144. löggjafarþing — 23. fundur
 22. október 2014.
fjármögnun byggingar nýs Landspítala, frh. fyrri umræðu.
þáltill. KLM o.fl., 25. mál. — Þskj. 25.

[17:43]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er nú sem betur fer þannig að aðeins hefur þokast í málefnum Landspítalans. Nú er ekki lengur spurt hvort þurfi að byggja nýjan spítala heldur hvenær og hvernig. Deilan hefur staðið í mörg ár. Það var rifist um staðsetningu. Það tókst meira að segja að koma upp þeirri hugmynd að þetta yrði sérstaklega gert fyrir Reykjavík frekar en fyrir landið allt, en sem betur fer er það allt að baki. Nú er spurningin hvenær og hvernig.

Hvað varðar fyrri spurninguna um hvenær þá held ég að málið horfi einfaldlega þannig við, virðulegi forseti, að ekki sé hægt að bíða lengur. Það þarf að byrja að byggja. Það er búið að ákveða hvar á að byggja og það þarf að byrja að byggja. Öryggi sjúklinganna er í húfi.

Í síðustu viku þurfti að loka smitsjúkdómadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss vegna sýkinga. Það þurfti að loka heilli deild, einni af mikilvægustu deild spítalans þó að þær séu auðvitað allar mikilvægar.

Virðulegi forseti. 8 þús. sjúklingar sýkjast á Landspítalanum á hverju ári. Það kom fram hér áðan að 86% sjúklinga deila snyrtingu með öðrum sjúklingum. Auðvitað er mikið öryggisatriði að betur sé búið að sjúklingum á þessu sviði.

Í þeim teikningum sem liggja fyrir er t.d. gert ráð fyrir að öll lyf verði skömmtuð með róbótum, virðulegi forseti, sem sagt vélskömmtuð, og merkt hverjum sjúklingi. Öryggið sem fylgir því að mannshöndin komi þar ekki að heldur sé þetta allt forritað í vélum er slíkt að ég held að það sé erfitt að setja það í orð.

Annað sem á t.d. að vera í þessari nýju byggingu er þvottastöð fyrir rúm. Þegar kæmu nýir sjúklingar færu öll rúm í gegnum sérstaka þvottastöð. Við getum rétt ímyndað okkur hvað þetta þýðir fyrir sýkingarhættu og annað sem getur borist, það yrði miklu öruggara, og svo allur vinnukrafturinn sem fer í það núna þegar öll rúm eru handþvegin inni á sjúkrastofum. Þetta eru tvö lítil dæmi um þær breytingar sem verða.

Í síðustu viku, virðulegi forseti, var ég á fundi hjá Krabbameinsfélaginu. Þar var skýrt frá því að á nokkrum árum hefðum við færst frá því að standa okkur best í krabbameinslækningum á Norðurlöndum yfir í að vera öftust. Auðvitað höfum við gengið í gegnum hræðilegar efnahagslegar þrengingar og kannski var ekki hægt að ætlast til þess að við gætum haldið þessu efsta sæti, en á hinn bóginn gerir húsakosturinn það að verkum að við komum ekki PET-skanna, sem er mikilvægt tæki, fyrir í húsnæðinu. Fólk er sent héðan, margir á ári, til útlanda til að geta notast við þessa tækni.

Það vantar sérfræðinga í krabbameinslækningum og í öðrum lækningum líka. Það má ekki líta fram hjá því að starfsaðstaðan, sem læknum býðst hér og sérfræðingum sem hafa verið í mörg ár í útlöndum til að fullnuma sig, hlýtur að skipta miklu máli. Auðvitað skipta launin líka máli, en ef það er ekki hægt að bjóða fólki almennilega starfsaðstöðu er hætta á að það komi ekki heim eftir nám.

Virðulegi forseti. Ég lýsi áhyggjum mínum — ég nota orðið áhyggjur — yfir því viðhorfi sem kom fram í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra hér í vor, nánar tiltekið 28. apríl, þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég hef lýst því yfir sjálfur að við förum ekki að hagræða í starfsemi heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi upp á 2, 3, 4 milljarða til að greiða af afborgun lána við þetta verkefni.“

Virðulegi forseti. Sá sem gefur yfirlýsingu af þessu tagi er á þvílíkum villigötum. Hagræðið af því að sameina alla starfsemina á einn stað er augljóst og hefur verið reiknað að sé 2,6–3 milljarðar á ári. Þá koma menn og segja: Já, en það vantar peninga inn í spítalann. — Það er alveg rétt, en þá vantar bara meiri peninga til að bæta þjónustuna. Ætlum við að skófla inn nokkrum milljörðum til að henda í þá óhagkvæmni sem þarna er? Það er eiginlega óskiljanlegt að menn sjái ekki að af þessu verður sparnaður, jafnvel þó að við ætlum síðan að greiða meira inn í spítalann til þess að bjóða þar betri þjónustu miðað við ástandið.

Virðulegi forseti. Einhver nefndi það hér áðan að það væri ólíklegt að nefnd kæmi einhverju í gegn þar sem meiri hluti nefndarmannanna væru stjórnarandstæðingar. Ég held að það sé mjög einfalt að breyta samsetningu nefndar ef það er eitthvert trúaratriði að stjórnarmeirihlutinn hafi meiri hluta í nefndinni. Ég er eiginlega að vona það, virðulegi forseti, að þessi nefnd verði óþörf. Ég er flutningsmaður þessarar tillögu en ég vona samt að hún verði óþörf vegna þess að ríkisstjórnin komi á næstu dögum með tillögu um hvernig eigi að fjármagna spítalann. Eins og komið hefur fram hjá nokkrum ræðumönnum hér á undan þá erum við að tala um lágar upphæðir í heildarsamhengi ríkisfjármálanna.



[17:52]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Ég er einn af meðflutningsmönnum hennar.

Ég verð að byrja á því að segja að mér finnst skjóta svolítið skökku við að það þurfi í rauninni að leggja fram þingsályktunartillögu um að fylgja eftir annarri þingsályktunartillögu. Er það ekki svolítið furðulegt? Alþingi er búið að samþykkja, og við samþykktum það öll sem eitt sem vorum hér í þingsal í vor, að fela framkvæmdarvaldinu að finna leiðir til þess að endurbyggja og byggja við Landspítalann, en svo hefur lítið gerst. Við fáum litlar fréttir af stöðu mála þrátt fyrir miklar umræður sem við höfum reynt að eiga við bæði hæstv. heilbrigðisráðherra sem og hæstv. fjármálaráðherra. Þeir eru nú ekki alltaf sammála í þessum efnum. Það er þá ein leið, að bjóðast til þess að hjálpa til. Ég fagna því að við séum alla vega mörg sammála um að bjóða fram krafta okkar og bjóða það að sex manna þingnefnd hjálpi framkvæmdarvaldinu að finna leiðir til þess að byggja upp Landspítalann.

Við ræðum hér fyrst og fremst fjármögnunarleiðir, er það ekki? Eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom að á undan mér þá er fólk orðið frekar sammála um að það þurfi að fara í endurbyggingu og uppbyggingu á Landspítalanum. Nú ræðum við hvernig við ætlum að fjármagna það. Það er ekki auðvelt að finna út hvað stjórnvöld ætla sér í því efni. Við þurfum kannski ekki einu sinni að ræða forsendurnar fyrir því. Þær liggja alveg skýrar fyrir og fyrsti flutningsmaður fór mjög vel í gegnum þær allar í ræðu sinni. Þær liggja fyrir í greinargerð, en við ræðum hér leiðirnar að markinu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur talað um sölu ríkiseigna. Hæstv. fjármálaráðherra hefur slegið úr og í varðandi þá hugmynd, en mér fannst á honum að hann væri ekki á þeirri skoðun, að hann væri ekki sammála fagráðherra í málinu og talaði um að hugsanlega væri hægt að nýta væntan arð hjá ríkisfyrirtækjum í uppbygginguna. Hann sagði jafnframt að það mundi ekki mikið gerast á næstu þremur, fjórum árum. Þá varð ég mjög vonsvikin og hissa af því að ég hélt að við hefðum verið komin með niðurstöðu á síðasta þingi, ég hélt að skilaboðin hefðu verið mjög skýr. Þau voru það í augum þeirra 56 þingmanna sem greiddu atkvæði með fyrri tillögunni en þau hafa greinilega ekki borist hæstv. fjármálaráðherra.

Ég hef þess vegna verið að reyna að finna út hvað hæstv. ráðherra hugnist í þessum málum. Við höfum verið að ræða svolítið saman og ég hef reynt að grafast fyrir um af hverju hin svokallaða lífeyrissjóðsleið hafi ekki verið farin og á hverju hafi strandað þar. Mér skilst að það hafi bara aldrei verið útrætt. Ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra um þá leið, hvort hún sé nokkuð sem honum hugnist, en svo er ekki að skilja á hæstv. ráðherra, hann telur hana vera eins og hverja aðra lánaleið.

Við í Bjartri framtíð og ýmsir aðrir höfum nefnt lánaleiðina. Það er eins og það sé bannorð í þessum sal að tala um það, en það er ekki gert af neinni óráðsíu, við erum alveg jarðföst í þeim pælingum, en við viljum nefnilega skoða og fá á hreint þann kostnað sem fellur til í núverandi ástandi, þ.e. hvað það kostar að reka spítalann á 17 stöðum, hvað það kostar að vera ekki með hátækniþjónustu hér á landi á við PET-skanna, heldur sækja þá þjónustu til útlanda. Hvað með smit, flutninga og allt það sem rakið hefur verið vel, hvað kostar það okkur? Við höfum auðvitað séð ýmsar tölur en ég er ansi hrædd um að við höfum ekki fengið allan heildarkostnaðinn, því miður, af því að það er erfitt að taka hann saman.

Í þessu sambandi viljum við og margir aðrir ræða við stjórnvöld um hvort ekki væri skynsamlegra að eyða þeim pening í eitthvað sem stendur þó áfram í stað þess að kasta því út um gluggann, ef svo má segja, á ári hverju. Það er vissulega dýrt að vera fátækur og það verður sífellt dýrara í þessum efnum. Á meðan ekkert er gert köstum við peningum á glæ, það er nú bara þannig, og það engum smá fjárhæðum.

Mér finnst mjög undarlegt að heyra í þeim sem tekið hafa upp frasa um aðhald í ríkisfjármálum. Mér finnst undarlegt að heyra að þeim finnist í lagi að halda á þessum tilteknu ríkisaurum.

Ég fagna aftur þessari tillögu og við í Bjartri framtíð bjóðum fram alla krafta okkar og vonumst til að framkvæmdarvaldið geti nýtt þá eitthvað. En hitt er svo annað mál hvort þau vilja finna út úr þessu máli, ég er ekkert svo viss um það, það er að renna upp fyrir mér og það þykir mér mjög miður. Mér þætti bara miklu hreinlegra og betra ef stjórnvöld sæju sóma sinn í því að tala hreint út, t.d. tala hreint út við starfsfólk Landspítalans og láta það hreinlega vita af því að aðstæður þar séu ekkert að fara að batna næstu árin. Segið þeim það þá bara, ekki vera að draga fólk á asnaeyrunum og hafa það í vinnu og vekja einhverjar vonir hjá því sem munu væntanlega ekki standast. Þá vilja kannski þeir hjúkrunarfræðingar og læknar á Landspítalanum ekki eyða bara einni viku í mánuði í Noregi við að vinna sér upp tekjutapið við að vinna hér síðustu þrjár vikurnar í hverjum mánuði. Þetta fólk á rétt á því að fá heiðarleg svör og val um að gera þá eitthvað annað frekar en að sætta sig við þessar aðstæður.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. Ég vonast til að þessi tillaga fari til okkar í velferðarnefnd og hún gerir það væntanlega. Hún verður líklega afgreidd þar hratt og örugglega. Öll gögn málsins sem hægt er að finna liggja fyrir löngu fyrir og við vitum að við þingmenn hér á Alþingi erum sammála um að fara í uppbyggingu á Landspítalanum.



[18:01]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er bjartsýnismaður að upplagi, ég er fæddur þannig, og ég trúi á mátt rökræðunnar. Ég held ekki að verið sé að draga neinn á asnaeyrum. Ef hv. þingmaður lítur yfir gang umræðunnar síðustu tvo þingvetur kynni að renna upp fyrir henni að það er einmitt samræðan sem við höfum átt á Alþingi yfir þetta ræðupúlt sem hefur breytt afstöðu ýmissa. Þegar við komum til þings að loknum kosningum lá ekki þessi skilningur fyrir. Það var samræðan hér og vissulega líka úti í samfélaginu sem leiddi til þess að ráðamenn breyttu afstöðu sinni. Það hefur komið fram hægt og bítandi. Þess vegna er sú staða komin upp sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði hér fyrr í dag, það væri ekki spurning um hvort heldur hvernig yrði ráðist í þetta. Ég held því að það hafi náðst.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði að á meðan ekki er ráðist í byggingu nýs spítala er verið að kasta fjármunum á glæ. Húsakynnin eru gömul, þau grotna niður og ég tel að núna þyrfti að ráðast í bráðaviðhald sem sennilega næmi 1,5 milljörðum. Ég hygg að innan skamms þurfi að fara að eyða 4–5 milljörðum á ári í viðhald því það er ekkert sett í viðhald að heita má.

Ég kom upp vegna þess að hv. þingmaður sagði réttilega og eðlilega að það væri skrýtið að við værum að reyna að fá samþykkta þingsályktunartillögu um sérstaka nefnd til að fylgja eftir því sem við samþykktum í fyrra. Þá vek ég eftirtekt hv. þingmanns á því að það sem hefur verið að breytast síðan 2008 á þingi er að þingið hefur öðlast meiri völd á kostnað framkvæmdarvaldsins. Þinginu hafa verið falin meiri verkefni. Ég tel að þetta sé rökrétt framhald á því. Þarna er um stórt verkefni að ræða og þingið náði niðurstöðu um að ráðast í það, eftir rökræðu, ég met það svo. Það er eðlilegt að þinginu sé líka falið að skera (Forseti hringir.) úr um þau atriði sem á vantar til þess að hægt sé að byrja.



[18:03]
Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er vissulega áhugavert sjónarmið hv. þingmanns og ég get skilið það sem hann segir hér. Ég skil einfaldlega ekki að þessi boð til framkvæmdarvaldsins séu ekki nógu skýr. Ég er kannski eitthvað óþolinmóðari en hv. þingmaður út af því að þetta lá fyrir, þetta lá fyrir meira að segja vel fyrir kosningar. Fyrir kosningar voru allir flokkar sammála um þetta og við heyrðum ýmis falleg kosningaloforð um að bjarga Landspítalanum og fara að byggja nýjan Landspítala hjá öllum flokkum. Þetta var frekar skýrt. Kannski voru einhverjir innan einhverra flokka ekki búnir að tala sig saman, en það hefur held ég gerst núna. Auðvitað þurfum við að eiga umræðuna til þess að það gerist, ég tek undir með þingmanninum með það. En ég er kannski bara óþolinmóðari en hv. þingmaður og get illa beðið því mér finnst skilaboðin hafa alltaf verið mjög skýr, ekki síst fyrir lok síðasta þings. Ég skil ekki eftir hverju hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra eru að bíða.



[18:05]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að flokkarnir kunni að hafa talað skýrt fyrir kosningar varð staðreyndin eigi að síður sú að þegar við komum til þings þegar þeim sleppti þá var því lýst yfir af einum þeirra þriggja ráðherra sem mestu ráða í þessu máli að örvænt væri um að það tækist að samþykkja að byrja bygginguna á þessu kjörtímabili. Því hefur umræðan breytt.

Svarið við því af hverju þessa tillögu kunni að þurfa til þess að hægt sé að hefja ferðalagið fólst í ræðu hv. þingmanns áðan. Þá sagði hún réttilega undir lok ræðu sinnar að það væri ágreiningur um leiðir millum hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra. Ég hygg að svo sé. Við slíkar aðstæður er ekkert óeðlilegt að nefnd þingmanna úr öllum flokkum leggi saman höfuð til þess að reyna að finna heppilegar leiðir til þess að fjármagna verkið, áfangaskipta því líka og leysa eftir atvikum önnur álitamál. Ég hef alltaf talið það heppilegustu leiðina.

Ég var árum saman á Alþingi sem laut gjörsamlega boðvaldi framkvæmdarvaldsins. Hingað komu inn ár eftir ár fyrirskipanir frá framkvæmdarvaldinu í formi frumvarpa og þingsályktunartillagna sem lá alveg ljóst fyrir að þingmenn stjórnarflokkanna höfðu ekkert svigrúm til þess að víkja frá. Það er sem betur fer að breytast. Það er einn af lærdómunum sem við höfum dregið af þeim óskaplegu atburðum sem urðu hér í þjóðlífinu 2008. Í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og umræðu um hana finnst mér a.m.k. að það megi sjá þess merki að í vaxandi mæli taki þingið til sín meira sjálfstæði. Það finnst mér gott. Ég lít svo á að þessi tillaga sé til marks um það og hún sé partur af þeirri vegferð. Þess vegna er ég ánægður með þessa tillögu.



[18:07]
Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að taka af allan vafa þá vil ég ekki að hv. þingmenn skilji mig þannig að ég sé ekki ánægð með tillöguna. Ég er það, ég er meðflutningsmaður. En það er gott að eiga þessar samræður við hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég er honum alveg sammála um að það er mikilvægt að efla sjálfstæði þingsins. Það er raunverulega þannig að sérstaklega minni hlutinn — það hlýtur alltaf að vera þannig, hver svo sem þar er — hefur ekki mikið um málið að segja. Það er ef til vill betur hægt, þrátt fyrir allt tal um mikilvægi samráðs og sátta, þegar þingmenn hafa beinan aðgang að málinu.

Það er ágreiningur um leiðir og það er mikilvægt að við ræðum um þær. Við gætum orðið ósátt við hvaða leiðir ríkisstjórnin vill fara til að byggja upp Landspítalann. Ég segi fyrir mig að ég vil að það sé alveg á hreinu að Landspítalinn verði á einhverjum tímapunkti eign þjóðarinnar, að það verði ekki einkaaðilar sem reki hann í stórum stíl. Ég verð að segja að ég varð svolítið hrædd í þeirri umræðu sem ég átti við hæstv. fjármálaráðherra, þegar ég ræddi þessar leiðir við hann, um að hann væri ef til vill ekki sama sinnis. Þá hugsaði ég: Jæja, það er kannski betra — ég veit ekki hvort ég á að segja þetta — að láta kyrrt liggja.

Það er vissulega mikilvægast í þessu stóra máli að fólk (Forseti hringir.) komist að samkomulagi og þetta sé gert í sátt.



[18:09]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri tillögu sem hér er lögð fram en harma um leið að hafa ekki getað verið meðflutningsmaður þar sem ég var ekki á þinginu en varamaður minn á þingi, Ólína Þorvarðardóttir, er meðflutningsmaður.

Ég lít á þessa tillögu þannig að fyrst og fremst sé verið að reyna að ýta þessu verkefni áfram skref fyrir skref eftir að samstaða náðist um það á síðasta þingi að byggja ætti spítala. Þá var það þar með ákveðið. Komið hefur fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að ekki sé lengur ágreiningur um staðsetningar eða neitt slíkt og raunar heldur ekki um umfangið og þá undirbúningsvinnu sem átt hefur sér stað. Eini þröskuldurinn sem eftir er sé fjármögnunin og hvenær hægt verði að hefja framkvæmdir.

Hér er gerð tillaga um að búa til hóp sem reynir að þoka málunum áfram í þeirri sátt sem náðist á síðasta þingi, vegna þess að það skiptir auðvitað miklu máli að þetta mál sé ekki pólitískt bitbein á þinginu. Í rauninni er alveg ótrúlegt að það skuli hafa orðið það. Við höfum verið að rifja það upp að fjöldi ráðherra frá nánast öllum flokkum sem þá áttu sæti á þingi, kom að málinu, stýrði vinnunni eða átti heilbrigðisráðherra og barðist fyrir þessu máli. Það gildir um Sjálfstæðisflokkinn, sem átti formennsku í undirbúningsnefndum og einnig ráðherra, það gildir um Framsóknarflokkinn og um Vinstri græna og Samfylkingu. Þetta hefði því aldrei átt að verða mikið bitbein.

Þegar málið kom í þingið í þessari lotu var búið að vinna tillögur og annað. Þá var mikilvægi spítalans náttúrlega lagt fram sem rök í málinu og allt það sem fram kemur í greinargerð, en samtímis var lögð fram mjög vönduð greinargerð sem unnin var af starfsmönnum spítalans og ráðgjöfum þeirra og síðan erlendum fyrirtækjum sem höfðu reynslu af byggingum nýrra spítala og kostum þess að taka nýja spítala í notkun. Var það metið þannig að hagræðingin og sparnaðurinn eingöngu við breytingar á byggingunum, þ.e. að færa starfsemina á einn stað, koma henni — ég segi nú ekki undir eitt þak, en inn á eitt svæði, væri einhvers staðar í kringum 2,6–3 milljarða kr. Fjárlaganefnd sem fjallaði um málið á sínum tíma kallaði eftir því að áður en næsta skref yrði tekið mundi þingið fara yfir útreikningana, leggja mat á þá og skoða síðan hvort þeir væru ekki réttir. Því má ekki undir neinum kringumstæðum rugla saman við það að það vantar fjármagn inn á spítalann til rekstrar daglegrar þjónustu, það er alveg rétt. En bara það að koma starfseminni á einn stað þar sem allar leiðir styttast, öryggi eykst og hægt er að bæta við þjónustuna og minnka flutninga á milli stofnana innan bæjar, mundi skila 2,6–3 milljörðum kr. Sá ávinningur kemur ekki af neinum öðrum aðgerðum.

Ég er einn af þeim sem þurftu að bera ábyrgð á verulegum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu eftir hrun. Við gerðum okkur fyllilega grein fyrir því að of langt var gengið strax árið 2012. Þess vegna var byrjað að gefa til baka í fjárlögunum 2013. Ég hef ítrekað sagt frá því í þessum ræðustól að ég tel að heilbrigðismálin, sem taka núna í kringum 8,8% af landsframleiðslu, tóku mest um 9,5%, eigi að fara aftur upp í 9,5%. Og nú þegar landsframleiðslan eykst er sorglegt að sjá að hlutdeild Landspítalans og heilbrigðiskerfisins í landsframleiðslunni eykst ekki. Það ber ekki vott um þann forgang sem margir hæla sér af og segja að forgangsraðað hafi verið í þágu heilbrigðisþjónustu. Það hefur vissulega verið bætt við eftir að fjárlögin komu fram. Það var milljarðaniðurskurður til viðbótar í fjárlögum fyrir 2014 en þá tók þingið sig til og breytti því og bætti verulega í, það var hið besta mál. En hluti af því sem vantaði, sem varð til þess að fyrrverandi forstjóri sagði af sér, var að gefa skilaboð inn í framtíðina, þ.e.: Hvert stefnum við? Hvað ætlum við að gera? Heilbrigðisstarfsmenn og samfélagið allt hafði tekið á sig gríðarlega mikinn niðurskurð á erfiðum tímum. Þá hefði þurft að gefa fólki jákvæð fyrirheit um hvert við stefnum og um uppbyggingu.

Því miður hefur slíkt ekki komið fram enn þá. Eitt af því sem hefði þurft að segja er: Við ætlum að ráðast í nýbyggingu, við ætlum að bæta aðstöðuna, við ætlum að tryggja að ný tæki komist inn. Við ætlum að búa þannig um hlutina að við getum tekið á móti áföllum vegna sjúkdóma og annars slíks, eða réttara sagt við getum hindrað að það verði sjúkdómar inni á sjúkrahúsum sem eru erfiðir viðfangs eins og spítalinn hefur lent í á undanförnum vikum.

Þetta snýst í rauninni allt saman um að komast af stað með þessa tvo fyrstu áfanga, þ.e. meðferðarkjarnann og rannsóknarstofuhúsið. Það tvennt mundi leiða til þess að hægt væri að færa allt inn á Hringbrautarreitinn, alla þjónustuna sem er uppi á Borgarspítala. Það væri gríðarlega stórt skref og margt af því sem verið er að bíða eftir mundi nást með því.

Ég ætla ekki að fara yfir allar þær röksemdir sem komið hafa fram í umræðu um þetta mál en ætlast til þess að þeir sem lagt hafa mat á stöðuna fari yfir feril málsins, skoði útreikninga á því hvaða hagræðing felst í því bara að byggja spítalann og koma honum í notkun, sem er auðvitað hluti af því sem mun borga þessa byggingu að töluverðu leyti eða a.m.k. að ákveðnum hluta.

Nú er búið að stofna félag sem heitir Spítalinn okkar, sem berst fyrir því að ýta þessu máli áfram. Það er mikilvægt að við sameinumst um það. Það þarf líka að tryggja að rangfærslur um að Landspítalanýbyggingum eða breytingum á byggingum, endurbyggingum og byggingum sé stefnt gegn landsbyggðinni. Það er ekki þannig. Ég held að menn eigi einmitt að tala um Landspítalann sem þjóðarsjúkrahús, sem okkar sameiginlega sjúkrahús. Fram kemur í öllum tölum að verulega stór hluti af þeim sem nýta spítalann koma af landsbyggðinni. Það þýðir þó ekki að ekki þurfi að halda uppi þjónustunni úti um allt land eins og hægt er, en sérhæfðu verkefnin verða alltaf hér. Þarna verður sérfræðiþekkingin mest og ákveðnir hlutir verða aldrei unnir nema hér og sumir sjúklingar verða jafnvel að fara til útlanda, eins og menn vita. En mun færri sjúklingar þurfa að fara til útlanda ef við getum bætt aðstöðuna á þessu nýja sjúkrahúsi.

Tillagan sem hér er til umræðu er fyrst og fremst um að leita leiða. Við höfum heyrt að lífeyrissjóðirnir geti fjármagnað þetta. Við höfum heyrt hugmyndir frá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, hann kemur nú vonandi hér, hann var á mælendaskrá, ég veit ekki hvort hann er þar enn þá. Hann hefur verið með vangaveltur um það ef við hefðum haldið áfram með sykurskattinn gætum við byggt nýjan spítala. Bara 0,5% lækkun á tekjuskatti þýðir 5 milljarðar á ári sem dreifist þannig að hún skilar örfáum hundraðköllum eða þúsundköllum til millitekjuhópanna. Ég er alveg handviss um að það fólk hefði allt verið tilbúið að segja: Við skulum fresta þessari lækkun á meðan við erum að borga nýjan spítala og bæta heilbrigðisþjónustuna.

Við eigum að geta náð þjóðarsátt um að fjármagna þetta. Tillagan er til þess að leita að þeirri sátt og ég vona að hún fái góða afgreiðslu og verði samþykkt hér.



[18:18]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir þá þrautseigju sem hann hefur sýnt í málinu. Ég held að umræðan um þessa tillögu núna og sömuleiðis þá tillögu sem hann flutti í fyrra hafi orðið til þess að breyta töluvert afstöðu þingsins til málsins.

Því var haldið fram hér fyrr í dag að nánast allir flokkar hefðu verið sammála um að það væri verkefni sem biði nýs þings að ákveða byggingu nýs Landspítala. Það reyndist nú ekki vera svo þegar við komum til þings. Nýir landsfeður sáu þá alls konar annmarka á þeim hugmyndum, ekki síst að það væri, eins og alltaf er uppi á góðu heimili sem horfir til framtíðar, töluverður fjárskortur. Þá blasti við sú staðreynd að mikilvægir þungavigtarráðherrar í ríkisstjórninni sögðu hreint út að vegna þess hvernig útlit væri væru engin loforð uppi um að stefnt yrði að því að byrja á byggingu nýs Landspítala eða ljúka ákvörðun á þessu kjörtímabili.

Það sem þessi umræða hefur hins vegar leitt fram er að þeir sem voru efasemdarmenn og töldu að við hefðum ekki efni á þessu hafa skipt um skoðun. Það sem einkennir umræðuna í dag er að menn spyrja ekki lengur hvort heldur hvernig og þá hvenær.

Eitt af því sem ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir er að hafa einmitt sýnt fram á að hægt er að áfangaskipta þessu mikla verki, sem í heild á að kosta 80 milljarða, með þeim hætti að tvær mikilvægustu byggingarnar eða einingarnar, þ.e. meðferðarkjarninn og rannsóknarkjarninn, yrðu reistar á fimm árum og það mundi kosta 45–50 milljarða. Það er vel kleifur hjalli, það er ekki hægt að segja annað. Þess vegna skiptir máli að menn komist að niðurstöðu.

Hugsanlega hefur umræðunni fleytt fram með þeim hætti að við erum ekki lengur að ræða hvaða röksemdir það eru sem hníga að því að við eigum að taka þessa ákvörðun heldur hvernig best sé að fjármagna hana. Það hafa ýmsar hugmyndir komið fram í umræðunni. Menn hafa lýst ýmsum viðhorfum. Sumir vilja gera það með sölu eigna, aðrir vilja bara gera það beint af fjárlögum. Það eru ýmsar leiðir.

Í fyrsta lagi væri hægt að fara þá leið að ríkið hæfi skuldabréfaútgáfu til þess að þjóðin sjálf gæti fjármagnað þetta og þá, líkt og þegar þjóðin fjármagnaði hringveginn, tæki hún upp á því að geyma ríkisskuldabréf eins og afar okkar og ömmur gerðu undir teppinu og ég man svo rækilega og vel eftir.

Í öðru lagi væri hægt að eyrnamerkja tiltekna liði á fjárlögum sem ættu að renna til verksins.

Það eru miklar deilur um veiðigjöld. Ég sé ekkert að því að þjóðin reyndi að sameinast um að hluti veiðigjalds færi til dæmis til þess að kosta byggingu þjóðarspítalans.

Í þriðja lagi er hægt að fara þá leið að selja eignir ríkisins og nota það til þess að byggja spítalann.

Í fjórða lagi væri hægt að fjármagna þetta beint af fjárlögum.

Hv. þm. Björt Ólafsdóttir hugsaði hér upphátt og velti því fyrir sér hvað varð um lífeyrissjóðsleiðina. Menn ræddu það að lífeyrissjóðirnir gætu í senn hjálpað umbjóðendum sínum, þjóðinni allri, en líka fundið góða ávöxtun fyrir fé sitt með því að fjármagna byggingu nýs spítala. Það má segja að breyting á lögum um fjárreiður, sem þingið er að fjalla um og mér sýnist að allir þingflokkar séu sammála um, kynni að aðstoða við þá leið vegna þess að hún gerir það fært að eignfæra stofnfjárfestingar sem síðan væri hægt að afskrifa á löngum tíma. Það er ekki hægt í dag og þetta er einn af þeim tæknilegu annmörkum sem gerir hverri ríkisstjórn mjög erfitt fyrir að fara í framkvæmd af þessu tagi, sem þó er hægt að sýna fram á að væri arðbær.

Það eru því ýmsar leiðir. Ég hef talað fyrir svokallaðri blandaðri leið. Í umræðunni í fyrra kom fram af hálfu VG að sá ágæti stjórnmálaflokkur taldi langfarsælast að fara þá leið að fjármagna þetta beint af fjárlögum. Þá kom hæstv. fjármálaráðherra og kvaðst ekki vilja það, það kæmi ekki til greina. Hann vildi fara leið eignasölunnar. En ég tel að við getum farið bil beggja og gert hvort tveggja. Það er eitt af því sem nefndin, sem er andlag þeirrar þingsályktunartillögu sem við ræðum í dag, á að finna út. Eins og ég hef sagt áður í samræðum yfir þingpúlt við hv. þm. Björt Ólafsdóttur er ég þeirrar skoðunar að það sé einmitt þingsins að komast að þessari niðurstöðu. Það bæði fríar landsfeður og -mæður frá því að þurfa að takast á um málið, og við vitum bæði tvö og þingheimur að það er ekki full sátt um hvaða leið á að fara, en hitt skiptir meira máli fyrir mig að með því fetum við okkur lengra á þeirri braut að þingið taki til sín meira sjálfstæði, verði meira afgerandi. Og sem betur fer höfum við séð það eftir síðustu kosningar, líka í tíð síðustu ríkisstjórnar, að frá 2008 hefur þingið í vaxandi mæli verið að taka sér aukið vald. Þannig á það að vera. Þegar um er að ræða það sem átti að vera þjóðarstolt, eitt það mikilvægasta sem blasir við fyrir heill þjóðarinnar, byggingu nýs spítala, er sjálfsagt að það sé þingið sem komi að því.

Herra forseti. Menn hafa með ýmsum hætti velt upp þeim röksemdum sem styðja það að við tökum þessa ákvörðun sem fyrst. Ég held að flestir séu komnir á þá skoðun að ekki sé eftir neinu að bíða nema að finna úrlausn á fjármögnuninni. Það er hægt að gera það. Það var reiknað út fyrir nokkrum árum að líkast til mundi það að sameina alla starfsemina á einn stað skila arðsemi af fjárfestingunni sem í það fer sem mætti reikna upp á 2,6–3 milljarða. Ætli það sé ekki orðið snöggtum hærra á núgildandi verðlagi, ætli það megi ekki setja það á 3 milljarða á ári? Menn hafa í umræðum á þinginu dregið það í efa, m.a. hæstv. heilbrigðisráðherra, en maður þarf að skoða þær staðreyndir sem hafa komið fram, að húsakostur Landspítalans í dag er dreifður á 17 staði, yfir 100 hús, 160 þúsund fermetrar. Allir þeir snúningar sem það kallar á, það hefur komið fram í umræðunni að á hverju ári þarf níu þúsund ferðalög á milli spítalanna tveggja, Landspítalans og hluta hans í Fossvogi. Ég veit ekki hvort það hefur komið fram í umræðunni að það þarf þar að auki 25 þúsund aðrar ferðir þarna á milli með sýni o.s.frv. Á hverjum degi eru farnar ellefu ferðir með tól og tæki sem þarf að dauðhreinsa uppi á Tunguhálsi. Með auðveldum hugarreikningi er hægt að sjá að það eru fast að því fjögur þúsund ferðir á ári. Allt kostar það mikla peninga.

Það hefur sömuleiðis komið fram að ekki er hægt að kaupa tiltekin tæki vegna þess að núverandi húsakynni rúma þau ekki, þau hafa ekki burðarþol. Það er ekki einu sinni hægt að koma á laggir almennilegri loftræstingu. Í þeim gögnum sem ég hef lesið kemur fram að á hverri klukkustund þarf að flytja milljón rúmmetra af lofti út úr spítalanum til þess að halda réttri loftræstingu. Það er eins og meðalrennsli Þjórsár. Það er ekki hægt vegna þess að lofthæðin er ekki nógu mikil.

Það kom fram í umræðu í dag að 8% af sjúklingum Landspítalans sýkjast af sóttkveikjum sem eru landlægar þar. Ég held að í þeim gögnum sem ég hef lesið komi fram að hægt sé að minnka það niður í 2–3% á nýjum spítala. Það þýðir að kannski er hægt að koma í veg fyrir að fast að 5% af þeim sem gista Landspítalann verði veikir vegna sóttkveikja sem eru ónæmar og er mjög erfitt að ráða niðurlögum á. Þetta eru lífsgæði fyrir viðkomandi, þetta er líka sparnaður fyrir samfélagið.

Það er því ákaflega margt sem hnígur að því að þetta sé hagkvæm fjárfesting, það sé hægt að kljúfa hana og sömuleiðis að það sé eftir litlu að bíða.

Ég sé að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem ætlar að taka þátt í þessari umræðu er mér alveg sammála. Ég bíð eftir því að hann komi hingað og lýsi því yfir. Hv. þm. Óli Björn Kárason, stóllinn er þinn.



[18:28]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stenst ekki mátið, þegar maður fær tækifæri til að eiga orðastað við hv. þm. Össur Skarphéðinsson þá geri ég það nú oftar en ekki.

Ég ætla ekki að ítreka þær efasemdir sem ég setti fram hér um skipan nefndar sem er allt í góðum huga gert, en ég efast um að árangurinn verði sá sem að er stefnt.

Það er eitt sem ég vil spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson um. Fyrir utan að ætla að nota sömu krónurnar tvisvar, eins og hann virðist ætla að gera, þ.e. að sparnaður verði í rekstri Landspítalans sem hægt væri að nota til að standa undir til dæmis vaxtakostnaði eða fjármagnskostnaði þegar við vitum að fé vantar inn í reksturinn, þá er auðvitað mjög sérkennilegt að tala síðan um sparnað til að nota. Ég segi: Sparnaðurinn sem næst með byggingu Landspítala, nýs Landspítala, á auðvitað að fara í að styrkja innviði Landspítalans, í rekstur. Það er ekki rétt að stilla þessu upp með þessum hætti.

Spurning mín er fyrst og fremst sú — vegna þess að hv. þingmaður virðist vera opinn fyrir því til dæmis að selja ríkiseignir — hvort hann geti tekið undir það að hægt sé að skoða að færa eignarhlut ríkisins, 20–30% í Landsvirkjun, yfir í nýtt sjúkrahús og að á móti mundu lífeyrissjóðirnir eignast þann hlut í Landsvirkjun og við notum fjármunina, 30% af Landsvirkjun, til að færa yfir í nýtt háskólasjúkrahús, þjóðarsjúkrahús, sem við yrðum öll vel sæmd af.



[18:30]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér í dag að ef búið væri að hafna þeim leiðum sem hann lagði til að farnar yrðu um fjármögnun nýs Landspítala mundi hann skoða alla hluti. Ég er á þeim línum. Ég er til í að skoða alla hluti. Ég skal viðurkenna þó fyrir hv. þm. Óla Birni Kárasyni að mér er ekkert um það gefið á þessu stigi að ræða um sölu á hluta af Landsvirkjun. Ég tel að það séu betri kostir í stöðunni. Ég veit að hv. þingmaður velur alltaf besta kostinn þó að það sé stundum erfitt að sýna honum fram á hver sá kostur er.

Það vill svo til að við eigum Landsbankann og það vill svo til að einmitt vegna góðra samninga fyrrverandi fjármálaráðherra þá voru okkur færð hér á síðasta ári 18% til viðbótar af honum sem voru eignfærð á ákaflega lágu verði. Ég er þeirrar skoðunar og hef sagt það áður að við eigum að íhuga sölu á hluta eignar okkar í Landsbankanum til þess að hefja þessa framkvæmd. Ég vænti þess að hv. þingmaður geti orðið mér sammála um það.

Hingað til hefur það meðal annars greint mínar skoðanir frá hans að hann hefur verið einn af óðustu einkavæðingarsinnunum. Ég hef ekki verið á þeim buxum. Ég er hins vegar til í að taka þetta ferðalag með honum. Ef hv. þingmaður er reiðubúinn til þess að koma með mér í það að selja hluta af Landsbankanum til þess að fjármagna meðferðarkjarnann og rannsóknarkjarnann í Landspítalanum þá skal ég dansa við hann í kvöld.



[18:32]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Landsbankann þá verðum við að hafa í huga að ríkissjóður skuldar allan sinn eignarhlut í bankanum. Er ekki rétt, áður en hv. Alþingi tekur ákvörðun um að selja ríkiseign, að skoða með hvaða hætti það ætlar að borga þær skuldir sem stofnað var til til að eignast þá eign? Ég ætla að benda hv. þingmanni á að það væri kannski gott og hyggilegt að lesa blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu á morgun eftir þann sem hér stendur um Landsbankann og landsbankabréfið.

Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort hv. þingmaður geti ekki tekið undir að það sé a.m.k. einnar messu virði að setjast niður og athuga hvort lífeyrissjóðirnir séu ekki tilbúnir til þess að eignast hlut í Landsvirkjun, 25–30%, og við notum þá fjármuni til að fjármagna nýjan, glæsilegan, öflugan Landspítala og um leið verði samið um það að ríkið eigi einhliða kauprétt á eignarhlut lífeyrissjóðanna í Landsvirkjun og geti kallað hann aftur til sín að 25 árum liðnum. Það sem gerist er að ríkissjóður þarf þá ekki að greiða fjármagnskostnað af byggingarframkvæmdum. Það sem gerist líka er að við töppum af íslenskum fjármagnsmarkaði fé sem er nú að mynda hér bólu á fasteigna- og hlutabréfamarkaði o.s.frv.

Öll skynsamleg rök sýna að nú er einmitt tækifærið til að setjast niður til einnar messu og fara yfir þetta.



[18:34]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fullvissa hv. þingmann um að allar þær greinar sem hann skrifar í Morgunblaðið og annars staðar les ég af fölskvalausri aðdáun. Ég er ekki alltaf sammála þeim, en oft koma þær mér til þess að hugsa nýjar hugsanir.

Ræða hv. þingmanns hérna áðan kom mér líka til þess. Mér finnst sú leið sem hann leggur hér fram framandi, þ.e. útfærslan á henni, og einnar messu virði að skoða hana. Lengra vil ég ekki ganga.

Hins vegar vil ég, með leyfi hæstv. forseta, segja hér við hv. þm. Björt Ólafsdóttur að hún hafi séð það sem ég var að tala um áðan, mátt rökræðunnar. Nú hefur það gerst að einn af þeim mönnum sem kom hingað í dag og var heldur skeptískur kemur hingað innblásinn af þrótti eftir að hafa hlustað á þessar umræður okkar og leggur fram eina leið. Það skiptir máli. Menn eru sem sagt farnir að hugsa í pragmatískum lausnum. (Gripið fram í.)

Ég hlakka til, herra forseti, að lesa grein hv. þingmanns um Landsbankann á morgun. Ég get meira að segja sagt að það er líka skynsamlega hugsað hjá honum þegar hann segir: Ef Landsbankinn verður seldur eða hlutur úr honum, á andvirðið þá ekki að renna til þess að borga skuldina?

Þá ætla ég að leyfa mér að bjóða hv. þingmanni í lengra ferðalag með mér. Það eru til fleiri bankar. Ríkið á 9% hlut í einum banka og mig minnir 5% í öðrum. Hvað hefur ríkið að gera við svo lítinn hlut í einhverjum bönkum? Ætli það samanlagt slagi ekki upp í þriðjung af því sem mundi kosta að fara í þennan áfanga sem við höfum verið að ræða á Landspítalanum?

Ég spyr hv. þingmann: Getum við sæst á að byrja á því?



[18:36]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjármögnun byggingar nýs Landspítala og ég er einn flutningsmanna. Ég taldi það rétt miðað við það sem á undan er gengið og hvar við erum stödd í dag, taldi eðlilegt að á þessum tíma væri hægt að skipa nefnd þingmanna sem mundi skoða allar leiðir til fjármögnunar nýs Landspítala. En ég viðurkenni það fúslega að ég er ein af þeim sem telja að besta leiðin sé — ef ég fengi einhverju ráðið og fleiri væru á þeirri skoðun — að þetta yrði fjármagnað af fjárlögum ríkisins og að þjóðin byggði sinn eigin Landspítala; að hún fjárfesti þannig í framtíð lands og þjóðar og horfði til tekjuöflunar þar á móti.

Ég vil í þessu sambandi minna á að við höfum lög í landinu sem voru samþykkt 28. mars 2013, lög um byggingu nýs Landspítala, það er um breytingu á lögum sem voru samþykkt árið 2010 um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala. Alþingi hefur því þessi lög í landinu sem hafa ekki fallið úr gildi og standa fyrir sínu. Þegar þessi lög voru samþykkt vorið 2013 greiddu eingöngu þrír þingmenn atkvæði gegn þeim. Það segir þá sögu hve breið samstaða var um byggingu nýs Landspítala en þar á meðal greiddu núverandi hæstv. ráðherrar atkvæði með því að nýr Landspítali yrði byggður. Vissulega hafði maður væntingar til þess að þegar viðkomandi hv. þingmenn væru orðnir hæstv. ráðherrar í nýrri ríkisstjórn mundu þeir fylgja þessum lögum eftir og fara í framkvæmdir. En raunin reyndist önnur og menn hafa ekki forgangsraðað í þágu nýs Landspítala, ekki með tekjuöflun, verið að afsala sér miklum tekjum í formi veiðigjalda og auðlegðarskatts svo að eitthvað sé nefnt. Við stöndum því í þeim sporum að leita allra leiða til að meta málið upp á nýtt því að þörfin er vissulega brýn.

Við þekkjum hollvinasamtökin sem hafa komið í heimsókn til margra hv. þingmanna og kynnt okkur hversu brýnt það er að endurnýja húsakost Landspítalans. Fram hefur komið að þjónustuþörf eykst um 3% á ári hjá 60 ára og eldri og á næstu 40 árum svo að við megum ekki ýta þessu stóra máli endalaust fram til komandi kynslóða. Við þekkjum það að gömlu byggingarnar mæta ekki kröfum og stöðlum nútímans og það er líka margt sem snýr að starfsmönnum Landspítalans sem við þurfum að hafa í huga. Við höfum því miður verið að missa margt hæft heilbrigðisfólk úr landi og því miður stefnir í áframhald þess að heilbrigðisstarfsfólk, hvort sem er hjúkrunarfólk eða læknar, sjái ekki fyrir sér að vinna hér á Landspítalanum eða hér á Íslandi eftir sitt nám. Eitt af því sem veldur því að þetta fólk tekur þá ákvörðun er hversu léleg aðstaðan er orðin á Landspítalanum og ekki virðist líta út fyrir að gera eigi bragarbót á því á næstunni.

Ég vil minna okkur öll á að Landspítalinn er ekki bara höfuðborgarsjúkrahús heldur spítali allra landsmanna.

Hér er ég með yfirlit yfir innlagnir á Landspítalann árið 2012 og þá er höfuðborgarsvæðið með 6,9% af innlögnum svo að sjá má að stór hluti þeirra sem leggjast inn hefur komið annars staðar að af landinu. Ég vil líka aðeins rökstyðja það að brýn þörf sé á byggingu nýs Landspítala. Við Vinstri græn höfum fjallað um þessi mál oftar en einu sinni og þau hafa mikið verið rædd á fundum hjá okkur í gegnum tíðina. Landspítalinn er þjóðhagslega hagkvæm framkvæmd, miklir fjármunir fara nú þegar aukalega á hverju ári í að reka spítalann á 17 stöðum í Reykjavík eins og nú er. Það er ljóst að þau útgjöld munu aukast jafnt og þétt eftir því sem árin líða. Byggingarnar sem hýsa spítalann eru flestar úr sér gengnar og þarfnast mikils viðhalds og endurnýjunar ef horfið verður frá því að sameina starfsemina undir nýju þaki.

Við vitum að Landspítalinn er flaggskip heilbrigðisþjónustu í landinu. Þar eru gerðar erfiðustu og flóknustu aðgerðirnar, þangað koma yfir 100 þús. sjúklingar á ári alls staðar af landinu. Landspítalinn er um 5 þús. manna vinnustaður og ein stærsta kennslu- og rannsóknarstofnun á heilbrigðissviði í landinu. Núverandi húsnæði getur ekki tekið við nauðsynlegum og nýjum tækjakosti, það er veruleikinn. Það stendur þjónustu við sjúklinga fyrir þrifum, veldur aukinni sýkingarhættu og vinnuaðstaða er erfið fyrir starfsmenn. Þess vegna hníga öll rök að því að fara af stað sem fyrst í byggingu nýs Landspítala.

En aftur að þingsályktunartillögunni sem hér liggur fyrir. Mér finnst að við eigum að láta reyna á það að flokkar geti rætt sig saman að einhverri niðurstöðu. Ég held að það sé bara heilbrigðisvottorð að gera það. Ég gæti svo sannarlega séð fyrir mér að nýr Landspítali yrði fjármagnaður með auðlegðarskatti. Það er ein af þeim leiðum sem mér hugnast mjög vel. Það eru eflaust til fleiri leiðir til að fjármagna Landspítalann. Við megum ekki hrökklast frá þessu verkefni og byrja að tala um einkavæðingu og sölu ríkiseigna. Mér finnst það vera til skammar fyrir þessa þjóð ef hún ætlar ekki að halda myndarlega utan um þetta mál. Eins og komið hefur fram í umræðunni gátum við, fátæk þjóð, á sínum tíma byggt Landspítala og við hljótum að skulda komandi kynslóðum það að gera það hér og nú.



[18:47]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er komin hér til þess að lýsa stuðningi mínum við þessa þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og reyndar allar aðrar góðar tillögur sem geta leitt til þess að losa Landspítalann úr þeirri pattstöðu sem hann er kominn í og veldur stjórnendum sjúkrahússins, starfsmönnum öllum, sjúklingum, aðstandendum og þeim nemum í heilbrigðisvísindum sem þar starfa, áhyggjum og erfiðleikum. Það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði fyrr í umræðunni í dag að það var vonin og vissan vil ég segja um vilja stjórnvalda í kjölfar hrunsins til þess að byggja nýjan spítala sem hélt starfsfólki spítalans gangandi í kjölfar hrunsins. Þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð, þrátt fyrir mikla erfiðleika, hélt starfsemi spítalans áfram. Ég hef sagt það áður að bankakerfið hrundi, efnahagskerfið hrundi og að vissu leyti má segja að hið pólitíska gamla kerfi hér hafi hrunið, þó að það sé nú að rísa upp á afturlappirnar aftur, en heilbrigðiskerfið stóð af sér hrunið. Það var ekki síst vegna þess að starfsmenn í heilbrigðisþjónustu stóðu vaktina og lögðu gríðarlega mikið á sig til þess tryggja öryggi sjúklinga fyrst og fremst.

Ég tel nauðsynlegt að leitað sé allra leiða til að koma spítalanum út úr þessari pattstöðu. Nefnd þingmanna úr öllum flokkum er ein slík leið, en ég legg áherslu á að slík nefnd vinni vel með þeim sem gerst þekkja til og hafa myndað sérstök samtök til þess að upplýsa um nauðsyn þessa, þ.e. samtökin Spítalinn okkar.

Það er rétt að margar leiðir eru mögulegar til þess að fjármagna nýja spítalabyggingu. Hér hefur verið nefnd einkafjármögnun með aðkomu lífeyrissjóðanna eins og var ákveðið með sérstökum samningum við lífeyrissjóðina á árinu 2010. Af því varð því miður ekki, en líka hefur verið bent á að venjuleg opinber framkvæmd er eðlilegasti framgangsmátinn. Það eru til peningar í þessu samfélagi. Þetta er spurning um vilja til þess að sækja þá. Það er hægt að gera það með ýmsu móti, með sérstakri skattheimtu eins og hér hefur verið bent á, með eyrnamerkingu sérstakra skattstofna á fjárlögum, eða með útgáfu sérstaks flokks spariskírteina ríkissjóðs.

Mönnum hefur á síðustu mínútum orðið tíðrætt um sölu eigna. Um það vil ég bara segja: Það er ekki hægt að selja Símann aftur. Það verður að segjast eins og er að ég treysti ekki stjórnarflokkunum, þeim sem á sínum tíma seldu Símann til að byggja nýjan Landspítala, til að selja samfélagslegar eignir okkar í þessum tilgangi eða öðrum. Við höfum alveg efni á því að byggja nýjan Landspítala.

Herra forseti. Þetta er mjög arðbært verkefni eins og hér hefur verið bent á og það kostar 3 milljarða kr. á ári að gera ekki neitt. Aukinn rekstrarkostnaður spítalans á ári hverju vegna þess óhagræðis sem er af því að reka hann á 17 stöðum eins og hér hefur verið dregið fram, ég þarf ekki að endurtaka það, kostar okkur 3 milljarða kr. á ári. Það er ansi dýrt spaug. Það er rétt sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir sagði hér í dag: Það er dýrt að vera fátækur þegar svona er.

Ef ríkisstjórnarflokkarnir treysta sér ekki til þess að fjármagna bygginguna með einhverjum af þeim háttum sem ég hef hér nefnt og aðrir sé ég enga goðgá í því að tekið sé lán vegna þess að þetta er arðbær framkvæmd.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, herra forseti. Það er ástæðulaust að endurtaka það sem stendur í þessari ágætu greinargerð og í greinargerð með öðrum málum sem hér liggja fyrir eins og frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og fleirum. Það sem ég vil segja að lokum er að það hefur í rauninni myndast ákveðin samstaða. Loksins hafa augu manna almennt opnast fyrir því að það þarf að reisa nýjan spítala. Það er það sem vantar til þess að heilbrigðiskerfi okkar, heilbrigðisþjónustan, geti þróast áfram og við getum tryggt öryggi sjúklinga. Við megum ekki láta vonleysi vegna þess að menn hér draga lappirnar taka við af þeirri þrautseigju og þeim krafti sem hefur einkennt baráttuna fyrir byggingu nýs spítala. Þar fara fremstir í flokki þeir sem gerst vita sem málið brennur á eigin skinni. Það er ekkert grín að loka smitsjúkdómadeild á Landspítalanum í þriðja skipti á þessu ári vegna MÓSA-sýkingar og moka út fólki og hætta að taka inn nýja sjúklinga. Við verðum að koma í veg fyrir að það verði daglegt brauð. Það verður aðeins gert með því að leita leiða til þess að fjármagna byggingu á nýjum spítala núna þegar ég vil fullyrða að samstaða er loksins orðin um þörfina fyrir nýjan spítala.



[18:53]
Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka þingmönnum og öðrum sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir mjög málefnalega og góða umræðu. Hér hefur verið skipst á skoðunum og ýmsum hugmyndum verið hreyft, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat um áðan í andsvari við hv. þm. Óla Björn Kárason. Það er auðvitað mikils vert að ýmsar hugmyndir séu settar fram. Sumir eru ánægðir með þær en aðrir ekki, eins og gengur og gerist.

Það er mikilvægt eftir þá samstöðu sem myndaðist á síðasta þingi með samþykkt umræddrar tillögu að haga þessu máli áfram á þann hátt sem hér er lagt til. Ég er sannfærður um að hinir pólitísku flokkar geta náð samstöðu um þetta mál. Ég ítreka þakkir mínar til allra þeirra þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Mig langar að fara aðeins aftur til upphafs Landspítala og byggingar hans. Það voru nefnilega konur sem hófu söfnun í tilefni af kosningarrétti þeirra árið 1915. Á næsta ári eru 100 ár liðin frá því að konur fengu kosningarrétt. Fé var fyrst veitt til byggingar Landspítalans árið 1925 og framkvæmdir hófust. Þá og þegar konurnar hreyfðu þessu máli 1915 komst málið á rekspöl.

15. júní árið 1926 lagði Alexandra Danadrottning hornstein að húsinu. Aðeins einu ári síðar var húsið fokhelt. Jónas frá Hriflu sagði þá að þetta væri stærsta og dýrasta hús á Íslandi. Hann sagði jafnframt að með stofnun Landspítala hefði íslenska þjóðin stigið langt skref fram á við í heilbrigðis- og menntamálum. Það er allt í lagi að rifja upp það sem gerðist fyrir 100 árum síðan og sjá hvers konar afrek það hefur verið á sínum tíma að gera þetta á þennan hátt.

Ég gat hér áðan um þá tillögu sem Alþingi samþykkti með 56 samhljóða atkvæðum í vor sem var á þá leið að Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða mætti undirbúningi að endurnýjun og uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefði verið tryggð. Þetta er grunnurinn að tillögunni sem ég er 1. flutningsmaður að og hefur verið til umræðu nú síðdegis.

Eins og ég sagði hafa margir þingmenn komið með ýmsar leiðir og nefnt þær hér. Þetta er gildi svona umræðu og rökræðu. Menn hafa nefnt þær hugmyndir sem þeir hafa verið með. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi um fjármögnunarleiðir, m.a. að auðlegðarskattur yrði áfram lagður á og færi beint í Landspítalann. Hér hefur verið rædd sala ríkiseigna. Landsbankinn var nefndur. Hluti í Landsvirkjun hefur verið nefndur. Áðan kom fram, sem ég var reyndar búinn að gleyma, að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefði nefnt að sykurskatturinn yrði eyrnamerktur byggingu spítalans. Svo má lengi telja. Þetta er gildi rökræðu. Þetta er ánægjuleg umræða. Hér hefur verið talað um hugmyndir og lausnir og ég hika ekki við að halda því fram að ef við getum myndað samstöðu allra þingflokka um að kjósa þá nefnd sem tillagan fjallar um þá mun okkur takast á ekki mjög löngum tíma að landa þessu máli þannig að allir geti vel við unað og komið verkinu í gang. Við verðum þá engir eftirbátar kvennanna sem störtuðu þessu verki árið 1915.

Það er óþarfi að fara í gegnum margt af því sem sagt hefur verið, m.a. þau gögn sem Spítalinn okkar, þau góðu samtök, hafa sett fram. Ég ítreka einfaldlega að við erum að tala um flaggskip heilbrigðisþjónustu á Íslandi, við erum að tala um að mynda þjóðarsátt um að byggja nýjan Landspítala og koma málinu í gang.

Hvað gerist á degi hverjum á Landspítalanum? Er þetta ekki mikilvægasta stofnun sem við eigum? Í gögnum sem voru gefin út af Landspítala árið 2013, ef ég man rétt, voru tekin nokkur dæmi af einum degi á Landspítalanum. Á hverjum einasta degi komu á göngudeildir 1.285 sjúklingar. Á legudeildum lágu 590 sjúklingar. Á bráðamóttöku spítalans komu 268 sjúklingar. 55 sjúklingar fóru í skurðaðgerð á hverjum degi. Á hjartagátt komu 23 bráðveikir sjúklingar. Níu börn fæddust. Sjö sjúklingar fóru í hjartaþræðingu. Á gjörgæslu voru 11 sjúklingar. Á spítalanum vinna um 3.500 manns. Þannig má lengi telja.

Virðulegi forseti. Það sem við erum að tala um þegar við nefnum nauðsyn þess að mynda þjóðarsátt um að byggja nýjan spítala er að skapa þeim sem þurfa að koma á Landspítala betri aðstöðu. Hér hefur verið rætt um sýkingarhættu, einbýli og annað. Við skulum hafa í huga að það eru til sjúkrastofur þar sem sex einstaklingar liggja. Ég held að það sé hámarkið, mér er ekki kunnugt um annað. Við þurfum síðast en ekki síst að skapa betri aðstöðu svo að við getum tekið í notkun nýjustu og bestu tæki sem læknar nota í dag og verða að nota og vilja nota. Öðruvísi fáum við ekki nýtt fólk til starfa.

Virðulegur forseti. Þó að við ættum nóg af peningum til að kaupa ýmis tæki sem vantar á Landspítalann þá er ekki hægt að koma þeim inn í húsið út af lofthæð eða burði í gólfum. Við getum rétt ímyndað okkur ungt fólk sem er úti í hinum stóra heimi að mennta sig til læknis, hvort það getur komið inn í þau húsakynni sem við bjóðum upp á í dag, sem eru lek eins og við höfum séð myndir af. Þar hefur greinst myglusveppur og aðstaðan fyrir starfsfólk og sjúklinga er engan veginn í takt við það sem við viljum.

Þetta er málið í hnotskurn. Eins og ég segi þá trúi ég ekki öðru en okkur takist að mynda samstöðu á Alþingi á milli minni og meiri hluta í þessu máli, ég vil ekki segja stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég trúi ekki að allir 63 þingmenn geti ekki landað þessu máli, komið því áfram eftir þá tillögu sem samþykkt var í fyrra og var skýr yfirlýsing Alþingis um hvað alþingismenn vilja gera.

Eins og segir í greinargerð með þessari tillögu: Fjármögnunarvandinn er þröskuldurinn. Hér hafa verið ræddar margar tillögur eins og ég nefndi áðan. Ég hef rætt um lífeyrissjóðsleið og blandaða leið. Þess vegna segi ég hiklaust: Alþingi og við alþingismenn stöndum frammi fyrir því prófi núna að ræða saman og sýna þjóðinni að við getum þegar mikið á reynir myndað sátt um leið til að koma þessu þjóðþrifamáli áfram. Það verður verkefni okkar á næstu missirum að vinna þessari tillögu brautargengi, að vinna að samstöðu meðal allra þingflokka til að koma því þjóðþrifamáli áfram að mynda þjóðarsátt um byggingu nýs Landspítala.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.