144. löggjafarþing — 23. fundur
 22. október 2014.
leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 240. mál (frádráttarliðir). — Þskj. 269, nál. 351 og 370, brtt. 373.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:47]

[15:41]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæða um breytingu á þeim lögum sem stjórnarmeirihlutinn stóð fyrir síðasta vor um niðurfellingu fasteignaveðlána og fólu í sér margháttaða mismunun.

Fólk í sambærilegri stöðu þarf að lúta ósambærilegum lausnum. Með þeirri breytingartillögu sem hér kemur til atkvæða er bætt úr í einu slíku tilviki, en eftir stendur að áfram eru mörg tilvik þess að fólk sem fékk lausnir í frjálsum samningum við banka, fékk skuldastöðu sína lækkaða, mun fá óskerta niðurfellingu meðan aðrir sem fóru í gegnum auglýstar lausnir, almennar lausnir sem öllum stóðu til boða, munu þurfa að þola skerðingu á sinni niðurfellingu.

Þeir sem fóru almennu leiðina, venjulega fólkið, verða skertir, en þeir sem gátu samið um sínar lausnir í samningum við bankana, (Forseti hringir.) voru inn undir, fengu sérlausnir, munu fá óskerta niðurfellingu. (Forseti hringir.) Óréttlætið í þessari aðgerð heldur enn áfram að aukast.



[15:42]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þingflokkur Bjartrar framtíðar er í öllum grundvallaratriðum algjörlega mótfallinn þessum aðgerðum. Við teljum arfavitlausa fásinnu að fara í þessar skuldaleiðréttingaraðgerðir með þessum gríðarlega tilkostnaði fyrir hið opinbera. Þessa peninga þarf í annað. Það getur ekki verið hlutverk ríkisvaldsins að greiða niður einkaskuldir og þaðan af síður á tímum þar sem margt virðist benda til að góðæri sé að hefjast. Skuldastaðan hefur batnað.

Þetta er sóun á almannafé.

Hér er verið að breyta einhverjum tæknilegum útfærslum á þessari arfavitlausu aðgerð. Vegna þess að við erum á móti þessu í grundvallaratriðum breytir þetta mál engu þar um og við sitjum því hjá (Forseti hringir.) um þetta.



[15:44]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við þingmenn Vinstri grænna vorum andvíg þessum ráðstöfunum í fyrra einfaldlega vegna þess að við teljum þetta óréttlætanlega meðferð mikilla opinberra fjármuna. Þeir ágallar eru enn til staðar, það er ljóst að miklir fjármunir úr ríkissjóði munu renna til fólks sem er tekjuhátt, stórefnað og ekki í neinum sambærilegum vandræðum og margir aðrir þeir sem ættu frekar kröfu á því að ríkið kæmi þeim til hjálpar, svo sem leigjendur eða aðrir slíkir.

Hér er verið að reyna að lappa upp á framkvæmdina en um leið kemur í ljós að enn er margt óljóst um hana sem slíka og á þó að fara að setja reikniverkið af stað. Það er ósamið við bankana um kjörin á þessum viðskiptum og Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, sem fylgist grannt með málinu, enda gæti verið um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða, hefur að sjálfsögðu ekki komist að niðurstöðu í því máli. Hvað ætla menn að gera ef þeir rekast til dæmis á þann vegg?

Það kemur líka í ljós þegar málið er skoðað að hér er kannski fremur um að ræða, a.m.k. í fyrstu umferð, lánahreinsun en lánaleiðréttingu. Þeir sem allan forgang hafa í fyrstu umferðum úthlutunar eru fjármálafyrirtækin sem fá öll sín vanskil, greiðslujöfnunarreikninga (Forseti hringir.) og allt greitt upp í topp áður en nokkrar krónur (Forseti hringir.) ganga til lækkunar á höfuðstól lána einstaklinganna. (Forseti hringir.) Það er margt athugavert við þetta mál og hefur heldur versnað eftir því sem fleira kemur í ljós.



[15:45]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það lítur út fyrir að þetta frumvarp muni stoppa upp í jafnréttisgat. Það var ekki jafnræði milli skuldara, það var eitthvert gat sem menn sáu ekki fyrir, þeir voru að drífa sig með þetta stóra mál ríkisstjórnarinnar, sér í lagi Framsóknarflokksins, síðasta haust þannig að líklega verður þetta til góðs.

Það verður stoppað upp í þetta jafnréttisgat sem var ekki séð fyrir.

Það er með þetta frumvarp eins og frumvarpið sem var samþykkt um skuldaleiðréttinguna. Við píratar munum alfarið vísa því á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og munum sitja hjá við atkvæðagreiðslu um það. Vonandi verður þetta samt sem áður til bóta.



 1. gr. samþ. með 31 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  EKG,  ELA,  FSigurj,  GÞÞ,  HBK,  HarB,  HE,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  OddO,  ÓBK,  PJP,  PHB,  REÁ,  SigrM,  SilG,  SBS,  ValG,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
18 þm. (ÁPÁ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  KJak,  KLM,  LRM,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  VBj,  ÖS) greiddu ekki atkv.
14 þm. (ÁI,  BirgJ,  BVG,  ElH,  EyH,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  KaJúl,  OH,  SDG,  SIJ,  VilB,  ÖJ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:46]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég er þeirrar náttúru að fara að lögum. Alþingi Íslendinga er búið að samþykkja lög og þó að ég sé hjartanlega ósáttur við þau og hafi greitt atkvæði gegn þeim virði ég þau.

Þegar hins vegar koma fram breytingar sem laga þessi lög, laga ákveðnar veilur í þeim, styð ég það að sjálfsögðu.

Ég styð þetta frumvarp og segi já.



Brtt. 373 felld með 31:10 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  BjG,  GuðbH,  KJak,  KLM,  LRM,  SII,  SJS,  VBj,  ÖS.
nei:  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  EKG,  ELA,  FSigurj,  GÞÞ,  HBK,  HarB,  HE,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  ÓBK,  PJP,  PHB,  REÁ,  SigrM,  SilG,  SBS,  ValG,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
9 þm. (BjÓ,  BP,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  OddO,  ÓP,  PVB,  RM) greiddu ekki atkv.
13 þm. (ÁI,  BirgJ,  BVG,  ElH,  EyH,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  KaJúl,  OH,  SDG,  SIJ,  ÖJ) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:47]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Af því að þessi breytingartillaga hljómar ekki mjög skýrt á því blaði sem hér liggur fyrir vil ég útskýra að hún snýst um að greiðslujöfnunarreikningurinn verði tekinn út fyrir sviga. Okkur finnst aðgerðin yfirleitt frekar illa fram sett eins og hér hefur komið fram og margt annað sem við hefðum viljað breyta, m.a. kröfum sem hafa glatað veðrétti. Það var búið að semja við fjármálastofnanirnar um að færa aftur fyrir og geyma og hugsanlega afskrifa á einhverjum tímapunkti. Þess vegna finnst okkur til bóta þótt ekki væri nema að tekið yrði frá og fjármálastofnanirnar fengju ekki allt greitt upp í topp áður en loksins færi að sjá í höfuðstól, eins og reyndar var farið mjög ítarlega yfir hér í gær í mörgum liðum, hvenær færi að greiðast inn á höfuðstólinn sem slíkan.

Þrátt fyrir að greiðslujöfnunarreikningurinn sé vissulega hluti af því var, eins og ég segi, búið að samþykkja að geyma það og hugsanlega afskrifa.

Virðulegi forseti. Ég vona að þingheimur sjái sóma sinn í að samþykkja breytingartillöguna.



[15:49]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi aðgerð er stórfelld björgunaraðgerð til bankakerfisins og felur í sér, eins og í þessu tilviki hér, að greiddir séu upp greiðslujöfnunarreikningar sem bankar hafa fallist á að fá ekki borgaða fyrr en eftir áratugi og jafnvel afskrifa að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Það er sem sagt verið að borga bönkum peninga sem bankar hafa fallist á að innheimta ekki.

Þar fyrir utan er stefnt að mörgu öðru sem horfir til ójafnræðis og ósanngirni. Stærst er náttúrlega það að það eigi að verja opinberu fé til þess að greiða niður kröfur sem hafa glatað veði, kröfur sem standa eftir á einstaklinga eftir að búið er að selja ofan af þeim húsnæðið. Í staðinn fyrir að afskrifa slíkar kröfur eins og eðlilegt er ætlar þessi ríkisstjórn að gefa fjármálafyrirtækjunum þessa peninga. Tapaðar kröfur verða greiddar upp í topp.

Síðan er hægt að rekja fjöldamörg önnur atriði fullkominnar ósanngirni í þessari ráðstöfun (Forseti hringir.) sem hefði verið full ástæða til að flytja breytingartillögu um. Því miður er búið að (Forseti hringir.) samþykkja um þetta lög en það verður auðvitað þannig að (Forseti hringir.) fjöldi fólks mun sjá að það fær ekki úrlausn með þessari aðferð.



 2. gr. samþ. með 30 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  EKG,  ELA,  FSigurj,  GÞÞ,  HBK,  HarB,  HE,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  ÓBK,  PJP,  PHB,  REÁ,  SigrM,  SilG,  SBS,  ValG,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
19 þm. (ÁPÁ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  KJak,  KLM,  LRM,  OddO,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  VBj,  ÖS) greiddu ekki atkv.
14 þm. (ÁI,  BirgJ,  BVG,  ElH,  EyH,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  KaJúl,  OH,  SDG,  SIJ,  VilB,  ÖJ) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.