144. löggjafarþing — 26. fundur
 3. nóvember 2014.
mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs gengisfalls íslensku krónunnar.
fsp. SII, 262. mál. — Þskj. 309.

[16:00]
Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar getum litið yfir hagsögu okkar sem einkennist af miklum sveiflum í efnahagslífinu sem auðvitað hafa áhrif á gengi gjaldmiðilsins okkar, þar af leiðandi höfum við miklar sveiflur í verðbólgu og þekkjum það. Verðtrygging lána og launa kom jafnframt til á sama tíma til að bregðast við þessu. Með falli íslensku bankanna og hruni gjaldmiðilsins hafði það náttúrlega gríðarlega áhrif á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og námslána heimilanna sem og auðvitað alla aðra verðtryggða þætti eins og leigu og slíkt.

Seðlabankinn hefur í riti sínu um fjármálastöðugleika bent á að áhættan af erlendri skuldabyrði sé þó nokkur varðandi mögulegar gengissveiflur og hæstv. fjármálaráðherra hefur sjálfur bent á að það sé erfitt við afnám hafta að segja nákvæmlega fyrir um hver viðbrögð fjárfesta og almennings verði. Það kemur jafnframt fram í ritinu um fjármálastöðugleika að munurinn á aflandsgengi og gengi Seðlabankans er um 17% þrátt fyrir að gengið hafi styrkst um 20% á síðastliðnum 12 mánuðum vegna uppsöfnunar á gjaldeyrisforða og tiltölulega hás vaxtastigs hér í landi. Því má ætla að ef greiðslubyrðin af erlendum skuldbindingum þyngist frekar eða ef til afnáms hafta komi, sem við skulum nú vona að það geri, muni það hafa áhrif til hækkunar á verðtryggð lán heimilanna.

Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra um mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs gengisfalls íslensku krónunnar og hvort verið sé að undirbúa það í fyrsta lagi vegna losunar fjármagnshafta og í öðru lagi vegna þungrar greiðslubyrði erlendra skuldbindinga þjóðarbúsins.



[16:03]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það skiptir verulega miklu máli að stjórnvöld gæti á hverjum tíma að því sem þau geta gert til að lágmarka sveiflur í gengi gjaldmiðilsins. En stundum er það nú svo að við það verður ekki ráðið ef hagsveiflur eiga sér stað, einhverjar breytingar í ytra umhverfinu hjá viðskiptalöndum okkar eða hér innan lands, og þá breytist gengi gjaldmiðilsins bara í samræmi við það og endurspeglar þennan nýja veruleika.

Hér er spurt hvort fram fari undirbúningur af hálfu ráðherra á mótvægisaðgerðum til að koma í veg fyrir höfuðstólslækkun verðtryggðra lána eða önnur slík áhrif vegna losunar fjármagnshafta. Því er til að svara að í sjálfu sér gengur vinnan um losun fjármagnshaftanna að verulegu leyti út á það að lágmarka áhrif á gengi íslensku krónunnar við losun haftanna. Ég lít þannig á þetta verkefni að á árinu 2008 og 2009 hafi aðlögunin að langmestu leyti komið fram. Það er árið þegar Kauphöllin þurrkaðist út. Það er árið þegar lífeyrissjóðirnir afskrifuðu 80% af skuldabréfum á innlend fyrirtæki. Þetta eru árin sem verðtryggðu lánin hækkuðu hjá heimilunum og við höfum verið að ræða æ síðan hvernig eigi að bregðast við því. Þetta eru árin þegar atvinnuleysi rauk upp og þetta eru árin þegar eignaverð í landinu lækkaði, kaupmáttur dróst saman. Þetta eru árin sem aðlögunin að hinum nýja veruleika átti sér stað; raungengi íslensku krónunnar lækkaði mjög verulega.

Þess vegna segjum við: Núna þegar við stígum skref til þess að létta höftunum af efnahagslífinu er gríðarlega mikilvægt að við gerum það með þeim hætti að það verði ekki þörf fyrir nýja aðlögun, að það þurfi ekki aftur að fara í kollsteypur með fyrirtækjarekstur eða rekstur heimilanna í landinu. Það er algjört grundvallaratriði. Af þeim sökum hefur vinnan að langmestu leyti gengið út á einmitt það sem hér er spurt um, að stíga þannig fram að áhrifin verði lágmörkuð fyrir verðbólgu og gengisbreytingar. Væntanlega er það nú þannig að við munum aldrei geta séð fyrir alla mannlega hegðun eftir að höftum er aflétt.

Þessu til viðbótar gæti ég líka nefnt að við höfum svo sem á undanförnum árum verið að styrkja ramma opinberra fjármála sem hnígur í þessa sömu átt. Ég nefni hér stofnun fjármálastöðugleikaráðs. Ég nefni frumvarp til laga um opinber fjármál. Ég nefni þjóðhagsvarúðartæki sem rætt hefur verið um í skýrslu Seðlabankans og önnur slík úrræði sem við trúum að til lengri tíma komi til með að draga úr sveiflum í hagkerfinu og eru til þess fallin að draga fyrr fram á sjónarsviðið hættumerki sem eru að nálgast okkur á efnahagssviðinu.

Hvað varðar þunga greiðslubyrði erlendra skuldbindinga þjóðarbúsins er það einn lykilþáttur málsins. Við þekkjum til dæmis hinar miklu skuldbindingar Landsbankans til skamms tíma. Þær eru einn þátturinn. Fyrirtæki önnur hafa líka verið að lengja í lánum. Það skiptir máli fyrir heildarsýnina á þetta verkefni vegna þess að íslenska þjóðríkið er ekki í neinum eiginlegum skuldavanda, þ.e. gjaldeyrishöftin eru ekki til komin vegna mikils skuldavanda þjóðarbúsins, þetta er greiðslujafnaðarvandi. Þess vegna hefur þurft að leggja áherslu á lengingu ákveðinna lána, en eins hefur líka frá upphafi legið fyrir að til þyrftu að koma afskriftir krafna á slitabúin ella væri hætta á greiðslufalli við afnám haftanna.

Við höfum síðan á þessu ári náð að endurfjármagna hluta skulda ríkisins á betri kjörum, sem er skref í rétta átt. Ég trúi því einnig að þegar við stígum stór skref við losun haftanna þá muni kjör okkar, hvort sem er hið opinbera eða á einkamarkaði, fara að batna sem mun enn (Forseti hringir.) frekar létta undir vegna þessarar greiðslustöðu.



[16:08]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mér heyrist að það verði engar mótvægisaðgerðir, ekki hafi verið hugsaðar neinar eiginlegar mótvægisaðgerðir heldur eigi að reyna að byggja þetta inn í heildaraðgerðina. Við afnám hafta verði sem minnst lækkun á genginu í þeirri heildstæðu aðgerð, ef ég skil það rétt.

Hæstv. ráðherra nefndi líka að skuldastaða ríkissjóðs væri ekki svo slæm, þetta væri í raun ekki skuldavandi heldur greiðslujöfnunarvandi og þá náttúrlega í erlendum gjaldmiðli.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig þetta lítur allt saman út með tilliti til þess að á næsta ári mun falla dómur í Hæstarétti í máli sem Hagsmunasamtök heimilanna reka gegn Íbúðalánasjóði. Þar er útfærsla verðtryggðra neytendalána mögulega ólögleg og ef farið er að kröfu sækjanda geta 100, 200 milljarðar, ég veit ekki nákvæmlega hversu mikið, mögulega skollið á Íbúðalánasjóði. Þá erum við bara að tala um Íbúðalánasjóð. Sjóðurinn hefur 13 milljarða í eigið fé (Forseti hringir.) þannig að varnargarðurinn er 13 milljarðar ef þetta skellur á honum. Hvaða afleiðingar hefur þetta á (Forseti hringir.) hugsanlegt gengisfall krónunnar, út frá stöðu þjóðarbúsins (Forseti hringir.) og svo framvegis?



[16:10]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra á hrós skilið fyrir það hversu málefnalega hann svarar yfirleitt erfiðum spurningum. Þar ferst honum öðruvísi en hæstv. forsætisráðherra sem einatt svarar skætingi.

Það er við ramman reip að draga þar sem gjaldeyrishöftin eru og sá „reipur“ teygir sig til ólíklegustu túna. Ég tók eftir því að hæstv. forsætisráðherra sagði að Landsbankinn glímdi við erfiða skuldastöðu. Síðan sagði hann orðrétt: „Önnur fyrirtæki hafa líka verið að lengja í sínum lánum.“

En er það svo að Landsbankinn hafi verið að lengja í sínum lánum? Er það ekki einmitt togstreitan sem núna er innan ríkisstjórnarinnar, eða hvar sem hún er, um hvort það eigi að lengja í láninu. Það er einmitt út af því sem spurning hv. þingmanns er full tilefnis vegna þess að skýrslan sem hún vitnaði til um fjármálalegan stöðugleika segir bókstaflega að ef ekki verði lengt í láninu muni af því stafa gengisfall upp á 7–10%.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hver verða afdrif þess samnings sem gerður var um það ágæta bréf?



[16:11]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna þess að svar hæstv. ráðherra gerir ekkert til að skýra fyrir mér ítrekuð ummæli hans þess efnis að hafa þurfi hag heimila að leiðarljósi við afnám hafta. Það hlýtur að þurfa einhvers konar aðgerðaáætlun til þess að undanskilja heimilin neikvæðum áhrifum af haftaafléttingu.

Ég hef áhyggjur af því hvernig hæstv. ráðherra kemur fram í þessu máli. Við verðum aftur og aftur vitni að því að hann er að reyna að slá sig til riddara á flokkspólitískum vettvangi, nú síðast um þessa helgi, með loforðum um afnám hafta og að skammt sé að bíða stórra tíðinda.

Það er til staðar samráðsnefnd um afnám hafta og við höfum ekkert heyrt, ekki eitt orð, frá hæstv. ráðherra um hvað hann hyggist fyrir. Það er í hróplegu ósamræmi við það sem hann sagði sjálfur þegar hann var formaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili í stjórnarandstöðu og lagði áherslu á þverpólitískt samstarf um afnám hafta.

Ef hæstv. ráðherra ætlar að leika þennan leik, að vera stöðugt að reyna að kaupa sér vinsældir í sínum eigin flokksranni út á óljós fyrirheit um afnám hafta og ræða ekki við stjórnarandstöðu um þessi mál, þá er hann (Forseti hringir.) að leika sér að eldinum.



[16:13]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fæ helst skilið það svo út frá þessari umræðu að algjört afnám hafta geti varla verið í spilunum. Ef ekki eru í gangi mótvægisaðgerðir og ríkisstjórnin vill ekki tengja sig við annan gjaldmiðil og ýmislegt svoleiðis, þá sýnist mér eins og ríkisstjórnin sé einhvern veginn að undirbúa það að við verðum áfram í höftum; ekki jafn þröngum og við erum í núna vegna þess að kannski getum við losað bankana — vonandi kemur eitthvað í ljós með þetta Landsbankabréf, ríkisstjórnin þarf að fara að svara því hvernig fara eigi með það. Að það verði þannig að við verðum hér aflokað þjóðfélag þar sem sum fyrirtæki eru á gjaldeyrismarkaði og sumar stéttir fá greitt samkeppnishæf laun. Svo verðum við svona rest hér láglaunasvæði með (Forseti hringir.) krónuna fyrir gjaldeyri.



[16:14]
Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er mikilvægt að læra af sögunni. Í október 2008 voru sett neyðarlög hér á Alþingi og það hefur oft verið rætt af ýmsu tilefni eftir það að þar hafi ekki verið hugað að áhrifunum á verðtryggð lán heimilanna. Það er meðal annars þess vegna sem ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherra hafi sérstakan fókus á því máli. Nú er verið að færa niður skuldir heimilanna í gríðarlegri millifærslu sem hefur fordæmisgildi. Við vitum hvaða áhrif það hafði á heimilin að takast á við þessar höfuðstólshækkanir. Það verður að vera tryggt að til staðar séu áætlanir um mótvægisaðgerðir svo við lendum ekki í svipuðu aftur. Það yrði kannski ekki af sömu stærðargráðu, en það yrði þungt högg fyrir mörg heimili, ekki síst á leigumarkaði sem fá ekki neinar bætur fyrir sinn skaða í aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Mér heyrist ráðherra ekki vera að undirbúa slíkar mótvægisaðgerðir. Ég tel að það þurfi mun meiri strúktúrbreytingar á íslensku efnahagslífi en lög um opinber fjármál rúma. Lög um opinber fjármál eru góðra gjalda verð, en þau ein og sér tryggja ekki íslenskt efnahagslíf gegn gríðarlegum sveiflum í gengi krónunnar ef við ætlum að búa í opnu markaðshagkerfi.

Ég kalla eftir skýrari svörum frá ráðherra, öðrum en (Forseti hringir.) strúktúrbreytingum, óverulegum þó, (Forseti hringir.) og beinum mótvægisaðgerðum.



[16:16]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það hlýtur að vera meginatriðið að aðgerðin sem ráðist verður í til að losa höftin hafi innbyggt tillit til þess að fjöldi lána á Íslandi er verðtryggður. Aðgerðin sjálf getur verið ein risastór mótvægisaðgerð einmitt í þessum skilningi.

Annars finnst mér óljóst hvort fyrirspyrjandi, málshefjandi, er að kalla eftir svari við því hvort við höfum á prjónunum einhver áform um að aftengja verðtrygginguna, eitthvað slíkt. Ég átta mig ekki á því hvað það er sem nákvæmlega er verið að spyrja út í. Ég lít þannig á að það sé meginatriði málsins að aðgerðin sé þannig sniðin að hún verji hagkerfið þegar hún kemur til framkvæmda.

Hér kom hv. þm. Jón Þór Ólafsson og spurði út í áhrifin af kröfu á Íbúðalánasjóð. Ég get ekki svarað þeirri spurningu nákvæmlega, en það er ljóst að það yrði talsvert högg í íslenskum krónum á íslenska ríkið ef Íbúðalánasjóður lenti í verulegum vandræðum vegna þessa máls sem vísað var til. Ef lán sem sjóðurinn hefur veitt reynast ólögmæt þá er það bara augljóst að það yrði mikið högg fyrir sjóðinn og þar með ríkissjóð og ekki gott að spá nákvæmlega fyrir um áhrif á gengi krónunnar.

Ég vakt athygli á því hér áðan að vandinn sem við stöndum frammi fyrir og er ástæða haftanna er greiðslujafnaðarvandi. Það er ekki undirliggjandi skuldavandi, en vissulega er skuldastaða ríkisins alvarleg.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr hvað eigi að gera við Landsbankabréfið. Það er bara í vinnslu. Annars vegar er verið að óska eftir, ekki satt, undanþágu fyrir endurnýjað skuldabréf og hins vegar undanþágu fyrir útgreiðslu (Forseti hringir.) til kröfuhafa. Því miður er erfitt að svara þeim fjölmörgu spurningum sem hér komu (Forseti hringir.) fram. Málið er bara í traustum farvegi. (Forseti hringir.) Það er enginn að reyna að slá sig til riddara eða leika einhvern leik með því (Forseti hringir.) að tala um að hér sé (Forseti hringir.) vinnan í góðum farvegi.