144. löggjafarþing — 26. fundur
 3. nóvember 2014.
beinagrind steypireyðar.
fsp. KLM, 223. mál. — Þskj. 252.

[18:34]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Önnur fyrirspurn mín af fjórum til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra var líka af tilefni sett fram eftir kjördæmavikuna þar sem bæjaryfirvöld í Norðurþingi ræddu við okkur um steypireyðarverkefnið sem svo má kalla, en segja má að sannkallaður hvalreki hafi orðið á Skaga í Austur-Húnavatnssýslu ef ég man rétt í ágúst 2010. Þá þegar veitti þáverandi ríkisstjórn 5 millj. kr. til Náttúrufræðistofnunar Íslands til að ná í hræið og taka það til vinnslu þannig að varðveita mætti beinagrindina. Safnið hefur þar að auki lagt 4–5 millj. kr. af eigin fé í verkefnið og er ansi ánægjulegt að fylgjast með því hvernig það hefur verið unnið. En síðan fer að koma að því að finna beinagrindinni stað. Þess vegna set ég fram þessa fyrirspurn: Hvers vegna hefur beinagrind steypireyðar sem ráðuneytið hefur umsjón með ekki verið komið fyrir á Hvalasafninu á Húsavík? Og í öðru lagi: Hver eru áform ráðherra um staðsetningu beinagrindarinnar?

Einnig má geta þess að hæstv. ráðherra veitti Hvalasafninu á Húsavík viðurkenningu sem viðurkennt safn nýlega og viðurkenndum söfnum ber að starfa í samræmi við ákvæði safnalaga og hefur safnaráð lögum samkvæmt eftirlit með safnastarfsemi í landinu.

Hvers vegna spyr ég um þetta, virðulegi forseti? Á þetta erindi hingað inn á Alþingi? Já, ég tel svo vera vegna þess að það var þannig í samþykktinni frá 2010 frá þáverandi ríkisstjórn að umhverfisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra var falið það verkefni að ákveða hvað skyldi gera við grindina. Helstu rökin fyrir því að staðsetja hana á Húsavík eru meðal annars þessi:

Hvalasafnið á Húsavík er viðurkennt safn, eins og áður hefur komið fram, og er eina sérhæfða hvalasafnið á Íslandi. Safnið er nú þegar með sterkan rekstur og starfsemi, auk þess að vera eitt vinsælasta safn landsins. Hvalasafnið í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík hefur unnið einstakt frumkvöðlastarf við rannsóknir og fræðslu til almennings um lífríki hvala við Ísland. Húsavík er einn af þekktustu hvalaskoðunarstöðum í heimi og þar sjást m.a. steypireyðar reglulega á Skjálfandaflóa sem er dálítið sérstakt ef ekki einstakt hér við Ísland. Steypireyðargrindin í Hvalasafninu mun því skapa einstakt tækifæri til fræðslu á tegundinni í návígi við lifandi dýr.

Virðulegi forseti. Ég hef þegar lesið upp spurningar mínar tvær og vona að svar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra verði ekki um líffræði vegna þess að við vitum allt um steypireyðina, að þetta sé stærsta spendýr jarðar og geti orðið allt að 200 tonn þegar hún gengur með afkvæmi o.s.frv.

Spurningin er bara þessi: Hvar og hvers vegna er ekki búið að velja grindinni stað á Hvalasafninu á Húsavík?



[18:37]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef fulla samúð með því að hv. þingmaður biðjist undan kennslu í líffræði enda er það ekki á mínu færi að veita slíka kennslu. Ég skal því reyna að afmarka svarið við það sem hv. þingmaður spyr nákvæmlega um.

Rétt er að rifja upp að 31. ágúst var samþykkt í ríkisstjórninni að veita 2 millj. kr. til Náttúrufræðistofnunar Íslands til að ná beinagrind úr hvalhræinu og koma henni í geymslu, þessari beinagrind eða því hvalhræi sem hafði rekið á land við Ásbúðir á Skaga. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með grindinni, sem er eign ríkisins, en frá upphafi málsins hefur verið samráð á milli umhverfisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafns Íslands um málið.

Eftir að hreinsun beinagrindarinnar var að mestu lokið haustið 2011 var talið að það tæki að minnsta kosti 2–3 ár fyrir beinin að hreinsa sig þannig að hægt yrði að hefja forvörn og uppsetningu þeirra til sýningar. Því verður það að teljast eðlilegt í ljósi þessa að beinagrindinni hafi ekki verið ráðstafað til sýningar. Strax í upphafi málsins var ákveðið að kanna kosti þess að gera samkomulag við Hvalasafnið á Húsavík um uppsetningu og ótímabundna varðveislu beinagrindar steypireyðarinnar þar til Náttúruminjasafn Íslands yrði komið í framtíðarhúsnæði. Ráðuneytið hefur verið í samskiptum við Hvalasafnið á Húsavík vegna þessa máls frá upphafi og safnið hefur vissulega lýst sig reiðubúið að varðveita beinagrindina. Þá er til að taka, virðulegi forseti, að mennta- og menningarmálaráðherra og umhverfisráðherra hafa nú ákveðið að beinagrind steypireyðarinnar sem rak á Skaga árið 2010 verði höfð til varðveislu hjá Hvalasafninu á Húsavík þar til Náttúruminjasafn Íslands verður komið í framtíðarhúsnæði. Hæstv. forsætisráðherra kynnti þessa ákvörðun opinberlega þann 18. október sl.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun að höfðu samráði við umhverfisráðuneyti, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn Íslands útfæra með hvaða hætti þessi ákvörðun verður framkvæmd.

Beinagrind steypireyðarinnar er ríkiseign eins og áður sagði. Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt með leyfi ráðherra að lána gripi til sýningarsafna sem rekin eru af öðrum en ríkinu. Náttúrufræðistofnun er vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafns og skulu stofnanirnar hafa með sér náið samstarf og hafa gert með sér samkomulag þar að lútandi en samkvæmt því skal það vera verkefni Náttúruminjasafnsins að gera varðveislusamninga sem tengjast lánum á gripum úr söfnum Náttúrufræðistofnunar á sýningar. Því verður það verkefni Náttúruminjasafns að gera þann varðveislusamning við Hvalasafnið á Húsavík sem hér um ræðir.



[18:41]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langaði að taka aðeins þátt í þessari umræðu. Það er ánægjulegt í sjálfu sér að heyra að hæstv. ráðherra hefur haft eitthvert samráð um þetta við hina ýmsu aðila. Auðvitað er búið að tilkynna formlega á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins en samkvæmt fréttum virðist það ekki hafa verið tilkynnt á þann hátt að um væri að ræða tímabundna varðveislu.

Því spyr maður: Það á að byggja stórt húsnæði undir þessa beinagrind. Síðan er ætlast til þess að Náttúruminjasafnið sjái um þetta til framtíðar. Er það ekki illa farið með fé að ætla að byggja undir beinagrindina og gera ráðstafanir til að hægt sé að hafa hana, gera afsteypu af henni, á öðrum hvorum staðnum? Þetta er heilmikill kostnaður sem þarf að leggja í. Af hverju í ósköpunum, þrátt fyrir að Náttúruminjasafnið eigi að hafa yfir þessu að ráða, má ekki byggja safnið upp á Húsavík þannig að það hafi yfir þessu að ráða?



[18:42]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Tilkynning hæstv. forsætisráðherra 18. október bar töluverðan keim af þeim hætti hans að koma fjármunum ríkisins út til kjördæmisins í gegnum sms-boð. Mig langar að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort sú tilkynning hafi komið á undan eða eftir þeim fundi sem hæstv. ráðherra átti með hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það liggi þá fyrir að ríkisstjórnin, sem tók ákvörðun um hvar ætti að varðveita beinagrindina, muni reiða fram allt það fé sem til þarf eða er það sá sem gerir vörslusamninginn sem á að gera það?

Hitt vil ég svo segja að mér finnst það táknrænt að á sama tíma og Morgunblaðið greinir frá því að hér úti á Austurvelli séu fimm þúsund manns að mótmæla ríkisstjórninni þá heldur hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eina af sínum allra bestu ræðum og hún fjallar um beinagrindur.



[18:43]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa umræðu. Mér finnst það mjög áhugavert mál sem snýr að þessari beinagrind. Maður veltir fyrir sér með dýrgripi eins og þessi beinagrind er af hverju hún megi ekki vera staðsett úti á landi og afsteypan í Reykjavík.

Ég get alveg skilið að við viljum hafa afsteypu af þessari beinagrind í Náttúruminjasafni Íslands, þegar það verður sett á fót, en mér finnst það umhugsunarefni að upprunalegu hlutirnir eiga að vera geymdir á höfuðsöfnunum, mér finnst það ekkert endilega eiga að vera þannig.

Í þessu tilfelli finnst mér Húsavík sem hvalabærinn alveg eiga það inni að fá að geyma frumbeinagrindina og bara vera vel að því komin. Ég vona að við fáum skýrari svör hvað þetta varðar og að hæstv. ráðherra sjái sjónarmið Húsvíkinga í þessu máli.



[18:44]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér þykir mjög ánægjulegt að geta komið hingað og þakkað ráðherranum fyrir skýr og góð svör. Hér er það sem sagt fest í þingtíðindi að umsjónarráðherra hefur lýst því yfir á Alþingi að Náttúrufræðistofnun verði falið að gera varðveislusamning við Hvalasafnið á Húsavík um að setja upp beinagrind steypireyðarinnar.

Þetta er mjög mikilvægt og gott svar þó svo ég hafi líka heyrt í fréttum af þessum fundi kjördæmaráðs framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi þar sem tilkynnt var að beinagrindin færi til Húsavíkur. Það hefur kannski gerst í framhaldi af þessari umræðu, bæði í samræðum sveitarstjórnarmanna við okkur þingmenn í kjördæmavikunni svo og í þeirri fyrirspurn sem hér er sett fram, að þessi lausn fæst sem er góð og farsæl.

Eins og hæstv. ráðherra sagði þá verður þessi samningur gerður þar til nýtt Náttúruminjasafn Íslands verður byggt. Ég get tekið undir það og vona þá jafnframt líka að kannski komi annar hvalreki þannig að ekki þurfi að búa til afsteypu af því heldur verðum við þá bara með tvær alvörubeinagrindur.

Þetta er mjög mikilvægt og það hefur komið fram í fréttum að meðal annars bandarískir aðilar, mannúðarsamtök, hafa veitt Hvalasafninu styrki til að byggja við safnið, þess þurfti til að koma hinni stóru grind fyrir.

Ég gæti beðið hæstv. ráðherra um að svara því í seinna svari — alveg eins og hugsunin var við uppsetningu á grindinni í Perlunni, ef það hefði orðið hefði mikill kostnaður fylgt því — hvort Hvalasafnið á Húsavík fái þá ekki einhverja peninga með til að setja grindina upp svo að sómi sé að fyrir okkur Íslendinga.

Ég er sannfærður um að hér er stórt og mikilvægt skref stigið í safnamálum á Íslandi.



[18:47]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið hárrétt, sem hv. þingmaður benti á, mergur málsins er sá að með því að lausn er fundin á því hvar eigi að sýna þessa beinagrind sé komin nokkuð farsæl niðurstaða í þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar að um sé að ræða svo einstakan grip að þegar Náttúruminjasafn Íslands verður komið í sitt framtíðarhúsnæði sé eðlilegt að gripurinn verði þar. Þess vegna var lagt upp með það að búin yrði til afsteypa sem gæti þá verið á Hvalasafninu á Húsavík þannig að hægt væri að nýta áfram þá aðstöðu sem til stæði að byggja upp til að taka á móti þessum dýrgrip.

Hitt er sjálfsagt að hafa í huga að þetta gerist öðru hverju, að stórhveli eins og steypireyðina rekur á land hér á Íslandi. Reyndar eru hræin í mismunandi ásigkomulagi og hér var um óvenjuheillegt eintak að ræða þó að ekki væri það alheilt. Það þarf að gera við hana þannig að hægt sé að sýna hana og það tekur tíma.

Hvað varðar þá sýningu sem verið hefur til umræðu í Perlunni er rétt að hafa í huga að þar koma meðal annars að einkaaðilar sem hyggjast þá fjárfesta í slíkri sýningu. Framlag ríkisins þar til er tiltölulega takmarkað en þá er ekki bara verið að ræða um steypireyðina sem sýningargrip heldur margvíslega aðra sýningarmuni. Mér hefur verið tjáð að það hafi ekki verið forsenda þeirrar sýningar að þessi steypireyður yrði þar.

Ég ítreka að ég tel að hér sé um þannig dýrgrip að ræða að eðlilegt sé að hann verði í því höfuðsafni sem Náttúruminjasafn Íslands á að vera þegar það verður komið í sitt framtíðarhúsnæði.