144. löggjafarþing — 26. fundur
 3. nóvember 2014.
fráveitumál.
fsp. SJS, 232. mál. — Þskj. 261.

[17:53]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu fráveitumála. Fyrirspurnin tekur útgangspunkt í því að það hefur því miður ansi lítið gerst að því er virðist í þeim efnum núna síðari árin. Sú þróun sem var í gangi beggja vegna aldamótanna og eitthvað inn á þessa öld virðist að mestu leyti hafa staðnæmst þannig að maður verður lítið var við það að sveitarfélög séu að ráðast í úrbætur á því sviði. Það er svo sem að ýmsu leyti skiljanlegt. Í fyrsta lagi hefur fjárhagur sveitarfélaga verið erfiður, margra hverra, þessi síðustu ár en ég óttast að ástæða sé til að ætla að það muni áfram gerast allt of lítið í þeim efnum. Úrbætur ganga hægt nema eitthvað nýtt komi til.

Það er meðal annars vegna þess að nú búa sveitarfélögin við nýjar fjármálareglur sem setja þeim nokkuð þröngar skorður hvað varðar skuldsetningu og að ráðast í kostnaðarsamar framkvæmdir af þessu tagi. Í öðru lagi liggur nokkuð ljóst fyrir að mörg dýrustu verkefnin hafa beðið og menn réðust í úrbætur víða þar sem þær voru einfaldari og ódýrari, en í öðrum tilvikum, bæði innan og milli sveitarfélaga, hafa oft dýrustu áfangarnir setið eftir.

Ég held að sérstök ástæða sé til að horfa til sveitarfélaga inn til landsins og hafa þar af leiðandi ekki kost á grófari hreinsun með aðgang að hafi og svo þeirra svæða sem eru á náttúruverndarsvæðum eða í þjóðgörðum og eru fjölsótt af ferðamönnum, einfaldlega vegna þess að það gefur augaleið að með stórauknum fjölda ferðamanna vex álagið hratt á lífríki þeirra svæða ef fráveitumálin eru ekki í fullnægjandi lagi.

Við eigum skuldbindingar í þessum efnum, bæði við okkur sjálf sem gæslumenn landsins og líka að hluta til alþjóðlega. Má nefna í því sambandi aðila eins og UNESCO og skuldbindingar okkar samkvæmt Ramsar-sáttmálanum og fleira í þessum efnum. Það er ekki alveg bara einkamál Íslendinga hvernig að þessum málum er staðið þó að auðvitað viljum við fyrst og fremst sjálfra okkar vegna hafa þetta í lagi.

Ég hef því spurt hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra eftirfarandi spurninga í þessum efnum:

1. Hvert er mat ráðherra á stöðu fráveitumála á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum í byggð þar sem bæði er búseta og ferðamannastraumur, svo sem við Mývatn og Laxá og umhverfis Þingvallavatn?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ríkið komi að framkvæmdum við fráveitur á náttúruverndarsvæðum með sérstökum fjárveitingum í því skyni að hraða úrbótum?

3. Hvernig metur ráðherra stöðu þeirra sveitarfélaga sem liggja inn til landsins og eiga ekki aðgang að sjó með tilliti til fráveitumála?

4. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að tekið verði upp að nýju það fyrirkomulag að ríkið endurgreiði sveitarfélögum útlagðan virðisaukaskatt (Forseti hringir.) vegna fráveituframkvæmda?



[17:56]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda mjög áhugaverða fyrirspurn um mikilvægt mál.

Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Talningar sem Ferðamálastofa gerir í Leifsstöð á komum erlendra ferðamanna sýna að á tíu ára tímabili, frá 2003 til 2013, fjölgaði erlendum gestum um 470 þúsund sem jafngildir um 150% aukningu. Kannanir Ferðamálastofu leiða einnig í ljós að meiri hluti erlendra ferðamanna segir að íslensk náttúra sé ein helsta ástæða ákvörðunar um að ferðast til landsins.

Aukning ferðamanna er ánægjuleg fyrir þjóðarbúið, en gerir kröfu um bætta aðstöðu á ferðamannastöðum til að náttúra og umhverfi spillist ekki vegna álags. Til þess að takast á við verkefni eins og fráveitumál á fjölsóttum stöðum eins og við Mývatn og Laxá og eins við Þingvallavatn er nauðsynlegt að hafa sem bestar upplýsingar um álag vegna skolpmengunar og annarrar mengunar á þessi vötn. Einnig þarf regluverk að vera skýrt og leiðbeiningar aðgengilegar um hvernig því skuli fylgt.

Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda að allt of lítið hafi gerst í þessum málaflokki á síðustu mörgum árum og hef því skipað nefnd um endurskoðun reglugerðarinnar um fráveitur og skolp sem ætlað er að einfalda ákvæði hennar og gera hana skýrari. Er sú vinna í fullum gangi. Einnig að endurskoðunin leiði til þess að bætt verði úr skráningu fráveitna þannig að betur megi leggja mat á stöðu þeirra. Ekki liggja fyrir nægar upplýsingar um álag á Mývatn og Þingvallavatn vegna skolplosunar. Ég hef því ákveðið að gerð verði úttekt á innstreymi næringarefna í þessi verðmætu stöðuvötn. Slík úttekt mun gefa yfirsýn yfir alla helstu álagsþætti og mun hjálpa okkur við mat á stöðu mála, forgangsröðun aðgerða og mat á líklegum árangri þeirra.

Varðandi það hvort ráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir því að ríkið komi að framkvæmdum vænti ég þess að starf við endurskoðun á fráveitureglugerð verði til þess að auðvelda okkur róðurinn í þeim efnum, með því að einfalda og bæta regluverkið og auðvelda okkur yfirsýn yfir stöðu mála og forgangsröðun. Ég tel rétt að nota sem mest það heildstæða mat sem nú er verið að vinna á vatni á Íslandi til að leiðbeina okkur um forgangsverkefni svo fjármunir til fráveitna og annarra umbóta nýtist umhverfinu sem best. Mögulega kæmi aðstoð ríkisvaldsins til greina við umbætur í fráveitumálum en ef af slíku yrði hlyti að vera horft meðal annars til verndargildis svæðanna, auk mats á álagi og ástandi þeirra.

Í stöðuskýrslu Umhverfisstofnunar um vatnasvæði Íslands er bent á ákveðna óvissuþætti varðandi Þingvallavatn og Mývatn sem varða þó ekki einungis fráveitur. Ég vil bæta upplýsingar og mat á ástandi þessara vatna eins og ég hef nefnt og skoða þar sérstaklega innstreymi næringarefna og hlut einstakra uppsprettna þar, svo sem frá fráveitum og umferð.

Hvernig er staða þeirra sveitarfélaga sem liggja inn til landsins og eiga ekki aðgang að sjó?

Almennt séð er nokkur munur þarna á hvað varðar viðtaka og kröfur sem rétt er að gera. Flestir þéttbýlisstaðir á Íslandi geta leitt skolp út í straumþungt Atlantshafið þar sem það ógnar umhverfinu lítið ef þess er gætt að skaðleg efni séu ekki til staðar. Inn til landsins þarf hins vegar yfirleitt að huga betur að málum og gæta þess að fráveitur mengi ekki ár eða stöðuvatn eða grunnvatn (Forseti hringir.) sem eru viðkvæmari viðtakar. Við höfum nokkra mynd af stöðu stærstu staðanna en Umhverfisstofnun tekur saman stöðuskýrslu á tveggja ára fresti sem byggir á upplýsingum frá heilbrigðisnefndum. Skýrslan tekur til þéttbýlisstaða með losun sem nemur fleiri en 2 þús. persónueiningum. (Forseti hringir.) Samkvæmt nýjustu skýrslu sem kom út í mars á síðasta ári eru 29 þéttbýlisstaðir á Íslandi yfir þessum stærðarmörkum. Þar af eru fimm sem liggja inn til landsins. Af þessum fimm eru þrír sem uppfylla (Forseti hringir.) kröfur um fráveitur. Við höfum ekki jafn gott yfirlit yfir minni staði og dreifbýli.

Varðandi síðustu spurninguna verð ég að fá að svara henni í síðara svari.



[18:00]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann gerði vel að koma sem mestu að. Ég fæ þá vonandi svar við síðustu spurningunni í seinna svarinu.

Ég þakka það sem ráðherra upplýsti, annars vegar um endurskoðun á reglugerð og sömuleiðis um að gerð verði úttekt á innstreymi næringarefna. Það tel ég mjög mikilvægt og ég fagna því að það fari af stað. Sömuleiðis finnst mér að samhliða þessu eigi auðvitað að ræða stefnumótun og mögulega aðkomu ríkisins í þessum efnum. Ég tel fullkomin rök til að gera greinarmun á stuðningi ríkisvaldsins, annars vegar þegar um er að ræða þjóðgarða og friðlýst svæði og svæði sem eru okkur sérstaklega mikilvæg af þeim sökum, ég tala nú ekki um ef sömu svæði eru í viðbót fjölsótt af ferðamönnum þannig að álagið sé einmitt að aukast þarna þessi árin.

Í því sambandi má náttúrlega nefna Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Er það svo fráleitt að við lítum á úrbætur á þessu sviði sem hluta af því að bæta úr ástandinu á fjölsóttum ferðamannastöðum? Er það ekki bara ein af undirstöðunum til að slíkir staðir ráði við ástandið? Og er þá nokkuð að því að veita opinbert fé úr þeim sjóðum sem eiga að ganga til úrbóta einmitt vegna vaxandi ásóknar á ákveðna staði?

Það gæti verulega munað um það ef einhverjir fjármunir kæmu úr þeirri átt, þ.e. ef menn komast út úr klúðrinu í augnablikinu um fjármögnun þess þáttar.

Hins vegar væri líka eðlilegt að greina að einhverju leyti á milli sveitarfélaganna inn til landsins sem eru með mun þyngri kröfur á sér um þriðja stigs hreinsun eða hvað það nú er og hinna sem eiga völ á ódýrari lausnum vegna landfræðilegrar legu sinnar.

Að lokum nefni ég endurgreiðsluna á virðisaukaskattinum. Enginn vafi er á því að meðan það fyrirkomulag var við lýði hvatti það — ef hæstv. ráðherra hlustar af því að hann ætlar að svara þessu á eftir — sveitarfélögin áfram, það er alveg á hreinu, að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan. Ég segi sem gamall fjármálaráðherra: Það er útlátalítið fyrir ríkið að endurgreiða virðisaukaskatt vegna framkvæmda sem aldrei yrði af (Forseti hringir.) nema vegna þess að endurgreiðslan er í boði. Það eru ekki mikil útgjöld ef menn ná góðum málum fram í gegnum slíkt.



[18:02]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki að svara síðustu spurningunni sem hv. þingmaður ítrekaði hér í lokin.

Rétt er að geta þess að á síðasta kjörtímabili spurði ég fyrrverandi umhverfisráðherra tvisvar sinnum hvort til greina kæmi að taka upp stuðning ríkisins aftur við fráveituframkvæmdir. Það verður að segjast alveg eins og er að fátt varð um svör og ég gleðst þess vegna yfir því að fyrrverandi fjármálaráðherra skuli taka þetta upp hérna við mig í dag og segja að það sé útlátalítið.

Þau svör komu reyndar ekki frá ríkisstjórninni á síðasta kjörtímabili. Ég tel rétt að skoða þann möguleika eða aðrar útfærslur á því að ríkið styrki sveitarfélög í þessum efnum. Við náðum ágætisárangri, ég er sammála hv. fyrirspyrjanda í því, í fráveitumálum fyrir nokkrum árum, á tímabili þar sem ríkið lagðist á árarnar með sveitarfélögunum.

Hins vegar fór minna fyrir aðgerðum á síðasta kjörtímabili, eins og ég hef áður nefnt, og var ekkert gert til að tryggja framgang fráveitumála, einhverra hluta vegna. Við þyrftum því að bæta úr því þar sem á vantar og er mínu mati eðlilegt að skoða hvort rétt sé að skoða aðkomu ríkisvaldsins að nýju. Við þurfum að horfa til langs tíma og nýta okkur vinnu við kortlagningu vatnasvæða og mat á ástandi þeirra varðandi framkvæmdir og forgangsröðun. Ísland þarf að geta sagt að fráveitumál séu í góðu horfi því að Ísland er matvælaframleiðsluland og ferðaþjónustuland og við þurfum heilnæmt umhverfi og góða ímynd. Fráveituframkvæmdir eru dýrar, miklu dýrari en þær voru áætlaðar þegar ríkið studdi þær á sínum tíma, kannski tífalt, sérstaklega vegna þess að það eru oft dýrustu verkefnin sem eru eftir, og þess vegna ekki óeðlilegt að við veltum fyrir okkur með hvaða hætti ríkisvaldið geti komið þar að.

Ég vil líka ítreka að við þurfum að byggja forgangsröðun okkar og ákvarðanir á vísindalegum grunni og rökum. Ég tel að við munum geta gert það í sambandi við Mývatn og Þingvallavatn. Helst þyrftum við að geta sett upp líkan af innstreymi og mat á hlut einstakra uppsprettna, köfnunarefni, fosfór, í vötnin. Það er margt sem við vitum ekki, en ég vona að sú vinna sem er í gangi muni skýra og hjálpa okkur í umræðunni og ákvörðunartökunni varðandi það.