144. löggjafarþing — 26. fundur
 3. nóvember 2014.
flutningur heilbrigðisþjónustu til sveitarfélaga.
fsp. ÁPÁ, 311. mál. — Þskj. 380.

[19:52]
Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra um viðhorf hans til flutnings heilbrigðisþjónustu sveitarfélaga. Þetta er orðið mikilvægt umhugsunarefni í ljósi ákvörðunar hæstv. ráðherra um að ríkisvæða heilsugæsluna á Akureyri. Það hafa verið umræður um það á vettvangi sveitarfélaganna áratugum saman að æskilegt væri að sveitarfélögin tækju yfir heilsugæsluna. Það hefur verið mörkuð um þetta stefna allra flokka í Reykjavík til dæmis og víða um land hafa menn horft til þessa verkefnis, kjarnaverkefnis fyrir sveitarfélög í framtíðinni. Mörg sveitarfélög hafa óskað eftir að fá að taka yfir heilsugæsluna í tilraunaverkefni.

Menn hafa horft til reynslunnar á Akureyri. Þar hefur verið við lýði heilsugæsla í höndum bæjarfélagsins um langa hríð. Það hefur skilað miklum árangri fyrir samfélagið. Það hefur skilað miklum árangri fyrir samþættingu heilsugæslunnar og félagslegrar þjónustu. Það er alveg öruggt að það hefur tekist betur til við að taka á vanda sem er samþættur félagslegur og heilsufarslegur vandi, oft félagslegur vandi sem gæti þróast yfir í heilsufarslegan, vegna þess að heilsugæslan og félagsþjónustan hafa báðar verið reknar af bæjarfélaginu. Þetta hefur verið kallað Akureyrarmódelið um allt land, öll sveitarfélög horft til þessa. Þetta var til dæmis einn af drifkröftunum í því að okkur tókst að ná samkomulagi við sveitarfélögin á sínum tíma um yfirfærslu þjónustu við fatlaða yfir til sveitarfélaga. Þá lá fyrir að þjónusta við aldraða færi líka í kjölfarið. Við horfum þá jafnframt til þess að tilraunaverkefni gætu einnig farið yfir til sveitarfélaga á sviði heilsugæslunnar. Nú er sem sagt eina tilraunaverkefnið sem var tiltækt horfið og við höfum ekkert sem reynsluverkefni fyrir sveitarfélögin að horfa til.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra vegna þessarar, ég vil kalla það miklu öfugþróunar, þegar verið er að ríkisvæða þessa þjónustu og færa hana fjær fólkinu sem þarf á henni að halda: Hver er afstaða ráðherrans til frekari tilflutnings heilsugæslunnar til sveitarfélaga? Er hann á móti henni? Er hann hugmyndafræðilega á móti þessu?

Ég vil líka spyrja hann: Hvenær telur hann tímabært að flytja þjónustu við aldraða til sveitarfélaga? Það er ekkert því til fyrirstöðu að ganga af krafti í það verkefni. Ég veit af eigin reynslu sem félagsmálaráðherra að þegar þjónusta við fatlaða var flutt til sveitarfélaga skipti mestu (Forseti hringir.) máli að ákveða dagsetninguna, því að menn geta alltaf fundið rök (Forseti hringir.) til að ýta henni á undan sér.



[19:55]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þekki ágætlega til þess verkefnis sem hv. fyrirspyrjandi vitnar til um rekstur heilsugæslunnar á Akureyri. Ég rak það verkefni frá árinu 1998–2007. Á því tímabili urðu mjög mikil tímamót í rekstri sveitarfélagsins á þeirri mikilvægu þjónustu sem heilsugæslan er. Sveitarfélagið Akureyri tók við þessu verkefni 1996 á grundvelli laga um reynslusveitarfélög. Þau lög runnu út á árinu 2003. Það eru engin tilraunaverkefni í gangi. Þau lög runnu sitt skeið á árinu 2003. Frá þeim tíma hefur þetta einfaldlega verið rammasamningur á milli sveitarfélagsins og viðkomandi ráðuneytis. Það er ekki rétt að þetta sé eina verkefni sem hafi verið í gangi, Höfn í Hornafirði rekur heilsugæsluna áfram og jafnframt er samningur áfram um málefni aldraðra á Akureyri.

Reynslan af þessum rekstri til ársins 2003 var ekki nýtt eins og þetta var í upphafi hugsað með lögunum um reynslusveitarfélög 1996, til þess að taka ákvarðanir af hálfu stjórnvalda um það hvort slíkur rekstur ætti að færast alveg yfir til sveitarfélaganna eða ekki, heldur var reynt að framlengja þetta og hefur verið gert með nokkru millibili á grundvelli þjónustusamninga. Þar er verkaskiptingin mjög skýr. Sá sem tekur að sér verkefnið fær ákveðna fjárveitingu frá ríkissjóði. Honum er ætlað að útfæra verkefnið á þeim grunni.

Þegar maður lítur yfir hvernig þetta hefur gengið sér maður það að hægt og bítandi hefur afkoma af þessu verkefni, þessum samningi sveitarfélagsins við ríkið, verið að versna, ár frá ári. Ég kann ekki nákvæmar skýringar á því en það er alveg ljóst, eins og tölur mínar segja sem þingmenn kjördæmisins fengu frá bæjarfulltrúum á Akureyri, að þar eru skattgreiðendur á Akureyri að greiða með þessu verkefni töluvert háar fjárhæðir og sérstaklega á árabilinu 2008–2013.

Varðandi það sem lýtur síðan að yfirfærslu þessara málaflokka til sveitarfélaga er ég alveg til í að skoða alla þætti í þeim efnum, en þá þarf nauðsynlega að skilgreina betur ábyrgð og hlutverk þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið á að veita og hvað ríkið á að gera, því að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð verður með einhverjum hætti að fara sama. Það ber hins vegar að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem sveitarfélögin hafa sett fram í þessu máli. Samtök sveitarfélaga hafa verið mjög afdráttarlaus og þau hafa lýst því á þann veg að um frekari forsendur fyrir yfirfærslu annarra verkefna til sveitarfélaga verði ekki að ræða fyrr en uppgjör eða úttekt á yfirfærslu málefna fatlaðra sé lokið frá ríki til sveitarfélaga og sú vinna stendur enn yfir.

Ég vil sömuleiðis minna á orð formanns Sambands sveitarfélaga sem hann lét falla á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og voru á þann veg að næst þegar verkefni verða færð frá ríki til sveitarfélaga verði fyrst gengið frá laga- og kostnaðarramma og ríkinu gert að reka málaflokkinn samkvæmt þeim ramma sem þar yrði dreginn í tiltekinn tíma áður en verkefnið færðist yfir til sveitarfélaganna. Þetta er ákveðin stefnumörkun sem hlýtur að setja umræðuna um yfirfærslu mála frá ríki til sveitarfélaga í annað ljós en við höfum verið að ræða hingað til. Þetta krefur okkur um miklu nákvæmari útfærslu á þeim hugmyndum sem við erum og þurfum að ræða til þess að koma þessu yfir.

Ég vil líka minna á það í ljósi umræðunnar um heilsugæsluna sérstaklega að núverandi stefna og lagaumhverfi byggir á því að allir sjúkratryggðir eigi að hafa aðgang að vel skilgreindri heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu og aldri, og hún byggir því á því að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á heilbrigðisþjónustu hins opinbera sé á einum stað og allir sjúkratryggðir í sambærilegri stöðu eigi að fá sambærilega þjónustu. Þegar við förum að ræða það hvernig þetta verði flutt yfir til sveitarfélaganna þá er það mjög vandasöm umræða og verður mjög vandasamur tilflutningur, en hann er gerlegur. Ég leyfi mér að fullyrða að það tekur mjög langan tíma að vinna niður allar skilgreiningar í þessu og síðan mun það taka einhver ár ef það á að bregðast (Forseti hringir.) við þessari nýju stefnumörkun sem formaður sambandsins gerði að umtalsefni á (Forseti hringir.) fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.



[20:01]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga efni. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra endaði á að segja. Formaður sambandsins var á fundi með fjárlaganefnd þar sem einmitt þetta var rætt og ég held að ágætt sé fyrir ríkið að fara í þá vinnu að reka málaflokk eins og hann ætlar sveitarfélögunum að gera það.

En hæstv. ráðherrann veitti ekki svör við því hvort hann telur hægt að gera þetta ódýrara eða á sama hátt af hálfu ríkisins og gert hefur verið af hálfu Akureyrarbæjar.

Mig langar líka að spyrja: Ef Hornafjörður getur rekið sig að óbreyttu, af hverju er þetta tekið yfir að hluta? Ef ég skil þetta rétt er það flutt til ríkisins á Akureyri en ekki á Hornafirði, af hverju er það? Og varðandi ábyrgð á þjónustu, hefði ekki mátt gera (Forseti hringir.) það og framlengja þjónustusamninginn með auknu fé? (Forseti hringir.) Ekki nema hæstv. ráðherra telji hægt að gera það fyrir þetta fjármagn og þá er hann (Forseti hringir.) kannski akkúrat kominn að því sem hann sagði að (Forseti hringir.) formaður sambandsins hefði sagt: Að reka málaflokkinn innan þessa ramma.



[20:02]
Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er vissulega rétt sem hann rekur að það flækir mjög umræðuna um tilflutning þjónustu aldraðra til sveitarfélaga sú yfirlýsing sem hann vitnar til frá formanni Sambands sveitarfélaga. Ég held að að sumu leyti sé nú um að ræða ákveðinn misskilning hjá sveitarstjórnarmönnum hvað varðar þennan tilflutning að því leyti að ríkið er ekki að gera sér að leik í fortíðinni, hvort sem er með grunnskólann eða þjónustu við fatlaða, að demba einhverjum kröfum á sveitarfélögin heldur er það þannig að þjónustan heldur áfram að þróast og kröfurnar halda áfram að þróast. Það er ekki hægt að festa niður kröfur til félagslegrar þjónustu og síst af öllu þegar hún er komin í nærumhverfið þar sem fólk gerir kannski líka ríkari kröfur þegar málin eru komin á hendur sveitarfélaga.

Samt finnst mér hæstv. ráðherra þurfa að svara því af hverju það er þannig að skattgreiðendur á Akureyri þurftu að borga með þessu. Var honum ekki í lófa lagið að gera breytingar á samningnum, sérstaklega í ljósi þeirrar þekkingar sem hann hefur á þessu málasviði og þeirrar reynslu sem hann hefur, til þess að gera sveitarfélaginu kleift að halda þjónustunni áfram með rammasamningi, sem vissulega hefur verið fyrirkomulagið síðustu ár? Ég held að það hefði haft mjög jákvæð áhrif að halda þessu verkefni áfram í höndum Akureyrar. Hæstv. ráðherra vitnar í Höfn í Hornafirði en það er auðvitað ekki að fullu leyti sambærilegt vegna stærðar sveitarfélaganna, þess vegna er þetta nú kallað Akureyrarmódelið. Akureyri er það stórt sveitarfélag að sveitarfélagið býður upp á fjölbreytta þjónustu og hefur getað boðið upp á hana í félagslegri þjónustu og það hefur verið mjög (Forseti hringir.) mikilvægt sem sýnidæmi.



[20:05]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur átt sér stað. Fyrst til taka varðandi það sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir nefndi áðan: Af hverju getur Hornafjörður haldið áfram? Ég hef sagt það úr þessum ræðustól að Akureyrarbær sagði upp samningnum 19. desember 2013, það var ekki ríkið sem sagði upp þeim samningi, það var bæjarstjórn Akureyrar sem sagði upp þeim samningi eftir samþykkt fjárlaga. Það er því þeirra ákvörðun að gera þetta á þann hátt.

Varðandi það sem hv. þm. Árni Páll Árnason segir hérna þá er ég í grunninn sammála og ég held við séum nokkuð sammála um meginatriðið í þessari umræðu. Það ber þó að hafa í huga þegar rætt er um Akureyrarmódelið að þar voru fleiri þættir inni líka. Þetta var heilsugæslan, þetta voru málefni fatlaðra, þetta var öldrunarþjónusta, en sérstaklega málefni fatlaðra og heilsugæslan voru samþætt inn í breytingar sem voru gerðar á skólaþjónustu Eyþings þegar Akureyrarbær klauf sig þar út og skólamálin voru felld inn í báða málaflokkana. Þess vegna hafa önnur sveitarfélög meðal annars reynt að sækja inn í þetta form, en það hefur ekki alls staðar tekist vegna þess hvernig skólinn, rekstur skólanna og sú þjónustu sem þar er veitt var samþætt inn í bæði málefni fatlaðra og ákveðna vinnu varðandi heilsugæsluna.

Það sem ég vil undirstrika er það sem menn verða að taka tillit til við umræðu um málefni heilsugæslunnar sérstaklega, að það er vaxandi tilhneiging til þess þegar menn eru að ræða heilbrigðismálin, heilbrigðisþjónustuna, að við eigum frekar að fara inn í þá vegferð að leggja eitthvert heildstætt mat á þörf (Forseti hringir.) einstaklinga fyrir heilbrigðisþjónustu heldur en að vera að velta okkur endalaust upp úr tilteknum (Forseti hringir.) þjónustuúrræðum. Ég held að það sé veruleiki sem við eigum eftir að takast á við á komandi árum.