144. löggjafarþing — 27. fundur
 4. nóvember 2014.
um fundarstjórn.

dráttur á svari við fyrirspurn.

[13:33]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þann 18. september sl. fékk hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrirspurn frá mér varðandi virðisaukaskatt sem einstaklingar greiða, greint eftir tekjuhópum og virðisaukaskattsþrepum. Það eru liðnir 47 dagar, þar af 33 virkir. Samkvæmt þingsköpum hafa ráðherrar 15 virka daga til að skila inn skriflegu svari og ef þeir geta ekki gert það eiga þeir að senda forseta skýringar á töfunum og láta vita hvenær svarsins má vænta.

Þess vegna spyr ég forseta hvort hann hafi fengið slíkar útskýringar frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Þarna er um að ræða upplýsingar sem fleiri en ég eru að bíða eftir og skiptir miklu máli vegna afgreiðslu á stóru stefnumáli ríkisstjórnarinnar.



[13:34]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er auðvitað bagalegt ef það gerist að ekki er unnt að svara fyrirspurnum í tæka tíð samkvæmt ákvæðum þingskapa. Eins og hv. þingmaður vakti athygli á þá er það gjarnan þannig að þeir ráðherrar sem þetta á við skrifa bréf til forseta til að greina frá því að það takist ekki. Það er þá jafnan gert á grundvelli þess að ekki hafi unnist tími til þess að ljúka slíkri vinnu.

Eins og hv. þingmenn vita krefjast fyrirspurnir af þessu tagi oft og tíðum býsna umsvifamikillar athugunar eða vinnu og þess vegna er það ekki einsdæmi að svör við fyrirspurnum dragist þó að það sé óheppilegt.

Forseti vill í þessu sambandi vekja athygli á því að á þessu þingi hafa verið lagðar fram óvenjulega margar fyrirspurnir til skriflegs svars. Forseti hyggur að það kunni að hafa verið slegin öll met í þessum efnum það sem af er þessu þingi þótt enginn viti hvert framhaldið verður á þessum þingvetri. Vill forseti í því sambandi vekja athygli á því að fyrirspurnir sem lagðar hafa verið fram til skriflegs svars eru nú orðnar 168 miðað við stöðuna eins og hún var 23. október og hefur nokkuð bæst í síðan. Enn fremur og af þessum spurningum bíða 115 svars en skrifleg svör hafa borist við 53 fyrirspurnum.

Ef forseti fær upplýsingar um nýrri stöðu þessa máls er sjálfsagt að koma þeim á framfæri. Hann getur sér þess til að þetta kunni að valda því að lengur hefur dregist um svör við ýmsum skriflegum fyrirspurnum en æskilegt hefði verið.



[13:36]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta þingmanni sem kvartaði undan afgreiðslu úr fjármálaráðuneytinu. Ég á þar inni fyrirspurn líka síðan seinni partinn í september. Hún er hvorki mjög ítarleg né flókin. Það er ein spurning sem snýr að endurgreiðslu virðisaukaskatts af íþróttabúnaði fyrir fatlaða íþróttamenn. Ég óskaði að vísu eftir því að tekin væru tíu ár en ég get ekki ímyndað mér að það standi ráðuneytinu fyrir þrifum að svara þeirri spurningu.

Ég get vel skilið að það sé mikið álag og það er enginn að segja að svo sé ekki akkúrat á þessum árstíma varðandi fjárlögin en það er þó lágmarkskurteisi, eins og forseti rakti áðan, að þess sé þá farið á leit við forseta og þingið að beiðnin fái að liggja eitthvað lengur inni og gefnar ástæður fyrir því hvers vegna svo sé.

Ég vona að hæstv. forseti kalli eftir því að þessum spurningum verði svarað hið bráðasta.



[13:37]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill koma með nýjustu tölur um stöðu mála varðandi fyrirspurnir sem lagðar hafa verið fram til skriflegs svars. Þær eru ekki lengur 168, eins og forseti las upp miðað við gögn frá 23. október, heldur eru þær orðnar 177.

Forseti hefur jafnframt athugað nánar þá fyrirspurn sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kallaði eftir svörum við. Forseti las af forsetastóli tilkynningu um að fjármálaráðuneytið hefði óskað eftir þessum fresti vegna þess að ekki hefði unnist tími til að ljúka svörum. Sá frestur sem óskað var eftir á að renna út eigi síðar en 6. nóvember.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, 9. þm. Norðaust., hefur svar við henni borist og verður útbýtt í dag.

Forseti bregst nú greinilega mjög hratt við.



[13:38]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það getur alltaf gerst að það dragist að svara fyrirspurnum og þá leitar framkvæmdarvaldið eftir því að fá frest þar um. En fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur er ekki um hvert annað mál. Hún lýtur að grundvallarupplýsingum um meginbreytinguna í sköttum í fjárlagafrumvarpinu sjálfu, þingmáli nr. 1, og maður skyldi ætla að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi ekki farið fram með tillögur um skattbreytingar gagnvart fólkinu í landinu öðruvísi en að vera með á borðinu þær upplýsingar sem spurt er um.

Ég vona svo sannarlega að hann hafi haft þær á borðinu en þá hlýtur maður að spyrja: Vill hæstv. fjármálaráðherra ekki að þessar upplýsingar komi fram? Það getur auðvitað ekki gengið að ekki sé upplýst um fyrirspurn sem snýr að meginbreytingunni í skattlagningu í fjárlagafrumvarpinu — á einum og hálfum mánuði. Eru ekki til upplýsingar um matarskattinn í fjármálaráðuneytinu? Voru teknar ákvarðanir um milljarðaálögur án þess að þær (Forseti hringir.) upplýsingar væru til? Og er það ekki grundvallaratriði (Forseti hringir.) að hann kappkosti að útvega þær upplýsingar eins fljótt og verða má? Er einn og hálfur mánuður ekki algjörlega (Forseti hringir.) óhæfilegur tími (Forseti hringir.) í þessu efni?



[13:39]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti áréttar það sem fram kom í máli hans áðan, frestur til þess að svara þeirri fyrirspurn sem hv. þingmaður vék að rennur út í síðasta lagi 6. nóvember.

Er þá ekki langs að bíða eftir því.



[13:40]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér ræða menn um lengd tíma svara til framkvæmdarvaldsins. Ég get alveg tekið undir að það skiptir máli að svör berist eins fljótt og mögulegt er. Ég fagna sérstaklega að hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna séu orðnir þetta áhugasamir um það mál. Á síðasta kjörtímabili varð ég ekki var við þann áhuga og ætla nú ekki að fara yfir allar þær fyrirspurnir sem við komum með þar sem þurftu að bíða lengi. Við þurftum jafnvel að fara fram á við Ríkisendurskoðun að kalla eftir eðlilegustu upplýsingum. Ég ætla ekkert að fara yfir það hér í neinum smáatriðum en fagna nýjum áhuga þessara tveggja þingflokka þar sem hv. þingmenn þeirra hafa nú komið hér upp og farið mikinn. Það er vel. Batnandi fólki er best að lifa.



[13:41]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Reykv. s. kann vissulega að halda mönnum við efnið, ég þakka honum fyrir það. Mig langar að nefna að þótt það séu margar fyrirspurnir með óskum um skriflegt svar eru sex flokkar á þingi. Þetta er eitt af þeim helstu tólum sem sérstaklega stjórnarandstöðuflokkar geta notað til að kalla fram upplýsingar, hreyfa við málum, vekja máls á ýmsu og það er mjög mikilvægt að við höfum greiðan aðgang að þessu tæki.

Í því sambandi þykir mér mikilvægt að menn fari ekki í þann gír að ætla að minnka magn fyrirspurnanna sjálfkrafa heldur frekar að auka burði ráðuneytanna til að svara þeim. Mér finnst mikilvægt að þegar við leitum lausnar á þessum vanda miði hún í rétta átt.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.



[13:42]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill í lokin draga fram helstu tíðindi af þessum fyrirspurnum. Kallað var eftir svörum við fyrirspurn frá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur sem upplýst er að verður dreift hér í dag og varðandi fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur verður því svari dreift samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu í síðasta lagi á fimmtudaginn kemur.