144. löggjafarþing — 23. fundur
 22. október 2014.
sérstök umræða.

staða barnaverndar í landinu.

[17:08]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég er hingað komin í dag til að ræða stöðu barnaverndar á Íslandi. Upphaf beiðni minnar um þessa umræðu var útgáfa ársskýrslu Barnaverndarstofu fyrir árin 2012–2013. Barnaverndarstofa með Barnahúsi vinnur fyrirtaksstarf í fræðslu og kynningum á ofbeldi í hvers lags mynd, hegðunar- og geðröskunum barna, lögum er snerta börn og heilsu barna. Er það vel enda nauðsynlegt fyrir okkur að vera upplýst um þann vanda sem er í gangi og hvernig við eigum að bregðast við.

Þessar upplýsingar þarf síðan stöðugt að endurnýja eftir frekari rannsóknum og tilfellum.

Ef við lítum aðeins á fyrrnefnda skýrslu og skoðum tölurnar fyrir árin 2009–2013 um beiðnir um fósturheimili fyrir börn er töluverð aukning þar þótt tala barna sem fara að lokum á fósturheimili haldi sér nokkuð á milli ára.

Algengast er að barnaverndarnefndir ráðstafi 15 ára börnum í tímabundið fóstur, 16 ára börnum í varanlegt fóstur og 15 ára börnum í styrkt fóstur. Þá er ánægjulegt að sjá fjölgun í umsóknum til að gerast fósturforeldrar.

Í skýrslunni kemur einnig fram að umsóknum um meðferð á meðferðarheimili fyrir börn á aldrinum 12–18 ára hefur fækkað töluvert í heildina á milli áranna 2009 og 2013 þótt fjöldi barna sem eru í meðferð á þessum árum endurspegli ekki þá fækkun. Hjá þeim sem hafa lagt inn umsókn um meðferð er algengasta fjölskyldugerðin einstæð móðir og reyndar áberandi hærri en hjá öðrum fjölskyldugerðum.

Hver ætli sé áhrifaþátturinn þarna? Staða einstaklinga í þjóðfélaginu, peningur á milli handa eða notkun vímuefna.

Rætt hefur verið að hér á landi hafi ekki verið gerðar nægilega reglulegar rannsóknir á barnafátækt og því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi í huga að beita sér í þeim efnum.

Þó er vert að taka fram í framhaldi af þessu að börnum á Stuðlum og öðrum meðferðarheimilum hefur fækkað í kjölfar aukinnar meðferðar barna í nærumhverfi þeirra. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún hafi uppi hugmyndir um frekari meðferðir í nærumhverfi barna og á hvaða hátt?

Eitt frábært framtak Barnaverndarstofu er Barnahús. Það er hannað sérstaklega til að mæta þörfum barna. Mjög góð aðstaða er í húsinu, bæði fyrir börn og þá sem þeim fylgja. Í húsinu er sérútbúið viðtalsherbergi til að framkvæma rannsóknarviðtöl og skýrslutökur. Þar er einnig hægt að taka könnunarviðtöl og gera læknisskoðanir.

Fjöldi barna sem kom í rannsóknarviðtöl í Barnahúsi jókst á milli áranna 2012 og 2013 um meira en 40 tilfelli. Þá hefur aukist að börn segi frá kynferðislegu ofbeldi í rannsóknarviðtölum á milli áranna úr 37,8% í 51,8%. Er þessi aukning samferða þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur í þjóðfélaginu um þessi mál.

Fjöldi tilkynninga um barnaverndarmál á árinu 2013 var 8.615 og er það fjölgun frá árinu áður um rúmlega 8%. Tilkynningar vegna drengja hafa verið fleiri öll árin en hlutfall tilkynninga vegna stúlkna hefur hækkað alveg frá árinu 2010.

Enn endurtek ég áhyggjur mínar frá ræðu minni um störf þingsins 23. september síðastliðinn en mál 69 barna sem tilkynnt var um á árinu 2013 fóru í könnun eða voru opin barnaverndarmál. Þetta hlutfall hefur vaxið á síðustu árum en til dæmis var það 60% árið 2011.

Ekki er vitað hvort sú aukning stafi nákvæmlega af meira svigrúmi barnaverndarnefndar til að kanna mál eða hvort málin séu nú alvarlegri en fyrr. Barnaverndarstofa segist ekki vita hvort fjölgun mála í vinnslu sé vegna fleiri alvarlegra brota gegn börnum eða hvort hún sé að vinna betra starf en áður. Hvernig getur svona stór breyta verið látin ókönnuð?

Hættuleg hegðun gagnvart börnum er ekki bara eftir að þau fæðast í þennan heim milli aldursins 0 og 18 ára. 0,7% tilkynninga um barnaverndarmál voru vegna þess að heilsa eða líf ófædds barns var í hættu. Hvaða úrræði eru til handa þeim einstaklingum sem í hlut eiga?

Eitt sem ég tók eftir var að tilkynningum um barnaverndarmál fjölgar í Reykjavík og á landsbyggðinni um 10% eða meira en fækkar aðeins í nágrenni við Reykjavík. Þar getur verið áhrifaþáttur það góða starf sem unnið hefur verið af lögreglunni á Suðurnesjum í heimilisofbeldi. Á hún hrós skilið fyrir það, en þótt ofbeldið sjálft beinist ekki að börnunum á heimilinu hefur það að sjálfsögðu áhrif á þau andlega sem getur komið fram í breyttri og þá oft slæmri hegðun sem leiðir til tilkynninga.

Telur hæstv. ráðherra að kerfið sé nægilega skilvirkt í dag og hvað getum við gert hér á Alþingi til að bæta úr?



[17:13]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir það frumkvæði að ræða um barnavernd á Íslandi. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að gæta að velferð barnanna okkar. Það er óumdeilt að velferð barna á fyrstu æviárunum leggur grunn að allri þeirra framtíð. Þar kemur til umhyggja foreldra og almenn þjónusta, svo sem öflug mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit, góðir leikskólar og grunnskólar sem tryggja flestum börnum farsæla æsku og uppvaxtarár, en einstaka barn þarf meiri aðstoð.

Hv. þingmaður spyr hvað þyrfti að gera betur og hvort verið væri að nýta alla möguleika. Ég verð að svara því þannig að ég tel svo ekki vera. Ég tel að við þurfum að bæta okkur verulega til að tryggja að þau þjónustukerfi sem við höfum í velferðarsamfélagi okkar vinni mun betur saman. Þá er ég að tala um heilbrigðiskerfið, skólakerfið, félagsþjónustuna og barnaverndina, að ógleymdu að sjálfsögðu samstarfi við foreldrana og börnin sjálf. Við erum ekki að mínu mati með nægilega heildstætt þjónustuferli. Við höfum alveg heyrt af því að foreldrar og svo börnin og unglingarnir upplifa að þegar kemur að þessum þáttum sé ábyrgð ekki nógu skýr og farvegur samstarfs allt of óljós.

Það skiptir svo miklu máli að grípa inn í nógu snemma. Það vill kannski gleymast svolítið í umræðunni hver ber ábyrgð fyrst og fremst á því að veita þá þjónustu sem barnavernd er og líka þeir sem eru með félagsþjónustuna, stuðninginn utan um þá sem þurfa virkilega á aðstoð að halda í okkar samfélagi, og það eru sveitarfélögin. Félagsþjónusta sveitarfélaganna veitir foreldrum almenna ráðgjöf, m.a. í uppeldismálum, og barnaverndarnefndir koma til skjalanna þegar vandi barns er orðinn alvarlegur og hætta talin á því að heilsu og þroska barns sé hætta búin vegna eigin hegðunar.

Úrræði barnaverndarnefnda eru margþætt, þar með talin leiðsögn til foreldra, að stuðla að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir að börn njóti þjónustu samkvæmt öðrum lögum, útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð eða útvega barni eða fjölskyldu persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu. Einnig geta barnaverndarnefndir beitt úrræðum utan heimilis, svo sem fóstri, styrktu fóstri eða vistun á meðferðarheimili.

Á vegum Barnaverndarstofu eru sem sagt rekin úrræði sem barnaverndarnefndir geta nýtt sér, meðferðarheimili og einnig MST-fjölkerfameðferðin, sem felur í sér aðstoð utan stofnana fyrir börn og fjölskyldur þeirra vegna alvarlegs hegðunar- og fíkniefnavanda. Markmiðið er að efla og styðja fjölskylduna til að takast á við vandann og bregðast við bakslögum. Það er unnið þétt í umhverfi barnsins og eru samstarfsaðilar meðal annarra skólakerfið, Barna- og unglingageðdeild, Fjölsmiðjan og lögreglan.

Í dag er þessi þjónusta, MST-þjónustan, aðeins í boði í 100 km radíus frá Reykjavík. Ég er núna að leita leiða til að tryggja að við getum tryggt börnum alls staðar á landinu MST eða sambærilega þjónustu.

Ég vil líka nefna að það er hafin vinna við endurskoðun barnaverndar og félagsþjónustu. Ég hef þá sýn að sú vinna ali af sér nýja og öfluga stjórnsýslustofnun sem renni einmitt stoðum undir þessa heildstæðu velferðarþjónustu ríkis og sveitarfélaga, hvort sem í hlut eiga börn, fullorðnir, aldraðir eða fatlað fólk. Sveitarfélögin gegna í mínum huga lykilhlutverki í allri nærþjónustu og fá í því skyni nauðsynlegan tilstyrk ríkisins, sem aftur á móti er eðlilegt að sinni eftirliti með gæðum þjónustunnar og samhæfingu milli stjórnsýslustiga.

Ég sé þannig fyrir mér að við getum eflt og aukið möguleika sveitarfélaganna til að veita samræmda þjónustu við börn og fullorðna sem glíma við fjölþættan vanda og þar skiptir snemmtæk íhlutun mjög miklu máli þannig að þeir sem annast og umgangast börnin frá degi til dags séu vakandi fyrir frávikum í hegðun og þroska barna og geti brugðist við með aðkomu sérfræðinga þegar þörf krefur. Þar hljóta skólarnir okkar að gegna lykilhlutverki þó að einnig þurfi að hafa vökul augu í heilsugæslunni og annars staðar þar sem börnum er sinnt. Þessi samvinna skiptir mjög miklu máli.

Varðandi tilkynningarnar hjá okkur tel ég jákvætt að við sjáum að tilkynningum hefur fjölgað jafnt og þétt vegna þess að fólk lætur vita. Það er það sem vitundarvakningin gekk út á, að hafa í huga að félagsþjónustan og barnaverndin eru þarna til að hjálpa fólki, (Forseti hringir.) tryggja það að við gætum að börnunum okkar eins vel (Forseti hringir.) og hægt er.

Þegar ég kem síðan aftur hingað (Forseti hringir.) fer ég aðeins betur í gegnum starfsemi Barnahúss (Forseti hringir.) og annað sem við erum að vinna að núna sem snýr að þessu.



[17:18]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að við ræðum stöðu barna og svo barnaverndar í landinu á hverjum tíma og fylgjum þeim málum sem allra best eftir.

Það hefði verið gaman að heyra aðeins meira frá hæstv. ráðherra um framkvæmdina varðandi Barnahús. Ég veit að þar var settur inn peningur á sínum tíma og átti að reisa nýtt hús og efla starfsemina þar.

Mig langar líka að spyrja ráðherrann hvað hafi orðið um allar þær tillögur sem samráðshópur fyrrverandi forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda lagði fram til að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum barna. Ég er að vísu með skriflega fyrirspurn til ráðuneytanna um þetta en þarna eru 27 tillögur sem meira og minna voru svo þurrkaðar út í fjárlögum. Þar átti að taka á mörgum af þessum samráðsverkefnum sem hér er verið að tala um. Þarna var samráðshópur barnaverndaryfirvalda, lögreglu og ákæruvalds, samstarf lögreglu og sveitarstjórna og barnaverndarnefnda til að fylgja því eftir hvernig haldið er utan um hlutina. Settir voru peningar í að styrkja löggæsluna og dómskerfið, hvernig farið væri með þessi mál. Það átti að efla það að Barnahús færi með rannsóknir í sambandi við nauðganir og aðra slíka hluti. Hvað líður þessari vinnu þess þverfaglegs hóps sem var með gríðarlega öflugar og góðar tillögur hvað þetta varðar?

Ég verð að segja svo aðeins af því að það kemur hér upp að hæstv. ráðherra hefur sett af stað vinnuhóp til að búa til stjórnsýslustofnun til að vinna með barnaverndarmál, þá bæði um einhverja miðstöð, höfuðstöðvar og aðrar starfsstöðvar, að það skemmdi fyrir þessu máli og fyrir okkur sem erum miklir landsbyggðarmenn að það kom allt í einu í fjölmiðlum frá hæstv. ráðherra að það væri búið að velja þessu stað áður en fram fór greining á verkefninu, hver þörfin væri o.s.frv. Það kemur líka á óvart hvaða stofnanir eru settar þarna saman, þ.e. Barnaverndarstofa, Fjölmenningarsetur og svo (Forseti hringir.) réttindagæslumenn fatlaðs fólks.



[17:20]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Það er tilefni til sögulegrar upprifjunar en í ljósi hennar er oft ágætt að skoða samtímann.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er núna orðinn 25 ára gamall, hann var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1989. Við fullgiltum hann 1992 og lögleiddum síðan 2013. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna byggir á réttindum barna. Það á að hlusta á börn, það er rauði þráðurinn. Fram til þessa hafði í alþjóðlegum sáttmálum fyrst og fremst verið horft til verndar barna, leiða til að vernda börn, og það má segja að íslenska Barnahúsið byggi á þessu tvennu, að vernda barnið og hlusta á barnið.

Þarna voru Íslendingar frumkvöðlar. Við stofnsettum okkar Barnahús 1998, þremur árum eftir að Barnaverndarstofan var sett á laggirnar, en aðrar þjóðir komu í kjölfarið. Svíar opnuðu sitt fyrsta barnahús 2005, þau eru 30 talsins þar nú, Norðmenn 2007, þau eru tíu talsins, Danir 2013, þau eru orðin fimm, Finnar eru að opna á þessu ári og Grænlendingar og Færeyingar munu vera komnir með sitt barnahús.

Síðan má nefna Lanzarote-samkomulagið sem byggir á því að verja börn gegn ofbeldi. Það er frá árinu 2010 og er á vegum Evrópuráðsins. Við undirgengumst það í ársbyrjun 2013 og höfum látið mjög að okkur kveða í þeim efnum, eigum formann í nefnd Evrópuráðsins sem sinnir því, Braga Guðbrandsson.

Þá er komið að samtímanum. Ég hef áhyggjur af því að það sé verið að draga úr fjárveitingum til að vernda börn. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var sett umtalsvert fjármagn í áætlun þar að lútandi (Forseti hringir.) og ég mun svo sannarlega fylgjast með því í fjárlagaumræðunni (Forseti hringir.) þegar þar að kemur hvernig fjárhagslega verður búið að því átaki.



[17:23]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, fyrir að hafa þessa umræðu hér í dag. Gæði samfélagsins má mæla í því hvernig við hlúum að börnunum okkar, gætum að heilsu þeirra og þörfum með ástúð. Við verðum líka að hlúa að ungum foreldrum og hjálpa þeim í fyrstu sporunum í mikilvægasta hlutverki lífsins, foreldrahlutverkinu.

Breskir þingmenn hafa samþykkt að styðja við ungar fjölskyldur og hafa kallað verkefnið „1001 krítískan dag“, verkefni sem hlúir að fóstri frá getnaði að tveggja ára aldri. 26% barna eru í krítískum aðstæðum sem fylgja þeim fram á unglingsár og fullorðinsár. Með því að grípa strax inn með bresku leiðinni fækkum við þessum krítísku aðstæðum og börnum sem lenda í þeim.

Ólafur Grétar Gunnarsson, sjálfstætt starfandi fræðimaður á sviði forvarna, hefur unnið að forvörnum unglingaþungunar. Hann hefur vakið athygli á leið bresku þingmannanna um 1001 krítískan dag og það er full ástæða fyrir okkur að gefa þessu gaum.

Mér finnst líka ástæða til í stuttri ræðu að þakka því fólki hér í landi sem vinnur að þessum málaflokki. Hér er unnið frábært starf við oft erfiðar aðstæður og ég vil enda þessa ræðu eins og ég hóf hana með því að segja að gæði samfélagsins má mæla í því hvernig við hlúum að börnunum okkar.



[17:25]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli.

Ég veit varla hvar ég á að byrja. Ég þarf ekki að predika yfir þeim þingmönnum sem hér eru staddir að barnaverndarmál skipta okkur mestu máli, held ég, í samfélaginu. Ekki geta börnin sjálf borið hönd fyrir höfuð sér þegar þau eru beitt ofbeldi eða þeim er ekki sinnt á einhvern máta. Við eigum ýmis falleg lög, barnaverndarlög, og erum aðilar að fallegum sáttmálum eins og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem fögur fyrirheit eru gefin og það er alveg ömurlegt til þess að hugsa að við skulum ekki standa okkur nægilega vel í að framfylgja alltaf þeim lögum og þeim sáttmálum sem við höfum gengist undir.

Auðvitað eru allir af vilja gerðir og ég fagna því að hæstv. ráðherra vilji beita sér fyrir því að gera þjónustuferlið, ef maður getur sagt sem svo, heildstæðara og vil þá spyrja hana hvað hún sjái fyrir sér í þeim efnum, hvernig heilbrigðiskerfið, sveitarfélögin, skólarnir, Barnaverndarstofa og umboðsmaður barna, svo fáir séu nefndir, eiga að vinna betur saman. Kannski hún reifi aðeins hvernig það hefur misfarist og eins og ég segi hvað hún sjái fyrir sér að hægt sé að gera í þeim efnum.



[17:27]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég kynntist lítillega stöðu barnaverndar í landinu fyrir svona 15 árum og fór svo að kynna mér lögin í kjölfarið. Ég var niðri í bæ og þar var 15 ára stúlka ofurölvi og algjörlega hjálparlaus þannig að ég athugaði hvort ég gæti aðstoðað hana, t.d. hringt í einhvern sem hún þekkti. Ég náði á endanum í móður vinkonu hennar. Hún vildi ekki hringja heim og tjáði mér síðan að hún væri beitt ofbeldi af föður sínum.

Ég fór því að kynna mér þetta mál og sem aktívisti á þessum tíma kynnti ég mér lögin hvað þetta varðar. Þar var ákvæði um að það ætti að vera til staður þangað sem börn í þessum vanda gætu farið ef þau yrðu fyrir heimilisofbeldi. Ég talaði við þau yfirvöld sem fara með málaflokkinn, barnaverndarnefndir á svæðinu og svona, og þessir staðir voru ekki til staðar. Menn báru fyrir sig fjárþörf, það væri bara ekki nægt fjármagn.

Ég hef ekki mikið kynnt mér málið síðan en ég vona að þetta sé í miklu betra horfi núna. Kannski veit ráðherra hvort betur sé farið með börn í svona vanda í dag. Svo vona ég innilega að hæstv. ráðherra hafi bolmagn til að tryggja fjármagn í þennan málaflokk til að tryggja að lögum sé fylgt og að við séum að bæta aðstöðu barnaverndar í landinu.



[17:29]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Barnaverndarmál eru sannarlega mikilvægur málaflokkur. Það skýtur svolítið skökku við að tveir framsóknarmenn séu hér að tala saman um barnaverndarmál þegar málefni Barnaverndarstofu hafa verið sett í uppnám með tilkynningu um að það eigi að sameina þá stofnun annarri og það er óljóst nákvæmlega hvað hún á að gera og hvar hún á að vera.

Síðan er verið að gera samning þvert á faglega ráðgjöf stofnunarinnar um rekstur heimilis í Skagafirði. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur líka miklar áhyggjur af þeim samningi og hefur gagnrýnt harðlega hvernig fjármunum er forgangsraðað í barnavernd.

Ég ákvað að gera þetta að umræðuefni hér. Varðandi Barnaverndarstofu held ég að það sé ástæða fyrir ráðherra að gera okkur betri grein fyrir hvað hún ætlast fyrir með sameiningu stofnana. Hér var samþykkt frumvarp síðasta vor þar sem var heimilað að ráða tímabundið forstöðumann Fjölmenningarseturs. Þá stóð til að sameina Fjölmennningarsetur, Jafnréttisstofu og réttindagæslu fatlaðs fólks og er vísað í stofnun sem á að koma á laggirnar 1. janúar 2015.

Ég sé að hæstv. ráðherra hristir höfuðið en ég er með útprentað frumvarpið fyrir framan mig. Nú er búið að skipta út Jafnréttisstofu fyrir Barnaverndarstofu og ég lýsi yfir áhyggjum af því að félags- og húsnæðismálaráðherra fari af svo mikilli léttúð og ábyrgðarleysi með (Forseti hringir.) barnaverndarmál í landinu.



[17:31]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Opinbert barnaverndarstarf hófst á Íslandi með setningu laga árið 1932. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og lögin oftsinnis verið endurskoðuð. Barnaverndarstofa var stofnuð 1995 og með því átti að tryggja að fagleg stofnun hefði yfirsýn yfir málaflokkinn. Við höfum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og við þekkjum, sem var löggiltur á Íslandi 2013, og heildarendurskoðun var gerð á barnalögum fyrir um tveimur árum.

Hlutverk Barnaverndarstofu er annars vegar að vera ráðgefandi og fræða og hins vegar að hafa með hendi eftirlitshlutverk með barnaverndarnefndum sveitarfélaga. Mikilvægt er að Barnaverndarstofa hafi bolmagn til að sinna hlutverki sínu og veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi fjölskylduvernd og úrlausn barnaverndarmála. Með sameiningu barnaverndarnefnda á undanförnum árum hefur verið leitast eftir því að þær geti rækt hlutverk sitt enn betur og sinnt því vandasama verki sem þeim er falið. Barnaverndarnefndir geta leitað til Barnaverndarstofu og fengið aðstoð og úrlausn einstakra mála þegar þörf er á og má þar nefna fjölkerfameðferð og stuðningsúrræði ætlað fjölskyldum með unglinga með fjölþættan hegðunarvanda. Þetta úrræði, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan, nýtist þó ekki allri landsbyggðinni og er ég ánægð með að heyra að það er unnið að því að bæta þar úr.

Ég tel mjög mikilvægt að halda áfram með átakið gegn kynferðisofbeldi gagnvart börnum og tryggja því varanlegt fjármagn hjá Barnaverndarstofu. Barnahús hefur mikilvægt hlutverk. Við vitum að markmiðið í barnaverndarstarfi er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður fái nauðsynlega aðstoð, að stutt sé við fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og að einstök börn séu vernduð (Forseti hringir.) þegar þörf er á.



[17:33]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þá tek ég til máls á ný og get farið aðeins betur yfir málið. Nokkrir hv. þingmenn hafa talað um málefni Barnaverndarstofu sem ég vil líka ræða um í þessari seinni ræðu minni.

Mér rennur svolítið blóðið til skyldunnar. Afi minn var fyrsti forstöðumaður Unglingaheimilis ríkisins, hann Kristján Sigurðsson, sem varð kannski vísirinn að Barnaverndarstofu. Svo hef ég líka alist upp á meðferðarheimili fyrir unglinga sem Barnaverndarstofa rak.

Ég vil ræða aðeins áherslubreytingar. Eðli málsins samkvæmt er meginþungi starfsins á Reykjavíkursvæðinu, hér eru flest börn. Við þurfum hins vegar að ræða landsbyggðina líka og þá þjónustu sem þar þarf að vera. Svo má ræða það hvort í sumum tilfellum sé hollt fyrir börn að vera tekin út úr aðstæðum sem þeim eru ekki hollar eða frá foreldrum sem eru ekki í stakk búnir til að styðja við viðkomandi börn og veita þeim börnum meðferð annars staðar. Í framhaldi af fyrri spurningu minni til ráðherra í framhaldi af því sem hún sagði þegar hún talaði um landsbyggðina langar mig að heyra hvað hún sér fyrir sér í þeim efnum. Er ekki þörf á aukinni barnaverndarstarfsemi á landsbyggðinni?



[17:35]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og öllum þeim sem hafa tekið til máls undir þessum lið. Ég tek undir með hv. þm. Björt Ólafsdóttur, það er sárt að hugsa til þess að þrátt fyrir lög og sáttmála skuli málum vera ábótavant. Barnavernd er okkur mikilvæg og stöðu barna þarf að meta reglulega og leita frekari úrræða þar sem þeirra er þörf.

Eins og hérna hefur komið fram er líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi, hegðunarvandamál og staða barna alltaf í endurskoðun hjá þeim stofnunum sem vinna að þessum málum og svo ætti að sjálfsögðu að vera hjá okkur líka. Þar á hafa orðið breytingar, í staðinn fyrir að einblína aðeins á vandamálið þegar það er orðið hefur líka verið horft til upphafs vandans og lausna fyrr í ferlinu eins og meðferð í nærumhverfi á frumstigi. Það hefur skilað góðum árangri.

Það er svo margt sem við gætum rætt hérna frekar, t.d. það sem kom fram í skýrslu UNICEF frá 2011 um stöðu barna á Íslandi. Við þurfum að skoða samþættingu velferðar hjá börnum, allt frá heilsu barna til umhverfis þeirra. Vanræksla barna er til dæmis helsta ástæða tilkynninga til barnaverndarnefndar er varða ofbeldi. Mikil þörf er á rannsóknum á vanrækslu barna líkt og ofbeldi gagnvart börnum. Það má reikna með að 2–4 þús. börn séu þolendur heimilisofbeldis eða búi við heimilisofbeldi á ári hverju á Íslandi, en ef 2 þús. börn eru þolendur heimilisofbeldis á hverju ári, ef við miðum við lægri töluna, er aðeins tilkynnt um 14% þeirra til barnaverndarnefndar. Við þurfum alltaf að brýna þessa vitundarvakningu og aukningu á tilkynningum.

Í lokin langaði mig að þakka fólkinu sem vinnur að þessum málaflokki á þessu landi og ég get ekki sagt það nægilega oft að það er líka skylda okkar þingmanna að sjá til þess að vernd barna nái inn fyrir þröskuld heimilanna.



[17:37]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég sé mig knúna til að leiðrétta rangfærslur sem komu fram, sérstaklega í máli formanns velferðarnefndar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvar eigi að staðsetja nýja stjórnsýslustofnun. Það hefur verið skipuð nefnd með mjög hæfu og faglega völdu fólki sem er ætlað að koma fram með tillögur (Gripið fram í.) um höfuðstöðvar og starfsstöðvar nýrrar stofnunar.

Í þessu tilviki var það fulltrúi Samfylkingarinnar í þessari umræðu, hv. þm. Guðbjartur Hannesson. (GuðbH: … í sambandi við úrræðin.) Ég leiðrétti það hér með, ekki hefur verið tekin ákvörðun. Þegar ég skipa nefndir er ég ekki fyrir fram búin að ákveða hver niðurstaða þeirrar nefndar á að vera.

Síðan varðandi það að ég nálgist þetta af léttúð, það er alls ekki þannig. Við erum að tala um mjög mikilvægan málaflokk sem ég tel að við verðum að efla. Við erum ekki með þetta heildstæða þjónustuferli sem ég tel mjög mikilvægt að koma á. Við sinnum ekki börnunum okkar eins úti um allt land og við styðjum ekki við sveitarfélögin, þau sem bera ábyrgð á félagsþjónustu og barnavernd, með þeim hætti sem ég tel að við eigum að gera. Það er ástæðan fyrir því að ég tilkynnti fyrir þó nokkru síðan að ég hefði í hyggju að setja af stað þessa vinnu varðandi endurskoðun um samþættingu þátta sem snúa að framkvæmdaáætlun í barnavernd, samþætta þá við fjölskyldustefnuna, sem og að endurskoða stjórnsýsluna, finna hvernig ríkið getur stutt sem best við sveitarfélögin í að sinna félagsþjónustu og barnavernd.

Eins og þeir sem hafa kynnt sér fjárlögin vita höfum við hjá félags- og húsnæðismálaráðherra forgangsraðað (Forseti hringir.) í þágu þessa málaflokks. Við höfum verið að tryggja fjármagn til Barnahúss. Við erum (Forseti hringir.) núna að huga að fötluðum börnum sem munu koma inn í nýja framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks og tryggja fjármagnið þar. (Forseti hringir.) Við höfum verið að breyta tímabundnum heimildum í varanlegar heimildir sem snúa að Barnahúsi og ég vil líka nefna sérstaklega (Forseti hringir.) aukna áherslu á samstarf lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. (Forseti hringir.) Þar erum við meðal annars að nota þær 500 milljónir sem voru tryggðar hér (Forseti hringir.) og er komið varanlega inn í stofnun.

Ég þakka þér kærlega fyrir, forseti.