144. löggjafarþing — 26. fundur
 3. nóvember 2014.
starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Suðurkjördæmi.
fsp. OH, 325. mál. — Þskj. 396.

[16:42]
Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldið var á dögunum kynnti Anna Birna Þráinsdóttir sýslumaður drög að skipulagi fyrir þær breytingar sem embættið stendur frammi fyrir. Hún fór í byrjun yfir þær leiðbeiningar sem hún fékk frá hæstv. innanríkisráðherra sem voru að engri starfsstöð ætti að loka, allir starfsmenn ættu að halda vinnunni og þjónusta ætti ekki að skerðast.

Umdæmi sýslumannsembættisins á Suðurlandi spannar stórt svæði sem nær allt frá Ölfusi í vestri að Hornafirði í austri. Á svæðinu búa 22 þús. manns. Það er reyndar til bóta að bæði lögreglustjóraembættið og sýslumannsembættið endurspegli sveitarfélagamörk og kjördæmamörk annarrar stjórnsýslu hvað þetta varðar. Það er gert ráð fyrir sýslumannsembætti og lögreglustjóraembætti á Suðurnesjum þar sem búa einnig um 22 þús. manns og í Vestmannaeyjum er einnig gert ráð fyrir bæði lögreglustjóraembætti og sýslumannsembætti en þar búa tæplega 4.300 manns. Þótt ég nefni íbúatölur er auðvitað augljóst að fleiri þættir ráða en íbúafjöldi einn og sér, t.d. samgöngur og vegalengdir.

Á fyrrnefndu ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fóru fram líflegar umræður um drögin að nýja skipulaginu. Þar efuðust menn um að mögulegt væri að sjá til þess að þjónustan skertist ekki. Harkalegast var gagnrýnt að ekki kæmu auknir fjármunir í kjölfar þess að Höfn í Hornafirði færi undir embætti lögreglustjórans á Suðurlandi. Svo virðist sem ekki verði til fjármunir til að ráða löglærðan fulltrúa þar til að sinna lögbundnum verkefnum. Það vilja Sunnlendingar ekki sætta sig við.

Einnig vildu fundarmenn fá skýr svör við því af hverju nauðsynlegt væri að hafa bæði embætti lögreglustjóra og sýslumanns í Vestmannaeyjum og hvaðan fjármunir til þess væru teknir.

Hefur Suðurlandið kannski minna úr að spila vegna skipulags í Vestmannaeyjum, vildu fundarmenn fá að vita.

Ég spyr því hæstv. innanríkisráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Hvernig miðar breytingum sem verða á starfsstöðvum sýslumanna í Suðurkjördæmi samkvæmt lögum nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði?

2. Hver eru fagleg og fjárhagsleg rök fyrir staðsetningu sýslumanna í kjördæminu?

3. Telur ráðherra að þjónusta sýslumanna verði svipuð og nú eftir breytingarnar?

4. Telur ráðherra að áætlaðar fjárveitingar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 nægi sýslumannsembættunum til að veita sambærilega þjónustu og nú er veitt?

5. Er tryggt að löglærðir fulltrúar verði á þeim starfsstöðvum þar sem áður var sýslumaður?



[16:45]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil líka þakka fyrir hversu vel og ítarlega þingmenn og margir aðrir fylgjast með því að þetta verkefni gangi vel eftir enda held ég að það sé mikilvægt.

Það koma auðvitað upp margar spurningar í kringum þessar breytingar, ekkert óeðlilegt við það og sjálfsagt að reyna að bregðast við því og tryggja að grunnhugsun þeirra laga sem hér náðist sátt um haldist. Ég fagna því sérstaklega.

Ég svaraði þann 20. október sl. sambærilegum spurningum um stöðu mála í Norðausturkjördæmi. Ég ítreka það sem ég sagði þá að í lagasetningunni og greinargerð með lögunum kemur fram að í þessum breytingum er leitast við að raska högum starfsfólks hinna gömlu embætta sem minnst enda voru það líka ákveðin rök til að tryggja sátt í málinu. Lögð er sérstök áhersla á að þeir starfsmenn sem voru til staðar áður en breytingin varð haldi störfum þó að það geti verið að einhver störf breytist með einhverjum hætti eða starfsmenn kunni að hlíta tilteknum breytingum á starfi til lengri tíma.

Svo ég víki að efnisatriðum spurninga hv. þingmanns er gert ráð fyrir því, eins og hv. þingmaður kom inn á, að í Suðurkjördæmi verði þrjú umdæmi sýslumanna; umdæmi sýslumanns á Suðurnesjum, umdæmi sýslumanns á Suðurlandi og umdæmi sýslumanns í Vestmannaeyjum. Ástæðan fyrir því að bæði sýslumaður og lögreglustjóri eru í Vestmannaeyjum var niðurstaða þingnefndar hér. Frumvarpið var í upphafi ekki borið fram með þeim hætti en niðurstaða þingnefndar var að farsælast væri að vinna það þannig vegna sérstöðu Eyjanna.

Í drögunum er einnig gert ráð fyrir að starfsstöðvar sýslumannanna þriggja verði á öllum þeim sömu stöðum og nú er, þ.e. að áfram verði þar skrifstofur. Stefnt er að því að reglugerð um umdæmi og starfsstöðvar sýslumanna verði gefin út nú í nóvembermánuði. Unnið er í góðu samstarfi við nýja sýslumenn sem skipaðir hafa verið í þessi þrjú embætti, en þeir eru Ásdís Ármannsdóttir á Suðurnesjum, Anna Birna Þráinsdóttir á Suðurlandi og Lára Huld Guðjónsdóttir í Vestmannaeyjum. Undirbúningur að breytingunum er hafinn og gengur vel.

Eins og menn þekkja felast breytingarnar í Vestmannaeyjum eingöngu í aðskilnaði löggæslu frá starfsemi sýslumanns. Á Suðurnesjum hafði löggæsla þegar verið aðskilin frá starfsemi sýslumanns. Mesta breytingin verður því á Suðurlandi þar sem sameining verður meira afgerandi en á hinum stöðunum og undirbúningur að hinu nýja embætti sýslumanns á Suðurlandi er hafinn.

Hvað 2. spurningu varðar, þar sem spurt er um rök fyrir staðsetningu sýslumanna í kjördæminu, er rétt að ítreka það sem áður hefur komið fram að starfsstöðvar sýslumanna verða hinar sömu þó að aðalskrifstofur verði á ákveðnum stað. Ákvörðun um það fer fram í gegnum vinnu í ráðuneytinu þar sem var útbúið ákveðið umræðuskjal í gegnum landshlutasamtök, Samband íslenskra sveitarfélaga og síðan sýslumenn á hverju svæði eins og kemur fram í lögunum.

Varðandi 3. spurningu, um það hvort þjónusta sýslumanna verði svipuð eftir breytingarnar og hún er nú, hef ég áður sagt að miðað er við það. Það er eitt meginmarkmið hinna nýju laga að þjónusta sýslumannsembættanna verði eins góð og mögulegt er og ef eitthvað er takist okkur að styrkja hana með því að færa verkefni frá hinni miðlægu stjórnsýslu og út til sýslumannanna. Þessa umræðu þekkjum við og við höfum auðvitað rætt þetta oft hér. Ég hef þegar flutt frumvarp og fengið samþykkt um að verkefni frá innanríkisráðuneytinu og öðrum stofnunum ráðuneytisins séu flutt til sýslumanna og hefur það verið framkvæmt.

Þær fjárveitingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 samsvara verðbættum framlögum til eldri embætta. Það er ekki gert ráð fyrir niðurskurði samkvæmt núgildandi fjárlögum, reyndar að teknu tilliti til almennrar hagræðingarkröfu, þannig að við vonumst til þess að þetta fé dugi. Við áttum okkur hins vegar á því að ákveðnir þættir, sérstaklega er tengjast sýslumannsembættum og upplýsingakerfi þeirra, þurfa ákveðins stuðnings við.

Ég vil í lokin nefna löglærða fulltrúa þar sem það hefur verið gert að sérstöku umræðuefni, ég þekki það vel. Margir fundir hafa farið fram á vettvangi innanríkisráðuneytisins vegna umræðunnar um hvort löglærðir fulltrúar verði á þeim starfsstöðvum þar sem áður var sýslumaður. Þá er sérstaklega verið að ræða um mönnun á Höfn í Hornafirði. Það hefur staðið til og við höfum lagt áherslu á það og ég hef sérstaklega óskað eftir því að reynt verði að mæta óskum heimamanna um að þar verði löglærður fulltrúi. Að því er stefnt og ég vona að það gangi allt eftir.

Fyrst og síðast vonast ég til að okkur auðnist að standa við gefin fyrirheit um að breytingarnar verði til að efla þjónustu á svæðinu og tryggja að þessi mikilvæga þjónusta verði nær heimamönnum og eins góð og hún mögulega getur orðið.



[16:50]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa fyrirspurn. Ég var á þessum fundi, ársþingi Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, og það er víst óhætt að segja að þar hafi menn verið virkilega reiðir yfir þessu. Það kom mér satt að segja svolítið á óvart vegna þess að mér fannst í vinnunni í allsherjar- og menntamálanefnd þegar þetta var til meðferðar mikil samstaða um að lenda málinu svona. Ég upplifði líka í þessari nefndarvinnu að um þetta yrði haft fullt samráð við landshlutasamtökin hvað varðar það að setja niður sýslumenn og lögreglustjóra.

Maður getur svo sem alveg skilið þessa reiði og þessa ólgu sem var þarna, hún virtist helst beinast að því að ekki verði löglærður starfsmaður á Höfn og ég vona bara, af því að það fyrirheit var gefið í þessu frumvarpi, að svo verði.

Hvað varðar Vestmannaeyjar fannst mér persónulega fullkomin rök fyrir því hvers vegna það var gert. Það voru allir sammála um það. Ég vona bara að þessi vinna haldi áfram og náist í sátt. Það er lykilatriði.



[16:51]
Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin. Ég skil hana svo að væntingar hennar standi til þess að þjónusta embættanna verði eins góð og áður og jafnvel betri. Ég skil hana þannig að hún geri ráð fyrir að það verði löglærður fulltrúi á Höfn og samkvæmt mínum upplýsingum þarf aukið fjármagn og ég geri þá ráð fyrir því að það komi aukið fjármagn til þess að það gangi upp, enda er gert ráð fyrir í þessu skipulagi varðandi sýsluskrifstofuna á Höfn að þar verði veitt sama þjónusta og á aðalskrifstofu sýslumanns og þá getur maður ekki séð fyrir sér að það gangi upp öðruvísi en með löglærðum fulltrúa.

Hæstv. ráðherra talar um þjónustuna. Ég vil spyrja út í til dæmis umboð Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga sem sýslumenn hafa séð um og þarf að fara fram á öllum stöðum. Þó að ég sjái fyrir mér að því sé þokkalega fyrir komið á Suðurlandi eru annmarkar á því að skjólstæðingar Tryggingastofnunar njóti góðrar þjónustu ef bara horft er til stöðvanna, hvar þær eru settar niður og hvar mannfjöldinn er mestur.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það hafi komið til greina að endurskoða þetta vinnulag, hvort ekki væri nær að Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar væru þarna í samvinnu við Vinnumálastofnun og hætta því fyrirkomulagi sem var sett á laggirnar árið 1989, um samstarf sýslumannsembættanna og Tryggingastofnunar.

Enn og aftur þakka ég fyrir svörin. Ég skil þau svo að áhyggjur Sunnlendinga þurfi ekki að vera svo miklar vegna þess að það komi bæði fjármunir og löglærðir menn til að sinna þessum störfum.



[16:53]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég held að mikilvægt sé, og hér voru nefndar af hv. þingmanni aðrar stofnanir, að við gerum það sem almenningur krefst af okkur í þessu sem er að tryggja að opinber þjónusta, hvort sem það er Tryggingastofnun, Vinnumálastofnun eða hvað það er, að við náum þeim samlegðaráhrifum sem við getum ef við nýtum það að hafa þetta í meiri samvinnu en verið hefur og að við einhvern veginn náum betur utan um það þannig. Það er hins vegar útfærsluatriði.

Aðalatriðið er að ég skil alveg og ég virði áhyggjur heimamanna þegar við erum að ganga í gegnum svona breytingar. Þær eru eðlilegar og við eigum ekki að taka þeim illa heldur eigum við að skilja að við erum að fara í gegnum ákveðið breytingaferli. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá þingmanni áðan, það náðist góð sátt um verkefnið. Ég legg mikla áherslu á að sú sátt haldi. Ég held að það sé brýnt og tek það á mína ábyrgð, eins og á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þingsins alls, við hétum því þegar við samþykktum þessi lög og þegar þau fóru í gegn að þannig yrði haldið á verkefninu að heimamenn þyrftu ekki að sjá eftir að hafa gengið til samstarfs við okkur um það.

Við verðum að halda það. Það getur krafist mikillar vinnu af okkur og útfærslu og lausnamiðaðri nálgunar en kannski hefur alltaf verið en við verðum að gera það. Þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á það við alla þá sem tekið hafa við þessum verkefnum sýslumanna að ekki verði brotið það meginprinsipp að fólki verði ekki sagt upp eða að þjónustan minnki. Þá erum við ekki að standa við það sem við gáfum sem fyrirheit í þessari vinnu.

Ég mun leggja mig alla fram við að tryggja það og hef þegar óskað eftir því að ráðstafað verði fjármagni þannig og unnið með það að löglærður fulltrúi verði á Höfn og þegar óskað eftir því varðandi ákveðna þætti í því að við vinnum úr því þannig að það komi vel út fyrir þessi svæði. Ég held að við verðum líka að sýna því skilning, ég þekki umræðuna á fundum landshlutasamtaka sem eðlilega hafa áhyggjur af þessum breytingum, en við höfum átt mjög gott samstarf við þá og ég legg áherslu á að þannig verði það áfram. Ég vona innilega og get fullvissað (Forseti hringir.) þingheim um það að ég mun leggja mig fram um að tryggja að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin voru.