144. löggjafarþing — 27. fundur
 4. nóvember 2014.
umferðarljósamerkingar á matvæli, fyrri umræða.
þáltill. BP o.fl., 58. mál. — Þskj. 58.

[17:17]
Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um skiljanlegar merkingar á matvælum, næringargildismerkingar. Þetta er í annað skipti sem ég flyt þessa tillögu og er hún hér í aðeins breyttri mynd, þ.e. ég tók tillit til þeirra umsagna sem komu um málið á síðasta þingi, sem voru reyndar ekki margar.

Málið gengur sem sagt út á það að gera upplýsingar um næringargildi matvæla skiljanlegar og aðgengilegar fyrir neytendur og auðvelda þeim þar með að taka upplýsta ákvörðun. Ég held að flestir kannist við að þær merkingar sem nú er skylt að setja á umbúðir matvæla geta verið illskiljanlegar. Oft eru líka villandi fullyrðingar um hollustu matvæla á umbúðum og er þá kostunum yfirleitt haldið á lofti en dýpra er á þeim upplýsingum sem snúa að magni viðbætts sykurs og salts, svo dæmi sé tekið. Hugmyndin með þessum merkingum kemur frá Bretlandi. Þær eru kallaðar umferðarljósamerkingar og er þá um þrjá liti að ræða; grænan, appelsínugulan og rauðan, og er litamerkt eftir upplýsingum um salt, sykur, fitu og mettaða fitu. Rautt þýðir að það er mjög mikið af sykri eða mjög mikið af salti í vörunni og grænt þýðir að það er lítið magn. Þetta eru upplýsingar sem eru oft á vörum en eins og þetta er í dag er illskiljanlegt að lesa úr þessum upplýsingum — ég held að ég tali þar fyrir hönd mjög margra hvað það varðar.

Flutningsmenn tillögunnar eru úr öllum flokkum og ég þakka fyrir hve margir hafa áhuga á þessu máli. Við leggjum öll til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra láti hefja vinnu við undirbúning að því að taka upp þessi næringarmerki á matvælum að breskri fyrirmynd þar sem litur ljósanna gefur til kynna hversu holl eða óholl tiltekin vara er. Reynsla Breta af upptöku merkingarinnar er jákvæð og rannsóknir sýna að neytendum hugnast vel einfaldar merkingar á borð við umferðarljósin.

Ef við förum aðeins í forsögu málsins þá hófst umræða um nýjar skiljanlegri næringargildismerkingar í Bretlandi árið 2004, svokallaðar umferðarljósamerkingar sem setja ætti framan á umbúðir. Velferðarnefnd breska þingsins lagði til að málið yrði skoðað sem hluti af rannsókn á aukinni tíðni offitu og hugsanlegum tengslum við mataræði. Árið 2006 kynnti breska matvælastofnunin umferðarljósamerkingar formlega til sögunnar og eins og ég sagði áðan þá eru gefnir litir fyrir hvern þátt, eins konar einkunnir fyrir næringargildi þeirra. Grænt ljós þýðir að neytendur geta borðað nægju sína, appelsínugult ljós segir að borða skuli þá vöru í hófi og rautt þýðir að ekki skuli neyta viðkomandi vöru í miklum mæli. Það er ekki alveg svona einfalt vegna þess að vörur geta innihaldið mjög mikið salt en lítinn sykur eða mjög mikla fitu og lítið salt. Það fer eftir því hvað fólk vill forðast; sumir forðast sykur, sumir forðast sykur, salt og fitu og þeir sem eru með háan blóðþrýsting reyna væntanlega að forðast salt. Þetta eru í rauninni bara upplýsingar sem hver og einn getur metið en þetta eru læsilegar upplýsingar. Ég verð að segja að það er t.d. mjög flókið að lesa út úr næringargildismerkingum fyrir salt. Ég á bara í mestu erfiðleikum með það enda er það yfirleitt gefið upp í tölum, jafnvel prósentum miðað við 100 grömm Jafnvel þótt maður sjái að það séu 5,5 g af sykri í 100 g í vöru þá segir það mér ekki hvort það er mikið eða lítið.

Markmiðið með þessu er að upplýsa neytendur betur um næringargildi og gera þeim kleift að taka upplýsta og meðvitaða ákvörðun. Svona merkingar eru valfrjálsar og þegar unnið var að þessu í Bretlandi þá mættu stjórnvöld mikilli andstöðu matvælaframleiðenda. Þeir tóku upp sitt eigið merkingarkerfi til höfuðs umferðarljósunum, svokallað GDA, „guideline daily amount“, þ.e. áætluð dagsþörf. Breska matvælastofnunin gerði síðan óháða úttekt árið 2009 á því hvaða merkingar höfðuðu best til neytenda. Þá varð niðurstaðan sú að umferðarljós í bland við GDA væri skiljanlegasta fyrirkomulagið, þ.e. rannsóknir sýna að litir virka vel. Fólk vill líka geta séð þessar upplýsingar á augabragði.

Í framhaldinu ákváðu síðan stórir framleiðendur að taka upp slíkar merkingar og breski heilbrigðisráðherrann studdi framtakið. Menn höfðu notast við ýmsar útfærslur af þessum lituðu merkingum. Breska matvælastofnunin fór í það að samræma merkinguna og heilbrigðisráðuneytið hafði yfirumsjón með því og ný útfærsla var tilkynnt árið 2013. Þá voru margir stórir framleiðendur sem tilkynntu að þeir mundu taka þátt í þessu verkefni, svo sem Mars, Nestlé, Premier Foods og Pepsico. Aðrar þjóðir hafa verið að skoða möguleika á að gera næringargildismerkingar skiljanlegri með því að nota litamerkingar, svo sem Ástralir og Frakkar. Það síðasta sem ég las var að í Frakklandi væru menn að hugsa um að nota liti en hafa þá grænan, gulan og rauðan og bara einn lit fyrir heildarhollustu eða óhollustu vörunnar. Það er kannski mikil einföldun en menn eru að reyna að hugsa hvernig hægt er að upplýsa neytendur betur um hollustu eða óhollustu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.

Mér finnst rétt að koma aðeins inn á að Skráargatið hefur verið innleitt á Íslandi, sem er mjög gott. Það hefur verið notað í Svíþjóð frá 1989, ef ég man rétt. Það er merki sem auðveldar neytendum að velja holla fæðu því að aðeins þær vörur fá að bera Skráargatið sem standast ákveðnar kröfur. Ef maður kaupir skráargatsmerkta vöru á maður að geta verið öruggur um að hún standist kröfur og sé holl. Það merki má hins vegar ekki setja á allar vörur. Það má ekki nota á kex, sælgæti, ís eða það sem flokkast getur sem óhollusta og ekki á vörur sem innihalda sætuefni. Af umsögnum sem bárust þegar málið fór í umsagnarferli á síðasta þingi mátti greina áhyggjur af því að Skráargatið og umferðarljós mundu að einhverju marki keppa um athygli neytenda og e.t.v. rugla þá í ríminu og að kannski væri Skráargatið nægjanlegt því að þá hefði fólk þann kost að velja holla vöru.

En það eru langt í frá allar vörur með Skráargati og það verður alltaf bara ákveðinn hluti af matvörum á markaði með slíka merkingu. Neytendur munu áfram kaupa vörur sem ekki eru skráargatsmerktar en þeir eiga eftir sem áður rétt á upplýsingum um hollustu eða óhollustu vörunnar. Ef rannsóknir sýna að litir geti skipt máli þá finnst mér að okkur beri skylda til að skoða þann möguleika og það er skoðun okkar flutningsmanna að einn möguleiki útiloki ekki annan. Skráargatið er ekki komið til að leysa lýðheilsuvandann á Íslandi. Umferðarljósamerkingar munu heldur ekki gera það. Það er margt sem getur hjálpast að þar, ekki aðeins getur það nýst til að bæta heilsu landans heldur er það bara réttur fólks að fá að vita hversu mikið magn af sykri eða salti er í vörunni, réttur til að fá upplýsingar sem eru skiljanlegar. Mér finnst það svolítið áhyggjuefni þegar við hugsum um næringargildisupplýsingar í dag eða merkingar á matvælum að það voru ekki neytendur sem ákváðu að þær ættu að vera eins og þær eru. Það eru framleiðendur sem hafa haft mikið um það að segja og einhverjir sérfræðingar sem sjá um slík mál. Ég mundi vilja sjá könnun á Íslandi þar sem skoðað væri hvort neytendur almennt skildu þær upplýsingar sem gefnar eru upp á vöru hvað varðar næringargildi. Ég heyri ótrúlega mikið talað um að sykurinn leynist víða. Sykur á ekkert að leynast í vöru. Upplýsingarnar um magn sykurs í vöru eiga að vera alveg á hreinu. Ef það þarf að setja rautt umferðarljós á vöru til að upplýsa neytendur um að vara innihaldi mikinn sykur þá gerum við það. Mér finnst allt tal um lýðheilsu og það að reyna að bæta lýðheilsu marklaust ef við erum ekki tilbúin að veita fólki þær upplýsingar og leyfa því að taka upplýsta og meðvitaða ákvörðun.

Óhollt mataræði er ástæða fyrir mörgum lífsstílssjúkdómum. Offita er vaxandi vandamál á Íslandi sem og annars staðar og helsta orsök hennar er óhollt mataræði og lítil hreyfing. Í þingsályktunartillögu okkar eru tölur um það fengnar hjá landlæknisembættinu. Við vitum að lífsstílstengdir sjúkdómar kosta heilbrigðiskerfið gríðarlega fjármuni ár hvert og er til mikils að vinna að lækka þann kostnað.

Betri merkingar á matvælum munu ekki leysa offituvandamálið eða aðra tengda lífsstílssjúkdóma en það skiptir máli ef markmiðið er að beina fólki í átt að neyslu hollra matvæla.

Það er einnig mikilvægt að allir þjóðfélagshópar hafi sömu möguleika á að velja holl matvæli. Mér finnst umræðan stundum vera þannig að allir eigi að vita hvað er hollt og hvað er óhollt. Það er ekki alveg þannig. Margs konar matvæli eru kannski látin líta út fyrir að vera holl en eru það síðan ekki. Ég get tekið dæmi um gróft kex sem er með einhverjum heilsufullyrðingum um mikið magn trefja en getur verið dísætt. Okkur verður tíðrætt um ákveðnar mjólkurvörur, það kemur fólki á óvart hve mikill sykur er t.d. í skyri eða jógúrt eða hvað það er. Það á ekki að koma okkur á óvart. Við eigum að geta séð það á umbúðunum ef vara inniheldur mikinn sykur. Það sem skiptir ekki síst máli er að allir neytendur eiga að geta skilið upplýsingarnar. Eins og þær eru settar fram núna þá eru þær fyrir mjög vel menntað fólk sem hefur sökkt sér ofan í næringarfræði og les heilsublogg og þar fram eftir götunum. Mér þætti mjög fróðlegt að sjá könnun þar sem einnig væri tekið tillit til mismunandi þjóðfélagshópa og reynt að meta það hvort fólk skilji þær upplýsingar sem fram koma á umbúðum. Ég held nefnilega að fólk haldi oft að það hafi keypt hollari mat en það kaupir í raun.

Ég nefndi skyr eða einhverjar mjólkurvörur sem eru sykraðar og múslí, morgunmat. Það eru margir matvælahópar þar sem framleiðendur eru duglegir að benda á kostina eins og þá að morgunkorn innihaldi mikið af trefjum en ekki er auglýst sérstaklega að morgunmaturinn sé dísætur. Það eru þó upplýsingar sem við eigum rétt á að fá.

Það getur verið að einstaka þjóðfélagshópar, eins og börn og íbúar af erlendu bergi brotnir og fólk sem er lítt skólagengið, séu síður líklegir til að átta sig á núverandi merkingum um næringargildi matvæla. Við teljum að val um hollt mataræði eigi að standa öllum til boða og að einfaldar næringargildismerkingar eigi veita öllum þjóðfélagshópum val um neyslu hollra matvæla ef fólk kýs svo.

Það er ekki að ástæðulausu sem Bretar fóru í þessa vegferð sem tók mörg ár í undirbúningi. Enn í dag er það ekki þannig að allir framleiðendur séu með þessar merkingar vegna þess að hún er valfrjáls. Til stóð að Evrópusambandið setti litamerkingar í löggjöf um reglur um merkingar matvæla og var tiltölulega jákvæð stemning fyrir því. Þá fóru framleiðendur á fullt í hagsmunagæslu sinni og niðurstaðan varð sú að ekkert varð af því. Mér finnst það áhyggjuefni þegar framleiðendur hafa meira um það að segja hvernig upplýsingar neytendur fá en neytendur sjálfir. Það er þess vegna sem ég legg þessa tillögu fram. Þetta er ekki nokkuð sem gerist á einu ári, þetta er verkefni sem taka mun tíma en ef við viljum sjá bætta lýðheilsu, viljum spara í heilbrigðiskerfinu, jafnvel minnka notkun á ýmsum lyfjum, lyfjum við háþrýstingi, sykursýki eða öðru þar sem mataræði spilar stóran þátt, getum við haft mikil áhrif. Ef við meinum eitthvað með því samþykkjum við þessa þingsályktunartillögu og vinnum að þessu máli.



[17:31]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir þessa þingsályktunartillögu sem ég stend að með henni ásamt mörgum öðrum. Hún fór yfir helstu þætti hennar. Ég vil bara taka undir það vegna þess að mér finnst þetta afar mikilvægt mál og held að það sé, eins og þingmaðurinn rakti ágætlega, mikilvægara en margur gerir sér grein fyrir og þá auðvitað fyrst og fremst í tengslum við heilbrigðisþáttinn.

Við stöndum við frammi fyrir því að þjóðin er að fitna og lífsstílssjúkdómar hafa aukist. Ég rak augun í þær tölur sem hér eru raktar: 59% fólks á aldrinum 18–80 ára eru yfir kjörþyngd og 21% flokkast með offitu 2011 en það var 13,1% árið 2002. Þetta er gríðarlega hröð aukning og við vitum að hún er enn á uppleið, því miður.

Nú er mikið talað um að fólk sé meðvitað um hvað það láti ofan í sig og talað um alls konar kolvetnislausa kúra og sykurlausa kúra og nú er mikið búið að tala um sykur, eða það finnst mér a.m.k., og áhrif hans á mataræði fólks. Það er eitt af því sem þessi umferðarljós eiga að ná til, þ.e. upplýsa um innihald sykurs. Ég tek undir það að við eigum ekki að gera ráð fyrir því að allir geti lesið sér til gagns á umbúðir sem eru ekki alltaf á íslensku, þ.e. um allt sem þar þyrfti að koma fram.

Mér datt í hug frammi í kaffinu áðan, þegar verið var að borða kökur og svo var verið að borða kex, að maður smyr eitthvað og telur að það sé kannski svolítið hollara en þegar betur er að gáð þá er það það alls ekki. Það er ekki með minna sykurinnihaldi en sætabrauðið. Þetta er nokkuð sem við þurfum að vera vel meðvituð um.

Ég held að þegar við höfum fyrir framan okkur eitthvað sem er með litum þá séum við sneggri að versla og ég held að við séum meðvitaðri um það sem við grípum þegar blasir við okkur einhver tiltekinn litur. Auðvitað má segja að ef framleiðendur setja sig upp á móti þessu vegna þess að þeir telja að verið sé að flokka vörur í holla og óholla eða vonda og góða o.s.frv. Vissulega eru framleiddar vörur sem eru misgóðar fyrir okkur. Mér finnst ekkert að því að draga það fram. Við höfum áfram valið og það er ekki eins og við hættum að borða sælgæti eða hættum að borða mjög sykraða vöru. Ég held að það sé ekki endilega það sem gerist, þó að það væri að mörgu leyti æskilegt, heldur verðum við bara meðvitaðri um það hvað við borðum.

Eins og hv. þingmaður kom inn á þá á það ekki að vera eingöngu framleiðendanna að ákveða og segja okkur þegar þeir eru að auglýsa vöru sína að hún sé svo holl og góð. Manni dettur alltaf í hug morgunkornið sem er verið að auglýsa í sjónvarpinu fyrir börnin og eitthvað slíkt. Súkkulaðihringirnir eiga að vera svo ægilega skemmtilegir og allt það. Börnin vilja auðvitað fá þetta þegar þau koma út í búð. Þetta er partur af því að segja að varan sé betri en hún er, finnst mér. Þó að þetta sé eitt af því fáa sem er svo sem þokkalega merkt þá er þetta einmitt dæmi um eitthvað sem við gætum lagfært.

Ég held að það sé líka mikilvægt, eins og hér var rakið, fyrir íbúa sem eru af erlendu bergi brotnir, ekkert síður en margan annan. Maður hefur auðvitað reynslu af því þegar maður fer að velta fyrir sér innihaldi vöru, sérstaklega vegna heilsufarsástæðna eða einhvers annars, þá les maður utan á hvern einasta hlut sem maður kaupir og er lengi að því. Það endar einhvern veginn með því að fólk gefst upp. Þetta mundi held ég verða til þess að einfalda slíkt mjög mikið.

Ég trúi ekki öðru en að þetta mál nái í gegn. Það er tímanlega fram komið. Ég held að ef horft er á það í samræmi og það samþætt við þá lífsstílssjúkdóma sem við erum alltaf að fást við og verða bara fleiri og erfiðari og kosta heilbrigðiskerfið meira ár frá ári þá hlýtur þetta að vega upp á móti þeim. Ég tala nú ekki um þar sem þingmenn úr öllum flokkum eru með á þessu máli, þá hlýtur þetta að fá nokkuð skjóta meðferð í kerfinu. Málið er að koma fram í annað sinn þannig að það er búið að fá umsagnir og búið er að lagfæra það aðeins eða koma með ítarlegri dæmi um það sem gagnrýnt var. Ég held því að málsmeðferð hljóti að geta tekið fljótt af. Auðvitað þarf fyrst og fremst að markaðssetja þetta gagnvart framleiðendum þannig að hægt sé að selja þeim þetta, að þetta sé ekki vont heldur sé öllum fyrir bestu að gera þetta. Ég held að framleiðendur vilji það fyrir hönd okkar neytenda. Þeir eru sjálfir neytendur og ættu að geta sannfærst um að þetta sé hluti af því að taka ábyrgð á eigin heilsu með því að merkja vörurnar með raunverulegu innihaldi svo að allir sjái hvað þeir eru að kaupa.



[17:37]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um umferðarljósamerkingar á matvæli. Ég vil byrja á að þakka flutningsmanni, Brynhildi Pétursdóttur, fyrir að flytja málið og ég tek heils hugar undir orð hv. þingmanna sem hafa talað í málinu um að þetta sé jákvætt mál. Þetta er lýðheilsumál, þetta er neytendamál.

Flest þekkjum við það að kaupa inn á hlaupum, ef hægt er að orða það þannig, og hér er verið að bregðast við því þannig að við getum með merkjanlegum og greinanlegum hætti fengið upplýsingar um næringargildi vörunnar sem við veljum úr hillum verslana. Það getur vissulega auðveldað okkur lífið og hjálpað okkur til við að velja sem hollast án þess að við stöldrum við hverja einustu vöru úr því fjölþætta framboði sem við rekumst á í hillum verslana og rýna aftan á pakkningar til að reyna að komast að því hvert næringargildið er. Hér er leið til þess að hjálpa okkur að taka ákvörðun um að velja hollar vörur eða hollari vörur þegar við berum saman vörur sem við kaupum inn dagsdaglega.

Í tillögunni er vísað í rannsóknir, þetta er vönduð tillaga, og bent á að slíkar merkingar sem lagt er til að taka hér upp, litamerkingar, hafi náð árangri, séu skilvirkari upplýsingatæki og hjálpi okkur að fara nærri sannleikanum um næringarinnihald og spari tíma.

Þegar við tölum um lýðheilsu vil ég meina að aukin meðvitund sé um lýðheilsu og mikilvægi lýðheilsu. Hér erum við að hjálpa neytendum fyrst og fremst að taka ábyrgð á eigin heilsu. Til lengri tíma getur þetta hjálpað í baráttunni gegn ýmiss konar lífsstílssjúkdómum sem rekja má til mataræðis eða óhollustu og óhollrar fæðu.

Í skýrslu sem vísað er til í tillögunni munu slíkar merkingar sannarlega auðvelda að velja heilsusamlegri vörur. Þær gera samanburð auðveldari og ekki er vanþörf á í þessum framleiðsluheimi þar sem framboðið af mat og drykkjarvöru er sífellt að aukast. Við leggjum hér til að styðja neytendur í að velja hollar.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á skuggalegar tölur sem getið er um í tillögunni. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa þær upp aftur, þetta eru skuggalegar tölur:

„Tæplega 59% fólks á aldrinum 18–80 ára eru yfir kjörþyngd …“

Ég vil taka undir orð hv. þingkonu Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur um þá aukningu sem kemur fram í tillögunni, hún er skuggaleg, þar sem hlutfallið var 13,1% árið 2002 hjá þeim sem flokkast með offitu en er komið í 21% 2011. Ég held að við eigum að leita allra leiða til að bregðast við því vandamáli.

Ég vona innilega og hef trú á því að tillagan fái jákvæða umfjöllun og komist skjótt til nefndar og málið fái framgang í kjölfarið.



[17:42]
Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sem hér hefur verið. Málið var sent til allsherjar- og menntamálanefndar á síðasta þingi og við óskum eftir að það verði sent þangað aftur. Það er þó alveg spurning hvort það ætti heima hjá velferðarnefnd, þetta er kannski svolítið svoleiðis mál, og svo mætti líka hugsa sér atvinnuveganefnd vegna þess að þetta snýst um merkingar á matvælum og það heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. En ég met það svo að málinu sé vel borgið í allsherjar- og menntamálanefnd, sem á að fjalla um neytendamálin. Ég held því að það sé bara í góðum farvegi.

Ég vonast til að fleiri umsagnir komi en síðast. Mér finnst þetta vera stórt mál og mikilvægt og hefði haldið að allir þeir sem hafa einhvern áhuga á lýðheilsu mundu notfæra sér það að senda inn umsagnir og vona að það verði tilfellið núna. Ég vil ítreka að þetta snýst um rétt neytenda til upplýsinga og hann er ótrúlega mikilvægur. Við getum ekki talað um að fólk eigi að taka ábyrgð á eigin heilsu ef upplýsingarnar á matvælum eru þannig að fólk skilur þær ekki. Ef ég á að taka ábyrgð á eigin heilsu verð ég að fá skiljanlegar upplýsingar, um það snýst málið.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.