144. löggjafarþing — 29. fundur
 6. nóvember 2014.
fjármagn til verkefna sem ákveðin eru með þingsályktunum.

[10:51]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þann 16. júní 2010 var samþykkt þingsályktunartillaga á hinu háa Alþingi og féllu atkvæði þannig að 50 sögðu já og 0 sögðu nei, einn greiddi ekki atkvæði. Þessi þingsályktunartillaga varðaði það að gera Ísland leiðandi og til fyrirmyndar í tjáningarfrelsismálum.

Þann 12. maí 2014 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.

Það sem þessar tvær tillögur eiga sameiginlegt er að þær eru nefndar í bréfi sem kom frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til hv. allsherjar- og menntamálanefndar þar sem tilgreint var að ástæðan fyrir því að þessi verkefni hefðu ekki komist lengra en óskað var eftir væri sú að það vantaði fjármagn. Fyrst um sinn taldi ég að þetta væri vandamál þingsins en síðan er mér tjáð að þetta sé ekki venjan, að hæstv. ráðuneyti láti ákvarðanir bíða sem hafa verið teknar af Alþingi vegna fjárskorts. Ég velti því fyrir mér hver sýn hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er þegar kemur að því að framfylgja þeim vilja sem hið háa Alþingi hefur gert skýran.



[10:53]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ef hér er verið að spyrja almennt í tilefni af þessum ákveðnu málum er það almennt svo að mikilvægt er þegar þingið felur framkvæmdarvaldinu einhver tiltekin verkefni að gætt sé þá að því, t.d. í fjárlögum eða annars staðar þar sem þörf krefur, að framkvæmdarvaldið hafi tæki og tól til að fylgja slíkum ákvörðunum eftir. Eins og við vitum hafa þingsályktunartillögur þýðingu en þær hafa aðra þýðingu en lög.

Ég mundi þess vegna almennt vilja segja að það er minn skilningur og reyndar mín upplifun af framkvæmdarvaldi í ráðuneytunum, að því er almennt fylgt eftir sem hér er samþykkt á Alþingi. En þess eru auðvitað dæmi að bæði þingsályktanir feli fyrst og fremst í sér einhverja pólitíska yfirlýsingu eða að farið sé fram á að einhver verk séu unnin án þess að því sé fylgt eftir með fjárveitingum á fjárlögum eða í þriðja lagi að verkefnin sem um er rætt séu kannski meira en pólitísk yfirlýsing en hægt sé að útfæra þann vilja með margvíslegum hætti. Í þeim tilteknu málum sem hv. þingmaður vekur hér athygli á verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki nákvæmlega hver staðan er.



[10:54]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherranum svarið. Ég tel það lykilatriði að ákvarðanir Alþingis standi og að farið sé eftir þeim. Það er framkvæmdarvaldið sem á að framfylgja vilja Alþingis. Við erum oft spurð sem þingmenn hvers vegna ekki séu meiri peningar í þessu og meiri peningar í hinu og við verðum að geta tekið þær ákvarðanir. Þess vegna er fjárlagavinnan þegar allt kemur til alls, að minnsta kosti formlega, í höndum þingsins.

Það þarf að tryggja fjármagn til handa verkefnum á borð við þessi vegna þess að þau kosta peninga. Það kostar peninga að halda íslenska tungu á 21. öldinni, það kostar peninga að halda starfshópa sem eiga að tryggja viðunandi, og reyndar til fyrirmyndar, tjáningarfrelsi á Íslandi. Því spyr ég hæstv. ráðherra í ljósi svara hans hvort búast megi við stuðningi hæstv. ráðherra þegar kemur að því að veita fé í þessa tilteknu málaflokka þegar 2. umr. um fjárlög hefst.



[10:55]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég verð bara að meta það þegar að því kemur, ef tillaga kemur fram um slíkt, hvernig mér finnst rétt að taka á því. Mér finnst hv. þingmaður og hans flokkur hafa lagt margt ágætt til í umræðu um þessa málaflokka, tjáningarfrelsið, stafræna stjórnsýslu og samskipti. Ég held að við séum reyndar ekki sammála um allt sem viðkemur tjáningarfrelsinu og hversu langt eigi að ganga til að verja það, en við skulum bara sjá þegar fram koma mótaðar tillögur um fjárframlög í einhver tiltekin verkefni.

Ég verð að bíða eftir að sjá tillögurnar fyrst.