði. Niðurstöður þeirrar greiningar leiða í ljós að þær kröfur sem gerðar eru varðandi rekstur markaðstorgs fjármálagerninga eru að mestu leyti sambærilegar þeim kröfum sem gerðar eru á þessum skipulega markaði.

Virðulegi forseti. Sjóðasöfnun er mikil og hrein eign lífeyrissjóðanna er meiri en nemur vergri landsframleiðslu, u.þ.b. 130%, og því er mikilvægi sjóðanna í efnahagslegu samhengi mikið og ekki síður sú ábyrgð sem fylgir því að ávaxta fé með ábyrgum og öruggum hætti.

Eins og áður segir er hér verið að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga og þannig stuðlað að langtímahagvexti sem hangir saman við framtíðartilvist sjóðanna sem byggir síðan á aukinni verðmætasköpun til að þeir geti þjónað hlutverki sínu.

Ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi og ég hlakka til að fá málið til efnahags- og viðskiptanefndar til frekari skoðunar og umsagnar.



[22:03]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í þessu máli loga mörg viðvörunarljós og hringja margar viðvörunarbjöllur og er ástæða til að hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að ganga vel úr skugga um það hvort ástæða sé til að ráðast í þá breytingu sem er lögð til, og ekki síst að kanna afstöðu Fjármálaeftirlitsins til þess. Það er mikilvægt að við þingmenn séum ekki að fara á svig við það sem Fjármálaeftirlitið ráðleggur í þessum efnum frekar en öðrum.

Ástæðan fyrir því að viðvörunarljósin loga er sú að hér er auðvitað góður vilji á ferðinni. Það er vilji til að skapa leiðir til fjármögnunar fyrir fyrirtæki í nýsköpun, smærri fyrirtæki og meðalstór fyrirtæki. Þegar ég stóð í sporum hv. þm. Frosta Sigurjónssonar sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar voru fjölmörg einkafyrirtæki sem lögðu mjög að mér að gera þessa breytingu á lögum, augljóslega í því skyni annars vegar að skapa viðskipti fyrir sig sjálf og hins vegar greiða séraðgang að fjármálum. Það eykur þær skyldur okkar að rýna málið vel og kanna hvort það sé í þágu lífeyrissjóðanna og þeirra sem eiga sparnaðinn, ekki síst vegna þess að við eigum auðvitað langa sögu af því að menn hafi með góðum fyrirætlunum og góðum ásetningi haft uppi hugmyndir um að fjárfestingar í tilteknum tegundum fyrirtækja eða tilteknum atvinnugreinum væru góðar fyrir langtímahagvöxt og annað þess háttar, eins og við heyrum hér í umræðunni. Dæmi um slíkt er laxeldið á sínum tíma, loðdýraræktin og fleiri fyrirbæri sem fóru því miður lóðbeint á höfuðið og tapaðist verulegt fjármagn sem þangað var ráðstafað. Þess vegna er enn frekari ástæða fyrir efnahags- og viðskiptanefnd til að fara sérstaklega gætilega.

Önnur ástæða fyrir því er sú að maður hlýtur að spyrja sig að því þegar svo stutt er síðan lífeyrissjóðirnir töpuðu gríðarlegum fjárhæðum á fjárfestingu hvort lærdómurinn af því sé sá að við eigum að beina þeim frekar í verðbréf sem minni kröfur eru gerðar til en til þeirra sem eru skráðir á aðallista. Ég vil ekki á þessu stigi útiloka neitt. Ég segi aðeins að margt í þessu sambandi gefur sérstakt tilefni fyrir nefndina til að fara vandlega yfir málið og kanna í þaula hvort þetta sé skynsamleg ráðstöfun, m.a. vegna þess að það hefur frá hruni verið unnið að bæði yfirferð yfir það hvað fór úrskeiðis í lífeyrissjóðunum í aðdraganda efnahagshrunsins og að heildarendurskoðun á löggjöfinni. Ég held að eðlilegt sé að við veltum því fyrir okkur hvort breyting af þessu tagi, ef það væri niðurstaðan að bestu manna yfirsýn að peningum lífeyrisþega sé vel varið í þessi smáu og meðalstóru fyrirtæki sem einkanlega er hér vísað til, hvort það þurfi þá ekki að vera hluti af einhverri heildarsýn, einhverri heildarstefnumörkun, einhverri heildarendurskoðun á lífeyrissjóðunum eða hvers vegna við ættum í þinginu að taka þennan eina þátt út úr og fara að leggja hann upp með öðrum hætti.

Það sem þarf væntanlega líka að fara yfir er sá markaður sem er verið að opna og það er náttúrlega bara markaður hjá einu tilteknu einkafyrirtæki, Kauphöll Íslands hf., sem er ekki opinber aðili í neinum skilningi og það þarf þess vegna að gæta sérstaklega að því að hér sé ekki verið að mismuna aðilum, hvort sem þeir eru í viðskiptum við þetta tiltekna einkafyrirtæki, Kauphöll Íslands hf., eða einhver önnur einkafyrirtæki með sína fjármálagjörninga. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að a.m.k. Samkeppniseftirlitið auk Fjármálaeftirlitsins verði fengið til að skoða þetta mál í þaula.

Það verður ekki fram hjá því litið að ein af ástæðunum fyrir því að þessum málum hefur verið skipað á þann hátt að lífeyrissjóðirnir hafa fjárfest í skráðum aðilum, stórum fyrirtækjum sem sæta eftirliti annarra aðila, er að lífeyrissjóðirnir hafa takmarkaða aðstöðu til þess að greina fyrirtæki, að fylgjast með rekstri þeirra og kannski viljum við ekki að þessir fáu stóru eigendur fjármagns séu mikið ofan í rekstri einstakra smærri og meðalstórra fyrirtækja. Ef það er vilji meiri hlutans í þinginu held ég að við þurfum að ræða það alveg sérstaklega, eða hvort það sé ekki önnur skipan mála, þar sem eru fjárfestingarsjóðir sem eru í tengslum við markaðinn, eru með mannafla og aðstöðu til að fylgja eftir slíkum fjárfestingum og séu sá valkostur sem lífeyrissjóðirnir eigi fremur að fjárfesta í en að byggja upp sérstakar fjárfestingardeildir hjá sér með þeim mannafla og sérfræðiþekkingu sem til þarf. Því mun auðvitað fylgja verulegur kostnaður fyrir sjóðina og það þyrfti þá a.m.k. að vera algerlega tryggt að á móti því umstangi öllu kæmu tekjur.

Ég vil síðan ítreka að þetta er mál sem ég veit að er af hálfu flutningsmanna af góðum huga flutt en vegna þess að það snertir gríðarlega stórar fjárhæðir, því að hvert prósent í fjárfestingarheimildum hjá lífeyrissjóðunum hygg ég að sé eitthvað á þriðja tug milljarða króna og skiptir verulegu máli fyrir grundvallarhlut eins og lífeyrisrétt okkar þegar við hverfum af vinnumarkaði, þarf að fara mjög varlega og virða í hvívetna þau sjónarmið sem fram kunna að koma í umfjöllun nefndarinnar frá eftirlitsaðilum. Ef eftirlitsaðilar hafa engar athugasemdir við málið þá mælir það að sjálfsögðu frekar með því að þetta sé eitthvað sem eigi að taka til frekari skoðunar. En ég árétta að ef eftirlitsaðilar hafa athugasemdir við það tel ég að menn eigi ekki að fara áfram með málið yfir höfuð.



[22:11]
Flm. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og tek undir flest sem hann kom inn á í henni. Ég held að hann hafi bent þar á mjög mikilvæg atriði.

Það er náttúrlega alveg rétt að við þurfum að gæta mjög vel að öryggi í fjárfestingu lífeyrissjóða. Að sjálfsögðu verður þetta frumvarp borið undir alla umsagnaraðila, Fjármálaeftirlitið og allir verða kallaðir til sem hafa áhuga á því að tjá sig um það og geta þá komið með ábendingar um hvað megi betur fara. En er hv. þingmaður ekki sammála mér um að vandi lífeyrissjóðanna í dag er sá að það er vandasamt að varðveita kaupmátt 2.700 milljarða sjóðs? Það er mjög vandasamt verkefni og það verður vandasamara innan hafta og það er vandasamt þegar fábreytni er í valkostum með fjárfestingar. Það getur bæði orðið til eignabóla í þeim fáu hlutabréfum sem skráð eru á aðallista og þau mega fjárfesta í og einnig leita þeir mjög mikið í óskráð bréf og nú er sú heimild sjóðanna að fjárfesta í alveg óskráðum bréfum sem uppfylla ekki neinar kröfur neins markaðar um gagnsæi, um upplýsingaskyldu eða innherjasvik aukin í 20%, þótt þau bréf uppfylli að sjálfsögðu reglur hlutafélagalaganna. Við erum að tala um að reyna að búa til hvata fyrir félög til að uppfylla meiri kvaðir, meiri kröfur og búa til úrval fyrir lífeyrissjóðina. Við erum ekki að skylda þá til að fjárfesta í neinum slíkum fyrirtækjum. Við erum að skapa meira val. Er hv. þingmaður sammála mér um að það geti verið jákvæð þróun fyrir lífeyrissjóði landsins?



[22:13]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um það, ég er ekki viss um að ég telji skynsamlegt að þeir fáu lífeyrissjóðir okkar sem ráða yfir þessum miklu fjármunum eigi að vera að standa í fjárfestingum af því tagi. Ég held að 20% heimildin hafi verið neyðarráðstöfun á sínum tíma en auðvitað horfir málið öðruvísi við ef ætlunin væri sú að lækka heimildina í óskráðum bréfum að sama skapi og verið væri að opna heimild til kaupa á bréfum af þessu tagi, því að þá væri sannarlega verið að auka kröfur til eignasafnsins.

Ég er sammála hv. þingmanni um að vandasamt sé að ávaxta þessa 2.700 milljarða og hættan er sú að við séum að hverfa frá sjóðasöfnun, sem hv. þm. Willum Þór Þórsson nefndi áðan, í raun og veru yfir í gegnumstreymiskerfi vegna þess að sjóðirnir hafa ekkert annað að kaupa en bréf opinberra aðila og ef sjóðurinn er bara orðinn bréf opinberra aðila, skuldaviðurkenningar frá ríki og sveitarfélögumi verða sjóðirnir í raun eðlislíkir gegnumstreymissjóðum, því að það eru þá aðeins opinberir aðilar og fyrirheit þeirra um borgun í framtíðinni sem reka kerfið.

Þvert á það sem Seðlabankinn hefur nefnt um að lífeyrissjóðirnir eigi að fá heimildir til að fjárfesta erlendis eftir að leyst hefur verið úr þrotabúunum tel ég að það eigi að vera forgangsmál í höftum að hleypa lífeyrissjóðunum út með hluta af fjármunum sínum til fjárfestingar, til að dreifa áhættu og til að við eigum eitthvað utan hagkerfis okkar til að treysta á ef áföll dynja yfir hér. Ég held að það væri mikilvægasta skrefið sem við gætum tekið til að auka valkost lífeyrissjóðanna í fjárfestingumn og ég er sammála hv. þingmanni að það er mikilvægt að gera.



[22:15]
Flm. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og vil beina annarri spurningu til hans. Það er eitt áhyggjuefni sem ég held að við þurfum sem Íslendingar að velta fyrir okkur. Öll fyrirtæki, stór og smá, og allir starfsmenn í fyrirtækjum, stórum og smáum, greiða iðgjöld í lífeyrissjóðina, það má nánast jafna því við skatt. Í sumum löndum greiða menn skatta og eru með þessi gegnumstreymiskerfi sem halda uppi þeim sem eru komnir á eftirlaun, en hérna erum við með uppsöfnunarkerfi. Greidd eru iðgjöld sem eru vel yfir 100 milljarðar á ári, kannski um 130–150 milljarða á ári, ætli það séu ekki um 100 milljarðar, notum það til viðmiðunar.

Ef 2/3 af þessum 100 milljörðum koma frá smáum og meðalstórum fyrirtækjum og þau þurfa að leggja það fram og geta minna gert í öðru sem stuðlar að rekstri fyrirtækjanna, markaðssókn eða vöruþróun, vegna þess að þetta fer í sameiginlega sjóði, er þá ekki varasamt að fjárfesta ekkert af því inn í litlu og meðalstóru fyrirtækin heldur einungis inn í stór fyrirtæki sem geta aðeins hækkað í verði en ekki ráðið fleira fólk og ekki skapað hagvöxt eins hratt og lítil og meðalstór fyrirtæki? Ég veit að hv. þingmanni er alveg kunnugt um að það eru lítil og meðalstór fyrirtæki sem geta vaxið hraðast. Það er viðurkennt að þau eru rót hagvaxtar í framtíðinni. Þetta er stór aðili, lífeyrissjóðakerfið, ég held að hver lítill lífeyrissjóður skipti kannski ekki máli en þegar við erum að tala um þá alla samanlagt ávaxta þeir 2.700 milljarða en neita síðan hagkerfinu um að setja niður kartöflur, að setja niður það sem getur vaxið hraðar og þá verður hagkerfið minna. Það er líka áhyggjuefni. Ég held ekki að þessi breyting muni leiða til neinnar stórrar breytingar á því. Ég held að lífeyrissjóðir þurfi að líta víðar yfir ef þeir ætla að taka þátt í nýsköpunarsjóðum, eins og ég held að hv. þingmaður hafi nefnt, og jafnvel í rannsóknum og það þarf að skoða þau mál. Þetta er aðeins eitt skref af mörgum sem við þurfum að skoða. Getur hv. þingmaður ekki verið sammála mér um að þetta sé skref í rétta átt?



[22:17]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar einföldu skoðunar um lífeyrissjóði landsmanna og þá 2.700 milljarða sem þar eru að ákaflega mikilvægt sé að hafa augun á boltanum og hafa markmiðin skýr. Markmið lífeyrissjóðanna á aðeins að vera eitt: Að ávaxta fjármunina sem eru í þeim. Við getum haft alls konar hugmyndir um önnur göfug markmið eins og það að stuðla að nýsköpun eða fjárfesta í litlum fyrirtækjum eða stuðla að byggðajöfnun eða jafnrétti á milli kynslóðanna, bæta úr húsnæðismálum, laga heilbrigðiskerfið, alls konar verðug markmið má finna og ætla lífeyrissjóðunum eitthvert hlutverk í því. En um leið og við byrjum að gera það byrjum við að draga úr ávöxtun þeirra og þar með að rýra lífskjör okkar í framtíðinni.

Ég er þeirrar skoðunar að við stjórnmálamenn eigum ekki að reyna að hafa miklar skoðanir á því í hverju menn eiga að vera að fjárfesta. Ég tel raunar að það sé ástæða til að efast um það að lífeyrissjóðirnir yfir höfuð búi yfir mannafla og sérfræðiþekkingu eins og þeir eru skipulagðir núna til að leggja mat á alla þá flóknu fjárfestingarkosti sem með þessum hætti opnuðust og það væri í sjálfu sér kerfisbreyting. Lífeyrissjóðirnir kaupa auðvitað fjölmarga fjármálagerninga sem stuðla að fjármögnun meðalstórra fyrirtækja og smærri fyrirtækja, bæði í gegnum fjárfestingar hinna stærri, fjárfestingarsjóða, fjármögnun úr viðskiptabankakerfinu o.s.frv. Það er auðvitað ekki hægt að segja að lífeyrissjóðirnir séu ekki hluti af þessu efnahagskerfi í heild sinni.



[22:19]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir fína ræðu. Í sjálfu sér hef ég ekkert út á hana að setja nema síður sé. Hann fór vel yfir málið og efnahagslegt samhengi lífeyrissjóðanna og mikilvægi þess, eins og hann orðaði það, að hafa augun á boltanum og markmiðin skýr sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt í því stærðarsamhengi sem lífeyrissjóðirnir eru.

Hann svaraði í raun því sem ég ætlaði að spyrja hann út í. Ég hafði hugsað mér að spyrja hann út í þá pressu sem er á lífeyrissjóðunum að ávaxta fé. Þetta rýmkar heimildir og gefur aukna möguleika í ljósi hafta. Hvað sér hann fyrir sér í því hvernig megi leysa þessa pressu? Svo varðandi þetta tiltekna mál, sér hann fyrir sér einhverjar frekari takmarkanir á því máli?



[22:21]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður benti á þá vísaði ég til þess að ég teldi að við ættum að hafa lífeyrissjóðina í forgangi þegar við hugum að því að hleypa aðilum út úr þeim gjaldeyrishöftum sem nú eru. Við eigum að reyna að skapa þeim möguleika á því að fjárfesta erlendis eins fljótt og við mögulega getum vegna þess að við þurfum að hafa eggin okkar í fleiri en einni körfu.

Ég held að við að þroska þetta mál kynni að vera ástæða til að horfa til þess hvort nota mætti þessi hálfskráðu bréf, ekki til að draga úr skráðum fjárfestingum heldur hugsanlega til þess að íhuga hvort minnka ætti á móti heimildir til að fjárfesta í óskráðum félögum þannig að þingið og nefndin þrýstu á lífeyrissjóðina að flytja sig úr því óeðlilega ástandi sem ég held að 20% staða í óskráðum félögum sé fyrir þá og flytja sig til að byrja með fremur inn í hálfskráða gerninga eins og er að finna á þessum markaði. Ég held að það væri illskásta leiðin í málinu.



[22:22]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir svarið. Við deilum þessari skoðun.

Ég vil þó vekja athygli á því sem stendur á bls. 2, að við vinnslu frumvarpsdraganna, með leyfi forseta, „horfði Kauphöll Íslands til Danmerkur þar sem lífeyrissjóðum er heimilað að fjárfesta í hlutabréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga með sömu skilyrðum“. Í þeim gögnum sem ég hef kynnt mér varðandi þetta mál og áður þá skora Danir í alþjóðlegum samanburði mjög hátt með lífeyrissjóðakerfi sitt. Það væri gaman að fá álit hv. þm. Helga Hjörvars á því, hvort hann þekki það, því að hann talaði í ræðu sinni af mikilli reynslu sem fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar og gerþekkir þessi mál.

Að öðru leyti vil ég taka undir orð hans. Það er mjög mikilvægt að frumvarpið fái vandaða umfjöllun og að við köllum til umsagnaraðila. Ég held að þetta sé mjög gott mál að því leytinu til, eins ég kom inn á í ræðu minni um samfélagslega ábyrgð, að hagkerfi okkar er mikið til byggt upp af smærri og meðalstórum fyrirtækjum. Forsendur ávöxtunar lífeyrissjóðanna hanga því saman við það að hér séu skilyrði hagvaxtar um langa framtíð. Gott væri ef hv. þm. Helgi Hjörvar mundi aðeins koma inn á forsendur hagvaxtar og samfélagslega ábyrgð um leið og við höfum að sjálfsögðu augun á boltanum.



[22:24]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri ágætt ef hv. nefnd kynnti sér með hvaða hætti þessu er fyrir komið í Danmörku. Þar er oft erfitt um samanburð fyrir okkur Íslendinga því að það sem við köllum stórfyrirtæki eru að jafnaði í löndunum sem við berum okkur saman við smáfyrirtæki og meðalstór fyrirtæki þar eru oft og tíðum risastór fyrirtæki á okkar litla mælikvarða. Það verður að gæta þess að bera saman sambærilega hluti.

Ég fagna því að hv. þingmenn leggja áherslu á að vanda mjög til umfjöllunarinnar.

Hvað varðar hugmyndina um að leggja til hagvaxtar þá vara ég sérstaklega við því. Sjóðirnir eiga að horfa til ávöxtunar fyrir sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum og þeir eiga að einbeita sér að því. Staðreyndin er sú að allt er í heiminum hverfult og það sem við kunnum að telja ákaflega skynsamlega kosti í stjórnmálunum á einu missiri kunna að vera arfaslakir kostir á næstu missirum. Ágætt dæmi um það er þegar allir voru að ræða fyrir örstuttu síðan hvernig olíuverðið væri á leiðinni upp úr skýjunum, hvernig orkuverðið hækkaði bara og hækkaði og hækkaði og ekkert væri að sjá fram undan en hækkun á orkuverði.

Hvað sjáum við gerast á mörkuðunum í kringum okkur núna? Olíuverðið fellur og fellur. Bandaríkin orðin sjálfum sér næg með orku, sem þurftu að flytja hana inn í verulegu magni. Þannig hefur mikið breyst í heiminum á stuttum tíma. Reynsla okkar er einfaldlega sú að það er viðskiptalífið sjálft, hinn frjálsi markaður og samkeppni, sem er best fært um að finna fjárfestingarkostina. Það eru síður stjórnmálin eða félagslegar stofnanir eins og lífeyrissjóðirnir sem eiga að sérhæfa sig í því verkefni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.