144. löggjafarþing — 23. fundur
 22. október 2014.
um fundarstjórn.

ræðutími í umræðum.

[17:41]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemdir. Hér stóð hæstv. ráðherra í ræðustól og talaði langt umfram tíma. Það var hringt á hana með bjöllu en hefði mátt segja eitthvað við hana. Hæstv. ráðherra hafði nýtt hluta af tíma sínum til að leiðrétta mig sem var í engu ástæða til leiðréttingar því að ég sagði að ekki lægi fyrir hvar stofnunin ætti að vera, hún væri búin að setja hana í uppnám því að þau vissu ekkert um framtíð sína.

Ég óska eftir því að ráðherrar séu áminntir um að halda sig innan tímamarka eins og aðrir, sérstaklega þegar þeir fara svo freklega fram yfir í tíma.



[17:41]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ef forseti telur ástæðu til að áminna mig varðandi tímann hvet ég forseta til að gera það. Ég taldi hins vegar mjög mikilvægt að koma á framfæri ákveðinni leiðréttingu.

Þetta er málaflokkur sem skiptir mig mjög miklu máli og ég legg mjög mikið á mig til þess að vanda mig vegna þess að ég tel að það skipti svo miklu máli fyrir fjölskyldurnar í landinu að við bætum þá þjónustu sem við bjóðum upp á núna. Við erum að gera margt gott en ég tel að við getum gert betur en við gerum í dag.



[17:42]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ráðherrar verða að fara eftir fundarreglum hér eins og aðrir. Ef þeir koma ekki öllu að á þeim tíma sem þeir fá þurfa þeir einfaldlega að undirbúa sig betur.

Ég heyrði ekki betur en að ráðherra væri hér í efnislegri umræðu undir fundarstjórn forseta. Þá tel ég að forseti hefði átt að áminna og hringja bjöllu til að hæstv. ráðherra héldi sig innan þeirra leikreglna sem gilda í þessum sal.