144. löggjafarþing — 29. fundur
 6. nóvember 2014.
sérstök umræða.

verkfall lækna.

[11:04]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Verkfallsaðgerðir lækna hafa nú staðið í hálfa aðra viku. Ástandið á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum er víða orðið alvarlegt enda víða biðlistar og þegar eitthvað raskast fer af stað keðjuverkun. Í Læknafélagi Íslands eru um 1 þúsund félagsmenn en verkfallsaðgerðirnar taka til 800 lækna þannig að þegar þeir leggja niður vinnu þá gerist eitthvað.

Ástæða er til að taka það fram að verkfallsaðgerðir lækna eru skipulagðar af mjög mikilli ábyrgð og þunginn í aðgerðunum gæti verið miklu meiri ef svo væri ekki. Íslenskir læknar eru með þessu fyrsta verkfalli sínu að minna okkur á hvers virði störf þeirra eru og hve langþreytt stéttin sé orðin. Hvers vegna? Að sjálfsögðu vegna langvarandi niðurskurðar. Það deilir enginn um að niðurskurðurinn hefur verið mikill og hann hefur staðið lengi. Raunveruleikanum er auðveldlega hægt að fletta upp. Það má sjá t.d. í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans 30. október þar sem segir að athyglisvert sé að á sama tíma og rekstur ríkissjóðs fari batnandi þróist rekstur LSH, Landspítalans, til hins verra. Í þessari Hagsjá er sjónum einkum beint að Landspítalanum. Við erum minnt á það að hvort sem litið er til hlutdeildar í ríkisútgjöldum eða til framlags hvers Íslendings í krónum talið til Landspítalans þá fari hlutur spítalans versnandi. Þannig hafi það verið svo á árinu 2013 að hver Íslendingur hafi greitt um 127 þús. kr. til Landspítalans, en á sama verðlagi hafi þessi upphæð verið 160 þús. árið 2008. Og vel að merkja, á árunum í aðdraganda hrunsins hafði átt sér stað talsverður niðurskurður til þessara stofnana.

Hvernig birtist þetta og hvaða afleiðingar hefur þetta? Í fyrsta lagi hefur það gerst og nú er ég að horfa til langs tíma að hlutdeild sjúklinga í rekstri heilbrigðiskerfisins hefur aukist. Hún er núna orðin um 20%, fimmtungur af kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins kemur upp úr vösum sjúklinga. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað í um tvo áratugi og er alvarleg. Öryrkjabandalagið og samtök láglaunafólks á Íslandi hafa varað við því að þessi þróun valdi því þegar að tekjulítið fólk veigri sér við að leita sér lækninga. Þetta er eitt sem gerst hefur.

Hitt er aukið álag á starfsfólkið. Þegar verst lét eftir hrun fækkaði stöðugildum á Landspítalanum á milli 400 og 500. Núna stendur þessi tala í 200 í mínus. Við heyrum að forstjóri Landspítalans sé vegna fjárhagsþrenginga að boða uppsagnir starfsfólks. Það þýðir aukið álag á starfsfólkið og þar á meðal læknana. Allt þetta veldur því að starfsfólkið fer að horfa til fengsælli miða. Hvar er þau að finna? Meðal annars í útlöndum. Læknar koma ekki heim eða leita utan og ef við réttum ekki þeirra kjör þá mun sú þróun halda áfram og brjóta niður íslenska heilbrigðiskerfið. Það mun gerast.

En menn geta leitað annað. Menn geta leitað líka í einkarekstur og þá horfum við til annars sem er að gerast. Um síðustu áramót var samið við sjálfstætt starfandi lækna og kjör þeirra hækkuð um 20%. Þar með er verið að setja þann hvata inn í kerfið að fólk úr almennu stofnununum leiti í einkarekstur, leiti hófanna þar. Og ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta sé gert með ráðnum hug.

En niðurstaða er þessi: Ef við réttum ekki af hallann að einhverju leyti gagnvart útlöndum en ekki síst gagnvart einkarekstrinum fáum við hér einkarekið kerfi. Fjárfestar eru þegar byrjaðir að kynna hugmyndir um nýjan spítala. Mega þeir reisa einkasjúkrahús? Guðvelkomið, ef þeir ætla að borga þetta allt sjálfir en það ætla þeir ekki að gera. Þeir ætla að láta okkur skattborgarana gera það (Forseti hringir.) og þá viljum við kerfi sem er réttlátt og hagkvæmt. Það er ekki einkarekið kerfi.



[11:10]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Þetta er gríðarlega umfangsmikið og mikilvægt mál sem við þurfum að ræða af kostgæfni, vega og meta allar þær stöður sem uppi eru í þeirri deilu sem hv. þingmaður vakti svo rækilega athygli á, að læknastéttin gengur nú í fyrsta sinn til þess að nýta þann neyðarrétt sem hún á skilyrðislaust og telur sig nauðbeygða að beita, verkfallsvopnið. Það er grafalvarleg staða. Ég hef ítrekað í opinberri umræðu áhyggjur mínar af þeirri stöðu af þeirri ástæðu kannski sérstaklega að við fáum þær ábendingar út úr þessari fagstétt að mestu áhyggjur hennar beinist að því að ekki verði nægilega mikil endurnýjun á þekkingu innan hennar. Það er alvarlegur hlutur og ástæðan er meðal annars sú að það unga fólk sem helgar starfsævi sína þessu námi og þessu starfi sækir námið erlendis og hefur búið við allt önnur kjör í uppvexti sínum hér innan lands og er allt annarrar hugsunar en þeir sérfræðingar sem eru nú á seinni hluta starfsævi sinnar í núverandi heilbrigðisþjónustu okkar. Það unga fólk sem lærir erlendis býr við allt önnur uppeldisskilyrði en það ágæta og frábæra fólk sem við erum að nota í dag.

Þetta er alvarlegt vegna þess að samkeppnin um þetta vinnuafl er mjög mikil og ekki síst frá okkar næstu nágrönnum sem ég hef áður gert grein fyrir hér í ræðustól. Það er alvarlegt þegar sú staða kemur upp að biðlistar vaxa og lengjast. Það þýðir í rauninni ekkert annað en það að við erum að færa fram fyrir okkur í tíma kostnaðinn af því að veita þeim heilbrigðisþjónustu sem á þurfa að halda. Hann kemur yfir okkur hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við erum sammála um afleiðingarnar af verkfallinu að þessu leytinu til.

Ég vil aðeins nefna það sem hv. þingmaður segir um að kjör sérgreinalækna hafi hækkað um 20% við samninginn um síðustu áramót. Þetta er alrangt og stafar örugglega að hluta til af því að við höfum ekki getað skýrt hvað þar var í gangi. Sérgreinalæknar voru samningslausir frá árinu 2010 til ársloka 2013. Þeir bjuggu þá til komugjald sem þeir veltu yfir á sjúklinga til að halda í við kostnaðarhækkun þess tíma. Við samninginn sem gerður var við sérgreinalækna undir lok ársins 2013 var þetta komugjald og þessi kostnaður sjúklinga felldur niður. Hlutdeild sjúklinga í þessum sérgreinalæknakostnaði lækkaði úr því að vera 42% niður í 30%, þ.e. greiðslur sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu lækkuðu um hátt í milljarð við þennan samning. Við höfum ekki getað komið þessu fram. Mér er fullljóst að aðilar vinnumarkaðarins og sjúklingasamtökin hafa orðið vör við þessa breytingu, en hún er ekki rædd. Kannski stafar það af því að við höfum ekki komið þessum staðreyndum nægilega vel á framfæri en svona eru hlutirnir vaxnir.

Það er rangt að halda því fram að þarna sé um það að ræða að kjör þessara stétta hafi hækkað um 20% við þann samning. Þau gætu hafa hækkað um 3–4%. Og þegar maður horfir yfir sérgreinalæknastabbann verðum við líka að hafa í huga þegar við ræðum þann þátt heilbrigðisþjónustunnar að árlega eru um 450 þús. komur til sérgreinalæknanna á Íslandi þannig að gera má ráð fyrir að af þessum komum til heilbrigðisþjónustunnar þjónusti þessi starfsgrein um 1/3.

Það er rétt sem hér hefur líka komið fram að hættan við þá stöðu sem nú er uppi er sú að sérfræðikunnáttan leiti á fengsælli mið sem bjóðast erlendis. Ég er talsmaður þess, hef alltaf verið og mun verða að við eigum að standa vörð um þessa sérþekkingu en til þess verðum við að leita þeirra leiða sem færar eru til að gera kjör þessara (Forseti hringir.) starfsgreina samkeppnishæfari við erlenda markaði.



[11:15]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hæstv. ráðherra, það þarf svo sannarlega að gera kjör þessarar stéttar samkeppnishæfari. Það á við um mjög margar stéttir á Íslandi. Við erum í þeirri stöðu að við höfum orðið fyrir gríðarlegri lífskjaraskerðingu.

Læknar, sem hafa ásamt öðru heilbrigðisstarfsfólki unnið undir miklu álagi árum saman, ekki síst eftir hrun, eru nú í fyrsta skipti í sögunni komnir í verkfall. Það er vitað mál að fyrir vel flesta lækna er það mjög erfið og þungbær ákvörðun, en segja má að mat stéttarinnar hafi verið það að það þyrfti slíkar aðgerðir til til þess að stjórnvöld vöknuðu og áttuðu sig á alvarleika stöðunnar.

Staða heilbrigðismála í landinu er af þessum ástæðum og ýmsum öðrum í uppnámi. Aðalsjúkrahús landsins er í úreltu húsnæði. Fjármagn skortir í málaflokkinn. Ljóst er að ráðherra verður að gera sér grein fyrir því að hann þarf að segja læknum í verkfalli og okkur í þessum sal sem og landsmönnum öllum hver stefna stjórnvalda er í heilbrigðismálum.

Í fjárlagafrumvarpinu hafa komið fram óljós áform um breytingar á rekstrarformi, óljós svör við því hvort um frekari einkavæðingu verði að ræða. Nú er runnin upp sú stund að ráðherra þarf að standa með stefnu sinni. Hann á að segja okkur hvað hann ætlast fyrir. Ef hann ætlar út í frekari einkavæðingu í trássi við vilja þjóðarinnar á hann að segja okkur það og þá skulum við takast á um þá sýn ráðherrans.



[11:17]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda kærlega fyrir að taka þetta mál upp. Ég byrja kannski á svipuðum nótum og sá hv. þingmaður sem var hér á undan mér og spyr einfaldlega: Hvernig ætlar ríkisstjórnin og hæstv. heilbrigðisráðherra að tryggja góða, örugga heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn? Ég klóra mér í hausnum yfir því á hverjum einasta degi, ég verð að segja eins og er. Það sem til þarf er vel menntað og nægt magn af heilbrigðisstarfsfólki. Það þarf góðan aðbúnað og auðvitað þurfum við að hafa jafnt aðgengi notenda. Við menntum lækna okkar vel. Við útskrifum nægilega marga á hverju ári. En þegar þessir læknar koma út á vinnumarkaðinn sem við sköpum þeim hörfa þeir frá. Þetta er bara staðan og við verðum að horfast í augu við hana og finna út hvað við getum gert.

Okkur vantar lækna á Íslandi. Okkur vantar þá í nær öllum sérgreinum. Okkur vantar röntgenlækna á Landspítalann, krabbameinslækna á Landspítalann. Okkur vantar heimilislækna og það vantar geðlækna á landsbyggðinni. Svona get ég haldið áfram lengi.

Af hverju koma læknar ekki aftur til okkar eftir sérnám eða flytjast út? Það er einfalt svar við því: Það er út af launum og það er út af aðbúnaði.

Á fyrsta ársfjórðungi 2014 taldist Læknafélagi Íslands til að á landinu störfuðu um 1.100 læknar. 60% þeirra lækna eru yfir fimmtugt og liðlega fjórðungur lækna er á sjötugsaldri. Samkvæmt félagaskrá Læknafélagsins hafa 330 læknar með lækningaleyfi flust af landi brott undanfarin fimm ár, en einungis 140 flust aftur til landsins. Árlega flytja því tæplega 40 fleiri læknar frá landinu en til þess — árlega, herra forseti.

Ég held áfram í næstu ræðu minni, en ég spyr eins og ég spurði í byrjun: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessu?



[11:20]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að hefja þessa umræðu.

Sú staðreynd að læknar hafa nú í fyrsta skipti gripið til verkfallsaðgerða til að knýja á um bætt kjör er afleit staða sem enginn vill vera í. En ástandið er ekki nýtilkomið heldur á það sér langan aðdraganda og er afleiðing niðurskurðar undangenginna ára sem m.a. hefur dregið úr eðlilegri endurnýjun í læknastétt. Hæfni íslenskra lækna er mikil og þeir eru eftirsóttir starfskraftar um allan heim. Eins og fram hefur komið er einn stærsti þáttur í alþjóðlegri samkeppnishæfni í starfsumhverfi lækna laun þeirra. Þar höfum við klárlega dregist aftur úr. Fleira kemur til og má þar nefna þætti eins og vinnuálag sem hefur nú í langan tíma verið allt of mikið á þessari stétt sem fleirum. Aðrir þættir eru aðgengi að góðum lyfjum og þátttaka í framþróun læknavísindanna.

Læknar hafa bent á að lyfjaþáttinn má bæta með einföldun á regluverki og vinnulagi við að taka ný lyf í notkun með því að fara í aukið samstarf við erlend lyfjayfirvöld, svo sem í Svíþjóð eða Danmörku, því það er snúið fyrir fámenna þjóð að ákveða hvaða lyf eru notuð og hvaða ekki. Þetta gæti orðið einn liður í eðlilegri framþróun sem nauðsynlegt er að taka þátt í.

Í vor samþykkti Alþingi ályktun um að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi að endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð. Það er einn liður í því að bæta starfsumhverfi. Störf heilbrigðisstétta eru samfélagi okkar afar mikilvæg og við treystum á þær daglega. Því er mikilvægt að ná samningum hið fyrsta og taka þar inn í ýmis sjónarhorn. Við megum ekki við því að missa fleira gott fólk úr landi.



[11:22]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem maður heyrir um einhvers konar krísur í heilbrigðiskerfinu. Því verður ekki neitað og við hljótum öll að vita að vandinn er í grundvallaratriðum lág laun og lélegur aðbúnaður lækna. Það er þess vegna sem þeir koma ekki aftur heim og þeir segja okkur þetta. Þeir senda okkur tölvupóst og segja okkur þetta. Þetta er borðleggjandi.

Ég vil stinga upp á því að þetta verði eitt helsta verkefni ríkisstjórnarinnar. Sömuleiðis langar mig að vekja athygli á því að það er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin taki á þessu vandamáli með trúverðugum hætti. Ef við veltum fyrir okkur til hvers ríkisvaldið sé í grundvallaratriðum þá er það t.d. til þess að tryggja réttindi borgaranna, til að tryggja öryggi, til að tryggja menntun og tryggja heilbrigði. Það tvennt síðarnefnda er ekki sjálfsagt í öllum ríkjum. Það tvennt fyrrnefnda er eitthvað sem öll ríki í það minnsta þykjast standa að. En menntun og heilbrigði eru eitthvað sem Íslendingar hafa ákveðið sem þjóð að ríkið eigi að sinna. Ég þori að fullyrða að þetta sé ein helsta forsenda þess að ríkisvaldið sé til staðar til að byrja með, þ.e. gagnvart íslenskri þjóðarsál. Ég ætla að fullyrða það þar til annað kemur í ljós.

Ástæðan fyrir því að ég segi að mikilvægt sé að ríkið taki á vandanum með trúverðugum og skýrum hætti er vegna þess að þegar þessi þjónusta er ekki nógu góð þá gerist það óhjákvæmilega að fólk fer að leita annað heldur en til ríkisins til þess að eiga við sín heilbrigðisvandamál. Það eitt og sér er vandamál. Ef ríkið ætlar að segja að þessi málaflokkur eigi áfram að vera hjá ríkinu þá verður ríkið að standa sig í þessu máli. Þetta snýst ekki bara um heilbrigði þegnanna í víðum skilningi, þetta snýst líka um hlutverk ríkisins gagnvart málaflokknum. Ef ekki er tekið á þessu með trúverðugum hætti lítur það óhjákvæmilega út sem stefnubreyting, stefnubreyting sem ég tel að þessi ríkisstjórn hafi ekkert lýðræðislegt umboð til.



[11:24]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fleiri þakka ég hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál hér upp í dag. Í því er mikill alvarleiki þegar læknar á þjóðarsjúkrahúsinu okkar ákveða að fara í verkfall. Eins og hér hefur verið rakið hefur það gríðarleg áhrif, ekki bara á lækna sem þar starfa heldur um allt kerfið okkar. Það er mjög sorglegt að til þessa hafi þurft að koma til að vekja ríkisstjórnina upp af þyrnirósarsvefni. Þetta er búið að vofa yfir í töluverðan tíma og því miður hefur ekki verið brugðist nægilega vel við.

Hér hefur verið rætt um launin, aðbúnaðinn og hvað það er sem veldur því að læknar fást ekki til starfa. Það hefur löngum loðað við umræðuna að læknar hafi góðar tekjur, er það með þá eins og marga aðra að grunnlaunin þeirra eru í kringum 340 þúsund, með læknaleyfi eru þeir með 370 þúsund. Eftir 14 ára starf sem sérfræðingar eru þeir með 595 þúsund. Svo þurfa þeir að standa bakvaktir til að heildarlaunin verði hærri. Þetta kemur fram í grein í nýjasta Læknablaðinu.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hægt að gera að umtalsefni þann aðbúnað sem Landspítalinn okkar býr við og við höfum rætt hér ítrekað. Hann stendur frammi fyrir ónothæfum lyftum, mygluðum herbergjum og slakri aðstöðu sjúklinga. Nýverið sagði fjármálaráðherra að hann ætlaði að byggja nýjan Landspítala á kjörtímabilinu eða hefja bygginguna. Það er bara ekki nóg, það þarf að bregðast við þessu núna. Við megum ekki tala um velferðarþjónustuna sem bákn eins og sumir hv. þingmenn hafa gjarnan gert sem um þessi mál hafa rætt.

Því miður er þetta fram undan eins og ég segi. Af því að hér var minnst á einkarekstur er því ekkert að leyna að í umræðunni hefur borið á því að sumir þingmenn og ráðherrar telja hann góða leið, (Forseti hringir.) en ég tek undir með Tómasi Guðbjartssyni sem sagðist (Forseti hringir.) lýsa, ásamt læknum á Landspítalanum almennt, yfir harðri andstöðu við slíkt.



[11:26]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Verkfall lækna er grafalvarlegt mál og um það eru allir sammála. Það er hins vegar hjákátlegt ef við ætlum að gera það að pólitísku deiluefni sem það er ekki.

Aðdragandi þessa verkfalls er langur og það er ljóst að laun lækna á Íslandi sem hafa hlotið alþjóðlega menntun standast ekki samanburð við það sem gerist annars staðar og því þarf að breyta. En ég ítreka, þetta er ekki eitthvað sem ætti að koma okkur á óvart í dag, þetta er löngu vitað.

Í þessari umræðu hefur verið rætt um kerfislega breytingu vegna verkfallsins og gert að því skóna að hún verði sú að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn muni fara út í einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Ég ítreka það sem oft hefur komið fram og stendur í ályktunum Sjálfstæðisflokksins til margra ára: Heilbrigðiskerfið skal fjármagnað af skattfé. Um það hefur enginn deilt og allir flokkar eru sammála.

Það sem greinir okkur kannski frá öðrum er að við teljum að fleiri geti komið að rekstri en ríkið sjálft en það heitir ekki einkavæðing. Og því fyrr sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gerir greinarmun á þessu tvennu, því betra. Kerfislegar afleiðingar þessa verkfalls geta orðið þær að læknar fari úr landi. Stærsta verkefni okkar og það er sameiginlegt verkefni þessarar stofnunar hér, Alþingis, er að setja heilbrigðisáætlun í þá veru að við sem eigum heima í þessu landi getum notið þeirrar þjónustu og bestu þjónustu sem völ er á því (Forseti hringir.) okkar heilbrigðisstarfsfólk er ekki síður menntað en aðrar heilbrigðisstéttir í öðrum löndum. Á því skulum við byggja framtíðina.



[11:29]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu, sem er gríðarlega mikilvæg, og taka undir að við erum í grafalvarlegri stöðu. Ég tek undir að það er verkefni okkar allra að gera kjör lækna samkeppnisfær við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, um leið og við þurfum að bæta tækjakost og starfsaðstöðu með skipulegri áætlun um nýbyggingu á lóð Landspítalans við Hringbraut. En það sem vantar er að fylgja eftir þeim góðu áformum með skipulegum hætti og áætlunum þar sem fólk getur treyst á að í vændum séu einhverjar breytingar. Það hefur okkur ekki tekist.

Við gripum til mikils niðurskurðar. Við tókum að vísu við spítalanum á sínum tíma með 3 milljarða halla. Síðan er gripið til mikils niðurskurðar, en það var viðurkennt af þeim sem hér stendur og fleirum árið 2012 að of langt var þá gengið. Því miður hefur ekki tekist að snúa því við síðan. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag er að sannfæra það frábæra fólk sem hefur hér haldið úti einni bestu heilbrigðisþjónustu sem við sjáum í heiminum um að okkur sé alvara að snúa þessari þróun við svo að það missi ekki móðinn. Það er farið að missa móðinn. Það er líka farið að koma fram hjá sjúklingasamtökum eins og í gær þegar kallað er: Við náum ekki eyrum stjórnvalda, það er ekki brugðist við ástandinu.

Þetta er verkefni okkar hér í dag, allra sem eru í þessum sal sem og ríkisstjórnarinnar. Það er okkar að breyta stöðunni. Á sínum tíma notuðum við 9,5% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál. Við erum dottin niður fyrir 9%. Bara það að fara í gömlu prósentuna gæfi 14 milljarða. Ef við tækjum ákvörðun um að setja þá upphæð inn með skipulegum hætti, fengjum með okkur fagfólkið til að skipuleggja hvernig ætti að búa um það með bættri aðstöðu og bættum launakjörum þá næðum við þessum árangri og hægt yrði að breyta stöðunni. En það þarf að fara að taka ákvarðanir. Það þarf að fara að gefa skýr skilaboð, ekki að málið sé í skoðun, ekki að það sé ekki til fjármagn og að ekki sé vitað hvenær það komi o.s.frv. Þetta er spurning um forgangsröðun. Við þurfum að efla bjartsýnina og tiltrú á íslensk stjórnvöld og Alþingi, sannfæra fólk um að okkur sé alvara með að reka áfram heilbrigðisþjónustu í fremstu röð.



[11:31]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ef allir eru sammála í pólitíkinni, um hvað snýst þá málið? Ég bara spyr í einfeldni minni. Hvað er málið? Af hverju er ekki hægt að gera kjör lækna sambærileg við það sem er annars staðar á Norðurlöndum eða í nágrannalöndum okkar til þess að við missum þá ekki frá okkur og heilbrigðiskerfið fari í leiðinni í vaskinn?

Á hverju strandar? Jú, peningum. Það eru alveg til peningar. Fyrst við erum svona sammála skulum við öll forgangsraða í þetta, ég er til. Hvað þarf til að einhver skriður komist á þetta mál? Þarf að hætta við 700 aðgerðir á Landspítalanum? Fyrirgefðu, herra forseti, þarf einhver hreinlega að deyja?

Samninganefnd ríkisins starfar eftir ramma sem fjármálaráðuneytið, hæstv. fjármálaráðherra og væntanlega aðrir ráðherrar í ríkisstjórn sníða. Þetta mál er því stjórnvalda, þetta er inni á þeirra borði og við erum að biðla til þeirra. Það er gott að heyra að ráðherra vill gera kjörin samkeppnishæfari og ég fagna því að heyra það í þessum ræðustól, en hvernig ætlar hann að gera það? Við skulum öll styðja hann í því. Það er bara ein leið, það þarf að bjóða betri kjör, það liggur í hlutarins eðli.



[11:33]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að hefja máls á þessu. Það er ekki ofsögum sagt að ófremdarástand sé að skapast á sjúkrahúsum landsins og ekki síst á Landspítala vegna verkfalls lækna. Málið er grafalvarlegt og getur kostað samfélagið milljarða þegar upp er staðið ef verkfallið dregst á langinn, að ekki sé minnst á óþægindi sjúklinga.

Í raun er um uppsafnaðan vanda að ræða sem enginn einn ber ábyrgð á, hvorki einn einstaklingur né einn stjórnmálaflokkur umfram annan. Ástandið á húsnæði Landspítalans er ekki að verða svona í dag heldur hefur langvarandi vanhirða greinilega átt sér stað ansi mörg undanfarin ár. Launakjör lækna eru ekki ný í umræðunni eftir niðurskurð undanfarinna ára og þessi tímapunktur verkfallsaðgerða lækna er að mörgu leyti skiljanlegur. Við vitum það sem viljum að vinna snýst ekki bara um laun, hún snýst ekki síður um starfsumhverfi, álag og andrúmsloft á vinnustað.

Við megum ekki missa reynslumikið og vel menntað fólk úr heilbrigðisgeiranum út af sjúkrahúsunum svo ég tali nú ekki um úr landi. Þjóðin gerir þá kröfu að allir setjist niður og klári málið á sanngjarnan hátt fyrir báða aðila svo að heilbrigðiskerfið komist í eðlilegt horf. Á móti trúi ég því að þjóðarsátt skapist um að þó að læknar fái meiri hækkun en aðrir hafa fengið þá verði það ekki fordæmisgefandi fyrir þá hópa sem koma á eftir og vildi ég gjarnan sjá yfirlýsingar frá verkalýðsforingjum um það.

Við alþingismenn tökum höndum saman og flýtum eins og kostur er gjaldeyrisskapandi verkefnum eins og vatnsaflsvirkjunum og komum með tímasetta áætlun um að bæta aðbúnað lækna og hjúkrunarfólks með byggingu nýs Landspítala. En til þess að standa undir áframhaldandi velmegun og háu menntunarstigi og góðri heilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) á Íslandi þurfum við að halda áfram að nýta auðlindir landsins til verðmætasköpunar.



[11:35]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um að gert sé eitthvert pólitískt deiluefni úr þessu máli. Stjórnarliðar hafa ítrekað að heilbrigðiskerfið skuli fjármagnað af skattfé. Það gleður mig. Það gleður mig að þvertekið sé fyrir það að fara eigi í einhverjar einkavæðingarpælingar og ég gleðst yfir því að þetta eigi ekki að vera pólitískt deiluefni. Ég trúi að svo verði ekki því að þegar allt kemur til alls hefur það komið fram í stefnuyfirlýsingu hjá stjórnarflokkunum að heilbrigðiskerfið skuli rekið með skattfé. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að það yrði allt vitlaust á Íslandi ef stefnan yrði einhver önnur. Það ríkir fullkomin sátt um stefnuna hér á landi.

Það sem ég hef áhyggjur af er að viðvarandi krísa í þessum málaflokki, hvort sem það er ætlunin eða ekki, leiði óhjákvæmilega af sér þrýsting í aðra átt. Ef ríkisstjórnin ætlar sér að hafa þennan málaflokk algjörlega í lagi þá liggur ábyrgðin hjá ríkisstjórninni sjálfri. Það á að vera fullyrðing um að ráðherrann ætli að bjóða betri kjör. Eina sönnunin fyrir því að þessi málaflokkur sé tekinn eins alvarlega og á að taka hann er að þessi þróun snúist við.



[11:37]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans. Ég vakti athygli á því í máli mínu hvaða hætta skapaðist ef sá hvati yrði byggður í kerfið að læknar leituðu úr almannaþjónustunni yfir í einkarekinn praxís.

Það er ekki ágreiningur um það á Íslandi, hygg ég, að hér eigi og geti verið sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar kostaðir af ríkinu. Spurningin er um blönduna, um hlutfallið. Sú blanda er að breytast. Það er aukin sókn í einkapraxísinn. Við sjáum fjárfesta íhuga að fjárfesta jafnvel í sjúkrahúsum kostuðum af ríkinu með þeirra ávinningi.

Það er alveg sama hvað hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins kveður fast að orði hér, um þetta hefur verið pólitískur ágreiningur. Ég minnist þess að þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins fagnaði því að losna við Framsókn úr ríkisstjórn 2007 vegna þess að Framsókn var að bila í einkavæðingunni sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi halda með heilbrigðiskerfið inn á. Í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar talaði núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir því að færa verk í auknum mæli út af sjúkrahúsunum í einkarekstur. Ég get vísað í dæmi um þetta ef því er að skipta. Það hefur verið pólitískur ágreiningur um þetta efni. Og það eru alltaf gerendur. Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér. Það eru gerendur. Við höfum mörg komið þar að málum og eigum mörg að axla ábyrgð.

Við tölum um samkeppnishæfni, að við séum samkeppnishæf við aðrar Norðurlandaþjóðir. Við þurfum að horfa líka til manneskjulegs umhverfis. Við viljum ekki að læknar þurfi að leita til Noregs til tekjuöflunar eða fara út á land til að ná í tekjur. Það á að búa kjörin úti á landi þannig að þeir geti verið þar og vilji vera þar. Það er ekkert óeðlilegt við það að læknar sýni launaseðla sína fyrir (Forseti hringir.) dagvinnu, það er fullkomlega eðlilegt.

Ég skora á lækna og ríkisstjórn að ná samningum hið allra fyrsta. Ég hef fært rök fyrir því (Forseti hringir.) hvers vegna ábyrgðin hvílir fremur hjá ríkisstjórninni og okkur sem höldum og höfum haldið um fjárveitingavaldið á Íslandi (Forseti hringir.) til að leysa þessa deilu. Ég held að þjóðin vilji það.



[11:39]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda sérstaklega fyrir þá brýningu sem kom fram síðast í ræðu hans, um áskoranir til samningsaðila að leysa og greiða úr þessari stöðu. Ég er sammála honum um að þjóðin kalli eftir þeirri niðurstöðu. Í orðum hans endurspeglast ágætlega að það þarf tvo til að semja. Við verðum líka að hafa í huga að kröfur sem starfsstéttum þykja á margan hátt eðlilegar og beinast að launagreiðanda, í þessu tilfelli ríkinu, þurfa líka að hafa samhljóm með öðrum stéttum sem gera kröfur á sama launagreiðanda. Það er hluti af þeim vanda sem við er að glíma og veldur því að samningsaðilarnir eru enn að reyna að nálgast einhverja niðurstöðu sem þeir telja að eigi líka samhljóm með öðrum kröfum í þjóðfélaginu. Þetta er hið vandasama einstigi sem ég veit að hv. málshefjandi þekkir vel úr fyrri störfum sínum að er ákveðin list að feta.

Ég vil aðeins benda á varðandi einkareksturinn í þessu sambandi að það stendur engin grundvallarbreyting til í mínum huga í þeim efnum. Ég bendi bara á að í samningsleysinu við sérgreinalæknana um 450 þús. komur hækkaði hlutdeild sjúklinga úr því að vera 30% upp í 42% af kostnaði. Það sagði enginn múkk. Þegar við lækkum hlutdeild þessa sama hóps, þessar 450 þús. komur, úr 42% kostnaðarhlutdeild í 30% þá segir sömuleiðis enginn múkk. Ég bið því alla að vanda umræðuna. Hún snýst um þrjá þætti í megindráttum: fjármögnun heilbrigðiskerfisins, launakjör læknastéttarinnar, betri aðbúnað og tæki.

Þegar spurt er um stefnu er ég og hef verið að vinna í tvö ár eftir fimm ára áætlun um tækjakaup spítalanna, sem (Forseti hringir.) búin var til af þeim sjálfum. Á næsta ári koma 1.450 milljónir inn fyrir tækjakaupum Landspítalans ef Alþingi samþykkir þá tillögu sem fyrir liggur í fjárlagafrumvarpinu. Ég veit að svo verður.