144. löggjafarþing — 29. fundur
 6. nóvember 2014.
mál stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins.

[10:33]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stjórn Fjármálaeftirlitsins er engin venjuleg stjórn. Hún hefur ekki bara eftirlit heldur tekur hún mikilvægar ákvarðanir gagnvart viðskiptabönkunum. Bankahrunið og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis leggur sérstakar skyldur á herðar fjármálaráðherra við að gæta vel að við skipan á formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins og skyldur á okkur hér á Alþingi um að hafa sterkt eftirlit með Fjármálaeftirlitinu og stjórn þess.

Það er því vægast sagt óheppilegur allur sá fjölmiðlaflutningur og fréttaflutningur af hlutum sem tengjast stjórnarformanni þeim sem fjármálaráðherra skipaði í forustu fyrir Fjármálaeftirlitið. Þar er fjallað um viðskiptasnúninga sem skila hátt í milljarðs hagnaði, tölur sem maður út af fyrir sig ekki skilur, ýmis vafi settur fram um upplýsingagjöf þess sem hér á í hlut, fréttir um vanhöld á því að skila ársreikningum sem skylt er að lögum, en alvarlegast af öllu er — því að á hið fyrrnefnda getur maður illa lagt mat — að fram hafi komið kæra til Fjármálaeftirlitsins um hlutaðeigandi einstakling áður en fjármálaráðherra skipaði hann í stjórn Fjármálaeftirlitsins og að sú kæra hafi síðan verið látin niður falla.

Það er því nauðsynlegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort honum hafi verið kunnugt um það að sá sem hann skipaði til þessa verks hafi áður sætt kæru til Fjármálaeftirlitsins, hvort fjármálaráðherra hafi kynnt sér efni hennar og ástæður þess að kæran var dregin til baka eða látin niður falla og hvort heldur var, einnig hvort honum hafi verið kunnugt um fjárhagslega hagsmuni og viðskiptatengsl þess sem hann skipaði með þessum hætti. Ef ekki, hvort hann hafi eftir að þessi umfjöllun hófst fengið þær upplýsingar hjá stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins og gengið úr skugga um það að sá sem þessu embætti gegnir fari í einu og öllu að lögum og reglum og að hæfi hans til að gegna starfinu sé yfir vafa hafið.



[10:35]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi ber fram fyrirspurn og þyrlar um leið upp talsverðu ryki og reyk. Það verður að segjast eins og er að ekki er gott að ræða svona mál málefnalega og yfirvegað þegar andrúmsloftið er mettað reyk og ryki.

Komið hafa fram ýmiss konar fullyrðingar í fjölmiðlum og það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er afar óheppilegt að slíkt sé til umfjöllunar þegar í hlut á stjórnarmaður eða stjórnarformaður í Fjármálaeftirlitinu. Þess vegna var það mikilvægt að stjórnarformaðurinn skyldi gefa út yfirlýsingu, tjá afstöðu sína til þeirra fullyrðinga sem hafa verið í umræðunni og taka af skarið með það að þetta ætti ekki við rök að styðjast.

Spurt er hvort mér hafi verið kunnugt um að viðkomandi hafi á einhverjum tímapunkti verið kærður. Mér var kunnugt um það. Það frétti ég eftir að ég tók ákvörðun um að skipa viðkomandi í stjórnina en mér var um leið kynnt að löngu áður hefði málið verið látið niður falla. Það þýðir að ekki þóttu efni til að bregðast við kærunni.

Nú skulum við velta því fyrir okkur hvernig eigi að fara með þá einstaklinga í samfélaginu sem eru bornir sökum en ekki reynist vera ástæða til að gera neitt frekar í málinu, fella úrskurði, ákæru eða dóma í tilefni af slíkum kærum, þegar slíku er ekki til að dreifa hvort viðkomandi eigi þá að láta skuggann af kærunni fylgja sér inn í framtíðina og jafnvel um alla framtíð.

Mín skoðun er sú að þegar mál eru látin niður falla sé þeim lokið. Þess vegna hafði það ekki áhrif til endurskoðunar á þeirri ákvörðun minni að óska eftir því að viðkomandi mundi gegna formennsku í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Það hefur síðan aldrei komið upp ein einasta kvörtun vegna starfa viðkomandi þann tíma sem hún hefur verið í stjórninni en hún hefur nú tjáð mér að hún sækist ekki eftir endurskipun í stjórnina.



[10:37]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er ekki þyrlað upp reyk og ryki heldur þvert á móti hæstv. fjármálaráðherra gefið tækifæri til þess að hreinsa andrúmsloftið á þinginu gagnvart þeirri fjölmiðlaumfjöllun sem verið hefur. Það er gott að heyra að hæstv. fjármálaráðherra var kunnugt um þessa kæru en óheppilegt að honum hafi ekki verið kunnugt um og hann upplýstur um það áður en hann skipaði viðkomandi til starfa. Ég treysti því að gengið hafi verið úr skugga um það að ekki hafi verið efnisrök í kærunni.

Ég hlýt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji, í ljósi þess sem á eftir hefur farið, að það hafi verið mistök að skipa formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins með þeim hætti sem gert var og hvort það sé fullnægjandi að sá sem gegnir því sitji út árið. Og ég spyr jafnframt hvort fjármálaráðherrann hafi kynnt sér það sem fram hefur komið um skil á ársreikningum og hvort ekki sé nauðsynlegt að fá það mál líka á hreint og út úr opinberri umræðu. Því að við erum greinilega (Forseti hringir.) sammála um það að afar óheppilegt er að þessi umfjöllun sé með þeim hætti (Forseti hringir.) sem verið hefur.



[10:39]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að þegar ég leitaði að einstaklingi til að gegna formennsku í stjórn Fjármálaeftirlitsins vildi ég gjarnan finna til þess konu. Ég leitaðist jafnframt eftir því að finna einhvern sem hefði reynslu úr fjármálaheiminum til að víst væri að í stjórn Fjármálaeftirlitsins væri til staðar skilningur á þeim viðfangsefnum sem menn væru að fást við í fjármálaheiminum og það væri með tilliti til annarra þeirra sem þar sitja samansafn af góðri þekkingu á málefnum fjármálamarkaðarins.

Það hefur ekkert komið fram í opinberri umfjöllun um það að viðkomandi hafi gerst brotlegur. Það hefur ekkert komið fram um það að trúnaður hafi verið rofinn eða lög sveigð eða brotin. Hins vegar, ef eitthvað slíkt kæmi upp mundi ég bregðast við því með því að hreinsa borðið og óska eftir því að viðkomandi mundi víkja. Það er ekkert persónulegt í þessu máli. Það er ekkert annað en fagleg rök sem búa hér að baki. Ég mundi ekki bíða með það í einn dag að gera slíka breytingu (Forseti hringir.) ef þörf krefði. En það er bara einfaldlega ekkert slíkt fram komið.